Færslur

Flensborg

Eftirfarandi ávarp Ingvars Gíslasonar, menntamálaráðherra, er hann flutti á afmælishátíð Flensborgarskóla, gat að lesa í Lesborg Morgunblaðsins árið 1982 undir fyrirsögninni “Fyrsti kennaraskóli landsins“:

Flensborgarskóli“Í dag er mikill hátíðisdagur í Flensborgarskóla. Liðin eru á þessu ári 100 ár frá stofnun hans, og þess er nú minnst á veglegan hátt við skólaslit. Flensborgarskóli er því með allra elstu skólum í landinu og á sér hina merkustu sögu.
Ég vil leyfa mér að benda áheyrendum á að kynna sér sögu Flensborgarskóla í 100 ár og persónusögu þeirra mikilhæfu manna, sem mestu hafa ráðið um störf skólans þetta tímabil. Það er menntandi út af fyrir sig að kynnast mönnum og málefnum tengdum Flensborgarskóla. Í ljós mun koma að áhrif skólans á þróun almennra skólamála í landinu og þjóðlífið að sínu leyti, eru mikil og eftirtektarverð.
FlensborgarskóliFlensborgarskóli skipar virðulegan sess í skólasögu Íslendinga og það svo, að sumt í starfi hans hefur skipt sköpum í sögu íslenskra skólamála. 100 ár eru að vísu langur tími, og margt hlýtur að gerast á heilli öld í þjóðarævi. En síðustu 100 ár skera sig úr öðrum öldum Íslandssögunnar vegna hinna miklu og öru breytinga sem orðið hafa á þjóðarhögum. Þetta á ekki síst við um skólamál.
Varla er hægt að segja að verulegar umræður um stofnun almennra skóla komi til fyrr en um og eftir miðja 19. öld, eða jafnvel síðar, og framkvæmdir í þeim efnum voru býsna hægfara lengi framan af. Eiginlegur vöxtur skólakerfisins gerist reyndar ekki fyrr en á þessari öld og þá á nokkrum síðustu áratugum öðrum fremur. Svo stutt er saga almennra skóla á Íslandi.
FlensborgFlensborgarskólinn ruddi nýjar brautir í skólamálum á sinni tíð ásamt Möðruvallaskóla, sem stofnaður var um svipað leyti á Norðurlandi. Þessir tveir skólar eru fyrstu gagnfræðaskólar landsins þar sem unglingum voru kenndar almennar námsgreinar eftir að barnafræðslu var lokið. Miðað við skólamenntunaraðstöðu í landinu á þeirri tíð var það ekkert lítilræði fyrir menn að stunda nám í Flensborg eða á Möðruvöllum, enda voru gagnfræðingar frá þessum skólum taldir til menntamanna og voru eftirsóttir til vandasamra starfa og félagsmálaforystu. Því var það að á fyrri hluta þessarar aldar mátti finna í hópi forystumanna í landinu fjölmarga Flensborgara. Þannig síuðust áhrifin frá skólanum víða um þjóðlífið. Og reyndin er sú að Flensborgarskólinn var lengst af kunnur sem merkur gagnfræðaskóli á gamla vísu, sem skólinn var að meginstefnu allt frá stofnun 1882 fram til þess að honum var breytt í fjölbrautaskóla árið 1975, samkvæmt sérstökum samningi við menntamálaráðuneytið. Reyndar hafði skólinn nokkru áður stofnað framhaldsdeildir og stefnt að því að búa nemendur undir stúdentspróf.

Flensborg

Stefán Júlíusson.

Fyrsti kennaraskóli landsins
En vafalaust er þó sá þáttur Flensborgarsögu merkastur og minnisstæðastur, að Flensborgarskólinn er fyrsti kennaraskóli á Íslandi. Á þessu vori eru 90 ár síðan Flensborgarskóli brautskráði fyrstu sérþjálfuðu kennarana á Íslandi samkvæmt sérstakri reglugerð um kennaranámskeið, sem skólanum hafði verið sett. Frá 1896—1908 starfaði föst kennaradeild við Flensborgarskóla, og hún var ekki lögð niður fyrr en Kennaraskóli íslands tók til starfa 1908. Eftir það gegndi Flensborgarskóli áfram aðalhlutverki sínu sem gagnfræðaskóli í Hafnarfirði, sem þó var sóttur af nemendum víða að af landinu og hafði algera sérstöðu áratugum saman ásamt Gagnfræðaskólanum á Akureyri, sem nú er menntaskóli.
Það er varla hægt að segja sögu Flensborgarskóla í færri orðum en ég hef gert, og mannanöfn hef ég ekki nefnt  í þessari frásögn. Því má þó ekki gleyma að þessi skóli var stofnaður af merkum mönnum, og honum hafa ætíð stjórnað mikilhæfir skólamenn, og hér hafa starfað ágætir kennarar mann fram af manni. Ég vil leyfa mér að þakka öllum — lifandi og látnum — sem unnið hafa Flensborgarskóla, og innt af hendi ágæt störf á þessu aldarskeiði. Nöfn þeirra eru geymd en ekki gleymd.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson.

Ekki má þó láta ógetið stofnenda skólans, sr. Þórarins Böðvarssonar í Görðum og konu hans, Þórunnar Jónsdóttur. Þau voru að vísu stórefnafólk, en við skulum minnast þess að þau létu stofna Flensborgarskóla sem einkaskóla og sjálfseignarstofnun og gáfu skólahús og allstóra bújörð með öllum húsum til skólahaldsins. Það er vandasamt nú að meta þessa gjöf til fjár þannig að nútímamenn skilji hvers virði hún var peningum, en engin smágjöf var þetta, heldur stórgjöf til menningarmála, sem varla á sinn líka. Einnig vil ég minnast fyrsta skólastjórans, Jóns Þórarinssonar, sem reyndar var sonur stofnenda, en Jón Þórarinsson var fyrir margra hluta sakir tímamótamaður í sögu íslenskra fræðslumála. Barátta hans á Alþingi og virk forganga hans fyrir kennaramenntun mun lengi halda minningu hans lifandi. Auk þess varð hann síðar æðsti embættismaður yfir almennum fræðslumálum í landinu og mikill áhrifamaður í þeim efnum.

Í fararbroddi enn í dag
Þannig getum við rakið sögu Flensborgarskóla og þeirra sem við hann hafa starfað og hljótum að sannfærast um að skólinn hefur verið farsæl stofnun og gegnt hlutverki sínum með ágætum alla tíð. Það er vissulega gott að eiga góða fortíð. Það hlýtur að vera skólanum styrkur og hvatning. En ég vil þó umfram allt minnast skólans eins og hann er í dag og þakka núverandi skólameistara og kennurum og nemendum fyrir það sem Flensborgarskóli er á líðandi stund. Skóli á að vera lifandi stofnun handa lifandi fólki. Og það veit ég að Flensborgarskólinn er.
Skólinn gerist e.t.v. gamall að stofni til, orðinn 100 ára, en hann er ekki rykfallinn og enginn safngripur. Flensborgarskólinn tekur þátt í framsæknu skólastarfi af lífi og sál og hefur tekið að sér ný hlutverk af áhuga og einurð. Miklar breytingar hafa verið að gerast í skólanum síðustu 10 ár, og það hefur einmitt komið í hlut núverandi skólameistara að fylgja þeim eftir. Flyt ég honum og samstarfsmönnum hans þakkir og árnaóaróskir.
Ég óska Flensborgarskóla innilega til hamingju með 100 ára afmælið.”

Stefán Júlíusson skrifaði um sögu Flensborgarskólans í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1962:

“Þegar ég var að alast upp í Hafnarfirði, vitnuðu mörg örnefni í bænum um starfsemi erlendra manna á liðnum öldum. Þar var Hellyersstöð, Brydehús, Hansensbúð, Haddensbryggja, Linnetsstígur, Proppélóð. Sum þessara örnefna voru ný, önnur aldagömul, enda mátti svo heita, að Hafnarfjörður væri vettvangur erlendra kaupsýslu- og útgerðarmanna frá því um aldamótin 1400 og fram á þriðja tug þessarar aldar.

Flest þessi nöfn eru nú horfin, eða að hverfa. Enn hef ég þó ekki nefnt það útlenda heitið, sem einna oftast var á vörum fólks, og raunar var landskunnugt, en það er Flensborg. Og þetta heiti mun ekki hverfa úr sögunni, þótt önnur erlend nöfn týni nú óðum tölunni, því að gagnfræðaskólinn í bænum hefur nú borið þetta nafn í átta áratugi, og engar líkur eru fyrir því, að þar verði breyting á gerð. Enda er svo ráð fyrir gert í ráðuneytisbréfi frá árinu 1932, að skólinn skuli framvegis heita Flensborgarskóli, eins og hann hafði þá verið kallaður í hálfa öld.

Flensborg

Flensborgarhöfnin 1909.

Það er naumast nema von, að ég velti því fyrir sér, hvers vegna Hafnfirðingar telja það sjálfsagt og eðlilegt, að framhaldsskóli þeirra ber þetta gamla, danska nafn. Eins mætti líka spyrja: Hvernig stendur á þessu nafni í bænum, og hvers vegna hefur það unnið sér slíkan þegnrétt í hugum bæjarbúa og landsmanna allra? Skólar á Íslandi bera yfirleitt ekki erlend nöfn, og fremur hefur verið hamlað gegn því á undanförnum áratugum, að opinberar stofnanir beri útlend heiti. Flensborgarar settu ávallt allmikinn svip á bæinn , þegar ég var að alast upp, og í fyrstu þótti mér þetta auðkennisheiti skólafólksins þar dálítið furðulegt. En þegar ég var sjálfur orðinn nemandi í skólanum, hefði ég ekki annað viljað kallast en Flensborgari, þótt við skólafélagarnir værum stundum kallaðir Flensarar í háðungarskyni, ef einhver þóttist eiga okkur grátt að gjalda.
Flensborg í Hafnarfirði dregur nafn sitt af jósku borginni Flensborg, en hún stendur sunnarlega á Jótlandi, í Slésvíkurhéraði, sem ásamt Holtsetalandi var löngum þrætuepli Dana og Þjóðverja. Nú eru landamærin rétt norðan við borgina, og mun hún vera nokkru stærri en Reykjavík. Frá þessari suðurjózku borg komu kaupmenn   til Hafnarfjarðar fyrir um það bil eitt hundrað og áttatíu árum og reistu sér síðar verslunarhús fyrir botni fjarðarins, þar sem hann gengur lengst inn í landið að sunnanverðu.
FlensborgEkki verður fyllilega séð af gögnum, hvaða ár þetta var, en líkur mæla með því, að þeir hafi byggt árið 1794. Tóku þeir lóðina á leigu af konungi. Var hinn nýi verslunarstaður kallaður eftir heimaborg þeirra, og festist nafnið fljótt við staðinn. Var þetta allmikið landsvæði, enda þurfti töluvert olnbogarými fyrir verslun á þeirri tíð. Seinna keypti verslunin svo landareignina.
í Flensborg var verslað til ársins 1875, og voru margir verslunarstjórar á þeim átta til níu áratugum, sem þar var verslað, ýmist danskir eða íslenskir. Afkomendur þeirra sumra urðu merkir menn í íslensku þjóðlífi. Má meðal þeirra nefna Thorgrímsen verslunarstjóra á Eyrarbakka og Morten Nansen skólastjóra í Reykjavík, sem báðir voru fæddir í Flensborg í Hafnarfirði. Gísli J. Johnsen stórkaupmaður mun vera afkomandi Flensborgarkaupmanna.
En árið 1876 urðu mikil þáttaskil í sögu Flensborgar. Það voru þessi þáttaskil, sem urðu því valdandi, að nafnið lifir til þessa dags og mun halda áfram að lifa um ókomin ár. Þá keypti íslenskur maður Flensborgareignina, ekki í því augnamiði að reka þar áfram verslun, heldur til þess að setja þar á stofn barnaskóla fyrir Garðaprestakall á Álftanesi. Þetta var harla merkilegt tiltæki af kaupandanum, í rauninni einstakt framtak, því að á þeirri tíð var enn næsta lítið hugsað fyrir alþýðumenntun og barnafræðslu með föstu sniði.
Sá, sem keypti Flensborgareignina í þessum tilgangi fyrir áttatíu og sex árum, var prófasturinn í Görðum, sr. Þórarinn Böðvarsson. Seljendur voru Knudtzonfeðgar, sem lengi höfðu verið athafnasamir kaupmenn í Hafnarfirði, enda var ætt þeirra kunn kaupsýsluætt í Danmörku. Ári síðar en kaupin voru gerð, stofnuðu þau prófastshjónin í Görðum skólasetur í Flensborg og gáfu til þess miklar eignir, svo skólinn gæti orðið sjálfseignarstofnun, er stæði sem mest á eigin fótum. Skólann stofnuðu þau til minningar um son sinn, Böðvar, er andaðist árið 1869, 19 ára gamall, þá nemandi í lærða skólanum í Reykjavík. Var Böðvar bráðefnilegur piltur, góður námsmaður og hvers manns hugljúfi. Gjafabréf þeirra prófastshjóna er á þessa leið:

Flensborg

Ómar Smári Ármannson, Inspector Scholae í Flensborg 1875-’76, með Páli Þorleifssyni, húsverði. Axel, Sigurður og Gunni Einars í bakgrunni.

Síðan forsjóninni fyrir 8 árum síðan þóknaðist að svipta okkur hjónin okkar elskaða syni Böðvari, hefur það verið ósk okkar að heiðra minningu þessa okkar ógleymanlega sonar með því að gefa nokkurn hluta af eignum okkar til einhvers þess fyrirtækis, sem eflt gæti menntun og góða siði meðal almennings í föðurlandi okkar, og höfum við í þessum tilgangi afsalað og gefið til stofnunar alþýðuskóla þær fasteignir, er nú skal greina:
1. Húseign okkar í Flensborg í Hafnarfirði með þar tilheyrandi túni og annarri lóð, eins og hún er afsöluð með afsalsbréfi hins fyrra eiganda, stórkaupmanns P. C. Knudtzons, dags. 17. júlímán. f.á.
2. Eignarjörð okkar, heimajörðina Hvaleyri í Álftaneshreppi í Gullbringusýslu, 18.3 hndr. að dýrleika eftir nýju mati, með tilheyrandi húsum.

Um þessa gjöf lýsum við yfir þeim vilja okkar, að hún verði höfð til stofnunar alþýðuskóla, að þessi skóli verði fyrst og fremst barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi.

Flensborg

Stjórn Nemedafélags Flensborgarskóla 1975-’76. Þarna má sjá marga þjóðþekkta einstaklinga.

-að hún verði höfð til stofnunar alþýðuskóla,
-að þessi skóli verði fyrst og fremst barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi.
-að hann þar næst, eftir því sem efni og kringumstæður leyfa, jafnframt verði almennur menntunarskóli, þar sem kostur sé á að afla sér þeirrar þekkingar, sem álíta má nauðsynleg hverjum alþýðumanni, er á að geta kallast vel að sér.

Flensborg

Inga Blandon, kennari, og Ólafur Þ. kristjánsson, skólastjóri. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Enn fremur er það vilji okkar, að skólinn og skólaeignirnar séu undir stjórn þriggja manna nefndar, er stiftsyfirvöldin yfir Íslandi skipi, en að stiftsyfirvöldin hafi yfirumsjón með skólanum og gæti þess, að efnum hans sé varið samkvæmt tilgangi gjafarinnar, svo og, að stiftsyfirvöldin eftir tillögum skólanefndarinnar setji reglugerð fyrir skólann um allt fyrirkomulag hans og stjórn. Fyrir því afsölum við hér með frá okkur og okkar erfingjum í hinu umrædda augnamiði ofannefnda húseign og jörð, og eru eignir þessar upp frá þessu fullkomlega heimilar til allra umráða og afnota handa slíkri skólastofnun, sem að ofan er um getið, en verða undir okkar umsjón þangað til skólanefnd hefur verið skipuð og hún getur tekið við umráðum yfir þeim; Görðum, 10. ágúst 1877 – Þórarinn Böðvarsson / Þórunn Jónsdóttir.”

FlensborgVerslunarhúsið í Flensborg, sem nú varð skóli, var mikil bygging og traustlega byggt. Það var reist upp úr 1812, en þá brann fyrsta verslunarhúsið í Flensborg. Byggingin var næstum 20 m löng og 9 m breið, með háu risi, sem sneitt var við báðar burstir. Byggingarlistin var dönsk, og má enn sjá mikil hús af þessari gerð frá valdadögum Dana á ýmsum stöðum hér á landi. Ekki þurfti að nota allt húsið til kennslu, enda hafði það bæði verið íbúð verslunarstjórans, skrifstofur og búð. Varð Flensborg nú um skeið sýslumannssetur, eða fram undir áratug, til ársins 1887. Barnaskólinn var til húsa í norðaustur-endanum, sýsluskrifstofan í hinum endanum, en sýslumaður bjó uppi.

Flensborg

Kristján Bersi Ólafsson, kennari og skólastjóri. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Vísir að fastri barnakennslu hafði komist á fót í Hafnarfirði nokkru áður, þótt mjór væri, svo að telja má, að í bænum hafi verið föst barnakennsla í um það bil 90 ár. Þorsteinn Egilsson cand. theol., sonur Sveinbjarnar Egilsson rektors og tengdasonur sr. Þórarins í Görðum, byrjaði að kenna börnum tveim árum áður en skólinn í Flensborg tók til starfa. Hann var einnig fyrsti kennari þar.

Áður en lengra er haldið, er rétt að gera hér grein fyrir því, hversu mikil sú gjöf var, sem prófastshjónin í Görðum gáfu til skólahaldsins. Húsið sjálft var metið á 10.000 kr., geymsluhús á 450 kr., þriggja dagslátta tún og kálgarðar á 750 kr. Heimajörðin á Hvaleyri, sem skyldi renna stoðunum undir skólahaldið, var metin á 2.200 kr. Nokkrum árum seinna bætti svo sr. Þórarinn við strandlengjunni með fram Flensborgarlóðinni, sem hann keypti í þeim tilgangi og metin var á 1000 kr. Auk þess gaf hann þá skólanum ágóða af óseldum eintökum af Lestrarbók handa alþýðu, sem hann hafði gefið út þjóðhátíðarárið 1874. Alþýðubókin var hið merkasta rit og vitnar mætavel um hug sr. Þórarins til alþýðumenntunar, áður en hann stofnaði skólann í Flensborg. Til marks um það, hve Alþýðubókin var mikill aufúsugestur á heimilum víða um land, má geta þess, að þegar skáldið Örn Arnarson var beðið að yrkja vígsluljóð, er nýja Flensborgarskólahúsið á Hamrinum var tekið í notkun haustið 1937, lét hann svo ummælt, er hann varð við þessum tilmælum, að sér væri ljúft að minnast útgefanda Alþýðubókarinnar. Ekki er nú vitað, hve mikið hefur runnið til skólans fyrir bókina, en gjöf þeirra prófastshjóna hefur alltaf numið allt að 15 þús. kr. Varla munu tök á því að umreikna þessa fjárhæð nákvæmlega í núgildandi peninga, en víst er, að gjöfin hefði skipt milljónum í dag, þótt ekki væri að öllu leyti reiknað með breyttum aðstæðum.

Flensborg

Halldór Ólafsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars]

Barnaskóli var í Flensborg í átján ár, eða til ársins 1895. En þremur árum eftir að skólinn tók til starfa, kom hinn nýstofnaði Bessastaðahreppur á fót hjá sér skóla þar úti á nesinu. Grímur skáld Thomsen á Bessastöðum mun hafa átt frumkvæðið að þessari skólastofnun. Var því fleygt, að hann hefði að öðrum þræði gert það til að skaprauna nágranna sínum, sr. Þórarni í Görðum, og draga frá skólanum í Flensborg. Hann hafði frá upphafi fengið nokkurn opinberan styrk, en nú hlaut skólinn úti á nesinu að fá hluta af honum. Þótt grunnt væri á því góða með þeim prófastinum í Görðum og skáldinu á Bessastöðum, og þeir eltu stundum grátt silfur saman, þarf þessi skólastofnun úti á nesinu ekki að hafa verið af þeim toga spunnin, því að óneitanlega var erfitt fyrir börn framan af nesi að sækja skóla inn í Hafnarfjörð. En hvort sem þessir úfar með þeim stórmennunum hafa valdið eða ekki, varð þessi skólastofnun úti á nesinu meðal annars til þess, að sr. Þórarinn tók að hyggja að skólanum í Flensborg á nýjan leik. Og þessi athugun leiddi til þess, að þau prófastshjónin í Görðum breyttu gjafabréfi sínu árið 1882 og stofnuðu gagnfræðaskólann í Flensborg. Þá bættu þau líka við gjöfina, eins og áður var rakið. Og nú gátu þau hjónin lagt skólanum til meira en hús, land og fé: Nú varð sonur þeirra, Jón, skólastjóri hins nýja gagnfræðaskóla. Hafði hann með námi erlendis beinlínis búið sig undir skólastjórnina. Það var einstætt á þeirri tíð.

Flensborg

Einar Bollason, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Sr. Þórarinn Böðvarsson var mikill umsýslu- og búmaður og kunni vel að sjá fótum sínum forráð á veraldlega vísu. Með því að láta Jón son sinn búa sig undir skólastjórn í Flensborg, sló hann tvær flugur í einu höggi: Hann sá syni sínum fyrir framtíðaratvinnu, og hann tryggði óskabarni sínu, skólanum í Flensborg, trausta og farsæla stjórn gegnum brim og boða í upphafi siglingar. Ekki þarf að fara í grafgötur um það, að hagsýni sr. Þórarins hefur ekki síður miðað að því, að skólastofnun þeirra hjóna færi ekki forgörðum, þótt þeirra missti við. Ekki hefur hann lagt sig minna fram um þetta, eftir að hann fann andann frá skáldinu á Bessastöðum og öðrum öfundarmönnum. Hann hefur treyst syni sínum vel til starfans, og þar reyndist hann sannspár og giftudrjúgur, því að Jón Þórarinsson hafði erft traustleika og raunhyggju föður síns í ríkum mæli. Auk þess var hann mikill skólamaður og frumkvöðull í þeim efnum, svo að engin ráð voru ráðin í skólamálum um hans daga nema hann kæmi þar til, enda varð hann fyrsti fræðslumálastjórinn árið 1908. Þeir feðgar mótuðu þannig í sameiningu starfsemi skólans í Flensborg á byrjunarskeiði hans, en sr. Þórarinn sat að sjálfsögðu í skólanefndinni til dauðadags árið 1895.

Flensborg

Jón Thor Haraldsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Miklar breytingar urðu í Flensborg, eftir að gagnfræðaskólinn var stofnaður þar árið 1882 og Jón Þórarinsson tekinn við skólastjórn. Húsið var stækkað með því að setja tvo kvisti þvert yfir það, og var það íbúð skólastjóra æ síðan, meðan húsið stóð. Þegar sýslumannssetrið var flutt þaðan árið 1887, var sett þar á stofn heimavist. Nokkru síðar var allmikill tómstundaskáli byggður norðan við húsið, þar sem skólapiltar iðkuðu leika og smíði, en seinna var bókasafn skólans, Skinfaxi, þar til húsa. Um skeið störfuðu þrír skólar í Flensborg, barnaskóli, gagnfræðaskóli og kennaraskóli. Kennaradeildin var sett á stofn tíu árum eftir að gagnfræðaskólinn tók til starfa. Var hún fyrst 6 vikna vornámskeið að gagnfræðaprófi loknu, en gagnfræðaskólinn var þá tveggja vetra skóli. En árið 1896 varð hún eins konar 3. bekkur og starfaði í 7 1/2 mánuð árlega. Þetta var fyrsti kennaraskóli á Íslandi, og eru því á þessu ári 70 ár liðin frá því að reglubundin kennsla undir kennarastarf hófst hér á landi. Þessi fyrsti kennaraskóli komst á fót fyrir áhuga, dugnað og framsýni Jóns Þórarinssonar skólastjóra. En ekki væri sanngjarnt að geta þar að engu samverkamanns hans, Jóhannesar Sigfússonar kennara í Flensborg, sem studdi hann með ráðum og dáð í þessum framkvæmdum, enda var hann hinn merkasti skólamaður.

Flensborg

Hallgrímur Hróðmarsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Árið 1906 var byggt sérstakt skólahús á Flensborgarlóðinni, snertispöl norðan við gamla húsið. Þetta nýja skólahús var einlyft, 18 m langt og 9 m breitt; í því voru 3 kennslustofur, góður gangur og kennaraherbergi. Þetta hús entist skólanum í rúm 30 ár. Við þessa byggingu rýmkaðist mjög um heimavistina í gamla húsinu, svo að nú rúmaði hún 28 pilta, en áður komust þar fyrir helmingi færri. Eins og alkunnugt er, voru fyrstu almennu fræðslulögin sett hér á landi árið 1907. Ekkert sýnir betur gengi Flensborgarskólans um þessar mundir en það, að þegar kom til að framkvæma þessi lög (árið eftir), urðu kennarar frá Flensborg til að hafa þar á hendi forustuna. Skólastjórinn, Jón Þórarinsson, gekk inn í hið nýja embætti fræðslumálastjóra, og annar kennari þaðan, sr. Magnús Helgason, varð skólastjóri nýstofnaðs kennaraskóla í Reykjavík. Hann hafði komið að skólanum árið 1904, þegar Jóhannes Sigfússon varð yfirkennari við menntaskólann, en raunar hafði hann verið kennari þar fyrsta vetur gagnfræðaskólans, áður en hann gerðist prestur.
FlensborgÞriðji kennarinn í Flensborg, Ögmundur Sigurðsson, hefði vel mátt fá stöðu við kennaraskólann nýja, enda sótti hann um stöðu þar. Hann hafði gerst kennari í Flensborg árið 1896 og hafði jafnan á hendi æfingakennslu í kennaradeildinni, enda var hann óumdeilanlega í fremstu röð skólamanna landsins. En Ögmundur fékk ekki stöðu við kennaraskólann, hann varð skólastjóri í Flensborg. Vafalaust hefur það þótt of mikil blóðtaka fyrir Flensborg að missa alla þrjá aðalkennarana í einu, og má fara nærri um það, að Jóni Þórarinssyni hefur ekki getist að því. Ögmundur Sigurðsson var svo skólastjóri í Flensborg í 23 ár við mikinn og góðan orðstír. Í hans tíð, eða árið 1912, varð skólinn þriggja vetra skóli, og það var hann fram á síðasta áratug. Nú er hann fjögurra vetra skóli, eins og aðrir gagnfræðaskólar í kaupstöðum.
Lengi var það áhugamál skólastjóra og kennara í Flensborg, að nemendur með góðu gagnfræðaprófi þaðan hefðu rétt til að setjast í lærdómsdeild menntaskólans. Það varð þó aldrei. Til þess þurftu þeir viðbótarnám og að heyja inntökupróf í 4. bekk menntaskólans. Ýmsir nemendur úr Flensborg fóru þó þessa leið sama vor og þeir tóku  gagnfræðapróf þaðan. Nú hefur landsprófið leyst þennan vanda.

Flensborg

Þórarinn Andrewsson, kennari, með stærðfræðina á hreinu. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Ég var í Flensborg á árunum 1929—32. Þessi ár voru mikil breytinga- og umbrotaár í sögu skólans. Eftir fyrsta vetur minn í skólanum skemmdist gamla Flensborgarhúsið svo 1 eldi, að ekki þóttu tiltök að gera við það. Var þá rifið það, sem eftir stóð. Þá stóð eftir á sjávarbakkanum gamla skólahúsið frá 1906, lág bygging og hnípin, gisin og úr sér gengin á margan hátt, svo að gjörla mátti sjá endalokin. Samt varð hún að endast í sjö ár enn. Eftir brunann hætti Ögmundur Sigurðsson skólastjórn, sjötugur að aldri, og heimavistin lagðist að sjálfsögðu niður. Fullur hugur var í forráðamönnum skólans að fá ungan og ötulan skólastjóra til að taka við starfi hins kunna skólamanns. Það tókst líka. Sr. Sveinbjörn Högnason varð skólastjóri haustið 1930, þá rúmlega þrítugur. En hann var aðeins einn vetur. Sóknarbörn hans austur í Rangárþingi vildu ekki missa hann, og hvarf hann þá austur aftur. Hef ég varla séð meira eftir öðrum manni úr starfi. Þá tók Lárus Bjarnason við skólastjórn, en hann hafði komið að skólanum með sr. Sveinbirni. Stýrði hann skólanum í tíu ár.

Þorvaldur Jakobsson

sr. Þorvaldur Jakobsson.

Við gagnfræðingarnir, sem brautskráðumst frá Flensborg á hálfrar aldar afmæli skólans, árið 1932, höfðum því þrjá skólastjóra, og önnur kennaraskipti voru einnig mikil. Hellubjargið í kennaraliðinu á þessum umbrotaárum var sr. Þorvaldur Jakobsson, sem kenndi íslensku og stærðfræði, merkur ágætiskennari. Á þessum árum sagði heimskreppan til sín í skólahaldi sem öðru. Við vorum tuttugu og fjögur, sem hófum nám í 1. bekk, en aðeins tíu runnu skeiðið til enda, hin höfðu helst úr lestinni. Samt brautskráðumst við þrettán gagnfræðingar þetta vor; þrír höfðu bæst í hópinn á leiðinni. En aðalbreytingin var þó sú, að á þessum árum komu til framkvæmda ný lög um gagnfræðaskóla í landinu. Skyldu þeir kostaðir af opinberu fé í öllum kaupstöðum landsins.

Á þessum árum breyttist Flensborgarskólinn því úr sjálfseignarstofnun í ríkisskóla. Reglugerð fyrir ríkisskólann var einmitt sett árið 1932, á hálfrar aldar afmæli skólans, og setti ráðuneytið þá ný ákvæði um gjöf prófastshjónanna í Görðum, sem ekki þurfti lengur að standa undir skólanum í Flensborg.

Flensborg

Arnaldur Árnason, kennari, ábúðarfullur. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Þegar héraðs- og gagnfræðaskólar tóku að rísa upp víðs vegar um landið, varð Flensborgarskólinn að sjálfsögðu í æ ríkari mæli skóli fyrir Hafnarfjörð, en áður höfðu löngum sótt hann nemendur víðs vegar að, enda voru gagnfræðaskólar lengi aðeins tveir á landinu. Forráðamenn skólans vildu þó gera sitt til að halda við gamalli skipan, og þegar nýtt skólahús var reist á Hamrinum, var höfð í því heimavist. En tímarnir voru óumdeilanlega breyttir; heimavistin lagðist fljótlega niður. Bæjarbúum fjölgaði líka ört á þessum árum. Ekki kom til greina að byggja aftur upp á gamla staðnum niðri í fjörunni fyrir botni fjarðarins. Aukið athafnalíf og nýtt skipulag kaupstaðarins hlaut að krefjast Flensborgarlóðarinnar gömlu til annarra hluta. Nú stendur íshús Hafnarfjarðar þar, sem skólahúsið stóð, og Strandgata og Hvaleyrarbraut greinast þar, sem Flensborgartúnið var áður.

Flensborg

Bjarni Jónsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvarsson].

Lárus Bjarnason var skólastjóri, þegar skólinn flutti í hina veglegu byggingu uppi á Hamrinum árið 1937. Hann var skólastjóri til ársins 1941 en þá tók Benedikt Tómasson skólayfirlæknir við skólastjórn. Var hann til ársins 1955, að núverandi skólastjóri, Ólafur Þ. Kristjánsson, tók við. Þannig hafa aðeins sex skólastjórar verið í Flensborg þau áttatíu ár, sem gagnfræðaskólinn hefur starfað; þar með talinn sr. Sveinbjörn Högnason, sem aðeins var eitt ár.

Nú kynni einhver að spyrja: Hvað varð þá um gjöf þeirra prófastshjóna í Görðum, þegar ekki var lengur grundvöllur fyrir sjálfseignarskólann Flensborg. Því er til að svara, að gjafasjóður sr. Þórarins og frú Þórunnar er enn til, og enn er hann í tengslum við skólann. En í reglugerðinni frá 1932, sem ég gat um fyrr, er þetta ákvæði: „Aldrei má verja fé sjóðsins til útgjalda, sem greiða skal lögum samkvæmt af opinberu fé.” Þótt ákvæðið sé að sjálfsögðu réttmætt, er hlutverki sjóðsins þannig óneitanlega þröngur stakkur skorinn. Þó hafa nemendur skólans oft notið fjárframlaga úr sjóðnum á undanförnum árum, bæði til gagns og ánægju. Bæjarfógeti og bæjarstjóri í Hafnarfirði hafa á hendi stjórn sjóðsins, ásamt einum stjórnskipuðum fulltrúa, sem nú er skólastjórinn í Flensborg. Árið 1956 keypti Hafnarfjarðarbær eignarlendir sjóðsins með mjög hagstæðum kjörum. Og alla tíð hefur bærinn notið ríkulega gjafar þeirra prófastshjóna, og stendur Hafnarfjarðarkaupstaður því í ævarandi þakkar- og fjárhagsskuld við Flensborgarskólann. Gjafasjóðurinn er nú rúmar 2 milljónir króna.

Flensborg

Úr félagslífi Flensborgarskóla 1975-’76.  Tryggvi Harðarson, Daníel Hálfdánarson o.fl. fylgjast með félaga sínum Halldóri Árna Sveinssyni.

Af því, sem ég hef nú rakið, má það ljóst vera, að Flensborgarnafnið á gagnfræðaskólanum í Hafnarfirði er eins konar minnistákn um höfðingslund prófastshjónanna í Görðum og þann merka skóla, sem þau stofnuðu til minningar um son sinn. En jafnframt er í nafninu bundin minning um hinn soninn, sem svo farsællega stýrði skólanum fyrsta aldarfjórðunginn og gerði garðinn frægan. Þótt nafnið hljómi allútlenskulega, er það samt norrænt að uppruna.

Flensborg

Flensborgarskóli 2021.

Borgin á Jótlandi hét upprunalega Fleinsárborg, virkið við Fleinsá. Mannsnafnið Fleinn mun hafa verið til á Norðurlöndum í fornöld, í líkingu við nafnið Geir. En vel gat áin líka dregið nafn sitt af vopni, sem þar hefur týnst eða fundist. Fleinsárborg hefur síðan breyst í Flensborg, og Fleinsborg í Flensborg.
Ég get þessa hér í lokin til gamans fyrir þá, sem áhuga hafa á nafngiftum og nafnbreytingum. Mestu máli skiptir þó hitt, að í átta áratugi hefur í skjóli Flensborgarnafnsins gerst í Hafnarfirði hin merkasta saga, sem er snar þáttur af þjóðarsögunni sjálfri. Vonandi verður svo áfram um alla framtíð.
(Grein þessi er útvarpserindi, flutt s. l. sumar. Heimildir: Saga Hafnarfjarðar, Minningarrit Flensborgarskóla, skólaskýrslur o. fl. S.J.)”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 23. tölublað (03.07.1982), Ingvar Gíslason, menntamálaráðherra; “Fyrsti kennaraskóli landsins”, bls. 2.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – Jólablað 1962 (15.12.1962), Stefán Júlíusson, Flensborg í Hafnarfirði, bls.8-10.

Flensborg

Flensborg.


Draupnir

Halldór G. Ólafsson, kennari, skrifaði um “Flensborgarskólann í Hafnarfirði” í tímaritið Hvöt 1958. Þar lýsti hann bæði gamla skólahúsnæðinu sem og því nýja:

Ólafur Þ. Kristjánsson

“Síðastliðið vor var haldið hátíðlegt 75 ára afmæli Flensborgarskólans í Hafnarfirði.
Þann 10. ágúst 1878 gáfu prófastshjónin í Görðum á Álftanesi, síra Þórarinn Böðvarsson og frú Þórunn Jónsdóttir, húseignina Flensborg í Hafnarfirði, ásamt heimajörðinni Hvaleyri, sunnan bæjarins, til skólastofnunar til minningar um Böðvarson sinn, sem dáið hafði 1869, er hann var í 3. bekk lærða skólans í Reykjavík.

Síra Þórarinn festi kaup á húseigninni Flensborg um sumarið 1876, en heimajörðina Hvaleyri átti hann þegar. Er það sýnt, að þá þegar hafa þau hjónin verið búin að ásetja sér að stofna skóla í Flensborg til minningar um son sinn. Húseignin dró nafn sitt af borginni Flensborg á Suður-Jótlandi, en kaupmenn frá borg þeirri stofnuðu þar verzlun og ráku um all-langan aldur. Flensborg í Hafnarfirði varð verzlunarstaður á seinustu áratugum 18. aldar, eða á tímabilinu 1778—1801.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson.

Líklegast er, að Flensborg hafi ekki orðið til fyrr en eftir 1787, er verzlunin var gefin frjáls öllum þegnum Danakonungs, eða á síðasta áratug 18. aldar. Talið er, að Flensborgarhúsið, sem síðar varð skólahús og brann vorið 1930, hafi verið reist um 1816—1817. Um þetta er nú ekki frekara kunnugt, og má þetta vel rétt vera, þótt hitt virðist sennilegra, að húsið sé eldra og sé hið sama, sem reist hefur verið, þegar verzlun hófst þar fyrst. Verzlunin í Flensborg var lögð niður árið 1875.

Í gjafabréfi prófastshjónanna er það tekið fram og ítrekað í stofnunarskránni, sem gefin var út af stiftsyfirvöldunum 1878, að skóli þessi eigi fyrst og fremst að vera barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi, þ. e. fyrir hinn forna Álftaneshrepp, sem nokkru síðar var skipt í tvo hreppa, Bessastaðahrepp og Garðahrepp með Hafnarfirði.

Flensborg

Klennslustofa 1896 -Albert Anker.

Á þeim 5 árum, sem þessi eldri Flensborgarskóli starfaði, 1877—1882, fór þar engin framhaldskennsla fram, nema lítils háttar síðasta árið, en barnakennsla fór þar fram alla veturna. Um árið 1880 tók hreppsnefndin í Bessastaðahreppi sér fyrir hendur að koma upp sérstökum barnaskóla þar í hreppnum. Ákváðu nú prófastshjónin að breyta hinu fyrra gjafabréfi í þá átt, að stofna af gjöf sinni alþýðu- og gagnfræðaskóla í Flensborg. Gerðu þau bréf þar um árið 1882. Þar með var Flensborgarskólinn stofnaður í þeirri mynd, sem hann hefur síðan haft, með nokkrum breytingum að vísu, og tók hann til starfa haustið 1882.

FlensborgUm tíma var sýsluskrifstofan í landsuðurhorni hússins, en skólinn í austurendanum. Þegar gagnfræðaskólinn var stofnaður 1882, fluttist skólastjórinn, Jón Þórarinsson, sonur prófastshjónanna, í húsið og bjó uppi á lofti. Árið 1887 var sýslumannsíbúðinni í vesturhluta hússins breytt í heimavist, er sýslumaður fluttist í eigið hús. Síðar var svo sérstakt skólahús byggt árið 1906, skammt fyrir austan Flensborgarhúsið, og kennslustofurnar síðan fluttar þangað. Fór kennslan þar fram síðan, og var kennt þar allt til ársins 1937, er nýtt skólahús tók til starfa uppi á Hamrinum í Hafnarfirði. Síðar var gamla skólahúsið rifið. Er sérstakt skólahús var byggt árið 1906, var allt gamla húsið tekið til afnota fyrir heimavistina, fyrir utan íbúð skólastjóra uppi á lofti. Síðar bjó þar Ögmundur Sigurðsson, skólastjóri, sem tók við af Jóni 1908. Um sumarið 1930 kviknaði svo í húsinu, og var það rifið um haustið vegna mikilla skemmda. Lagðist þá heimavist við skólann niður að mestu. Þó mun Lárus Bjarnason, er síðar varð skólastjóri, hafa haft nokkra nemendur í heimavist að Óseyri í nokkur ár, en í því húsi, skammt frá skólanum, bjó skólastjóri skólans, er skólastjórahúsið var brunnið.
FlensborgarskóliBarnaskóli var starfræktur áfram í skólahúsinu, er gagnfræðaskólinn tók til starfa. Nutu þar kennslu börn úr Garðahreppi og Hafnarfirði allt til ársins 1895.
Árið 1892 var stofnaður kennaraskóli í Flensborg, þannig að um þriggja ára skeið voru þar samtímis 3 skólar, og mun þá oft hafa verið nokkuð lítið olnbogarýmið.
Fljótt var litið á gagnfræðaskólann í Flensborg sem landsskóla, en ekki sem héraðsskóla, og hafa nemendur víðs vegar af landinu jafnan sótt hann, þótt þeir séu tiltölulega miklu færri núna, enda skólar risnir upp um land allt. Kennaradeild sú, sem stofnuð var við skólann 1892, og starfaði þar síðan, þangað til Kennaraskólinn var stofnaður í Reykjavík 1908, er hinn fyrsti kennaraskóli þessa lands. Þótt barnaskólinn væri lagður þar niður árið 1895, starfaði æfingabekkur í sambandi við kennaraskólann þar fram yfir aldamótin.
Er Kennaraskóli Íslands tók til starfa árið 1938, varð einn af kennurum Flensborgarskólans, síra Magnús Helgason, skólastjóri hans, en Jón Þórarinsson, skólastjóri Flensborgarskólans, var valinn í nýtt embætti fræðslumálastjóra.
Hafnarfjörður 1954Á næstu árum var kennslan enn aukin, svo að nærri svaraði til þess, sem numið var í gagnfræðadeild menntaskólans, enda tóku Flensborgarar á þeim árum fyrst að ganga undir próf upp í 4. bekk menntaskólans.
Er Ögmundur Sigurðsson lét af skólastjórastörfum 1930, var síra Sveinbjörn Högnason settur skólastjóri og gegndi þeirri stöðu í eitt ár. Síðar varð Lárus Bjarnason skólastjóri, svo Benedikt Tómasson, en núverandi skólastjóri er Ólafur Þ. Kristjánsson.
Með lögum frá 1930 um gagnfræðaskóla hættir Flensborgarskólinn að vera sjálfseignarskóli, eins og hann var frá upphafi, heldur er hann þar eftir að öllu leyti rekinn á kostnað bæjar og ríkis.

Flensborg

Flensborgarhöfnin 1909.

Er skólinn tók til starfa í hinum nýju húsakynnum á Hamrinum í Hafnarfirði haustið 1937, var þar heimavist. Síðar varð að leggja hana niður vegna þrengsla og breyta herbergjum nemenda þar í skólastofur með því að brjóta niður skilrúm og veggi. Með hinum nýju fræðslulögum, er nemendur taka að sækja skólann ári yngri en áður og þeim er gert að skyldu að stunda þar nám í 2 ár, eykst nemendafjöldinn mjög og hefur nú aukizt ár frá ári, enda er skólinn nú fjögurra ára skóli, sem útskrifar gagnfræðinga eftir fjögurra ára nám, Nú á síðasta hausti fékk skólinn að lokum allt húsnæðið til kennslu, en Bókasafn Hafnarfjarðar flutti úr húsinu, og var húsnæði þess breytt í kennslustofur.

Flensborg

Flensborgarskóli á Hamrinum í smíðum.

Jafnframt flutti Iðnskóli Hafnarfjarðar úr skólahúsinu, Samt eru mikil þrengsli í skólanum, en í honum eru í vetur um 360 nemendur. Er nú mikið rætt um viðbyggingu við skólann, en landrými er nóg. Allar líkur eru á því, að byrja verði að tvísetja í skólann strax næsta vetur. Í skólanum er nú stór landsprófsbekkur með næstum 30 nemendum. Þar að auki eru tveir aðrir 3. bekkir, einn bóknámsbekkur og einn verknámsbekkur, 4. bekkir eru tveir, einn bóknámsbekkur og einn verknámsbekkur, samtals 38 nemendur, sem ganga munu undir gagnfræðapróf í vor. 2. bekkir eru svo fjórir, tveir bóknámsbekkir og tveir verknámsbekkir, 1. bekkir eru nú samtals fimm að tölu.
Þrengslin í skólanum eru öllu félagslífi fjötur um fót.

Hamarskot

Hamarskot á Hamrinum ofan við núverandi Flensborgarskóla – minjar, sem vert hefði verið að varðveita.

Hér eru að sjálfsögðu haldnar dansæfingar. Halda 1. bekkingar sérstakar dansæfingar, en hinir þrír árgangarnir hafa sameiginlegar dansæfingar. Félagslífið tekur nokkrum breytingum ár frá ári. Sum árin hafa verið gefin út skólablöð, en önnur ár hefur slíkt legið niðri. Skólablað kom hér út síðast í fyrravetur. Árshátíð er haldin síðari hluta vetrar. Nefnist hún „Kennaraskemmtunin“. Er þá kennurum og eiginkonum þeirra boðið til kaffidrykkju í skólanum. Tóku nemendur áður þátt í henni, en vegna þrengsla hefur orðið að takmarka veitingarnar við kennarana eina.

Flensborgarskóli

Viðbygging við gamla Flensborgarskólann.

Æfð eru leikrit og önnur skemmtiatriði undir skemmtun þessa. Síðan er dansað. Málfundafélag hefur oft verið starfandi í skólanum, en þessa stundina er það lítt sem ekkert starfandi. Árlega keppa bekkir innbyrðis um sundbikarinn. Hófst sú keppni síðastliðinn vetur. Sum árin fara fram keppnir milli bekkja í knattspyrnu eða handknattleik. Starfandi er hér bindindisfélag með mörgum meðlimum. Einnig iðka nemendur margir skák og halda stundum skákkeppnir í skólanum. Stundum fara bekkir í skíðaferðir, ýmist í nágrenni bæjarins eða upp á Hellisheiði, einnig er stundum farið í gönguferðir í nágrennið. Á vorin fara gagnfræðingar í langa ferð, einnig fara þeir, er landspróf taka, í aðra ferð. Njóta þeir þá góðs af ágóða þeim, er af dansæfingum verður.
Nemendur sækja einnig leikhús nokkrum sinnum á vetri í fylgd með kennurum, og virðist áhugi fyrir leiklist vera mikill og almennur meðal nemenda.

Fyrri hluti greinarinnar, þ. e. um fyrstu ár skólans, er að nokkru leyti úrdráttur úr „Minningariti Flensborgarskólans 1882—1932,“ útg. 1932, eftir Guðna Jónsson.”

Flensborg

Grunnurinn af gamla Flensborgarskólanum er enn á sínum stað – líkt og sjá má á meðf. loftmynd.

Í ár, 2023, eru liðin 145 ár frá stofnun Flensborgarskólans. Gamla skólahúsið brann 1930, eins og að framan er greint. Nú, 93 árum síðar, er lóð gamla skólans enn ófrátekin (líkt og sjá má á meðfylgjandi loftmynd). Selfyssingum hefur tekist að vekja upp gömul hús, jafnvel horfin, í miðju bæjarins með nýjum byggingaraðferðum svo eftir hefur verið tekið. Á meðal endurreistra bygginga þar má m.a. sjá tvær slíkar frá Hafnarfirði fyrrum, nú horfnar, þ.e. Hótel Björninn og “Valmaþakshúsið”. Hvers vegna ættu Hafnfirðingar ekki nýta lóðina millum Flensborgartorgs og Flensborgarhafnar og úthluta henni til byggingaverktaka með það fyrir augum að “endurbyggja” gamla Flensborgarskólann í tilefni dagsins? Slík bygging gæti falið í sér margvíslega möguleika í námunda við smábátahöfnina, s.s. safn að hluta, veitingastaður, íbúðir og/eða gistihús. Staðsetningin er a.m.k. góð, auk þess sem húsið myndi óhjákvæmilega undirstrika hina gömlu bæjarmynd, sem Hafnarfjörður er í upphafi sprottinn af.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1923-1930. Hér má sjá “Fjörðukrána” í miðið. 

Talandi um uppbyggingu og endurgerð gamalla húsa í hjarta Hafnarfjarðar. Nærtækt dæmi er umhverfi “Fjörukráarinnar”. Jóhannes “Fjörugoði” hefur áhuga á að rífa austurhluta gömlu Smiðjunnar og byggja hótel í hennar stað. Skv. framkomnum hugmyndum myndi slík bygging skyggja á útsýni íbúa á neðri Hamrinum til norðurs – með tilheyrandi ónægju þeirra sömu.
Hvernig væri nú að Jóhannes og bæjaryfirvöld myndu snúa saman bökum; leyfa “Hafnarfjarðarleikhúsmyndinni” sunnan Víkingastrætis (nafnið á götunni hefur reyndar aldrei verið samþykk formlega) og austan gistiheimilisins, að standa, en þess í stað að standa þétt saman um að endurbyggja hið glæsilega hús er fyrrum stóð norðan “Kráarinnar” til nota sem hótel eða gistiheimili sem og veitingastaðar. Lóðin er fyrir hendi. Slík uppbygging myndi, líkt og endurgerður Flensborgarskóli, undirstrika þróun byggðar í Hafnarfirði sem slíka – og jafnvel bæta að nokkru fyrir fyrri mistök.

Jóhannes ReykdalFulltrúar Hafnarfjarðarbæjar (með tveimur undantekningum) hafa í gegnum tíðina verið duglegir að útrýma hugsunarlaust minjum fyrri tíma (hugsið ykkur ef Hamarskot hefði t.d. fengið að standa sem síðasti torfbærinn (svæðið er enn á lausu á Hamrinum þrátt fyrir að hafa verið raskað að óþörfu)), örhugum hefði ekki verið leyft að kveikja í húsum, sem bænum hafði hlotnast til varðveislu, en virtust kalla á óþarflega kostnaðarsamar úrbætur, s.s. Eyrarkot, o.s frv.
Og hugsið ykkur ef einhverjum í nútímanum hefði t.d. látið sér detta í hug að “endurbyggja” Reykdalshúsið” við Brekkugötu (á nýnúverandi Dvergsreit) sem brann 1931. Hversu mikilli bæjarmyndinni væri saman að jafna?…

Í dag virðast því miður flestir horfa sér nær…

Heimildir:
-HVÖT, Málgagn Sambands Bindindisfélaga í skólum, S.B.S., 23. árg. marz 1.—3. tbl. 1958, bls 11-14.
-Tíminn, sunnudagur 11. apríl 1965, bls. 319 og 320.

Flensborg

Flensborg (fyrrum Hamarskot er sett inn á loftmyndina.).

Omar

Fáir, ef nokkur núlifandi Grindvíkinga, þekkja sögu samfélagsins, þróun, landamerki og landsgæði bæjarins sem og umhverfi Reykjanesskagans betur en Ómar Smári Ármannsson, hvort sem um er að ræða örnefni, minjar og sögulega staði. Hann ólst upp, á sínum tíma, í gamla útvegsbændasamfélaginu, sem enn á sterkari rætur í grindvísku samfélagi, en marga grunar. Hann fékk þrátt fyrir það tækifæri til að upplifa samtíðina á eigin skinni, með öllum göllum þess og kostum.

-Ertu fæddur Grindvíkingur?

Ómar

Ómar Smári Ármannsson.

Já, ég fæddist í Grindavík, nánar tiltekið í Valhöll í Þórkötlustaðarhverfi og ólst þar upp fyrstu árin, en var síðan fluttur yfir í Járngerðarstaðahverfið. Í uppvextinum í Grindavík var sáð því fræi, sem náði að dafna til lífs.

-Ómar Smári hlýtur að hafa þótt sérstakt samsett nafn árið 1954. Hvernig er það til komið?
Móðir mín ákvað nafnið. Það fékk þó ekki samþykki fyrir því, enda óhefðbundið í þá daga. Það liðu þrjú ár þangað til hún ákvað að ganga með mig til prestsins í Prestshúsum í Grindavík til skírnar.
Presturinn, inni í dimmri stofunni, spurði móður mína hvað drengurinn ætti að heita. Hún svaraði; “Hvers vegna spyrðu hann sjálfan ekki af því.”
Presturinn leit á mig með lítilli tiltrú og spurði: “Hvað viltu heita drengur?”
Ég svaraði feiminn: “Ómar Smári”.
Presturinn virtist hikandi, fletti í skræðum sínum og sagði síðan: “Drengurinn getur ekki heitið Smári. Það er ættarnafn.”
Móðir mín svaraði: “Smári getur ekki verið ættarnafn.”
Presturinn: “Jú, Jakob Smári er með ættarnafn”.

Þórkötlustaðahverfi

Valhöll í Þórkötlustaðhverfi. Helgi Andersen fremst.

Móðir: “Maðurinn sá heitir kannski Jakob, en hann er sagður “í Smára”. Það getur varla talist ættarnafn. Afi og amma drengsins búa t.d. í Teigi og ekki er það ættarnafn”.
Presturinn: “Ég þarf að hringja suður. Getið þið hinkrað aðeins?”. Hann gekk síðan út úr dimmri stofunni og við sátum þarna eftir í sitt hvorum stólnum móti svörtum krossi yfir altarishillu með kertum á til hvorrar handar. Ég man að kertin voru án loga.
Eftir drjúga stund birtist prestur á ný í stofudyragættinni, leit á okkur mæðgin og upplýsti: “Þetta er í lagi. Smári er ekki ættarnafn.”
Alla tíð síðan hef ég heitið Ómar Smári. Engin athugasemd var gerð við fornafnið enda höfðu einn eða tveir áður verið skírðir því nafni. Í dag heita fjölmargir öðru nafninu eða jafnvel báðum án athugasemda. Maður þurfti snemma að takast á við þjóna hins opinbera.

-Þú lentir undir vörubíl fimm ára?

Tómas Þorvaldsson

Tómas Þorvaldsson.

Já, það er rétt. Ég lenti undir vörubíl og var varla hugað líf. Slysið var reyndar sjálfum mér að kenna. Eldri bróður mínum og mér datt í hug, í hádeginu einn hversdaginn, að laumast upp í vörubíl, sem faðir okkar ók, en hafði þá skilið eftir ofarlega í aflíðandi brekku á vegi fyrir framan húsið í Sætúni.
Eftir að hafa leikið okkur um stund í vörubílnum, þar sem bróðir minn var bílstjóri og ég farþegi, leit ég á hann og spurði: “Er þetta gírstöngin?” Hann leit á mig um leið og ég snerti gírstöngina, sem hrökk úr gír. Þegar vörubíllinn byrjaði að renna undan hallanum varð ég verulega hræddur, opnaði farþegahurðina og stökk út. Ekki vildi betur til en svo að féll inn undir bílinn og varð undir hægra afturhjólinu. Bíllinn stöðvaðist sjálfkrafa í U-laga brekkunni skammt neðar.
Móðir mín kom hlaupandi út við óhljóðin, sem fylgdu í kjölfarið, og tók mig í fangið. Stuttu seinna bar þar að Tómas Þorvaldsson á drossíu, en hann var einn fárra, sem áttu slík farartæki í Grindavík á þeim tíma. Mér var skutlað í aftursætið og Tómas ók sem leið lá eftir holóttum Grindarvíkurveginum og bugðóttum Keflavíkurveginum til Reykjavíkur, allt þangað til komið var að Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Þar var ég borinn inn til hjúkrunar. Ég man eftir að hafa misst meðvitund a.m.k. nokkrum sinni á leiðinni.

-Hvernig gekk þér að ná þér eftir bílslysið?

Landsspítali

Landsspítalinn.

Á spítalanum var þetta erfitt. Þar sem ég lá í rúminu var annar fótleggurinn hengdur upp með línu. Í hinum enda hennar, við fótgaflinn, hékk lóð á krók. Þegar ég hreyfði mig féll lóðið af króknum, féll fótleggurinn niður og ég öskraði af kvölum. Hjúkrunarkonurnar brugðust jafnan vel við, hengdu fótlegginn upp á ný og lagfærðu lóðið. Þetta endurtók sig aftur og aftur, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Loks kom að því að ég varð laus við fótakeflið og fékk tækifæri til að stíga fram úr rúminu. Eftir nokkrar sársaukafullar tilraunir gat ég stigið í fæturnar og jafnvel fetað mig út með rúmgaflinum og aftur til baka.
Eftir að hafa legið u.þ.b. hálft ár margbeinabrotinn á Landspítalanum og þegar heim var komið þurfti ég að læra að ganga upp á nýtt með aðstoð hækja. Eftir nokkra mánuði gat ég loks gengið óstuddur án þeirra stuðnings og fór fljótlega í framhaldi af því að ganga og hlaupa um holt og hæðir.

-Síðan flyst þú til Hafnarfjarðar.

Holtsgata

Holtsgatan.

Ég fluttist ekki til Hafnarfjarðar. Ég og við systkyninin, vorum flutt til Hafnarfjarðar. Foreldrarnir skyldu og ekki var um annað að ræða en við sex systkynin færum með henni til Hafnarfjarðar. Búslóðinni var komið fyrir á vörubíl. Inni í vörubílshúsinu voru móðir mín og tvö yngstu systkynin, eins og tveggja ára. Aftan á pallinum sátum við hin fjögur. Rykið var kæfandi.
Þegar við stöðvuðumst utan við framtíðarheimili okkar í kjallaranum við Holtsgötu var fólk þar saman komið, tilbúið til aðstoðar. Ég man eftir því ég gekk um þann mund eftir steyptum vegg á milli lóða okkar húss og nágrannanna, en féll og lenti illa á hausnum. Móðir mín kom hlaupandi, greip afkvæmið í fangið, enn einu sinni án þess að andvarpa, og bar það inn; setti kaldavermsl á stærðarinnar enniskúlu, lagði á dýnu. Þar sat hún svo klukkustundum saman og fylgdist með líðaninni, allt til þeirrar stundar að aðgátar væri ekki lengur þörf.

Grænakinn

Grænakinn.

Þótt húsnæðið væri lítið; eldhús, bað, stofa og svefnherbergi, auk geymslu, leið okkur, sjö manna fjölskyldunni vel þarna. Að vísu þurfti á stundum að hafa ráðdeild við útvegun matar, en ég man ekki eftir að hafa farið svangur að sofa. Á sumrin var kíkt í matjurtargarðana uppi í neðanverðu Ásfjalli þar sem hægt var að ná sér í rófu eða klifra yfir háan steinvegginn í kringum klaustrið, hlaupa að beðunum, kippa upp nokkrum gulrótum og síðan á harðahlaupum til baka til að komast yfir vegginn áður en nunnurnar náðu okkur. Það tókst jafnan.
Á öðrum tíma var hægt að nálgast skreið í hjöllunum, sem voru víðs vegar, betla ferskan fisk á höfninni og tína ber í Stekkjarhrauni á haustin. Umhverfið bauð upp á ýmsar bjargir í þá daga.

Búrfell

Hjallur.

Átta ára byrjaði ég að bera út Morgunblaðið í nágrenninu. Síðan bættust við Tíminn og Alþýðublaðið. Blaðburðarpokinn gat stundum verið þungur fyrir lítinn gutta, einkum um helgar. Ég man alltaf eftir fyrstu útburðarferðinni. Daginn áður hafi mér verið fylgt um hverfið og bent á húsin, sem áttu að fá blöðin og fékk jafnframt í hendurnar útprentaðan lista yfir áskrifendur, en þegar á hólminn var komið reyndist þrautin þyngri. Þegar heim var komið bjóst ég því við kvörtunum frá einhverjum, sem ekki höfðu fengið blaðið, en það gerðist ekki. Smám saman lærðist þetta og gekk snurðulaust fyrir sig. Þetta verkefni krafðist þess að ég þurfti að vakna eldsnemma á morgnana og vera búinn að bera út áður en skólinn byrjaði. Helgarblöðin var hægt að bera út á laugardagskvöldum. Tvö aukablöð fylgdu hverjum pakka. Þau gat ég selt áhugasömum sem bónus.
Með blaðaútburðinum náðum við að kaupa okkur lítið sjónvarpstæki, National, og sjónvarpsloftnet á skorsteininn. Í sjónvarpinu gátum við, þegar vel viðraði, horft á kanasjónvarpið, s.s. Bonanza, Combat, Rowhide, Felix the cat og fleiri áhugaverða framhaldsþætti, reyndar í svart/hvítu.
Síðar fluttum við í risíbúð í Kinnunum. Þar voru herbergin þrjú, auk stofu, eldhúss og baðs. Þar rýmkaðist verulega um fjölskylduna um tíma. Ég held að móðir mín hafi þarna verið hve ánægðust.

-Þú varst í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Segðu mér frá þeirri vist.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Barnmörgum fjölskyldum, einstæðum mæðrum og foreldrum, sem voru að glíma við veikindi, bauðst á árunum 1957-1963 að senda sveinbörn sín í Vinnuskólann, sem starfaði í tveimur hollum yfir sumarið, fjórar vikur í senn foreldrunum að kostnaðarlausu.
Ég var í Vinnuskólanum fjögur sumur, frá 8 ára aldri til 11 ára aldurs, og líkaði vel. Mæting var við Lækjarskólann. Farangurinn; stígvél og aukaföt, var venjulega í pappakassa spyrðan saman með snærisspotta.
Í hverjum hópi voru um 60 piltar hverju sinni. Þeir gistu í fimm herbergjum, mismunandi stórum, á fyrstu hæðinni í starfsmannahúsinu í Krýsuvík. Þar voru sturtur og þvottaaðstaða. Drengirnir sáu sjálfir um að þvo af sér fötin og strauja með rúmfjölum, sem þeir náðu í undir dýnunum í herbergiskojunum. Á efri hæðinni að hluta var aðstaða fyrir starfsfólkið, eldhús og matsalur. Í hinum hlutanum var íbúð bústjórans, sem annaðist m.a. gróðurhús, sem þar voru.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Dagurinn hófts venjulega á morgunkaffi í matsalnum; mjólk og matarkexi. Þar var drengjunum skipað til verka fram að hádegi, nema þeim sem gert var að vinna í eldhúsinu; þeir þurftu að vera þar fram yfir kvöldmat. Yfir hvern hóp var settur verkstjóri. Hans hlutverk var m.a. að meta framlag hvers og eins til tekna. Fyrsta sumarið gat hámarks dagsverkið orðið allt að ein króna en síðasta sumarið allt að fimm krónur – slík hafði verðbólgan verið. Vinnan fólst t.d. í að snyrta umhverfið, aðstoða bústjórann í gróðurhúsunum, moka skít út úr fjósinu, sem hafði verið notað sem fjárhús um hríð, grafa fyrir sundlaug vestan við Bleikhól, grafa skurði, hreinsa út úr húsi, sem hafði verið ætlað bústjóranum ofan við Gestsstaðavatn (síðar þekkt sem hús Sveins Björnssonar, listmálara), en það hafði verið notað sem hænsnahús um tíma, fjarlægja gamla hænsnakofann ofan við húsið o.s.frv.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn 2020.

Eftir hádegismat; bjúgu og uppstúf, fiskbúðing úr Oradós og bakaðar baunir, fisk og kartöflur og svoleiðis, var annað hvort farið í skipulagða gönguferð um fjöll og fyrnindi í nágrenninu þar sem áhersla var lögð á að drengirnir lærðu að lesa landið, s.s. upp á Hettu, upp að Arnarvatni, út að Vegghömrum eða að Kleifarvatni til veiða. Unnið var að kofabyggingum við lækjarfarveg innan við gróðurhúsin eða farið í leiki, s.s. rat- eða stríðsleiki. Í ratleikjunum þurfi að finna vísbendingar til að geta leyst tilteknar þrautir og í stríðsleikjunum var hópnum skipt í tvennt; riddara hvítu og rauðu rósarinnar, sem endaði yfirleitt með slagsmálum þar sem markmiðið var að slíta teygju af handlegg andstæðingsins. Í göngurnar var hver og einn útbúin með nesti; mjólk í flösku og brauðsneið.

Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum á göngu – HH.

Eftir að heim var komið gafst drengjunum tími til leikja, s.s. í tindátaleik, við lestur eða í fótboltakeppni milli herbergja.
Kvöldmaturinn var yfirleitt kjarnríkur, sem eldhúshópurinn hafði tekið að sér að fullgera. Hann sá einnig um að skræla kartöflur, leggja á borð og vaska upp. Eftir matinn var kvöldvaka. Þá sátu drengirnir í tvöfaldri röð á löngum ganginum framan við herbergin og horfðu á kvikmynd, sem varpað var frá sýningarvel á hvítt tjald við enda hans. Að því búnu voru sungin nokkur lög, s.s. “Lóan er komin”, “Sá ég spóa” o.s.frv. Hörður Zóphaníasson, skátahöfðingi og einn af tilsjónarmönnunum, hafði samið sérstakan “Krýsuvíkursöng”, sem varð að nokkurs konar þjóðsöng Krýsuvíkurdrengjanna:

Hörður Zíophaníasson

Hörður Zóphaníasson.

“Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug…”.
Eftir kvöldvökuna var kvöldkaffi; mjólk og kex. Að því loknu var gengið til náða. Stjórnandi mætti í hvert herbergi út af fyrir sig og í sameiningu var farið með “Faðirvorið”. Eftir það varð þögn, enda flestir orðnir dauðþreyttir að dagsverki loknu.
Stjórnendur Vinnuskólans var valið fólk úr hópi skólastjórnenda, kennara og skáta. Sérhver og allir voru þeir framúrskarandi fyrirmyndir ungum uppvaxandi drengjum.
Starfi Vinnuskólans varð sjálfkrafa hætt eftir 1963. Stjórnvöld höfðu þá samþykkt skilyrði í nýrri heilbrigðisreglugerð, sem ómögulegt var að uppfylla miðað við þáverandi aðstæður.

-Hvernig gekk þér í skóla?

Lækjarskóli

Lækjarskóli.

Ég byrjaði í sjöárabekk í Lækjarskóla. Var þar fram til áramóta, en var þá selfluttur upp í Öldutúnsskóla nýbyggðan. Ég man nú lítið frá tímanum í Lækjarskólanum, en því meira frá Öldutúnsskóla. Fyrsti kennarinn minn fyrstu árin þar var frú Sigurlaug, einstaklega þolinmóður og góður kennari. Hún sá líka til þess að við fengjum lýsispillurar okkar reglulega og mættum í ljós í leikfimihúsi Lækjarskóla.
Haukur Helgason var skjólastjóri, en hann annaðist okkur drengina líka yfir sumartímann í Krýsuvík.
Í ellefuárabekk skipti til hins verra; fékk nýjan karlkennara. Okkur lynti ekki hvor við annan. Það leið varla sá dagur að ég var ekki rekinn út úr kennslustund, sem mér þótti bara ágætt; fór heim, út að leika og mætti ekki í skólann næstu daga, eða allt þangað til Haukur kom heim og ræddi við móður mína. Þannig gekk þetta ítrekað um veturinn. Í tólfárabekk fékk ég nýútskráðan kennaranema, Sigrúnu Gísladóttur, síðar skólastjóri í Flataskóla. Hún náði einstaklega vel til nemenda sinna. Eftir veturinn varð ég hæstur í bekknum. Segja má, af þeirri reynslu að dæma, að kennarar geta skipt sköpum fyrir nemendur hverju sinni.

-Áramótabrennur spiluðu stóran þátt í uppeldi barna á þessum tíma?

Áramótabrenna

Áramótabrenna.

Í þá daga var mikil vinna sett í að safna efni í áramótabrennur á milli jóla og nýárs. Segja má að bera þurfti sig eftir sérhverri spýtu og koma henni á brennuna. Við krakkarnir vorum með brennu á bersvæði ofan við klaustrið. Brennan sú var jafnan sú stærsta í Hafnarfirði. Til að selflytja efnið þurftum við ýmist að draga það á höndum okkar í snjónum eða, sem okkur datt í hug, að hnupla líkvagninum í kirkjugarðinum á Öldum að kvöldlagi. Þetta var handvagn, járngrind, á tveimur loftfylltum hjólum. Á hann var hægt að hlaða talsverðu efni. Við skiluðum vagninum seint á virkum dögum, en reyndum að nýta hann þess mun betur um helgar. Það kom fyrir að eitthvað bilaði, grindin gaf sig eða loft fór úr dekki. Eftir það var erfiðara að nálgast vagninn um stund.
Illkvitnir reyndu stundum að kveikja í brennunni fyrir áramót svo við hreiðruðum þannig um okkur inni í henni miðri og notuðum það sem vaktarskjól. Þetta þætti nú ekki boðlegt í dag.

-Og úr Öldutúnsskóla var förinni heitið í Flensborgarskóla?

Flensborgarskóli

Flensborgarskóli.

Já, það voru mikil viðbrigði. Bekkjakerfið held ég að hafi bjargað miklu. Kennararnir sem og skólastjórinn, Ólafur Þ. kristjánsson og síðar sonur hans, Kristján Bersi, voru í einu orði sagt frábærir. Að vísu voru þeir hverjum öðrum ólíkari, en skemmtilegir karakterar hver um sig. Húsvörðurinn, Páll Þorleifsson, var þó máttarstólpurinn í skólastarfinu þótt fáir væru meðvitaðir um það svona dags daglega. Við Páll kynntumst ágætlega – mikill gæðakarl.
Þarna voru gæðakennarar eins og t.d. Egill Strange, sem kenndi handiðn. Eftir skamman tíma í bókbandi bauð hann mér að mæta bara hvernær sem ég vildi og gera það sem ég vildi. Bjarni Jónsson, myndlistarkennari, hafði sama hátt á. Hann sagði við mig að ef ég væri ekki í stuði til að teikna í myndlistartíma mætti ég mæta þegar betur stæði á. Sama var upp á matreiðsluborðinu hjá Hönnu Kjeld. Einar Bollason þótti strangur dönskukennari, en gæðablóð inn við beinið. Ingvar Viktorsson sagði brandara í enskukennslustundum og svona mætti lengi telja um allt ágætið.

Flensborg

Flensborg – stjórn nemendafélagsins, formenn klúbba og fulltrúi skólastjórnar, Ingvar Viktorsson.

Erfiðust var “Pikkólína” ritvélakennari. Hún gat verið verulega ströng, enda nákvæm fingrasetninginn alvörumál, en hún átti líka sínar góðu stundir.
Eftir að hafa verið í ritstjórn skólablaðsins Draupnis, auk nokkurra annara, s.s. Líkþorns, ásamt Halldóri Árna Sveinssyni og fleirum, var ég í lok þriðja árs valin Inspektor Scolae, formaður Nemendafélagsins, til næsta árs, annar í röðinni frá upphafi. Á því ári voru fjölmargir klúbbar starfandi, skólaskemmtanir haldnar sem og árshátíðin að venju. Þegar enginn vildi taka að sér að verða stjórnandi árshátíðarinnar tók ég það hlutverk að mér ásamt öðru. Í lok skólaársins notuðum við ágóðan af starfseminni til að kaupa nýtt hágæða hljókerfi fyrir sal skólans og afhentum það með hátíðlegri athöfn. Félagsstarfið virtist ekki hafa komið niður á náminu því námsárangurinn var með ágætum.

-Hvað tók við að menntaskólaárunum loknum?

Draupnir

Draupnir.

Á menntaskólaárunum fjármagnaði ég námið með ýmiss konar vinnu; uppskipun úr togurum, verkamannavinnu hjá bænum (vann á loftpressu tvö sumur) og í fiskverkun. Áður en ég útskrifaðist sá ég auglýsingu um sumarstörf í lögreglunni í Reyjavík – sótti um og fékk ráðningu. Um haustið innritaðist ég í lögfræði við Háskóla Íslands. Sumarhýran entist til áramóta. Lögfræðin höfðaði heldur ekki til mín svo ég sótti aftur um sumarstarf í lögreglunni – og fékk. Þar var ég svo við störf næstu 45 árin.

-Hvernig var að starfa í lögreglunni í Reykjavík allan þennan tíma?
Fjölbreytilegt og krefjandi, en skemmtilegt. Samstarfsfélagarnir voru, án undantekninga, alveg stórkostlegir. Fyrstu árin starfaði ég á vöktum í almennu deild, héldum uppi eftirliti og brugðumst við útköllum. Þá tók við starf á vöktum í slysarannsóknardeild, sem sinnti árekstrum og umferðarslysum, auk rannsóknum á hvorutveggja.

Flensborg

Ómar Smári, Inspector Scholae 1975-’76, og Páll Þorleifsson, húsvörður Flensborgarskóla, ásamt nokkrum skólafélögum.

Eftir að hafa lokið námi við Lögregluskólann var mér boðið að annast kennslu við skólann samhliða lögreglustarfinu. Þannig kynntist ég verðandi lögreglumönnum um allt land til tólf ára.
Árið 1985 var með boðið að verða fulltrúi embættisins í stjórnunarnámi í skóla FBI í Bandaríkjunum, sá fyrsti af nokkrum frá Íslandi sem á eftir fylgdu í áranna rás. Í framhaldinu fylgdu ótal prófgráður og námskeið víðs vegar um Evrópu.

Ómar

Ómar ásamt félögum við útskrift.

Í áratuga starfi mínu sem lögreglumaður, þar af sem stjórnandi til langs tíma, hefur mér lærst að takast á við hin margvíslegustu vandamál, leggja til lausnir og fylgja þeim eftir í framkvæmd – eins og lesa má ef nafnið er “googlað”, t.d. á timarit.is. Þar má væntanlega uppgötva áhugaverðar fréttir af afrekum umferðardeildar, stofnun forvarnadeildar, aðgerðir gegn óáran unglingagengja í Breiðholti, umfjöllun um stofnun nágrannavörslu í einstökum hverfum í samvinnu við íbúana, rökstuðningi fyrir skiptum skoðunum um “Ökuferilsskrá” á landsvísu með tilheyrandi punktakerfi að því markmiði að fækka umferðarslysum, yfirtöku lögregluembætta landsins á starfssemi Rannsóknarlögreglu ríkisins, stofnun rannsóknardeilda einstakra embætta, sameiningu og samhæfingu lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu o.m.fl.

Lögreglan

B-vaktin 1975.

 Síðustu árin var ég yfirmaður rannsóknardeildar, stöðvarstjóri á Hverfisgötu, síðar í Kópavogi og í Hafnarfirði og loks umferðardeildar. Í framangreindum störfum fólust m.a. samstarf við hlutaðeigandi stjórnvöld; Vegagerðina, Umferðarráð (síðar Samgöngustofu), einstök sveitarfélög, foreldrafélög, skóla, hverfasamtök o.fl. aðila. Ég var t.d. gerður að heiðursfélaga nr. 900 í Sniglunum, Mótorhjólasamtökum lýðveldisins, eftir átök um stund og í framhaldinu ánægjulegt samstarf þar sembáðir aðilar sameinuðust um gild markmið.

-Þú varst nú nokkuð áberandi í fjölmiðlum um tíma?

Ómar

Ómar á ráðstefnu.

Samskipti við fjölmiðla hafa í gegnum tíðina verið stór hluti af störfum undirritaðs, hvort sem var á vettvangi atburða eða eftiráskýringum. Á löngum starfsferli bar ekki skugga þar á – svo orð sé á gerandi.
Eftir að forvarnardeildin var stofnuð þótti öðrum stjórnendum þægilegt að geta vísað spurningum blaða- eða fréttamann til okkar. Mín innkoma á þann vettvang kom því ekki til af engu. Mér fannst bæði sjálfsagt og eðlilegt að einhver svaraði fyrirspurnum f.h. embættisins. Hafa ber í huga að fyrirspyrjendur einstakra fjölmiðla voru jú einungis að reyna að sinna vinnunni sinni, þ.e. að upplýsa almenning um málavexti hverju sinni. Þetta samstarf reyndi á stundum á traust og skilning af beggja hálfu.

Lögreglan

Útskrift úr skóla FBI 1985.

Þótt mörgum hafi, í miðri orrahríðinni, þótt ágengni fjölmiðlanna full ágeng og óþægileg, var ég jafnan á annarri skoðun. Þeirra hlutverk er mikilvægt.
Ég átti jafnan mjög gott samstarf við aðra og var, að eigin mati, almennt vel liðinn í gegnum tíðina, bæði af vinum og öðrum, sem síðar, eftir nokkrar þrætur, urðu vinir, enda jafnan haft að leiðarljósi að koma með sanngjörnum hætti fram við aðra er unnið hafa til þess – svo þeir fengju að njóta sín af eigin verðleikum.
Ráðandi dómsmálaráðherrar voru ekki alltaf par hrifnir af “skýringum lögreglu” á einstökum viðfangsefnum því stundum skaraðist heilbrigð skynsemi og pólitík í daglegri umfjöllun álitamála.
Ég var um tíma ritstjóri Lögreglublaðsins og formaður Félags yfirlögregluþjóna – ekki má gleyma því.

-Þú tókst sjálfur þátt í pólitísku starfi – varst frambjóðandi og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði?

Hafnarjörður

Hafnarfjörður – pólitík

Já, það er rétt. Frumkvæðið var reyndar ekki mitt. Til mín leituðu fyrrum skólafélagar og kennari úr menntaskólanum í Flensborg, Ingvar Viktorsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Tryggvi Harðarsson. Guðmundur Árni var þá orðinn potturinn og pannan í starfi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði. Áður hafði Árni Gunnlaugsson boðið mér að vera ofarlega á framboðslista Óháðra borgara í bænum. Flokkur hans náði ágætum árangri. Málið var að Árni hafði stutt móður mína á erfiðleikaárum hennar og ég taldi mig eiga honum gjöld að gjalda – án sérstakra útgjalda. Þá höfðu fulltrúar Alþýðuflokksins, bæði í bæjarstjórn og í nefndum og ráðum, lagt sig fram við að styðja við bakið á öllum þeim er minna máttu sín í bæjarfélaginu. Hvernig var hægt að hafna slíkum beiðnum fyrrum skólafélaga og velgjörðarfólks er höfðu slík gjöfug markmið?

Ómar

Sigurlisti Alþýðuflokksins.

Saman unnum við hreinan meirihlutasigur fyrsta kjörtímabilið, en þurftum að styðjast við fulltrúa tveggja ágætra sjálfstæðismanna, Jóhanns og Ellerts Borgars, það síðara, eftir að hafa fellt meirihluta sjálfstæðismanna og alþýðubandalagsins.
Það var mikill uppgangur í bænum á þessum tíma.
Mér var á þeim tíma falið að veita formennsku nokkrum nefndum og ráðum, s.s. vímuvarnarnefnd, umferðarnefnd, félagsmálaráði, menningarmálanefnd sem og afmælisnefnd bæjarins. Þetta var lærdómsríkur tími. Lærdómurinn fólst m.a. í því að virða skoðanir allra þeirra er voru öndverðum meiði til jafns við eigin skoðanir.

-Heimildir herma að þú hafir verið stofnandi gönguhópsins FERLIRs, sem í dag heldur úti öflugri vefsíðu um sögu, minjar og jarðfræði Reykjanesskagans. Hver var tilgangurinn í upphafi?

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og jafnvel kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfans – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði (þótt undarlega megi teljast) þrátt fyrir fjölbreytileikann.
Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar, kom í ljós að Skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá upphafi norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Arnarfell

FERLIRsfélagar í herbúðunum Eastwoods við Arnarfell.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að frá upphafi hafa verið farnar rúmlega 3000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa. Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks á einstökum afmörkuðum svæðum. Því fólki verður seint fullþakkað fyrir móttökurnar. Árangurinn má sjá á vefsíðunni. Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 400 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar. Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið. Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágæta fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins (Björn Hróarsson), Ferðamálafélags Grindavíkur (Erling Einarsson), kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum.

Ferlir

Ólafur, bæjarstjóri í Grindavík, í ferð með FERLIR á Háleyjum.

Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert því talsverður tími hefur farið í ferðir um það víðfeðma umdæmi. Safnað hefur verið miklum fróðleik um Skagann, skráðir GPS-punktar á minjar, hella, skúta, sel, sögulega staði, flugvélaflök, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar,Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við fólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað.

Omar

Ómar við leiðsögn á Selatöngum.

Við lögðum upp með það frá upphafi að við myndum ekki borga neitt fyrir okkar framlag og ætluðumst ekki til þess, að sama skapi, að aðrir, sem við þurftum að leita til, krefðust ekki greiðslu fyrir viðvikið. Það hefur gengið eftir hingað til.
Áhugasamt fólk um Reykjanesið var jafnan boðið velkomið í hópinn, en í seinni tíð hefur áherslan verið lögð á að vinna úr þeim gögnum, frásögnum og ljósmyndum, sem safnast hafa í þessum fjölmörgu gönguferðum, með það fyrir augum að gera hvorutveggja aðgengilegt á vefsíðunni www.ferlir.is – eins og sjá má þeim er áhuga hafa…

-Þú stundaðir nám fornleifafræði í Háskólanum, kominn á fimmtugsaldurinn?

Háskóli Íslands

Háskóli Íslands.

Já, og útskrifaðist sem fornleifafræðingur eftir fjögur ár, samhliða lögreglustarfinu. Áhuginn kom ekki af engu, eins og fram kemur í svari við spurningunni um stofnun FERLIRs. BA-ritgerðin fjallaði um “Sel og selstöður vestan Esju”. Þar eru taldar upp rúmlega eitt hundrað slíkar, þ.e. vestan Esjunnar, en í dag, 2022, höfum við fundið og skrá um 400 á Reykjanesskaganum öllum – fyrrum landnámi Ingólfs. Þannig heldur námið áfram þrátt fyrir útskriftina.

Omar

Ómar – við útskrift í Háskóla Íslands.

Ég lauk námi í svæðaleiðsögn á vegum Símenntunar Suðurnesja á sama tíma og hef nýtt mér hana, m.a. með því að bjóða öllum áhugasömum Grindvíkingum til göngu um Húshólmasvæðið, elstu meintu byggð á Íslandi, í tilefni af afmæli bæjarins fyrir nokkrum árum – með ágætis þátttöku þeirra sömu. Þá lauk ég námi í Hagnýtri menningarmiðlun í Háskólanum og hef nýtt mér hana, m.a. til þess að koma á framfæri fróðleik við áhugasama um svæðið á vefsíðunni www.ferlir.is.
Síðar útskrifaðist ég sem svæðaleiðsögumaður frá Símenntun Suðurnesja með ágætum árangri.

-Grindavíkuruppdrættirnir, sögu og minjakort yfir þéttbýlissvæðin í Grindavík, voru að þínu frumkvæði?

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Við Óskar Sævarsson, þáverandi forstöðumaður Saltfiskseturs Grindavíkur, fengum menningarverðlaun bæjarins fyrir framtakið. Aðdragandinn var samstarf við Erling Einarsson, þáverandi formann Ferðamálafélags Grindavíkur. Í sameiningu gáfum við m.a. út fróðleiksrit um Selatanga og Húshólma við góðar undirtektir. Í framhaldinu ákvað ég að taka fyrir einstaka bæjarhluta, kalla til aldrað fólk, sem enn var lifandi og þekkti til hinnar deyjandi sögu minja og örnefna á svæðunum, og gera úr því uppdrætti er gætu nýst komandi kynslóðum. Gefnir voru út sjö updrættir og gerðir úr þeim jafnmörg söguskilti er enn standa uppi víðs vegar í Grindavík, áhugasömum til handa.
Ferðamálafélagið gaf síðan út rit með öllum uppdráttunum. Því miður hefur þessu samstarfi ekki verið fylgt eftir sem þyrfti – en uppdrættirnir tala enn þann í dag sínu máli um örnefni og minjar í Grindavík.

-Þú hefur skrifað texta inn í Ratleik Hafnarfjarðar undanfarin ár. Hvernig kom það til?

Ratleikur Hafnarfjarðar 2022

Ratleikur Hafnarfjarðar 2022.

Það var félagi minn, Guðni Gíslason, fyrrum ritstjóri Fjarðarpóstsins, nú ritstjóri Fjarðarfrétta, skátaforingi og forstöðumaður Hönnunarhússins, sem bað mig um texta við ratleikinn fyrir nokkrum árum. Leikur þessi er nú kominn á þrítugasta aldursskeiðið. Um er að ræða 27 tiltekna staði hverju sinni. Fjölmargir hafa bæði nýtt sér fróðleikinn sem og tilganginn með leiknum; að ganga um svæðið og leita uppi merkin, skrá þau á lausnarlista og skila síðan inn að leiðarlokum með von um verðlaun. Þetta er ókeypis lífsfullnægjandi leikur í hinu stórkostlega upplandi Hafnarfjarðar.

-Nú ert þú kominn á svokallaðan “eftirlaunaaldur”. Hvað finnst þér um það?

Lögregla

Lögregla – nokkur axlarmerki.

Ég var skyldaður, gildandi lögum samkvæmt, að fara á eftirlaun þegar 65 árunum var náð – eftir 45 ára starf að löggæslumálum. Í raun fylgdi þeirri skyldu engin réttindi önnur en þau að eiga rétt á takmörkuðum eftirlaunagreiðslum. Ef ég hefði verið í öðru starfi hefði komið til álita áframhaldandi starf, eða, hjá ríkinu, sjálfkrafa heimild til að mega starfa til sjötugs.
Það var svolítið sárt að þurfa að ganga út starfslokadaginn. Ég hafði hafnað kveðjusamkundu, þrátt fyrir mótbárur, með þeim orðum að engin hefði móttökuathöfnin verið er ég mætti á laugardagskvöldi til starfa fyrsta sinni.

Lögregan

Lögreglan – myndirn er tekin eftir handtöku þýsks bankaræningja, Lugmeyers, sem strokið hafði úr dómshúsi þar í landi og birst með fúlgur fjár á Íslandi.

Mitt mat er það eigi að afnema aldurstakmörk þegar kemur að starfslokum, sem og allar hömlur (skerðingar) er takmarka möguleika fólks á öllum aldri að sjá sér farborða. Mörkin má gjarnan nota til að meta áunnin réttindi, ef fólk vill nýta sér þau, en ef það óskar eftir áframhaldandi starfi, eða öðru sambærilegu, ætti það að verða samkomulag milli þess og vinnuveitandans. Í þessu starfsfólki felst mikil uppsöfnuð þekking og reynsla, sem nýtast mætti svo lengi sem umsættanlegt er – punktur og basta.

-Eitthvað að lokum?
Ég tel mig eiga Grindavík, þrátt fyrir allt, skuld að gjalda. Þar liggja jú ræturnar. Einstæð móðirin, með sex börnin sín, naut síðan aðstoðar hreppsins á miklum erfiðleikatímum í hennar lífi, sem nægði til þess að hún gat flutt þau í öruggara atvarf í Hafnarfirði og komið þeim öllum þar til manns. Þess vegna varð ég það sem ég er…

Grindavík

Grindavík – Þórkötlustaðir.