Selvogur var um aldir ein af helstu verstöðvum á Suðurlandi og þangað kom fjöldi vermanna til róðra. Þá fylgdu oft konur vermönnunum eftir og sáu um ýmis mál í landi svo sem matseld.
Yfirleitt var í hverri verbúð ein kona sem sá um að þrífa vistarverurnar, matreiða og hirða um vettlinga sjómanna og önnur plögg. Voru þessar konur nefndar fanggæslur. Ekki þurftu þær að leggja til neina vinnu við fiskverkun. Laun fanggæslunnar var stærsti fiskurinn í hverjum róðri auk eins fiskjar af hverju hundraði fram yfir eitt hundrað. Þá höfðu þær frítt fæði og húsnæði. Þó svo starfið þætti heldur óvirðulegt, var oftast nær alls velsæmis gætt og ekki reyndist erfitt að fá konur til að sinna þessum störfum enda átti kvenþjóð þeirra daga fá tækifæri til að vinna fyrir kaupi.
Þann 5. apríl 1466 ritar Björn Þorleifsson bréf til Bolvíkinga og skipar til með róðra þar. Meðal annars kemur fram að ein fanggæsla skuli fylgja hverju skipi er rær úr Bolungarvík. Orðið fanggæsla kemur fyrst fyrir í íslensku máli í þessu bréfi.
Sigríður Jón Þorbergsdóttir lýsir m.a. lífinu á Látrum þar sem hún var fanggæsla: „Ég fermdist fjórtán ára að Stað í Aðalvík. Prestur var séra Runólfur Magnús Jónsson. Ég gekk til spurninga í eina viku fyrir ferminguna og var þá í Þverdal hjá Herborgu Kjartansdóttur, móðurömmu minni. Þau voru fimmtán börnin, sem fermdust um leið og ég. Eftir ferminguna var ég áfram heima og hjálpaði til við öll störf, sem til féllu, úti og inni. Haustið, sem ég varð sextán ára í desember, var ég fanggæsla hjá pabba og bræðrum mínum á Látrum. Það var það fyrsta sem ég vann annars staðar en heima. Vorið eftir var ég aftur fanggæsla hjá pabba í Skáladal, en þaðan var róið á vorin. Róið var á árabát með lóðir og voru þeir sex á bátnum. Ég hafði mat fyrir þá alla, sauð fisk og graut, en brauð höfðu þeir að heiman. Ég þvoði líka af þeim sjóvettlinga og sokkaplögg. Í kaup fékk ég stærsta fiskinn í hverjum róðri og var það haft sér, og man ég að fyrir kaupið keypti ég bláa, mjög fallega dragt. Ég átti hana til spari í mörg ár. Vorið eftir, þá sextán ára, var ég líka fanggæsla á sama stað. Þá fékk pabbi aðra stúlku til að hjálpa til heima á meðan, sem var eldri og duglegri en ég var, til að hirða skepnurnar og hjálpa til við sauðburðinn.“
Heimild m.a.:
-Sigríður Jóna Þorbergsdóttir frá Efri-Miðvík – fædd 2. desember 1899.
-Jóhann Bárðarson 1940:82-83.