Færslur

Fjara

“Fjörur bjóða upp á einstakt umhverfi fyrir útivist. Fjörur er tilvalið að nýta sem gönguleiðir allt árið um kring. Margar strandir eru öruggar gönguleiðir á veturna þar sem sjávarseltan kemur í veg fyrir klakamyndun. Mikilvægt er að fara með gát þegar gengið er um fjörur. Sumar fjörur er aðeins hægt að fara um þegar flæðir út og aðrar geta verið torfelldar vegna stórgrýtis eða mikils þörungagróðurs. fjara-222Erfitt getur verið að fóta sig á hálum steinum og þangi. Sérstaklega er erfitt að ganga á sagþangi þar sem það getur verið mjög sleipt.
Börnum (og fullorðnum) þykir fátt skemmtilegra en að fá tækifæri til þess að skoða, safna eða leika með þá fjársjóði sem fjaran hefur að geyma s.s. dýr, þara, skeljar, steina eða uppreknar spýtur. Krabba er t.d. að finna í grýttum fjörum, undir steinum og í fjörupollum (Agnar Ingólfsson og fleiri, 1986) og hefur þeirra orðið vart víða við kortlagningu búsvæða í fjörum Reykjaness. Krabbar eru ekki á lista yfir vísitegundir og hefur því hefur ekki verið leitað markvist eftir þeim. Kuðunga (Þangdoppur, klettadoppur, nákuðung eða beitukóng) er einnig hægt að finna í flestum fjörum þó ekki sandfjörum. Þá getur verið skemmtilegt að leita að skemmtilegum steinum, skeljum, sprettfiskum eða öðrum fjörulífverum.
Sandfjörur eru margar á Reykjanesskaga og geta verið sérstaklega skemmtileg leiksvæði sem t.d. er hægt að nýta til sandkastalagerðar. Í Holtsfjöru í Önundarfirði er t.d. árlega haldin sandkastalakeppni. Fjörur á Reykjanesi þar sem tilvalið er að gera sandkastala eru t.d. Stóra Sandvík, Litla Sandvík, neðan við Garðskagavita, við Bæjarskerfjara og Lindarsandsfjara. Hentugt er að stunda sjósund úfjara-221tfrá sandfjörum.
Að sögn Hálfdáns Örnólfssonar, sjósundskappa, er „snilld“ að synda í sjóunum við Garðskagavita á flóði og við Fitjar í Njarðvík.
Við Reykjanesskaga má einnig finna fjölmarga hentuga brimbrettastaði. Að sögn Georgs Hilmarssonar, brimbrettakappa skiptir fjörubotninn mestu máli þegar kemur að því að finna góða brimbrettastaði. Mikilvægt er að botninn sé lagaður þannig að aldan skælist, en brotni ekki öll í einu. Þessar aðstæður er oft að finna meðfram töngum og þar sem sandrif, hraunrif eða steinar í botninum mynda form eins og bókstafurinn A. Staðir á Reykjanesskaga sem eru hentugir brimbrettastaðir eru m.a., út frá fjörunni norðan Garðskagavita, Garðhúsavík, Lindarsandi, Merkinesi, fjörunni við Junkaragerði, Eyrarskerjum, Stóru-Sandvík, Malarenda við Grindavík, Bólu á Hópsnesi og Þórkötlustaðabót.
Fyrir fuglaáhugamenn eru fjörur Reykjanesskaga einnig gósenland, því margar tegundir fjörufugla eiga hér heimkynni sín og frá fjörunni má sjá ýmsa sjófuglategundir. Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur hefur tekið saman upplýsingar um fuglalíf í Sandgerði og á vestanverðu Romshvalsnesi fyrir Fræðasetið í Sandgerði.

fjara-223

Aðilar eins og Ferðafélag Íslands, Hið Íslenska Náttúrufræðifélag, Fræðasetrið í Sandgerði og Ferðafélagið Útivist hafa boðið up á fuglaskoðun á Reykjanesi. Einnig má oft sjá hvali meðfram ströndinni, frá Garðskaga og inní Njarðvík, auk þess sem selir eru algengir í ágúst í Ósabotnum.
Fjölbreytt lífríki fjörunnar má nýta í kennsluskyni og algengt er að fara með hópa skólabarna og leikskólabarna í fjöruferðir. Margar fjörur eru einnig tilvaldar til íþróttakennslu. Félagar í Júdódeild Njarðvíkur hafa t.d. haldið júdó- og jiujitsuæfingar í Stóru-Sandvík á góðviðrisdögum. Auk þess sem höfundi er kunnugt um kennslu á brimbretti m.a. í Stóru-Sandvík.
Í fjörum er að finna ýmiskonar hráefni sem hægt er að nýta á fjölmargan hátt. Margir eru t.d. með fjörugrjót í görðum sínum. Í landi Hrauns, vestan Ölfusár, hefur einnig verið stundað sandnám úr fjörum frá 1960 (Bölti ehf, 2009). Einnig hefur rekaviður verið nýttur hér á landi frá landnámi (Lúðvík Kristjánsson, 1980). Rotnandi þarabingi sem finna má í mörgum fjörum mætti líka nýta sem áburð eða til að blanda saman við garðúrgang eða húsdýraúrgangi til moltugerðar. Þannig er hægt að búa til úrvals mold sem er rík af hvers kyns næringar efnum og snefilefnum sem nauðsynleg eru fyrir gróður.”

Heimild:
-Fjörunytjar á Suðurnesjum, Eydís Mary Jónsdóttir, Náttúrustofa Reykjaness 2011.

Fjara

Í fjörunni.