Tag Archive for: Fornasel

Fornasel

Gengið var um Brunntorfur að Gjáseli í Almenningum. Þangað er um 20 mín. gangur eftir slóða að skógræktinni sunnan Rallycross-brautarinnar við Krýsvíkurveginn og áfram í gegnum gróið hraun sunnan við Hrauntungur.

Fornasel

Fornasel – vatnsból.

Selið er við svonefndar Gjár. Stekkur er norðan undir hraunhól, sem selið stendur á og vatnsstæðið er í grónum hólnum vestan við seltóftirnar. Líklega er um að ræða fornt sel frá Þorbjarnarstöðum. Stígur liggur upp í það frá bænum, framhjá því og áfram upp í Fornasel, sem er þarna ofar og austar. Vörður eru við stíginn í gegnum Gjárnar og er heil varða á fallegum stað skammt neðan við selið. Skammt vestan við Gjásel eru tveir skúta með hleðslum fyrir, Kápuskjól og Kápuhellir. Á milli þeirra liggja landamerki Þorbjarnastaða og Straums, yfir Jónshöfða.

Stígnum var fylgt upp í Fornasel. Þangað er u.þ.b. 15 mín. gangur. Vel gróið er í kringum Fornasel, stekkur sunnan við hólinn, sem það stendur á og stórt og vatnsmikið vatnsból svo til í miðju tóftanna.

Fornasel

Fornasel.

Þarna eru tóftir tveggja rýmis húsa, auk þess sem stök tóft stendur skammt sunnar. Það mun hafa verið eldhúsið. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, gróf í tóftirnar sumarið 2002 og kom þá í ljós að þær virtust vera frá því um 1400-1500.
Í bakaleiðinni var gengið í gegnum hinn mikla furu- og greniskóg í Brunntorfum og komið við í Þorbjarnarstaðaborginni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Knarrarnessel

Gengið var frá Skrokkum við Reykjanesbraut að Fornaseli. Selið er í vel grónum hól og sést hann vel frá brautinni. U.þ.b. 10 mín. gangur er að því.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Ýmist er sagt að selið hafi verið frá Þórustöðum eða Landakoti og þá heitið Litlasel. Í selinu er ein megin tóft með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tóft með tveimur vistarverum.
Gengið var áfram inn áheiðina að Auðnaseli. Selstæðið sást vel framundan, ofan við Klifgjána. Í því eru fjórar tóftir, tveir hlaðnir stekkir, auk kvíar. Varða er á holti vestan við tóftirnar. Handgert vatnsstæði er norðvestan við miðtóftirnar. Það var þurrt að þessu sinni líkt og önnur vatnsstæði í heiðinni þetta sumarið. Annar stekkurinn er uppi á holtinu ofan við selið.

Knarrarnessel

Stekkur í Knarranesseli.

Gengið var til suðsuðvesturs að Knarrarnesseli. Á leiðinni var gengið um Breiðagerðisslakka og tækifærið notað og kíkt á flak þýsku Junkerflugvélarinnar, sem þar var skotin niður í aprílmánuði 1943.
U.þ.b. 20 mínútna gangur er á milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru þrjár megintóftir, auk einnar stakrar, og þrír hlaðnir stekkir. Vatnsstæðið er í hól norðvestan við selið, fast við selstíginn. Það var líka þurrt að þessu sinni, greinilega nýuppþornað. Í Knarrarnesseli er í heimildum getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel.
Gengið var niður Knarrarnesselstíginn að Klifgjá, yfir hana við vörðu á brún hennar og áfram niður að Skrokkum. Við vörðuna var greni.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Fornasel

Fornassel – uppdráttur ÓSÁ.

Brunntorfur

Í Þjóðviljanum helgina 23.-24. ágúst 1980 var viðtal við Björn Þorsteinsson undir fyrirsögninni „Landvinningar á Reykjanesi“ um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap:

Fornasel

Hér reyndar um Fornasel ofan við Brunntorfur að ræða.

„Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. Björn Þorsteinsson prófessor hefur um áratugaskeið stundað skógrækt í Straumsheiðinni ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum um landgræðslu. Þar heitir í Straumsseli. Björn telur Reykjanesskagann vera hið mesta gósenland vegna margvíslegra landkosta og vill friða hann fyrir sauðfé og láta úthluta fólki þar ræktunarlöndum. Við áttum samtal við Björn fyrir skemmstu og þar útlistaði hann sjónarmið sín.
— Já, Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. — Eftir rækilega rannsókn á landkostum sló fyrsti landnámsmaðurinn tjöldum til frambúðar í Reykjavík. Þar var mikið undirlendi, varp- og akureyjar, þar var hægt að rækta bygg og brugga, góð fiskimið, laxár, veiðivötn, selalátur, hvalreki og geirfuglabyggðir skammt undan og fuglabjörg, góðar hafnir, heitar laugar og talsverður reki. Auk þess var beitiland sem aldrei brást á Reykjanesskaga.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.

Skaginn var skógi vaxinn og þar gekk sauðfé sjálfala frá upphafi vega uns Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum árið 1952 að mig minnir, sællar minningar. Hvergi var öllum þessum gæðum hlaðið jafn ríkulega á eitt hérað og af því býr þar nú nálega helmingur þjóðarinnar. Skaginn var síðar nefndur Gullbringusýsla, en það mun afbökun. Dönsku umboðsmennirnir hafa kallað Bessastaðaumboðið: Den guld indbringende syssel.
Menn sóttu hingað á Inn- og Suðurnes frá upphafi vega, keyptu sér land eða hótuðu hernaði fengju þeir ekki jarðnæði. Eyvindur í Kvíguvogum hrökklaðist t.d. til Heiðarbæjar undan Hrolleifi Einarssyni Ölvissonar barnakarls. Hér urðu menn að bindast samtökum, stofna til þinghalds og stjórngæslu til þess að verjast hvers konar ágangi. Upphafs allsherjarríkis mun að leita á Þingnesi við Elliðavatn.

Fornasel

Þetta er vatnsstæðið í Fornaseli.

Blm.: Voru ekki útvegsbændur á Reykjanesskaga einhverjir ríkustu menn landsins hér fyrrum?
— Jú, fiskimiðin hafa verið svo stórgjöful við Reykjanes að þar hafa jafnan verið einhverjar bestu verstöðvar landsins. Allt frá því á 15. öld hafa stórveldi glímt um Reykjanesskaga. Ég vil einnig bæta því við að jarðhitinn á Reykjanesskaga er ómældur og lítið nýttur enn. Garðbæingar ættu að vita að laug var í Hliðstúni, en hefur aðeins komið upp síðustu aldir á blásandi fjöru. Volgra var norðan til við Arnarnesi undan Gvendarbrunni, en á Reykjanesskaga heitir fersk uppspretta Gvendarbrunnur. Um skagann liggja mörk skaparans milli austurs og vesturs. Þar skiptir hann veröldinni með eldsprungu sem er nú einna virkust norður í Gjástykki.
Brunntorfur—Skaginn er í rauninni ein af tilraunastöðvum skaparans í landasmíð. Þar æfir hann tilvonandi arkitekta sköpunarverksins áður en hann felur þeim stærri verkefni annars staðar í geimnum.
Þar er hvert náttúruundur öðru meira. Eitt er Kleifarvatn, ævintýravatn, sem menn nýta ekki til neinnar hlítar af því að í því er flóð og fjara, en láðst hefur að binda vatnsborðið. Það er auðgert með um 4 km skurði, en að honum gerðum opnast ómældir möguleikar til fiskræktar og annarrar ræktunar, búsetu og siglinga.
Blm.: Nú er Reykjanesskagi í vitund margra heldur hrjóstrugur. Ert þú á annarri skoðun?
— Já, skaginn er í raun mjög frjósamur, en gróðri var eytt þar gegndarlaust á 19. öld. Eftir 1820 hefur engin stórplága geisað hér landi og sveitirnar yfirfylltust af fólki. Þá flýði það hrönnum til verstöðva og á Vatnsleysuströnd komst fólksfjöldinn upp í um 650 manns árið 1870. Þá var gróðri skagans eytt svo að hann hefur staðið rúinn og eyddur eftir. Ég tel að mikill orkusparnaður yrði að því að veita ræktunarfúsu fólki landspildur á skaganum gegn ræktunarskyldu. Á þann hátt væri hægt að breyta skaganum í sígrænan gróðurreit á 10-15 árum. Fólk við Faxaflóa þarf ekki að æða norður í Aðaldal til þess að tjalda á hrauni. Skaginn er mjög fagur og fjölbreyttur og sökum orkukreppu er brýnt að Faxaflóaþjóðin kynnist því að þar eru dásemdir tilverunnar engu minni enn annars staðar á landinu.

Blm.: — Og því vilt sem sagt friða Reykjanesskaga fyrir sauðfé?
— Já, með því og að úthluta fólki þar ræktunarlöndum vinnst þrennt: Fólki hættir að leiðast, orkuvandinn leysist því að menn losna við að flýja austur á Hérað eða til sólarlanda sér til afþreyingar og nytjaskógar og unaðsreitir munu prýða Reykjanesskagann. Síðast en ekki síst er óhemjukostnaði við girðingar létt af ræktunarmönnum.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hafið þið Straumsheiðingjar orðið fyrir tjóni af völdum sauðfjár í landi ykkar?
— Við erum líklega búnir að planta um hundrað þúsund trjáplöntum síðan við byrjuðum og þó að girðingin sé tvöföld, bæði gaddavír og vírnet, er tjónið ómælt. Það þarf ekki nema eina kind að brjótast inn til að valda miklum skaða. Ísland var og er eignarréttarins land. Hingað komu menn til þess að eignast land og hér voru engir frumbyggjar fyrir, —landið var numið til séreignar, en með því er ekki sagt að eignarrétturinn sé svo heilagur að leggja þurfi í auðn hans vegna heil héröð. Ég tel að eigendur sauðfjár eigi að gæta eigna sinna í heldum girðingum. Þeir eiga að vera ábyrgir fyrir tjóni sem rollurnar valda hjá öðrum. — Það þættu skrýtin lög í landi ef innbrotsþjófar gætu afsakað gerðir sínar með því að læsingar væru ekki nægilega traustar. Hér hafa hirðingjasjónarmið ríkt um aldir og sauðfé verið friðheilagt enda hefur gróðurlendi eyðst  jafnt og þétt eins og hjá öðrum hirðingjum. Mál er að linni og gróðurinn verði friðhelgur.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hvað er til ráða? Hvernig á að breyta alda gamalli hefð?
— Í lögum er og hefur verið um aldir ákvæði um ítölu, ítölu búfjár í haga. — Ítala er ákvörðun eða öllu heldur áætlun um það hve margt búfé hver og einn megi hafa í sameiginlegu beitilandi. Ítala er leyfður fjöldi búfjár frá hverjum nytjanda beitar í sameiginlegt land. Nú mun um þriðjungi fullorðins sauðfjár ofaukið í haga hér á landi. Þennan bústofn verður að skera niður. Enginn, hvorki stétt manna né einstaklingur á minnsta rétt á því að eyða lífríki landsins, leggja gróðurlendi í auðn. Ítöluákvæðinu var framfylgt allstrangt oft á tíðum fram á öld véltækni og fóðurbætis, en eftir það hefur allt gengið úr skorðum. Vistfræðingar okkar eiga að vita nú orðið nákvæmlega hvað hektari gróðurlendis ber af búfé, og auðvitað þolir landið misjafnlega mikið eftir aðstæðum og gróðurfari. Þeir eiga að stjórna ítölu í landið undir forystu landgræðslustjóra með aðstoð stjórnvalda. Allt annað er stjórnleysi eða anarkismi. Útgerðarmenn verða að leggja skipum sínum af því að vernda þarf fiskistofna. Á sama hátt verða bændur að takmarka búsmala sinn af því að vernda þarf gróðurlendi. Landeyðing er höfuðglæpur og íslenskur sauðfjárbúskapur er víða vélvædd rányrkja.

Brunntorfur

Fjárskjólið í Brunntorfum.

Líttu á Grafninginn og uppsveitir Rangárvalla- og Árnessýslu, svo að dæmi séu tekin. Ég veit að núverandi landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, hefur beitt ítöluákvæðum til þess að draga úr ofbeit á einstökum svæðum en gróðurlendur eru samt á undanhaldi og því má alls ekki una. Menn hafa verið að amast við sumarbústöðum borgarbúa á ýmsum forsendum en þeim fylgir gróður, sauðfjárbúskap og auðn.
Ingvi Þorsteinsson sagði í Þjóðviljanum fyrir hálfum mánuði að Grænland væri ekki ofbeitt enda fallþungi dilka þar meiri en hér. Þetta stafar ekki af framsýni bænda þar í sveitum, heldur af því að þeir setja enn á guð og gaddinn og horfalla árlega, gjörfelldu 1968 og rollubúskapurinn hangir þar á horriminni. Þeir eru litlir ræktunarmenn, en hér er heyöflunin vélvædd og þar með er haldið lífi í hundruðum þúsunda sauðfjár á vetrum og þeim sleppt á úthagann þessa fáu mánuði, sem hér er þíð jörð.
Ef náttúran fær að vera í friði ríkir oftast einhvers konar jafnvægi innan hennar. Nútímabúskapur hefur rofið þetta jafnvægi hjá okkur. Hér eru milljarðar greiddir í verðbætur til bænda til þess að þeir geti eytt landinu, en aðrir milljarðar eru greiddir í landgræðslusjóð. — Þessi háttur skipulagsmála var eitt sinn kenndur við Bakkabræður.
Stórsektir þarf að leggja við landeyðingu — í stað þess að nú er hún verðlaunuð.

Fornasel

Í Fornaseli (Brunnseli?).

Blm.: Þú minntist eitt sinn á það við mig að stofna þyrfti landvinningafélag til þess að herja á auðnirnar, endurheimta þær í ríki gróðursins. Hefurðu gert eitthvað í þeim málum.
— Ég er orðinn ónýtur í öllu félagsstarfi. Hins vegar þykir mér tímabært að gera menningarbyltingu á Íslandi. Hér verða menn að hverfa frá hirðingjamenningu og taka upp ræktunarmenningu. Þeir verða að hætta að trúa á heilaga sauði, og hver maður verður að vera ábyrgur fyrir eigum sínum og þar með sauðkindum, sem valda mér og öðrum óbætanlegu tjóni. Hirðingjar hafa ávallt skilið eftir sig sviðið land, hvort sem þeir búa austur í Mongólíu, suður í Arabíu eða norður á Íslandi.
Blm.: Eiga þá sauðfjáreigendur að girða af sauði sína?
Björn: Í ræktunarlöndum í grennd við þéttbýli á sauðfé ekki að líðast. Það er ómannlegt að leggja þá byrði á ræktunarmenn að girða af hvern skika vegna þess að nokkrir sauðfjárdýrkendur hafa það sér til dundurs að halda skemmdarvörgum til beitar í löndum þeirra. Allir sem vilja rækta land eiga að geta fengið erfðafestuskika að kostnaðarlausu gegn ræktunarskyldu á friðuðu landi. Erfðafestan á að falla úr gildi og landið að ganga aftur til fyrri eiganda, ef ræktunarskyldunni er ekki fullnægt.
Blm.: Þetta hljómar vel, en ríki og bæjarfélög eiga fæst mikið land til slíkra hluta.
Björn: Ef menn nýta ekki landið, eins og t.a.m. Reykjanesskagann, á ríkið að gera slík svæði upptæk til handa þeim, sem eru fúsir til þess að rækta þau. — Hér hefur ræktunarmálum verið mjög litið sinnt. Engin fræðsla er um þau mál innan hefðbundins skólakerfis. Eitt hið fyrsta sem gera þarf er að fræða fólk um það, hvernig hægt er að rækta landið. Ég get best borið um það sjálfur, að vanþekking mín á ræktunarmálum hefur verið mér dýr. —

Fornasel

„Brunnurinn“ (vatnsstæðið) í Fornaseli (Brunnseli?).

Ræktunarfræðsla þarf að verða kjörsvið í öllum skólum. Þar á fólk að geta fræðst um undirstöðuatriði í garðrækt, ylrækt, trjárækt og skipulagningu garða og gróðursvæða, og margt annað kæmi til álita, ef mannafli og fræðslu væri til.
Hér er garðyrkjuskóli og útskrifar ágætlega menntað fólk, en þetta ágæta fólk fær mér vitanlega enga þjálfun í því að miðla öðrum af þekkingu sinni, kenna fræði sín. Þekking á lífríkinu í kringum okkur er hverjum manni dýrmætt veganesti. Fræðsla í margs konar náttúrufræðum hlýtur að vaxa í framtíðinni. Ræktunarfræðsla er mikið og vanrækt mál. — Það er ekki á okkar færi að fjalla um það sem skyldi. Menningarbylting verður að vera mjög róttæk ef hún á að standa undir nafni. – G.Fr

Rétt er að geta þess að sel það er fjallað er um í greininni er ekki Straumssel, heldur Fornasel ofan við Brunntorfur (sjá m.a. mynd af vatnsstæðinu við Fornasel, sem sagt er að sé við Straumssel). Fornasel er ofan við Gjásel (þessum seljum er stundum ruglað saman í skrifum), en það hefur einnig verið nefnt „Brunnsel“, sbr. „Brunntorfur“. Straumssel er mun vestar, í svonefnum Almenningum. – aths. ÓSÁ.

Heimild:
-Þjóðviljinn – 191.-192. tölublað (23.08.1980); Viðtal við Björn Þorsteinsson um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap á Reykjanesi, bls. 12-13.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

Auðnasel

Gengið var upp frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, svona til að skoða nánar niðurlendið með hliðsjón af mögulegri götu frá bænum upp að Auðnaseli í Strandarheiði. Farið var að halla af degi.

Í Fornaselskvöldvetrarsólinni

Til að gera tveggja klukkustunda sögu stutta er skilmerkilegast að geta þess að þegar, ofan bæjar, var komið inn á götuna. Hún er greinileg í móanum þar sem hún liðast upp upplandið. Gatan var rakin í rólegheitum upp með Auðnaborg og síðan áfram með aflíðandi ílöngum hraunhólum efra. Vörður voru við götuna á a.m.k. þremur stöðum á leiðinni, svipaðar þeim og sjá má á götunni ofan Auðnasels áleiðis upp að Keili. Þegar komið var upp fyrir Reykjanesbrautina tók gatan stefnu á Fornasel, beygði af vestan þess og stefndi á vörðu nokkru ofar. Frá henni sást heim að Auðnaseli (Breiðagerðisseli). Hér var látið staðar numið að þessu sinni og vent af.

Auðnasel

Auðnasel.

Upp að Auðnaseli, frá þeim stað er frá var horfið, er um 15 mínútna ganga. Í eldri FERLIRslýsingu af heimsókn í Fornael og síðan Auðnasel segir m.a.: „Aðaltóttin er vestan í hólnum. Sunnan við hana er stekkur. Aftan við hólinn er lítil tótt og hjá henni vatnsstæði, sem hlaðið hefur verið í kringum. Skammt sunnan þess er önnur tótt, sennilega frá eldra seli. Þótt Fornasel geti varla talist til stærri selja hefur það allt er prýtt getur fallegt sel.
BreiðagerðisselsstígurAuðnasel sést vel frá línuveginum í suðsuðaustri. Þangað er um 15 mín. rölt. Selstígurinn sést einungis glögglega á stuttum kafla, en þarna hefur orðið talsverð jarðvegseyðing á síðustu áratugum. Vestan við selið er varða. Sunnan undir henni er bæði lítil tótt og önnur stærri. Utan í hæðinni austan við þær er stærsta tóttin. Norðan við hana, í lægð, er greinilegur brunnur. Hlaðinn stekkur er skammt norðar og annar uppi á hæðinni austan við selið. Norðan hennar er kví undir bakka. Í kvínni er fallegur mjaltastúlkusteinn. Í austri ber háa vörðu við himinn, líklega landamerkjavarða því hún virðist ekki í samhengi við aðrar vörðuraðir á svæðinu, hvorki upp frá selinu né af þeirri götu áleiðis niður í Flekkuvíkurselið (Þórustaðastíginn). Í norðaustri sjást hluti tótta Fornuselja í Sýrholti utan í því. Skammt norðan þeirra er önnur tótt í sléttum grasbala ofan slakka og skammt þar norðan við er hlaðinn stekkur í sprungu.“
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Þorbjarnastaðarborg

Gengið var til vesturs frá hliði við Krýsuvíkurveg að skógræktarsvæði SR skammt sunnan við rallykrossbrautina.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Eftir u.þ.b. 10 mín. göngu eftir ruddri braut var beygt til suðurs inn á rudda braut áleiðis að Brunntorfum. Hægra megin við enda hennar, á mosahraunkantinum, er Þorbjarnarstaðafjárborgin, hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Greinilegt er að borgin hefur átt að verða topphlaðinn líkt og Djúpudalaborgin ofan við Selvog. Hætt hefur verið við hleðsluna í miðja kafi því með henni að utanverðu liggja steinar sem og í hrúgum allt í kring.
Varða er á holtinu sunnan borgarinnar. Frá henni eru vörður í suðaustur og einnig til suðvesturs, að Fornaseli.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Þegar þeim er fylgt í u.þ.b. 15 mín. er komið að uppréttum steini í vörðu, sem stendur hátt á kletti. Norðvestan hans er Fornasel. Þarna eru nokkrar tóttir, sumar frá því um 1500.
Aðaltóttin er hæst á hæð og við það gott vatnsstæði. Þá eru tóttir bæði norðan og vestan við aðaltóttina. Stekkur er í lægð sunnan við hana. Einnig er að sjá að nálæg jarðföll hafi verið notuð í tenglsum við seljabúskapinn.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Í norðvestur frá Fornaseli, í ca. 15 mín., er Gjásel. Það er einnig á hól skammt utan við skógræktargirðinguna. Breið varða er á hól norðaustan selsins. Það er nokkuð stór tvískipt tótt og er vatnssvæðið þétt norðvestan við hana. Það þornar í þurrkum. Norðan selsins, undir hraunhól, er hlaðinn stekkur undan skúta. Ef gengið er frá vörðunni norðaustan selsins sjást vörður í norðaustri. Næsta er á sprungubarmi og önnur á hól. Frá henni sést vel yfir að veginum í gegnum skógræktarsvæðið og því auðvelt að fylgja honum til baka að upphafsreit. Hraunið þarna er mjög gróið og því mikilvægt að fylgja hæðum og gæta þess að fara ofan við skógræktina sjálfa þegar þegar gengið er á milli seljanna.
Frábært veður.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnastaðir

Gengið var um Brunntorfur að Þorbjarnastaðafjárborginni í Kapelluhrauni, upp í Fornasel og Gjásel í Almenningum, yfir í Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel, niður í Óttarstaðafjárborgina, um Alfaraleið að Gvendarbrunni og áfram niður að Þorbjarnastöðum.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Getgátum hefur verið leitt að nafninu Brunntorfur. Á sumum kortum er það skráð Brundtorfur, þ.e. tengist brundtíð. Brunntorfur hefur skírskotun til brunns eða vatns á svæðinu, sem reyndar er ekkert á þessu svæði. Þriðja skýringin er að þar hafi átt að standa Bruntorfur, sbr. Brunatorfur eða Brunahraun. Hins vegar er í Brunntorfum rúmgott fjárskjól, sem ekki ólíklega hefur verið fyrir sauði.

Þorbjarnastaðaborgin stendur á jarðri Kapelluhrauns. Hún er fallega og vandlega hlaðin úr hraungrýti af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900.

Víða í hrauninu má sjá mannvirki er tengst hafa fjárbúskapnum fyrrum, en þessi fjárborg er mest þeirra.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Fornasel er á grónum hraunhól suðvestan við Þorbjarnarstaðaborgina. Ofan við selið er há varða á hraunhól. Stórt og gott vatnsstæði er við seltóftirnar. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í tóftirnar fyrir stuttu síðan. Taldi hann þær vera frá því á 14. eða 15. öld.
Gjásel er einnig á grónum hraunhól, norðvestan við Fornasel. Lægð er við tóftirnar, sem að öllum líkindum hefur verið vatnsbólið. Norðan undir hæðinni er hlaðinn stekkur í skjóli.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Stefnan var tekin til vesturs, yfir að Straumsseli. Varða á hól vísar leiðina að selinu. Þegar komið var yfir hólinn blöstu tóftir og garðar við. Straumselið var nokkuð stór því þar byggðist upp bær, sem búið var í um tíma. Seltóftirnar sjálfar er suðaustan við bæjartóftirnar. Þar við er stekkur. Vatnsbólið er norðan við megintóftirnar, við vörslugarðinn. Í kringum Straumssel eru allnokkur mannvirki, tengd búskapnum, s.s. Neðri-Straumsselshellar og Efri-Straumsselshellar. Straumsselið hefur GPS-staðsetningapunkt, sem auðvelt er að leggja á minnið, eða 6401000-2201000.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Gengið var yfir í Óttarstaðasel og síðan Lónakotssel. Stígur er á milli seljanna og er u.þ.b. 20 mínútna gangur á milli hvers þeirra. Mannvirki eru allnokkur, s.s. fjárskjól, stekkir, nátthagar og vatnsstæði.
Haldið var norður Lónakotsselsstíg, gengið yfir að Óttarstaðafjárborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.
Alfarleiðin var gengin til austurs, framhjá Gvendarbrunni að Þorbjarnastöðum.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Bekkjaskúti

Gengið var um Gerðisstíg, að Neðri-hellum, Vorréttinni og Efri-hellum og síðan yfir Seljahraun að klettasvæði sunnan línuvegarins. Hraunið á því svæði, þegar halla tekur til suðurs, er þarna mjög stórbrotið.

Rauðamelsrétt

Í Rauðamelsrétt.

Þá var vent til vesturs inn á Óttarsstaðaselsstíg (Rauðamelsstíg) (Skógargötu) og stefnan tekin til suðurs. Suðvestan af götunni, áleiðis upp í Óttarsstaðasel, í litlu jarðfalli, er Sveinshellir. Hleðslur eru við innganginn, en fyrir honum eru þéttar birkihríslur, sem fylla jarðfallið og loka hellinum svo til alveg. Óttastaðaselsstígurinn var genginn spölkorn til baka en síðan var beygt út af honum til norðausturs og haldið skáhallt yfir hraunið að línuveginum og yfir hraunkantinn norðan hans þar sem það er þrengst (örfáir metrar). Þaðan var greiður gangur niður að Alfaraleið. Við Þorbjarnastaði var litið á Kápuhelli og Gránuskúta, en fyrir honum eru svolitlar hleðslur.

Rauðamelsrétt

Rauðamelsrétt.

Við Neðri-hella er hlaðið gerði í hraunkantinum (Kapelluhraun). Hleðsla er innan við hraunkantinn og hlaðið er fyrir breiða sprungu, gróna í botninn sunnan við hellana. Fyrir meginhellinum er hleðsla.

Efri-Hellar

Efri-Hellar.

Þessir hellar hafa verið notaðir sem fjárskjól. Sama á við um Efri-hella, sem eru þarna skammt ofar, einnig á grónu svæði næri því utan í hraunkantinum. Falleg hleðsla er fyrir munnanum og einnig í jarðfalli skammt austar. Ofan við hellana gnæfir andlitslaga hraunklettur. Sagan segir að við Efri-hella geti verið mikill draugagangur á köflum, líkt og í Hrauntungum, sem eru þarna skammt ofar. Í þeim er einnig hlaðið fyrir fjárskjól, auk fleiri minja.

Vorréttin er undir Kaplahrauni, fallega hlaðinn. Frá henni er greiður gangur út af Gerðisstígnum upp að Kolbeinshæðaskjóli, enn einu fjárskjólinu á svæðinu.
Að þessu sinni var strikið hins vegar tekið yfir Selhraunið, þvert á Straumsselsstíginn og yfir á Óttarstaðaselstíg (Rauðamelsstíg/Skógargötu) og að Bekkjaskúta. Hann er þar uppi í stóru jarðfalli, einnig fallega hlaðið fyrir.

Sveinsskúti

Sveinsskúti.

Austar er Sveinsskúti, en á milli skútanna er hlaðið lítið byrgi, skjól fyrir einn mann. Annars er hraunið þarna einstaklega fallegt, einkum að haustlagi. Ofar er Óttarstaðaselið með Norðurskúta, Tóhólaskúta, Rauðhólsskúta, Nátthaga, stekk, vatnsstæði og öðrum mannvirkjum er prýtt getur eitt sel. Þá er hægt að fylgja Skógargötunni áfram upp í Skógarnef og áfram upp Mosana áleiðis að Trölladyngjusvæðinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gengið var í rólegheitum í gegnum hraunið niður að Þorbjarnarstöðum og kíkt á nafngreinda skúta þar. Þorbjarnastöðum tilheyra mörg mannvirki í Hraununum, s.s. Þorbjarnastaðaborgin, líklega Fornasel í Almenningum og jafnvel Gjáselið, fjárhellir ofan við Brunntorfur, heimaréttin og Þorbjarnastaðréttinn suðaustan við bæinn, svo eitthvað sé nefnt. Allt er þetta innan seilingar fyrir þá, sem vilja og nenna að hreyfa sig svollítið í sagnaríku og fallegu umhverfi.
Veður var bjart, stillt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Vorrétt

Vorréttin.

Auðnasel

Gengið var frá Skrokkum við Reykjanesbraut að Fornaseli. Selið er í vel grónum hól og sést hann vel frá brautinni. U.þ.b. 10 mínútna gangur er að því.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ýmist er sagt að selið hafi verið frá Þórustöðum eða Landakoti og þá heitið Litlasel. Í selinu er ein megintótt með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tótt með tveimur vistarverum.
Gengið var áfram inn á heiðina að Auðnaseli. Selstæðið sást vel framundan, ofan við Klifgjána. Í því eru fjórar tóttir, tveir hlaðnir stekkir, auk kvíar. Varða er á holti vestan við tóttirnar. Handgert vatnsstæði er norðvestan við miðtóttirnar. Það var þurrt að þessu sinni líkt og önnur
vatnsstæði í heiðinni. Annar stekkurinn er uppi á holtinu ofan við selin.
Gengið var til suðsuðvesturs að Knarrarnesseli. Á leiðinni var gengið um Breiðagerðisslakka og tækifærið notað og kíkt á flak þýsku Junkervélarinnar, sem þar var skotin niður í aprílmánuði 1943.

Knarrarnessel

Í Knarrarnesseli.

U.þ.b. 20 mínútna gangur er á milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru þrjár megintóttir, auk einnar stakrar, og þrír hlaðnir stekkir. Vatnsstæðið er í hól norðvestan við selið, fast við selsstíginn. Það var líka þurrt að þessu sinni, greinilega nýþornað. Í Knarrarnesseli er í heimildum getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel.
Gengið var niður selsstíginn að Klifgjánni, yfir og niður hana við vörðu á brún hennar og áfram niður að Skrokkum.
Frábært veður.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Fornasel
Gengið var í gegnum trjáræktarsvæði Skógrækar ríksins sunnan við Hrauntungur með beina stefnu að Laufhöfðavörðu ofan við Laufhöfða, norðvestan Gjásels. Vörður greina Hrauntungustíginn þarna í gegnum norðaustanverðan Almenning, sem nú hefur náð að ala af sér birkikjarr að nýju.
Þá var gengið upp í Gjásel og síðan að

Laufhöfðavarða

FERLIR við Laufhöfðavörðu.

Steininum sunnan Hafurbjarnarholts, Klofaklettsvörðu, Fjallgrensvörðu, síðan niður í Fornasel og að Þorbjarnarstaðaborginni utan í Háabruna norðvestan við Brunntorfur.
Laufhöfðavarða stendur á klettasnös og vísar leiðina milli Þorbjarnastaða og Gjásels, Fornasels og Fjárborgarinnar (Þorbjarnarstaðaborgar). Vestan vörðunnar eru þrjár smávörður, sem vísa á Illuholu, jarðfall sem gat reynst hættulegt mönnum og búfénaði, sérstaklega að vetrarlagi.
Stígur liggur upp með Laufhöfða frá Alfaraleið sunnan Þorbjarnastaða, svonefndur Straumsselsstígur. Á kafla markar stígurinn djúp för í harða hraunhelluna, sem ber vitni um mikla umferð í langan tíma. „Af honum“ neðan Laufhöfða liggur síðan stígur upp í gegnum Gjásel og áfram upp í Fornasel. Þar heldur stígurinn áfram upp í Brunntorfur. Samkvæmt Jarðabókinni 1703 áttu Þorbjarnarstaðabændur selstöðu í Gjáseli; „Selstöðu á jörðin þar sem kallað er Gjásel, en þar eru hagar góðir, en vatn slæmt“, en óljósara er með Staðarhaldara í Fornaseli. Stígurinn liggur hins vegar, varðaður, svo til beint upp í fjárskjól Þorbjarnarstaðabóndans í Brunntorfum. Í Jarðabókinni 1703 segir að Lambhagabændur hafi „brúkað selstöðu ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel…“. Hið vandkvæða er, og mun síðar verða útskýrt, hvers vegna er einungis ein selstaða í Gjáseli, en tvær í Fornaseli, þar skammt ofar. Gætu nöfnin hafa víxlast?

Steinninn

Steinninn.

Annar stígur, og mun greiðfærari, frá Straumi liggur upp í Straumssel, um gróið hraun vestan Draughólahrauns. Hann er enn vel greinilegur. Draughóll er kjarri vaxin hæð í miðju kargahrauni norðvestan Straumselshöfða. Villuráfandi sauðir áttu það til að gera fjármönnum lífið leitt er þeir sóttu í kjarrlendið í Draughólahrauni. Smalar reyndu þá að lokka sauðina úr hrauninu frekar en elta þá uppi, enda hraunið sjálft erfitt yfirferðar.
Gjásel er dæmigert sel á Reykjanesskaganum, þrískipt seltóft, stekkur (norðvestan við hraunholtið, sem selið er á) og vatnsstæði (vestan tóftanna). Víðsýnt er frá Gjáseli yfir Hrauntungur og Nýjahraun (Kapelluhraun).
Eftir að hafa skoðað Gjásel var stefnan tekin á Steininn um Hrauntungustíg.
Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum. Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestur fyrir Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnt er á Hrúthólma og farið um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt í Ketilstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur (Seltúns). Hrauntungustígur sést enn við Krýsuvíkurveginn, einkum milli hans og malarnámu, sem þar er. Malarnámið hefur síðan tekið stíginn í sundur, en hann sést síðan aftur sunnan þess. Þar má rekja sig eftir stígnum í gegnum Hrauntungurnar, framhjá Hrauntunguskjóli og áfram upp með Gjáseli.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Þegar skoðað er „vörðukort“ af þessu svæði Almennings má sjá að hinar gömlu leiðir hafa eitthvað „misfarist“ á kortum, a.m.k. Hrauntungustígurinn sem og Stórhöfðastígurinn. Þessar leiðir voru jafnan varðaðar. Skv. kortinu, ef vörðunum væri fylgt, ætti Hrauntungustígurinn að liggja í gegnum Fornasel og Stórhöfðastígurinn nokkuð vestar en hann er nú merktur inn á kort.
Steinninn er margsprunginn hraunhæð, sem er á landamerkjum Þorbjarnastaða og Straums. Umhverfis hæðina var gott beitiland, en mosi og lynggróður hafa náð að breyta ásýnd landsins frá því sem áður var. Fuglaþúfa á Steininum vekur athygli þegar horft er á hann frá réttu sjónarhorni. Í raun er Steinninn í austanverðri sprungu hæðarinnar og sést ekki fyrr en komið er að honum. Helsta leiðarmerkið eru tvær vörður á hæðinni. Sú vestari er steinn, sem stendur upp á endann, en skammt frá sprungunni er mjó varða með þremur eða fjórum steinum. Hún sést ágætlega úr fjarlægð, en á flestum hólum á þessu svæði eru litlar vörður er gætu villt fyrir fólki.
Steinninn, eða hraunhóllinn sem hann er í, er nokkurn veginn í suður af landamerkjastöplinum á Hafurbjarnarholti. Stöpullinn sést vel af hólnum. Frá honum sést einnig vel til Klofningskletts í vestri.
Þegar sólin dansar við skýin gleðjast mennirnir. Geislar hennar leika þá við valin svæði. Það sjónarspil er einka fallegt í Almenningi þar sem hver hraunhóllinn, ýmist mosavaxinn eða kjarrivaxinn, skipta litum á víxl eftir gróðrinum. Það gefur regnbogadansi sólarinnar lítið eftir.
Fornaselsvarða

Fornaselsvarða.

Klofaklettsvarða er toppmjó landamerkjavarða á klofnum hraunkletti efst í hraunbrekkum, sem nefnast Bringur (nokkru vestar). Varðan sést ágætlega frá Steininum. Einnig Gamla Þúfa þar skammt norðnorðvestar. Frá Steininum ber vel á klettinum og varðan er auðþekkjanleg á löguninni. Svæðið ofan Klofakletts er kallað Mosar – líkt og svo mörg önnur í eða við Almenning. „Greinilegustu“ Mosarnir eru þó vestan við Skógarnefið þar sem Mosastígur liggur upp með norðanverðu Lambafelli. Í því fallegur klofningshóll þar sem þunnfljótandi hraunið hefur náð að smyrja „klofið“ mælt upp yfir handarkrika hærri manna.
Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þremur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna er þar skammt frá. Á norðurbrúninni verða umskipti; annars vegar er að baki hið daglega amstur, fagurt útsýni er yfir hraunsvæðin norðan Almennings og hin sjálfsagða nálægð við mennina, og hins vegar er framundan hið sérstaka, áskorunin og vonin um sigur á sljóttugri veiðibráð – tófunni. Brúnin hefði þess vegna mátt heiða „Umskiptabrún“.

Fjallsgrensvarða

Fjallsgrensvarða.

Þegar gengið var til baka áleiðis niður að Fornaseli mátti víða sjá fugla fljúga af hreiðrum eða með mat í goggi. Ungar voru greinilega að komast þarna til fugls.
Fornaselsvarða er tignarlega hlaðin og stendur austan við selið. Sá, sem sett hefur stærsta steininn í hana, hefurverið rammir að afli. Nema það hafi verið kona. Varðan vísar á selið (skammt norðvestar) og, að sögn, Hrauntungustíg, forna þjóðleið sem liggur um selshlaðið.
Fornleifarannsókn, sem gerð var 2000-2001 leiddi í ljós að selstaða mun hafa verið í Fornaseli frá u.þ.b. 1550 fram á miðja 19. öld. Grafið var í eldhústóftina sunnan seltóftanna tveggja, sem þarna eru. Þær eru báðar tvískiptar svo þarna hafa verið tvær selstöður, búr og baðstofa í hvoru um sig.
Gott vatnsstæði er við Fornasel. Líklegt má því telja að það hafi jafnan verið nýtt. Landið tilheyrir Þorbjarnarstöðum svo spurningin er hvort nöfn Gjásels og Fornasels hafi víxlast á einhverju tímabili. Það sem einkum styður þessar vangaveltur er það að í Fornaseli eru tvær selstöður, en einungis ein í Gjáseli. Samt áttu bæði Þorbjarnarstaðir og Lambhagi að hafa haft þar selstöðu. Hins vegar er einungis að sjá þar eitt eldhús, sem styrkir líkur á framkominni lýsingu á samnýtingu. Mögulegt er að Lambhagi, eða annar bær í Hraunum, hafi síðar nýtt sér selstöðuna, sem nú er nefnd Gjásel.

Gjáselsvarða

Sagt hefur verið að milli Gjásels og Fornasels liggi stígur um háhrygg Almennings, yfir Brunnhólagjá á jarðbrú, sem tvær smávörður vísa á. Þegar komið er yfir gjána er stefnan tekin á Fjallið eina og þar tekur Hrauntungustígur við. Austan Brunnhólagjár var gjöfult beitiland, svonefndir Brunnhólar, en líka kallaðir Sauðahólar. Trúlega er hér um eina leið af mörgum að ræða um þetta hraunssvæði. Þegar komið er ofan frá Hrúthólma og ætlunin er að feta mögulega leið niður um austanverðan Almenning verða ávallt nokkrir möguleikar úr um að velja. Þegar „vörðukort“ er skoðað að svæðinu gefur það tilefni til að ætla að leiðirnar hafi verið fleiri en ein og fleiri en tvær. Og ekki er endilega víst að hver um sig hafi heitið eitthvað umfram annað. Fólk, sem þurfti að fara þarna um tók bara mið af greinilegum kennileitum og hélt sinni stefnu um þetta annars greiðfæra hraunsvæði. Víðast hvar eru góð skjól til áninga og jafnvel má finna þar vatn til að brynna skeppnum. Ágætt dæmi er um slíkt í „afbrigðilegum útidúr“ frá Hrauntungustíg. Ef vikið er spölkorn af honum til austurs nokkuð sunnan Sauðabrekkuskjóla má finna þar hið ágætasta vatnsstæði. Að því liggur stígur og síðan áfram inn á hinn fyrrnefna aftur skammt sunnar. Kunnugir hafa að öllum líkindum getað fetað aðrar leiðir en þeir sem minna þekktu til.
 Ofar er Stórhöfðastígur. Hann liggur einnig frá Ástjörn um Hádegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleiksteinsháls að Hamranesflugvelli og út á Selhraun. Gengið er suður með vestanverðum Stórhöfða þar til komið að suðurhorni hans. Þar sést stígurinn liðast inn á hraunið til suðurs, hlykkjast á hraunhrygg að Bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brunntorfum og Þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum eða vestanverðum (báðar leiðir farnar) fjallsrótum þess fylgt að Hrútargjárdyngju. Þegar farið er að austanverðu kemur að því að mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðavegur, sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilsstíg. Þegar farið er að vestanverðu er gengið með norðanverðum Dyngjubökkum um Hrúthólma, framhjá Hrútafelli og inn á Ketilsstíg. Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur sameinast Rauðamelsstíg, sem liggur upp frá Óttarsstaðaseli, við Hrúthólma.
Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Á leiðinni til baka niður að Þorbjarnarstaðaborg sýndu rjúpur þátttakendum sérkennilegt háttarlag. Í stað þess að fljúga frá viðkomandi flugu þær að þeim. Það gat einungis gefið eitt til kynna – jarðfætlingarnir voru of nálægt hreiðinu. Ekki var staðnæmst til að skoða hreiðrið, enda keppikeflið að raska sem minnst ró heimabúandi á svæðinu.
Þorbjarnarstaðaborgin var hlaðin af nokkrum barnanna ellefu á Þorbjarnarstöðum um aldamótin 1900. Hleðslulagi hennar og væntanlegu byggingarlagi hefur verið lýst í öðrum FERLIRslýsingum. Hið áhugaverða að þessu sinni var vörðuð leið er frá henni að skúta ofan við Brunntorfur. Vörður liggja þétt yfir hálsinn að hlöðnu fjárskjóli í Brunntorfum, þar sem nú er skógræktarsvæði. Það er há og löng hleðsla fyrir innskot undir háum hraunbakka með op til norðurs. Allt hefur þetta, vörður og aðrar mannvistarleifar, jú ákveðinn tilgang, sem óþarfi er að horfa framhjá.
Gangan tók 4 klst og 4 mín. Frábært veður – mikið fuglalíf er nú í Almenningi.

Heimildir m.a.:
-Ratleikur Hafnarfjarðar 2006.
-Gísli Sigurðsson.
-Ásbjörn (kort).

Steinninn

Steinninn.

Hrafnabjörg

Ætlunin var að ganga í svonefnt Fornasel norðan Arnarfells, en þar ku hafa verið forn selstaða frá Þingvallabænum.
Fornasel-22Þá átti að halda upp með ofanverðri Hrafnagjá að Rauðhól, en grunur er um að þar sunnan hólsins kynnu að leynast mannvistarleifar. Loks átti að ganga inn með vestanverðum Hrafnabjörgum að svæði sem ekki ólíklega kynni að geyma leifar Hrafnabjarga-bæjarins hins forna.
Fornasels er getið á landakorti og er það staðsett norðan undir Arnarfelli norðaustan Þingvallavatns. Þegar gengið var áleiðis að selinu var komið inn á gamla götu er lá áleiðis að Arnarfelli. Gatan var augljós þar sem sem hún kom undan kjarrinu. Selstígurinn lá af henni niður undir gróinn bakka og að seltóftunum ofan vatnsbakkans. Beint undir þar sem stígurinn kemur niður er ferhyrnd hleðsla, gróin. Í Fornaseli eru augljóslega bæði eldri og nýrri seltóftir. Þær eldri eru sunnan þeirra nýrri. Í þeim sést móta fyrir a.m.k. tveimur rýmum og virðast þau hafa verið óreglulegri en sjá má í nýrri seltóftunum. Í þeim eru fjögur rými; eldhús vestast, baðstofa og búr og hliðarrými austast. Gæti hafa verið fiskgeymsla. Stekkurinn er suðaustan við selið og sést móta fyrir honum.
Fornasel-26Þegar nýrra selið er skoðað má telja líklegt að það hafi verið byggt af sama aðila og Sigurðarsel þarna norður af, en stærð þess og gerð virðist svo til nákvæmlega eins. Þessar tvær selstöður hafa þá líklega verið í notkun samtímis, enda virðast gróningarnar í tóftunum nánast eins í þeim báðum.
Þá var haldið upp með ofanverðri Hrafnagjá, framhjá Svínhólum og norður Hlíðarveg neðan Hlíðargjár. Glögg augu komu fljótlega á stíg upp í og yfir gjána. Honum var fylgt áleiðis að Hrafnabjörgum. Svo heppilega vildi til að gatan leiddi þátttakendur beint að hinum fornu rústum Hrafnabjargabæjarins. Þar mátti enn sjá hleðslur í veggjum og a.m.k. þrjú rými, hluti af garðhleðslu og brunn. Bæjarstæðið er á fallegum stað, snýr mót suðri með útsýni yfir að fjallinu tignarlega.
Hrafnabjorg-24Sigurður Vigfússon skrifaði m.a. eftirfarandi í Árbókina 1880-1881: „Vestr frá Hrafnabjörgum sést votta fyrir gömlum bæjarrústum; þar vottar og fyrir því, að tún hafi þar getað verið, og þar er gjóta eða hola, sem litr út fyrir að hafa verið brunnr. Í Ármannssögu er talað um bæ undir Hrafnabjörgum.“ Brynjúlfur Jónsson getur um rústina í skrifum sínum í Árbókinni 1905: „Sé á hinn bóginn Hrafnabjargarústin hin rétta Grímsstaðarúst, þá virðist orðunin: »ok svá til Grimsstaða« vera ofaukið í frásögninni um ferð Indriða. Og víst er um það, að úr því Indriði fór Jórukleif, þá var beinna fyrir hann að fara ekki um Grímagil, heldur vestar. Og að Grímsstöðum átti hann varla erindi, úr því viðkomandi fólk var alt burt þaðan.

Hrafnabjorg-25

En hugsanlegt er, að söguritarinn hafi ekki athugað þetta, og því talið víst, að Indriði kæmi að Grímsstöðum áður hann fór vestur. En líka getur verið, að Grímastaðir hafi þá verið bygðir og Indriði farið þar um af einhverjum orsökum, og væri þá að eins stafvilla í sögunni: »til Grímsstaða«, i staðinn fyrir: »til Grímastaða«, eða enn heldur: til »Grímarsstaða«, sem að öllum líkindum er upprunanafn þessa býlis. Þannig hneigist eg helzt að þeirri ætlun, að Grímsstaðir, þar sem Grímur lítli bjó, hafi verið undir Hrafnabjörgum.“

Raufholl

Eftir að hafa skoðað rústirnar var kíkt á Prestastíginn, en hann liggur framhjá tóftunum með stefnu til norðurs og suðurs. Presthóll sést ekki frá bæjarstæðinu. Um Prestastíginn skrifaði Brynjúlfur: „Forn vegur liggur yfir ofanvert Þingvallahraun. Hann liggur frá Reyðarmúla (nú Reyðarbarmi til norð-vesturs yfir Hrafnabjargaháls, ofan af honum skamt vestur frá Hrafnabjörgum, norður hjá bæjarrústinni, sem þar er og svo þvert yfir hraunið til Ármannsfells og kemur á þjóðveginn litlu fyrir neðan Hofmannaflöt. Þessi vegur heitir Prestastígur. Er sagt að prestar af Vesturlandi hafl oft farið hann í Skálholtsferðum sínum. Og svo er að sjá, sem Sturla Sighvatsson hafi farið hann, er hann fór Apavatnsför. Það er miklu beinna en að fara um Þingvelli. En mjög er þessi leið ógreið víðasthvar, svo mjó að eigi getur farið nema 1 hestur í senn og að því skapi er hún grýtt. En hvar sem hún liggur um greiðfæra bletti, verður hún að mörgum og djúpum götum. Þar af sést, að allmikil umferð hefir verið þar fyrrum. Nú er Prestastígur ekki notaður.“
Í bakaleiðinni var gengið um Gildruholt með viðkomu í Rauðhól. Líklegt má telja að hljóðvilla hafi breytt nafninu á einhverju stigi því líklegra er að hann hafi heitið Raufhóll. Í hólnum er varðað skjól. Engin ummerki eftir mannvistarleifar var hins vegar að sjá sunnan undir hólnum, nema ef vera skyldi Gjábakkafjárskjólið.
Tækifærið var notað til að hnitsetja Hrafnabjargagötuna.
Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8 mín.

Heimildir m.a.:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, 1880-1881, bls. 43.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1905, Brynjúlfur Jónsson, bls. 47.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – uppdráttur.