Þegar farið er yfir Fornleifaskráningar fyrir Hafnarfjörð er ljóst að þar er margt miskráð eða jafnvel rangt.
Tökum dæmi: Í Fornleifaskráningunni fyrir Ásland má lesa eftirfarandi um skráða fjárborg í norðurhlíðum Ásfjalls, skammt ofan húsa nr. 8-10 við Brekkuás. Þar segir m.a.;
„Sérheiti: Borgin.
Tegund: Hleðsla.
Hlutverk: Fjárborg.
Hættumat: Engin hætta.
Ástand: Illgreinanleg/hrunin.
Aldur: 1550-1900.
Lengd: 17.2m.
Breidd: 14.4m.
Vegghæð: 0 – 0.4m.
Breidd veggja: 1.2m.
Lýsing: Fjárborgin er hrunin. Ytra lag hennar er enn greinanlegt en er ógreinilegra innan í henni. Inngangur hefur að öllum líkindum verið í NV horni. Veggjahæð er frá 0 – 0.4m og veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 1.2m.
Heimildir: Katrín Gunnarsdóttir. (2005). Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði. Hafnarfjörður: Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Örnefnaskrá – Ás.„
Í tilvísaðri Fornleifaskráningu í landi Áss, Hafnarfirði, árið 2005 er getið um „Borgina“; „Fjárborgin er miðja vegu milli hesthúshverfis við Kaldárselsveg og nýrar íbúðabyggðar“ og vísað í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Ás. Gísli minnist hins vegar ekkert á þessa „fjárborg“ í sinni lýsingu, ekki frekar en hin skotbyrgin 6 á fjallinu.
Þegar „Borgin“ er skoðuð er augljóst að um herminjar er að ræða. Hleðslunum er hrófað upp án röðunar og innan þeirra eru hlaðin skjól. Ekkert gras er í eða við fjárborgina, sem er jú sterk vísbending. Mannvirkinu svipar mjög til skotbyrgisins á Flóðahjalla þarna skammt norðar. Hlutverk þess hefur auðsýnilega átt að vera varðstöð gegn mögulegri ógn úr norðri.
Mikilvægt er að skrá fornleifar og ekki síður að skráningin sé rétt.