Færslur

ísólfs

Eftirfarandi eru friðlýstar fornleifar og minjastaðir á Reykjanesskaganum:

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Þingvellir, Alþingisstaðurinn forni. Þar var Alþingi Íslendinga háð frá því um 930 til ársins 1798. Á Þingvöllum eru friðlýstar allar þingbúðarústir og aðrar fornleifar og gömul mannvirki á hinum forna alþingisstað beggja vegna Öxarár ásamt rústum fornra býla. Þingvellir er fyrsti þjóðgarður Íslendinga frá árinu 1928.

Þingnes gengur fram í Elliðavatn, fyrir ofan Reykjavík. Þar hafa verið gerðar fornleifarannsóknir. Tilgátur erum að Kjalarnesþing hafi verið háð þar.

Herdísarvík. Allar fornleifar á jörðinni Herdísarvík voru friðlýstar 1977. Þar er að finna fiskigarða, verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshús og önnur útihús. Þar eru líka leifar af rústum sels í Seljabót.

Selatangar

Selatangar.

Selatangar. Rústir fornrar verstöðvar á milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Þar var útræði á vegum Skálholtsstóls fyrr á öldum.

Básendar á Suðurnesjum var verslunarstaður sem fór í eyði í mesta sjávarflóði sem sögur fara af aðfaranótt 9. janúar 1799. Þar eru greinilegar leifar kaupstaðarins og hafnarinnar. Roskin kona drukknaði í hamförunum og kaupmaðurinn danski varð gjaldþrota.

Bessastaðir

Bessastaðir – FERLIRsfélagar í heimsókn.

Bessastaðir á Álftanesi eru fornt höfuðból. Fornleifarannsóknir á árunum 1987 til 1996 leiddu í ljós mikla byggð allt frá 10. öld. Þar var aðsetur fulltrúa konungs frá 14. öld til loka 18. aldar. Þar hafa ríkisstjóri og forsetar Íslands setið frá 1941 og er forsetabústaðurinn á Bessastöðum eitt elsta hús á Íslandi, reist sem amtmannssetur úr steini á árunum 1761-1766.

Bessastaðakirkja var reist á árunum 1777-1823. Bessastaðaskans er norðarlega á Bessastaðanesi við Dugguós (heitir nú Bessastaðatjörn). Þar var hlaðið virki til varnar í Tyrkjaráni 1627.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – fyrirmyndar frágangur eftir uppgröft.

Hofstaðir í Garðabæ. Þar hafa verið grafnar upp rústir myndarlegs skála frá 10. til 12. Aldar með stóru hringlaga gerði. Ýmsir merkilegir gripir fundust við fornleifarannsóknina, m.a. bronsnæla. Á Hofsstöðum er nú minjagarður um hina fornu byggð.

Kapella. Kapelluhraun er milli Hafnarfjarðar og Straums. Árið 1950 fannst þar við uppgröft líkneski frá 15. Öld af heilagri Barböru og bendir það til að þar hafi verið bænastaður í kaþólskum sið. (Lambhagi. Kapellutóft forn úr grjóti í Kapelluhrauni. Sbr. Árb. 1903: 34. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938).

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Kópavogsþingstaður. Einn af fjórum þingstöðum í Gullbringusýslu var Kópavogur. Þar hafa verið gerðar fornleifarannsóknir. Við Kópavogsþingstað er minningarsteinn um Kópavogseiðana árið 1662. (Þinghússtóft syðst á túninu og fangakofatóftir skamt frá. 2. Dysjar austan túns, nefndar Hjónadysjarnar og Systkinaleiðin. Sbr. Árb. 1929: 29-33. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 16.11.1938).

Af húsum í umsjá Þjóðminjasafnsins má nefna:

Seltjarnarnes

Nesstofa.

Nesstofa við Seltjörn. Fyrsti íslenski landlæknisbústaðurinn, hlaðinn úr tilhöggnu grjóti á árunum 1761-63. Þar var einnig fyrsta opinber lyfsala á Íslandi. Höfundur húsins er danski hirðsteinsmiðurinn Jacob Fortling. Í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1979. Í húsinu er læknaminjasafnið Nesstofusafn.

Krýsuvíkurkirkja. Turnlaus timburkirkja, reist 1857 af Beinteini Stefánssyni smið. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64. Í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1964.

Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands – 2004.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.