Færslur

Elliðavatn

Á upplýsingaskilti við Elliðavatn má lesa eftirfarandi um “Elliðavatn – Þingnes og Vatnsenda”:

Elliðavatn
Elliðavatn
Elliðavatn var upphaflega tvö vötn; Vatnsendavatn (í Kópavogi) og Vatnsvatn (í Reykjavík) og tengdust með mjóum ál framan við Þingnes. Á árunum 1924-1928 var miðlunarstífla reist við Elliðavatnsengi og við það nær tvöfaldaðist flatarmál vatnsins (40%). Alls er Elliðavatn nú um 2 km2 að stærð, meðaldýpi þess aðeins um 1 metri og mesta dýpi um 2.3. metrar.
Elliðavatn er í flokki lindarvatna og er vatnasvið þess um 270 km2. Mikill hluti vatns sem streymir inn í það kemur neðanjarðar frá í gegnum lekar hraunmyndanir. Tvær ár renna í Elliðavatn; bugða (Hólsmá) og Suðurá. Ein á rennur úr Elliðavatni og heitir hún Dimma en neðar taka Elliðaár við. Hluti Kópavogs í Elliðavatni og Dimma njóta bæjarverndar (hverfisverndar) Kópavogs og vatnið ásamt vatnasviði Elliðaánna eru auk þess á náttúrminjaskrá.

Þingnes

Þingnes

Þingnes 1873.

Þingnes er með merkari stöðum við Elliðavatn og tilheyrir bæði Kópavogi og Reykjavík. Þar er talið að sé elsti þingstaður Íslands eða hið forna Kjalarnesþing sem haldið var áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum um 930. Árið 1938 var Þingnes friðlýst samkvæmt þjóðminjalögum.

Vatnsendi

Vatnsendi

Vatnsendi.

Vatnsendi var eitt af fjórum lögbýlum sem í dag mynda svokallað heimaland Kópavogs ásamt Hvammkoti (Fífuhvammi), Kópavogi og Digranesi. Vatnsendi er eina býlið af þeim sem enn er í ábúð. Til eru ritaðar heimildir um Vatnsenda allt aftur til ársins 1234. Jörðin á Vatnsenda hefur tekið miklum breytingum á 20. öld Við stíflun Elliðaánna missti Vatnsendi mikið land undir vatn og árið 1947 tók Reykjavíkurborg um helming landsins eignarnámi undir friðland fyrir íbúa Reykjavíkur, það land er nú hluti Heiðmerkur. Á sama tíma fóru ábúendur bæjarins að nytja óræktarland undir sumarbústaðaspildur sem eru undanfari þéttbýlismyndunar við vatnið.

Elliðavatn

Elliðavatn – kort.

Beitarhús

Hér á eftir verður m.a. fjallað um beitarhús sem og slík hús frá Elliðavatni, Vatnsenda, Fífuhvammi, Vífilsstöðum, Urriðakoti, Setbergi, Hvaleyri, Jófríðarstöðum og Krýsuvík.

Beitarhús

Beitarhús.

Beitarhús hafa jafnan verið skilgreind sem “fjárhús (langt frá bæjarhúsum þar sem vetrarbeit er fyrir sauðféð).” Húsin voru ákveðin gerð af fjárhúsum sem notuð voru á Íslandi fyrr á öldum. Þau voru oft langt frá bæjum og var ástæðan sú að ærnar eða sauðirnir sem þar voru hýstir voru settar út um veturinn og látnar bíta á meðan smalinn stóð yfir. Ef mikill snjór var mokaði hann ofan vellinum af fyrir sauðunum með varreku. Hugmyndin með staðsetningunni, oft við ystu mörk bæja, var að dreifa beitarálaginu og eyja jafnframt möguleika að beita inn á land nágrannans. Beitarhús stóðu einnig víða við fjöruna til að ærnar kæmust í fjörubeit og rústir af slíkum húsum er mjög víða að finna.

Skammidalur

Skammidalur – beitarhús.

Eftir að seljabúskapur og stekkjartíð lagðist af í lok 19 aldar voru selstöðurnar eða nálægð þeirra gjarnan nýttar fyrir beitarhús. Áður höfðu hús ekki verið byggð sérstaklega fyrir sauðfé, a.m.k. ekki á Suðvesturlandi. Í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns ofan Hafnarfjarðar eru t.d. beitarhús frá Jófríðarstöðum. Þar var áður selstaða frá sama bæ. Tóftir hússins er allgreinilegar. Þeim hefur verið hlíft að mestu við skógræktinni umleikis. Leifar selsins eru norðvestan við beitarhússtóftina. Þær eru mun eldri og því ógreinilegri.

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

Í Gráhelluhrauni má sjá dæmigert útihús fyrri tíma; hlaðið hús með gerði til beggja hliða. Mannvirkið er byggt utan í náttúrulegan hraunstand; Gráhellu. Útihúsið var frá Setbergi. “Syðra sauðahúsið” var útihús frá Urriðakoti skammt vestan Selgjár, byggt utan í háan hraunstand, líkt og við Gráhellu. “Nyðra sauðahúsið” var grjóthlaðið útihús, einnig frá Urriðakoti í Urriðakotshrauni.

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – beitarhús frá Elliðavatni.

Elliðavatnsfjárhúsin voru á Beitarhúsahæð skammt ofan við Þingnes. Vatnsendi hafði beitarhús á Vatnsendaheiði og síðar í gróinni dallægð undir Vatnsendahlíð. Fífuhvammur (Hvammkot) byggði beitarhús í Rjúpnadalshæð, Vífilsstaðir byggðu beitarhús í Finnsstöðum og síðar norðaustan Svínahrauns, Setbergsbóndinn reisti síðar beitahús í Húsatúni á Setbergshlíð, Hvaleyri átti beitarhús suðvestan við Grísanes, Jófríðarstaðir byggðu beitarhús í Beitarhúsahöfða (nú Höfðaskógur) og Krýsuvík átti beitarhús á Krýsuvíkurheiði – svo einhver slíks séu upp talin.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Elstu menn segjast hafa heyrt af því að í Jónsbúð hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum, Árna Gíslasyni.

Eftir því sem best verður séð er lítill munur á beitarhúsum og sauðahúsum. Beitarhúsin voru fjárhús, sem voru yfirleitt í nokkurri fjarlægð frá bænum, stundum alllangt. Orðið sauðhús eða sauðahús var notað í tvenns konar merkingu. Annars vegar almennt um fjárhús fyrir sauðfé en hins vegar um fjárhús sérstaklega ætlað geldfé. Þau voru oftar en ekki nálægt bæjum, líkt og sjá má t.d. við Lónakot.

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús.

Í Búnaðarritinu árið 1916 er m.a. fjallað um beitarhús: “Ekki er langt síðan að beitarhús voru algeng mjög um land ait til ómetanlegs gagns fyrir sauðfjárbændur. Nú eru þau að mestu horfin, og er margt, sem því veldur. Sauðir voru mest hafðir á beitarhúsum, enda bezt að beita þeim. Nú eru þeir að mestu horfnir. Þó svo sé, er ekkert vit í því að hætta að beita gemlingum og ám; það má fara vel með féð fyrir því, og skynsamleg beit er skepnunni miklu hollari en kyrstaða í loftillum fjárhúsum. Þá vantar ieitarhúsamennina. Þeir eru horfnir eins og sauðirnir. Hvert? Líklega á eftir kvenfólkinu i kaupstaðinn, þar sem pilsin þjóta. Þykir þeim annað ómaksminna og notalegra en að standa yfir fé og í snjómokstri.
Þá var víða langt og erfitt að jlytja hey á beitarhúsin. En víða hagar svo til, að vel mætti byggja beitarhús, þar sem auðvelt væri að rubba upp á stuttum tíma talsverðum fóðurforða í mýrum og fjallalöndum og flytja í votheystóft heim á beitarhúsin”.

Grísanes

Grísanes – beitarhús.

Í Höldur árið 1861 eru skrif um “Búnað- og verkaskipun í lands- og sveitarjörðum” eftir Halldór Þorgrímsson: “Þeir húsbændur, sem ekki eru lagaðir
til fjárhirðingar eða ekki geta sinnt þess konar störfum vegna áðurtaldra kringumstæða, ætti að útvega sjer trúan, vanan og glöggan fjármann til vetrarhirðingar. Þar sem svo er hátt að með beit og landslag, að beitarhúsa þarf við, er áríðandi, að fjármaður sje viss og einbeittur að rata í hríðum og dimmu veðri, og að hann hafi heilsu og þrek til að standa úti yfir fje, hvernig sem viðrar. Er tilvinnandi að hlynna aö slíkum mönuum fram yfir hin hjúin með kinda fóðrum eður einhverri annari ívilnun, stundi þeir verk sitt með dyggð og dugnaði.

Kaldársel

Kaldársel – ófullgert beitarhús, líklega byggt af Kristmundi Þorlákssyni, síðar bónda í Stakkavík.

Á öllum útbeitarjörðum, eins þó þar sje ekki haldið upp á beitarhús, er áríðandi, að fjármenn sje gæddir þessum hæfilegleikum eigi fjárhirðingin að vera í góðu lagi”.

Í Skagfirðingabók 1985 segir í grein Eiríks Eiríkssonar frá Skatastöðum, “Viðurværi – Lifnaðarhættir Skagfirðinga á 19. öld“: “Engvir karlmenn fengu þá morgunbita nema þeir, er gengu á beitarhús”.

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – stekkur.

Tímarit kaupfjelaga og samvinnufjelaga 1908 fjallar um “Sauðfjárverslunina“: “Bændur lögðu því einkum stund á það að hafa sauðfje sitt feitlagið og ullarmikið að svo miklu leyti sem þetta var samrýmanlegt. Jafnhliða þessu var kostað kapps um það að sauðfje kæmist af með sem allraminnst innifóður. Vetrarbeit var því sótt með kappi og áhuga. Þá voru »beitarhús« mjög víða notuð.”

Blaðið Lögfræðingur 1897 taldi ástæðu til að fjalla um “Ágang búfjár“. Páll Briem skrifaði: “Enginn má byggja nær annars landamerkjum, er nú var sagt, sel, beitarhús, fjárrjettir eða nokkur önnur peningshús, nema það hafi staðið þar áður, eða sá, sem land á á móti, leyfi”.

Álfsnes

Álfsnes – beitarhús.

Björn Bjarnason í Gröf skrifaði um “Að beita sauðfé” í Frey árið 1904: “Menn, er fyrir 30—40 árum voru aldraðir höfðu uppalist við þann sið, að beita sauðfé svo mikið sem unt var. Var það látið liggja við beitarhús (hagahús), er oft voru jötulaus, og fénu „gefið á gadd“, þá sjaldan því var gefið. Þessi beitarhús eru mjög víða lögð niður, en í þeirra stað komin innigjafahús heima við bæinn”.

Jónas Jónsson frá Hrafnagili lýsir beitarhúsamanninum í bók sinni “Íslenskir þjóðhættir” frá árinu 1961: “”Sauði höfðu menn víða og gerðu þá gamla, 5 til 6 vetra. Sú trú var almenn, að þeir skærust betur á ójöfnu árunum en þeim jöfnu – þrevetrir og fimmvetra en fjögra vetra eða sex.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – beitarhús.

Víða voru beitarhús, og það sumsstaðar langt frá bæjum; þurfti þá beitarhúasmaðurinn að fara af stað fyrir dag að láta féð út, ef gott var og næg jörð, en gefa því fyrst, ef lítið var um jörð. Svo létu þeir út og stóðu yfir því, ef viðlit var veðurs vegna, og var það kaldstætt verk í harðindum. En víða áttu þeir skinnhempur með ullinni innan á til þess að standa yfir í og duglegar hettur yfir, þykkar og hlýjar; sumir höfðu hattgarm yfir hettunni, og oftast voru menn í skinnleistunum við það starf. Ef svo var kalt og illt, að féð fór að halfa uppi fótunum fyrir kulda, ráku þeir það dálítinn sprett til, ef hægt var. Ef fanndýpi var mikið, svo að tæplega var krafsturfært, höfðu þeir reku litla með sér og mokuðu oft ofan af, því til léttis.

Vatnsendaheiði

Vatnsendaheiði – beitarhús.

Í rökkri byrgðu menn svo féð og héldu heim á vökunni. Oft komust þeir í hann krappan í hríðum og dimmviðrum, en harðneskjan var mikil, og vaninn gaf listina og gerðu menn einbeitta og örugga að rata”.

Bjarni F. Einarsson skrifaði “Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður” í Sveitarstjórnarmál árið1996: “Ef við tökum sem dæmi fomleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeirn beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir.

Húsatún

Húsatún – beitarhús.

Þessum húsum var gjaman komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og aðra tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurs konar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið hvers gagnvart öðrum.
Þegar skipuleggja á eitthvert svæði eða jarðrask er í vændum vegna húsbygginga, vegagerðar o.s.frv. er nauðsynlegt að viðkomandi aðilar séu meðvitaðir um þær minjar sem kunna að vera á svæðinu.

Suður-Reykir

Suður-Reykir – beitarhús.

Til að svo megi vera þarf fornleifaskráning að hafa farið fram og niðurstaða þeirrar skráningar verður einnig að vera aðgengileg þeim sem hennar kunna að þurfa við. Án þessarar skráningar er minjavarslan einfaldlega máttlausari en ella í ráðgjöf sinni til einstakra aðila, svo sem skipulagsyfirvalda, framkvæmdaraðila ýmiss konar og jafnvel einkaaðila.
Fyrsta vinnuregla niinjavörslunnar í þessum efnum er að allar fornleifar beri að varðveita, enda er það tekið fram í lögum. Þegar því verður hins vegar ekki við komið er það minjavarslan ein sem ákvarðar hvað skuli gera, eða hversu ítarleg rannsókn þurft að vera eigi slík að fara fram að áliti minjavörslunnar”.

Jónatan Garðarson fjallaði um “Selja- og beitarhúsatóftir í lögsögu Garðabæjar” á vef Hraunavina árið 2010:

Straumssel

Straumssel.

“Selin voru stór þáttur í bændasamfélaginu á Íslandi frá fyrstu tíð og virðist sem selvenjur hafi að mestu flust hingað til lands frá Noregi. Selstöður voru einnig þekktar víðsvegar í mið og suður Evrópu, þannig að seljabúskapur var greinilega viðtekin venja um aldir. Hér á landi þróaðist seljabúskapurinn með álíka hætti og á norðurlöndum og átti drjúgan þátt í að beitarstýring var með allgóðu móti lengi vel, þó svo að það hafi ekki verið einhlítt. Á nokkrum stöðum voru byggð beitarhús þar sem áður voru sel en sum beitarhúsanna voru reist þar sem haglendi var gott, stundum í námunda við gamla fjárhella eða sauðaskjól.

Setbergssel

Setbergs- og Hamarkotssel. Helgafell fjær.

Landslag í kringum selin er keimlíkt og hægt að gera sér nokkra grein fyrir því hvernig landið var umhorfs á meðan það var nýtt fyrir seljabúskap. Talið er að selfarir hafi að mestu lagst af í hreppnum um eða eftir 1865, sem er ekki alveg öruggt því sagnir hafa verið á kreiki um að fært hafi verið frá fram undir 1910-20 á bæjum í Hraunum og haft í seli á sumrin þó svo að það hafi verið í mun smærri stíl en áður tíðkaðist.
Finnsstaðir nefnast rústir tvískiptra beitarhúsa í hraunbrúninni undir Hlíðarhorni Vífisstaðahlíðar skammt suður af Vífilsstöðum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – beitarhús.

Björn Konráðsson ráðsmaður á Vífilsstöðum taldi að þarna hefði verið býli og peningshús, sem var seinna breytt í beitarhús. Húsatóftin stendur skammt frá mýrlendinu suðvestan Vífilsstaðalækjar eins og Hraunsholtslækur nefnist þar sem hann rennur úr Vífilsstaðavatni í gegnum land Vífilsstaða. Göngustígur liggur þétt við Finnsstaðatóftina og þar er bekkur til að hvíla lúin bein.

Setberg var stórbýli á sínum tíma og eru þrennar fjárhúsa- og beitarhúsatóftir uppistandandi sem áhugavert er að líta á. Sú sem er næst Setbergshverfinu er Svínholtsmegin á Norðlingahálsi í jaðri Oddsmýrardalstúnsins rétt handan við Vífilsstaðaveginn.

Oddsmýri

Oddsmýri – beitarhús.

Oddsmýrarfjárhús var notað vel fram yfir miðja 20. öldina. Gráhellubeitarhús stóð vestan við hraundranginn Gráhellu í Gráhelluhrauni. Þetta var ekki mjög stórt beitarhús og sennilega verið notað sem sauðakofi þegar þeim var haldið á vetrarbeit í hrauninu. Veggirnir standa enn og hægt að ganga inn í tóftina sem er án þekju. Beitarhúsið er stærst að ummáli en það lét Jóhannes Reykdal reisa í hæðarslakka Setbergshlíðinni mitt á milli Sandahlíðar og Þverhlíðar.

Oddsmýri

Oddsmýri – beitarhús.

Þar má enn sjá vegghleðslur úr holtagrjóti og hefur húsið átt að hýsa vel yfir 100 fjár. Umhverfis húsatóftina var Húsatún sem sker sig rækilega úr umhverfinu.”

Hér á eftir er fjallað stuttlega um nokkur framangreindra beitarhúsa. Upplýsingarnar eru m.a. fengnar úr opinberum fornleifaskráningum. Hafa ber í huga að skráningarnar eru misgóðar eða áreiðanlegar. Á meðan vel er vandað til sumra þeirra virðist annað hvort kastað til höndunum við aðrar eða þekking skráningaraðila hafi verið takmörkuð.

Vatnsendaheiði – Beitarhús

Vatnsendaheiði

Vatnsendaheiði – beitarhús.

10×14 m (N – S). Veggir úr grjóti, 1- 1,8 m breiðir og 0,3-0,6 m háir. Þrjú hólf eru á rústinni (A-C) og eru dyr á þeim öllum til austurs. Í hólfi C er garður eftir því endilöngu og áberandi stór og ferhyrndur steinn fyrir endanum. Garðlög eru víða greinileg, en rústin er farin að falla talsvert. Kampsteinar all áberandi. Gólf rústarinnar eru vel gróin og nánasta umhverfi einnig. Þar fyrir utan er talsver!ur uppblástur. Um 60 m vestan við rústina, neðar í brekkunni, er slóði sem gæti verið gamall. Hann var ekki skráður.

Rjúpnadalaháls – Beitarhús

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

8,5×14 m stórt. Veggir úr grjóti og torfi, 1,5-2,5 m breiðir og 03-0,7 m háir. Þrjú hólf eru á rústinni. Í vestasta hólfinu mót NV, á austasta hólfinu mót NA og á syðsta hólfinu eru dyr inn í austasta hólfið. Syðsta hólfið er hlaða. Víða sést í garðlög að innanverðu. Rústin er gróin grasi og mosa.

Norðan húsa nr. 76-78 við Austurkór í Rjúpnadalshlíð í Kópavogi er tóft beitarhúss frá Fífuhvammi (Hvammkoti). Við tóftina er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:
“Minjar um eldri byggð í landi Kópavogs er víða að finna. Helstar sem enn eru greinilegar ber kannski að nefna rústir gamla bæjarins í Digranesi og tóftirnar á þingstaðnum við ósa Kópavogslækjarins.

Fífuhvammur

Skilti við beitarhús á Rjúpnadalshlíð.

En víða eru merki um hversdagslíf Kópavogsbúa fyrr á öldum þótt ekki beri mikið á þeim. Eitt af þeim er þessi tóft hér í Rjúpnadalshlíð.

Tóftin er um 10×15 metrar og er innan landamerkja Fífuhvamms. Svo heitir jörðin frá árinu 1891, áður hét hún Hvammkot. Um þessa tóft hafa engar ritheimildir fundist. Fólkið sem gerði hleðsluna og stafaði hér er og verður því miður nafnlaust og ástæður hennar á huldu.

En þótt ekki finnist heimildir um þennan stað hindrar það okkur ekki við að velta vöngum yfir tilgangi mannvirkjanna. Í seljum var búfénaður haldinn á sumrin í bithaga, þar var mjólkað og mjólkin unnin. Oft voru þrjú hús í seljum, búið í einu, mjólkin geymd í öðru og það þriðja eldhús. En þessi tóft er ekki nema í rétt tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem bæjarhúsin í Hvammkoti stóðu (þar er nú bílastæði við Melalid 8 og 10).

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

Um selstöður segir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, en þeir ferðuðust um landið á árunum 1752-1757, að sel séu oft í tveggja mílna fjarlægð eða lengra frá bæjum. Ein dönsk míla var rúmlega sjö og hálfur kílómetri og því er þesssi tóft of nálægt bænum til að sennilegt megi telja að hér sé um sel að ræða.
Líklegra er að þetta hafi verið kvíar frá Hvammkoti. Kvíar voru réttir fyrir ær sem lömbin höfðu verið færð frá. Þegar fráfærurnar höfðu borið um vorið voru lömbin alin við heimajörðina en ærnar mjólkaðar í kvíum.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

Vegna nálægðarinnar við bæjarhúsin og stærðar tóftarinnar verður það að teljast sennileg skýring á tilgangi þessara húsa.”

Rétt er að benda á að tóftirnar bera þess merki að þarna hafi fyrrum verið beitarhús með heimkumli að baki.
Bjarni F. Einarsson skráði minjarnar sem “beitarhús” í endurskoðaðri Fornleifaskrá Kópavogs 2020.

Vatnsendahæð – Beitarhús

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – beitarhús.

12×14 m (NV-SA). Veggir úr grjóti (og torfi), 1-2 m breiðir og 0,3-0,7 m háir (utanmál). Fimm hólf eru á rústinni (A-E), en upprunalega hafa þau aðeins verið þrjú (A/B, C/D og E). Dyr eru á nær öllum hólfum til NNV og sennilega hafa verið dyr á milli E og hinna hólfanna, en hólf E hefur verið hlaða. Gólf í hólfi E er (mjög) niðurgrafið. Garðlög eru víða greinileg að innanverðu, sérstaklega í hólfi E, sem er S langveggur. Þar er veggurinn 1,7 m hár. Garðar (jötur) eru tveir í rústinni og er steypa ofan á þeim báðum. Við N enda þess eysri er steypt baðkar. Rústin er vel gróin. Einstaka fúin spýta sést í rústinni. Rústabrot gætu leynst um 10 m NV af rústinni.

Beitarhúsahæð – Beitarhús

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – beitarhús.

Húsin (frá Elliðavatni) eru um 15 x 14 m (NV – SA). Veggir úr grjóti um 1,0 – 2,0 m á breidd og 0,3 – 1,0 m á hæð. Fornleifarnar samanstanda af 4 hólfum (A, B, C og D). Dyr eru á hólfi A, B og C í NV. Á hólfi D eru dyr inn í hólf B og C. Hleðslur eru mjög greinilegar. Í hólfi A, B og C er hlaðinn garði eftir miðju gólfi um 0,6 m á breidd og 0,2 – 0,4 m á hæð. Gólf eru niðurgrafin, sérlega í hólfi A. NA – hornið á hólfi D er hrunið.

Grísanes – Beitarhús

Grísanes

Grísanes – beitarhús.

Landareign: Hvaleyri. Aldur: 1550-1900. Lengd: 14.6m. Breidd: 13.1m. Vegghæð: 0 – 0.7m. Breidd veggja: 2.8. Húsið er neðst í grýttri brekku vestan undir Grísanesi. Tóftin er grjóthlaðin og opin í vestur. Fóðurbekkir meðfram langveggjum og í miðju. Tóftin er töluvert sigin, mótar fyrir grunni við inngang sem gefur til kynna að þar hafi verið timburþil. Tóftin er í mikilli hættu vegna framkvæmda Hauka á svæðinu og er hún innan áhrifasvæðis framkvæmdanna, þ.e. innan 15m.

Húsatún – Beitarhús

Húsatún

Húsatún – beitarhús.

Húsatún er á vestanverðri Setbergshlíð. Það er um 2,9 km SA af bæ og um 930 m ASA af Gráhellu. Í kringum beitarhúsið er melur og vex á honum lyng á stangli, en fjær er kjarrgróður. Tóftin er algróin þykkri sinu að innan og einnig er smá grasblettur fast vestan við tóftina,
gróinn þykkri sinu. Beitarhúsið er hlaðið úr grágrýti og virðist hleðslan vera nokkuð vönduð þó hún sé nú tilgengin á stórum hluta. Mest hleðsluhæð er um 1,5 m, á norðurvegg einna austast og eru þar 5-6 umför. Grjótið í hleðslunni er af öllum stærðum, en mest er þó af miðlungs og stóru grjóti. Utan með grjóthleðslunni er sigin torfhleðsla, um 1 m breið og 0,5 m há. Beitarhúsið er um 17 x 11 m að stærð A-V og er innanmál um 14 x 8 m. Vestur hlið tóftarinnar er að mestu opin og hefur þar að líkindum verið timburþil fyrir.

Finnsstekkur/Finnsstaðir – Stekkur/Beitarhús

Finnsstekkur

Finnsstekkur/Finnsstaðir – beitarhús.

Í örnefnaskrá segir: ,,Finnsstekkur: Stekkur var þarna í eina tíð við voginn.” Finnsstekkur er um 1 km austnorðaustur frá Vífilsstaðaspítala). Hann er rétt norðan við veginn að Elliðavatni, undir “suðvestur horni” Smalaholts. Reiðvegur liggur hjá tóftinni. Á grasi- og lyngi grónum hjalla við brekkurætur. Tóftin er um 14×6 m stór. Hún skiptist í tvö hólf, rétt og lambakró. Er lambakróin byggð við réttina að suðaustanverðu, bæði hólfin norðvestur-suðaustur. Ekki eru greinilegar dyr á milli hólfanna. Dyr eru hins vegar allgreinilegar á norðvestur enda réttarinnar hólfsins. Réttin er um 11×6 m að stærð og lambakróin um 4x3m. Hleðsluhæð er mest um 1 m. Hleðslur eru yfirleitt grónar þótt sjáist í hleðslugrjót hér og þar.

Vífilsstaðir – Beitarhús

Víðistaðir

Vífilstaðir – beitarhús.

Tóftin, sem líkast til er af beitarhúsi, er fast austan við göngustíg sem liggur N-S milli skógar og hrauns. Gras, mosa- og skógivaxinn mói. Birkihríslur vaxa inni í tóftinni. Tóftin er 12 m löng, 5 m breið og snýr N-S. Veggjahæð er 0,6-0,8 m en breidd 1-1,5 m. Tóftin er eitt hólf og inngangur er ekki greinanlegur. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar í tóftinni og er hún algróin grasi og mosa.

Vífilsstaðahlíð – Beitarhús

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir/Heiðmörk – beitarhús.

Í örnefnaskrá segir: ,,Vífilsstaðabeitarhús: Í Hraunbrúninni er fjárhústótt, jötustallar.” Tóftin er um 280 m SSA af Sauðahellinum nyrðri og rúmlega 50 m SV við veg undir Vífilsstaðahlíð. Beitarhúsið er um 2,5 km SSA af bæ. Rúmlega 3 m austur af tóftinni er rúst fjárborgar og um 10 m vestan við er garðbrot. Umhverfis tóftina er úfið mosavaxið hraun, en fyrir framan tóftina og fjárborgina er hraunið vel grasivaxið á smá bletti, sem er eflaust leyfar túnbleðils. Tóftin er tvö hólf, hið stærra er austanmegin og er að líkindum fjárhús en hið minna kann að vera hlaða.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir/Heiðmörk – beitarhús.

Hún er hlaðin úr þurri hraungrýtishleðslu, úr hraunhellum sem sumar hverjar kunna að hafa verið klappaðar til. Utanmál tóftarinnar er 10,5 x 7,5 og snýr hún N-S. Hleðsluhæð er mest um 1,5 m, en víðast kringum 1 m og mesti fjöldi umfara er 7-8. Tóftin er gróin mosa, grasi og lyngi og er austurveggur mest yfirgróinn. Óvíst er hvort veggirnir hafi verið einangraðir að utan með torfi.

Urriðakotshraun – Sauðahús/Beitarhús

Urriðakot

Urriðakotshraun – sauðahús/beitarhús.

“Áberandi hóll er í hrauninu, sem heitir Einbúi. Suðaustur af einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns”, segir í örnefnaskrá SP. “Sauðahúsið: Tóft þessi er eftir sauðahús, sem Guðmundur bóndi Jónsson í Urriðakoti byggði,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Beitarhúsið er um 130 m ASA af Réttinni gömlu, en mannvirkin eru sitthvoru megin við hraunkargann sem myndar
vesturbrún Flatahrauns. Beitarhúsið stendur við úfið hraun að sunnan og vestan, en norðan við er gamall algróinn túnblettur, um 20×10 m N-S. Um 20-30 m austan við er malarborinn göngustígur sem hlykkjast gegnum hraunið frá N-S.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – beitarhús – Kjarval.

Tóftin er eitt hólf sem opnast til norðurs, að gamla túnbleðlinum og er 7×5 m að utanmáli N-S. Hún er þurrhlaðin úr miðlungs- og stóru hraungrýti, flest tilklappað í múrsteinslagaða kubba og
hleðsluhæð er um 1,4 m. Hleðslan í tóftinni er vönduð en er nokkuð tilgengin. Utan með veggjunum að neðan, er pakkað að grjóthleðslunni með torfi.

Urriðakotshraun – Beitarhús

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – beitarhús.

“Austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem Sauðahús”, segir í örnefnaskrá GS. “Nokkru norðar en Skotbyrgið er rúst gamals fjárhúss við allstóran klett”, segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Fjárhústóftin syðri er um 470 m NV af Selgjárhelli, skammt frá öðru háspennumastri frá Heiðmerkurvegi. Fjárhústóftin er uppi á hárri mosa- og grasigróinni hæð í hrauninu. Tóftin er hlaðin uppvið náttúrulegt bjarg, sem myndar hluta suðurveggjar hennar. Innanmál tóftarinnar er 6×2,5 m A-V og dyr eru á vesturvegg. Veggirnir eru um 0,8 á hæð og um 1-2 m á breidd. Nokkuð hefur hrunið úr hraunhleðslum veggjanna, sem eru grónar mosa, grasi og lyngi. Gluggi er hlaðinn í suðurvegg tóftarinnar.

Gráhelluhraun – Beitarhús

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

“Sel. Byggt norðan í hraunkletti, sem nefnist Gráhella í Gráhelluhrauni. … Gráhella er merkt á “uppdrátt Íslands”, geodætisk Institut, blað 27.” Selið er á mörkum Setbergs og Hamarskots og er fast austan í skógarlundi sem er í Gráhelluhrauni. Það er um 930 m VNV af beitarhúsatóft sem stendur í Húsatúni. Selið er um 2.2 km SSA af bæjarstæði Setbergs. Bæði í kringum og innan tóftarinnar og garðlagsins er grasi gróið, en fjær er mosi og lyng. Mannvirkin eru í úfnu hrauni og vestur af er skógræktarsvæði í landi Hafnarfjarðar þar sem eru reiðstígar nýttir af eigendum nærliggjandi hesthúsa.

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

Mannvirkið er hlaðið upp að klettinum Gráhellu, sem myndar suðurvegg þess, og samanstendur af einni tóft og hlöðnum grjótgarði fast austan við hana. Tóftin er að utanmáli um 9×6 m, snýr N-S og að innanmáli 7×2,5 m. Dyr vísa til norðurs. Veggir hennar eru hlaðnir úr torfi og grjóti og eru grjóthleðslurnar að innanverðu. Veggirnir eru milli 1,5 og 2 m breiðir, um 1,2 m háir og samanstanda af 5-6 umförum af meðalstóru hraungrýti, sem er nokkuð fallega hlaðið. Lítill skúti gengur suður úr enda tóftarinnar inn í Gráhellu, um 2 m djúpur, 4 m breiður og um 1 m á hæð. Bogadregið garðlag úr hraungrýti gengur frá norðausturhorni tóftarinnar og sveigir til suðurs að Gráhellu. Grjóthleðslan í gerðinu er nokkuð tilgengin, mest 2 m breið og 0,5-1 m há. Innanmál gerðisins er um 8×8 m og myndar tóftin vesturvegg en Gráhella
suðurvegg. Garðurinn hefur mögulega verið aðhald fyrir sauðfé eða heystæði.

Húshöfði – Beitarhús

Beitarhúsaháls

Beitarhúsaháls/Húshöfði – beitarhús.

Fornleifaskrá Hafnarfjarðar IX, Kaldársel og nágrenni, 2021, bls. 51. Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1900+. Lengd: 8.5m. Breidd: 7.7m. Vegghæð: 0.5 – 1.2m. Breidd veggja: 1.1m. Í litlu rjóðri umkringt háum grenitrjám, um 160m austan við Hvaleyrarvatn. Útihús, grjóthlaðið og grasivaxið. Vel stæðilegir veggir og inngangur í SV horni, einhverskonar hleðsla í innanverðu NV horni. Liggur smá garðbútur í vestur frá NV horni. Veggjahæð er frá 0.5 – 1.2m og veggjabreidd er að jafnaði um 1.1m. Búið er að gera eldstæði í miðri tóftinni úr grjóti úr henni.

Litlahraun – Beitarhús

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús.

Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1550 – 1900. Lengd: 15.2m. Breidd: 5.6m. Vegghæð: 0.4 – 1.1m. Breidd veggja: 1m. Í hraunjaðri undir klettum á grónu svæði – uppblásið í kring. Um 1.1 km sunnan við Suðurstrandaveg og um 350m vestan við landamerki Hafnarfjarðar og Grindavíkur.
Beitarhús úr torfi og grjóti, grasi vaxið. Inngangur í suður, aðeins hrunið inn í hann. Tóftin sjálf er um 15m löng og 5m breið. Tóftin er hlaðin upp við kletta og rúmgóður skúti er í NA horni hennar sem hefur verið nýttur. Búið er að hlaða undir girðingu sem liggur yfir tóftina miðja (ekki mælt). Veggjahæð er frá 0.4 – 1.1m og veggjabreidd er að jafnaði um 1m.

Krýsuvíkurheiði; Jónsbúð – Beitarhús.

Jónsbúð

Jónsbúð – beitarhús.

Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1550 – 1900. Lengd: 14.8m. Breidd: 7.1m. Vegghæð: 0.5 – 1.1m. Breidd veggja: 1.3m. Á grasivöxnum bakka á annars uppblásnum mel, um 500m sunnan við Suðurstrandaveg og um 430m austan við Eystri-læk. Beitarhús úr torfi og grjóti. Inngangur í suður, hrunið inn í hann. Tóftin er um 15m löng og um 7m breið. Veggjahæð er frá 0.5 – 1.1m og veggjabreidd er að jafnaði um 1.3m.

Heimildir m.a.:
-Búnaðarrit, 3. tbl. 01.08.1916, beitarhús, bls. 166.
-Höldur, 01.01.1861, Búnað- og verkaskipun í lands- og sveitarjörðum, Halldór Þorgrímsson, bls. 81-82.
-Skagfirðingabók, 1. tbl. 01.01.1985, Viðurværi – Lifnaðarhættir Skagfirðinga á 19. öld, Eiríkur Eiríksson frá Skatastöðum, bls. 70.
-Tímarit kaupfjelaga og samvinnufjelaga, 1. tbl. 01.03. 1908, Sauðfjárverslunin, bls. 30.
-Lögfræðingur, 1. tbl. 01.01.1897, Ágangur búfjár. Samið hefur Páll Briem, bls. 18.
-Freyr, 4. tbl. 01.04.1904, Að beita sauðfé, Björn Bjarnarson í Gröf, bls. 36.
-Íslenskir þjóðhættir, Jónas Jónsson frá Hrafnagili, Reykjavík 1961, bls. 100-101.
-Sveitarstjórnarmál, 2. tbl. 01.06.1996, Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður, Bjarni F. Einarsson, bls. 114.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Beitarh%C3%BAs
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=63412
-https://skraning.minjastofnun.is/Verkefni_2332.pdf
-https://www.hraunavinir.net/seljatoftir-i-gar%C3%B0ab%C3%A6jarlandi/
-https://www.kopavogur.is/static/extras/files/20200512-0518_fornleifaskra-kopavogs_lok-compressed-1420.pdf
-https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-VIII-A%CC%81sland.pdf
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 33.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 34.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 48.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 56.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 65.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 66.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 67.
-Fornleifaskrá Reykjavík – Bjarni F. Friðriksson 1995.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VI III – Ásland, 2021, bls. 55.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík, 2021, bls. 98.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík, 2021, bls. 104.

Beitarhús

Beitarhús.

Elliðavatn

Elliðavatn (Vatn) var löngum ein þekktasta jörðin í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming, en hinar frægu Elliðavatnsengjar hurfu. Bújörðin Elliðavatn er ekki til lengur, hún er orðin hluti af friðlandinu í Heiðmörk.

Elliðavatn

Elliðavatn – Ben. Gröndal.

Flest nútímafólk hefur enga hugmynd um þær umhverfisbreytingar sem orðið hafa á bökkum Elliðavatns, eða hvernig vatnið leit út á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar. Ásamt með beitarlandinu uppi á Elliðavatnsheiði voru víðáttumiklar og grasgefnar engjar beztu hlunnindi jarðarinnar á Vatni. Túnið var alltaf lítið, en hafi Elliðavatnsbændur náð í starung á engjunum; sem ekki er ólíklegt, þá var hann kúgæft hey og þótti geysileg búbót. Lítið eitt vestan við miðju vatnsins eins og það er nú var allstór eyja sem skildi vötnin nánast að. Úr vestara vatninu rann áin Dimma allar götur niður að brúnni við núverandi Seláshverfi. Þar rann í hana áin Bugða, en svo heitir neðsti og vestasti hluti Hólmsár. Tvö læmi tengdu þó árnar saman við hólinn Skyggni, skammt frá stíflunni sem síðar kom.

Elliðavatn

Elliðavatn – stífla.

Á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Ekki verður séð að því hafi verið mótmælt árið 1924, eða að tilfinning hafi verið fyrir því að þarna væri verið að vinna náttúruspjöll.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn, þessi náttúruperla við útmörk höfuðborgarsvæðisins, er að stórum hluta uppistöðulón. Í umhverfi Elliðavatns er víðast hvar fagurt um að litast og bærinn sem ber nafn af vatninu var byggður á fallegum stað á nesi sem skagar út í vatnið frá austri. Það land sem fyrrum tilheyrði jörðinni Elliðavatni var þó aldrei stórt. Vatnsendaland var mun stærra og Hólmsland var það einnig; það náði allar götur upp í Bláfjöll, sunnan við Elliðavatn.
Allt er þetta umhverfi mikilfenglegt, en einhver fegursti reiturinn er við smærri vötnin norðaustur og austur af Elliðavatnsbænum: hjá Helluvatni, Hrauntúnstjörn og Kirkjuhólmatjörn. Þessi undrafögru smávötn sjást þegar ekið er sem leið liggur að Elliðavatni framhjá Rauðhólunum. Vegurinn liggur á brú yfirálinn úr Helluvatni og áfram upp í Heiðmörk, en afleggjari er heim að Elliðavatnsbænum.

Rauðhólar

Svona lítur eystri hluti Rauðhólanna út í dag.

Norðan við Helluvatn eru nokkrir lágir gjallhólar af sama uppruna og Rauðhólarnir, en óskemmdir. Rauðhólarnir urðu til fyrir 4.600 árum þegar glóandi og þunnfljótandi hraunstraumur rann úr eldstöðinni Leiti í Svínahrauni og fylgdi nokkurn veginn sömu slóð til sjávar og Suðurlandsvegurinn. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur taldi að Elliðavatn, eða einhver hluti þess, hafi þá náð þangað sem Rauðhólarnir mynduðust og hefur það eflaust verið tilkomumikil sjón að sjá glóandi hraunstraum þurrka vatnið upp. Hraunstraumurinn hélt áfram niður í voginn sem 3.500 árum síðar var kenndur við Elliða, skip Ketilbjarnar hins gamla. Árnar bera og nafn skipsins og trúlega Elliðavatn einnig.
Vatnið í tjörnunum þremur sprettur fram undan hraununum í Heiðmörk, en að hluta er það úr Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli og undir Selfjalli hjá Lækjarbotnum.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ “er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn” hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, “síðan Kolfiðr hefir spillt henni”.

Elliðavatn

Elliðavatn – bærinn.

Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé “kóngl. Majestat.” Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með “iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola” (viðarkol).

Elliðavatn

Elliðavatn 1836.

Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, “tveir dagslættir” renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup “ef þeim heppnast afli.” Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta “til fálkafjár í Hólmskaupstað”.

Elliðavatn

Elliðavatn á 19. öld.

Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar “fer mjög í þurð”. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga “lök og lítt nýtandi”.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.

Elliðaár

Elliðaár.

Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist “mikil stofa” þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, “meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað”.

En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.

Elliðavatn

Elliðavatn í leiðangi Gaimard.

Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn.
Kirkja var aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið.

Þingnes

Þingnes – uppgraftarsvæði.

Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk.

Uppdráttur af minjum í Þingnesi

Minjasvæði við Þingnes.

Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett “at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú nes, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu”.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafi verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekki verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og “sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.”
Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns.

Lesbók Mbl. – GÍSLI SIGURÐSSON

Elliðavatn

Elliðavatn.

Hólmsborg

Gengið var frá bænum Elliðavatni við samnefnt vatn eftir svonefndri Þingnesslóð, yfir Myllulækjartjarnarlæk (tiltölulega nýlegt örnefni) og að Þingnesi, hinum meinta forna þingstað. Þar munu vera mannvistarleifar er teljast verða með þeim elstu hér á landi.

Þingnes

Minjasvæðið á Þingnesi.

Benedikt Sveinsson alþingismaður og yfirdómari í Landsyfirrétti lét hlaða steinhúsið að Elliðavatni á árunum 1860 – 1862. Það hefur sérstakt byggingarsögulegt gildi og nú er unnið að þvi að varðveita það og stefnt að því að þar verði sett á stofn fræðslustofa þar sem gestum gefst kostur á því að kynnast Heiðmörk, sögu og náttúrufari í máli og myndum og með fyrirlestrum þegar það á við. Þess má geta að þjóðskáldið og athafnamaðurinn Einar Benediktsson er fæddur á Elliðavatni 30. október 1864 og átti heima þar til 10 ára aldurs.
Við Myllulæk eru rústir, en eins og nafnið gefur til kynna er talið að þar hafi verið mylla.

Þingnes

Þingnes – upplýsingaskilti.

Skoðaðar voru minjarnar á og við Þingnes, en þar var grafið sumarið 1984, 2003 og 2004 og svæðið metið. Grafið var í þrjár rústir og kom í ljós að þær voru frá tímabilinu 900 – 1100. Einnig komu í ljós tveir hlaðnir grjóthringir, sá stærri um 18 metrar í þvermál. Sumir hafa viljað halda því fram að þar séu komnar minjar Kjalarnessþings, sem stofnað var af Þorsteini, syni Ingólfs Arnarssonar, þess er fyrstur er skrifaður til bólfestu hér á landi. Í heimildum er getið um stofnun Kjalarnessþings og mun það vera forverinn fyrir stofnun Alþingis árið 930.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Minjarnar eru vel aðgengilegar en lítt finnanlegar þar sem þær eru talsvert utan stígar. Upplýsingatafla er við bílastæðið ofan við Þingnes, en erfitt að átta sig á því fyrir ókunnuga hvar minjarnar er að finna þótt þær séu ekki allfjarri. Staðurinn sjálfur er mjög fallegur, að hluta til tangi úti í Elliðavatni eins og það er í dag, en hafa ber í huga að vatnsborðið hækkaði talsvert við stíflugerðina fyrrum.
Auðvelt er að setja sig spor þeirra, sem gætu hafa verið þarna við þingstörf á sínum tíma, með fuglasönginn í vindhljóðum eyrum og fiskuppitökuna á sléttum vatnsfletinum mót augum.
HólmsborgHvanna- og birkiangan hafa brugðið fyrir broddinn og sólin vermt kinn.
Nyrsta húsið er sýnilega stær
st. Um miðju þess liggur hlaðinn garður. Gangurinn er þvert á húsið því opið vísar mót suðri, en húsið er á lengdina frá vestri til austurs. Vestan og utan í húsinu er hringurinn fyrrnefndi, eða öllu heldur hringirnir því annar er inni í hinum. Inni í honum er svo aftur enn eldri tóft. Sunnan við eru þrjár tóftir, þ.a. ein nokkuð stór. Norðan við þær er en nein tóftin. Á tanganum vestan við þær eru þrjár tóftir.

Eftir gönguna haldið inn í Heiðmörk um Heiðarveg í austur að Hraunslóð, en svo nefnist vegurinn sem liggur út á Suðurlandsveg við Silungapoll, og haldið eftir henni er fljótlega komið inn á Hólmshraun. 

Ártalssteinn

Til hægri handar u.þ.b. 200 m. frá veginum er fjárborg sem nefnist Hlómsborg. Hún er hringlaga og má skríða inn í hana um þröngar dyr. Fjárborg þessi er að mestu hlaðin af Karli Norðdahl, bónda á Hólmi árið 1918 og þykir með afbrigðum vel gerð og stendur að mestu óskemmd.
Guðrún Eggertsdóttir Norðdahl frá Hólmi, sem fædd er árið 1902, man vel eftir því þegar borgin var reist. Borgina gerðu Eggert faðir hennar, sem fyrr sagði, Magnús Jónsson mágur hennar, kenndur við Engjabæ í Laugardal, Karl bróðir hennar og Áskell hálfbróðir föður hennar. Magnús í Engjabæ var annálaður hleðslumaður. Guðrún færði föður sínum og þeim félögum mat og kaffi frá Hólmi, meðan þeir unnu að borginni. Fór hún þá beinustu leið yfir
hraunið hjá Háhellu, en svo nefnist hraunhella, sem rís hátt norðan vegarins og sést vel frá Hólmi.

Hólmsborg

Hólmsborg.

Að sögn Guðrúnar átti faðir hennar mest tuttugu til þrjátíu sauði. Var borgin ætluð þeim til skjóls á útigangi. Annars telur Guðrún að borgin hafi ekki verið mikið notuð. Hafi faðir hennar jafnvel haft í huga að hún yrði öðrum þræði eins konar minnismerki. Hinu verður þó ekki neitað að borgin er vel staðsett. Austur af henni var gott kjarrlendi í úfnu hrauni, er nefndist Kargi. (Sjá meira um nágrenni Hólmsborgar HÉR).
Á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs, hins fyrsta norræna landnámsmanns, má (ef vel er leitað) finna minjar tæplega eitt hundrað fjárborga, fyrrum skjóla fyrir sauðfé í útigangi.
Veður var frábært – lygnt og hlýtt. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Áfangar, ferðahandbók hestamanna, 1986

Hómsborg

Hólmsborg.

Elliðavatn

Elliðavatn er á norðausturenda sprungusvæðis í Trölladyngjukerfinu og rekja má aldur þess til síðasta hlýskeðs ísaldar. Efstu, stöðugu upptök Elliðaánna eru við Selvatn og í Lækjarbotnum við Nátthagavatn.
Ár og lækir, sem renna í Elliðavatn eru Bugða, Suðurá um Helluvatn, lækur úr Kirkjuhólmatjörn og HlaðaMyllulækur úr Myllulækjartjörn. Suðurá rann fyrrum gegnum Hrauntúnstjörn en var beint fram hjá henni. Elliðaárvirkjun var vígð árið 1921. Þremur árum síðar var hafizt handa við gerð miðlunarstíflu uppi við Elliðavatn. Henni var lokið 1926 og við þessar framkvæmdir fór Elliðavatnsengi ofan núverandi stíflu undir vatn. Benedikt Sveinsson eignaðist jörðina árið 1815 og Einar Ben. fæddist þar 1864. Síðan gekk jörðin kaupum og sölum og árin 1923-28 eignaðist Rafveita Reykjavíkur vatnið og byggði miðlunarstíflu, sem hækkaði vatnsborðið verulega. Búskap var brátt hætt á Elliðavatni og Skógræktarfél. Rvk. fékk jörðina 1963, einkum vegna umsjár Heiðmerkur, en verulegur hluti hennar er í landi jarðarinnar. Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og margir aðrir en Jónas Hallgrímsson hafa rannsakað staðinn.
Brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingunum í Reykjavík upp úr 1750. Hann þurfti að tryggja næga ull til vinnslu, bæði af íslenzku fé og erlendu til blöndunar. Elliðavatn varð fyrir valinu sem sauðfjárbú fyrir Innréttingarnar vegna beitarinnar í skóglendi Heiðmerkur og nágrennis. Hrútar af enskum stofni voru fluttir inn til kynbóta og sænskur baron, Hastfer að nafni, var fenginn til að stýra þeim fyrsta kastið. Það er ekki ljóst, hvers vegna þessar kynbótatilraunir voru fluttar að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni 1757.
MyllulækjartjörnÞ
ar var reist stórt fjárhús og „mikil stofa”, þótt þessara mannvirkja sjái ekki lengur stað. Fjárhúsið var sagt vera vandaðra en flestar kirkjur landsins og afþiljað. Þetta afburðafjárhús dugði ekki til þess að bægja óláninu frá. Veiki komu upp í fénu, fjárkláðinn, sem breiddist óðfluga út og olli gífurlegum búsifjum. Á árunum milli 1760 og 1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360.000 í 140.000. Þetta var vafalaust mesta efnahagsáfall, sem Íslendingar hafa orðið fyrir fyrr og síðar, því að þeir voru svo háðir sauðfjárbúskap á þessum tíma. Sauðfjárræktinni og kynbótatilraununum lauk með þessu á Elliðavatni. Búið var formlega lagt niður 1764.
Til að grennslast fyrir um örnefndin Myllulækjartjörn og Myllulækur var farið yfir örnefnaskrá Elliðavatns eftir Ara Gíslason (heimildarmaður Eggert Norðdahl, Hólmi) og athugasemdir varðandi örnefni Elliðavatns, skráðar af Ragnari Árnasyni (eftir Christian Zimsen), með Christian Zimsen, lyfsala, í sumarbústað hans við Elliðavatn, í Elliðavatnslandi, 23. júní og 4. júlí 1983.
Ennfremur var rætt við hann að heimili hans, Kirkjuteigi 21, Reykjavík, 8. marz l984.  TóftSkráðar voru eftir honum athugasemdir og viðbætur við örnefnaskrá Ara, og verður hér leitazt við að fella þær inn í hana ásamt fyrri athugasemdum hans. Ennfremur var stuðzt að litlu leyti við blaðagrein eftir Karl E. Norðdahl, úr Mbl. frá 29. júní 1967. C.Z. telur allt, sem þar er sett fram, vera hárrétt. Christian Zimsen (f. 26. september 1910) þekkir vel til á Elliðavatni. Faðir hans, Christen Zimsen (1882-1932), keypti 1/4 jarðarinnar árið 1916 af Einari Benediktssyni.
Tveir lækir renna úr Myllutjarnarlæk. Eystri lækurinn hefur jafnan verið nefndur Myllulækur, en sá mun heita Heimalækur. Vestari lækurinn heitir Myllulækur. Tóftir eru við báða lækina, svo til alveg eins, jafn stórar og jafn heillegar.
“Suðvestan við Heimaásinn, neðst í Heiðmörkinni og neðst í Lágheiðinni (sjá síðar), er tjörn, sem á korti Borgarverkfræðings og Skógræktarfélags Reykjavíkur af Heiðmörk er nefnd Myllulækjartjörn. C.Z. kannast ekki við það nafn; hann segist ekki hafa heyrt það í máli manna á Elliðavatni. Svæðið umhverfis tjörnina var nefnt Lækirnir eða í lækjunum, og oft var talað um tjörnina sem Tjörnina í Lækjunum.

Myllulækur

Tjörn þessi var áður mikið minni. Tveir hólmar eru nú í henni, litlir grashólmar. Álftapar heldur sig í minni hólmanum. Himbrimi verpir oft þar sunnan við í bleytunni á bakkanum.
Lækur rann úr tjörninni norður í Elliðavatn, og hafa sumir kallað hann Myllulæk, en hann var ávallt nefndur Heimalækur, en Myllulækurinn er vestar; malarás er á milli þeirra. Heimalækurinn er stíflaður nú. Greinileg myllutóft er ennþá við Myllulækinn. Þar var vatnsmylla, sem korn var malað í. Þessi tóft er frá öldinni sem leið. Myllulækurinn rennur úr tjörninni nú, en áður kom hann úr sérstökum uppsprettum sunnan og vestan við malarásinn (fyrrnefndan), en þær eru nú í tjörninni. Malarás þessi nær úr Lágheiðinni og fyrir ofan tjörnina og út í vatn milli lækjanna.
Myllulækur og myllan1925-6 hefur Rokstad tilraunir með regnbogasilung. Hann lætur grafa í gegnum malarásinn á milli tjarnarinnar og Myllulækjar og veitir honum þannig í tjörnina, og í Heimalækinn. Hann lét síðan hlaða torfgarð, þannig að Vatnið í tjörninni hækkaði. Regnbogasilungurinn í tjörnina var fenginn frá Noregi.  Vatnið var síðan látið renna í gegnum munk í stíflunni við ósinn, en munkur var trékassi með milligerð, til að stöðva silunginn. Torfgarðar voru hvorum megin.  Þessar tilraunir fóru út um þúfur; stíflan brast árið eftir. Myllulækurinn er nú í sínum gamla farvegi, en úr tjörninni. Að vísu rennur lítið vatn úr tjörninni nú, þar sem vatnsveitan stíflaði lækina, en við það stækkaði tjörnin. Þannig átti að hækka vatnsyfirborðið í Gvendarbrunnum og Tjörnunum. Gömlu stíflugarðarnir, sem Rokstad lét gera eru nú á kafi í vatni.
TTóftvö klakhús voru byggð í Heimalæknum, og sjást greinilegar tóftir enn. Eldra húsið byggði Þórður frá Svartárkoti í Bárðardal, árið 1923. Hann var á vegum Búnaðarfélagsins. Tóft þessa klakhúss er niðri undir vatninu, vestan megin lækjarins. Húsið var byggt á bakkanum og tekinn stokkur úr læknum. Hitt húsið var byggt 1927 af Ólafi Sigurðssyni frá Hellulandi, starfsmanni Búnaðarfélagsins. Þá var rafveitustíflan gerð, og yfirborð vatnsins hækkaði; vatnið flæddi upp í klakhúsið frá 1923, og varð því að byggja annað heldur ofar og austan við lækinn.
Á tímabili var klakið bleikju og henni sleppt í vatnið. Sá kaupamaður um veiðina, og var hún oft dágóð, 50-100 bleikjur á dag, í mörg net. Veiðin var send í bæinn, og voru þetta að sjálfsögðu þó nokkur hlunnindi. Bleikja gekk upp í Tjarnirnar og jafnvel Gvendarbrunna.
MyllulækjartjörnLítil kvísl úr Heimalæk rann aðeins vestan við hann og í litla vík, aðeins vestan við ós hans.  Götur lágu þarna um, og lá hellulögð stétt yfir þessa sytru. Fyrir ofan litlu víkina, í slakka við þennan farveg, er mjög gömul tóft, lítil; hún var gömul, þegar C.Z. var barn. Óvíst er eftir hvað þessi tóft er, en C.Z. telur líklegt, að hún geti verið eftir skothús.
Nyrzt í fyrrnefndum malarás, við vatnið, er brattur hóll eða höfði.  C.Z. heyrði hann ekki nefndan neinu nafni, en í skrá A.G. er hann nefndur Riðhóll (23). Það er líklega réttnefni. Þarna voru hrygningarstöðvar silungsins, en kaldavermsl eru beggja megin. Þarna var góð lögn.”
Skv. þessu mun tóftin við Myllulækinn vera leifar myllu, sem þar var, og tóftin við Heimalækinn munu þá vera leifar klakhúss. Ekki er óeðlilegt að “myllan” hafi færst yfir á klakhúsið í hugum kortagerðarmann því í báðum tilvikum er aðkoman svipuð, þ.e. lækirnir hafa runnið að hluta í gegnum húsin.
Gangan ók 1 klst og 1 mín. Frábært veður.

Heimild:
-Örnefnaskrá fyrir Elliðavatn.Riðhóll

Elliðavatn

Elliðavatnsbærinn hýsir eitt elsta steinhús á Íslandi. Elliðavatn var löngum ein þekktasta jörðin í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming. Á þeim tíma stóð enginn styr um þessar umhverfisbreytingar.
ElliðavatnsbærinnHvað hefur eiginlega gerzt sem haft hefur í för með sér svo róttækar breytingar á umhverfi Elliðavatns? Ekki annað en það, að á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Starungur er að vísu ekki lengur eftirsóttur heyfengur og engjaheyskapur allur aflagður fyrir löngu, svo segja má að ekki hafi stór skaði verið skeður. En það er annað þessu tengt sem nútíminn telur verðmæti: Votlendi. Hér var sökkt stórum flæmum votlendis þar sem án efa hefur verið fjölskrúðugt fuglalíf.

Elliðavatn

Elliðavatn á 19. öld.

Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ “er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn” hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að. Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Elliðavatn á 18. öldEkki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, “síðan Kolfiðr hefir spillt henni”.
Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé “kóngl. Majestat.” Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með “iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola” (viðarkol).
Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, “tveir dagslættir” renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup “ef þeim heppnast afli.” Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta “til fálkafjár í Hólmskaupstað”.
Gamla hlaðan, buggð 1862Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar “fer mjög í þurð”. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga “lök og lítt nýtandi”.
Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.
Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist “mikil stofa” þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, “meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað”.
En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.
Frá 1862Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Ætla má þó að myndin sé trúverðug heimild um bæinn og hún er einnig allnokkur vísbending um að Elliðavatn hafi þá þótt markverður bær. Kirkja var þó aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Á teikningu Mayers af Elliðavatnsbænum er aðeins að sjá eina stæðilega byggingu. Hún er með hefðbundnu lagi torfbæja eins og það varð á síðustu öld og snýr stafninum fram. Prýði þessa húss er vindskeið og hefur verið lagður metnaður í að hafa hana viðhafnarlega. Slíkar vindskeiðar voru ekki á bæjum almennt. Skýringuna má ef til vill finna í því, að ábúendur á Elliðavatni voru þá Jón Jónsson silfursmiður og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Kynni að vera að listrænn metnaður silfursmiðsins kæmi þarna í ljós. Að öðru leyti sýnir myndin venjulega og fremur bágborna torfkofa, en hjallur úr timbri stendur sér. Tröðin heim að bænum liggur meðfram hlöðnum grjótvegg sem sveigist til suðurs, enda var algengasta leiðin úr Reykjavík að Elliðavatnsbænum sunnan við vatnið. Hægt var að fara aðra leið norðan vatnsins, en þá þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn úr Helluvatni.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þaðan hélt Jónas för sinni áfram til Þingvalla og Skjaldbreiðar og lenti í frægri villu og útilegu, sem fór þó vel og gaf af sér eitt vinsælasta kvæði Jónasar.
Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið. Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk.
Frá 1862Árið 1860 eignast Benedikt Sveinsson alþingismaður og yfirdómari í Landsyfirrétti jörðina og flutti þangað ásamt fjölskyldu sinni árið eftir. Þann 30. október 1864 fæddist sonur Benedikts og Katrínar konu hans, þjóðskáldið Einar Benediksson.
Benedikt hóf mikil umsvif á Elliðavatni; búskapur var þar fyrst í stað mikill, vinnufólk 11, en auk þess bætt við um sláttinn. Hann ákvað að ráðast í geysimiklar áveituframkvæmdir, réð tugi manna til að gera um eins km langan stíflugarð yfir Dimmu og Bugðu (nokkurn veginn þar sem stífla Rafmagnsveitunnar er nú). Með þessari áveitu á Elliðavatnsengin sem átti að ná yfir 200 ha lands, átti að vera unnt að margfalda heyfenginn. Svo fór þó að draumar Benedikts um að gera Elliðavatn að mestu bújörð á Íslandi vildu lítt rætast. Búskapur gekk saman og Benedikt hvarf úr embætti yfirdómara og fluttist norður að Héðinsflóa sem sýslumaður Þingeyinga.
Benedikt var mikill áhugamaður um byggingu steinhúsa, enda af sumum talinn sjúklega eldhræddur. Hann réðst í það að láta reisa steinhús á Elliðavatni úr hlöðnu grjóti. Hefur það nú um skeið verið notað sem hlaða. Þegar Benedikt var kominn í andstöðu við yfirvöldin hugðist hann stofna án tilskilins leyfis prentsmiðju á Elliðavatni, en næsta lítið varð úr því fyrirtæki. Var rekstur stöðvaður þegar í byrjun. Aðeins tveir ritlingar voru prentaðir þar og var Jón Ólafsson höfundur beggja.
Elliðavatn - mynd Ísl.vefurinnÁ árunum 1923, 1927 og 1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur Elliðavatn. Var jörðin keypt í sambandi við raforkuvinnslu, sem hófst við Elliðaárnar árið 1921. Búskapur var stundaður með hefðbundnum hætti þar til 1941, en þá tók þar til starfa vistheimili fyrir geðsjúklinga, og starfaði það um alllangt skeið. Að því kom að vistheimilið var lagt niður og búskap með öllu hætt. Árið 1963 var samið um það við Skógræktarfélag Reykjavíkur, að það skyldi fá jörðina til varðveislu, frá 1964 var bærinn aðsetur starfsmanns félagsins sem hafði eftirlit með Heiðmörk. Árið 2004 flutti Skógræktarfélag alla starfsemi sína í Heiðmörk og er bærinn nú notaður undir skrifstofur félagsins. Nú hefur verið opnað fræðslusetur í eldri hluta Elliðavatnsbæjarins.

Heimildir m.a.:
-http://www.heidmork.is
-Skin og skúrir á Elliðavatni – Grein eftir Gísla Sigurðsson sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2000.Elliðavatnsbærinn í dag - hlaðan og fjósið vinstra megin

Elliðavatn

Saga Elliðavatnsbæjarins er áhugaverð og samofin sögu Reykjavíkurborgar og þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu öldum.
Fyrstu heimildir um Elliðavatnsjörðina finnast í máldaga frá 1234 en þar segir að Viðeyjarklaustur eigi Elliðavatnið hálft. Við siðaskipti varð jörðin konungseign en ekki fer miklum sögum af jörðinni þar til Innréttingar taka til starfa í Reykjavík upp úr miðri 18. öld. Eitt helsta verkefni þessa fyrirtækis var ullarvinnsla. Ákveðið var árið 1756 að stofna fjárræktarbú á Elliðavatni fyrst og fremst til að bæta þar með kynbótum þá ull, sem yrði tekin til vinnslu, en jafnframt til að tryggja fyrirtækinu næg verkefnið. Til kynbóta voru fluttir inn hrútar af enskum stofni. Sænskur maður, Hastfer barón, mikill áhugamaður um kynbætur sauðfjár rak þetta fyrirtæki fyrst í stað, en fjárbú Innréttinganna var aftur Elliðavatn - bærinnstofnað í Helliskoti þarna skammt frá árið 1757.  Á ýmsu gekk með reksturinn; svo virðist þó brátt, að allt mundi fara skaplega, en þá dundi ólánið yfir. Í búinu kom upp veiki í sauðfénu, aðallega fjárkláði, sem breiddist út með miklum hraða, þannig að ekkert fékkst við ráðið. Um 1760 var sauðfjáreign landsmanna talin nálægt 360 þúsund, en 1770 var hún komin niður í um það bil 140 þúsund. Þetta er talið eitt mesta áfall, sem íslenskur landbúnaður hefur nokkur sinni orðið fyrir. Það er nokkuð sjálfgert að sögu fjárræktarbúsins á Elliðavatni var nú lokið. Var það formlega lagt niður 1764. Árið 1815 var jörðin seld eins og fjöldi konungsjarða þá um mundir.
Árið 1860 eignast Benedikt Sveinsson alþingismaður og yfirdómari í Landsyfirrétti jörðina og flutti þangað ásamt fjölskyldu sinni árið eftir. Þann 30. október 1864 fæddist sonur Benedikts og Katrínar konu hans, þjóðskáldið Einar Benediksson.
ElliðavatnBenedikt hóf mikil umsvif á Elliðavatni; búskapur var þar fyrst í stað mikill, vinnufólk 11, en auk þess bætt við um sláttinn. Hann ákvað að ráðast í geysimiklar áveituframkvæmdir, réð tugi manna til að gera um eins km langan stíflugarð yfir Dimmu og Bugðu (nokkurn veginn þar sem stífla Rafmagnsveitunnar er nú). Með þessari áveitu á Elliðavatnsengin sem átti að ná yfir 200 ha lands, átti að vera unnt að margfalda heyfenginn. Svo fór þó að draumar Benedikts um að gera Elliðavatn að mestu bújörð á Íslandi vildu lítt rætast. Búskapur gekk saman og Benedikt hvarf úr embætti yfirdómara og fluttist norður að Héðinsflóa sem sýslumaður Þingeyinga.
Benedikt var mikill áhugamaður um byggingu steinhúsa, enda af sumum talinn sjúklega eldhræddur. Hann réðst í það að láta reisa steinhús á Elliðavatni úr hlöðnu grjóti. Hefur það nú um skeið verið notað sem hlaða. Þegar Benedikt var kominn í andstöðu við yfirvöldin hugðist hann stofna án tilskilins leyfis prentsmiðju á Elliðavatni, en næsta lítið varð úr því fyrirtæki. Var rekstur stöðvaður þegar í byrjun. Aðeins tveir ritlingar voru prentaðir þar og var Jón Ólafsson höfundur beggja.
Elliðavatn og Heiðmörk hafa af og til komist í kastljós fjölmiðla. Skógareldar hafa komið upp, óáran geisað og leyfislausar framkvæmdir hafa leikið hið friðaða svæði grátt.
Á árunum 1923, 1927 og 1928 eignaðist Rafmagnsveit Upplýsingaskilti í HeiðmörkReykjavíkur Elliðavatn. Var jörðin keypt í sambandi við raforkuvinnslu, sem hófst við Elliðaárnar árið 1921. Búskapur var stundaður með hefðbundnum hætti þar til 1941, en þá tók þar til starfa vistheimili fyrir geðsjúklinga, og starfaði það um alllangt skeið. Að því kom að vistheimilið var lagt niður og búskap með öllu hætt. Árið 1963 var samið um það við Skógræktarfélag Reykjavíkur, að það skyldi fá jörðina til varðveislu, frá 1964 var bærinn aðsetur starfsmanns félagsins sem hafði eftirlit með Heiðmörk. Árið 2004 flutti Skógræktarfélag alla starfsemi sína í Heiðmörk og er bærinn nú notaður undir skrifstofur félagsins.
Saga Heiðmerkur er einnig áhugaverð fyrir margra hluta sakir en hún segir einnig sögu vaxandi byggðarlags í nágrenni svæðisins. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur frá upphafi sinnt svæðinu sem var friðað 1950. Gróðursetning hefur verið í höndum starfsmanna félagsins, fjölmargra landnema en einnig hefur Vinnuskóli Reykjavíkur unnið ómetanlegt starf á svæðinu, en ungingar á þeirra vegum eru enn við störf á svæðinu að sumarlagi. Í dag einbeita starfsmenn sér í auknum mæli að grisjun þó svo að gróðursetning haldi áfram. Hafa ýmsir lagt þar hönd á plóginn, nú síðast Kópavogsbær.
Sigurður Guðmundsson málari hafi hug á því þegar árið 1870 að gera Heiðmörk að útivistarsvæði fyrir Reykvíkinga, en það mál varð ekki að veruleika fyrr en u.þ.b. 70 árum síðar þegar Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, var í reiðtúr um Heiðmörkina þann 16. júní 1935. Erindi hans var að skoða þar kjarrleifar og gróður er leyndust milli hrauna og meðfram Hjöllunum þar sem Vatnsendaborgin trjónir fagurlega enn þann dag í dag.
Eftir þessa ferð kom Hákon fram með hugmynd um friðland og útivistarsvæði fyrir borgarbúa og verndun þeirra kjarrleifa á þessu svæði í grein sem hann skrifaði í ársrit Skógræktarfélags Íslands 1936 og nefndist: “Frá ferðum mínum sumarið 1935.”
Upp úr þessu tóku að þróast í einstökum atriðum hugmyndir um útivistarsvæði Reykvíkinga austan og sunnan Elliðavatns.
VatnsendaborgÁrið 1941 gaf Skógræktarfélag Íslands út bækling, sem nefndist Friðland Reykvíkinga ofan Elliðavatns. Þar var birtur ýmis fróðleikur um svæðið og skýrt frá frumkvæði félagsins í þessum málum.
Nafnið Heiðmörk var fyrst sett fram í útvarpsþætti sem félagið stóð að til kynningar á hugmyndinni, vorið 1941 og var það prófessor Sigurður Nordal sem það gerði. Árið 1946 var Skógræktarfélag Íslands gert að landsambandi skógræktarmanna og var þá stofnað nýtt félag, Skógræktarfélag Reykjavíkur sem tók það við ýmsu sem Skógræktarfélag Íslands hafði unnið að, þar með talið hugmyndinni að stofnun Heiðmerkur. hefur félagið síðan haft umsjón með og annast framkvæmdir á svæðinu samkvæmt samningi sem gerður var við bæjarstjórn Reykjavíkur þann 3. mars 1949.
Fyrsta gróðursetningin fór fram árið 1949 en þá fóru nokkrir starfsmenn félagsins á hestum með plöntur og verkfæri og gróðursettu um 5000 plöntur. Voru það, skógarfura, rauðgreni og sitkagreni og nefnist þessi lundur Undanfari.
Sama ár var lokið við að girða 1350 hektara. Nú var verkið svo vel á veg komið að tímabært var að vígja það formlega. Það gerði þá verandi borgarstjóri Gunnar Thoroddsen á vígsluhátíð sem haldin var sunnudaginn 25. júní 1950, með því að gróðursetja sitkagreniplöntu á svokallaðri Vígsluflöt.
Fljótlega fór að vakna áhugi fyrir stækkun friðlandsins. Það er svo á árunum 1957 – 58 að suðurhluti núverandi Heiðmerkur er girtur, er það svæði úr landi Garðakirkju og Vífilsstaða. Við það stækkaði friðlandið í 2500 hektara. Það er svo árið 1963 Þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur gerir samning um varðveislu Elliðavatnslands að girðingin er færð norður fyrir Rauðhóla. Við það stækkaði Heiðmörk í 2800 hektara og er það í dag að undanskildum þeim svæðum sem Orkuveita Reykjavíkur hefur girt af vegna nálægðar við brunnsvæði.
ÁrNýjustu framkvæmdir í Heiðmörkið 1956 hófu unglingar á vegum Vinnuskóla Reykjavíkur störf á Heiðmörk og hafa þeir unnið í um 2 mánuði á hverju ári, frá 100 og upp í 450. Þessir unglingar hafa unnið stórvirki í skógrækt, göngustígagerð o.fl. og má segja að Heiðmörk sé talandi dæmi um hverju unglingastarf getur skilað. Einnig ber að geta þess að mikið hefur verið gróðursett fyrir gjafafé frá fyrirtækjum og stofnunum og frá einstaklingum sem gefið hafa fé til minningar um nákomna.
Jörðin Elliðavatn var löngum ein sú þekktasta í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming, en hinar frægu Elliðavatnsengjar hurfu. Á þeim tíma stóð enginn styr um þessar umhverfisbreytingar.
Í Reykjavík og næsta nágrenni hafa eðlilega orðið stórfelldar umhverfisbreytingar; það fylgir því að byggja borg. Einhverjar mestu umhverfisbreytingar í borgarlandinu hafa orðið við Elliðavatn, en ekki vegna bygginga. Jafnframt er bújörðin Elliðavatn ekki til lengur, hún er orðin hluti af friðlandinu í Heiðmörk.
Flest nútímafólk hefur enga hugmynd um þær umhverfisbreytingar sem orðið hafa á bökkum Elliðavatns, eða hvernig vatnið leit út á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar. Því þarf að minnsta kosti ekki að lýsa fyrir fólki sem þekkir til á höfuðborgarsvæðinu að vatnið, sem bezt sést af hæðunum ofan við Vatnsenda, er mikil umhverfisprýði og náttúruperla. Ef nauðsynlegt yrði talið að minnka vatnið verulega vegna einhverra framkvæmda er hætt við að rekið yrði upp ramakvein. Vonandi kemur aldrei til þess. En í ljósi alls þess sem búið er að segja og skrifa um uppistöðulón á hálendinu er hins vegar er ekki úr vegi að minnast þess að í aldanna rás og allt fram til 1924 var Elliðavatn miklu minna. Raunar voru vötnin tvö en tveir mjóir álar tengdu þau saman eins og sést á korti frá árinu 1916. Vestara vatnið var kennt við Vatnsenda, en það eystra var nefnt Vatnsvatn, kennt við bæinn á Elliðavatni, eða á Vatni eins og sagt var.
Ásamt með beitarlandinu uppi á Elliðavatnsheiði voru víðáttumiklar og grasgefnar engjar beztu hlunnindi jarðarinnar á Vatni. Túnið var alltaf lítið, en hafi Elliðavatnsbændur náð í starung á engjunum; sem ekki er ólíklegt, þá var hann kúgæft hey og þótti geysileg búbót. Lítið eitt vestan við miðju vatnsins eins og það er nú var allstór eyja sem skildi vötnin nánast að. Úr vestara vatninu rann áin Dimma allar götur niður að brúnni við núverandi Seláshverfi. Þar rann í hana áin Bugða, en svo heitir neðsti og vestasti hluti Hólmsár. Tvö læmi tengdu þó árnar saman við hólinn Skyggni, skammt frá stíflunni sem síðar kom.
HÍ Heiðmörkvað hefur eiginlega gerzt sem haft hefur í för með sér svo róttækar breytingar á umhverfi Elliðavatns? Ekki annað en það, að á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Starungur er að vísu ekki lengur eftirsóttur heyfengur og engjaheyskapur allur aflagður fyrir löngu, svo segja má að ekki hafi stór skaði verið skeður. En það er annað þessu tengt sem nútíminn telur verðmæti: Votlendi. Hér var sökkt stórum flæmum votlendis þar sem án efa hefur verið fjölskrúðugt fuglalíf.
Ekki verður séð að því hafi verið mótmælt árið 1924, eða að tilfinning hafi verið fyrir því að þarna væri verið að vinna náttúruspjöll. En var það svo?
Um það má ugglaust deila, en ljóst er að Elliðavatn, þessi náttúruperla við útmörk höfuðborgarsvæðisins, er að stórum hluta uppistöðulón. Því er á það bent, að í hita undangenginnar umræðu um virkjanir á hálendinu hafa öfgamenn haldið ákaflega fram þeirri skoðun að öll uppistöðulón séu beinlínis ljót. Að sjálfsögðu var skaði að missa votlendið. En í staðinn höfum við fengið stærra og fegurra Elliðavatn.
Í umhverfi Elliðavatns er víðast hvar fagurt um að litast og bærinn sem ber nafn af vatninu var byggður á fallegum stað á nesi sem skagar út í vatnið frá austri. Kvöldfegurð á Vatni er við brugðið; útsýnið fyrst og fremst yfir vatnið og til hæðanna ofan við Vatnsenda. Nú klæðir skógur baklandið; hlíðar Heiðmerkur sem búið var að ganga svo nærri með ofbeit að uppblástur var næsta þróunarskref. Þar er ævintýri líkast um að ganga og víða frábært útsýni yfir það land sem fyrrum tilheyrði jörðinni Elliðavatni, en var þó aldrei stórt. Vatnsendaland var mun stærra og Hólmsland var það einnig; það náði allar götur upp í Bláfjöll, sunnan við Elliðavatnsland.
AlÍ Heiðmörklt er þetta umhverfi mikilfenglegt, en einhver fegursti reiturinn er við smærri vötnin norðaustur og austur af Elliðavatnsbænum: hjá Helluvatni, Hrauntúnstjörn og Kirkjuhólmatjörn. Þessi undrafögru smávötn sjást þegar ekið er sem leið liggur að Elliðavatni framhjá Rauðhólunum. Vegurinn liggur á brú yfirálinn úr Helluvatni og áfram upp í Heiðmörk, en afleggjari er heim að Elliðavatnsbænum. Stöldrum aðeins við þarna áður en lengra er haldið..
Norðan við Helluvatn eru nokkrir lágir gjallhólar af sama uppruna og Rauðhólarnir, en óskemmdir, og verður þetta umhverfi ævintýralega fallegt í lok júnímánaðar þegar lúpínan, sem þar er útbreidd, blómstrar og breiðir bláan lit yfir umhverfi tjarnanna.
Rauðhólarnir urðu til fyrir 4.600 árum þegar glóandi og þunnfljótandi hraunstraumur rann úr eldstöðinni Leiti í Svínahrauni og fylgdi nokkurn veginn sömu slóð til sjávar og Suðurlandsvegurinn. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur taldi að Elliðavatn, eða einhver hluti þess, hafi þá náð þangað sem Rauðhólarnir mynduðust og hefur það eflaust verið tilkomumikil sjón að sjá glóandi hraunstraum þurrka vatnið upp. Hraunstraumurinn hélt áfram niður í voginn sem 3.500 árum síðar var kenndur við Elliða, skip Ketilbjarnar hins gamla. Árnar bera og nafn skipsins og trúlega Elliðavatn einnig.
Vatnið í tjörnunum þremur sprettur fram undan hraununum í Heiðmörk, en að hluta er það úr Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli og undir Selfjalli hjá Lækjarbotnum. Við erum hér í næsta nágrenni Gvendarbrunna; þeir eru suðaustan við Hrauntúnstjörn.
Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
EÍ Heiðmörklliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ “er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn” hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að. Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, “síðan Kolfiðr hefir spillt henni”.
Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Í HeiðmörkVídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé “kóngl. Majestat.” Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með “iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola” (viðarkol).
Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, “tveir dagslættir” renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup “ef þeim heppnast afli.” Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta “til fálkafjár í Hólmskaupstað”.
Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar “fer mjög í þurð”. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga “lök og lítt nýtandi”.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma Skilti við Þjóðhátíðarlundinn - þar sem nýjustu framkvæmdirnar fara framupp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.
Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú.Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist “mikil stofa” þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, “meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað”.
En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.
Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn. Ætla má þó að myndin sé trúverðug heimild um bæinn og hún er einnig allnokkur vísbending um að Elliðavatn hafi þá þótt markverður bær. Kirkja var þó aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Á teikningu Mayers af Elliðavatnsbænum er aðeins að sjá eina stæðilega byggingu. Hún er með hefðbundnu lagi torfbæja eins og það varð á síðustu öld og snýr sJ.C. Schütte - 1845tafninum fram. Prýði þessa húss er vindskeið og hefur verið lagður metnaður í að hafa hana viðhafnarlega. Slíkar vindskeiðar voru ekki á bæjum almennt. Skýringuna má ef til vill finna í því, að ábúendur á Elliðavatni voru þá Jón Jónsson silfursmiður og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Kynni að vera að listrænn metnaður silfursmiðsins kæmi þarna í ljós. Að öðru leyti sýnir myndin venjulega og fremur bágborna torfkofa, en hjallur úr timbri stendur sér. Tröðin heim að bænum liggur meðfram hlöðnum grjótvegg sem sveigist til suðurs, enda var algengasta leiðin úr Reykjavík að Elliðavatnsbænum sunnan við vatnið.
Hægt var að fara aðra leið norðan vatnsins, en þá þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn úr Helluvatni.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þaðan hélt Jónas för sinni áfram til Þingvalla og Skjaldbreiðar og lenti í frægri villu og útilegu, sem fór þó vel og gaf af sér eitt vinsælasta kvæði Jónasar.
Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið. Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má aÞingnesð kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk
Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett “at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú es, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu”.
Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafi verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekki verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og “sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.”
Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns.

Heimild m.a.:
-http://www.heidmork.is
-Gísli Sigurðsson – “Skin og Skúrir á Elliðavatni” I. hluti – Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2000.

Elliðavatn

Elliðavatn

Gísli Sigurðsson skrifar um “Elliðavatn” í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
“Bújörðin Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Ellidavatn-881Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað; þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað.
Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesingasögu, sem skrifuð
var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn” hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var Kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að. Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
ellidavatn-882Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni”.
Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.” Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með ,4ii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola” (viðarkol). Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir” renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.” Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað”. Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð”. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi”.
ellidavatn-883Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé. Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa” þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað”. En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Uggjaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap. Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk
með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
ellidavatn-885Merkir gestir á Elliðavatni Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal yar teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum. Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn. Ætla má þó að myndin sé trúverðug heimild um bæinn og hún er einnig allnokkur vísbending um að Elliðavatn hafi þá þótt markverður bær. Kirkja var þó aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Á teikningu Mayers af Elliðavatnsbænum er aðeins að sjá eina stæðilega byggingu. Hún er með hefðbundnu lagi torfbæja eins og það varð á síðustu öld og snýr stafninum fram. Prýði þessa húss er vindskeið og hefur verið lagður metnaður í að hafa hana viðhafnarlega. Slíkar vindskeiðar voru ekki á bæjum almennt. Skýringuna má ef til vill finna í því, að ábúendur á Elliðavatni voru þá Jón Jónsson silfursmiður og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Kynni að vera að listrænn metnaður silfursmiðsins kæmi þarna í ljós. Að öðru leyti sýnir myndin venjulega og fremur bágborna torfkofa, en hjallur úr timbri stendur sér. Tröðin heim að bænum liggur meðfram hlöðnum grjótvegg sem sveigist til suðurs, enda var algengasta leiðin úr Reykjavík að Elliðavatnsbænum sunnan við vatnið. Hægt var að fara aðra leið norðan vatnsins, en þá þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn úr Helluvatni.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þaðan hélt Jónas för sinni áfram til Þingvalla og Skjaldbreiðar og lenti í frægri villu og útilegu, sem fór þó vel og gaf af sér eitt vinsælasta kvæði Jónasar.
Ellidavatn-887Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið. Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk. Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Úlfljóts ok allra landsmanna þar es nú es, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu”.
ellidavatn-890Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafí verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekM verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.” Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns og nöturlegt til þess að vita að hluti þingstaðarins lenti undir vatni þegar stíflað var. Þá verður það naumast talið til fyrirmyndar að sumarbústaður hefur verið fast uppi við hinn forna þingstað og skilti með nafni Þingness virðist vera hlið að sumarbústaðarlandinu.
Algengt er að sjá í bókum aðra mynd af Elliðavatnsbænum en þá sem Mayer teiknaði og er sú mynd sögð vera teiknuð aðeins 9 árum eftir að Mayer var þar á ferðinni. Vegna Heklugossins 1845 kom náttúruvísindaleiðangur undir forustu Danans J.C. Schiitte til rannsókna á Íslandi og með í för var ungur myndlistarmaður, Emanuel Larsen, sem var ígildi ljósmyndara og vann sitt verk dyggilega.
Teikning, sem oft hefur birst og eignuð er Schiitte þessum, er sögð vera af Elliðavatnsbænum en er þó fremur grunsamleg. Enda þótt skammt sé um liðið frá því bær silfursmiðsins var teiknaður er ekM annað hægt að sjá en að sá bær hafi verið rifinn svo til grunna að enginn kofi hafi eftir staðið, en annar bær byggður með gerólíku lagi; þó ekki burstabæjarstílnum sem ruddi sér til rúms á 19. öldinni. Þarna er kominn þverstæður bær með bæjardyrum fyrir miðju og tveim gluggum sín hvorum megin við þær. Ætla má að loft hafi verið á þessum bæ yfir baðstofu og stofu; að minnsta kosti eru tveir litlir gluggar á þekjunni. Óvenjulegt verður að tefja að þarna er snyrtileg steinhleðsla utan með bænum sem einungis virðist vera til prýði, en grjótgarðar voru yfirleitt ekki hlaðnir öðruvísi en í ákveðnum tilgangi, til dæmis utanum tún eða gerði.
ellidavatn-891Í forgrunni myndarinnar er mjó vík sem er harla ósennilegt er að hafi nokkru sinni getað verið þarna og ennþá síður stenzt það, að sá bratti sem var og er frá bæjarstæðinu niður að vatninu er nánast ekkert til þarna. Ótrúlegast er samt að hvorki standa eftir tangur né tetur af bæ silfursmiðsins eftir svo fá ár. Jafnvel ennþá síður marktæk er teikning af þriggja bursta steinbæ á Elliðavatni, sem birt er í ritröðinni, Reykjavík – sögustaður við Sund. Þar er sagt að þetta muni vera húsið sem Sverrir Runólfsson byggði á Elliðavatni. Það var steinhús sem Sverrir byggði og ekkert svipað burstabænum á myndinni. Árið 1860 beinist kastljósið í fásinni hins íslenzka bændaþjóðfélags í svo ríkum mæli að Elliðavatni, að staðurinn verður á hvers manns vörum. Benedikt Sveinsson, alþingismaður og yfirdómari í Reykjavík, kaupir þá jörðina af ekkjunni Guðrúnu Jónsdóttur með það fyrir augum að gera hana að stærstu bújörð á Íslandi; jafnvel að þar yrði „fyrirmyndarbýli” eins og Benedikt orðaði það í bréfi til Jóns Sigurðssonar:
„Eg skal gjöra Elliðavatnið að Mönstergaard…” Benedikt var stórhuga maður, forframaður úr laganámi í Kaupmannahöfn og þótti höfðinglegra að búa á fallegri jörð en í hinni hálfdönsku Reykjavík, enda sagði hann: „…ég vil heldur láta dysja mig lifandi niður í grænan hól en svelta og kafna hérna á mölinni þar sem enginn kraftur, líkamlegur eða andlegur þrífst.” Kaupverðið var 3.000 ríkisdalir, mikið fé fyrir mann sem var fremur skuldugur en auðugur. Þessu var þó hægt að koma í kring með því að Katrín kona Benedikts, skagfirzk höfðingjadóttir, fékk fyrirfram greiddan arf frá foreldrum sínum á Reynistað. Fyrir utan rúmlega 2.000 ríkisdali gat Katrín lagt með sér til búsins fjórar mjólkandi kyr, 15 fullorðna sauði, 50 veturgamlar gimbrar, 4 hesta með reiðingum, 20 lömb og þar að auki sængur og kodda. Eitt var víst: Hafi sá áratugar gamli torfbær, sem heldur vafasöm teikning sýnir að hafi staðið á Elliðavatni, þá ætlaði assessorinn ekki að flytja í hann. Úti í Kaupmannahöfn hafði hann kynnst Sverri Runólfssyni steinhöggvara, sem síðar byggði Þingeyrakirkju í Húnaþingi og Íþöku, bókhlöðu Lærða skólans í Reykjavík. Benedikt linnti ekki látum fyrr en hann fékk Sverri til að flytjast heim frá Danmörku; borgaði farið og hét honum ríflegum árslaunum. Það urðu þó vanefndir á launagreiðslunum og Sverrir fór í fússi frá verkinu áður en húsið var risið. Það er því ekki hægt að telja Elliðavatnshúsið eitt af verkum Sverris, en það er engu að síður eitt af elztu steinhlöðnu húsunum á landinu. Eins og fram kom í fyrri greininni var þetta ekki steinbær með burstum, heldur hús með venjulegu lagi og fjórum gluggum á suðurhlið, 50 fermetrar að stærð, kjallari, hæð og loft. Þetta hús stendur enn á Elliðavatni, bárujárnsklætt að vísu og búið að byggja við það.
ellidavatn-892Á árinu 1861 er assesorinn fluttur að Elliðavatni með fjölskyldu sína og bústofninn er þá 200 fjár, 8 kýr og 7 hestar. Í heimili eru 16 manns með vinnukonum og vinnumönnum, en frú Katrín flutti hálfnauðug uppeftir og leið eins og hún væri í fangelsi. Það hafa líka verið mikil viðbrigði fyrir hana að láta af sínu hógværa yfirstéttarlífi í Reykjavík og fara að stýra búi. Það hefur hún orðið að gera því húsbóndinn fór ríðandi til vinnu sinnar í Reykjavík að morgni og það sem verra var: Hann kom oft seint heim og var þá drukkinn.
Benedikt Sveinssyni var margt vel gefið. En í aðra röndina var hann eins og bandvitlaus maður. Áföllin létu heldur ekki á sér standa á Elliðavatni. Fjárkláði tók sig upp og það var reiðarslag. Benedikt missti trú á lækningum og gerðist ákafur niðurskurðarsinni. En fjárbú sitt missti hann og í framhaldi af því lét hann eins og óður maður og réðist ákaflega á stjórnvöld í blaði sínu, Íslendingi. Heimatilbúinn ófriður magnaðist þegar Benedikt hugðist bæta Elliðavatnsengjar með áveitu. Hann lét stífla Dimmu og Bugðu og Elliðaárnar þornuðu. Það gat hann vitað fyrirfram og þar með að Thomsen kaupmaður, sem átti laxveiðiréttinn, biði stórtjón. Af þessu spratt langvarandi málaþras.
Elliðavatnsbóndinn herti á drykkjunni samfara öllu þessu. Myrkfælni hans var fræg. Bágt átti hann með að ríða upp að Elliðavatni á kvöldin eftir að dimmt var orðið; varð jafnvel að drekka í sig kjark til þess. Menn höfðu orðið úti á þessum slóðum, illa búnir í vetrarveðrum. Til dæmis rakst ég á heimild um að langalangafi minn, Eyvindur bóndi í Miðdalskoti í Laugardal, hafði drukknað í Bugðu í marzmánuði 1823. Ekki sýnist Bugða þó vera neitt skaðræðis vatnsfall.
ellidavatn-893Á fyrstu búskaparárum Benedikts og Katrínar á Elliðavatni varð Magnús nokkur frá Lækjarbotnum úti við vatnið. Líkið var látið standa uppi í Elliðavatnsbænum og var því um kennt að mikill reimleiki fór að gera vart við sig. Hafði fólk stundum ekki svefnfrið vikum saman fyrir söng og drykkjurausi á frönsku, höggum og hurðaskellum. Ýmsan annan óskunda gerði þessi afturganga Magnúsar, til að mynda sligaði hún tvö hross. Mest sótti þessi draugur þó að vinnumanninum Erlendi, sem verið hafði drykkjufélagi Magnúsar. Eftir að Erlendur fór frá Vatni færði draugurinn sig í beitarhús og loks út í mýri þar sem Magnús hafði orðið úti. Var hann eftir það nefndur Mýrardraugurinn. Átti hann sinn þátt í því að Benedikt bjóst sífellt við því að mæta draugi á leiðinni upp að Vatni.
Gæfan varð ekki samferða þessari fjölskyldu að Elliðavatni. Það voru líkt og álög talsvert löngu síðar, 1. júní 1900, þegar sonur þeirra hjóna, efnismaðurinn Ólafur Sveinar Haukur, þá 28 ára gamall, átti leið heim að Elliðavatni til að vera viðstaddur úttekt á jörðinni fyrir hönd erfingja. Þetta var greið og hættulaus leið ef farið er sunnan vatnsins, en norðan megin þurfti að komast vfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn milli Elliða- og Hellisvatns. Þeim megin fór Ólafur Sveinar og kallaði á ferju við álinn, en fékk ekki svar. Hann ákvað að sundríða, klæddur þungri kápu og skjöl tók hann úr hnakktösku og stakk inn á sig. En eitthvað óvænt kom fyrir; hesturinn steyptist í álinn og flæktist í taumnum. Ólafur varð undir og þótt hann væri vel syndur dugði það ekki; hann sökk og drukknaði.
ellidavatn-894Gæfan brosti hinsvegar við þeim Elliðavatnshjónum 31. október 1864 þegar frú Katrín varð léttari löngu fyrir tímann og drengur fæddist. Hann var skírður Einar og varð á fullorðinsárum svo frægur og umtalaður með þjóð sinni sem stórskáld og ævintýramaður, að núna, 60 árum eftir að hann lézt, selst ævisaga hans eins og heitar lummur. Nútíminn hefur ekki lengur ljóðin hans á hraðbergi eins og menn höfðu á fyrri hluta 20. aldarinnar, en hann dáist að skáldinu og manninum sem lifði eins og greifi í útlöndum á því að stofna hlutafélög og gera út á vonir og bjartsýni. Svo segjum við núna: Sem betur fer sluppu hinir fögru fossar okkar frá þessu óskaddaðir. Sama ár og þjóðskáldið tilvonandi fæddist varð assessorinn á Elliðavatni þingmaður Árnesinga. Samtímis átti hann að sinna störfum sínum í húsi Landsyfirdóms við Austurstræti. Uppi á Elliðavatni mátti frú Katrín una með börnin þeirra; stolt höfðingskona með eigin reikning í verzluninni Glasgow. Það var í hæsta máta óvenjulegt. Þar kom að eyðslusemi hennar gekk fram af húsbóndanum og þóttist hann til neyddur að loka fyrir úttektir frúarinnar á munaðarvöru. En um hlöðin á Elliðavatni vappaði Einar litli; þar liggja bernskuspor hans og ugglaust niðri við vatnið sem ævinlega hefur mikið aðdráttarafl á unga sveina með ævintýrahug. Hann var þriggja ára þegar hann eignaðist systurina Kristínu, en ári síðar kom dauðinn og sótti Svein litla bróður hans, sem þá var bara 6 ára. Það voru bæði skin og skúrir á Elliðavatni.
ellidaar-1880Það sem næst bar til tíðinda á Vatni var að hingað til lands kom danskur áveitumeistari, Niels Jörgensen, árið 1869. Næsti draumur í draumalandinu var að hann kæmi á stórkostlegri áveitu; nú skyldu Elliðavatnsengjar bættar svo um munaði. Þá voru 60 menn ráðnir í vinnu við að hlaða kílómetra langan stíflugarð sem náði þvert yfir Dimmu, útrennslið úr Elliðavatni. Með því vannst tvennt: Assessorinn gat veitt vatni á engjarnar og haft vatnsrennslið í Elliðaánum á valdi sínu. Honum þóknaðist að skrúfa fyrir um leið og laxveiðitíminn hófst sumarið 1869 og allt varð vitlaust.
Áður en lögbanni hafði verið komið á hleypti Benedikt úr stíflunni og vatnsflóðið sópaði
laxastiganum burt. Þá hefur verið gaman á Elliðavatni. En ekki til langframa. Reiðarslagið dundi yfir 19. ágúst 1870 þegar Benedikt Sveinsson var sviptur embætti fyrirvaralaust. Ugglaust var það ekid að ástæðulausu og ekki fékk hann góða einkunn hjá Jóni Sigurðssyni: „Bensi var efnilegur, en hann er strax grunnskemmdur, – og svo er það fylleríið!”
Næsti draumur á Elliðavatni snerist um prentsmiðju og blaðaútgáfu. En til þess vantaði fé og næst var Elliðavatnsbóndinn önnum kafinn við fjársöfnun í þessu augnamiði. Sumir gamlir samherjar töldu hann nú genginn af göflunum og ekki var það fjarri sanni, því sjálfur hirti hann hluta þess fjár sem tókst að skrapa saman.
Blaðið Þjóðólfur birti þá frétt 9. marz 1872 að leturstokkar og pressa væru í smíðum á Elliðavatni, en von væri á pappír, letri og svertu með næsta skipi. Meinið var, að leyfi þurfti til prentsmiðjureksturs og slíkt leyfi hafði Elliðavatnsbóndinn ekki.
Heima á Vatni beið prentari verkefnalaus og fór að verða óþolinmóður. Hann fór að prenta ýmislegt
smálegt í leyfisleysi, sem varð til þess eins að sýslumaðurinn kom og innsiglaði græjurnar. Leyfið fékkst aldrei.
einar ben um sextugtBensi var sagður þrotinn að kröftum eftir þetta, en þó ekki meir en svo að sumarið 1872 fæddist þeim hjónum sonurinn Ólafur Sveinar Haukur sem áður er frá sagt. Um haustið hafði frú Katrín fengið nóg og flutti til Reykjavíkur með tvö börn sín og varð þar með hálfgerð betlikerling. En mælirinn var fullur og formlega var gengið frá skilnaði þeirra hjóna í desember 1872. Einsi litli varð eftir hjá hinum galna föður sínum á Elliðavatni.
Nú var fátt um fína drætti í steinhúsinu á Elliðavatni. Búskapurinn hafði drabbast niður og slægjur á hinum rómuðu engjum voru leigðar út til manna í Reykjavík. Sárast hefur verið að húsmóðurina vantaði. Hjón voru fengin til að sjá um heimilishald, en voru ekki vandanum vaxin og sóðaskapurin gekk út yfir allan þjófabálk. Einar litli undi hag sínum illa, enda varð afleiðingin af sóðaskapnum sú að hann fékk sull. Faðir hans unni honum mjög, en hann var út og suður á ferðalögum og gat ekki sinnt börnunum, Einari og Kristínu. Sjálfsagt hefur það bjargað Einsa litla að hann var um tíma sendur í fóstur til Gríms Thomsens, skálds og bónda á Bessastöðum. En það var ekki til frambúðar.
Þjóðhátíðarsumarið 1874 ferðbjuggust þeir feðgar frá Elliðavatni og riðu yfir fjöll og firnindi norður í land, því Benedikt hafði verið skipaður sýslumaður Þingeyinga. Búið á Elliðavatni fól hann í hendur Jóni bróður sínum. Svo fór eftir mikið þras, að hann hélt ekki Elliðavatninu lengur, enda hafði hann slegið lán fyrir stærstu, gjaldföllnu veðskuldunum og ekki staðið í skilum með afborganir. Haustið 1876 urðu eigendaskipti þegar lánveitandinn, Sæmundur Sæmundsson í Reykjakoti í Ölfusi, fékk landshöfðingjaritarann til að ljúka málinu.
Kastljós fréttanna hafði oft beinzt að Elliðavatni í hálfan annan áratug. Nú komu þeir tímar að Elliðavatnsbændur voru ekki fréttaefni. Um 1907 keyptí Páll Stefánsson Elliðavatn fyrir andvirði nokkurra jarða sem hann hafði erft. En honum búnaðist ekki þar; hann seldi jörðina og flutti að Ásólfsstöðum í Gnúpverjahreppi árið 1917 og varð vel metinn sunnlenzkur höfðingi með hökutopp á
ljósmynd sem Pétur Brynjólfsson tók af Elliðavatnsbænum 1910 má sjá að búið er að byggja tímburhús vestan við steinhúsið og má gera ráð fyrir að Páll hafi byggt það. Líklega hefur steinhúsið verið kalt, enda var þá ekki um neina góða einangrun að ræða, helzt að mór væri notaður til þess eða moð.
Timburhúsið sem sést á myndinni frá 1910 stendur ennþá, en annað hús var byggt vestan við
það 1946, einnig úr timbri. Þá var sett upp kúabú, sem kann að virðast undarleg ráðstöfun á túnalausri jörð, en tilgangurinn var sá að koma á fót vistheimili fyrir vinnuhæfa sjúklinga af Kleppsspítala. Þeir unnu við búið og sú starfsemi stóð til 1960. Á ljósmynd Péturs Brynjólfssonar má sjá skúr niðri við vatnið, sem greinilega hefur verið búið í, en menn vita ekki lengur deili á honum. Þarna sést steinbrú sem notuð var til að stikla yfir álinn og auðvelda mönnum að komast á engjarnar. Þar sést einnig bátur á leið yfir álinn; fínir menn og spariklæddir á ferð.
Síðasti ábúandinn á Elliðavatni, sem bjó þar á hefðbundinn hátt, hætti 1941. Þá hafði verið kippt
grundvelli undan þeim búskap á jörðinni, sem reistur var á engjaheyskap og túnið var eftir sem
áður afar lítið. Þessi umstópti urðu með því að Rafmagnsveita Reykjavíkur keypti jörðina á árunum
1923-28 af Krisjáni Ziemsen, bæjarstjóra í Reykjavík, Þórði Sveinssyni, lækni á Kleppi, og Emil Rockstad, sem var norskur verzlunarmaður. Ugglaust hefur þessi þrenning verið með einhverjar fyrirætianir um nýtingu á jörðinni – eða vatninu, en ekki er vitað hverjar þær voru. Þeir fengu hver um sig að halda eftir einum hektara lands.
En hversvegna sóttist Rafveitan eftir Elliðavatni?
Forsaga þess er virkjun Elliðaánna, sem hafði verið á döfinni frá 1914, en fram að þeim tíma hafði gas orðið ofaná sem ljósgjafi. Elliðaárnar voru virkjaðar 1920, en veruleg óþægindi urðu á næstu árum af völdum ísmyndunar í ánum annarsvegar og hinsvegar af vatnsskorti yfir
sumartímann. Lausnin var vatnsmiðlun með stíflu við ELliðavatn og stækkun vatnsins um !
helming. Fyrsta tilraun í þessa veru var 600 metra langur torfgarður uppi á Elliðavatnsengjum, en 1928 var gerð jarðvegsstífla með timburþili og grjótvörn. Síðar var stíflan steypt og hækkuð og þá hafði vatnsborð Elliðavatns hækkað til muna.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2000, bls. 10-12.
-Lesbók Morgunblaðsins 19. febrúar 2000, bls. 10-12.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Helluvatn

Örnefni eru ekki bara örnefni. Þau geta einnig verið rangnefni í minni annarra er telja sig veita betur. Örnefni eiga það nefnilega til að breytast, bæði mann fram af manni sem og á milli manna í gegnum tíðina. Fólk flytur á brott og nýtt flytur að. Örnefni skráð á einum tíma af tilteknum aðila haft eftir öðrum slíkum geta haft gildi sem slík, en þau þurfa hvorki að vera hin einu réttu frá upphafi né endanleg. Þegar fjallað er opinberlega um örnefni á tilteknu landssvæði má telja víst að ekki verða allir sammála.

Í Morgunblaðinu í maí 1957 er grein; “Svipast um eftir sumrinu“, á bls. 5.:

“Sumrinu hefur dvalizt á leið sinni til Reykjavíkur. Tré standa nakin í görðum og knattspyrnuvellir nýorðnir færir.

Svipast um eftir sumrinu

Mynd með meðfylgjandi grein í Mbl.

Fréttamenn Morgunblaðsins ákváðu þess vegna að leggja land undir fót og svipast um eftir fyrsta þætti sumarsins. Ekki höfðu þeir lengi farið er vestanblærinn og fuglar sungu. Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru ung svanahjón á sundi og fögnuðu blíðunni. Þau voru feimin við gestkomuna, litust á, hófu sig af pollinum og flugu hratt til heiða.
Hretleifar í Hengli blikuðu í sólskini og bliknuðu. Skýjaslitur hurfu hvert af öðru austur fyrir fjall. Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá. Fiskurinn var latur í birtunni og sinnti ekki táli. Það lagast með kvöldinu.

Fé

Fé.

Árið er stór sólarhringur. Á morgni þess vaknar landið, skríður undan hvítum næturfeldi og klæðist gróðri, fuglum og ferðamönnum.
Fólkið í landinu hristir af sér skammdegisdrungann og fyllist verkmóði og lífsgleði á ný. Borgarbúar fara um helgar að dytta að sumarhreiðrinu síðan í fyrra eins og maríuerlan. Fátt bragðast þeim ljúfar en bröndur, sem þeir hafa veitt sjálfir, soðnar á primus uppi í hrauni og étnar með jurtum úr eigin garði. Lömbin fylgja sumrinu. Þau brölta klaufalega umhverfis mæður sínar, þegar nálin birtist í túnum, dafna með henni, verða stríðin og státa og hlaupa spretti í hóp um á lygnum síðkvöldum.
Þegar sumri lýkur eru þau ekki lengur lömb, þau eru vísast vaxin mæðrum sínum yfir höfuð. Þá fáum við dilka kjöt og sultu.
Engir fagna sumrinu jafnmjög og nautgipir. Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur vetrarins taka á rás eftir gljúpum túnum og vita halar upp. Kálfar, sem aldrei hafa séð víðari veröld en fjósið, staðnæmast ráðvana og litast um áður en þeir hlaupa í fyrsta sinn. Eftir nokkra stund róast hópurinn og fer að bíta sinuvafinn nýgræðing.
Skuggar teygjast í austur þegar fréttamenn komu þreyttir úr sumarleit sinni. Þeir höfðu erindi sem erfiði.

Hrauntúnstjörn og nágrenni

Hrauntúnstjörn og nágrenni.

Í Morgunblaðinu í júní 1967 skrifaði Rg eftirfarandi í velvakanda, í framhaldi af framangreindri grein, undir fyrirsögninni “Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum”: “Í Morgunblaðinu í dag (11. maí) er á 5. síðu efst mynd af á og tveim lömbum hennar, sem horfa upp yfir skilrúm í kró. Undir er svo smágrein: „Svipast um eftir sumrinu”. Þar standa eftirfarandi setningarhlutar, sem ég gjarna ætla að gjöra við smá athugasemdir höfundi til athugunar, en þó aðallega honum og öðrum, sem lesa kunna þessi orð mín, til umhugsunar eftirleiðis og fróðleiks.
Því bæti ég við einu málfræðilegu hugtaksatriði, sem ég hjó eftir í upphafi greinar í fylgiriti, er lá innan í Morgunblaðinu. Þetta eru athugunarklausur mínar. Eru þær merktar bókstöfum a) til c). — Þær gefa aðallega tilefni til að skjalfesta til athugunar nokkur örnefni og notkun fárra orða og hugtaka.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

a) „Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru…svanahjón”. Eftir þessum orðum að dæma (og framhaldi þeirra) virðist greinarhöfundur hafa skroppið suður yfir Bugðu á brúninni, sem setuliðið — hér á árunum eftir 1940 — lagði yfir ána af Tryppanefsoddanum, og þá um leið veginn beggja vegna að brúnnni, og fluttu síðan eftir vegi og brú Rauðhólana burtu. (Því að nú er aðeins lítill hluti eftir af Rauðhólunum eins og þeir voru frá náttúruinnar hendi). Brú þessi er handriðalaus hleri, en slíkar trébrýr yfir smáár, læki og vegaræsi voru á áratugunum í kringum síðustu aldamót, nefndar: „hlemmur”. (Þaðan er nafnið: Hlemmtorg neðan við Laugarveginn, þar sem Rauðaráin féll niður áður en hún var leidd í rör neðanjarðar, því á henni var „hlemmur” þar sem Laugavegurinn lá yfir ána (lækinn réttara).
Verið getur að „litla tjörnin”, sem höf. nefnir þarna, sé Hrauntúnsvatn, nema um smátjörn, nánast vorleysingapoll sé að ræða, en af þeim er venjulega töluvert þarna í Hólmsengjunum um þetta leyti árs og lengi fram – eftir, því alfestaðar er hraun undir.

Hrauntún

Hrauntúnsvatn – minjar eru við vatnið miðsvæðis.

Hrauntúnsvatn (Hrauntún mun hafa verið þarna — um eitthvert skeið — smáhjáleiga frá Hólmi) er stærst af vötnunum þarna og liggur rétt suður af austurenda Rauðhólanna. Í vatnið, og áður gegnum Helluvatn, rennur Suðurá (nafngift frá Hólmi). Hún kemur austan og ofan fyrir Silungapoll, og með afrennsli úr honum. Það kom einnig með vatnsmagnið úr Gvendarbrunnum áður en það var gert að neyzluvatni. Reykvík (ekki „vis”) inga, (sbr.: Reykvískur). Aðeins sunnan við Hrauntúnsvatn er Kirkjuhólmatjörn hjá Jaðri í Heiðmörk. Vatnsmagn það, er rann úr þessum vötnum, myndaði nokkuð vatnsmikla á, er hét „Dimma” og fellur hún í Elliðavatn. Brúin á veginum að bænum Elliðavatni, að Jaðri og þeim megin í Heiðmörk, er yfir Dimmu. En nú er venjulega haft svo hátt í Elliðavatni (Rafmagnsupphitaða stífla), að árinnar gætir ekki.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

b) „Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá”. Hvorki af þessum orðum höf. né þeim, er á undan standa eða á eftir koma er hægt að sjá hvar þetta var. Þarna nálægt Rauðhólunum er engin á, sem heitir Hólmsá — réttu nafni. En norðan við hólana og fast norðan við túnið á bænum Hólmi rennur áin Bugða, sem ég hef nefnt hér á undan, og sem með einni af þeim óteljandi bugðum myndar Tryppanefið áður nefnda. — Áin er ekki löng. Hún var aðeins um 10 km. áður en Rafmagnsuppistöðustíflan var gerð fyrir neðan Elliðavatn, en við það var Bugða leidd inn í lónið, nú Elliðavatn, um tveim km. ofar.

Hólmsá

Hólmsá.

Bugða myndast af tveimur vatnsföllum: Fossvallaá, sem kemur alla leið austan undan Hengilfjöllunum, af Bolavöllum og víðar og fellur vestur og niður milli bæjanna Lækjarbotna í Seltjarnarnesshreppi, og Elliðakots í Mosfellssveit, síðast um skeið í tveimur kvíslum og rennur sú nyrðri í gegn um Nátthagavatn, lítið vatn skammt sunnan við túnið að Elliðakoti. Í einum farvegi mætir hún þó Selvatnslæk (öðru nafni: Selvatns-ÓS) beint norður af Neðrahraunsnefinu fyrir neðan Lækjarbotna, — en vestan í og á Neðra-Hrautjarnnefinu er nýbýlið (frá um 1925) Gunnarshólmi. — Um 2 km. neðar var vað á Bugðu, þar lá Suðurlands(Austurlands-) vegurinn yfir ána. Þeir ferðamenn, sem komu austan yfir „Heiði” og ætluðu til Reykjavíkur, Bessastaða, Hafnarfjarðar og Suðurnesja, sáu aðeins einn bæ nokkurn spöl neðar með ánni, Hólm.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Vaðið var því nefnt: Hólmsvað á Bugðu. En flestir létu sér nægja að segja aðeins: Hólmsá. Þannig er þetta ranga nafn komið inn í málið, og hefur því líka verið klínt inn á kortin. Brúin, sem vegurinn liggur nú um, var gerð á ána fast ofan við vaðið og sér enn fyrir vaðinu á árbökkunum beggja vegna. Neðri endi (ós) Bugðu mætti Dimmu þar neðan við er hún féll aftur úr Elliðavatni, rétt suður af suðurenda slakkans, sem liggur suður frá skörpu beygjunni á Rauðavatni, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshlykkinn. Þar, sem árnar komu saman, stendur enn dálítil hraunstrýta; heitir hún Hólmaskyggnir. Er þar nú sumarbústaður og hafa verið gerðir stallar neðst um skyggninn og plantað í stallana. Það er vatnsmagin Dimmu og Bugðu, sem þarna myndar Elliðaárnar. Þarna féllu þær strax fram í tveimur kvíslum þegar ekki var sáralítið vatn í ánum, en þó aðalkvíslin að suðvestan. Sléttlendið, — upp gróið hraun, — á milli kvíslanna, heitir: Vatnsendahólmar; þaðan er nafnið á Hólmaskyggni. Rangnefnið á Bugðu mun líklega reynast nokkuð lífseigt eins og títt er um margar málvitleysur og drauga. En fáir munu veita því athygli að áin sýnir og skrifar sjálf með rennsli sínu að hún heitir Bugða.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

c) „Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur (auðkennt hér) vetrarins”. Segið mér! Hefur nokkur séð kýr sitja? Ég man ekki til þess að ég hafi nokkru sinni séð kýr eða aðrar nautkindur sitja á rassinum — ótilneyddar. Man ekki betur en að þær leggist niður með því að krjúpa á kné framfóta og láti síðan afturhlutan hníga á eftir níður á aðrahvora hliðina. Og upp minnir mig að þær rísi aftur með afturhlutan á undan. Minnir að hitt sé undantekning og þá af einhverjum sérstökum ástæðum. Nei, Ég held að „kyrrsetakreppa” (Stgr. Th.) mannfólksins eigi ekki við um húsdýrin — eða dýr yfirleitt — heldur kyrrstöðu stirðnun (sem kallað var: innistaða) vetrarins, og sé kyrrstaðan sízt betri, er til lengdar lætur. Munu ýmsir menn, bæði karlar og konur, geta um það borið, þeir er mikið verða að vinna standandi, — t.d. prentararnir, handsetjararnir við leturkassanna.
HólmurÞá vil ég loks benda á eitt orðatiltæki, sem ég aldrei get fellt mig við, en sem mikið kveður að bæði í ræðu og riti, og líklega hjá þorra manna, því að það mun vera orðið gamalt í málinu okkar. Eitt af því marga, sem við höfum látið okkur sæma að apa hugsunarlaust, og að óþörfu, eftir Dönum. Sannast hér sem jafnan að „auðlærð er ill danska”, og það bókstaflega.
Ég tek þetta hér með af því að ég hnaut um þetta orðatiltæki strax í annarri línu og efst á síðu í fjórblöðungi, er lá innan í Morgunbl. í dag (11/5) — (í réttri íslenzkri merkingu, en ekki í ensku merkingunni: today, sem flestir virðast nú hafa gleypt til notkunar bæði í ræðu og riti, íslenzku máli til stórskemmda af því að íslenzkan: „í dag” þýðir alveg bundinn tíma, en ekki lítt takmarkaðan tíma, bæði fram og aftur, eins og enskan: „today” gerir).
Orðatiltækið er: „menn og konur. ” Seg mér (og öðrum) hver þú, sem geitur: Hvaða dýrategund eru konurnar fyrst að taka þarf fram svona skýrt að þær séu ekki menn?
Ég þarf ekki að skrifa meira um þetta. Hver einasti heilvita og hugsandi maður, hvort sem er karl eða kona (orðin: karl þýðir ekki gamal karlmaður og kona þýðir ekki aðeins gift kona, slíkt eru síðari tíma rangtúlkanir orðanna) getur svarað spurningunni sjálfur rétt, ef hann aðeins vill hugsa út fyrir áunnin vanatakmörk, sem eru í raun og veru heimska.”
Vinsamlegast,
Rg”.

Í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar skrifar Karl E. Norðdahl, bóndi á Hólmi athugasemdir við áður fram komnar athugsasemdir undir fyrirsögninni “Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm”:
„Velvakandi!

Hólmur

Hólmur – Karl E. Norðdahl lengst til hægri.

Í dálkum þínum fimmtudaginn 15. júní sl. er birt langt bréf frá bréfritara, sem nefnir sig Rg., og ber það yfirskriftina „Litazt um eftir réttu máli (íslenzku) og réttum örnefnum.” Tilefni ritsmíðar Rg. er smágrein, sem birtist í Mbl. 11. maí sl. Rg. hefur fundið sig knúinn til að „fræða” höfund þeirrar greinar sem og aðra lesendur Mbl. um ýmis örnefni umhverfis Hólm og gengur honum vafalaust gott eitt til. Því miður hefur Rg. þó ekki ekkert betur til en svo, að óhjákvæmilegt er að leiðrétta fjölmörg atriði í grein hans.

Bugða

Bugða.

Nafnið Hólmsá er mjög gamalt. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá, þar sem núverandi Hólmsárbrú er (og þjóðvegur austur fyrir fjall). Þá brú, sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888, sbr. Árferði Íslands í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur. Fossvallaá, sem Rg. talar um er nú ekki nema nafnið eitt.
Fyrir 1920 rann hún meiri hluta ársins en undanfarna áratugi hefur hún verið þurr nærri allt árið, rennur aðeins í stórleysingum.” Upptök Fossvallaárinnar (hún hét reyndar Lyklafellsá austan Fóelluvatna) voru í Engidal og Marardal í Hengli (ekki á Bolavöllum) og heitir hún þar Mará. Sú á hverfur í jörð á Norðurvöllum.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Rg. talar um Selvatnslæk (öðru nafni Selvatnsós). Þau örnefni eru ekki til og hafa aldrei verið það. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur. Þaðan rennur Hólmsá norðan við bæinn Gunnarshólma (hann var byggður 1928) undir Hólmsárbrú suður um Heiðartagl. Þar féll Ármótakvísl (stífluð 1961) úr Hólmsá í Suðurá.

Hrauntúnstjörn og nágrenni

Hrauntúnstjörn og nágrenni.

Hólmsá fellur síðan sem leið liggur vestur með þjóðveginum norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá, ekki Bugða, allt vestur á móts við Baldurshaga. Síðan heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða þar til hún fellur í Rafveitulónið. Nafnið Bugða á þessum hluta árinnar var notað af ábúendum Elliðavatns og Grafar (Grafarholts). Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá og lagði veg af Suðurlandsvegi í Rauðhóla árið 1926, ekki „setuliðið hér á árunum eftir 1940″, eins og greinarhöfundur Rg. kemst að orði.
Rg. talar um vað á Hólmsá (eða Bugðu, eins og komizt er að orði) fast neðan við núverandi Hólmsárbrú, og að þar hafi þjóðleiðin áður legið. Þetta er rangt. Þarna befur aldrei verið vað. Þjóðleiðin lá hér áður fyrr yfir Ármótakvísl, sunnan við bæinn Hólm og yfir Hólmsá um 1/2 km neðan við Hólm.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Hraunsnef er aðeins eitt, ekki tvö eins og greinarhöfundur telur. Í Silungapoll fellur Hraunlækur að norðan og kem ur upp í Hraunsnefi. Úr Silungapolli fellur Silungapollsá sunnan við Höfuðleðurhól, jökulnúna grágrýtisklettaborg. Silungapollsá sameinast Ármótakvísl við Ármót og heitir eftir það Suðurá. Stóra tjörnin vestur af Gvendarbrunnum heitir Hrauntúnsvatn og því síður Helluvatn eins og Rg. talar um.

Helluvatn

Helluvatn.

Helluvatn er vatnið sunnan Rauðhóla. Segja má að Rg. sé nokkur vorkunn að rugla saman örnefnunum Hrauntúnstjörn og Helluvatni, þar sem nafnavíxl hafa orðið á þessum vötnum á herforingjaráðskortinu frá 1908 af þessu svæði. Og enn gengur þessi sama vitleysa aftur á endurskoðuðu korti Landmœlinga Íslands frá útgefnu korti 1966 (blað 27, mælikvarði 1:100000). Má því segja, að erfiðlega ætli að ganga að kveða þennan draug niður. Suðurá féll áður í Hrauntúnstjörn í tveimur kvíslum um Hrauntúnshólma. Sunnan Hrauntúnstjarnar má enn sjá tóftarbrot af eyðibýlinu Hrauntúni. Úr Hrauntúnstjörn féll Krikjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmaá til suðvesturs í Kirkjuhólmatjörn og þaðan í norðvestur í Helluvatn. Á milli þessara kvísla er Kirkjuhólmi.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Helluvatn (suður af Rauðhólum) dregur nafn af Hellunni, sléttri hraunklöpp í Helluvaði, sem er neðst í Kirkjuhólmaá. Þar sem sú á fellur í Helluvatn, er mjög djúpur
hylur (um 4:—5 faðmar á dýpt) og heitir Helluvatnsker eða Kerið, kunnur veiðistaður. Vatnsveita Reykjavíkur hefur nú „lokað” Hrauntúnstjörn og hefur hún hvorki að- né frárennsli.

Suðurá

Suðurá.

Hefur Suðurá nú verið veitt beint í Helluvatn, Áin, sem fellur úr Helluvatni í Elliðavatn heitir alls ekki Dimma eins og Rg. heldur fram og hefur aldrei heitið, heldur Elliðavatnsáll oftast nær kölluð aðeins Állinn. Yfir hann liggur brú af Sundholti og þaðan vegur í Heiðmörk. Áður fyrr voru vötnin tvö, Elliðavatn og Vatnsendavatn. Tanginn Þingnes (nú eyja) skipti þeim að sunnan. Úr Vatnsendavatni féll Dimma og dró nafn af djúpum og dökkum hyljum. Nú er þetta breytt. Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur gert stíflu þvert yfir Elliðavatnsengjar og báðar árnar (Dimmu og Bugðu) og myndað eitt stórt stöðuvatn núverandi Elliðavatn.
Greinarhöfundur Rg. virðist ekki vita, að slakkinn frá Rauðavatni til suðurs, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshornið, heitir Margróf (það ðrnefni vantar rcyndar einnig á kort af Reykjavík og nágrenni, sem út kom í fyrra) og hann talar um dálitla hraunstrýtu með nafninu Hólmaskyggnir þar, sem árnar komu saman. Ekki er þetta hraunstrýta, heldur melhóll, og nafnið mun vera Vatnsendaskyggnir, en ekki Hólmaskyggnir.
Mun nú látið staðar numið að sinni, en margt er enn ósagt um örnefni á þessum slóðum.”
Með þökk fyrir birtinguna.” – Karl E. Norðdahl – Hólmi.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 133. tbl. 15.06.1967, Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum, Rg, bls. 4.
-Morgunblaðið, 143. tbl. 29.06.1967, Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm – Karl E. Norðdahl, bls. 4.
-Morgunblaðið, 104. tbl. 11. 05. 1957, Svipast um eftir sumrinu, bls. 5.

Hrauntúnstjörn

Hrauntúnstjörn – minjar.