Færslur

Húsatóftir

Skúli Magnússon, sagnfræðingur, skrifaði í Morgunblaðið 2016 um “Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík“:

Skúli Magnússon“Í gosunum miklu á Reykjanesskaga á 13. öld, er eldur kom upp rétt við bæjardyr Grindvíkinga, er ekki ofsögum sagt að byggð væri þá í Grindavík hættast komin frá landnámi og tvísýnt um tíma hvort hún lifði þær hörmungar af. Þá rann m.a. hraun það úr Eldvörpum, sem hleðslurnar eru í sem fundust 1872 og Þorvaldur Thoroddsen greinir frá. Apalhraunið greindist í tvær kvíslar, Eldborgarhraun og Sundvörðuhraun. Sundvarða er hraunsandur austan í Sundvörðuhrauni. Hraunstandur þessi kom upp í gosunum á 13. öld. Hann ber í austasta taglið á Þórðarfelli, er nefnist Höskuldur.
Höskuldur, Sundvarða og tvær vörður aðrar er hlaðnar voru á sjávarbakkanum austan við svokallað Vatnslón í landi Húsatófta, bar saman og voru leiðarmerki á djúpsundinu þegar bátar lögðu inn Staðarsund.

Húsatóftir

Húsatóftir – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana.

Þessi merki sjást á korti af legunni á Staðarvík frá 1751. Tvær síðarnefndu vörðurnar voru hugsanlega hlaðnar upp eftir 1650 vegna kaupskipa sem þá fóru að sigla á Staðarvík frá Danmörku. Enda sést af hafnarkortinu 1751 að þessi neðstu merki vestan við Vatnslón hafa verið endurbætt eftir að siglingar hófust á víkina frá 1650. Gos urðu líka í sjó undan Reykjanesi á 13. öld og 1210 fann Sörli Kollsson sjófarandi Eldey hina nýju. Sóknarlýsing staðarsóknar frá 1840 greinir frá þessum sundmerkjum inn Staðarsund er lagt var á sundið og bátar lentu ýmist í Staðarvör eða Tóftavör.

Húsatóftir

Efri-Sundvarða austan Húsatófta.

Er bátur kom í mynni Staðarsunds og hugðist leggja þar inn áttu Staðarmalir að liggja á stjórnborða og bera í Eldey er var hæsta og ysta kennileiti í sjónlínunni úr bátnum í sundinu til vesturs. Er komið var inn úr sundmynninu var stýrt á Höskuld í norður og Sundvörðu og neðstu vörðurnar tvær í heimalandi Tófta. Bar Sundvörðu merkilega vel við loft utan af sundinu og var bungan í raun annað lykilmerki við leiðina inn Staðarsund ásamt Eldey. Ljóst er að bæði þessi kennileiti, Eldey og bungan Sundvarða, verða til í gosunum á 13. öld, líklega 1210-1230. Eldey var þá greinilega nýtt merki sem tekið var að miða við eftir uppkomu hennar 1210.

Húsatóftir

Neðri-Sundvarða austan Húsatófta

Sama virðist um upptök Sundvörðu sem leiðarmerkis. Merkin á Staðarsundi virðast því varla eldri en frá fyrrihluta 13. aldar eins og þeim er lýst í sóknarlýsingunni frá 1840. Þau voru síðan notuð allt til loka byggðar í Staðarhverfi um 1946 þegar róðrar þaðan lögðust niður.

En hófust róðrar um Staðarsund fyrst með gosunum miklu á 13. öld eða voru þar notuð önnur og eldri leiðarmerki inn sundið fyrir uppkomu Eldeyjar og Sundvörðu? Voru þessi eldri merki lögð niður í kjölfar hamfaranna á 13. öld. Vart verður fullyrt um það nú en heldur þykir manni ólíklegt að ekki hafi verið róið úr sundinu fyrir þann tíma allt frá landnámi í Grindavík. Eiginlegt prestssetur var ekki á Stað í kaþólskum sið frá því um 1000 til 1540 því prestar voru menn búlausir og bjuggu heima á bæjum hjá bændum og höfðu þar uppihald og bjó Staðarprestur líklega á Járngerðarstöðum fremur en á Húsatóftum.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Aðeins kirkjan stóð ein á graftrasvæði sem var kirkjugarður og átti hún allar eignir sjálf. Prestur var þjónn hennar í kaþólskum sið og prestsheimili með vinnufólki og fjölskyldu þekktust ekki á Stað fyrr en eftir siðaskipti 1550. Þá var byggt prestssetur á Stað. Því var færra fólk sem dvaldi þarna við víkina fyrir siðaskipti og minni þörf að róa þaðan eftir að bústaður reis þar fyrir prest. Aðalbýlið við víkina var því að Húsatóftum sem átti líka uppsátur við Staðarvíkina. Viðeyjarklaustur, stofnað 1227, átti Húsatóftir en Skálholtsstóll aðrar jarðir í Grindavík.

Sundvarða

Sundvarða í Sundvörðuhrauni.

Hvort byggð hófst á Húsatóftum er jörðin komst í eigu Viðeyinga einhvern tíma eftir 1227 er óljóst en hins vegar hófust þá um leið stöðugir róðrar úr Tóftavör við Staðarvík enda þurfti klaustrið jafnan á miklum fiski að halda. Stóðu róðrar þaðan samfellt fram á 20. öld. Því er ljóst að aldur sundmerkjanna við Staðarsund ber greinilega saman við eignarhald Viðeyinga á Húsatóftum. Líklegt er að upptaka sundmerkjanna sem áður var lýst virðist fremur tengjast útvegi klaustursins á Húsatóftum en róðrum frá kirkjunni á Stað, enda óljóst hvort eiginleg Staðarvör var þá til orðin.
Heimræði er því eldra úr Tóftavör en Staðarvör. Hugsanlegt er að örnefnið Höskuldur, nafnið á austasta tagli Þórðarfells sé ekki eldra en frá gostíma 13. aldar og sé dregið af nafni einhvers formanns á þessum tíma, t.a.m. frá Húsatóftum sem lagði leið sína um sundið en nafnið hefur orðið hluti af leiðarmerkjum upp frá því.”

Heimild:
-Morgunblaðið 27. feb. 2016, Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík eftir Skúla Magnússon, bls. 30.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Karlsgígurinn

“Í ljósi þeirra gagna sem safnast hafa um Yngra-Stampagosið á Reykjanesi er mögulegt að gera grein fyrir framgangi þess í grófum dráttum: Gossprunga með stefnu suðvestur-norðaustur opnast á Reykjanesi. Upphaf gossins er við suðvesturströnd Reykjaness Karl-221eftir því sem best verður séð, en ekki er útilokað að gosið hafi í sjó fjær ströndinni um svipað leyti. Engin ummerki hafa þó fundist um slíkt. Gosið hefst í sjófylltri sigdæld sem legið hefur frá ströndinni inn til landsins og hleðst þar upp hverfjall, Vatnsfellsgígurinn.
Lokaþáttur gossins einkennist af strombólskri gosvirkni með gjallmyndun. Gjóskan frá gígnum berst nær algerlega til hafs. Skömmu síðar, sennilega nokkrum mánuðum, hefst gos að nýju, um 500 m undan núverandi ströndu, og hleðst þar upp annað hverfjall, Karlsgígurinn. Í lok gossins kemur upp hraun í austanverðum gígrimanum og rennur inn til lands. Gjóskan frá Karlsgígnum (R-7) berst að nokkru leyti inn til landsins, yfir allt Reykjanes, en að mestum hluta til hafs. í framhaldi af gjóskugosunum við ströndina hefst hraungos á landi og rennur hraun frá 4 km langri gígaröð. Mest hraunrennsli hefur verið til beggja enda gígaraðarinnar þar sem stærstu gígarnir eru. Hraunið rennur upp að Karlsgígnum og markar hraunjaðarinn við ströndina nú útlínur hans að hluta. Nokkur landauki hefur orðið af hrauninu en það rann í sjó fram á a.m.k. fjórum stöðum.
Eldey-221Í annálum, við árið 1210/11, er sagt að Sörli Kolsson hafi fundið “Eldeyjar hinar nýju en að hinar hafi horfið er áður stóðu” (stílfærsla höfundar). Alls er óvíst hvort eða hvernig þessi frásögn tengist þeirri Eldey sem við sjáum í dag, en ekkert útilokar þó að hún sé frá þessum tíma.
Í heimildum er hvergi sagt berum orðum að hraun hafí runnið á Reykjanesi en helst er þó ýjað að þvi í frásögnum við árið 1210/11 (Storm 1888). í Oddaverjaannál er sagt: „Elldur wm Reykianes: Saurli fann Elldeyjar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufdu stadit.” Af þessari klausu má skilja að gefið sé í skyn að eldur hafi verið uppi á Reykjanesi og þá væntanlega með hraunrennsli. Í öðrum frásögnum af gosum í sjó á 13. öld er ávallt talað um eldgos eða elda í sjó við eða fyrir Reykjanesi. Það bendir ótvírætt til goss í sjó.
Í Páls sögu biskups segir við árið 1211: „Jörðin skalf öll og pipraði af ótta; himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá er náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómur stóð yfir sýndist náliga allar höfutskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans “fráfalli” (Biskupasögur I 1858). Þegar sagt er að himintunglin sýni á sér dauðatákn er vel hugsanlegt að þar sé vísað til móðu í lofti sem gjarnan er fylgifiskur hraungosa og að sól og tungl hafi af þeim sökum sýnst rauð.
Þó að Yngra-Stampagosið standist ekki samjöfnuð við Skaftárelda er ekki útilokað að nokkurt mistur eða móða hafi verið í lofti við gosstöðvarnar sem orsakað gat rauðan blæ á himintungl (sólu).”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 64. árg. 1994-1995, 3. tbl. bls. 225-227.

Eldey

Eldey.

 

Eldey

Eldey er 77.2 m hár þverhníptur klettadrangur 14.4 km (8 sjómílur) suðvestan við Reykjanes. Eyjan er mynduð úr móbergi og er nú um 0,029 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum sem stendur á einni grynningu og nær 45 sjómílur (um 85 km) frá landi. Kallast hann Fuglasker eða Eldeyjar. Eitt þessara skerja var Geirfuglasker þar sem síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins (sjá meira um geirfuglinn). Það sökk að mestu í eldsumbrotum haustið 1830. Geirfuglasker eru nú blindsker u.þ.b. 5 sjómílum utan Fuglaskerja.
EldeyÍ Eldey hefur verið ein mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlu að sumarlagi. Við talningu, sem gerð var 1949, var fjöldi súlna í og við eyjuna talin um 70 þúsund. Nú er óheimilt að fara í eyna án leyfis [Umhverfisstofnunar] og til verndar fuglalífi eru skotveiði bönnuð nær eynni en 2 km. Eyjan var friðlýst sérstaklega árið 1974.
Ekki er vitað til þess, að Eldey hefði verið klifin, þegar þrír vaskir Vestmannaeyingar klifu hana 30. maí 1894. Þeirra á meðal var Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti), sem hafði áður klifið Háadrang hjá Dyrhólaey er þótti mikið afrek (aðrir nefna fílfdirfsku í því sambandi). Þremenningarnir töldu sig hafa séð festibolta á nokkrum stöðum í berginu í Eldey, sem gaf til kynna, þetta væri ekki í fyrsta skipti, sem menn hefðu farið upp á hana. Enda væri óraunhæft að ætla að svo hefði verið því eyjan hefur um aldir verið talin mikil “matarkista”, auk þess sem ætla megi að hún hefur löngum verið ofurhugum áskorun. Vitað er að árlega var farið í Eldey til fugla eftir 1894 þar til hún var friðuð árið 1940.

Eldey

Talið er, að a.m.k. 10 eldgos hafi orðið á þessu svæði á sögulegum tíma. Gosið 1783 er einna þekktast. Þá myndaðist eyja, sem var kölluð Nýey. Hún var strax eignuð Danakonungi með úrskurði hans hátignar. Þegar hennar var svo vitjað næsta ár, var hún horfin. Einhver eldsumbrot voru á þessum slóðum á árunum 1970-71.
Í munni brezkra sjómanna hét Eldey „Count Rock” og „Flour Sack”. Eldeyjarboði er blindsker u.þ.b. 57 km suðvestan Reykjaness. Stundum eru brotin þar tugir metra á hæð og fiskimið eru góð þar í kring. Líklega er þessi boði leifarnar af Nýey. Brezkir nefndu boðann „Blinders”. Á Eldeyjarbanka voru fyrrum góð fiskimið, m.a. síld og humar.  Aðalsiglingaleið skipa liggur milli meginlandsins og Eldeyjar.
Súlan er sjófugl sem heldur sig úti á rúmsjó nema yfir varptímann í apríl og maí þegar hún sækir í klettaeyjar í Norður-Atlantshafinu til að verpa.
Í síðustu ferðinni í Eldey (20. jan. 2008) kom í ljós stór Eldeyog djúp sprunga  á yfirborði eyjarinnar og gæti stórt stykki brotnað úr henni, t.d. við snarpan jarðskjálfta. Snarpir skjálftar hafa að undanförnu verið á hafsbotni nærri Eldey. Sprungan var meðal þess sem kom í ljós þegar  Tilgangur þessa nýjasta leiðangurs var að setja upp sjónvarpsmyndavél í eyjunni sem mun væntanlega senda út mynd í hágæða upplausn allan sólarhringinn, allan ársins hring.
Eyjarfarar segja gróðurfar í eyjunni ekkert. “Þetta er eingöngu klöpp og skítur, já og það djúpur skítur. Ef ekki hefði verið frost þegar leiðangurinn var farinn í Eldey, þá hefðu leiðangursmenn þurft að vaða skít a.m.k. upp á miðja kálfa og fullyrt er að sumsstaðar á eyjunni háu sé gúanóið undir bælum súlunnar allt að metri á dýpt.” Ef grannt er skoðað má sjá sýnishorn af mörgum þeirra plantna er finna má á meginlandinu, s.s. hvönn, tófugras, melgresi, burnirót, sóleyjar og fífla.
Um tuttugu einstaklingar hafa “opinberlega” komið í Eldey frá því hún var fyrst klifin árið 1896. Síðast var skv. því farið í Eldey 1982, þannig að þessi stærsta súlubyggð í heimi getur ekki sagt að hún hafi orð á sér fyrir að verða fyrir átroðningi ferðamanna.

Heimild m.a.:
-wikipedia.org
-grindavik.is

Eldey

 

Reykjanes

Léo M. Jónsson í Höfnum skrifaði grein í Faxa árið 2008, sem hann nefndi “Ökuferð um Hafnarhrepp“. Í henni fjallar Léo m.a. um staðhætti, örnefni og sagnir á “hinu eiginlega Reykjanesi” og nágrenni:

Leó M. Jónsson

Leó M. Jónsson.

“Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það, eru Rauðhólar og Sýrfellsdrög. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginnerkenndurvið. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.

Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey er sérkennileg 77 m há þverhnípt klettsey sem liggur tæpa 15 km frá landi og er talin m.a. vera mesta súlubyggð Evrópu (alfriðuð). Milli Eldeyjar og Reykjaness er Húllið – fjölfarin siglingaleið. Vegarslóði á hægri hönd liggur niður í Stóru-Sandvík og að gamla Reykjanessveginum þar sem heitir Skjótastaðir en það er hár höfði norðan við víkina og mun þar hafa verið byggð fyrr á öldum. Annar vegarslóði liggur í Stóru-Sandvík niðri í dalverpinu framundan. Frá útskoti (6,7) við enda beygjunnar til austurs sést ofan í Stóru-Sandvík vaxna melgresi. Handan hennar í suðri tekur við talsvert hraun, kolsvart og sviðið með foksand í flákum. Stamparnir þrír, sem blasa við framundan handan víkurinnar, eru sérkennilegir eldgígar og eftir þeim nefnist hraunið Stampahraun og nær fram í sjó. (Hér voru reist háspennumöstur, þrátt fyrir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir jarðstreng frá virkjuninni að Sýrfelli. Sú breyting er vondur vitnisburður um menningarstig Suðurnesjamanna að mati höfundar!).

Eldey

Eldey.

Eldgígarnir tveir sem sjást suðvestar, lengra til hægri og utar á nesinu, nefnast Eldborgir. Eins og við er að búast eru þessir upptyppingar notaðir sem mið til staðsetningar fiskiskipa úti á Eldeyjarbanka.
Sú Eldborganna sem sést af grynnra vatni nefnist Eldborg grynnri og stendur sunnar og nær sjó. Eldborg dýpri nefnist sú sem sést af dýpra vatni. Er hún stærri og stendur vestar. Þar heitir Eldborgahraun. Fjær til norðausturs eru mikil ummerki eldsumbrota. Eru það nefnd Eldvörp. Hafnamenn nefna það einnig í daglegu tali hörzl, þ.e. ójöfnur. Stamparnir, Eldborgirnar og aðrar eldstöðvar, eru eins og misstórir hnútar á svörtu bandi í landslaginu og setja ógnþrunginn svip á umhverfið, jafnvel svo að sumt fólk verður hrætt og þorir ekki að dvelja lengi á svæðinu af ótta við eldgos – enda er hér eldur undir, sem sést m.a. á hverasvæðinu, gufuaflsvirkjuninni og blásandi borholum austan Reykjanesvita.

Mönguselsgjá

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík og gjárnar ofanverðar.

Þar sem vegurinn sveigir aftur til suðurs gengur stór gjá upp frá sjó og inn í landið. Hún nefnist Mönguselsgjá og liggur nyrst upp úr Stóru-Sandvík. Gjáin er ein af mörgum sem mynda sprungubelti. Jarðskorpan gliðnar hér á miklum hrygg og jarðeldasvæði sem liggur í miðju Atlantshafi frá suðri til norðurs. Landsig sést greinilega þegar horft er um öxl til Mönguselsgjár eftir að komið er upp á Stampahraun. Yfir Mönguselsgjá (ekki Tjaldstaðagjá sem er stærri og sunnar) hafa lafafrakkamenn, úr Keflavík, byggt brú til að drýgja tekjur sínar af erlendum ferðamönnum með því að telja þeim trú um að þarna séu meginlandaflekar Ameríku og Evrópu að reka hvor frá öðrum. Greinarhöfundur er einn þeirra Hafnabúa sem hafa skömm á tiltækinu og líta á þetta sem pretti – í skásta falli fiflagang og Suðurnesjamönnum til vansæmdar enda hafa jarðvísindamenn bent á og staðfest að landrekið kemur ekki fram á þessum stað heldur miklu austar (nánar tiltekið austur í Hreppum).

Tjörn gerð af mannavöldum

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík – Tjörnin manngerða.

Nú komum við að syðri troðningnum sem liggur niður í Stóru-Sandvík. Hér var melgresi sáð um 1950 til að hefta sandfok. Eins og sjá má hefur það tekist vel. Tjörnin sem prýðir svæðið og laðar að sjó og vaðfugla í stórum flokkum, myndaðist ekki fyrr en melgresið hafði stöðvað fokið. Hún er því gerð af mannavöldum! Afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara blasa við í Stampahrauni í suðvestri og Eldvörpum í austri. Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið Iangt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum. Til að girða fyrir misskilning skal aftur ítrekað að Reykjanesskagi og Reykjanes er tvennt ólíkt þótt skaginn dragi nafn af þessu litla nesi yst á honum.

Heimildir um landskjálfta

Stampar

Stampar.

Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjanesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. í annál er greint frá eldi í „Grindavíkurfjöllum” árið 1661 oghafi séstoft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi. Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker. Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um fyrir Reykjanesi eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey. (Athygli er vakin á því að í ljósi niðurstaðna jarðfræðirannsóknir á svæðinu, m.a. á vegum HÍ, hafa tímasetningar eldsumbrota verið endurskoðaðar 2005).

Forsetahóll

Reykjanes

Reykjanes. Forsetahóllinn efst til vinstri.

Á mótum vegar að Reykjanessvita eru um 11 km frá syðri hraðahindruninni í Kirkjuvogshverfi. Vegurinn liggur fyrst í vestur að Sjóefnaverksmiðjunni, síðan í norðvestur fram hjá gúanóverksmiðju en skammt þaðan er vinkilbeygja til vinstri á veginum að vitanum og út að Valahnjúki. Þessar verksmiðjur eru hér vegna jarðhita sem fæst úr borholum en þær eru með öflugustu borholum landsins um og yfir 10 megavött hver. Spölkorn frá kröppu beygjunni er grasi vaxinn hóll eða fell á vinstri hönd sem nefnist Litlafell og einnig Forsetahóll (en þennan hól gáfu bræðurnir Ketill og Oddur Ólafssynir frá Kalmanstjörn forsetaembættinu í tíð Sveins Björnssonar, að hans raði (en ekki Hafnamenn sem þakklæti fyrir veg út á Reykjanes eins og ég hafði áður haldið fram og haft ákveðna heimildarmenn að) – til að forsetinn gæti aðstoðað þá við að fá ruddan slóða út á Reykjanes – sjá bréf Marons heitins Vilhjálmssonar frá Merkinesi sem birt er hér aftan við greinina). Suðaustan við Litlafell, í hvarfi frá veginum, er mjög fallegt stórt blátt lón. Sé gengið upp á Litlafell blasir lónið við og hverasvæði upp af því, að sunnanverðu.

Reykjanes

Reykjanes – Forsetahóll.

Ekið er um hlað vitavarðarhússins (þar er snyrtiaðstaða fyrir ferðafólk) og áfram út að Valahnjúki. Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld. (Greinarhöfundur hefur skrifað sögu Björgunarsveitarinnar Eldeyjar í Höfnum. Þar er m.a. fjallað nokkuð ítarlega um stærri sjóslys á þessu svæði. Greinin er einnig birt á vefsíðu höfundar www.leoemm.com). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið varð vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Um borð voru 50 skipverjar. Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka. Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.

Niðurlag

Reykjanes

Brú milli heimsálfa yfir Mönguselsgjá.

Mörkin á milli gamla Hafnahrepps (nú Reykjanessbæjar) og Grindavíkur liggja á Reykjanesi í línu frá tindi Sýrfells í þúfu í Valbjargargjá strax sunnan Valahnjúks og þaðan í kamb Valahnjúksmalar. (Eftir þinglýstu skjali nr. 240479 dags. 16/1/79). Ástæða er til að geta þess að í þessari grein er stuðst við upplýsingar staðfróðra heimamanna í Höfnum um örnefni. Mest munar þar um örnefnasafn og lýsingu Hinriks í Merkinesi á staðháttum í gamla Hafnahreppi sem hann vann fyrir Örnefnastofnun 1978. Á nokkrum stöðum eru önnur heiti notuð á sumura kortum Landmælinga ríkisins en í þessari grein. Þau eru eftirfarandi: Á korti stendur Valahnjúkar. Í Höfnum er aðeins talað um einn Valahnjúk. Á korti eru 5 Stampar sagðir í Stampahrauni. Í Höfnum eru 3 gígar næst vegi nr. 425 nefndir Stampar. Þeir tveir sem eru sunnar á nesinu nefnast Eldborg grynnri og Eldborg dýpri og þar er Eldborgahraun. Á korti stendur Eldvarpahraun. Í Höfnum er talað um Eldvörp á þeim stað. Norðarlega upp af Hafnabergi er hóll sem nefndur er Berghóll á korti. Í Höfnum heitir þessi hóll Bjarghóll (hann er við Sigið (á Siginu) þar sem sigið var í bjargið). Á korti er hluti strandarinnar undir Valahnjúki nefnd Miðgarðamöl. Í Höfnum heitir þessi staður Valahnjúksmöl (eins og er á a.m.k. einu kortanna í mkv. 1:100.000). Gjáin sem gengur upp úr Stóru Sandvík (sú sem hefur verið brúuð við hlið vegarins!) nefnist Mönguselsgjá eftir Möngu frá Kalmanstjörn sem var selsstúlka fyrrum en ummerki selsins er að finna austarlega í gjánni. Þessi gjá hefur ranglega verið nefnd Tjaldstæðagjá í fréttatilkynningum frá Ferðamálaskrifstofu Reykjanesbæjar. Sú gjá nefnist réttu nafni Tjaldstaðagjá. Hún er breiðari en Mönguselsgjá og liggur spölkorn sunnar.”

Með greininni fylgir bréf frá Ron (maron) frá Cooktown í Ástralíu:

Bréf frá Astralíu: Cooktown 15.3.04
Blessaður Leó!

Reykjanes

Reykjanes – Forsetahóll.

Þú ert kannski hálfundrandi á að fá bréf á íslensku frá Ástralíu. Í eina tíð hét ég Maron í Merkinesi, fæddur þar og uppalinn.
Ástæðan fyrir þessu bréfkorni er Leiðarlýsing þín um Hafnir. Ég er þér sammála um flest eins og t.d. „skrímslið” en hugmynd þín um Forsetahólinn er alröng. Mundu að ég þekkti Kedda Ólafs (Ketil Ólafsson frá Kalmanstjörn) frá barnæsku. Sagan er sú – beint frá Kedda – að hann var búinn að klára allan sandinn í Hundadalnum og vantaði leið suður eftir. Hann (Keddi) og Oddur voru búnir að ræða við Vegamálastjóra, ýmsa ráðherra og embættismenn um akfæra braut svo hægt væri að koma liði og tækjum nálægt strandstað en ekkert gekk; þeir vísuðu hver á annan, eins og embættismanna er vandi, þangað til hraut út úr Kedda:

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll. Steyptir hliðarstólpar fremst.

„Andskotinn, – við verðum víst að tala við forsetann sjálfan”! Oddur þagði smástund og svaraði svo: „Já, við erum búnir að tala við alla aðra.” Þeir tóku strikið út á Álftanes og knúðu dyra á Bessastöðum. Sveinn Björnsson tók vingjarnlega á móti þeim og hlustaði á mál þeirra. (Oddur var talsmaðurinn). Forsetinn íhugaði málið um stund en sagði svo: „Já, þetta er greinilega ábyrgðarmál en sjálfur get ég ekkert gert, ég er bara forseti. Skiljið þetta eftir hjá mér og ég skal athuga hvort ég eigi ekki hönk upp í bakið á einhverjum þessarra svokölluðu ráðamanna.”

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Stuttur tími leið þangað til forsetinn hringdi í Odd á Reykjalundi og sagði honum „það er engin leið að fá neitt af viti frá þessum pólitískusum, einfaldasta bakferlið er að þið gefið forsetaembættinu sumarbústaðarland á Reykjanesi.” Bræðurair voru til í það og gáfu hólinn, sem nú er kallaður „Forsetahóll”. Það var góður slóði frá Kistu til vitans en hin hraunin þurfti að ryðja. Eftir að embættið hafði þegið gjöfina gat Sveinn forseti farið fram á að slóðinn yrði ruddur. Vegurinn kom nokkrum árum seinna og vann ég við hann, þrettán ára að aldri, en það er allt önnur saga.
Sem sagt, forseti fékk hólinn í gegn um „bakdyramakk” en fékk hann ekki í þakklætisskyni.
Kveðjur,
Ron:

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnarhrepp – Leó M. Jónsson, bls. 9-11.

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík. Mynd EG.