Færslur

Fimmvörðuháls

Gengið var yfir Fimmvörðuháls frá Skógum að Básum í Þórsmörk. Tilgangur ferðarinnar var að skoða leiðina með hliðsjón af annarri væntanlegri í kjölfarið.

Fimmvörðuháls

Lagt af stað á Fimmvörðuháls.

Í bók Þórðar Tómassonar í Skógum, Þórsmörk. Land og saga (Reykjavík 1996) er kafli um fjallferðir og smölun. Þar segir meðal annars um Fimmvörðuháls: “Allt frá miðöldum munu Austurfjallamenn hafa farið með fjárrekstra stystu leiðina milli Goðalands og heimabyggðar, um Hrútafellsheiði, Drangshlíðarheiði og slakkann milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Meginreksturinn að sumri með fráfærulömb og eitthvað af geldfé var oftast um 11. sumar-helgina, en þó réðst rekstrardagur jafnan af veðri. … Leiðin inn eftir hraununum – sem svo nefndust – var vörðuð, en illa var þó vörðum haldið við í seinni tíð. Numið var staðar til hvíldar á Fimmvörðuhálsi. Þar voru fimm vörður þétt saman til að átta sig á í dimmviðri. Þrjár vörður voru á Þrívörðuskeri sem stóð upp úr jökulhjarninu nokkru innar. Lægðin innan við Fimmvörðuháls var öll í jökli á þessum tíma, en fáein sker ráku kollinn upp úr honum norðaustur af hálsinum.”
Fimmvorduhals-3Í göngukorti  FÍ um Fimmvörðuháls segir m.a.: “Allt fram á þennan dag var Eyjafjallajökull hliðarjökull út frá Mýrdalsjökli. Þegar hlýnaði og jöklar tóku að hopa hvarf íshellan að mestu á milli þessara jökla. Eftir eru stórar fannir sem sjaldan leysir alveg sumarlangt. Þetta er Fimmvörðuháls. Nafnið kemur af því að norðan í Hornfellsnýpu í Skógarheiðinni er klapparsker með fimm vörðum sem kallað er Fimmvörðusker.
Oft var talið betra að taka hæðina frá Goðalandi í einum áfanga og ganga síðan undan fæti stærstan hluta leiðarinnar. Auk þess getur veður verið þannig að erfitt sé að finna leiðina niður af Hálsinum og inn á Morinsheiði. Sá, sem reynir að fara annars staðar niður en yfir Heljarkamb, segir ekki frá ferðum sínum.
Þar er hins vegar vinsælla að hefja gönguna frá Skógum og því verður sú leið valin hér. Um er að ræða eina vinsælustu gönguleið hér á landi. Hitt er líka jafn ljóst að hún er e.t.v. sú víðsjárverðasta sakir snöggra breytinga sem þar geta orðið á veðri á hvaða árstíma sem er. Því miður hafa orðið þar alvarleg slys sakir þess að menn hafa verið vanbúnir undir veðurbreytingar.
Um Skógarfoss er sú þjóðsaga að landnámsmaðurinn Þrasi hafi falið gullkistu sína í helli bak við fossinn.
Margir nafngreindir fossar eru í Skógaránni uns komið er að göngubrú rétt sunnan þar sem vegslóðinn liggur yfir hana. Fyrsti fossin nefnist Hestavaðsfoss. Neðan hans eru skógi vaxnir hólmar sem bærinn dregur nafns itt af. Munnmæli herma að ekki megi hrófla við gróðri þar, annars hljótist illt af. Næsti foss fyrir ofan er Fosstorfufoss og síðan Steinbogafoss. Þar er eini staðurinn sem hægt er (var) að ganga þurrum fótum yfir ána.
Þar lá fyrrum kirkjuvegur ábúenda á austurstu bæjum í Autsur-Eyjafjallahreppi Fimmvorduhals-7(Skarðshlíð og Drangshlíð), á þeim tíma er þeir áttu kirkjusókn í Skóga. Síðan tekur hver fossinn við af öðrum; Fremri- og Innri-Fellsfoss, Rollutorfufoss, Efri-Skálabrekkufoss, Kæfufoss og Gluggafoss (sem margir telja þann tilkomumesta í allri Skógaránni).
Þá beygir áin til norðausturs og þar er svonefndur Krókur með Króksfossi. Nokkir nafnlausir fossar eru þar fyrir ofan. Þarna fyrir ofan er öruggast að fylgja bílslóðanum upp að Baldvinsskála. Hann er nefndur eftir Baldvin Sigurðssyni frá Eyvindarhólum undir Eyjafjöllum, kunnum fjalla- og göngugarpi. Annar skáli, ofar á Fimmvörðuhálsi, er í umsjá Útivistar.”
Gígarnir tveir sem mynduðust í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi hafa fengið nöfn sem sótt eru í Ásatrú.
Fimmvorduhals-4Stærri gígurinn fékk nafnið Magni en sá minni nafnið Móði og hraunið sem rann frá þeim heitir nú Goðahraun. Þetta var ákveðið í gær þegar menntamálaráherra féllst á tillögu starfshóps undir forystu örnefnanefndar.
Nöfnin vísa til Þórsmerkur og Goðalands, en Magni og Móði voru synir þrumuguðsins Þórs. Í greinargerð starfshópsins segir að löng hefð sé fyrir því að örnefni á þessu svæði vísi til norrænnar heiðni.
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst að kvöldi tuttugasta mars og stóð í þrjár vikur.
Í ársskýrslu Landsbjargar 1970 má lesa eftirfarandi um mannsskaða á Hálsinum: “Það hörmulega slys varð aðfaranótt Hvítasunnudags 17. mái að tvær stúlkur og þrítugur maður urðu úti á Fimmvörðuhálsi er 11 manna hópur ætlaði að ganga frá Skógum yfir hálsinn og niður í Þórsmörk. Hópurinn lagði af stað í góðu og björtu veðri frá Skógum, en um síðan skall á stórhríð. Þá var fólkið skammt frá Heljarkambi…”.
Fimmvorduhals-6“Áður en komið niður á Heljarkamb þegar halla fer niður að Þórsmörk, er mest hætta á þoku og gæta þarf þess að villast ekki. Þessi kafli er vandrataðstur ef eitthvað er að veðri. Í björtu veðri er útsýni fagurt til norðurs yfir fjöllin í Goðalandi; Réttarfell, Útigönguhöfða og Morinsheiði.
Gengið er um Heljarkamb út á Morinsheiði. Nyrst á Morinsheiði heitir Heiðarhorn. Niður af heiðinni er gengið um skarð sem er lítið eitt sunnan við Heiðarhorn. Það er eini staðurinn þar sem niðurganga er möguleg. Gönguslóðinn liggur síðan niður svokallaðan Kattarhrygg með Strákagil á vinstri hönd og Útigönguhöfða sunnan þess. Þá er stutt eftir um einstigu í Bása.”
Fimmvorduhals-5Búið er að stika nýja leið frá göngubrúnni á slóðamörkum (vaðinu) upp að gígunum, en ástæða er til að forðast hana, en fylgja fremur slóðanum uns sést yfir að þeim. Þá er hægt að fylgja stikunum áleiðis niður að Morinsheiði. Fara þarf varlega þarna niður niður að Heljarkambi sökum malarleysinga á bröttu móberginu.
Talsverð lausleg aska úr Eyjafjallajökulsgosinu er í austanverðum hálsinum og skapar það nokkra erfiðleika í brekkum.
Frábært veður. Gangan tók 8 klst. Hæðarmismunur var 1025 m frá Skógum, en um 800 m frá Þórsmörk. Leiðin yfir Hálsinn er einungis fyrir þjálfað göngufólk. Hún er 25 km löng. Áætlað má að hún taki að jafnaði 10-12 klst. Eins og fram kemur hér að framan er um fjárgötu að ræða og sést það vel á Þórsmerkurhlutanum þar sem hún liggur hátt í bröttum hlíðunum.

Heimildir m.a.:
-Þórður Tómarsson, Þórsmörk, land og saga – Eystri rekstrarleiðin, bls. 223-225.
-Gönguleiðarbæklingur FÍ með loftmynd og örnefnum. Hann er þó ónákvæmur ef tekið er mið af núverandi aðstæðum.

Fimmvörðuháls

Útsýni niður í Þórsmörk af Morinsheiði.