Færslur

Hellugata

Gengin var gamla þjóðleiðin milli Selvogs og Krýsuvíkur.

Hellugata

Ein Helluvarðanna.

Byrjað var við Helluvörðurnar á Hellum þar sem Stakkavíkurgatan kemur inn á leiðina. Þar er gatan djúpt mörkuð í helluhraunið eftir fætur, hófa og klaufir liðinna kynslóða og því auðvelt að fylgja henni þar sem hún beygir áleiðis að sjónum, upp á klapparhrygg og áfram niður og sunnan við hann. Annar angi götunnar liggur áfram til vesturs þar sem hún beygði áleiðis að sjónum, en sú leið er ekki eins mörkuð í landið. Götunar koma saman syðst við hrygg nýrra apalhrauns. Hún liggur inn á það, en hverfur síðan á u.þ.b. 300 m kafla þar sem sjórinn hefur náð að krafla í hana. Fjaran er þarna stórbrotin og talsverð látalæti í öldunni. Gatan kemur síðan aftur í ljós í grónum hraunbolla syðst í hrauninu og liggur þaðan áleiðis að Mölvíkurtjörn. Sjórinn hefur þó náð að kasta möl og grjóti yfir hana á smákafla.

Hellugata

Hellugata.

Austan við Mölvíkurtjörn er tóft, hugsanlega sjóbúð eða selstaða. Við hlið hennar er hlaðið gerði og garður að vestanverðu. Ofar, uppi á berginu ofan við vatnið, er fallin fjárborg eða gerði. Svæðið var rissað upp. Mölvíkurtjörnin sjál er falleg sem og aðstaðan umhverfis hana. Vatnið er ferskt. Engir þurrkgarðar eru sjáanlegir, en þó er ekki loku fyrir það skotið að fiskur hafi verið hertur eða þurrkaður á úfnu hrauninu sunnan við tóftina. Ekki er vitað til þess að minjarnar við Mölvíkurtjörn hafi verið skráðar á fornleifaskrá. Þarna er allnokkur reki og liggur gata niður að svæðinu, sennilega rekagata. Henni var fylgt til vesturs áleiðis að Herdísarvík. Þar sem gatan kemur inn á gamla akveginn frá Herdísarvík beygir hann upp í hraunið. Skammt vestan beygjunnar liggur Breiðabásstígur (gömul fjárgata að Breiðabáshelli) af honum til suðurs. Skammt vestar í mosahrauninu eru byrgi og þurrkgarðar svo kílómetrum skiptir.

Mölvíkurtjörn

Mölvíkurtjörn – sjóbúð.

Næst Gerðinu er gróið í kringum þá, en ekki ofan í hrauninu. bendir það til þess að nærgarðanir hafi verið meira notaðir, a.m.k. í seinni tíð útgerðar við Herdísarvík. Athyglisvert er að sum byrgin er svo til eins í laginu og byrgin undir Sundvörðuhrauni ofan við Grindavík, svonefnd “Tyrkjabyrgi”. Inni í gerðinu eru tóftir fjárhúsanna Langsum og Þversum. Sunnan við þau er Hlínargarðurinn, fallega hlaðinn og hefur að mestu staðist ágjöf sjávar, eins og honum var ætlað. Vestan við Þversum eru jarðlægar tóftir, en sjá má móta fyrir útlínum gerðis eða réttar. Niður við fjörubrún í Herdísarvíkurtjörninni mátti sjá hringlaga mannvirki með nokkrum steinum í miðjunni. Gæti verið seinni tíma handverk, en einnig fyrrum “steinavöllur” verbúðarmanna.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Hér áður fyrr var þyrping húsa á sjávarkambinum, en sjórinn hefur brotið þær. Þar var m.a. saltgeymsla, beitugeymsla og lýsisgeymsla. Áleitni sauðfjár við útróðramenn var mikil. Til marks um það, þá var stundum kind á “hverjum öngli” við beitningageymsluna (ÁÓ).
Skoðaðar voru sjóbúðirnar austan Herdísarvíkurhússins, tóftir útihúsanna vestan við húsið og bæjarstæði gamla bæjarins sunnan við þær. Í tjörninni mátti m.a. sjá brotna myllusteina og fleira frá gamla bænum. Í framvegg gamla bæjarins sá í stoðholu í steini.

Herdísarvíkrugata

Herdísarvíkurgata.

Gengið var áfram vestur Herdísarvíkurgötu. Gatan er vel greinileg, en greinilega lítið gengin. Hún er vel vörðuð. U.þ.b. 500 metrum vestan við húsið skiptist gatan. megingatan heldur áfram til vesturs, en neðri gata stefnir til suðvesturs. Hún liggur áleiðis niður að Herdísarvíkurseli ofan við Seljabót. Þaðan liggur stígur til norðvesturs austan við selið og sameinast Hedísarvikurgötunni á ný neðan austurhorns Geitahlíðar, eins og komið verður að síðar.

Þúfutittlingshreiður og lóuhreiður með eggjum í voru barin augum á leiðini. Iðandi fuglalíf allt í kring. Miðja vegu er fallegur gróinn áningastaður í skjóli undir hraunkanti. Haldið var áfram vestur hraunið. Þegar komið var áleiðis upp á Klifhraunið mátti sjá greinilegan stíg liggja af götunni upp tiltölulega slétt hraun, áleiðis að Sængurkonuhelli, er minnst hefur verið á áður í leiðarlýsingum. Herdísarvíkurgatan er mjög falleg þar sem hún liðast í gegnum hraunið. Skammt austan sýslumarkanna liggur þjóðvegurinn yfir gömlu götuna.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Farið var yfir þjóðveginn og götunni fylgt áfram framhjá Sýslusteini og áfram upp í gegnum apalhraunið vestan hans. Hann kemur út úr því við austurhlíð Geitahlíðar, u.þ.b. 500 metrum ofan við þjóðveginn. Gengið var niður með brúninni (en búið er að skemma götuna á kafla með gryfjum) og niður á veg. Skammt vestar kemur neðri stígurinn inn á megingötuna, eins og fyrr var minnst á. Við gatnamótin liggur gatan norður fyrir þjóðveginn og liðast síðan nær samhliða honum ofar í hlíðinni (neðst í Sláttudal) og vestur fyrir sæluhúsið undir Fjárskjólshraunsbrúninni. Þar hverfur gatan undir þjóðveginn, alveg upp undir Kerlingardal.

Dysjar Herdísar og krýsu

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans neðst í Kerlingadal.

Þar var götunni fylgt áfram upp að dysjum Herdísar og Krýsu (og smalans), upp hlíð vestan dalsins og áfram áleiðis upp að Deildarhálsi. Gatan er óvörðuð á þessum kafla svo sæta þarf lagi við að finna hvar hann liggur inn í hraunið austan undir Eldborginni. Þaðan er stígurinn greinilegur upp hálsinn. Efst á hálsinum er gengið í gegnum hraunskarð þar sem útsýni er yfir gömlu leiðina neðanverða, Krýsuvíkurheiðina og heim að Krýsuvíkurbæjunum.
Gengið var eftir götunni niður hálsinn, en síðan beygt til suðurs vestan hans og haldið að gömlu Eldborgarréttinni niður við þjóðveginn.
Gengnir voru 13 km á 5 klst og 31 mín. Veður var frábært – bjart og hlýtt.

Fornagata

Fornagata (Hellugatan).

Breiðabás

Farið var að Breiðabás austan við Herdísarvík og leitað hellisops, sem Einar skáld Benediktsson hafði fyrrum lýst á þeim slóðum. Sagði hann í lýsingu sinni af hellinum að hann hefði náð úr Breiðasbás upp í mitt Mosaskarð, en þangað er vel á annan kílómeter. Vitað er um menn, sem villst höfðu inni í hellinum, en hann mun vera margarma og erfitt að rata inni í honum. Um er að ræða afhelli innan af hinum eiginlega Breiðabáshelli, stórum fjárhelli, sem lengi var notaður frá Herdísarvík.

Fornugata

Fornugata.

Í viðtali Jóhanns Davíðssonar við Eggert Kristmundsson frá Stakkavík árið 2004 kom eftirfarandi fram um Breiðabáshelli: “Í Breiðabás var mikill sölvareki. Svo komum við að þessum stóra helli. Mig langaði til að fara inn í þennan tigna hellir. Gísli var í opinu í stóra hellinum og ég fór inn hellirinn, langaði að sjá hve hann næði langt þegar ég var kominn inn. Ég var ekki með ljós. Þegar ég var kominn langt inn, komu þrengsli, ég fór yfir þau, þá kom hellir til vinstri og annar lítill til hægri. Þá sá ég að ég var orðinn snarvilltur, ætlaði að finna leiðina til baka, en fann ekki, sá gat og gat skriðið þar upp, mjög þröngt. Ef ég hefði haft vasaljós hefði ég getað haldið áfram að skoða þetta betur. En þarna var bara svarta myrkur.

Breiðabás

Í Breiðabás

Þarna getur verið voðalegur hellir og stækkað er innar var komið. Þótt svona þrengsli væru þegar að var komið gæti verið víður hellir innar. Það veit enginn. Hægt væri að skoða þetta með góðum ljósum. Sárt að sjá að hellirinn er nú kominn í kampinn því þetta var góður hellir. Hann tók þrjú til fjögur hundruð fjár. Hann var meira en manngengur, en þegar inn var komið fór hann að þrengjast…, það komu svona göng…skosnur sitt á hvað.. þegar ég fór yfir þrengsin komu þar hellirar.. Það kom einhver smá skíma og þar fór ég upp, annars hefði ég orðið innlyksa.
Gísli var náttúrulega til frásagnar að ég fór inn í hann. Það hefði verið hægt að leita með ljósi því vasalljós voru komin þá – og kerti, en það var svo mikill dragsúgur í hessum hellirum.

Sjá einnig viðtal og ferð með bróður Eggert í Stakkavík, Þorkeli Kristmundssyni.

Breiðabás

Í Breiðabás.

Ofan við opið á Breiðabáshelli, sem nú er komið undir háan sjávarkampinn, sést í fjárgötuna niður að opinu. FERLIRsfélögum í félagi við Hellarannsóknarfélagsmenn hafa komist undir hraunið þar sem yfirborðsrásir liggja þvers og kurs innundir, en ekki hefur enn tekist að finna leiðina að hinni löngu rás, ef frásögnin um hana er þá sönn. Vonir eru bundnar við það að eitthvert þungavinnutækið við lagningu Suðurstrandarvegar muni óvart dumpa niður í rásina þegar þar að kemur.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Þrátt fyrir nokkra leit að þessu sinni komust leiðangursmenn ekki lengra en inn undir hraunið á nokkrum stöðum – en hvergi niður í rásina.

Þá var haldið í kaffi til Þórarins Snorrasonar á Vogsósum. Þórarinn sýndi FERLIRsfélögum Fornagarð, sem var vörslugarður ofan við Selvog. Fornigarður (hét áður Strandargarður) lá frá Hlíðarvatni yfir að Nesi, um 5 km leið. Garðurinn var reistur fyrir árið 1200 og sést hann enn vel þrátt fyrir að sandurinn, sem hafði nær lagt byggðina í aun, hafi fokið vel að honum á köflum. Bæði sést móta fyrir garðinum á Vogsósatúninu sem og á heiðinni ofan þess. Ætlunin er að ganga síðar eftir garðinum frá Vogsósum að Nesi (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Þórarinn vísaði á gömlu Vogsósagötuna frá Ósum að Háahrauni. Um er að ræða tvær götur, gömlu og nýju götuna, að sögn Þórarins. Báðar eru þær klappaðar í helluhraunið og sést gatan mjög vel svo til alla leiðina.

Hellugata

Hellugata (Fornagata) vestan Vogsósa.

Þarna hefur verið mikil umferð áður en gatan lokaðist af Háahrauni er það rann um árið 1320. Víða eru 10-15 cm djúp för langar leiðir í klöppina.Gatan, sem stundum hefur verið nefnd Hellisvörðugata (hún er vörðuð á sléttri hraunhellu er nefnd er Hellan) er tvískipt, sem fyrr segir, sú nýrri er nær sjónum, og kemur aftur fram vestan hraunsins uns hrauntunga fer yfir hana að nýju. Hún greinist varla þegar kemur að túnunum austan Herdísarvíkur, en gamli vegurinn í gegnum hraunið, á milli löngu fiskigarðanna, gæti hafa komið á hana. Skammt vestan Mölvíkurtjarnar greinist gatan, annars vegar að Mölvík (rekagata) og hins vegar áleiðis í spor núverandi þjóðvegar.
Þá lýsti Þórarinn Stakkavíkurhelli og er ætlunin að skoða hann síðar. Hann er vestan og uppi í Nátthagaskarði (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Frábært veður – Ferðin tók 2 klst og 22 mín.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

 

Herdísarvík

Fornar götur eru merkileg fyrirbæri.
Þegar þær eru gengnar nú til dags (2012) má vel greina Fornagata-554áætlaðan aldur þeirra og notkun. Þannig er a.m.k. háttað með göturnar í Selvogi. Í byggðinni sjálfri voru tvær götur; kirkjugatan lá með gömlu bæjunum frá austri til vesturs, að Strandarkirkju og vegurinn lá ofan Fornagarðs, efri endimörk byggðarinnar. Upp frá honum lá Útvogsgatan upp á Strandarhæð þar sem hún mætti Fornugötu (Fornugötum) þvert á hana og Selvogsgötu (Suðurferðagötu), sem var í raun framhald hennar upp heiðina og fjallgarðinn áleiðis til Hafnarfjarðar.
Fornugata lá á millum Ölfuss og Herdísarvíkur í gegnum Vogsósa. Hún, líkt og hinar göturnar, sést enn nokkuð glögglega. FERLIR fylgdi Fornugötu nýlega frá fyrrnefndum gatnamótum á Strandarhæð til vesturs, áleiðis að Vogsósum, en áður hafði götunni verið fylgt til austurs áleiðis að Hlíðarenda.
Fornagata-555Fornagata liggur til vesturs/austurs norðan gamla þjóðvegarins á Hæðinni, nokkuð innan við Skálavörðu. Auðvelt er að rekja hana um grasi gróið sléttlendi áleiðis að Vogsósum uns hún þverar gamla þjóðveginn. Þar liggur hún í beygu niður með háu barði og kemur síðan glögglega í ljós að nýju skammt neðar. Síðan fylgir hún nokkurn veginn suðurmörkum gróins lands Vogsósa, allt niður á Vallabarmi og yfir Vaðið á affalli Hlíðarvatns. Eftir það hverfur hún í síbreytilegar sandöldur Víðisands allt þangað til komið er að vörðu á austanverðum hraunsmörkum Hellunnar. Frá henni skýrist gatan smám saman und hún verður allgreinileg. Á köflum verður gatan allt að 10 cm djúpt mörkuð í hraunhelluna. Hún greinist á tveimur stöðum spölkorn, en verður fljótlega að einni á ný. Þá greinist gatan á ný og nú varanlega. Líklega er nafnið “Fornugötur” sprottið af því? Stundum hefur gatan á þessum kafla verið nefnd Hellugata vegna framangreindrar staðsetningarinnar.
Fornagata-556Annar leggurinn leggst til vinstri, upp á hærri brúnir nær ströndinni. Þar verður gatan jafn greinilegt í hraunhelluna sem fyrr, allt til syðst að austari Brunabrúninni framundan. Að vísu liggur hún sunnan við sandlág síðasta kaflann, en sést síðan mjög vel þar sem hún liggur inn á úfið apalhraunið áleiðis að Mölvík og Mölvíkurtjörn. Áframhald þeirrar leiðar verður lýst hér á eftir.
Svo segir í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík: “Ofanvert við sjávarkampinn, sem liggur frá Draugagjám austur að Skothellu, er austast Víðisandur, og liggur vestasti hluti hans undir Stakkavík. Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða.  Reyndar eru þeir tveir; liggur annar neðar.  Alfaravegurinn neðri liggur um klappirnar því nær niður við sjó, og eru markaðar götur í klappirnar allt vestur að Draugagjám, þar hverfa þær undir brunahraun.  Svo segja Selvogsingar, að götur þessar stefni í sjó fram í Draugagjár og liggi upp á Alboga.”
Fornagata-557Í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík segir ennfremur: “Þá voru hraundrangar þar austur af, síðan tók við vík allbreið, kölluð Mölvík, með Mölvikurkampi. Austast í henni voru klappir, og [var] þar kallað Varir eða Mölvikurvarir.  Í Breiðabás og á Mölvík var rekasvæði ágætt.Ofanvert við kampinn var Mölvíkurtjörn, en vestur úr henni eða lægðinni, sem hún liggur í, er sæmilega bílfær vegur, Mölvíkurstígur upp á alfaraveginn uppi á brunanum. Búðarrúst er austur af Tjörninni, Mölvíkurbúð, frá þeim tímum, er útræði var úr Mölvíkurvörum;  þar er og Mölvíkurfiskabyrgi. Þar upp af framan í brunanum eru svo Grenshólar. Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar.  Á einum stað liggur milli klettanna gjá;  þar svarrar sjórinn fast.
Fornagata-558Á Draugagjárlóninu er steinn mikill, Skarfaklettur. Austarlega í Draugagjám er klöpp, þangi vaxin og öðrum sjávargróðri. Í eina tíð lá Steinbogi út á klöppina, og þá leið fór féð til beitar. En á flæði hraktist það af klöppinni í ker, sem þar liggur inn af, og drapst þar.  Þar af var kerið kallað Drápsker. Fyrir þessa sök var steinboginn brotinn.”
Hinn leggurinn liggur til norðvesturs upp með Brunabrúninni fyrrnefndu uns komið er að vörðu skammt austan hennar. Þaðan liggur þessi forna leið inn á Brunann eftir seinni tíma vagnvegi, líklega frá því á fyrri hluta 20. aldar, allt að Brunabrúninni vestari ofan við Breiðabás á mörkum Stakkavíkur og Herdísavíkur.
Fornagata-559Á kafla (á sléttu helluhrauni ofan Mölvíkurtjörn) má sjá ummerki eftir fornu hestagötuna; “efri leiðina” leið í gegnum Brunann. Vagnvegurinn virðist augsýnilega hafa verið brotinn ofan í gömlu götuna eftir að neðri gatan var orðin ófær vegna umbrots sjávar. Á stuttum kafla skammt austur þar sem vagnvegurinn kemur niður af Brunanum að austanverðu má slá leifar vegagerðar, líklega tilraun til hins fyrsta akvegar handan hraunbrúnarinnar, en hætt virðist hafa verið þá vegagerð því engin ummerki önnur er um hana þar að finna. Tófugreni er við austurbrún þessarar vegagerðarummerkja.
Nú skal aftur horfið niður á neðri Fornugötu. Þegar komið er inn á Brunann hverfur gatan vegna þess að Ægir hefur etið hana upp til agna á a.m.k. 200 metra kafla. Handan þess, ofan við Drauga (klettadranga er skaga út í sjóinn) kemur gatan aftur í ljós og hægt er að rekja hana að Mölvíkurtjörn.
Fornagata-560Það er mikilfenglegt að ganga um neðanvert apalhraunið vestan vestari Brunabrúnarinnar þar sem berja má augum hina víðfeðmu fiskigarða og fjölmörgu fiskibyrgja austan sjóðbúðanna austan Herdísarvíkur sem og fjárhúsanna “Langsum” og Þversum” í Austurtúninu sem og þær sjálfar millum þeirra og heimatúnsins.
Sérstaka athygli vakti á göngunni hversu lyng á það til að vaxa í gömlum götum, hvort sem um var að ræða hesta- eða vagngötu. Allt um kring var grænn eða grá mosinn alsber, en í gatan var jafnan lyngvaxinn svo til enda á millum.
Eins og fyrr segir er sérstök upplifun að ganga þessa tiltölulegu stuttu, en misgömlu, götukafla frá fyrri tíð og fá þannig að sjá þróun vegagerðarinnar, sem virðist hafa verið nánast óbreytt um 1000 ára skeið, uns þörfin hafi allt í einu orðið önnur með tilkomu vagnsins og síðar sjálfrennireiðarinnar – en það er nú önnur saga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stakkavík.

Fornagata

Fornagata.