Færslur

Fossvogur

“Í Fossvogi er skipsflak – og búið að vera þar lengi.
Þetta er hnoðaður járnskrokkur, stærðin er óræð Fossvogur - skipsflak 2en gæti hafa verið um 350-500 tonn ef marka má lengd kjalarins sem sjáanlegur er. Líklegast hefur skipið verið rifið þarna því síðurnar virðast hafa verið logskornar sundur þó erfitt sé að átta sig á því vegna ryðs. Skrokkurinn liggur þarna í mörgum bútum, þó virðist allt sem viðkemur framskipinu, bóga og stafn, vanta. Sömuleiðis allt úr skutnum en þó má vera að eitthvað leynist úti í sjónum, því afturhluti kjalarins var enn í sjó. Þarna var í heilu lagi, miðju-botnstykki, líklegast undan lest eða ketilrými. Undir neðsta þilfari má greinilega sjá “tunnel”, með röralögnum sem líklegast eru olíulagnir eða vatns/miðstöðvarrör. Þetta er líklega stjórnborðssíðan. Þarna sést meira af ætlaðri bakborðssíðu.
Neðsta þilfar séð frá bb. til st.b.  Þetta gæti hafa verið gólfið undir katlinum. Undir því má sjá “tunnelinn” með röralögnunum, en það er ekki Fossvogur - skipsflak 3sýnilegt á myndunum. Yfirlit yfir þann hluta sem vel er sýnilegur á fjöru. Það má sjá framkjölinn í sandinum vinstra megin við aðalhlutann. Það má giska á (með sæmilegri vissu) að þetta skip hafi verið a.m.k. 30-35 metra langt. Þetta var enginn smábátur, gæti hafa verið togari aða gamalt flutningaskip.”
Gamall Snæfellingur, fyrrum togarajaxl, sagði: “Þetta er bara drasl, það var allt rifið sem hægt var” sagði hann. “Þetta er gamli Íslendingur, lítill togari sem var dreginn þarna upp og rifinn. Þeir hafa bara ekki hirt um að hreinsa leifarnar”.
Togarinn Íslendingur RE 120 var smíðaður í Englandi 1893. Hann var 146 brl. og með 200 ha. gufuvél. Þann 9. des. 1926, er skipið lá í vetrarlægi á Eiðsvík við Reykjavík kom af ókunnum orsökum leki að skipinu og það sökk. Skipinu var bjargað af hafsbotni eftir 15 ár, það endurbyggt og allir hlutir endurnýjaðir. Sett var í skipið ný 500 ha. Fairbanks Morse díesel vél. 

Fossvogur - skipsflak 4

Eigendur frá 4. nóv. 1942 voru: Sveinbjörn Einarsson, Ágúst Ingvarsson og Stephan Stephensen, Reykjavík, þeir áttu Díeseltogara h/f, sem gerði út skipið sem hét þá Íslendingur RE 73. Skipið var selt 18. maí 1949 Bjarna Sigurðssyni og Kristjáni Guðlaugssyni Reykjavík og Ingibjörgu Pétursdóttur, Reykjum Mosfellssveit og Þorvaldi Stephensen, Sörvaag, Færeyjum. 19. júní 1951 seldi Ingibjörg Pétursdóttir Kristjáni Guðlaugssyni Reykjavík sinn hlut. Skipið var talið ónýtt og tekið af skipaskrá 2. febr. 1961. Þessar bækur, “Íslensk skip” eru hreinasta gersemi, og skyldueign hverjum skipa-og bátaáhugamanni.
Líklegt er að Sindri h/f hafi eignast skipið, rennt því á land og rifið það þarna í fjörunni.”
Fossvogur - skipsflak 5Skv. upplýsingum B.I. mun þetta ekki vera flakið af nefndum Íslending heldur af Óla Garða Gk sem var dreginn þangað og svo rifinn eftir því sem kostur var en Íslendingur hefði endað sína ævi við Klepp í Kleppsvíkinni og verið seldur í brotajárn að hann minnti til Sindra.
Margir aðrir hafa haft samband við FERLIR vegna skipsflaksins og sitt sýnist hverjum um tilurð þess. Hvað sem því líður er þarna um að ræða skipsflak, sem er bæði aðgengilegt og sjálfsagt að gefa gaum þegar gengið er með norðanverðum Fossvoginum, neðan Kirkjugarða Reykjavíkur.

Heimild m.a.:
-“Íslensk skip”, 3ja bindi bls.77, Jón Björnsson frá Bólstaðarhlíð, útg. 1990.

Fossvogur

Fossvogur – bátsflak.

Klofasteinn

Eftirfarandi umfjöllun er dæmi um hversu litla virðingu nútímafólkið ber fyrir fortíðinni. Á einum mannsaldri hafa sögulegar minjar verið nánast afmáðar, ýmist vegna vanþekkingar og/eða hugsunarleysis:

Í “Fornleifaskrá Kópavogs – Endurskoðuð”, skráð af Bjarna F. Einarssyni 2019 segir m.a. um landamerkjasteininn Klofastein:

Klofasteinn vestri

Klofasteinn

Klofasteinn.

“Vestan í malarstíg, um 14 m N af Fossvogslæk. Innan skógræktargirðingar Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Steinn, um 1×1,6 m stór og 0,9 m hár. Mosavaxinn. Steinninn liggur í vegkanti og hefur efni í veginum runnið að steininum austanverðum.
Um 10 m N af steininum er austasti hluti Faxakeldu (Faxafens), sem teygir sig svo nokkra tugi metra til vesturs. Hún er um 50 m löng og 5 m breið það sem hún er breiðust í vestri. Skurðir hafa verið grafnir við kelduna og einkenna þeir hana nú. Mætast tveir skurðir þar sem hún er breiðust. Einnig kallaður Norðlingasteinn, Klofningssteinar og Klofningur.”
Klofasteinn er í skóglendi skammt norðan Fossvogslækjar.

Í Örnefnaskrá – Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess; safnað hefur Adolf J.E. Petersen – Handrit. Örnefnastofnun segir um Klofastein:
“Er í beinni merkjalínu milli Kópavogs – og Digranesjarða, þó innan skógræktargirðingarinnar”.

Faxafen

Faxafen (Faxakelda).

Í “Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi, eftir Guðlaug R. Guðmundsson segir: “Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur): “Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.” Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891.”
Faxafen (Faxakelda) hefur nú að mestu verið þurrkuð upp með fráveituskurði og fyllt upp með afklippungum frá Skógræktarstöðinni.

Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur)

Klofningssteinn

Klofningssteinn eystri.

“Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.” Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu eru klofasteinar eystri sýndir norðan við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland.”
Klofninssteinninn eystri er enn sunnan fráveituskurðar neðan Hörgslands. Skammt norðvestar eru svonefndir “Klofningar”.

Klofasteinar eystri

Benedikt Gröndal

Bendikt Grönddal (1826-1907).

Eru merktir á kort Benedikts Gröndals frá 1891 (sjá Klofastein vestri) um landamerki Bústaða, við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland. Hér gæti verið um sama landamerki að ræða og Eggert Guðmundsson nefnir í landamerkjalýsingu sinni árið 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelum.” Vorið 1856 fluttist biskupsetrið frá Laugarnesi aftur til Reykjavíkur. Þá var gerð landamerkjalýsing jarðarinnar og segir þar m.a.: “…úr Hanganda uppí Faxakeldu; úr Faxakeldu uppí Klofningssteina, þaðan og í stein þann, sem stendur fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Bústaðaborg.” Nær samhljóða [er] landamerkjalýsing í Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359 með hendi Péturs Guðjónssonar. Þessar lýsingar hafa ættarmót landamerkjalýsinga 1605, 1747 og 1785. Vel má álykta af þessu að Klofasteinar eystri, Kaupmannsklettur og Klofningssteinar séu á svipuðum slóðum ef ekki sömu steinarnir.

Klofastein vestri

Klofningsstein

Klofningssteinn vestari.

“Er sýndur á korti Benedikts Gröndals frá árinu 1891 við Fossvogslæk neðanverðan, líklegast gamla landamerki Kópavogs og Digraness. Í flestum merkjalýsingum liggur línan frá Tjaldhóli fyrir austan Norðlingavað á Fossvogslæk og í stein þann sem er inni í Skógræktargirðingunni. Steinninn eða steinarnir sem miðað var við hafa fengið mörg nöfn í landamerkjadeilum. Ditlec Thomsen keypti Bústaði árið 1840. Sonur hans H.Th.A. Thomsen vildi færa sér í nyt hinar óljósu landamerkjalýsingar og stækka Bústaðaland. Hann hóf deilur um landamerki við bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1890. Í því máli fullyrtu vitni að steininn við vaðið á Fossvogslæk héti Norðlingasteinn og vaðið Norðlingavað. Thomsen taldi aftur á móti að steininn héti Klofningssteinn (Skjalas. Reykjavíkur. aðfnr. 1366). Bæjarstjórn Reykjavíkur dró fram fornar heimildir um landamerki, vitnisburði Örnólfs Sturlaugssonar og Þórhalls Odssonar frá 9. og 25. febrúar 1605. Samkvæmt þeim var Klofningssteinn fyrir norðan Faxakeldu, í Fossvogsmýri þar sem fer að halla upp hinum megin. (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359). Í landamerkjadeilunum 1891-1893 er landamerki þetta einnig nefnt Klofningar og Klofningssteinar. Benedikt Gröndal teiknaði og lagði fram uppdrátt þar sem þrætulandið er sýnt samkvæmt mælingum og teikningum Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu er Klofasteinn sýndur neðarlega við Fossvogslæk en Klofasteinar eystri ofar og austar. Til þess að rugla málið enn meira má geta þess að bræðurnir Guðmundur og Kristján Ísakssynir töldu að Tvísteinar innan skógræktargirðingarinnar væru hið forna landamerki. Í örnefnaskrá Adolfs J.E.P segir að Klofasteinn sé í beinni merkjalínu milli Kópavogs og Digranesjarðar, þó innan skógræktargirðingar.”

Klofasteinn (Klofningssteinar) – Klofasteinn vestri

Einbúi

Einbúi.

Í skrá Adolfs J.E.P. er fullyrt að Klofningssteinar séu nú horfnir en hafi verið austantil við Borgarspítalann. Á korti Benedikts Gröndals frá 1891 er merktur steinn á svipuðum slóðum og nefndur Einbúi.

Faxakelda (Faxafen) er í Fossvogsmýri”. Samkvæmt lýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826 (Skjalas. Reykjav.m aðfnr. 1359) nær keldan frá læknum vestanverðum að Kaupmannskletti (líklega Klofasteinum eystri). Um Faxakeldu segir Adolf J.E.P.: “Líka nefnd Faxafen. Það er lítil tjörn í Fossvogsdal, norðan við býlið Lund.”

Einbúi

Einbúi.

„Einbúi er austarlega í Fossvogsdal, miðja vegu milli gróðrarstöðvarinnar Merkur og Smiðjuvegar, gefur að líta sérkennilegar grjóthrúgur. Við nánari skoðun sést að steinarnir eru kantaðir og hafa verið klofnir með fleygum og höggnir til. Þetta eru minjar um tíma þegar hugmyndir voru stórar en atvinna lítil. Upp úr 1930 hafði heimskeppan mikil áhrif á Íslandi og margir misstu vinnu sína. Ríki og sveitarfélög réði þá menn í s.k. atvinnubótavinnu, einkum að vetrarlagi. Á þessum tíma voru uppi hugmyndir um að leggja járnbraut milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, á svipuðum slóðum og Reykjanesbrautin liggur nú. Steinunum var ætlað að vera undirstöður fyrir járnbrautarteinana sem aldrei voru lagðir. Sambærilegt grjótnám fór fram við Einbúa við Skemmuveg, en atvinnubótavinnunni var hætt árið 1936″.

Í Byggðakönnun Minjasafns Reykjavíkur fyrir Háleiti 2014 segir m.a.:

Bústaðir

Bærinn Bústaðir (túnakort frá 1916) staðsettur á nýlega loftmynd.

“Bústaðaborg: Samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum lágu vesturmörk jarðarinnar [Laugarness] frá steini nokkrum á Kirkjusandi að Ámundaborg, sem talin er hafa verið fjárborg milli Grensáss og Rauðarárholts, og þaðan suður yfir Kringlumýri og Mjóumýri ofan í klettinn Hanganda í botni Fossvogs. Þaðan munu mörkin hafa legið til austurs um Fossvogsmýri að upptökum Fossvogslækjar í Faxakeldu svokallaðri og þaðan til norðausturs eftir Bústaðamelum að Bústaðaborg, sem var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Frá Bústaðaborg lá landamerkjalínan norður um Sogamýri í svonefnda Þrísteina, sem munu hafa verið skammt frá þar sem nú eru gatnamót Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs, og þaðan fram eftir Laugarási í Líkavörðu skammt sunnan við Vatnagarð.”
“Bústaðaborg, var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Talið er líklegt að býlið Brekka hafi verið síðar á sama stað”.

Í Landsyfirréttardómi og hæstaréttardómi í íslenskum málum 01.01.1895 má dóm nr. 47/1892: H. Th. A. Thomsen gegn bæjarstjórn Reykjavíkur:

Fossvogur

Fossvogur – landamerki.

“Mál þetta, sem er út af ágreiningi um landamerki milli Bústaða, eignarjarðar áfrýjandans, og Laugarness, er Reykjavíkurkaupstaður á, var dæmt í landamerkjadómi Kjósar- og Gullbringusýslu 7. desembr. 1891.
Samkvæmt fornum skjölum, lögfestum og vitnisburðarbrjefum, er legið hafa fyrir merkjadóminum og málsaðilar hafa báðir tekið gildi í því efni, eiga landamerki milli Laugarness og Bústaða að vera þessi: úr Þrísteinum sjónhending í Bústaðaborg, þaðan í stein fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Klofningssteina. Málsaðilar hafa einnig verið sammála um pað, hvar Þrísteinar sjeu og Bústaðaborg, en ágreiningurinn er um, hvar merkjasteinninn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg sje og hvar Klofningssteinar sjeu, og vill áfrýjandinn telja merki þessi töluvert vestar en hin stefnda bæjarstjórn. Merkjadómurinn hefur nú dæmt merkin vera um Klofningssteina þá, er hin stefnda bæjarstjórn telur vera hina rjettu Klofningssteina, þannig, að þeir myndi hornmark Laugarnesslands að sunnan og austan gegnt Bústaðalandi, og verður það ákvæði dómsins eigi átalið, þar sem full vitnasönnun virðist framkomin í málinu fyrir því, að örnefnið Klofningssteinar, sem er hið viðurkennda hornmark Laugarness að sunnan gegn Bústöðum, sje þar, sem dómurinn setur það.

Fossvogur

Fossvogur – Klofasteinn.

Að því er snertir hitt markið, sem þrætan er um, steininn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, þá hefur merkjadómurinn eigi getað fundið neinn stein í þeirri stefnu frá Bústaðaborg, er eðlilega geti talizt merkjasteinn, og áleit því eigi hægt að miða merkin við neinn slíkan stein, en þar sem byggja þótti mega á því, hvar Klofningssteinar hinir rjettu væru og hver væri aðalstefna markalínunnar upp úr voginum norður eptir, þá áleit merkjadómurinn rjettast, að draga stefnuna úr tjeðum Klofningssteinum, sem eru fyrir sunnan girðingar áfrýjandans, beint norður í Bústaðaborg.
Umboðsmaður hinnar stefndu hæjarstjórnar krafðizt þess fyrir merkjadóminum, að merkin væru ákveðin úr Bústaðaborg í stein, er hann tiltók og áleit vera fyrir vestan og sunnan borgina, og úr steininum í Klofningssteina. Áfrýjandinn heldur því nú, samkvæmt því sem áður er sagt, fram, að bein lína úr Bústaðaborg falli töluvert austar en um tjeðan markastein hinnar stefndu, og þannig liggi merkjalína dómsins lengra inn í sitt land heldur en krafa stefndu hafi verið til, en þessu er mótmælt af hálfu stefndu.

Fossvogur

Fossvogur – Klofningar.

Um afstöðu hjerumræddra örnefna og merkja sín á milli verður engin ályktun dregin af legu þeirra á uppdráttum þeim, er fram hafa komið í málinu, því að þeir hafa eigi verið álitnir nákvæmir að þessu leyti, hvorki af málsaðilum eða dómendum; en merkjadómendurnir hafa vottað það í dómi sínum 28. júní 1890, er þetta sama mál var fyrr dæmt, að steinn sá, er bæjarstjórnin miðaði merkin við og átti að hennar áliti að vera fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, væri því nær í hásuður frá borginni, og eptir uppdráttum beggja málsaðila, einkanlega uppdrætti þeim, er áfrýjandinn hefur lagt fram eru Klofningsteinar (eystri) nokkuð vestar en í hásuður frá Bústaðaborg; en ef þetta hvorttveggja er rjett, leiðir þar af, að bein lína úr Bústaðaborg í Klofningssteina verður fremur fyrir vestan en fyrir austan optnefndan markastein bæjarstjórnarinnar. Þegar á þetta er litið, og Þar sem áfrýjandinn hefur ekki fært neinar sannanir fyrir þessu kæruatriði sínu, verður eigi álitið sannað, að merkjadómurinn hafi gjört sig sekan í lögleysu í þessu efni, og með því að eigi eru aðrar ástæður til að ónýta dóminn, ber að staðfesta hann í öllum greinum.”

Trjáræktarsvæðið í Fossvogsdal

Fossvogur

Skógrækt Reykjavíkur í Fossvogi.

Svæðið sem um ræðir er milli lands Lundar í Fossvogsdal og svæðis sem Skógræktarfélag Reykjavíkur átti til skamms tíma. Erfðafestusamningur fyrir þetta land sem nefnt var Digranesblettur 8 var undirritaður árið 1945 af Geir Gunnlaugssyni í Eskihlíð (síðar Lundi) og Hermanni Jónassyni fyrrverandi forsætisráðherra. Áður hafði landið verið nytjað frá kaupstað og er þess getið í fasteignamati árið 1940. Hlutur Geirs var 10,98 ha en Hermanns 2,25 ha. Síðar eignaðist Skógræktarfélag Reykjavíkur hlut Hermanns, norðurhluta svæðisins, en landið er nú í einkaeign. Á þessum slóðum rennur Fossvogslækurinn að mestu í sínum náttúrulega farvegi, en á kafla hafa bakkar hans verið hlaðnir úr grjóti. Umtalsverð trjárækt er á svæðinu, elsti hlutinn er verk Hermanns frá 5. áratug síðustu aldar.

Sem fyrr segir er Klofasteinn vestri sýndur á korti Benedikts Gröndals frá 1891 við Fossvogslæk neðanverðum (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1366). FERLIR óskaði eftir afriti af uppdrættinum við skjalas. Reykjavíkur fyrir nokkrum mánuðum síðan, en svar hefur enn borist.

Heimildir:
-Örnefnaskrá. Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess. Safnað hefur Adolf J.E. Petersen. Handrit. Örnefnastofnun.
-Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði og staðsetti örnefnin. Handrit. Örnefnastofnun. 1990.
-Byggðakönnun – Borgarhluti 5 – Háaleiti, Reykjavík 2014. Minjasafn Reykjavíkur, Skýrsla nr. 164, bls. 10-11.
-Guðlaugur R. Guðmundsson: „Örnefnalýsing Laugarness, Klepps og Rauðarár“, Reykjavík: miðstöð þjóðlífs, bls. 295-302 – Þorgrímur Gestsson: Mannlíf við Sund, bls. 16. – https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1393650
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 01.01.1895, bls. 346-349. – https://timarit.is/page/3524089?iabr=on#page/n385/mode/2up
-https://is.wikibooks.org/wiki/Fossvogur
-Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Skógræktar Reykjavíkur í Fossvogi.

Klofasteinn

Klofasteinn – Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Garðræktar Reykjavíkur við steininn 2022.