Á upplýsingaskilti við Smábátabryggjuna (Flensborgarhöfnina) í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi um Hansabæinn Hafnarfjörð:
“Hið svokallaða Hansasamband var stofnað í Lübeck í Þýskalandi á 13 öld og var bandalag kaupmanna í verslunargildum borga í Norður- og Vestur-Evrópu. Lübeck var á þessum tíma mjög öflug verslunarborg og útskipunarhöfn inn á Eystrasaltið eftir að elsti skipaskurður Evrópu var opnaður árið 1398 á milli Trave og Elbe.
Upp úr 1470 hófu Hansakaupmenn að sigla til Íslands, upphaflega komu þeir einungis frá Bergen í Noregi en fljótlega einnig frá þýsku Hansaborgunum Hamborg, Lübeck og Bremen. Konungur hafði veitt Hansakaupmönnum leyfisbréf til verslunar á Íslandi árið 1468 en mikil samkeppni myndaðist á milli enskra og þýskra kaupmanna um bestu hafnirnar hér á landi í kjölfarið og til eru heimildir frá árinu 1475 um ófrið þeirra á milli við Hafnarfjörð.
Ófriðurinn hélt áfram um nokkurra ára skeið en svo fór að upp úr 1480 höfðu Þjóðverjarnir náð að hrekja Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum. Þýsku kaupmennirnir urðu mun vinsælli en þeir ensku, einkum vegna þess ap þeir fóru með friði og buðu ódýrari og fjölbreyttari varning en hinir höfðu gert. Baráttan um Íslandsverslunina sneri ekki nema að litlum hluta að innflutningi, fyrst og síðast var sóst eftir íslenskri skreið til að viðhalda völdum á skreiðarmörkuðum Evrópu. Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá 16. og má segja að hann hafi verið þýskur bær á þessu tímabili.
Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju. Í frumskýrslum þýsku kaupskipanna má sjá að þeir fluttu töluvert af byggingarvið til landsins til smíði verslunarhúsa og vöruskemma en einnig kirkjuvið til kirkjubyggingar.
Þekkt er að þýskir kaupmenn reistur sér kirkjur í erlendum höfnum og það gerðu þeir einnig hér. Kirkjan sem Hansakaupmenn reistur í Hafnarfirði var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki.
Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið “Die Islandfahrerbrüderschaft”.
Kristján IV. danakonungur gat út tilskipun sína um einokunarverslunina árið 1602 en með henni var öllum öðrum en þegnum danska ríkisins bannað að stunda verslun á Íslandi. Liðu undir lok áhrif þýskra kaupmanna í Hafnarfirði og hið beina verslunarsamband á milli Hafnarfjarðar og Hamborgar. Konungur gaf einnig út þá tilskipun árið 1608 að allar byggingar Hansakaupmanna í Hafnarfirði skyldu rifnar.”
Í heimildum segir jafnframt um Hansaverslunina:
“Þjóðverjar höfðu á 13. öld náð undir sig mikilli verzlun við Norðurlönd, en er Íslendingar voru gengnir Norðmönnum á hönd, eftir 1264, vildu Norðmenn gæta hagsmuna sinna í verzlunarviðskiptum við Ísland, og var þá Björgvin aðalverzlunarstaður Islendinga um langt skeið. Þjóðverjum var þá bannað að sigla „ultra Bergas versus partes boreales“, og urðu menn í fyrstu að gæta þessa. En Englendingar ráku allmikla verzlun á Íslandi frá upphafi 15. aldar, án þess að fá leyfi til þess hjá Norðmönnum. Þeir voru illa þokkaðir hjá Íslendingum, og þegar þýzku Hansakaupmennimir tóku að verzla við Ísland á seinni hluta 15. aldar, fór ekki hjá því, að margs konar árekstrar yrðu.
Það voru einkum Hansaborgirnar Hamborg og Bremen, en að nokkru einnig Lübeck, Danzig, Bostock, Wismar og Stralsund og jafnvel Lüneburg, er þessa verzlun ráku. Þjóðverjar voru vel séðir á Íslandi, og var jafnvel litið á þá sem verndara Íslendinga gagnvart Bretum, er frömdu ýmis ódæðisverk. Þeir drápu t. d. hirðstjórann Björn Þorleifsson 1467 á Snæfellsnesi. Eftirmaður hans einn var Þjóðverjinn Diederik Pining, er Piningsdómur er við kenndur, en hann er frá l.júlí 1490 um réttindi erlendra kaupmanna á Íslandi. Það er sagt, að Pining hafi siglt til Norður-Ameríku 20 árum á undan Kolumbusi. Pining gaf út tilskipun m. a. um, að ríkið skyldi annast fátækrahjálp. Er þessu mjög vel lýst í riti Hans Friedrich Bluncks „Auf grosser Fahrt“. Um árekstra Breta og Þjóðverja á íslandi ber einkum að geta um atburð þann, er varð á höfninni í Grindavík sumarið 1532.
Þar lá brezkt skip, „Peter Gibson“ frá London, og veiddu skipverjar bæði fisk og seldu varning sinn. Þá komu þangað nokkrir kaupmenn frá Hamborg og Bremen og heimtuðu að kaupa sama fiskinn, er Englendingar höfðu lagt til hliðar fyrir sjálfa sig. Englendingar neituðu um viðskiptin, en þá komu þangað Hansakaupmenn með 280 manns á 8 skipum frá Hamborg og Bremen. Þeir réðust á enska skipið um nóttina og drápu 15 manns af áhöfninni. Enskar og þýzkar heimildir eru ekki sammála um ástæðuna fyrir þessum fjandskap, en hann leiddi til stjórnmáladeilna milli Breta og Dana, auk þess sem danska stjórnin gat ekki unað því, að landsstjóri hennar hafði verið veginn 1467, án þess að hefndir kæmu fyrir. Verzlun Hansakaupmanna á Íslandi jókst og náði hámarki sinu í upphafi 16. aldar.
Konungur Dana reyndi nú að losna smám saman við verzlun annarra þjóða, og þetta leiddi til, að einokunarverzlunin komst á 1602, er stóð til 1787, og á þessu tímabili hrakaði Íslendingum mjög í öllum efnum. Hansakaupmenn ráku allmikla verzlun fram að einokunartímabilinu. Það er sagt, að þeir hafi reist þýzka kirkju í Hafnarfirði. Gætti ýmissa áhrifa þeirra, einkum hafa mörg orð úr þýzku verzlunarmáli komizt inn í íslenzku á þessu tímabili.” -Skírnir 1. jan. 1960, Alexander Jóhannesson, menningasamband Þjóðverja og Íslendinga, bls. 49-50.