Færslur

Garður

Skammt frá bænum Vegamótum í Garði, sem nú er kominn í eyði, er stór steinn, hellulaga, og eru undir honum þrír steinar, sem hann hvíldi áður á. Munnmæli eru um, að eitthvert letur hafi verið á steininum, en það hef ég aldrei séð og veit ekki af neinum, sem hefur séð það, og ekki er mér heldur kunnugt um að neinn fróðleiksmaður hafi athugað steininn til að ganga úr skugga um hvort letrið sé þar enn. En sögn er, að undir þessum steini hvíli fornmaður nokkur, og steininn megi alls ekki hreyfa.

Garður

Garður – haugur fornmannsins.

Nú er það á öldinni sem leið, að á Lykkju í Garði bjó Þorsteinn Ólafsson, faðir Björns hafnsögumanns í Hafnarfirði og afi sér Þorsteins Björnssonar fríkirkjuprests í Reykjavík. Þorsteinn Ólafsson var framkvæmdamaður mikill og kappsfullur. Eitt sinn stóð hann í einhverjum byggingum og vantaði tilfinnanlega stóran stein. Kom honum þá í hug að steinninn á leiði fornmannsins mundi henta sér ágætlega. Þorsteinn vissi þó hverjar sagnir gengu um steininn, að hann mætti ekki hreyfa, því að þá mundi illt hljótast af. En hann var maður ófælinn og kjarkmikill og lét sér ekki smámuni fyrir brjósti brenna, enda var hann hið mesta karlmenni. Varð það svo úr, að hann safnaði mönnum til að bera steininn heim, og urðu þeir 8 saman. En steinninn var svo þungur, aðþeir áttu fullt í fangi með hann, enda þótt þeir væru svo margir. Eftir mikið og langt erfiði komu þeir honum þó á þann stað, en Þorsteinn hafði ætlað honum.

Garður

Fornmannaleiðið í Garði – letursteinn.

Eftir að þessu stórvirki var lokið, var Þorsteinn að vinna eitthvað úti við. Skyndilega syfjaði hann þá svo mjög, að hann mátti ekki halda sér vakandi. Fór hann því heim, gekk upp á baðstofuloft, hallaði sér upp í rúm og var þegar sofnaður. Dreymir hann þá, að upp úr baðstofustiganum kemur maður, stór og aðsópsmikill, og skipar honum harðalega að skila steininum þangað sem hann var tekinn. Þorsteinn hrökk upp við þetta og þóttist sjá á eftir manninum niður stigann.

Var Þosteinn nú glaðvaknaður. Ekki setti hann þetta neitt fyrir sig, heldur fór á fætur og gekk út til vinnu sinnar, sem hann hafði frá horfið.

Garður

Letursteinninn í Garði.

En hér fór sem áður, að skyndilega sækir hann svefn svo að hann má ekki halda sér vakandi. Lagðist hann þá út af og sofnaði skjótt. Kemur þá sami maðurinn að honum aftur og er nú enn byrstari í bragði, er hann skipar Þorsteini að skila steininum. Þorsteinn hrekkur upp við þetta og íhugar draum sinn. En vegna þess að hann trúði ekki á neina fyrirburði, ætlaði hann að humma þetta fram af sér. Og enn fer hann til vinnu sinnar.
Fór nú sem fyr, að brátt syfjar hann svo, að hann má ekki annað en leggjast til svefn og sofnar þegar. Kemur hinn ókunni maður þá til hans í þriðja sinn og er nú ærið gustmikill. Gengur hann að Þorsteini, tekur um fót hans og kreistir fast og segir að honum skuli hefnast fyrir, vilji hann ekki skila steininum.

Garður

Garður – Fornmannaletursteinn.

Nú vaknar Þorsteinn og er honum þá nokkuð brugðið. Finnst honum sem hinn ókunni maður haldi enn heljartaki um fót sinn. Og rétt á eftir laust æðisverk í fótinn, svo hann mátti varla bera þær kvalir hljóðalaust.
Hann sagði nú konu sinni frá draumum sínum, en hún sagði að steininn skyldi þegar flytja á sinn stað. Þorsteini var ekki um það, vildi ógjarna láta undan því er hann kallaði draumarugl. En ú varð konan að ráða.

Voru þá fengnir menn til að flytja steininn aftur á sinn stað, og urðu þeir fjórir saman.
Einn af þessum mönnum hét Stefán Einarsson og var frá Króksvelli í Garði. Hann sagði mér svo frá síðar, að þeim hefði virzt steinninn mjög léttur og veitzt miklu auðveldara fjórum að bera hann en þeim 8, sem höfðu sótt hann.
Síðan hefur enginn hróflað við steininum.

Garður

Garður – grafið í fornmannagröf.

En af Þorsteini er það að segja, að hann tók svo mikið fótamein, að hann varð að liggja vikum saman.
(Sögn Unu Guðmundsdóttur, Gerðum – 1960).

Garður

Garður – uppgröftur.

Í þjóðsögu einni “Steinninn haugbúans í Lykkju” segir að steinninn hafi staðið á öðrum þremur, en þegar hann hafi verið færður á sinn stað aftur hafi einungis tveir aðrir stutt við hann. Þannig mun hann vera enn þann dag í dag.

Garður

Garður – letursteinninn.

Í ferð FERLIRs um Garð var m.a. kíkt á letursteininn. Greinileg merki um leturröð eru eftir honum miðjum. Með því að núa snjó í letrið mátti þó greina einstaka rúnastafi. Erfitt er að greina einstök tákn eða stafi, en þar til gerðir fræðingar gætu eflaust komist að því hvers konar letur er um að ræða. Áletrunin er greinilega mjög forn. Ofan við steininn er manngerður haugur.

Garður

Garður – uppgröftur í haug “Haugbúans”.

Þess skal getið að þegar FERLIR gróf í “Hauginn” árið 2010 komu í ljós berar klappir undir einhlaðinni steinhleðslu.

-Álög og Bannhelgi eftir Árna Óla, útg.: Setberg, bls. 230.
-Sigfús II 136

Garður

Áletrun á “Fornmannasteininum”…