Færslur

Viðeyjarsel

Í “Fornleifaskráningu í upplöndum Kópavogs” árið 2020 er m.a. getið um “Erferseyjarsel-Viðeyjarsel”.

Lækjarbotnar

Gömlubotnar- tóftir.

Selið er staðsett við skátaskálann í Lækjarbotnum. Þar segir í skráningunni: “Sel? – Á grónum stalli um 70 m ASA frá skátaskála í Gömlubotnum (Lækjarbotnum) og 20 m VSV frá læk (Botnalæk). Veggir úr torfi og grjóti, 1-2 m breiðir og 0,2-0,4 m háir. Dyr eru á V-langvegg. Rústin er eilítið uppblásin að vestanverðu en annars gróin að innan. Í eða við vegg rústarinnar hefur verið plantað trjám.
Í Örnefnaskrá segir að sel hafi verið frá Viðey inn með Gömlubotnum. (Örnefnaskrá. Hólmur.)
Athugasemdir og viðbætur: Þessi rúst gæti verið umrætt sel, annaðhvort tvær kynslóðir eða sel frá mismunandi býlum. Í Jarðabók segir að Örfyrisey hafi átt í seli undir Selfjalli (Jarðabók 1982:254).”

Lækjarbotnar

Lækjarbotnir – tóftir.

Vitnað er í eftirfarandi heimildir: -Bjarni F. Einarsson. Fornleifaskrá Reykjavíkur. Skýrslur Árbæjarsafns XLVI. Reykjavík 1995. -Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Gullbringu- og Kjósarsýsla. III. bindi. Ljóspr. útgáfa. Reykjavík 1982. -Örnefnaskrá. Hólmur. Athugasemdir og viðbætur. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Örnefnasafn.

Í framangreindri fornleifaskráningu fyrir Kópavog er ekki getið um Viðeyjarsel, sem jafnframt var um tíma notað sem selstaða frá Bessastöðum. Í Jarðabókinni er ekki getið um selstöðu frá Bessastöðum. Um Erfersey segir: “Selstöðu á jörðin undir Selfjalli þar sem heitir Erferseyjarsel. Sels frá Viðey er ekki getið í Jarðabókinni, enda Viðeyjar ekki getið þar sem sjálfstæðrar jarðar, jafnvel þótt ýmsar nálægar aðrir ættu henni víðtækar kvaðir að gjalda.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – fornleifar.

Örfirisey átti selstöðu í Lækjarbotnum og hafði í seli og hafði svo verið vegna landleysis jarðarinnar. Selið var líklega aflagt árið 1799, þegar byggð í Örfirisey fór í eyði eftir Básendaflóðið. Lækjarbotnar var efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og í þjóðbraut, því þarna inn við Selfjallið lá gamla leiðin um Lækjarbotna. Þetta nýbýli var því vinsæll áningarstaður bænda úr austursveitum á kaupstaðarferð til Reykjavíkur og ekki síður á austurleið. Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum (1876-1957) flutti húsið á árunum 1904-1910 að þjóðveginum sem lá um Fossvallaklif og rak þar greiðasölu.

Lögberg

Lögberg.

Í manntalinu 1910 er býlið nefnt Lögberg/Lækjarbotnar og er líklegt að þá hafi verið farið að nefna eldra bæjarstæðið Gömlubotna. Guðmundur gaf Skátasambandi Reykjavíkur land í Gömlubotnum og reistu þeir þar árið 1929 fyrsta útivistarskálann á Íslandi. Hann var nefndur Væringjaskálinn og var fluttur á Árbæjarsafn árið 1962 og endurbyggður þar. Fimm fornminjar eru skráðar í Gömlubotnum: Fjárhús, rétt, sel, fjárból og rúst.

Örfirisey, Viðey og Lambastaðir munu hafa haft selstöður þarna efra þótt staðsetning þeirra hafi ekki legið ljós fyrir. Jafnan hefur verið gengið út frá því sem vísu að öll selin væru í Örfiriseyjarselsstað.

Lambastaðasel

Lambastaðasel.

Við nánari athugun má þó ætla að selstaða hafi um tíma verið forseda nýbýlisins á sínum tíma. Tóftir við skátaskálann sem þar er syðst í Botnunum munu að öllum líkindum vera leifar þess, sem og seinni tíma bæjarstæðið, auk búskapar (beitarhús) frá Lögbergi. Tóftir Lambastaðaselsins eru þó allnokkru norðar, norðan við Fossvallaklifið, enn óskráð.
Í örnefnaskrá fyrir Lækjarbotna eftir Guðlaugur R. Guðmundsson kemur m.a. fram að “býlið [Lækjarbotnar] stóð á hólnum, Bæjarhólnum, sem er til hægri, þegar þjóðvegurinn er ekinn þá í austurátt. Undir Selfjalli eru Selhólar. Þar fyrir framan er Gráhóll og Pálspyttur við hann, þar sem Páll hefur líklegast farið undir ís.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Sel frá Viðey var inn með Gömlubotnum.” Í athugasemdir og viðbætur við Lækjarbotnaörnefnalýsinguna skráði Sigríður Jóhannsdóttir eftir Jóni I. Bjarnasyni að jörðin Örfirisey hafi verið landlítil; átti selstöðu undir Selfjalli, ekki Viðey. Af því dregur fjallið nafn. Þar sem selið var, heita Selhólar; sjást rústir ennþá, nú reyndar mjög sokknar.”

Í lýsingu Viðeyjar segir “selstaða er á fastalandi þar sem heitir Viðeyjarsel, og hefur það verið brúkað frá Bessastöðum.”

Bessastaðir

Bessastaðasel í Lækjarbotnum.

Í lýsingu fyrir Bessastaði er ekki minnst á selstöðu í Jarðabókinni 1703, sem fyrr segir. Selhólar er hins vegar vestan við “meint” Erferseyjarsel” í Lækjarbotnum. Þar mótar enn fyrir nokkrum tóftum á skjólsælum stað skammt frá nálægum læk. Nýtt hús á vegum starfsmannafélags Landsbankans hefur nánast verið byggt ofan í tóftirnar. Þessar tóftir hafa aldrei ratað inn í fornleifaskráningar.
Meðfylgjandi er m.a. uppdráttur af minjunum í Lækjarbotnum af Viðeyjarseli (Bessastaðaseli) og Örfiriseyjarseli, auk uppdráttur af selstígunum, en þeirra er ógjarnan getið í einstökum fornleifaskráningum þegar slíkra minja er getið.

Heimild:
-Fornleifaskráning í upplöndum Kópavogs, Bjarni F. Einarsson, 2020.
-https://ferlir.is/videyjarsel/

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) – uppdráttur ÓSÁ.