Á Borgarholti norðan Úlfljótsvatns eru talsverðar tóftir.
Holtið dregur nafn sitt af nefndri fjárborg, sem þar hefur verið upphaflega, en síðar verið breytt í stekk. Stekkurinn er greinilegur ef vel er að gáð. Ástæðan hefur að öllum líkindum verið sú að skammt frá, undir holtinu hefur verið tímabundin selstaða frá bænum. Tóftin er tvískipt, grjóthlaðin að framanverðu (til austurs) með sitthvorum innganginum. Hliðarveggir og milliveggur er hlaðnir að lágum hamravegg.
Að einhverjum tíma liðum voru byggð tvö fjárhús norðaustan við selshúsin með heykumli fast vestan þeirra. Með því hafa bæði hlutverk selsrústanna og fjárborgarinnar fyrrnefndu breyst.
Kolbeinn Guðmundsson skrifar um Borgarholt og minjarnar þar í „Örnefni í landareign jarðarinnar Úlfljótsvatns í Grafningi, eins og þau voru um aldamótin 1900, skrifað 1944„. Þar segir:
„Hamrar heitir klapparbrún, sem nær frá Ljósafossi fram á móts við Írufoss. Borgarholt heitir kollóttur klapparhóll, syðst á Hömrunum upp undan Írufossi. Þar hefir verið fjárborg, og sér greinilega fyrir henni. Austan undir Borgarholtinu, á valllendisflöt, mótar aðeins fyrir einhverjum byggingum, en ógreinilega.
Borgarmýri heitir mýrarblettur fyrir vestan Borgarholtið. Mýri þessi er áföst við Keramýrina, með mjóu sundi að vestan.
Austan við Keramýrina, suður af Borgarholtinu, er móarimi. Á honum sést móta fyrir gömlum byggingum, tveimur eða þremur og þeim ekki litlum.
Fyrir sunnan Keramýrina er mosavaxin heiðarbunga með litlu skógarkjarri að norðan-verðu. Norðan í henni, vestarlega, er stór jarðfastur steinn. Hann hefir verið nefndur Brynkasteinn síðan 1898, kenndur við Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi. Hann var þá barnakennari á Bíldsfelli og fór til messu á Úlfljótsvatni í miklum snjó og ófærð.
Komst hann að steini þessum, en var þá með öllu uppgefinn. Samferðamenn hans, sem voru tveir, skildu hann þá þarna eftir, en fóru sjálfir alla leið að Úlfljótsvatni, fengu þar sleða og drógu hann á honum til kirkjunnar. Veður var gott, svo allt fór vel.“
Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags við Sogsvirkjanir í Grímsnes- og Grafningshreppi“ frá árinu 2018 segir: „Borgarholt heitir kollóttur klapparhóll, syðst á Hömrunum upp undan Írufossi. […] Austan undir Borgarholtinu, á valllendisflöt, mótar aðeins fyrir einhverjum bygginum, en ógreinilega,“ segir í örnefnaskrá.
Bjarni F. Einarssin skráði minjastaðinn í tengslum við deiliskráningu fornleifa í Úlfljótsvatni 2005, þar segir: „Undir kollóttum klapparhól, syðst í Hömrunum.. […]. Rústirnar fundust ekki þrátt fyrir leit.“ Minjastaðurinn var ekki hnitsettur í skýrslu Bjarna F. Einarssonar.“
Í „Aðalskráningu fornleifa vegna aðalskipulags í landi Úlfljótsvatns í Grafningshreppi í Árnessýslu“ segir Bjarni F. Einarsson eftirfarandi um minjarnar á Borgarholti:
Fornleif 53 – rúst
„Efst á hól við norðanverða Borgarvík, um 30 – 40 m norðvestur af Úlfljótsvatni og Hrútey.
Rúst; 5×7 m (NV-SA), veggir úr grjóti, 1-1,5 m breiðir og 0,2-0,5 m háir. Garðlög eru greinileg á innanverðum langveggjum. Dyr snúa mót suðaustri. Rústin er vel gróin. Um 5 m suður af rústinni gætu leynst rústabrot.“
Bjarni tengir rústina hvorki við örnefnið Borgarholt né fjárborgina, sem þar á að hafa verið skv. örnefnalýsingu.
Fornleif 54:2 – fjárhús
„Í brekku mót norðri, um 5 m vestur af rúst 54:2. Norðan undir klettum, 11×16,5m (VNV-ASA). Veggir úr grjóti (og torfi?), 1- 2,5 m breiðir og 0,1-1 m háir. Þrjú hólf eru á rústinni (hólf A – C). Dyr eru á hólfum A og B til norðurs. Ekki eru sýnilegar dyr á hólfi C, en gætu hafa snúið inn í hólf B. Hólf C gæti verið hlaða. Garðlög sjást víða að innanverðu í öllum hólfum. Suðurhluti hólfs A og B er grafinn niður í hólinn eða brekkuna. Gaflar hólfanna eru þétt upp við bakkann. Kampar í hólfum A og B eru mjög greinilegir og vel farnir. Vestur veggur hólfs C er nær horfinn. Rústin er vel gróin grasi.“
Bjarni tengir hvorki fjárhúsin við tóftina 54:1 né upphaflega tilurð hennar í hinu sögulega samhengi.
Fornleif 54:1 – Rúst
Rúst í brekku að mót suðaustri, 5 metra austur af 54:1. Norðaustan undir klettum, 8,5×9 m (A-V). Veggir úr grjóti, 1,5-2 m breiðir og 0,1-2 m háir. A.m.k. tvennar dyr eru á rústinni (dyr A og B). Dyr A eru yfirbyggðar, en dyr B hafa hrunið. Þriðju dyrnar eða op er hugsanlega á vestur vegg (C). Þar gæti fóður hafa verið sett? Mikið af grjóti við vestur vegg og á gólfi rústarinnar. Rústin er vel gróin grasi.“
Op C hefur væntanlega upphaflega verið eldhúsaðgangur selstöðunnar.
Ljóst er að þörf er á að endurskoða notkunargildi minjanna á Borgarholti, þótt ekki væri fyrir annað en hið sögulega samhengi. Hafa ber í huga að fjársterkir aðilar hafa þegar fest kaup á hluta jarðarinnar sem og nærliggjandi jörðum með stórfellda skógrækt í huga með það eitt markmið í huga að gefa stóriðjum tækifæri til að „kolefnisjafna“ óþrifin. Aðferðarfræðin minni svolítið á aflátsbréfin fyrrum, sem er og verður væntanlega saga út af fyrir sig.
Í „Fornleifaskráningu í Grfanings- og Grímsneshreppi I„, Reykjavík 1999, er ekki minnst á Borgarholt.
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing Kolbeins Guðmundssonar á örnefnum í landaeign jarðarinnar Úlfljótsvatns í Grafningi, eins og þau voru um aldamótin 1900, skrifað 1944.
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við Sogsvirkjanir í Grímsnes- og Grafningshreppi, Reykjavík 2018.
-Aðalskráning fornleifa vegna aðalskipulags í landi Úlfljótsvatns í Grafningshreppi í Árnessýslu, Bjarni F. Einarsson 2005.
-Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi með viðbótum við eldri fornleifaskrá, Reykjavík 2018.
-Fornleifaskráning í Grímsneshreppi I, Orri Vésteinsson, Reykjavík 1999.