Færslur

Tjarnhólatjörn

 Lagt var af stað í FERLIRsferð nr. 1185. Markmiðið var að finna “síðasta selið í dalnum”, sel frá Fremri-Hálsi í Kjósarhreppi.
FERLIR hafði áður leitað uppi, skoðað og skráð 250 selstöður í fyrrum landnámi frumbyggjans, Ingólfs Fellsendi - tóftir gamla bæjarins nærArnarssonar, á Reykjanesskaganum; frá ósum Ölfusár í austri, Botnsdal í norðri, Garðskagatáar í vestri og Reykjaness í suðri. Það var því lengi von á a.m.k. einu enn. Skv. fyrri upplýsingum núlifandi fólks var talið að eyðibýlið Sauðafellskot hafi verið sel frá bænum, en við nánari leit (og aðstoð Örnefnastofnunnar) komu fram óljós vísbending um að seltóftir kynnu að leynast við svonefnt Selgil innan við Hrútagil, efst í Seldal. Þar, efst í dalnum, mátti einnig sjá örnefnið Selskarð. FERLIR hafði, þegar hér var komið, dregið þann lærdóm af örnefnaskrám, að ástæðulaust væri að véfengja vísbendingarnar (að öllu jöfnu). Þá hefur það allnokkrum sinnum komið fyrir að minjar, sem ekki er getið um í lýsingum, hafa fundist við leitir og það jafnvel þrátt fyrir að staðkunnugir hafi fullyrt að engar mannvistarleifar væru að finna. Oftar en ekki hefur FERLIR þó notið liðsinnis heimafólks, sem gat gengið að tilteknum minjum á sínu landssvæði vísum, án þess að reynt hafi verið að festa staðsetningu þeirra á blað – enda enginn spurt um þær.
Merkjavarða ofan FellsendaSeldalur er milli Stóra-Sauðafells og Skálafellshálsar. Efst í dalnum eru Tjarnhólar ofan við Tjarnhólatjörnina. Vestan þeirra er Selskarð. Ólíklegt er að nafngiftirnar hafi komið af engu. Ætlunin er að ganga um svæðið og athuga hvort þar kynnu að leynast selminjar.  Skv. þegar fyrirliggjandi upplýsingum áttu í Seldal bæði að vera gömul rétt og tóftir í nátthaga.
Í örnefnaskrá Stardals í Kjalarneshreppi segir: “Frá Rjúpnagili austur eru flóar með smáhólum og tjörnum. Þetta svæði heitir Tjarnhólar. Úr þeim tjörnum kemur Selgil, sem rennur norður í Fremra-Hálsland í Kjós. Þar neðar, austan merkja, eru gamlar tættur eftir sel. Í Selgilið kemur Hrútagil frá vinstri. Seldalur heitir lægðin með gilinu.”
Í örnefnalýsingu um Fremri-Háls segir m.a. að “skammt fyrir vestan Réttarlæk er Réttarhóll. Þar var lengi rétt, nú aflögð”. Einnig er næsta nágrenni lýst til nánari viðmiðunar; “Beint upp af Þórufossi, austan Grafarmýrar, er Pyttaflói. Á milli eru nafnlausir mosaflákar. Í Laxá er Sýsluhólmi. Haraldur telur, að því nafni hafi heitið hólmi skammt austan við Sýslulæk, en sá hólmi er nú horfinn. Leifar réttar við Réttarhól
Sýslulækur kemur úr Selflóa og Pyttaflóa og rennur í Laxá nálægt sýslumörkum. Þar sem lækurinn fellur í Laxá, eru smáhólmar, sem breyta sér í sífellu. Þeir eru stundum nefndir Sýsluhólmar. Selflói liggur meðfram Stóra-Sauðafelli, sem er sunnanvert við Kjósarskarð, en svo nefnist láglendið allt milli fjalla. Milli Selflóa og Pyttaflóa eru grámosavaxnar hæðir, nafnlausar. Allt áðurnefnt mýra- og flóasvæði, þ.e. Grafarmýri, Pyttaflói og Selflói, er oft nefnt einu nafni Hálsflói. Flóalækur kemur upp í Selflóa og rennur eftir honum vestur í Hálsá. Upp af Selflóa er Stóra-Sauðafell, sem áður getur. Það afmarkast af Seldal. Vesturendi fellsins er nefndur Sauðafellstagl. Þar hjá eru tóftir gamals eyðibýlis, sem hét Sauðafellskot (Sauðafell). Skammt neðan við, þar sem Flóalækur kemur í Hálsá, er Uppspretta, þar sem sprettur upp hálfskolplitað, kalt vatn, stundum af nokkrum krafti. Uppspretta þessi er kringlótt, u. þ. b. 1 m. í þvermál. Um 4-500 m. þar neðar með Hálsá er Háavarða. Vestan við Háuvörðu, meðfram Hálsá, er Langalaut. Hún nær að Hvömmum, grasivöxnum brekkum meðfram ánni. U.þ.b. 200 m norðan Háuvörðu er Stekkur undir KastalaTvívörðuholt, sem dregur nafn af tveimur vörðum, sem þar standa. Norðvestur af því er Kýrholt. Nyrzt á brún Hvammanna eru tóftir Margrétarkots.”
Og þá er aftur komið að fyrsta viðmiðinu; Sauðafellskot við norðurmynni Seldals. Í fyrstu var ætlunin að ganga upp (suður) dalinn, en við nánari lestur var ákveðið að ganga upp frá bæjarhlaðinu á Fellsenda.
“Fyrir vestan Stóra-Sauðafell er Seldalur. Við botn hans eru Tjarnhólar. Þar er tjörn og upptök Hálsár, sem síðan rennur niður Seldal. Laugin er volg uppspretta við Hálsá í Seldal, um 200 m. sunnan við Hrútagil, það gil gengur í boga úr Seldal í suður og síðan í vestur. Eftir því rennur lækur, sem ekki er nefndur sérstaklega. Botnar eru mýrarflóar suðvestur af Tjarnhólum og Seldal.”
Í örnefnalýsingu fyrir Fellsenda segir m.a. um Tjarnhóla og nágrenni: “Nokkru austar eru fjórir hólar, er heita Tjarnhólar.  Þeir standa þétt, tveir og tveir, og sund á milli. Vestan við þá er Tjarnhólasund. Ef komið er frá Einbúa, er fyrst komið í sundið, það er næst honum. Norðan hólanna er Tjarnhólatjörn og austur og norður af henni Tjarnhólaflói.  Í austurátt frá Tjarnhólum eru brekkur, sem Háubrekkur heita.”
Fremri-Hálslýsingin heldur áfram: “Næsta gil fyrir norðan Hrútagil, við mynni Seldals, heitir Grímugil. Það er grösugt. Vestan þess tekur við Fannahlíð, sem nær vestur að Þvergiljum í landi Írafells. Fjallið allt vestan Seldals, sem Hrútagil skerst inn í, nefnist Skálafellsháls. Háfjallið, upp af Hrútagili er nefnt Efribrún. Neðan hennar að norðaustanverðu er Fannahlíð, sem að framan getur. Neðan Fannahlíðar er Neðribrún. Vestast í Fannahlíð er Fannahlíðarhorn. Frá Hálsá, þar sem hún kemur úr Seldal, eru þessi nöfn fyrir neðan brún (Neðribrún): Frá Hálsá fyrir neðan Seldal og heim að Eystrihæð heitir Steinshlíð. Eystrihæð Forn rétt við Bæjargiliðer fyrir sunnan ána á móti Háuvörðu. Réttarlækur kemur úr fjallinu heiman við Eystrihæð. Í því gili er Háifoss (gilið hefur ekki sérstakt nafn). Þar upp undir brún heitir Kór, því að hamraveggurinn þar minnir á kór í kirkju. Skammt vestan við Réttarlæk er Réttarhóll. Þar var lengi rétt, nú aflögð. Við réttina var Nátthagi. Þar var torfhleðsla, sem nú hefur verið sléttuð. Fyrir ofan Nátthaga, nær fjalli, er Nátthagahóll. Fyrir vestan hann er Nátthagagil. Fyrir vestan það er Kastalinn, allmikill grjóthóll. Þá tekur við Kastalagil. Beint niður undan Kastala er Heimrihæð. Einbúi er stakur klettahóll neðarlega á Heimrihæð, u. þ. b. 100 m. frá ánni…. Margrétarkot er á hæðarrana austan við ána. Mótar þar fyrir tóftum.”
Framangreint gæti virst ágætt vegarnesti og greinargóð vísbending hvar minjar væri að finna á svæðinu. En þar reyndist þrautin þyngri. Bæði var það vegna þess að landslagið er svolítið sérstakt og auk þess höfðu þátttakendur ekki komið áður inn á svæðið. Reynslan hefur sýnt að ákjósanlegast er að fara a.m.k. þrisvar sinnum um tiltekið svæði, skoða staðhætti, bera saman ritaðar skrár og heimildir við kennileiti og huga að fjarlægðum.

Dýralíf við bæjarlækinn að Fremra-Hálsi

Oft er nauðsynlegt að lesa örnefnalýsingar mjög vandlega með hliðsjón af því að þær eru jafnan ritaðar við eldhúsborðið heima í bæ og þá jafnan af gömlu fólki, sem hefur ekki um allnokkurt skeið farið um svæðið, sem það er að skrá. Oft verða því fjarlægðir misvísandi og orð eins og “spölkorn” eða “handan”, “ofar” og “innar” verða að miklum vafamálum þegar á vettvang er komið, auk þess sem áttir vilja misritast. Þannig eru t.d. lækir stundum sagðir á pappírnum renna í vestur, en á vettvangi renna þeir í austur. Áreiðanlegustu og nákvæmustu upplýsingarnar koma jafnan frá fólki, sem gengið er með um svæðin og skráð eftir þeim jafnóðum. Þannig verða hólar réttvísandi hver við annan, en ekki “handan” við eitthvað óljóst.

Möguleg tóft í Seljadal gegnt Hrútagili

Jæja, hvað um það. Fellsendi mun hafa byggst í kringum 1848-1849 enda er hans ekki getið í Jarðabókinni 1703. Öll hús eru orðin hrörleg, enda virðist jörðin ekki lengur vera í ábúð. Haldið var upp hálsinn eftir gömlum götusneiðingi, framhjá tóftum gamla bæjarins ofan (norðan) núverandi bæjarstæðis. Bæjarlækurinn rennur þar í aflíðandi flúðum, en neðan þeirra kemur Djúpiskurður í hann. Skv. örnefalýsingu áttu þar að vera óljósar tóftir af Vigdísarkofa, gamalli rúst. “Talið var, að þar hafi verið einsetumaður um skeið”. Árið 1981 bar lítið á rústinni, en sást þó enn. Nú virtist hún horfin í kargaþýfið.
Ofar blöstu Tjarnhólar við. Suðaustan þeirra var varða á steini, líklega landamerkjavarða á mörkum Fellsenda og Fremra-Hálsar. Önnur var á aflíðandi hól alllangt í norðvestri, á markalínu Kjósarsýslu og Árnessýslu. Þegar komið var upp að austasta hólnum blasti Tjarnhólatjörn við og Tjarnhólaflói vestan, norðan og austan hennar.
Haldið var fyrst upp að vörðunni á hólnum í vestri og síðan niður flóann, áleiðis niður Seldalinn. Á móts við Hrútagil, austan Hálsár, virtist móta fyrir tóft í grónum fláa. Erfitt var að fullyrða hvort um mannvistarleifar hafi verið að ræða, en vestan árinnar hefur legið gömul þjóðleið, enda auðveld yfirferðar. Henni hefur nú verið að hluta til spillt með slóða er gerður var þegar háspennulína um dalinn var sett upp.
Hornmörk Stardals, Fellsenda og Fremri-Hálsar, auk sýslumarkaÞegar komið var niður í Sauðafellskot virtist af aðstæðum að dæma að þar væri hinn ákjósanlegasti staður fyrir selstöðu; við læk, í skjóli og gróinn hóll að baki, tilvalinn fyrir stekk og kví. Haldið var áfram niður að Fremra-Hálsi eftir gamla Kjósaskarðsveginum.
Tekið var hús á Ingibjörgu Jónsdótturr og Jóni Steinari Vilhjálmssyni að Fremra-Hálsi. Ingibjörg er fædd og uppalin á staðnum. Foreldrar hennar fluttu að Fremra-Hálsi árið 1927. Þá var fráfærum hætt, að hennar sögn. Benti hún þátttakendum bæði á Réttarhól og Kastalann, sem þeir höfðu gengið framhjá á leið sinni niður að bænum.
Réttarhóll er innan girðingar, á ystu (syðstu) mörkum. Norðan í honum eru leifar af hlöðnum garði, réttinni. Augljóst var að túnið hafði verið sléttað að hólnum og þar með aðrir hlutar réttarinnar farið undir túnið. Skammt ofar, utan girðingar, mátti sjá stutt veggbrot.
Kastalinn er milli Réttarhóls og bæjarhúsanna, að vestanverðu, ofan og utan girðingar. Um er að ræða myndarlegan bólstabergsstand, mikið brotinn. Ingibjörg hafði upplýst að undir honum væri stekkur, sem ekki væri getið um í heimildum. Svo reyndist vera. Mannvirkið er ílangt, um 7 metrar að lengt, og mjótt, um 1.20 m. Efst er ferkantað gerði, lítið. Af mannvirkinu að dæmi hefur ekki verið fjármargt að Fremra-Hálsi fyrrum.
Tóftir Sauðafellskots (Sauðafells), sels frá Fremra-HálsiÁ leiðinni til baka að bænum var kíkt í bæjargilið. Þar kom í ljós hlaðið gerði (rétt) undir bergstalli, sunnan lækjarins. Ingibjörg sagði mannvirkið ævagamalt og þess væri heldur ekki getið í örnefnaskrám, einhverra hluta vegna.
Aðspurð um þann hluta lýsingar Stardals er segði að “þar neðar, austan merkja, eru gamlar tættur eftir sel”, sagði hún að lýsingin gæti verið rétt að hluta. Sauðafellskot hefði líklega verið sel áður en það óx upp í kot. Það fór snemma í eyði. Þess er t.a.m. ekki getið í heimildum frá 17. öld. Tóftirnar eru ekki ólíkar seltóftum, auk þess sem staðsetningin gæti vel passað við selstöðu frá Fremra-Hálsi. Ummerki um aðra slíka annars staðar í landi bæjarins hefði a.m.k. ekki fundist.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Fremriháls; “Selstöðu á jörðin í heimalandi“. Einnig segir um býlið Sauðafell; “Hefur verið hjáleiga í þessarar jarðar landi. Bygð í manna minni á fornu eyðibóli, þar sem halda áður hafi lögbýlisjörð verið, en nær eyðilögð vita menn eigi, og hefur þetta land fyrir hundrað ár Hálsi átölulaust eignað verið…. Eyðilagðist fyrir þá grein, að bóndanum á Fremrahálsi þótti sú bygð of mjög að sjer og sínum peningi þrengja, og eru snú síðan yfir 40 ár, sem það hefur ekki bygst; þar með er það vetrarríki mesta fyrir fannlögum, og því örvænt að aftur byggjast muni. ÞAR ER NÚ SELSTAÐA FRÁ HÁLSI.” Í örnefnalýsingu fyrir Fremra-Háls segir m.a.: “Selflói liggur meðfram Stóra-Sauðafelli, sem er sunnanvert við Kjósarskarð, en svo nefnist láglendið allt milli fjalla”. Hér er átt við flóasvæðið austur af Sauðafellskoti.
Niðurstaðan er að nokkru athyglisverð. Venjulega óx selstaða upp í það að verða að koti, s.s. Straumssel, Vigdísarvellir og Selkot, en hér er komið dæmi um að kot hafi orðið að selstöðu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. 

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Fremri-Háls.
-Örnefnalýsing fyrir Fellsenda.
-Hluti úr örnefnalýsingu Stardals.
-Ingibjörg Jónsdóttir – Fremra-Hálsi.
-Jón Steinar Vilhjálmsson-Fremra-Hálsi.
-Magnús Jónason – Stardal.
-Jarðabók ÁM 1703 (417-418) og (419).

Stóra-Sauðafell