Færslur

Finnur Jónsson

Þjóðhættir og ævisögur frá 19. öld – Finnur á Kjörseyri – 1945 – rituð á þriðjungi huta 20. aldar.

ÚRDRÁTTUR úr hluta bókarinnar.

Þjóðhættir um og eftir miðja 19. öld – Daglegt líf á Suðurlandi.
Húsakynni.
1. Dvaldist á Suðurlandi fram yfir tvítugsaldur.
2. Hús voru með líku sniði þar sem ég þekkti til á Suðurlandi um þær mundir. Sneru þau flest frá norðri til suðurs.
3. Baðstofur voru vanalega öðrum megin við bæjardyr. Voru þær annað hvort lágbyggðar (gólfbaðstofur) eða portbyggðar með þiljaðri stofu undir lofti í suðurenda, og á sumum stöðum með þiljuðu herbergi í norðurenda.
4. Þær stofur er þiljaðar voru um 1850, voru flestar þiljaðara með óstrikuðum, plægðum þiljum.
5. Í baðstofunum stóðu rúmin með veggjum, hvert fram af öðru. Í flestum baðstofum var fjalargólf og holt undir rúmum. Á sumum smæri býlum var þó moldargólf.
6. Hvergi sá ég skjáglugga á baðstofum. En á útihúsum sá ég þá og jafnvel í búrum og eldhúsum. Þeir voru vanalega kringlóttir og þaninn líknarbelgur á grind þeirra í glers stað. Ef líknarbelgurinn er hreinn, ber hann nærri eins vel birtu og gler.
7. Eldhús voru víða beint innar af bæjardyrunum. Voru þau byggð eins og mörg önnur útihús með allt að þriggja álna háum stöfum, er stóð á stoðarsteinum, er svo voru nefndir.
8. Á sumum eldhúsum, þar sem því varð við komið, var gat eða vindauga alla leið úr öskustónni og út úr eldhúsvegg. Var það kallað “gjósta”.
9. Skyrsáir, kaggar, tunnur og önnur hylki stóðu meðfram veggjum á spýtum eða hellusteinum. Dæmi voru til þess, að menn grófu sáina niður í búrgólfin, svo að ekki frysi í þeim.
10. Upp af sumum bæjardyrum stóðu vindhanar. Þeir sáust líka á öðrum húsum. Á mörgum vindhönum var gegnum- eða loftskorið fangamark húsbóndans og ártal.
11. Smiðjur voru á hverju býli sjálfsögð jarðarhús. Þær voru flestar litlar, 4-5 álna breiðar og álíka langar, og reftar upp líkt og portlausar skemmur.
12. Voru það gömul munnmæli, að þær smiðjur, sem í var arnarkló, brynnu ekki.
13. Þar sem heygarðar voru ekki að bæjarbaki, sem almennast var, var hlaðinn garður að baki bæjarhúsunum, svo að skepnur kæmust ekki upp í húsgarðinn, sem kallaður var.

Heygarðar.
1. Í heygarðinn var öll taða og úthey látið, nema ef hús voru langt frá bæjum eða túnum. Þá voru dálitlar heytóttir við þau og voru þær kallaðar kuml.

Torfþök.
1. Ég heyrði marga segja, að torfþök geti aldrei verið lekalaus. Það hygg ég sé misskilningur, a.m.k. í úrfellameiri héruðum, ef þökin eru nógu brött og vönduð.

Fénaðarhirðing og vorverk.
1. Óvíða á Suðurlandi voru hlöður eða heyhús. Í suðurhluta Gullbringusýslu voru víða hús fyrir töðuna, og svo hefur ef til vill verið í sjávarsveitum Árnessýslu.
2. Um vetíðina, frá því í byrjun febrúar og fram í miðjan maí, var það verk kvenfólks og unglinga að hirða féð, því að karlmenn fóru allir í verið nema efnuðustu bændur og örvasa gamalmenni. Á þeim árum átti kvenfólk á Suðurlandi sannarlega auma ævi allan seinni hluta vetrar og fram á vor.
3. Þegar konur komu frá gegningum á vetrum, settust þær að ullarvinnu og litu ekki upp úr henni, nema meðan þær borðuðu og lesinn var húslestur.
4. Fyrstu vorverkin auk fénaðarhirðingar voru túnaávinnsla og útstunga taðs eða skánar, sem kölluð var.
5. Stekkir og stekkjartún voru víða nokkuð langt frá bæjum. Stekkirnir voru vanalega byggðir eins og fjárréttir.
6. Þvottur og önnur meðferð ullar, var svipuð því, sem enn er víða. Nokkru áður en ullarþvottur hófst var safnað þvagi í kagga eða annað ílát, sem kallað var hlandstampur. Nýtt hland var talið ónýtt til þvotta.
7. Reiðingar voru almennt úr torfi. Það þótti hlunnindi á hverri jörð, ef þar var góð reiðingsrista, en það var í mýrum, þar sem gulstraungar og horblaðka, einnig kölluð reiðingsgras, uxu.
8. Klyfberar voru úr birki eða rekavið. Klyfberar, hagldir, sylgjur og yfirleitt flest áhöld voru gerð heima í sveitunum, en nú í byrjun 20. aldar er tízka að kaupa margt af því í verslunum.
9. Skeifur voru fjórboraðar, og hestskónaglar voru gildir með stórum og þykkum haus, en allt að því helmingi styttri en hinar erlendu fjaðrir, er nú tíðkast.
10. Um miðja 19. öld gat varla heitið, að járnskóflur þekktust til sveita.
11. Ljósakola var notuð í fjós. Kolurnar loguðu furðu vel, ef lýsið var hreint, og þótti sjálfrunnið sellýsi best. Kolunum var stungið í stoð í fjósununum, meðan stúlkur voru að mjólka.

Skógarvinna.
1. Vor og haust var á skógarjörðunum mikið starfað að skógarvinnu. Það var kallað “að fara í skóg”. Það gerðu bæði karlar og jafnvel kvenfólk og unglingar.
2. Þegar felldur var skógur eða tekinn upp sem kallað var, voru stofnarnir eða lurkarnir höggnir í sundur við rótina eð vanalegum íslenskum öxum, sem kallaðar voru ýmist skógaraxir, ketaxir eða handaxir.
3. Sumir hjuggu allar rætur og létu þær fylgja stofninum, og þótti það drýgra til kolagerðar.
4. Síðan var afkvistað eða kvistað.
5. Þegar búið var að kvista, var tekið að kurla.
6. Að þessu búnu var farið að svíða kolin.
7. Ekki voru hestar þá notaðir fyrir kerru, plóg, herfi, heyýtur eða sleða, því þau verkfæri þekktust alls ekki, nema sleðar á einstöku stað, en þeir voru dregnir af mönnum.

Réttir.
1. Réttir voru flestar í 21. viku sumars. Menn slógust í réttunum.

Ullarvinna.
1. Að loknum haustverkum settist kvenfólk að ullarvinnu. Karlmenn hjálpuðu einnig við hanna milli þess, er þeir gengdu fénaði.
2. Um dagsetur skyldi gegningum vera lokið, og var kveikt úr því, en oft urðu rökkrin löng.

Mataræði.
1. Um túnaslátt vöknuðu menn eða fóru til sláttar um kl. 3 á nóttunni.

Hátíðar.
1. Á Þorláksmessu voru svonefnd “hraun” soðin í hangikjötssoðinu, og höfð til miðdegisverðar ásamt reyktum bjúgum og köku.
2. Sumir suðu harðfisk í hangikjötssoðinu. Var það helst “maltur” fiskur, en svo kallaðist fiskur, sem illa hafði gengið að herða, og hafði komist í hann ýlda áður en hann harðnaði.
3. Á aðfangadaginn var miðdegismatur oft kálfskjöt og fleira kjötkyns ásamt kökubita með smjöri og floti.
4. Þá var hverjum gefið jólakerti.
5. Yngra fólkið spilaði, oftast alkort, sem ungum og gömlum þótti einna tilkomumest spil í þá daga.
6. Á jóladagsmorgun var gefið sætt kaffi með sykruðum lummum. Í morgunmat var hafður þykkur bankabyggsgrautur með samfenginni mjólk eða rjóma út á.
7. Sumardagurinn fyrsti var einn hátíðisdagurinn.

Daglegt líf á Suðurnesjum.

Húsakynni.
1. Töðuhlöður voru víða við sjóinn og miklu almennari en í sveitum, voru þær kallaðar heyhús. Þá voru þurrkhús og hjallar víða við sjó, en mjög sjaldséð í sveitum. Hins vegar áttu sumir sjávarbændur ekki hús yfir kindur sínar og hross, því að það gekk sjálfala, og var því ætlað lítið fóður eða ekkert.
2. Þrátt fyrir lélega meðferð á fénu á Suðurnesjum, sáust þar laglegar kindur hjá sumum. Fjörubeit var ágæt, og í heiðarlöndunum var kjarngott beitiland, þótt snöggt sé þar og hrjóstugt. Þar var talsvert af beitilyngi.

Þangskurður.
1. Að loknum slætti fóru menn að afla sér eldsneytis, en það var aðallega þang.
2. Flestir reyndu að fá sér eitthvert eldsneyti með þanginu, ef þess var nokkur kostur, og var flest tínt, sem brennanlegt var, svo sem torfusneplar, afrakstur af túnum, hrossatöð og kúaklessur. Sumir menn úr Garði, Leiru og Keflavík fóru á skipum sínum inn til Reykjavíkur og keyptu þar mó.

Sjósókn.
1. Vetrarvertíð hófst á kyndilmessu, 2. febrúar, og stóð fram til 12. maí. Þá komu útróðramenn víðsvegar að, og fylgdi þeim fjör og tilbreyting, en einnig mikið slark.
2. Þegar lent var, fóru framímenn, sem stundum voru nefndir stafnbúar, út úr skipinu og héldu því á floti meðan menn seiluðu fiskinn út úr skipinu. Hver háseti hafði seilaról.
3. Eins og fyrr segir stóð vetrarvertíð á Suðurlandi frá 2. febrúar til 12. maí, og eru það um 100 dagar að helgidögum meðtöldum.
4. Vanalega fengu lagsmenn einhvern til að hirða umsjófang sitt, útgerðarmenn eða aðra, þegar þeir fóru heim að vorinu. En stundum var annar lagsmaðurinn eftir og reri vorvertíðina.
5. Fiskur var hertur þannig, að fyrst var hann flattur og látinn í smáhrúgur, lagður þannig saman, að roðið sneri út. Þegar þerrir kom, var hann breiddur á steinaraðir og grjótgarða og roðið látið snúa niður. Var honum snúið eftir því sem þörf krafði, ef þurrkur hélst. En á nóttum var roðið ætíð látið snúa upp.
6. Hausum var raðað á slétta möl, steinaröð eða sléttagrund, ef lítið var um þurrkpláss.