Tag Archive for: fjárborg

Ásfjall

Þegar farið er yfir Fornleifaskráningar fyrir Hafnarfjörð er ljóst að þar er margt miskráð eða jafnvel rangt.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Tökum dæmi: Í Fornleifaskráningunni fyrir Ásland má lesa eftirfarandi um skráða fjárborg í norðurhlíðum Ásfjalls, skammt ofan húsa nr. 8-10 við Brekkuás. Þar segir m.a.;
Sérheiti: Borgin.
Tegund: Hleðsla.
Hlutverk: Fjárborg.
Hættumat: Engin hætta.
Ástand: Illgreinanleg/hrunin.
Aldur: 1550-1900.
Lengd: 17.2m.
Breidd: 14.4m.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Vegghæð: 0 – 0.4m.
Breidd veggja: 1.2m.
Lýsing: Fjárborgin er hrunin. Ytra lag hennar er enn greinanlegt en er ógreinilegra innan í henni. Inngangur hefur að öllum líkindum verið í NV horni. Veggjahæð er frá 0 – 0.4m og veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 1.2m.
Heimildir: Katrín Gunnarsdóttir. (2005). Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði. Hafnarfjörður: Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Örnefnaskrá – Ás.

Ásfjall

Ásfjall – uppdráttur úr fornleifaskráningunni 2005.

Í tilvísaðri Fornleifaskráningu í landi Áss, Hafnarfirði, árið 2005 er getið um „Borgina“; „Fjárborgin er miðja vegu milli hesthúshverfis við Kaldárselsveg og nýrar íbúðabyggðar“ og vísað í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Ás. Gísli minnist hins vegar ekkert á þessa „fjárborg“ í sinni lýsingu, ekki frekar en hin skotbyrgin 6 á fjallinu.

Þegar „Borgin“ er skoðuð er augljóst að um herminjar er að ræða. Hleðslunum er hrófað upp án röðunar og innan þeirra eru hlaðin skjól. Ekkert gras er í eða við fjárborgina, sem er jú sterk vísbending. Mannvirkinu svipar mjög til skotbyrgisins á Flóðahjalla þarna skammt norðar. Hlutverk þess hefur auðsýnilega átt að vera varðstöð gegn mögulegri ógn úr norðri.

Mikilvægt er að skrá fornleifar og ekki síður að skráningin sé rétt.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Staðarborg

Við Vatnsleysustrandarveg, ofan Kálfatjarnar er skilti. Á skiltinu er eftirfarandi fróðleikur:

Staðarborg

Staðarborg – upplýsingaskilti.

„Staðarborg er um 1.5 km frá Vatnsleysustrandarvegi, um miðja vegu milli Reykjanesbrautar og Vatnsleysutrandarvegar í stefnu á Trölladyngju (suðaustur). Borgin sést þó ekki fyrr en komið er nokkuð upp í heiðina vega hæða sem skyggja á hana. Varðan hér litlu austar heitir Pestsvarða. Frá henni má fylgja lágum vörðum sem vísa leiðina að borginni. Fyrst er komið á langan klapparhól er heitir Klifflatarhóll. Þar eru tvær vörður. Þaðan skal fylgja vörðum sem sjást þar til Staðarborg blasir við.

Fjárborgin mikla
Staðarborg er stór og listilega hlaðin fjárborg. Líklegt er að borgin hafi verið hlaðin sem skjól fyrir fé í illviðrum. Áður fyrr voru borgir hlaðnar til að spara húsbyggingar. Þá voru gripahús af skornum skammti heima við bæi og var sauðfé haft úti eins lengi og unnt var. Sauðamenn sem þá voru á flestum bæjum önnuðust sauðféð og fylgdust með því ef þurfa þótti.

Staðarborg

Staðarborg.

Engar heimildir eru til um aldur Staðarborgar. Þó er talið víst að borgin sé nokkur hundruð ára gömul og teljist því til fornminja. Borgin er mjög heilleg og hefur ekki verið hreyft við henni utan þess að ofan dyranna voru tveir stórir steinar sem notaðir höfðu verið sem árefti yfir dyrnar til varnar þess að stórgripir kæmust inní borgina. Snemma á 20. öld lenti hins vegar stórgripur þar inni. Til að ná gripnum út var áreftið fyrir ofan dyrnar tekið svo þær uðu heilar uppúr. Staðarborg var friðlýst árið 1951 samkvæmt lögum um verndun fornminja.

Þjóðsagan

Staðarborg

Staðarborg að innanverðu.

Í þjóðsögu einni er sagt frá því að presturinn á Kálfatjörn hafi fengið hleðslumann til að hlaða borgina. Helðslumaðurinn vandaði vel til verka og notaði grjót úr nágrenninu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp eins og aðrar smærri fjárborgir sem voru víða um land. Má því til stuðnings skoða hleðsluna að innan sem var farin að slúta nokkuð. Er prestur komst að þessu varð hann reiður og harðbannaði þetta þar sem einsýnt var að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfartjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Við þetta á hleðslumanni að hafa gramist svo að hann hljóp frá ókláruðu verkinu og fór frá presti.

Örnefnin í Strandarheiði

Staðarborg

Staðarborg – örnefnin í heiðinni (SG).

Örnefnin hafa að geyma ákveðna sögu og með þeim má oft átta sig á með hvaða hætti landið var nýtt á mismunandi tímum. Örnefnin í heiðinni eru mörg og gönguleiðirnar margar eins og gefur að skilja ef horft er til landnotkunar áður fyrr þegar lifað var af því sem landið gaf. Þá var landið að mestu notað til sauðfjárræktar. Í kjölfar aukinnar vélvæðingar og umbóta í landbúnaði, s..s aukinnar túntæktar, girðingu heimatúna og áburðarnotkunar, um og eftir aldamótin 1900, færðist sauðfjárræktin í aukum mæli frá selstöðum í heiðinni í heimatúnin. Í kjölfarið minnkaði notkun örnefna í heiðinni og er svo komið í dag að mörg þeirra hafa fallið í gleymsku.“

Framangreindur fróðleikur er ágætur – svo langt sem hann nær. Hafa ber í huga að sunnan við Staðarborgina er áberandi hóll. Á henni eru leifar óþekktrar fjárborgar. Austan hennar er annar áberandi hóll með fjárborgarleifum. Vestan Staðarborgar er svo mjög svo áhugaverð Þórustaðaborgin.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Fjárborg

Mikil leit hafði verið gerð að Vífilstaðafjárborginni. Misvísandi upplýsingar voru um staðsetningu hennar og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilstaðahlíðar. En nú er hún fundin – á ólíklegasta stað.

Heiðmörk

Fjárhústóft í Heiðmörk.

Um er að ræða hlaðnar tvískiptar tóttir auk fjárborgarinnar. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni í fjárhúsin. Önnur tóftin, sú stærri, liggur frá suðri til norðurs. Dyr eru á norðurgafli. Hitt húsið er samhliða og samfast vestan við hið fyrra. Dyr eru þar einnig á norðurgafli. Bálkur er við þveran suðurgaflinn.
Austan við húsin er falleg, stór, hringlaga tótt, augljóslega fjárborg. Opið snýr mót norðri. Birkihrísla stendur upp úr austanverðri borginni. Veggir eru þykkir og greinilegir. Engar heimildir eru til um þennan stað, en líklegt er að mannvirkin hafi tilheyrt Garðapresti líkt og selin í Selgjá og Búrfellsgjá. Nýlega var gerður vélgerður stígur svo til alveg við mannvirkin, en eins og flestum ætti að vera kunnugt njóta fornminjar ákveðinnar friðhelgi í tiltekinni fjarlægð frá nútímaframkvæmdum.

Heiðmörk

Heiðmörk – minjar.

Gengið var til vesturs frá borginni, um Hraunflatirnar og yfir í kant Urriðakotshrauns. Þar uppi í kantinum er fallega hlaðið og heillegt beitarhús frá Urriðakoti. Frá því gekk Guðmundur, bóndi á Urriðakoti, með hey á bakinu austur yfir hraunið og í sauðahelli, sem þar er í austurjaðri þess undir Vífilstaðahlíð, neðan Ljósukollulágar. Fyrir hellinum eru V-laga hleðslur. Í hlíðinni gegt hellinum er gamla leiðin upp í Vífilsstaðaselið, sem hvílir þar uppi, í gróinni kvos skammt sunnan við línuveginn. Ofan þess að norðanverðu sést móta fyrir stekknum.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Gengið var sömu leið og Guðmundur forðum, eða á fyrsta fjórðungi síðustu aldar, yfir að sauðahellinum og hann barinn augum. Hleðslurnar fyrir framan munnann hafa haldið sér nokkuð vel. Hann er í nokkurra metra fjarlægð frá göngustígnum undir Vífilsstaðahlíðinni.
Lóuþræll tyllti sér á nálægan hraunklett og fylgdist óhræddur með göngufólkinu. Margt fólk var á ferli á svæðinu, en ekkert virtist hafa áhuga á hinum gömlu minjum, sem þar eru. Líklega hefur það ekki vitað af þeim eða þær ekki verið gerðar nægilega sýnilegar áhugasömu fólki, sem vill nota tækifærið og skoða athyglisverða staði á göngu sinni um svæðið.
Veður var frábært – milt og hlýtt. Gangan tók um 43 mín.

Vífilsstaðahlíð

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Grafarsel

Í Örnefnalýsingu Björns Bjarnasonar fyrir Grafarholt nefnir hann m.a. fjárbyrgi í Byrgisholti er hafi verið frá Grafarkoti (bærinn Gröf var við Grafará ofan Grafarvogs, Grafarholt var þar sem er núverandi Vesturlandsvegur (bærinn var færður þar sem nú eru leifar Grafar 1907) og Grafarkot (Holtastaðir) var rétt norðan við golfskálann , en tóftir kotsins sjást þar enn):

Byrgisholt

Byrgisholt – fjárborg.

„Um Grafarkot segir í A.M.: „byggð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina, að forn eyðijörð verið hafi og hún fyrir svo löngum tíma í auðn komin, að fæstir vita, hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa, að þessi jörð hafi heitið að fornu Holtastaðir“. Fornu rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefur verið mikið stærra fyrrum og girt, en utan við það afar fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.
Milli Selhóls og Úlfhildarholts gengur dalur, Moldardalur og Moldardalsgeirar upp af honum. Þá erum við komin að Byrgisholti en fyrir sunnan holtið er Trippadalur.“ (Ö. Graf 2, s.27). Sunnan í Byrgisholti um 300 m frá spennivirki sem er efst í Almannadal, 100 m fyrri vestan við veginn sem gengur upp Tryppadal er fjárbyrgi – í grjótholti.“

Byrgisholt

Byrgisholt – fjárborg.

Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Grafar; „Selstöðu á jörðin í heimalandi, sem nauðsynleg er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“ 145 Í örnefnalýsingu fyrir Gröf segir; „Djúpidalur er suðvestur af Grenisás, djúpur dalur. Hann er lokaður inni, en opnast suður að Hvömmum, skáhalt að svonefndum Selbrekkum. … .Þá eru Selbrekkur, er ná alveg frá Rauðavatni upp að Tvísteinum. Þar sér fyrir seltóftum efst í aðalbrekkunni.“

Grafarsel er enn vel sýnilegt ofarlega í grasigróinni brekku norðaustur af Rauðavatni. Fjárborgin er á ás allnokkuð suðaustan við selið. Hún er í jaðri skógræktar og hefur furutrjám bæði verið plantað við hana og í.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967.
-Jarðabók ÁM og PV 1703; Gröf.

Byrgisholt

Byrgisholt og Grafarsel – loftmynd.