Víkursel í Öskjuhlíð?
Getið er um Víkursel í heimildum, sjá meðfylgjandi neðangreint. Skv. þeim átti sel þetta, frá fyrsta norrænu byggðinni hér á landi, þ.e. í Reykja[r]vík að hafa verið í Öskjuhlíð.
Staðsetningin verður, bæði að teknu tilliti til fjarlægðar frá bæ og aðstæðna (í skjóli fyrir austanáttinni), hlýtur að hafa þykið hentug á þeim tíma. Í nokkrum misvísandi fornleifaskráningum á svæðinu hafa leifar selsins, þrátt fyrir fyrirliggjandi upplýsingar um sel og selstöðmannvirki frá fyrri tíð, ýmist verið staðsettar vestast í hlíðinni eða miðsvæðis í henni vestanverðri. Á síðarnefnda svæðinu hafa jafnframt verið staðsettir tveir stekkir, m.a. Skildingarnesstekkur (gæti hafa verið heimasel frá samnefndum bæ), stakur stekkur og nálæg fjárborg (væntanlega nátthagi frá selinu).
Í núverandi skógi, skammt vestan nefndra tófta eru greinilegar selsminjar líkt og sjá má á fyrrum umfjöllunum FERLIRs um Víkursel (sjá neðangreint).
Allar vangaveltur um efnið eru jafnan vel þegnar, en stundum þarf að staldra við og gaumgæfa aðstæður að teknu tilliti til fyrrum búskaparhátta. Ljóst er að fyrrum herminjar hafa að einhverju leiti villt skráningaraðilum sýn þegar kemur að samhengi hlutanna, en þó ekki að öllu leiti.
Í Öskjuhlíð eru fjölmargar minjar, flestar frá hernámsárunum, en einnig frá fyrrum nálægrar búsetu sem og selsminjanna. Leifar margra skotgrafa má enn sjá í suðvesturhlíðum Öskjuhlíðar, um 160 m norðaustan við Háskólann í Reykjavík. „Þar eru nokkrar skotgrafir sem liggja í sveig 25 m norðvestan við gamlan herveg sem lá að sprengigeymslunum og er nú notaður sem gangstígur. Fast við hann er stekkur og um 28 m norðan við skotgröf er fjárborg“. Stundum mætti ætla, með teknu tiliti til aðstæðna, að um fornar minjar væri um að ræða.
Í vestanverðri Öskjuhlíðinni var lítill kampur, geymsla fyrir skotfæri, er nefndist Rockfort Camp. Enn má sjá leifar hans í hlíðinni.
Í fornleifaskrá um „Göngustíg í Öskjuhlíð“ frá árinu 2020 má lesa eftirfarandi: „Um selstöðu greinir Jarðabók Árna og Páls: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn; (Jarðabók, III.bindi, s. 262).
Elín Þórðardóttir minnist á sel það sem faðir hennar hefði átt sunnan undir Öskjuhlíð „sem faðir minn sagði stæði í Reykjavíkurlandi; (Ö.Skild.1).
Eftir máldaga kirkjunnar, er Oddgeir biskup setti árið 1379, átti Reykjavíkurkirkja Víkurholt, með skóg og selstöðu. Þessi hlunnindi eru ekki nefnd í Wilchinsmáldaga 1397. Samkvæmt Oddgeirsmáldaga má ætla að Víkurholt sé sama örnefnið og Öskjuhlíð því að ótrúlegt er að sel hafi verið í Skólavörðuholti. Þess vegna getur fullyrðing Georgs Ólafssonar um Víkurholt, sem hið sama og Skólavörðuholt, ekki staðist. Ekki er unnt að segja nákvæmlega til um hvar selið hefur verið en líkur benda til að það hafi verið norðaustan við Nauthól og Seljamýrin því verið fram undan til (Ö.Skild 1). Rústin er í skógajaðri austan við göngustíg.
Selið er um 11×6 m (NNV-SSA). Veggir úr torfi, breidd veggja er um 1,5 – 2,0 m og 0,3 – 0,5 m hæð. Gólf er niðurgrafið. Fornleifarnar eru ógreinilegar og ekki hægt með vissu að skera úr hvort um sel sé að ræða. En það sem styrkir þá tilgátu er: 1) Lækjarspræna rennur við fornleifarnar A – verða. 2) Nánasta umhverfi mjög gott beitiland. Inni í fornleifunum vaxa 6 grenitré. Ekki er ósennilegt að í nánasta umhverfi fornleifarinnar séu fleiri fornleifar.“
Hér að framan er í fornleifaskrá lýst meintum leifum Víkursels. Auk þess segir um eldri byggð í Öskjuhlíð: „Vitað er að í Öskjuhlíð voru áður fyrr beitilönd Víkur og Skildinganess, en auk þess var þar Víkursel.“
Í „Fornleifaskrá, Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024“ er getið um endurtekningu á framangreindu Víkurseli, sbr.: „Neðarlega í suðvesturhlíðum Öskjuhlíðar er tóft sem talin er hafa verið Víkursel. Um 70 m norðaustur af Háskólanum í Reykjavík og um 20 m austur af gangstígnum Bæjarleið, sem liggur norður-suður með vestanverðri Öskjuhlíð. Norðaustan við tóftina er lækjarfarvegur. Suðaustan við er rás sem sést vel á gömlum loftmyndum, sennilega eftir herinn, sem hefur raskað suðurgafli.
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Undirhlíðar voru í Öskjuhlíð að sunnan- og vestanverðu. Í lýsingu Reykjavíkur og Seltjarnarness segir: „En Seljamýri var kennd við sel frá Hlíðarhúsum, sem var undir Öskjuhlíð.“ Hlíðarhús var hjáleiga frá Vík en var orðin sjálfstæð jörð um 1600. Síðasta selráðskonan í Öskjuhlíð var Elín Þórðardóttir, Sighvatssonar úr Hlíðarhúsum, og segir í örnefnalýsingu frá selinu sem faðir hennar sagði að stæði í Reykjavíkurlandi: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð.“
Lýsing: Jarðlæg sporöskjulaga tóft. Inngangur er ekki greinilegur, gæti hafa verið á suðausturgafli sem hefur raskast vegna rásar sem liggur um 15 m suður af henni. Veggjahæð 20 𝑥𝑥 50 cm.
Í „Fornleifaskráningu lóðar Háskóla Reykjavíkur í Öskjuhlíð – Nauthóll, Reykjavík 2006“ segir um Skildingarnesstekk: „Stekkurinn er í Öskjuhlíð um 3 m vestan við miðjustíginn þar sem hann beygir fyrir stóra klöpp. Undir hamri í skógrækt (barrtré). Lóðréttur klettastallur er á einn veginn og leifar af hlöðnum vegg fyrir framan. Nafnið Skildinganesstekkur virðist vera munnmæli. Stekkurinn er mældur inn á kort frá 1933.24. Stekkurinn er 6×3,5 m (N-S). A-veggurinn er hamar en aðrir veggir eru um 0,3-0,4 m háir og 0,7-1,0 m breiðir. Eru veggirnir úr 0,3-0,7 m stórum steinum auk stærri jarðfastra steina. Í N-hlutanum vottar fyrir þvervegg sem afmarkar lambakróna. Engar dyr eru sjáanlegar en líklegast hafa þær verið gengt lambakrónni í S-hlutanum. Veggir hafa verið endurbættir í seinni tíð.“
Um hinn stekkinn í Öskjuhlíðinni segir: „Í Öskjuhlíð vestanverðri er stekkur, neðan við miðjustíg suðaustan við Skildinganesstekk, í skógarjaðri. Stekkurinn er 8×8 m og liggur N – S. Veggir úr grjóti, 1,0-1,3 m breiðir og allt að 1,0 m háir (að innanverðu). A-hlutinn er meira og minna hamar, en aðrir hlutar hlaðnir úr 0,3 – 0,7 m stóru grjóti. Dyr eru í vestur. Grjótveggur liggur úr A-V vegg (N-S) 0,5 – 0,7 m breiður og 0,2 – 0,4 m hár. Við norðurenda garðsins er 1–2 m stór steinn, sem liggur dálítið frá vegg að innanverðu. Um 9 m NV af stekknum eru nokkrar holur sem vafalaust hafa tilheyrt hernum á sínum tíma. Í námundann við þessar holur eru fleiri mannvirki sem tilheyrt hafa hernum og er um 10 rústir að ræða. Rústin gæti hugsanlega hafa verið notuð af hernum og breyst eitthvað í því sambandi.“
Um fjárborgina segir: „Í Öskjuhlíð að vestanverðu. Um 6 m norður af malarstíg í stórgrýttu landi og skógrækt, fjárborgin er merkt inn á kort frá 1933. Fjárborgin er um 5,5×5 m. Veggir úr grjóti um 0,5-1,0 m á breidd og 0,3 – 1,3 m á hæð. Hluti veggjanna er stórt jarðfast grjót en á milli hefur verið hlaðið minna grjóti.“
Um Víkusel segir: „Um selstöðu greinir Jarðabók Árna og Páls: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ „Elín Þórðardóttir minnist á sel það sem faðir hennar hefði átt sunnan undir Öskjuhlíð“ sem faðir minn sagði stæði í Reykjavíkurlandi.“
„Eftir máldaga kirkjunnar, er Oddgeir biskup setti árið 1379, átti Reykjavíkurkirkja Víkurholt, með skóg og selstöðu.“
Rústin er í skógarjaðri austan við malbikaðan göngustíg. Selið er um 11×6 m (NNV-SSA). Veggir úr torfi, breidd veggja er um 1,5-2,0 m og 0,3-0,5 m hæð. Gólf er niðurgrafið. Fornleifarnar eru ógreinilegar og ekki hægt með vissu að skera úr hvort um sel sé að ræða. Nánasta umhverfi er mjög gott beitiland. Inni í fornleifunum vaxa sex grenitré. Ekki er ósennilegt að í nánasta umhverfi fornleifarinnar séu fleiri fornleifar.“
Í ljósi framangreindrar fornleifaskráningar verður, að teknu tilliti til sýnilegra minja á vettvangi Öskjuhlíðarinnar, að Víkursel hafi ekki verið á nefndum stað heldur svolítið austar og ofar í hlíðinni. Þar eru og a.m.k. leifar tveggja stekkja, auk þess sem lækjarfarvegur hefur runnið þar skammt frá. Tóft sú er vísað er til í skráningunni ber ekki með sér að hafa verið seltóft heldur miklu frekar útihús og þá væntanlega frá Skildinganesi eða jafnvel Nauthóli.
Sjá meira um Víkursel HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.
Heimildir:
-Göngustígur í Öskjuhlíð – Fornleifaskrá, Reykjavík 2020.
-Fornleifaskrá, Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Fornleifaskráning lóðar Háskóla Reykjavíkur í Öskjuhlíð – Nauthóll, Reykjavík 2006.
Öskjuhlíð – meint seltóft skv. fornleifaskráningu.