Eftirfarandi úrdráttur úr dagbók eins FERLIRsfélaga á vettvangsnámskeiði fornleifafræðinema í Þingnesi dagana 17. 21. maí 2004 er birtur hér til að gefa áhugasömu fólki svolitla innsýn í “líf” fornleifafræðinnar, en hún er ein þeirra fræðigreina sem krefst mikillar þolinmæði, nákvæmni, ákveðins verklags og skilyrðislausrar þekkingar á viðfangsefninu.
Vettvangsnámskeið í Fornleifafræði á Þingnesi
17.-21. maí 2004.
Inngangur
Vettvangsnámskeiðið á Þingnesi er liður í námi í fornleifafræði við Háskóla Íslands.
Nemendum hafði áður verið bent á fyrirlestur Guðmundar Ólafssonar, fornleifafræðings, um Þingnesið, sem hann hélt síðan í Kórnum, Safnahúsinu í Kópavogi laugardaginn 8. maí s.l. Þar gaf Guðmundur ágætt yfirlit um rannsóknirnar sem og helstu niðurstöður. Komið verður inn á þær í dagbókalýsingu fyrsta dagsins hér á eftir. Þá var nemendum gert að afrita Vettvangshandbók (Arcaelogical Field Manual) af vefnum og lesa hana vel fyrir námskeiðið. Í handbókinni er m.a. fjallað um undirbúning uppgraftar, uppgöftinn sjálfan og skráningaraðferðir, vettvangsskráningu, muni er finnast og sýnatökur. Hún er tekin saman af Gavin Lucas fyrir Fornleifastofnun Íslands.
Við undirbúning var einnig lesin rannsóknarskýrsla Guðmundar Ólafssonar um fornleifarannsókn og vettvangsæfingu fornleifafræðinema í Þingnesi árið 2003. Í henni kynnir Guðmundur m.a. helstu niðurstöður þeirrar rannsóknar.
Í rannsóknarskýrslunni lýsir Guðmundur aðdraganda vettvangsnámskeiðanna og hvernig hið fyrra gekk fyrir sig í megindráttum. Þar kemur fram að rannsóknin sé skráð í Sarp-menningarsögulegan gagnagrunn minjavörslunnar og hefur þar fengið rannsóknarnúmerið 2004-26. Við rannsóknina 2003 voru teiknaðar 19 flatateikningar og 2 sniðteikningar. Teknar voru tvær filmur, samtals 75 myndir og þær skráðar í Sarp. Opnuð voru tvö svæði til rannsóknar. Annað var um 28 ferm. svæði í suðausturhluta rústar nr. 9 á yfirlitskorti og hitt var um 7 m langt þversnið yfir rúst nr. 12 á yfirlitskorti.
Leiðbeinendur á vettvangsnámskeiðinu eru, auk Orra Vésteinssonar, þeir Guðmundur Óskarsson, Howell Roberts og Oscar Aldred.
DAGBÓK.
Dagur eitt – 17.05. – 09:00-16:30.
Orri Vésteinsson, lektor, tók á móti hópnum, kynnti Þingnesið, tóftirnar og söguna og fór yfir verkefni dagsins. Undirritaður naut þess að hafa skömmu áður farið á fyrirlestur Guðmundar Ólafssonar, fornleifafræðings, um sama efni í Listasafni Kópavogs, en þar lýsti hann mjög vel möguleikum Þingnessins sem þingstaðar, breytingum og hugsanlegri nýtingu svæðisins sem og helstu niðurstöðum fornleifarannsókna þar.
Um var að ræða fjóra hópa er hver um sig fengu ólík verkefni frá degi til dags. Undirritaður var svo heppinn að lenda í hópi nr. 2 þar sem fyrir voru fjórar valkyrjur til verka.
Verkefni hópsins þennan dag var uppgröftur í rúst nr. 12. Leiðbeinandi var Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur. Rústin er neðarlega í hallanum niður að vatninu um 6 m austan við rúst nr. 13. Hún er um 12 m löng og um 6 m breið og snýr í A – V. Rústin er allgreinileg á yfirborði og var mæld inn árið 1984 í mælikvarða 1:50 (1984-386-14). Af yfirborði virtist hún vera um 1,5 x 5.3 m að innanmáli. Við rannsókn 2003 var tekið 6.7 m langt og 75 cm breitt þversnið í gegn um rústina frá N – S. Það var í raun útvíkkun í litlum sniðskurði sem byrjað var á sumarið 1986, en var ekki kláraður og ekki teiknaður upp. Þverskurðurinn 2003 var teiknaður upp bæði í fleti og í sniði og kom þá í ljós að rústin er 2.4 m breið að innanmáli. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr torfi og grjóti og eru 1.3 m breiðir.
Neðst í veggjunum við innri og ytri veggjabrún er einföld röð steina. Þar ofan á eru torf og grjót til skiptis og á milli hefur verið fyllt upp með mold. Þrjár raðir steina voru hver upp af annarri, þar sem mest var. Efsti hluti veggjanna hafði hrunið til beggja hliða og lá ýmist innan í rústinni eða fyrir utan hana.
Innan í rústinni mátti greina óljóst mannvistarlag. Það var að sjá sem fjölmargar örþunnar brúnar, ljósbrúnar og dökkbrúnar rákir. Lagið er um 10 cm þykkt. Litabreytingar eru samt mjög litlar og reyndist mjög erfitt að greina lagið frá öðrum jarðlögum.
Í þversniði rústar 12 kemur uppbygging rústarinnar glögglega í ljós. Ytri og innri veggjarbrúnir eru hlaðanar grjóti og torf og moldarfylling þar á milli. Rist hefur verið torf innan úr rústinni og það sennilega lagt á veggina. Þá sést að steinar hafa verið að hrynja úr veggjum hússins á löngum tíma, og að það er löngu orðið að rúst þegar Katla~1500 fellur á svæðið. Í rannsóknarskýrslu Guðmundar Ólafssonar fyrir Þingnes árið 2003 er rannsókninni lýst sem og einstökum lögum í þversniði rústar nr. 12. Þar kemur m.a. fram að jarðlögin gefi til kynna að rústin sé líklega hlaðin og í notkun á 10. öld (900-1100). Hún hafi löngu verið komin úr notkun og hrunin þegar gjóskulagið Katla~1500 fellur. Samkvæmt innbyrðis greiningu mannvistarlaga megi ætla að rúst 12 hafi verið upphaflega hlaðin á fyrri hluta 10. aldar. Óvíst er hversu lengi hún var í notkun, en sennilega er það í mesta lagi um ein öld. Þunn og slitrótt mannvistarlög benda fremur til þess að ekki hafi verið um samfellda heilsárs notkun að ræða, heldur árstíðabundna notkun.
Ekki verði enn hægt að slá neinu föstu um hlutverk minjanna í Þingnesi, en eftir því sem meira hefur verið grafið hallast höfundur æ meir að því að þarna hafi verið þingstaður, fremur en t.d. sel eða útihús.
Þessi rannsókn hefur fengið rannsóknarnúmerið 2004-26 í SARPUR.
Byrjað var á því að taka upp frágang síðasta árs í þverskurði N – S. Einnig var tekið upp úr skurði A – V, hann breikkaður og grafið í hann. Ætlunin var m.a. að kanna hvort dyragat kynni að leynast á suðurveggnum, en yfirborðið bar ekki augljóslega með sér hvar það væri á rústinni. Skafið var með veggjum S – N skurðarins og sýndi Guðmundur og útskýrði jarð- og gjóskulögin, sem í þeim eru. Katla~500 er svart öskulag, nokkuð ofarlega, en landnámslagið ljósleitt og einnig dökkleitra neðst, ofan á óhreyfðum jarðvegi.
Þegar grafið var ofan af suðurveggnum kom Katla~500 í ljós ofarlega milli grjótsins. Eftir að hafa grafið þvert á suðurvegginn, hreinsað ofan af og grafið beggja vegna veggjarins, rúmlega meterlengd sunnan hans, komu í ljós slétthliða steinar neðst og aðrir, eru virtust vera hrun, ofan á. Ekki voru þó steinar á milli þeirra sléttu er sáust neðst, er bent gæti til þess að þar væri dyragat. Landnámslagið var sunnan við vegginn, ofan á óhreyfðu dekkra morldarlagi. Ofan á var ljósleitari fokmold. Síðan kom þunnt lag af ryðleitri mold er gæti hafa verið fyrrum mýrartorf. Ofan á því var fokmold, Katla~500 og síðan fokmold og torf. Dýpt skurðarins var um 60-70 cm og breidd um 70 cm.
Guðmundur leiðbeindi nemendum vel og vandlega hvernig haga ætti uppgreftinum og hvað þyrfti helst að varast, ekki síst er kæmi að hugsanlegum mannvistarlögum. Þá tók hann hæðarpunkt (78 m.y.s.) á línu með norðurbrún S – N skurðarins, snúraði rústina út skv. hniti og mælipunktum og lagði fyrir gerð þversniðs og flatarteikningar. Náðist að ljúka hvorri teikningu fyrir sig áður en vinnudegi lauk. Það verður síðan í höndum næsta hóps að lyfta grjótinu af suðurveggnum og rannsaka hvort dyragatið leynist þar. Einnig er ætlunin, ef tími leyfir, að grafa í suðausturfjórðung rústarinnar.
Áhugaverður og fróðlegur dagur.
Dagur tvö – 18.05. – 09:00-16:30
Í dag fékk hópur 2 tækifæri til að læra á og nota hæðarmælikíki, leggja út hnitakerfi, draga upp minjasvæði og gera “örvateikningu” af því.
Orri Vésteinsson útskýrði hvernig setja ætti upp “TÆKIД, þ.e. hæðarkíkinn, stilla og nota, hvort sem er til hæðarmælinga, fjarlægðarmælinga eða hornamælinga (nota kíkinn sem gráðuboga). Einnig útskýrði hann meginmuninn á hæðarkíki og alstöð (sjá dagur 4). Síðarnefnda tækið er fjölhæfara, en bæði dýrara og vandmeðfarnara. Fram kom hjá Orra að ýmsar aðferðir væru notaðar til að mæla upp rústir, s.s. með alstöð, kíki eða málbandi. Að þessu sinni átti að gefa hópnum tækifæri til að reyna bæði hina fyrstnefndu sem og þá síðastnefndu.
Í framkvæmd var nemum kennt að að nota kíkinn til að lesa hæðarkvarða af mælistiku og færa punkt, í þessu tilviki frá vatnsborði Elliðavatns upp á gróið klapparholt allnokkru sunnar. Hæðarmismunurinn reyndist, skv. mælingunni, vera 18.48 m. Þurfti að mæla af stikunni 12 sinnum til að finna út hæðarmismuninn (3.34-0.13+3.21-0.29+3.91-0.28+3.84-0.13+3.97-0.70+1.56-0.40=18.48). Var það gert með því að leggja kerfisbundið saman og draga frá til skiptis þangað til “flutningum” var lokið.
Kennt var í framkvæmd að nota kíkinn til fjarlægðamælinga með því að draga neðri tölu frá efri tölu tveggja strika mælistikunnar ofan við miðjustrikið á kíkinum þegar horft er í gegnum hann og margfalda með tölunni 100. Þannig var miðjustrikið t.d. á 1.70, efra strikið á 1.76 og neðra strikið á 1.62. Þetta gaf töluna 0.14×100=14. Fjarlægðin frá kíkinum að stikunni var því 14 metrar.
Þá fékk hópurinn að aðstoða annan hóp, sem vann við rúst 9, til að hæðarmæla rústina, eins og hún leit út þá. Fyrst var hæðarpunkturinn fenginn af hæl undir alstöðinni (TH=0.93 (TBM á ensku)) og síðan var tekið mið af honum við mælinguna. Teknir voru 17 hæðarpunktar á skipulegan hátt í rústinni og færði leiðbeinandinn þá samviskusamlega inn á uppdrátt (sjá meðfylgjandi riss).
Hópurinn fékk æfingu í að setja út punkta (8×8), bæði með því að nota kíki og málbönd sem og nota Pýþagórsarregluna (langa línan á þríhyrningi þar sem 1×1=1.41 eða 8×8=11.28).
Þá fékk hópurinn það verkefni að setja út mælilínur og teikna upp minjasvæði með málbandi. Orri útskýrði framkvæmdina og sýndi dæmi, bæði við framkvæmdina og fráganginn, þ.e. notkun tákna. Hópnum var skipt í tvennt og fékku undirritaður það verkefni ásamt Ernu að mæla upp tvær rústir (14 og 15) á landföstum tanga á vestanverðu minjasvæðinu. Lögðum við út mælilínu eftir endurlöngum miðveggnum og mældum síðan rústirnar út frá henni (sjá meðfylgjandi riss (ekki í mælikvarða)) og gerðum uppdrátt í mælikvarðanum 1:100. Það gekk vel eftir að hafa komist upp á lag með að nota aðferðina.
Tækifærið var notað og kíkt af og til á gang mála ú rúst nr. 12. Þar var smám saman að koma í ljós dyradag, auk þess viðakolsleifar fundust við gröft.
Dagur þrjú – 19.05. – 09:00-16:30
Howell Roberts, fornleifafræðingur, tók á móti hópnum um morguninn í Þingnesi. Verkefni dagsins var að fræðast um alstöðina, möguleika hennar og notkun.
Alstöð sú, sem notuð var (Fastmap 700 – DTM 750) er , að sögn Howells, flóknasta vettvangstækið við fornleifarannsóknir. Það mælir hæðir, fjarlægðir og horn, auk þess sem hægt er bæði að finna áður mælda staði og leggja út línur svo eitthavð sé nefnt. Alstöðin er jafnframt eitt viðkvæmasta tækið, sem notað er við vettvangsrannsóknir. Um er að ræða tiltölulega einfaldan tölvubúnað er gengur fyrir rafhlöðum og einnig er alstöðin viðkvæm og vandmeðfarin svo að mörgu þarf að hyggja. Einnig þarf að gæta varúðar við meðferð hennar, ekki síst við uppsetningu og upphafsstillingar. Alstöðin er fimm ára gömul og kostaði u.þ.b. tvær milljónir króna. Í dag eru til fullkomnari alstöðvar er hafa m.a. skynjara er fylgt getur sjálfvirkt þeim, sem staðmælir, og skráð mælinguna. Upplýsingarnar eru skráðar jafnóðum og afritaðar. Síðan er hægt að fara með minnisspjaldið í tölvu og vinna upplýsingarnar þar til frekari nota, samanburðar og úrvinnslu.
Howell leiðbeindi hópnum hvernig setja ætti alstöðina upp; staðsetja þrífótinn, sem hún hvílir á, með nákvæmni, koma alstöðinni fyrir á honum, grófstilla og fínstilla og hverjar hreyfingar eru mögulegar og hverjar takmarkanirnar eru.
Þá er mælt frá punkti (jörð), í þessu tilviki stöð (station) nr. 9004, upp í alstöðina með málbandi og upplýsingarnar skráðar í upphafsstillingu ásamt hæð á mælistikunni (1.5), staðsetningu (nr. stöðvar/staðsetningar), staðarheiti, því sem á að mæla og fleiri grunnupplýsingum eftir efnum og ástæðum.
Venjulega er mælt út frá uppgefnum hæðarpunktum í fyrirfram ákveðnu hnitakerfi, s.s. Reykjavíkurborgar (sveitarfélaga), Landmælinga Íslands eða Vegagerðar ríkisins. Í þessu tilviki var fastur punktur “sóttur” út í “stöð” 9006 á landfasta tanganum (E214.980 – N:562.250 – Z:081.265 þar sem E stendur fyrir austur og N fyrir norður). Stöng með “sól” eða kringlóttum spegli, staðsett á punktinum, endurkastar innfrarauðum geisla, sem alstöðin sendir frá sér, til baka og stöðin reiknar út fjarlægðina. Howell sýndi hvernig hægt var að mæla fjarlægðarpunkta, hæðarpunkta og gráður með því að hreyfa einstaka hluta tækisins. Tölvan sér síðan um útreikningana og birtir þá á skjánum.
Alstöðin mælir áttir fullkomlega. Við uppsetninguna kom í ljós að dagana tvo á undan hafði ekki verið tekið mið af höfuðáttunum af þeirri nákvæmni sem alstöðin gaf nú til kynna. Þannig lá svonefndur S-N skurður í rúst 12 ekki lengur í suður og norður, heldur fremur austur og vestur. Þarf að hafa hliðsjón af því er framangreint er lesið (dagbókinni verður ekki breytt þar sem hún er skrifuð jafnóðum – einungis leiðrétt).
Fram kom hjá Howell að hyggja þarf vel að áttum. Annars geta mælipunktar lent röngum megin við línu, sem síðan getur verið fyrirhöfn að leiðrétta síðar. Í alstöðina er hægt að safna nálægt 900 mælipunktum áður en upplýsingarnar eru afritaðar.
Howell sýndi hversu erfitt getur verið að ákvarða útlínur og innlínur gróinnar tóftar eða rústar. Sagði hann það vel geta verið matsatriði hjá hverju og einum hverjar hann telur útlínurnar vera. Í rauninni er ekkert til sem heitir ranglegra en annað í þeim efnum, en mikilvægt væri að reyna að átta sig á hvað kynni að tilheyra hverjum stað, sem mæla ætti. Þá skipti þéttleiki mælipunkta máli þegar kæmi að skjámyndinni, sem birtist á alstöðinni. Þéttleikinn mætti ekki vera og lítill (því þá tæki mælingin óþarflega langan tíma) og ekki heldur og mikill (því þá væri ónákvæmnin meiri). Fjöldi punktanna, þrátt fyrir tímalengdina, yki þó á nákvæmni mælinga. Beinar línur væri fljótlegra að mæla en t.d. hringi, bugður og beygjur. Ef einhver væri í vafa hvað ætti að mæla væri ávallt betra að taka fleiri punkta en færri. Það gæti sparað aðra ferð á vettvang. Punktmælingin kæmi með æfingunni eins og annað í þessu fagi.
Hægt er að stilla alstöðina þannig að hún dregur punktalínu, strikalínu eða sambland þeirra, á milli punktanna og getur þannig mynd af útlínum þess sem mælt er.
Tækifærið var nota, fyrst búið var að stilla alstöðinni upp á stöð 9004, að aðstoða við að taka tvo punkta á sýnastöðum í rúst 9 (find 9 and 10), en þar hafði fundist málmur og glerbrot (sennilega hvorutveggja frá 20. öld, en allur er varinn góður).
Þá var alstöðin tekin niður og sett upp að nýju yfir stöð 2007 á vestanverðum tanganum, vestan rústar nr. 16. Aftur var farið yfir grundvallaratriðin varðandi uppsetninguna og stillingar. Staðsetningin var nákvæmlega yfir stöðinni (hæll) og eftir fínstillingar varð skekkjan sú minnsta hugsanlega (eða 0.00). Gengið var með mælistikuna með útlínum rústar 16. Upplýsingarnar voru skráðar í alstöðina jafnóðum. Þá var innlínur mældar með sama hætti. Að því loknu sýndi Howell hvernig mæld rústin lítur út á skjámynd tækisins. Niðurstaðan var allsennileg.
Í framhaldi af þessu var, að beiðni Guðmundar, hafist handa við að staðsetja sumarbústaðinn í Þingnesi. Var það gert með því að setja mælistikuna á hvert sýnilegt horn hans (norðurhliðina) og mæla fjarlægðina.
Í framhaldi af þessu var ákveðið að færa stöð 9007 suður fyrir bústaðinn til að mæla horn á vestur og suðurhliðum. Áður þurfti að búa þar til nýja stöð (2008). Gengið var þangað, hæll rekinn niður og hann markaður. Hann var síðan mældur út með alstöðinni við stöð 9007. Alstöðin var síðan tekin niður, færð yfir 2008, sett upp að nýju, stillt og síðan fjarlægðin mælt frá henni í stöð 2007. Að því búnu var hinar hliðar sumarbústaðarins mældar og skráðar.
Howell útskýrði hvernig hægt er að nota alstöðina til að finna punkta og setja út línu. Tók hann æfingu með hópnum í því. Gekk það greiðlega. Loks var nálæg strönd Elliðavatns mæld, skráð og dregin með aðstoð alstöðvarinnar.
Gögn dagsins voru afrituð og Howell nýtti þann tíma, sem eftir var dagsins, til að fara yfir og útskýra skjámynd alstöðvarinnar og möguleika hennar.
Enn einn áhugaverður og fróðlegur dagur við fornleifarannsóknir í Þingnesi.
Dagur fjögur – 20.05. – 09:00-16:00
Oscar Aldred, fornleifafræðingur, tók á móti hópi 2 við rúst nr. 9. Framundan var uppgröftur í rústinni undir hans stjórn. Uppgraftarsvæðið er hluti tóftar. Sýnilegar voru útlínur miðveggs og hluti útveggjar. Ljósmynd var tekin frá norðvesturhorni uppgraftarsvæðisins til að bera saman við útlit þess að vinnudegi loknum (sjá mismuninn).
Oscar byrjaði á því að útskýra verkefnið framundan. Fram kom að grafið væri í svonefndri “single context”, þ.e. grafið lag eftir lag. Uppgraftarsvæðið var hluti stórrar tóftar og var það allt opið. “Fletta” átti lagi ofan af (context nr. 10) og skrá lagið, sem fjarlægja átti. Fyrra lagið (ofan á) hafði verið nr. 9. Gerður hafði verið uppdráttur (flatarteikning) af uppgraftarsvæðinu, eins og skilið hafði verið við það áður þar sem útlínur, steinar og annað, sem skipti máli, var sýnt. Lýsti Oscar hvað hafði verið gert á svæðinu fram að þessu, kynnti moldina, steinana og fyrri fundi til sögunnar og leiðbeindi um næsta skref, þ.e. að fjarlægja lausa steina úr vesturhluta rústarinnar.
Áður en kom að því að fjarlægja steinana fékk Oscar hópinn, sem var að æfa sig í notkun alstöðvarinnar, að taka 17 punkta í rústinni. Þar með voru mælipunktarnir orðnir 277 talsins. Hnitin voru færð á uppdráttinn og mælingarniðurstöðurnar skráðar. Bent var að betra væri að taka fleiri punkta en færri til öryggis ef eitthvað kynni að fara úrskeiðis.
Garfið var frá steinunum með múrskeið og mold fjarlægð þangað til þeir urðu lausir. Voru steinarnir teknir upp hver á fætur öðrum og komið fyrir í kesti við suðurenda rústarinnar. Oscar lýsti muninum á ljósari moldinni og þeirri dekkri, hvaða steinar teldust geta verið í “röð og reglu” og myndað útlínur og hvernig sjá mætti torflög og gjóskuna í þeim. Torfið er mýrartorf, en í því má sjá ljós og grænleit öskulög (landnámsöskulagið) og einnig ryðbrúna tauma (járn). Steinarnir í vesturhlutanum eru hrun úr veggjum og líkast til torfið einnig. Sást móta fyrir útvegg í norðausturhorni uppgraftarsvæðisins, en “veggurinn” í miðjunni virtist vera miðveggur eða gangur.
Sýnt var teikniblaðið og hvað myndi verða skráð á það. Þá sýndi Oscar graftæknina og benti á að ekki væri nóg að horfa á flötinn, sem verið væri að fjarlægja; einnig þyrfti að hlusta vel og reyna að finna þegar umskipti yrðu.
Við skafið fundust viðarkol (smáagnir og ein stærri) á víð og dreif, lítil beinbrot (gulbrún) og lítill ryðgaður málmhlutur (gat verið hluti úr spennu eða sylgju). Síðastnefndi hluturinn var mældur, skráður og fjarlægður, færður í poka, sem var merkturmeð uppgraftarnúmeri (ÞNG04, rústarnúmeri (9), fundarnúmeri (find number) (11), innihaldi (Fe) og tegund hlutar (óljóst í þessu tilviki). Jafnframt voru hnitin skráð á pokann. Hluturinn verður færður til sérfræðings svo fljótt sem verða má. Til að loft léki um gripinn gerði Oscar gat á plastpokann.
Oscar tók yfirlitsmynd og útskýrði jafnframt að ljósmyndnir í uppgrefti væru notaðar í mismunandi tilgangi. Þær geta verið með eða án fólks; til að sýna fólk að störfum eða til skráningar án þeirra og annars, sem því fylgir.
Eftir uppgröftinn skráði Oscar fyrirliggjandi upplýsingar á skráningarblað og færði nauðsynlegar upplýsingar inn á uppdráttarblað, sem ætlunin er að ljúka við á morgun. Ákvað hann að breyta contextnúmerinu úr 10 í 11 og gefa eystri hluta uppgraftarsvæðisins (austan við miðvegginn) sérstakt númer, sem er 10. Á skráningarblaðið færi hann m.a. contextnúmerin og tegund (surface). Oscar benti á að best væri að nota H4 blýant við skráninguna (máist síður og þolir bleytu).
Á uppdráttarblaðið skráði Oscar m.a. tengund teikningar (flatarteikning), uppgraftarnúmerið (ÞNG04), einingarnúmerið (context 11) og type (deposit). Benti hann á að mikilvægt væri að gera uppdráttinn eins fljótt og kostur er á vettvangi þar sem hægt væri að bera hann saman við fyrirmyndina.
Oscar sýndi og dró upp matrixinn af uppgraftarsvæðinu þar sem efsta torflagið er [1] og lagið, sem síðast var fjarlægt [11]. Ofan á því er [9] og ofan á því er [8]. Matrix nr. [10] er til hliðar. Matrixinn lýsir jarðlögunum, bæði innan og utan rústarinnar, í réttri röð. Um væri að ræða svonefndan “vinnumatrix”, sem gæti breyst, sbr. framangreint.
Þá lýsti Oscar með hópnum helstu einkennum uppgraftarins og skráði á uppgraftarblaðið (8 viðmiðunarliðir); 1. Þéttleiki jarðvegs (miðlungs), 2. Litur (dökkbrúnn, með ýmsum litbrigðum, s.s. ljósu, grænleitu og ryðbrúnu), 3. Samsteining (silt – sandleir/fínn), 4. Meðtalning (steinar, ávalir), 5. Þykkt – fjarlægt (10-15 cm), 6. Skil (greinileg, bein í miðvegg að austanverðu), 7. Samhengi (svipað yfir allt), 8. Röskun (erfitt að segja til um á þessu stigi).
Jafnframt þarf að lýsa eftirfarandi: Öskulögin, sem fundust eru að öllum líkindum landnámslagið (ljósleitt og grænleitt). Það var einkar áberandi í torfinu, sem fjarlægt var, ein og áður hefur komið fram. Hlutir, sem fundust; málmhlutur, viðarkolsagnir og smá beinbrot (ekki mælanleg). Sýni var einungis tekið af málmhlutnum. Svæðið var handgrafið og teiknað upp í matrix. “Innviðir” þess (uppgraftarsvæðisins) voru steinar og torf, sem hvorutveggja hafa hrunið inn úr veggjum (og hugsanlega þaki).
Enn einn lærdómsríkur dagurinn að síðdegi kominn.
Dagur fimm – 21.05. – 09:00 – 16:30
Lokadagur vettvangsnámskeiðsins var að morgni kominn. Byrjað var við rúst 9, þar sem endað hafði verið daginn áður. Oscar leiðbeindi hópnum hvernig leggja ætti út mælilínur. Í þessu tilviki voru notaðir þrír hælar, sem aðrir höfðu áður notað, auk þess sem fjórði hællinn var settur niður til að mynda ferning (5×5). Þá voru hornpunktarnir staðsettir á mæliblaðið (frá neðst til vinstri) og undirbúin mæling í 1:20.
Mældar voru útlínur uppgraftarsvæðisins að vestan og norðanverðu, sem og steinar, sem höfðu uppgötvast við gröftin í vestanverðri rústinni daginn áður. Allt var þetta skilmerkilega fært inn á teikniblaðið. Þá var syðri og austari hlutar rústarinnar hæðarmældir. Settur var upp þrífótur, kíkirinn ofan á og hann stilltur. Þá var TBM mælt (80.74), BS skráð (0.88) sem og IH (81.82). Að því búnu fór mælingin fram. Mælt var á 18 stöðum í rústinni, ýmist gólf eða steinar. Punktarnir (1. 0.90, 2. 0.94, 3. 1.06, 4. 1.02, 5. 1.05, 6. 1.00, 7. 0.98, 8. 1.00, 9. 0.71, 10. 0.86, 11.1.05, 12. 0.87, 13. 1.05, 14. 0.93, 15. 0.89, 16. 0.86, 17. 1.13 og 18. 1.00). Gengið var frá uppdráttarblöðum, mælilínur teknar upp og gengið frá áhöldum.
Howell leiðbeindi hópnum um notkun ljósmyndavélar. Fór hann yfir helstu atriði er gæta þarf að, s.s. að hafa ekki fólk, fötur og annað inn á yfirlitsmyndum af einstökum rústum eða gripum. Jafnframt hversu mikilvægt væri að huga að mælikvarða og staðsetja hann rétt m.v. fyrirhugaða afstöðu myndar. Huga þyrfti að áttum, sólstöðu o.fl. Stillingar á myndavélinni væru og mikilvægar og fór hann yfir hvernig þær virkuðu.
Gengið var frá rústunum með því að leggja “drendúk” yfir uppgraftarsvæðin og þekja síðan með torfinu, sem tekið hafði verið upp úr þeim á fyrsta degi eða fallið hafði til síðar í uppgreftinum. Svæðið var snyrt og áhöld voru til handargangs, fötur, skóflur og skeiðar þvegnar og gengið frá eins og leiðbeiningar kveða á um.
Loks var haldið niður að Ægisgarði við Reykjavíkurhöfn. Þar fór Sirrý (kynnti sig sem slík) yfir það helsta er lítur að fleytingu. Í gámi við vinnusvæðið var fjöldi hvítra (10 lítra) plastfatna með mold í úr ýmsum uppgröftu, s.s. Sveigakoti, Hofstöðum og einnig frá uppgreftinum á Þingnesi 2003. Sérhver fata er m.a. merkt með uppgraftarstað, númeri, dags. og hlutatölu af heild. Áður en hvolft er úr fötunni í fínryðið net efst í vatnstunnu, hagalegu gerðu íláti (sjá mynd), eru upplýsingar á fötunni bornar saman við skráningarblað, merkt við og álnúmer í fötunni tekið (en það fylgir síðan með því sem verður eftir úr fleytingunni). Samviskusamlega er moldin hreinsuðu frá öðru (eða öfugt), grófari “afurðirnar”, s.s. þræðir, bein eða gripir, falla í fat með sigti í botninn, en fíngerðari “afurðir”, s.s. frjókorn, verða eftir í enn fíngerðara sigti þar undir. Eftir að skolun úr fötunni er lokið, eru “afurðirnar” skolaðar vel og síðan hvor um sig færðar í fínar grisjur þar sem númerið er tilheyrði fötunni, fylgir með eins og fyrr sagði. Þær eru síðan hengdar upp til þerris áður en innihaldið verður skoðað nánar af sérfræðingi. Sjá mátti m.a. bein, smásteina, gróðurleifar o.fl. verða eftir í sigtunum áður en innihaldinu var komið fyrir í grisjunum.
Sirrý benti á að jafnan þyrfi að taka lítið sýni úr hverri fötu, merkja það og geyma, ef eitthvað kynni að fara úrskeiðis.
Enn einum áhugaverðum degi lokið – fyrr en varði.
Lokaorð
Framangreind lýsing dagbókarinnar er fyrst og fremst yfirlit yfir það sem hópur nr. 2 fékkst við á vettvangsnámskeiðinu. Hvorki er farið út í einstök smáatriði eða einstöku verki lýst í smáatriðum. Skrifin voru færð inn eftir hvern dag þannig að innihaldið ætti að vera nokkuð nálægt lagi. Textanum fylgja nokkrar yfirlitsmyndir, en þeim er einungis ætlað til að gefa mynd af einstökum stað eða hlut án mælikvarða eða viðmiðana.
Kennararnir á námskeiðinu voru hver öðrum betri, yfirvegaðir, þægilegir og gefandi. Þeir miðluðu nemendum af reynslu sinni og fróðleik. Tímanum var vel varið til að fara yfir það sem máli skiptir, hvort sem það lítur að því sem þarf að gera á vettvangi eða að því hvers ber að varast við framkvæmd fornleifauppgraftar, sem er ekki síður mikilvægt.