Tag Archive for: Fornaselsvarða

Fornasel
Gengið var í gegnum trjáræktarsvæði Skógrækar ríksins sunnan við Hrauntungur með beina stefnu að Laufhöfðavörðu ofan við Laufhöfða, norðvestan Gjásels. Vörður greina Hrauntungustíginn þarna í gegnum norðaustanverðan Almenning, sem nú hefur náð að ala af sér birkikjarr að nýju.
Þá var gengið upp í Gjásel og síðan að

Laufhöfðavarða

FERLIR við Laufhöfðavörðu.

Steininum sunnan Hafurbjarnarholts, Klofaklettsvörðu, Fjallgrensvörðu, síðan niður í Fornasel og að Þorbjarnarstaðaborginni utan í Háabruna norðvestan við Brunntorfur.
Laufhöfðavarða stendur á klettasnös og vísar leiðina milli Þorbjarnastaða og Gjásels, Fornasels og Fjárborgarinnar (Þorbjarnarstaðaborgar). Vestan vörðunnar eru þrjár smávörður, sem vísa á Illuholu, jarðfall sem gat reynst hættulegt mönnum og búfénaði, sérstaklega að vetrarlagi.
Stígur liggur upp með Laufhöfða frá Alfaraleið sunnan Þorbjarnastaða, svonefndur Straumsselsstígur. Á kafla markar stígurinn djúp för í harða hraunhelluna, sem ber vitni um mikla umferð í langan tíma. „Af honum“ neðan Laufhöfða liggur síðan stígur upp í gegnum Gjásel og áfram upp í Fornasel. Þar heldur stígurinn áfram upp í Brunntorfur. Samkvæmt Jarðabókinni 1703 áttu Þorbjarnarstaðabændur selstöðu í Gjáseli; „Selstöðu á jörðin þar sem kallað er Gjásel, en þar eru hagar góðir, en vatn slæmt“, en óljósara er með Staðarhaldara í Fornaseli. Stígurinn liggur hins vegar, varðaður, svo til beint upp í fjárskjól Þorbjarnarstaðabóndans í Brunntorfum. Í Jarðabókinni 1703 segir að Lambhagabændur hafi „brúkað selstöðu ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel…“. Hið vandkvæða er, og mun síðar verða útskýrt, hvers vegna er einungis ein selstaða í Gjáseli, en tvær í Fornaseli, þar skammt ofar. Gætu nöfnin hafa víxlast?

Steinninn

Steinninn.

Annar stígur, og mun greiðfærari, frá Straumi liggur upp í Straumssel, um gróið hraun vestan Draughólahrauns. Hann er enn vel greinilegur. Draughóll er kjarri vaxin hæð í miðju kargahrauni norðvestan Straumselshöfða. Villuráfandi sauðir áttu það til að gera fjármönnum lífið leitt er þeir sóttu í kjarrlendið í Draughólahrauni. Smalar reyndu þá að lokka sauðina úr hrauninu frekar en elta þá uppi, enda hraunið sjálft erfitt yfirferðar.
Gjásel er dæmigert sel á Reykjanesskaganum, þrískipt seltóft, stekkur (norðvestan við hraunholtið, sem selið er á) og vatnsstæði (vestan tóftanna). Víðsýnt er frá Gjáseli yfir Hrauntungur og Nýjahraun (Kapelluhraun).
Eftir að hafa skoðað Gjásel var stefnan tekin á Steininn um Hrauntungustíg.
Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum. Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestur fyrir Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnt er á Hrúthólma og farið um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt í Ketilstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur (Seltúns). Hrauntungustígur sést enn við Krýsuvíkurveginn, einkum milli hans og malarnámu, sem þar er. Malarnámið hefur síðan tekið stíginn í sundur, en hann sést síðan aftur sunnan þess. Þar má rekja sig eftir stígnum í gegnum Hrauntungurnar, framhjá Hrauntunguskjóli og áfram upp með Gjáseli.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Þegar skoðað er „vörðukort“ af þessu svæði Almennings má sjá að hinar gömlu leiðir hafa eitthvað „misfarist“ á kortum, a.m.k. Hrauntungustígurinn sem og Stórhöfðastígurinn. Þessar leiðir voru jafnan varðaðar. Skv. kortinu, ef vörðunum væri fylgt, ætti Hrauntungustígurinn að liggja í gegnum Fornasel og Stórhöfðastígurinn nokkuð vestar en hann er nú merktur inn á kort.
Steinninn er margsprunginn hraunhæð, sem er á landamerkjum Þorbjarnastaða og Straums. Umhverfis hæðina var gott beitiland, en mosi og lynggróður hafa náð að breyta ásýnd landsins frá því sem áður var. Fuglaþúfa á Steininum vekur athygli þegar horft er á hann frá réttu sjónarhorni. Í raun er Steinninn í austanverðri sprungu hæðarinnar og sést ekki fyrr en komið er að honum. Helsta leiðarmerkið eru tvær vörður á hæðinni. Sú vestari er steinn, sem stendur upp á endann, en skammt frá sprungunni er mjó varða með þremur eða fjórum steinum. Hún sést ágætlega úr fjarlægð, en á flestum hólum á þessu svæði eru litlar vörður er gætu villt fyrir fólki.
Steinninn, eða hraunhóllinn sem hann er í, er nokkurn veginn í suður af landamerkjastöplinum á Hafurbjarnarholti. Stöpullinn sést vel af hólnum. Frá honum sést einnig vel til Klofningskletts í vestri.
Þegar sólin dansar við skýin gleðjast mennirnir. Geislar hennar leika þá við valin svæði. Það sjónarspil er einka fallegt í Almenningi þar sem hver hraunhóllinn, ýmist mosavaxinn eða kjarrivaxinn, skipta litum á víxl eftir gróðrinum. Það gefur regnbogadansi sólarinnar lítið eftir.
Fornaselsvarða

Fornaselsvarða.

Klofaklettsvarða er toppmjó landamerkjavarða á klofnum hraunkletti efst í hraunbrekkum, sem nefnast Bringur (nokkru vestar). Varðan sést ágætlega frá Steininum. Einnig Gamla Þúfa þar skammt norðnorðvestar. Frá Steininum ber vel á klettinum og varðan er auðþekkjanleg á löguninni. Svæðið ofan Klofakletts er kallað Mosar – líkt og svo mörg önnur í eða við Almenning. „Greinilegustu“ Mosarnir eru þó vestan við Skógarnefið þar sem Mosastígur liggur upp með norðanverðu Lambafelli. Í því fallegur klofningshóll þar sem þunnfljótandi hraunið hefur náð að smyrja „klofið“ mælt upp yfir handarkrika hærri manna.
Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þremur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna er þar skammt frá. Á norðurbrúninni verða umskipti; annars vegar er að baki hið daglega amstur, fagurt útsýni er yfir hraunsvæðin norðan Almennings og hin sjálfsagða nálægð við mennina, og hins vegar er framundan hið sérstaka, áskorunin og vonin um sigur á sljóttugri veiðibráð – tófunni. Brúnin hefði þess vegna mátt heiða „Umskiptabrún“.

Fjallsgrensvarða

Fjallsgrensvarða.

Þegar gengið var til baka áleiðis niður að Fornaseli mátti víða sjá fugla fljúga af hreiðrum eða með mat í goggi. Ungar voru greinilega að komast þarna til fugls.
Fornaselsvarða er tignarlega hlaðin og stendur austan við selið. Sá, sem sett hefur stærsta steininn í hana, hefurverið rammir að afli. Nema það hafi verið kona. Varðan vísar á selið (skammt norðvestar) og, að sögn, Hrauntungustíg, forna þjóðleið sem liggur um selshlaðið.
Fornleifarannsókn, sem gerð var 2000-2001 leiddi í ljós að selstaða mun hafa verið í Fornaseli frá u.þ.b. 1550 fram á miðja 19. öld. Grafið var í eldhústóftina sunnan seltóftanna tveggja, sem þarna eru. Þær eru báðar tvískiptar svo þarna hafa verið tvær selstöður, búr og baðstofa í hvoru um sig.
Gott vatnsstæði er við Fornasel. Líklegt má því telja að það hafi jafnan verið nýtt. Landið tilheyrir Þorbjarnarstöðum svo spurningin er hvort nöfn Gjásels og Fornasels hafi víxlast á einhverju tímabili. Það sem einkum styður þessar vangaveltur er það að í Fornaseli eru tvær selstöður, en einungis ein í Gjáseli. Samt áttu bæði Þorbjarnarstaðir og Lambhagi að hafa haft þar selstöðu. Hins vegar er einungis að sjá þar eitt eldhús, sem styrkir líkur á framkominni lýsingu á samnýtingu. Mögulegt er að Lambhagi, eða annar bær í Hraunum, hafi síðar nýtt sér selstöðuna, sem nú er nefnd Gjásel.

Gjáselsvarða

Sagt hefur verið að milli Gjásels og Fornasels liggi stígur um háhrygg Almennings, yfir Brunnhólagjá á jarðbrú, sem tvær smávörður vísa á. Þegar komið er yfir gjána er stefnan tekin á Fjallið eina og þar tekur Hrauntungustígur við. Austan Brunnhólagjár var gjöfult beitiland, svonefndir Brunnhólar, en líka kallaðir Sauðahólar. Trúlega er hér um eina leið af mörgum að ræða um þetta hraunssvæði. Þegar komið er ofan frá Hrúthólma og ætlunin er að feta mögulega leið niður um austanverðan Almenning verða ávallt nokkrir möguleikar úr um að velja. Þegar „vörðukort“ er skoðað að svæðinu gefur það tilefni til að ætla að leiðirnar hafi verið fleiri en ein og fleiri en tvær. Og ekki er endilega víst að hver um sig hafi heitið eitthvað umfram annað. Fólk, sem þurfti að fara þarna um tók bara mið af greinilegum kennileitum og hélt sinni stefnu um þetta annars greiðfæra hraunsvæði. Víðast hvar eru góð skjól til áninga og jafnvel má finna þar vatn til að brynna skeppnum. Ágætt dæmi er um slíkt í „afbrigðilegum útidúr“ frá Hrauntungustíg. Ef vikið er spölkorn af honum til austurs nokkuð sunnan Sauðabrekkuskjóla má finna þar hið ágætasta vatnsstæði. Að því liggur stígur og síðan áfram inn á hinn fyrrnefna aftur skammt sunnar. Kunnugir hafa að öllum líkindum getað fetað aðrar leiðir en þeir sem minna þekktu til.
 Ofar er Stórhöfðastígur. Hann liggur einnig frá Ástjörn um Hádegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleiksteinsháls að Hamranesflugvelli og út á Selhraun. Gengið er suður með vestanverðum Stórhöfða þar til komið að suðurhorni hans. Þar sést stígurinn liðast inn á hraunið til suðurs, hlykkjast á hraunhrygg að Bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brunntorfum og Þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum eða vestanverðum (báðar leiðir farnar) fjallsrótum þess fylgt að Hrútargjárdyngju. Þegar farið er að austanverðu kemur að því að mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðavegur, sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilsstíg. Þegar farið er að vestanverðu er gengið með norðanverðum Dyngjubökkum um Hrúthólma, framhjá Hrútafelli og inn á Ketilsstíg. Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur sameinast Rauðamelsstíg, sem liggur upp frá Óttarsstaðaseli, við Hrúthólma.
Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Á leiðinni til baka niður að Þorbjarnarstaðaborg sýndu rjúpur þátttakendum sérkennilegt háttarlag. Í stað þess að fljúga frá viðkomandi flugu þær að þeim. Það gat einungis gefið eitt til kynna – jarðfætlingarnir voru of nálægt hreiðinu. Ekki var staðnæmst til að skoða hreiðrið, enda keppikeflið að raska sem minnst ró heimabúandi á svæðinu.
Þorbjarnarstaðaborgin var hlaðin af nokkrum barnanna ellefu á Þorbjarnarstöðum um aldamótin 1900. Hleðslulagi hennar og væntanlegu byggingarlagi hefur verið lýst í öðrum FERLIRslýsingum. Hið áhugaverða að þessu sinni var vörðuð leið er frá henni að skúta ofan við Brunntorfur. Vörður liggja þétt yfir hálsinn að hlöðnu fjárskjóli í Brunntorfum, þar sem nú er skógræktarsvæði. Það er há og löng hleðsla fyrir innskot undir háum hraunbakka með op til norðurs. Allt hefur þetta, vörður og aðrar mannvistarleifar, jú ákveðinn tilgang, sem óþarfi er að horfa framhjá.
Gangan tók 4 klst og 4 mín. Frábært veður – mikið fuglalíf er nú í Almenningi.

Heimildir m.a.:
-Ratleikur Hafnarfjarðar 2006.
-Gísli Sigurðsson.
-Ásbjörn (kort).

Steinninn

Steinninn.