Færslur

Svínaskarðsvegur

Í tilefni dagsins (sumardagurinn fyrsti) var gengið upp í Sumarkinn undir vesturhlíðum Skálafells um Haukafjöll og Þríhnúka. Milli kinnarinnar og Þverfells, undir Móskarðshnúkum, liggur gamli vegurinn um Svínaskarð. Stórbrotið útsýni er úr skarðinu. Að handan er Svínadalur og að ofan norðar er Trana.

Haukafjöll

Gunnar Sæmundsson við Haukafjöll.

Í leiðinni var komið við í Þerneyjarseli og Varmárseli ofan við Tröllafoss sem og Esjubergsseli undir Skopru, ofan Esjubergsflóa. Norðan Selsins er Svartiflói og Svínaskarð blasir við. Með í för var Gunnar Sæmundsson – þaulkunnugur á svæðinu, 75 ára að aldri.
Esjubergsflói er dalverpi sem skilur að Haukafjöll og Stardalshnúka. Vestan við flóann eru þrír stakir búldulaga grágrýtishnúkar í Haukafjöllum og nefnast Þríhnúkar. Esjubergsflói hefur nafn sitt af því að forðum var þangað selför frá Esjubergi á Kjalarnesi; má enn líta tóftir selsins austast í honum undir strýtumynduðum hnúk sem heitir Skopra. Klofin klettahæð er vestan selsins. Úr flóanum fellur lækur suður til Leirvogsáar um svonefnt Rauðhólsgil. Í Ferðabók (1848) Magnúsar Grímssonar segir m.a. um Rauðhól(a): ”. . . . Gil þetta er kallað Rauðhólagil, og dregur nafnið af eyðibænum Rauðhólar, sem staðið hafa skammt frá gilinu. Þar er nú svart moldarflag, sem áður var túnið á Rauðhólum.” Ætla má að bærinn hafi fengið nafn af einhverjum rauðum hólum þarna en allt eins að fólkið hafi flutt það nafn með sér.
Að sögn Magnúsar Jónassonar, bónda í Stardal, er nafnið dregið af hól ofan við gili, Rauðhól, einnig nefndur Stórhóll. Hann er rauðleitur, en að mestu gerður úr móbergi.
Á loftmynd að dæma er greinilegur stígur, líklega selsstígurinn, utan í hlíð suðvestan selsins. Stígurinn er framhald stígs er liggur upp með Rauðhólsgilinu. Hægt er að fylgja honum upp í Esjubergsflóa. Stígurinn liggur yfir þvergil og svo beina leið í selið.
Í fyrstu var þó gengið upp með Leirvogsá að norðanverðu og kíkt á svonefndar Tröllalágar, grasi grónar. Áarmegin er nær þverhníptur klettaveggur. Í honum er hrafnslaupur.
Einu ummerkin eftir tóftir í Tröllalágum, en þar er Þerneyjarsel jafnan sagt hafa verið, eru ógreinilegir leggir út frá hæðinni syðst í þeim. Erfitt er að greina hvort þeir hafi verið veggir eður ei.
Móskarðshnúkar Eftir að hafa litið á Tröllafoss var gengið upp í Varmársel. Það er mjög vel greinilegt svolítið ofar með ánni, í gróinni sléttri kvos.
Gengið var til norðurs milli Haukafjalla og Amta, vestast í Stardalshnúknum. Stærsta og fremsta klettahæðin nefnist Stiftamt. Undir því er klettahæð, Strípur. Vestan í henni er aflagður sumarbústaður.
Þegar komið var upp í Esjubergssel, í 213 m hæð, mátti greina þar a.m.k. tóftir 5 húsa og stekksmynd. Eitt húsið er stærst, það austasta að norðanverðu. Tækifærið var notað og rústirnar rissaðar upp. Sennilega er þarna um tvær selstóftir að ræða.
Í jarðabókinni 1703 segir um Esjubergsselstöðu: ‘’Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur nokkur.’’ Þetta ár er kvikfénaður í Esjubergi 10 kýr og 24 ær með lömbum, a.m.k., fyrir utan geldneyti og hross. Hlutfall kúa er hátt og því e.t.v. selstaðan svona rík af húsakosti eins og sjá má.
Skv. Jarðabókinni 1703 höfðu margir bæir í Kjós selstöður í Stardalslandi. Bæir, sem höfðu selstöðu í Stardal fyrir og á tímum Jarðabókar eru: Gufunes, Korpúlfsstaðir, Blikastaðir, Lágafell, Helgafell og Þerney (flestar stórjarðir). Esjuberg og Móar eiga þá selstöðu í Sámsstaðalandi sem nú tilheyrir Stardal. Um Móa í Kjós er sagt um selstöðu: ”…brúkast hjá Esjubergsseli.” Sem fyrr segir sést móta fyrir tóftum tveggja selja Í Esjubergsseli. Þá sést móta fyrir hleðslum suðaustan við selstæðið, handan gróna svæðisins neðan rústanna. Þar gæti stekkurinn hafa verið. Benda má einnig á að þegar rústir Sámsstaða eru skoðaðar líkjast þær mest seljarústum.

Svínaskarð

Genginn Svínaskarðsvegur.

Þá var gengið til móts við Svínaskarðið, um Sumarkinn og Skarðskinn, austan Skarðsáar. Hrútshornið sést mjög vel utan í suðaustanverðri hlíð Móskarðshnúks (-hnúka) og Kerlingin, 4-7 m hár (svartur) drangur, svo til undir toppi fjallsins. Bláhnúkur trjónir á toppi Þverhlíðar og Gráhnúkur lægri, svolítið vestar.
Móskarðshnúkar eru gerðir úr líparíti. Þeir eru hæstir 807 m. Fjallið Trana norðaustan þeirra er 743 m. Það sést þegar komið e rupp í skarðið. Hnúkarnir (stundum er talað um hnúk í eintölu (þann austasta) og aðrir sérnefndir) eru í austanverðri Esjunni. Örnefnastofnun segir að “hnúkarnir [séu]kenndir við svonefnd Móskörð. Á korti yfir Gullbringu- og Kjósarsýslu sem Björn Gunnlaugsson teiknaði fyrir Bókmenntafélagið 1831 hefur hann skrifað Móskarðahnúkr (Haraldur Sigurðsson, Kortasaga Íslands frá lokum 16. aldar til 1848, milli bls. 244 og 245 (1978)).
Jónas Hallgrímsson nefnir Móskarðahnúka svo í sínum skrifum, m.a. í dagbókum 1840 (Ritverk. Bréf og dagbækur II:364 (1989)). Hið sama gerir sr. Magnús Grímsson í Ferðabók sinni fyrir sumarið 1848, bls. 12 og víðar (1988). Hann talar um Móskarðahnúkinn enn eystasta sérstaklega (14). Um tildrög nafnsins hefur hann þessi orð: “grjótið í öllum þessum hnúkum er ljósrautt tilsýndar, og þar af mun Móskarða-nafnið dregið” (12).
Skálafell Þannig lýsir sr. Stefán Þorvaldsson hnúkunum undir fyrirsögninni Fjöll í sóknalýsingu Mosfells- og Gufunessókna 1855: “Móskörð, háir fjallahnúkar af gulleitu (Thrachyt) grjóti, vestanvert við Svínaskarð. Þetta fjall er hæsti tindur allrar Esjunnar.” (Sýslu- og sóknalýsingar. Landnám Ingólfs III:221 (1937-39)).
Þorvaldur Thoroddsen nefnir Móskarðshnúk 1890 (Ferðabók III:10) (1958) en Móskarðshnúka 1883 (Ferðabók I:102), og 1898 (Ferðabók IV:114). Sú nafnmynd hefur yfirleitt birst á opinberum kortum fram undir þetta. Á nýju korti Landmælinga Íslands, Ferðakorti 2 í mælikvarðanum 1:250.000 (2003), er nafnmyndin þó Móskarðahnúkar, sett að tillögu Örnefnastofnunar.
Í landamerkjalýsingu Eyja í Kjós frá 1887 er hnúkanna ekki getið en hinsvegar í landamerkjalýsingu frá 1921, þar sem segir: “alla leið suður á Móskarðahnúk”.
Egill J. Stardal lýsir Móskörðum á þessa leið í Árbók Ferðafélags Íslands 1985: “Móskörð eru hnjúkahvirfing úr baulusteini eða líparíti. Austasti hnjúkurinn og þeirra tígulegastur er Móskarðahnjúkur, sem rís vestan Svínaskarðs, einn og stakur eins og tröllvaxinn píramídi.” (92). Í sömu bók talar Ingvar Birgir Friðleifsson um Móskarðahnúka, en einnig í eintölu um Móskarðahnúk (166). Sr. Gunnar Kristjánsson skrifar í sömu bók um Móskarðshnúka (180).
Örnefnaskrár í Örnefnastofnun nefna ýmist Móskarðahnúka (þar á meðal Egill J. Stardal) eða Móskarðshnúka og eru heimildarmenn um sitt hvort jafnvel frá sama bæ og sýnir það hversu mjög á reiki nafnmyndirnar hafa verið. Yfirleitt er við því að búast að orðmyndin –hnúkur sé á Suðurlandi en –hnjúkur norðan- og austanlands, en sumum finnst hnjúkur “réttari” mynd en hnúkur.
Svínaskarðsleið Sérkennilegt er að kalla –skörð fjöll eins og sr. Stefán gerir í sóknalýsingu sinni en skörðin eru fleiri en eitt og því eðlilegt að nefna hæsta hnúkinn Móskarðahnúk. Ekki er gott að segja um hvort eintalan –hnúkur hefur leitt af sér eintöluna Móskarðs-, eða hvort Svínaskarð austan við hann hefur haft áhrif á það. Fleirtalan Móskarða- kann að hafa haft áhrif á myndun fleirtölunnar –hnúkar, þó að vissulega lægi beint við að hafa þá mynd, af því að hnúkarnir eru fleiri vestur af honum og eru nafnlausir.”
Svínaskarð er milli Skálafells að suðaustanverðu (Skarðskinn heitir norðvesturhlíð þess) og Móskarðshnúkar í Esju að vestanverðu.
Þegar horft er út Svínadal er Múlinn milli Svínadals og Trönudals á vinstri hönd en Hádegisfjall á þá hægri. Það fjall nefnir sr. Sigurður Sigurðsson reyndar Írafellsfjall í sóknarlýsingu sinni frá 1840. Ofan af Hádegisfjalli er útsýni gott yfir Kjósina. Sunnan við það er Skálafellið. Sagnir segja það væntanlega kennt við skála Ingólfs Arnarsonar: „Ingólfr lét gera skála á Skálafelli”, segir í Landnámu, en þegar komið er að fellinu frá Stardal má vel sjá hina stóru skál þess. Líklegra er að Skálafell dragi nafn sitt af henni.
Örn H. Bjarnason hefur m.a. lýst hinni gömlu leið frá Lækjartorgi í Hvalfjarðarbotn – um Svínaskarð (fyrst í útvarpserindi og síðan í greinum). Þar segir hann m.a.:
“Sumt fólk í dag virðist halda að fyrstu landnámsmennirnir hafi verið þeir sem innleiddu íslenska sjónvarpið. Svo er þó ekki. Áður en sjónvarpið kom til sögunnar hafði þjóðin lifað í þessu landi í 1100 ár og fréttaflutningur einna helst með förufólki, en ferðamátinn lengst af tveir jafnfljótir eða þarfasti þjónninn. Hvaða leiðir menn fóru getur verið forvitnilegt að skoða.
Í þessari grein hyggst ég lýsa stuttlega gömlum götum úr Kvosinni í Reykjavík um Mosfellssveit, yfir Svínaskarð sem er milli Móskarðshnjúka og Skálafells. Þaðan svo um Reynivallaháls og inn Brynjudal um Hrísháls yfir í Botnsdal.”
Hólsfjöll Hann hefur síðan leiðina við Lækjarósinn og fer um Arnarhólstraðir, skáhallt yfir núverandi Arnarhólstún. Öll ummerki eftir gömlu leiðina, sem lýst er, að Hrafnhólum er svo að segja horfið, m.a.s. um Grafarvoginn. Á nútíma ætti nú einhver verkfræðingurinn að hafa a.m.k. það mikið raunveruleikavit í kollinum að gera ráð fyrir að ummmerki eftir hina gömlu götu mætti halda sér að einhverju leyti um slíkt nýbyggingarsvæði. Í Árbæjarhverfi hefur fólk þurft að flytja úr húsum er byggð voru yfir hina gömlu þjóð leið til austurs. Ástæðan er mikil umferð “látinna” að næturlagi.
Örn heldur áfram: “Leiruvogar er víða getið í fornsögum. Þar áttust m.a. við Hrafn Önundarson og Hallfreður vandræðaskáld, en Hrafn sótti að honum með 60 manns og hjó á landfestar Hallfreðar. Skipið rak og lá þarna við alvarlegu skipbroti. Leiruvogar er einnig getið í Landnámu, en Hallur goðlauss nam land að ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár.
Rétt þar hjá sem hringvöllurinn er á Varmárbökkum var Hestaþingshóll, sem bendir til að þar hafi verið háð hestaöt, vinsæl skemmtun til forna. Þegar graðhestum var att saman var gjarnan höfð meri í látum ekki langt undan. Fnykurinn gerði þá áhugasamari um að standa sig.
Fyrir norðan hesthúsahverfið er svo Skiphóll, en hann var seinasta leiti á mörkum milli Helgafells og bæjarins Varmár. Skip fóru þarna upp um flóð m.a. til að taka hey úr Skaftatungu en Skaftatunga voru mýrar sem lágu undir Helgafelli.
Ekki langt undan eru Varmármelar. Milli þeirra heitir Klauf eða Varmárklauf. Þar lá vegurinn um að vaði á Köldukvísl fyrir neðan Tungufoss þar sem heitir Hjallberg norðan við ánna. Fyrir neðan Krókhyl var annað vað.
Minnst var á Víðirodda en það er hið gamla Tjaldanes. Þar var Egill Skallagrímsson heygður. Í Egils sögu segir: “Egill tók sótt eftir um haustið, þá er hann leiddi til bana, en er hann var andaður, þá lét Grímur færa Egil í klæði góð. Síðan lét hann flytja hann ofan í Tjaldanes og gera þar haug og var Egill þar lagður og vopn hans og klæði.” Seinna voru bein hans flutt í kirkjugarðinn á Hrísbrú.

Hólsfjöll

Áfram lá leiðin svo fyrir sunnan Mosfell þar sem Egill bjó á efri árum og að Skeggjastöðum. Fyrir utan Mosfell er Kirkjugil en um það fóru Kjalnesingar til kirkju að Mosfelli.
Egill átti tvær kistur af ensku gulli, morðfé í þá daga. Karlinn ætlaði að ríða með það á Þingvöll og strá gullinu yfir þingheim, vildi láta menn berjast um það. Sonur hans bannaði honum þetta. Lét Egill þá tvo þræla grafa gullið en drap þá síðan svo að þeir segðu ekki frá. Sumir segja að gullið sé grafið í Kirkjugili aðrir að það sé í fenjum í dalnum eða í hver hinum megin í dalnum. Egill var brellinn.
Frá Skeggjastöðum lá leiðin á vaði yfir Leirvogsá og í brekkurótunum norður af Hrafnhólum, en síðan hjá Haukafjöllum sérkennilegum hamraborgum og norður yfir Svínaskarð, Svínaskarðsveg svonefndan. Þarna eru glöggar götur.
Svínaskarð er 481 m.y.s. og þar lá gamla þjóðleiðin um sumardag en á veturna var þar oft ófært vegna svellalaga og fannfergis. Þetta var styttri leið en að fara út fyrir Esju. Norður af lágu göturnar á gilbarmi og niður í Svínadal. Eftir honum rennur Svínadalsá og var á víxl farið vestur fyrir hana eða austan megin.
Dys er í Svínaskarði. Margt hesta- og göngufólk hefur þann sið að kasta steinvölu í Dysina, vill friða æðri máttarvöld. Það er betra að hafa Írafellsmóra með sér en á móti. Náttúran er óblíð þeim sem ekki leitar samkomulags við hana.
Fyrir fáeinum árum fór undirritaður um Svínaskarð upp úr 20. september með tvo til reiðar á leið í haustbeit að Reynivöllum í Kjós. Ég lenti í byl og vonskuveðri. Áður en ég lagði á brattann tók ég steinvölu upp af götu minni og setti í vasann. Það var hvasst í skarðinu og ég áði þar ekki heldur seildist í vasa minn eftir steinvölunni og henti í Dysina. Lúinn en sæll komst ég klakklaust að Reynivöllum. Oft hefur kaffisopinn verið góður hjá þeim hjónum séra Gunnari Kristjánssyni og Önnu, en þennan dag sló hann öll met.
Svínaskarð Svínaskarði er tengd hryggileg saga. Á aðfangadag jóla árið 1900 lagði 15 ára piltur frá Hækingsdal í Kjós á skarðið. Hann ætlaði að eyða jólunum með foreldrum sínum. Þegar hann skilaði sér ekki hófst umfangsmikil leit að honum og fannst hann loksins dáinn í snjóskafli í háskarðinu. Þannig voru þessi jól í Hækingsdal. Í Ísafold árið 1901 segir m.a.: “Pilturinn, sem úti varð aðfangadag
jóla á Svínaskarði, Elentinus Þorleifsson frá Hæklingsdal, er ófundinn enn.
Hann gisti nóttina áður í Pitjakoti og lagði einsamall á skarðið daginn eftir,
í góðu veðri, sem spiltist þó, er á daginn leið.”
Sveinn Pálsson lýsir því í Ferðabók sinni að hinn 9. október 1792 hafi hann farið frá Meðalfelli í Kjós um Svínaskarð til Mosfellssveitar. “Koldimmt var orðið þegar við komum upp á háfjallið,” segir hann, “og komumst við með naumindum að Gufunesi kl. 11 um kveldið. Þar fengum við bát og komum til hinnar fögru Viðeyjar um miðnætti og var þá ferðum mínum lokið að því sinni, en ég mun hafa vetursetu í Viðey eins og síðastliðinn vetur.”
Fyrst var farið á bíl um Svínaskarð árið 1930. Í árbók Ferðafélags Íslands 1985 kemur fram að Vígmundur Pálsson, mjólkurbílstjóri og síðar bóndi, hafi brotist þessa leið ásamt félögum sínum í fólksbíl árið 1930. Þá höfðu menn ekki einu sinni látið sér detta í hug að fara með hestvagna um Svínaskarð. En síða er mikið vatn runnið til sjávar og nútíma jeppamönnum þykir slóðin áhugaverð.
Svínaskarðleið hefur nánast allt til að bera sem reynir á farartækin og kannski ekki síður á ökumennina. Hún er brött á köflum, langir kaflar eru mjög stórgrýttir og grófir þar sem fara verður með gát og víða þarf að þræða hægt og varlega um gilskoringa. Sums staðar er betra að fá einhvern til að standa úti og leiðbeina ökumanni þar sem grjótið getur skagað upp úr miðri slóðinni og hætt við að rekist uppundir bílinn. Það er líka bara öruggara og óþarfi að skemma nokkuð.
Í umfjöllun um “Leiðir og slóða á Reykjanesi” hér á FERLIRsvefsíðunni lýsir Jón Svanþórsson m.a. þessari leið um Svínaskarð með eftirfarandi hætti:
Móskarðshnúkar “Ekið er af vesturlandsvegi (GPS N64 11 690 W21 41 845)af Esjumelum í austur, veg sem liggur hjá skemmum sem meðal annars eru notaðar af Fornbílaklúbbnum, og áfram austur melana, þar til komið er að gatnamótum. Annar vegurinn liggur nánast beint áfram, en hinn beygir til vinstri, og eru vegstikur með honum. Við ökum þann veg framhjá afleggjara að Völlum, og síðan framhjá afleggjara að Norður-Gröf. Næst höfum við veiðihús við Leirvogsá á hægri hönd. Við erum nú í nafnlausum dal á milli Esjunnar og Mosfells og ökum upp með Leirvogsá. að norðanverðu. Svo er ekið yfir Grafará á vaði, og svo liggur leiðinn hjá Þverárkotshálsi. Þegar fyrir hann er komið sést Þverárkot á vinstri hönd.Við ökum þvert yfir eyrar Þverár, yfir hana og komum svo að hliði á girðingu á vinstri hönd. Við förum í gegnum hliðið (GPS N64 12 623 W21 34 819) og ökum slóða sem liggur að nokkrum sumarbústöðum, sem eru dreifðir upp dalinn að austanverðu. Svo komum við að Skarðsá sem kemur úr Svínaskarði, förum yfir hana og framhjá efsta bústaðnum. Versnar nú vegurinn til muna. Leiðin um Svínaskarð var mikið farin áður en bílar komu til sögunar, enda mun styttra að fara Svínaskarð og Reynivallaháls en að fara út fyrir Esju. Nú á tímum eru það aðallega hestamenn sem fara skarðið á hestum sínum, sér til skemmtunar. Hér er mjög fallegt. Þverárdalurinn hömrum girtur, en austan við hann eru Móskörð, og Móskarðshnjúkar, sem sjást vel frá höfuðborgarsvæðinu, og virðast alltaf vera baðaðir sól (Móskörðin eru milli hnúkanna). Austan við þá er Svínaskarðið og þar fyrir austan gnæfir Skálafell. Sunnan við það er Stardalshnjúkur. Okkur á hægri hönd eru síðan Haukafjöll. Ekið er yfir nokkur lækjargil, og getur þurft að fara úr bílnum til að laga veg og leggja grjót í verstu skvompurnar. Þegar upp í skarðið er komið, í 481 metra hæð yfir sjávarmáli, blasir við mikið útsýni til suðurs, og vesturs. Þegar komið er norður á brún skarðsins, sést yfir Svínadalinn, norður um Kjós og Hvalfjörð.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar horft er niður í Svínadalinn, sést hvernig slóðinn fer í mörgum hlykkjum niður með giljunum, í snarbratta. Þetta er ekki fýsilegur slóði til að aka bílum eftir, en þó hefur það verið gert, en ekki er mælt með því. Ef menn reyna, og sleppa óskaddaðir niður í Svínadal, er þrautin ekki unnin, því þar taka við mýrar með tilheyrandi bleytum. Betra er að aka sömu leið til baka niður Þverárdal…”
Útsýnið úr Svínaskarði til suðurs og vesturs er stórbrotið. Þaðan má sjá svo til allan fjallahring Reykjanesskagans, að Þórðarfelli og Súlum í vestri og allt að Skeggja norðan Hengils.
Í bakaleiðinni var rakin gamla gatan er að framan er lýst, spölkorn niður úr Svínaskarðinu, áður en haldið var til baka um Þríhnúkana. Vestar er Skánardalur. Í honum er falllegur foss. Við fossinn eru háir stuðlabergsstandar. Með hliðsjón af árstíðarskiptunum mátti á áþreifanlegan hátt bæði skynja, heyra og finna muninn; annars vegar á leiðinni upp í Svínaskarð um Sumarkinn og hins vegar á leiðinni niður um háhlíðar Móskarðshnúkr. Veturinn vék skyndilega fyrir vorinu á u.þ.b. 3 metra kafla og sumarið tók við, ekki einungis með snjóleysi heldur og sól og il. Lóan lét í sér heyra og hópar liðu um loftin. Sumarbyrjunin lofar góðu.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun.
-Örn H. Bjarnason.
-Mbl. 24. sept. 2003 – Jóhannes Tómasson.
-Gunnar Sæmundsson.
-Ísafold 12. janúar 1901, bls. 11.

Svínaskarð

Dysin í Svínaskarði.

Þerneyjarsel

Þrjú sel eru innan og ofan við Tröllafoss í Leirvogsá. Varmársel er efst. Skammt þar frá er Þerneyjarsel. Esjubergssel er ofan við Rauhólsgil, innan við Esjubergsflóa. Þar er hæðin Skopra. Tóftir eru greinilegar.

Tröllafoss

Tröllafoss.

Gengið var upp með norðanverðri Leirvogsá áleiðis að framangreindum seljum. Einnig var ætlunin að skoða tóftir Sámsstaða og jafnvel leifar bæjar Halls goðlausa Helgasonar er nam land að ráði Ingólfs millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla.
Esjubergsflói er dalverpi sem skilur að Haukafjöll og Stardalshnúka. Vestan við flóann eru þrír stakir grágrýtishnúkar í Haukafjöllum og nefnast Þríhnúkar. Esjubergsflói hefur nafn sitt af því að forðum var þangað selför frá Esjubergi á Kjalarnesi; má enn líta tóftir selsins austast í honum undir strýtumynduðum hnúk sem heitir Skopra. Úr flóanum fellur lækur suður til Leirvogsáar um svonefnt Rauðhólsgil.
Stefnan var tekin upp Rauðhólsgil. Gilið er djúpt neðst, en lagast vel að landinu ofar. Haldið var upp í Esjubergsflóa og þaðan í Svartaflóa. Mikið gras er þarna og mýrlendi. Útsýnið er fallegt yfir hæðir og hnúka. Esjubergssel kúrir þarna undir nefndri klettahæð norðan við Esjubergsflóa. Sér í vesturöxl Skálafells til austurs.
Haldið var yfir að Stiftamti neðan við Amtið (eða Ömtin), sem er áberandi stuðlabergshæð, einkum mót suðri. Undir hæðinni hefur verið gerð tilraun til ræktunar og þar er gamalt sumarhús, eyðilegt. Þetta er örskammt norðan við vegslóða og vað á Leirvogsá. Þarna rís lág klettarhæð eins og hús að líta frá götunni. Hún heitir Rípur. Neðan (suðvestan) við Ríp, rétt ofan við Leirvogsá, eru miklar tóftir.
Norðan við Ríp gnæfir Stiftamtið fyrrnefnda með lóðréttum hamraveggjum eins og gríðarstór bergkastali. Vestan við það er hnúkaþyrping sem nefnist Amtið. Í því má vel sjá ummerki eftir jökulinn, sem hefur skafið svo duglega ofan af stuðlabergsendunum þarna í hæðunum. Í giljum má sjá fallega bólsta og aðrar kvikustorknunarmyndir jarðsögunnar.

Varmársel

Varmársel.

Þarna fyrir austan er skarð inn í hnjúkaþyrpinguna, sem heitir Sámsstaðaklauf, en neðan hennar sér enn þá tún og rústir gamals eyðibýlis, sem heitir Sámsstaðir.
Tóftin er vestast í túnbleðli við lítinn sumarbústað. Í tóftunum er staur með málmplötu á. Líklega hefur einhvern tímann staðið þar: “Friðlýstar fornleifar”. Fyrir áhugasamt fólk segir áletrunin ekki neitt, ekki einu sinni að þarna séu friðlýstar minjar. Munnmæli eru um að þarna hafi fyrrum verið kirkjustaður en legið í auðn síðan drepsótt var hér á landi, þ.e. Plágan mikla 1402, eða svo er hermt eftir elstu mönnum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Um eigendur þeirrar kirkjujarðar vissi enginn neitt að segja enda vart von á því þeirrar kirkju getur hvergi í skjölum. Nafnið bendir til þess að þarna hafi fremur verið bær en selstaða. Þarna er hlýlegt og skjól fyrir flestum áttum.
Ef “bæjarstæðið” er skoðað mætti ætla að þarna hafi verið sel, a.m.k. eru tóftirnar “seljalegar”; tvö til þrjú hús að svipaðri stærð og sjá má í seljum á þessu svæði. Vitað er að margir bæir í Kjósinni áttu fyrrum selstöðu í núverandi Stardalslandi. Tóftirnar miklu suðvestan undir Ríp gætu hugsanlega hafa tengst einhverjum bæjanna, Sámstöðum, Múla eða Rauðhólum, sem þarna áttu að hafa verið.

Stardalsmúli

Stardalhnúkur.

Stardalshnúkur er áberandi kennileiti til norðurausturs. Hann myndaðist við að hraunkvika tróðst upp í móberg inni í í Stardalsöskjunni. Móbergið er enn hægt að skoða í giljum upp af Sámsstöðum, sem koma niður úr fyrrnefndu skarði, Sámsstaðaklauf, austan við Stiftamt og Ríp.
Víða er fallegt stuðlaberg á þessu svæði og há lóðrétt bergþil. Basaltinnskotið var lengi að kólna þarna og náði því að mynda gilda stuðla.
Stuðlaberg er notað um storkuberg þar sem stuðlar blasa við; [columnar basalt]. Stuðlar í bergi myndast við storknun þegar bergið dregst saman við að kólna og myndar margstrenda stuðla hornrétt á kólnunarflötinn. Stuðlað storkuberg verður til þegar kvika storknar og kólnar minnkar rúmtak efnisins. Kraftarnir, sem myndast við þessar rúmmálsbreytingar, losna á auðveldastan hátt með því að mynda marghyrnt sprungumynstur, oftast sex- eða fimmhyrnt. Neðst í hraununum eru stuðlarnir sem myndast á þennan hátt reglulegir og ávallt hornréttir á kólnunarflötinn. Ofar og nær yfirborði hraunanna er lag smágerðra óreglulegra stuðla sem mynda kubbaberg.  Þetta óreglulega lag er víða horfið á gömlum hraunum vegna rofs, samanber Kirkjugólfið á Kirkjubæjarklaustri.

Sámsstaðir

Sámsstaðir.

Víða sjást mjög sérkennilegar myndanir stuðla eins og til dæmis í gömlum gígfyllingum þar sem gjallkápa gígsins hefur máðst burtu við rof eins og t.d. í Hljóðaklettum. Þekktar stuðlabergsmyndanir hérlendis eru t.d.: Gerðuberg í Hnappadal, Kirkjugólfið að Klaustri, Dverghamrar á Síðu, við Svartafoss í Skaftafelli og við Litlanefsfoss í Hengifossá í Fljótsdal.

Í landnámsbókum er greint frá manni sem hét Hallur goðlausi Helgason og sagður venslaður eða skyldur ýmsum kunnum landnámsmönnum, t.a.m. Þórði skeggja, sem nam Skeggjastaði, og Ketilbirni gamla að Mosfelli í Grímsnesi. Hallur nam land að ráði Ingólfs í Reykjavík allt millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla. Bæjarnafnið Múli er nú týnt og kann enginn að segja hvar sá bær hefur staðið. Í túni núverandi býlis Stardals undir Múlanum eru margar rústir eftir forna byggð, segja heimildir a.m.k.
Hús var tekið á Magnúsi bónda í Stardal. Hann tók vel á móti göngufólkinu, benti m.a. á hinn gamla bæjarhól Stardals norðan núverandi húss. Þar má enn sjá leifar hlaðinna túngarða. Magnús sagði að þar hafi jafnan verið snjóþungt og því hafi húsin verið færð svolítið lengra til suðurs. Ekki kannaðist hann við leifar fornra bæjarstæða undir Múlanum, en hann væri þó eina örnefnið með því nafni á þessum slóðum. Magnús sagði að Esjubergsselið væri enn greinilegt undir Skopru. Hann hefði sjálfur margoft komið í þessi sel við leitir. Þá væru hin tvö augljós, 30-40 metrum ofan við norðurbakka Leirvogsár, skammt ofan við Tröllafoss.
Haldið var niður með Leirvogsá, áleiðis niður að Tröllagljúfrum.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Á leiðinni var komið við í einni seltóftinni, Varmárseli. Hún er skammt ofan við bakka árinnar að norðanverðu, í fallegu gróðurverpi. Gömul reiðgata liggur svo til alveg við tóftirnar. Þær eru dæmigerðar fyrir sel á Reykjanesskagagnum; tvö rými saman og eitt til hliðar (eldhúsið).
Gerð var leit að annarri tóft, Þerneyjarseli, sem átti að vera þarna nálægt, en hún vildi ekki láta sjá sig í fyrstu atrennu. Hún mun örugglega koma í ljós síðar.
Í Tröllagljúfrum er sérkennilegt landslag berghóla með grösugum lægðum á milli og heita þær Tröllalágar. Þar segir sagan að enn megi sjá rústir fornra selja sem nefnast Varmársel og Þerneyjarsel. Segja nöfnin til um hvaða bæir áttu þangað selför. Líklegt er að selið, sem skoðað var hafi verið Varmársel.
Tröllafoss setur mikinn svip á gljúfrin. Skammt neðar er miklu mun minni foss, nafnlaus.
Tröllalágar bera nafn með réttu. Í gilinu neðan við Tröllafoss eru hrikaleg ummerki vatnsgraftar í 11000 ár.

Svæðið er vel fallið til gönguferða. Gömul reiðleið liggur norðan með ánni og er ákjósanlegast að fylgja henni. Af götunni er hið fegursta útsýni og alltaf tekur við ný sýn á landið umhverfis. Rétt er að njóta þess áður en áin verður virkjuð varanlega.
Móskarðshnúkar “brostu” sínu bjartasta, hnúkarnir lögðu sig fram við að sýna kolla sína og stuðlabergsdranga og Skálafell vildi alls ekki verða neinn eftirbátur þeirra. Lognið og blíðan í febrúar undirstrikuðu gildi svæðisins til útvistar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33. mín.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 1985.
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/

Esjubergssel-401

Esjubergssel.