Færslur

Fífuhvammssel

 Ætlunin var að leita að og skoða gamla fjárborg frá Fífuhvammi, steininn Lat og Fífuhvammssel norðan í Rjúpnahæð.

Engjaborg

Engjaborg.

Engjaborg við Fífuhvammsveg var landamerki jarðanna Kópavogs, Digraness, Fífuhvamms og Arnarness. Nafnið Engjaborg bendir til þess að fjárborg og/eða beitarhús hafi staðið þarna. Hún er hringlaga rúst með um 2-3 m breiðum veggjum. Borgin stendur nú á hól inni í miðju íbúðarhverfi. Vel virðist fara um hana, en líklega vita fáir íbúanna um minjarnar á hólnum eða hafa áhuga á þeim tengslum sem þær hafa óneitanlega við landið og sögu svæðisins.

Þinghóll

Minnismerki um erfðahyllinguna á Þinghól.

Bærinn Kópavogur dregur nafn af voginum sunnan Kársness og samnefndu býli sem stóð norðan Þinghóls þar sem var annar af tveimur þingstöðum í heimalandi Kópavogsbæjar. Ekki er vitað til að þar hafi verið þinghald á þjóðveldisöld en þar fór erfðahyllingin fram 1662. Á gamla þingstaðnum er friðlýst þinghústótt og skammt frá henni er minningarsteinn um erfðahyllinguna, reistur 1962.
Fyrr á öldum var eiginlega ekkert í Kópavogi nema hólar, mýrar, klettar, lækir og lyng. Þá voru þrír bóndabæir, Kópavogur, Digranes og Fífuhvammur.
Fífuhvammur, bújörð, húsið var byggt að hluta fyrir aldamótin 1900 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni. Síðan byggði Bernhöft tannlæknir stofu og forstofu norðan við en Ísak Bjarnason síðan austan og sunnan við. Til hægri voru skúrar, geymslur og peningshús. Húsið var rifið að fullu sumarið 1983. Þorlákur í Hvammkoti gaf jörðinni nýtt heiti því að hann vildi ekki að bærinn hans væri kallaður kot, Fífuhvamm. Hann er fyrsti Kópvogsbúinn sem sat á Alþingi svo vitað sé.

Kópavogur

Fífuhvammur.

Talið er að jörðin hafi heitið Fífuhvammur til forna. Í Fífuhvammslandi er mjög fallegt votlendi. Þar vaxa ýmsar jurtir, t.d. hofsóleyjar, holblaðka, engjarós, hrafnsklukka, vatnsharfagras, fífur, sefbrúður og stjörnusteinbrjótur. Á horni Fífuhvammsvegar og Reykjavíkurvegar fundust tvær grafir. Rétt hjá Fífuhvammi er álfhóll sem hvorki má slá eða raska. Sagt er að bóndi einn í Fífuhvammi hafi slegið hólinn og þá misst 8 kýr það ár.

Latur

Latur.

Fátt skráðra minja er eftir í Fífuhvammslandi enda hefur því nú öllu verið raskað meira og minna. Engjaborgin og landamerkjasteinn með áletrun vestar í hlíðinni (sjá aðra FERLIRslýsingu) eru nú svo til einu ummerkin, sem eftir eru.

Latur er og nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn. Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.

Fífuhvammssel

Fífuhvammssel.

Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Þá var haldið upp að Rjúpnahæð. Þar í norðanverðri hæðinni eru menjar gamals sels. Selið nýtur nú verndar. Um er að ræða tvö hús og bakhús. Lag og gerð húsanna bendir til þess að selinu hafði verið breytt í beitarhús undir það síðasta. Tóftirnar eru fast við girðinguna, sem umlykur loftskeytastöðina og rétt fyrir ofan nýlegan reiðstíg. Ekki er ólíklegt, ef leitað er vel, að leifar eftir stekk og/eða kví kunni að finnast þarna skammt frá. Neðan við tóftirnar er nú verið að gera golfvöll og útivistarsvæði.

Frábært veður – sól og hiti. Ferðin tók 2 klst og 12 mín.

Upplýsingar m.a. fengnar af http://www.ismennt.is/not/ggg/saga.htm og http://www.hjallaskoli.kopavogur.is/throun/fortid/islenska/hvammkot.htm

Latur

Latur – álfasteinn.

Nessel

Gengið var austur með Smalaholtinu, sem er í raun vesturhlíð Rjúpnahæðar, ofan við Leirdal og að Selshrygg norðan hlíðarinnar. Þar eru tóftir undir hlíðinni. Þær munu hafa verið notaðar sem beitarhús frá Fífuhvammi, en nafnið bendir til þess að þarna gæti fyrrum hafa verið selsstaða frá þeim bæ. Fyrir miðjum Selshrygg heitir Selsvellir. Þar er vatn og ógreinilegar tóftir, óskráðar. Líklega er þar um að ræða gamla selstaðan frá Fífuhvammi.

Fifuhvammssel

Fífuhvammssel.

Úr bókinni “Viðeyjarklaustur” eftir Árna Óla: “Samkvæmt máldaga klaustursins 1234 hefir það eignast selför í Þormóðsdal efri. Mun þar sennilega átt við þann dal, sem nú kallast Seljadalur, og hefir sennilega fengið það nafn af seli klaustursins. En hve lengi klaustrið hefir haft þar í seli, er ekki vitað, en seinna hafði það í seli undir Selfjalli, skammt frá Lækjarbotnum.

[S.G.] “Nesselið er eitt flottasta ef ekki flottasta selstæði sem ég hef séð. Var spöl fyrir innan það litla sem ég fann í gær, þ.e. nær Grímarsfellinu, inn í dalbotni sem snýr í suður, lokaður af af hálsum á þrjá kanta, kaldavermsl í bæjarhlaðinu, góður bæjarhóll og líklega stór hringlaga stekkur aðeins austan við, ekki þó fullvíst er svo vallgróinn. Stekkurinn óvenjustór, minnir frekar á fjárborg. Mannvirkin þarna að mestu úr torfi enda varla grjót að fá.

Mosfellsbær

Kambsrétt.

Talaði við Guðjón Jensson í Mos. og hann sagði að við Nessel séu miklar tóftir á hól og hefði þar verið lögrétt Mosfellinga, kölluð Kambsrétt, lögð af upp úr 1850, þá flutt í Árnakrók austan við Selvatn fram til aldamóta 1900 og svo byggð við Hafravatn. Hann taldi jafnvel að þar sem Kambsrétt stóð hafi verið selstaðan frá Viðey verið áður en hún var flutt undir Selfjall”.
Frábært veður.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Hádegishóll[ar].

Í “Fornleifaskrá Kópavogs – Enduskoðuð 2019”, segir m.a. um rúst í Hádegishólum:

“Hádegishólar – rúst
Norðan undir malarvegi, um 60 m SSV af stupu á Hádegishól. Í holti.
Fífuhvammur (Hvammur/Hvammskot).

Rúst.

Hádegishóll

Hádegishóll – minjar.

4,5 x 8 m (NNV – SSA).
Veggir úr grjóti og torfi, um 1 – 1,5 m breiðir og 0,2 – 0,5 m háir. Tvö hólf eru á rústinni (A og B) og jafnvel það þriðja (C). Dyr eru á hólfi A til N og á hólfi C í sömu átt.
Gólf í hólfi B er niðurgrafið.
Hólf C er á kafla niðurgrafið og aðeins er veggur við hólfið norðanvert sbr. teikningu.
Rústin er vel gróin og víða sér í grjót.
Yfir rústina sunnaverða liggur nýlegur vegur og hylur hann austurgaflinn.
Í Örnefnaskrá (undir Hádegishól) segir að þarna við hólinn hefði verið brunnur og tættur sem gamlar sagnir hefðu verið til um. Svæðið fyrir neðan hólinn til NV hét Stekkatún, en mýrin norðan við hét Stekkatúnsmýri. Á Stekkatúni var fjárhús sem var rifið og fellt árið 1983. Rústin var rannsökuð árið 2018.”

Hádegishóll

Hádegishóll – minjar. Brunnur fremst.

Haustið 2018 voru rústir undir Hádegishólum rannsakaðar vegna stígagerðar í nágrenninu. (Bjarni F. Einarsson 2018).
Niðurstöðurnar bentu til þess að um stekk hafi verið að ræða frá 1550-1650. Vísbendingar voru um að eldri minjar væru að hluta undir stekknum og vestan við hann.

Kópavogur

Fífuhvammur/Hvammskot.

Í Jarðabókinni 1703 er fjallað um “Huammkot”, síðar Fífuhvamm. Þá var þar tvíbýli. Ekki er minnst á selstöðu, enda lítt tíundað um möguleg hlunnindi á þeim tíma frá Kópavogskotunum því miklar kvaðir hvíldu þá á þeim, bæði af hálfu Bessastaða og Viðeyjar, líkt og lesa má um í Jarðabókinni.

Ljóst er á ummerkjum við Hádegishól[a] að þar hefur verið selstaða fyrrum. Þegar líða tók á 19. öldina gæti selsstekkurinn hafa verið byggður upp úr eldri tóftum og hann síðan notaður sem heimasel um tíma. Framan við stekkinn sést móta fyrir brunni sem og jarðlægum tóftum skammt sunnan undir hólnum. Mannvirkin eru í skjóli fyrir austanáttinni, sem var dæmigert fyrir selstöður á þessu landssvæði fyrrum. Ástæða væri til að gaumgæfa svæðið betur m.t.t. framangreinds.

Heimildir:
-Fornleifaskrá Kópavogs – Enduskoðuð, Fornleifafræðistofan, Bjarni F. Einarsson – 2019.
-Bjarni F. Einarsson. Rúst undir Hádegishólum. Rúst 31:1 í Kópavogi, Gullbringusýslu. Skýrsla um rannsókn á skepnuhúsi. Fornleifafræðistofan. Reykjavík 2018.
-Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði og staðsetti örnefnin. Handrit. Örnefnastofnun. 1990.
-Jarðabókin 1703, ÁM og PV.

Hádegishóll

Hádegishóll – minjar.