Tag Archive for: ernir

Arnarfell

Gengið var um Litlahraun sunnan undir Eldborgum sunnan við Geitahlíð. Í hrauninu eru m.a. minjar fjárbúskapar, s.s. yfirsetustaða, rétt, fjárskjól og rúst. Auk minjanna hefur þess sérstaklega verið getið að örn hafi verpt í hrauninu og lengur ofan við Herdísarvík. Tvö önnur forn arnarsetur eru í grennd; arnarhreiður á Arnarfelli að vestan og þekktur staður norð-austan við Hlíðarvatn að austan. Þá er arnarhreiður á Arnarþúfu í Ögmundarhrauni.

Örn

Örn.

Á göngunni var m.a. rifjuð upp umsögn Náttúrfræðistofnunar Íslands um Suðurstrandarveg frá 12. desember 2003. Í henni koma m.a. fram athugasemdir og ábendingar um mat á umhverfisárhifum.
Í umsögninni er m.a. fjallað um arnarvörp á Reykjanesi.
“Vegurinn mun að mestu leyti liggja um óbyggt svæði sem ekki hefur verið raskað með mannvirkjum. Hér er um að ræða afar viðamikla framkvæmd sem óhjákvæmlega mun setja mikið mark á umhverfi sitt. Á svæðinu, sem vegurinn fer yfir, eru m.a. tíu eða tólf hraun frá nútíma. Mikilvægt, er því í ljósi þeirra náttúrverndarhagsmuna sem í húfi eru, að vanda vel til verksins.

Arnarþúfa

Arnarþúfa á Arnarhól í Ögmundarhrauni.

Þremur af níu fornum arnarsetrum á sunnaverðum Reykjanesskaga er ógnað með framkvæmdinni; þegar hefur fjórum að auki verið raskað annarsstaðar á skaganum. Forsendur sem lagðar eru upp varðandi „ferðamannaveg“ falla um sjálfar sig ef vegurinn verður ekki felldur betur að landi og náttúruminjum en ráð er fyrir gert. Tillagan gerir ráð fyrir vegi milli tveggja óbrinnishólma í Ögmundarhrauni; Húshólma og Óbrennishólma. Hún sker þessa sérstöku landslagsheild í sundur, auk þess sem hætt er við að aukin umferð í Húshólma valdi spjöllum ef ekkert er að gert til að undirbúa aukinn ágang. Húsatóttir þar eru sennilega meðal merkilegustu fornminja á Reykjanesi. Athuga þarf betur hvar nýr vegur á að liggja yfir hrauntraðir sunnan við Eldborgir undir Geitahlíðum til að vernda þær sjaldséðu jarðminjar. Slíkar jarðminjar eru ekki algengar í Evrópu og eru sennilega ekki til utan Íslands og Ítalíu. Þótt hrauntraðir séu til á mörgum stöðum á landinu eru þær flestar fjær vegi en hér.

Örn

Örn.

Fram kemur í skýrslunni að tvö forn arnarsetur eru í grennd við fyrirhugaðan veg; óþekktur staður í Ögmundarhrauni og þekktur staður í Litla-Hrauni skammt sunnan Eldborga. Vegurinn mun liggja aðeins 275 m frá síðarnefnda setrinu. Þess má geta að viðmið varðandi umferð í grennd við arnarsetur er 500 m. Auk þess munu framkvæmdir hafa áhrif á þriðja arnarsetrið á þessum slóðum, norð-austan við Hlíðarvatn. Þar er gert ráð fyrir umfangsmiklum námagreftri í gamalli námu beint fyrir neðan fornan arnvarvarpstað.

Arnarfell

Arnarhreiður á Arnarfelli í Krýsuvík.

Ernir urpu á umræddum stöðum fram undir aldamótin 1900 (í Ögmundarhrauni og við Krýsuvík) og við Hlíðarvatn fram undir 1910. Þá var þeim útrýmt í þessum landshluta og hafa þeir ekki orpið á Reykjanesskaga síðan. Á Reykjanesskaga eru þekkt níu forn arnarsetur en meirihluta þeirra hefur verið raskað með framkvæmdum, einkum vegagerð og námavinnslu. Hér má nefna Arnarklett við Njarðvík, Gálga hjá Stafnesi, Stampa við Reykjanes og Arnarsetur við Grindavík. Þá má nefna Arnarfell í Krýsuvík og Arnargnýpu á Sveifluhálsi. Lagning Suðurstandarvegar og efnistaka í tengslum við þá framkvæmd gæti í einu vetfangi raskað þremur arnarsetrum til viðbótar. Það eru því eindregin tilmæli Náttúrufræðistofnunar Íslands að þeim verði þyrmt við röskun; einkum setrunum í Litla-Hrauni og við Hlíðarvatn.

Arnarnýpa

Arnarnýpa á Sveifluhálsi.

Arnarstofninn hefur smám saman verið að rétta úr kútnum á undanförunum árum og því má búast við að þeir setjist að í öðrum landshlutum er fram líða stundir. Í fyrra (2002) urpu ernir t.d. í fyrsta sinn í meira en 100 ár á Norðurlandi og þá á gömlu þekktu arnarsetri. Reynslan sýnir að ernir taka sér fyrst og fremst bólfestu á fornum varpsetrum. Það er því mikilvægt að tryggja vernd slíkra staða. Þess má geta að undanfarið ár hefur örn haldið til í Selvogi og m.a. sést í grennd við gamla setrið við Hlíðarvatn. Það er því einungis tímaspursmál hvenær ernir setjast aftur að á þessum slóðum, svo fremi þeir fái frið til þess.”

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Örn

Örn.

Arnarfell

Eftirfarandi frásögn af varpstöðum arna á Reykjanesskaganum birtist í dagblaðinu Vísi árið 1922:
orn-23„Í Árnessýslu verpti örn í Stórhöfða á Reyðarbarmi til þess fyrir 2 árum, og í Dráttarhlíð við Sogið til þess fyrir 7 árum. Í Ölfusi urpu tvenn arnarhjón; 1905, önnur í Núpafjalli, hin í Þverárhnúk, en eru horfin fyrir nokkrum árum og í Selvogi verpti örn til þess fyrir 4 árum.
Í Gullbringusýslu verpti örn um síðustu aldamót á einum stað í hrauni milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, en nú ekki, og örn sást í Grindavíkurhreppi haustið 1920.
Örn verpti um langan aldur í Illahrauni í Járngerðarstaðalandi, en mun nú hætt því; sést þar örn við og við þar enn.
Í Hafnahreppslandi hefir örn ekki verpt, svo menn viti, síðustu 40 ár, og ekki sjest nema örsjaldan á því tímabili, þó síðastliðinn vetur. Fyrir 3 árum verpti örn í Arnarkletti í mörkum milli Njarðvíkur og Voga, en venjulega sést ein og ein á hverju vori í þeim bygðarlögum.
— Í Bessastaðahreppi sást örn áður, en varla nú.
Í Kjósarsýslu verpti örn í Lágafellshömrum þangað til fyrir 4 árum, og sést örsjaldan í Kjalarneshreppi. í Arnarnípu í Meðalfellsfjalli í Kjós hefir örn verpt síðan fyrir aldamót og verpir þar enn og sést árlega.“

Heimild:
-Vísir 21. apríl 1922, bls. 2.

Arnarþúfa

Arnarþúfa á Arnarhól í Ögmundarhrauni.