Færslur

Þingvellir

Löng hefð er fyrir því að forsætisráðherra hafi bústað á Þingvöllum til einkaafnota og opinberra gestamóttaka.
thingv-221Vorið 1907 var reist timburhús á Þingvöllum sem ætlað var Friðriki konungi VIII til bústaðar í heimsókn hans til Íslands um sumarið. Húsið var reist ofan við eða við Vellina, rétt fyrir neðan Öxarárfoss, og var í eigu Landsjóðs. Var það kallað Konungshúsið. Húsið var leigt út til kaffisölu og gistingar næstu sumur og í því voru haldin réttarböll á haustin. Fyrir alþingishátíðina 1930 var ákveðið að flytja húsið og gera það upp og var það staðsett um 200 metrum utan við Valhöll. Var húsið haft sem bústaður Kristjáns konungs og Alexandrínu drottningar á Alþingishátíðinni.
Upp frá þessu mun það hafa farið að tíðkast að ráðherrar dveldu í Konungshúsinu að sumarlagi, einkum forsætisráðherra. Var það oft nefnt forsætisráðherrabústaðurinn á Þingvöllum. Árið 1946 er talað um hann sem „sumarhús ráðherra hins íslenska lýðveldis“.
thingvellir-222Konungshúsið brann í eldsvoða 10. júlí 1970 og fórust þar þáverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, Sigríður Björnsdóttir kona hans og ungur dóttursonur. Þar er nú minnisvarði um þau.
Fyrir lýðveldishátíðina 1974 voru byggðar tvær burstir til viðbótar við þær þrjár sem fyrir voru við Þingvallabæinn en hann hafði verið reistur 1930 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar. Í viðbótarbyggingunni hefur forsætisráðherra síðan haft opinberan sumardvalarstað, sem kom í stað Konungshússins sem brann, og getur notað hann bæði til einkaafnota og við embættisstörf, svo sem fundarhalda og móttöku gesta. Eldri hluti Þingvallabæjarins var íbúð þjóðgarðsvarðar en eftir að hann hætti að búa á staðnum árið 2000 tók forsætisráðherra yfir meginhluta bæjarins og var húsinu við það tækifæri breytt, milliveggir teknir og útbúnir salir fyrir móttöku gesta. Í nyrstu burstinni var þó áfram höfð aðstaða fyrir þjóðgarðsvörð og prest Þingvallakirkju.

Heimild:
http://www.forsaetisraduneyti.is/raduneyti/radherrabustadir/thingvellir/

Þingvellir

Þingvellir 1900.