Færslur

Handrit

Fjörbaugsgarður“ fólst í því að misindismönnum var útskúfað úr samfélaginu og gert að ferðast til útlanda og dvelja utan í a.m.k. þrjú ár til að hugsa ráð sitt.
“Eitt sérkennilegasta ákvæði íslenskra laga er án ef ákvæði Grágásar um fjörbaugsgarð. Handrit-332Fjörbaugsgarður er í sem stystu máli tímabundin útilokun frá samfélaginu, útilokun sem þó gerir ráð fyrir að brotamaðurinn geti aftur komist inn í mannlegt samfélag. Ekki er vitað um sambærileg ákvæði í lögum frá Skandinavíu og það sama er reyndar upp á teningnum hvað keltnesk lög varðar enda er þar ekki að finna aðrar refsingar fyrir afbrot en fébætur. Þó tíðkuðust meðal Íra siðir sem líktust að sumu leyti fjörbaugsgarði.
Eins og fram hefur komið var ættin grunneining írsks samfélags, ættin í heild var bótaskyld ef einhver ættingi braut af sér. Ættin varð því að eiga í bakhöndinni ráð til að losna við vandræðamenn sem ekki fylgdu settum reglum og ollu ættingjum sínum fjárútlátum. Slíka menn var hægt að afsegja úr ættinni og greiða konunginum og kirkjunni ákveðna upphæð til að tryggja sig fyrir frekari misgjörðum óhappamannsins. Ef þeir bættu ráð sitt var hægt að taka aftur við þeim með því að gefa þeim hnefafylli af korni, hníf eða leyfa þeim að spretta af hesti á jörð ættarinnar.
Handrit-333Þar sem uppbygging keltnesku kirkjunnar var í samræmi við ættasamfélagið giltu innan hennar svipaðar reglur og í samfélaginu. Ein af þeim refsingum sem heilagur Columbanus setti munkum sínum var 10 ára útlegð úr klaustrinu en sú refsing var einungis notuð ef
munkur framdi morð. Fleiri heimildir eru til um að kirkjunnar menn hafi verið sendir í útlegð í lengri eða skemmri tíma.
Til eru heimildir frá eldri tímum um svipaðar refsingar. Júlíus Caesar segir frá því í Gallastríðunum að þeir sem ekki fóru eftir reglum ættarinnar hafi átt á hættu að vera útilokaðir frá trúarathöfnum. Þetta þótti þung refsing því þeir sem ekki fengu að taka þátt í trúarathöfnum voru taldir óhreinir og enginn vildi umgangast þá. Þeir gátu því ekki haft samskipti við annað fólk. Einnig gátu menn misst réttindi án þess að skyldum væri létt af þeim.
Allt er þetta sprottið af svipuðum meiði og fjörbaugsgarðurinn og markmiðið það sama, að losa samfélagið og ættina við þá einstaklinga sem voru til vandræða en þó þannig að þeir hefðu tækifæri til að bæta ráð sitt og komast aftur inn í mannlegt samfélag.”

Heimild:
-Saga, Guðmundur J. Guðmundsson, 31. árg. 1993, 1. tbl., bls. 115-116.

Engidalur

Tóft útilegumanna í Engidal.