Færslur

Fuglaþúfa

Það sem vekur mesta athygli er gengið er um móa og heiðar á Reykjanesi eru reglulegar fuglaþúfur, háar og stæðilegar. Þær gefa til kynna að þarna hafi verið kjörlendi mófugla um allnokkurt skeið. Þúfurnar hafa löngum verið yfirlitsstaðir spóa, kjóa, stelks, tjalds og smærri fugla, en auk þess hefur mávurinn nýtt sér aðstöðuna í heiðinni.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Stundum hafa þúfur þessar verið nefndar hundaþúfur af einhverri ástæðu.
Hundaþúfur voru vel kunnar víða. Sennilega er nafnið til komið vegna merkingaráráttu hunda, en fuglaþúfur eru oft hæstu og jafnvel einu kennileitin í móum og á heiðum.
Í skýrslu, sem Jóhann Óli Hilmarsson vann fyrir Hönnun h.f. í mars 2001, “Fuglalíf við Reykjanesbrautina”, segir m.a. að “geta má eins náttúrufyrirbæris, sem tengist fuglum og er alláberandi víða á vegarstæðinu. Þetta eru fuglaþúfur (sbr. Guðrún Á. Jónsdóttir 2001). Fuglaþúfur einkenna íslenskt landslag og þekkjast hvergi annars staðar svo nokkru nemi. Ekki hefur
verið gerð nein sérstök úttekt á þeim við Reykjanesbraut, dreifingu þéirra né öðru, en þær eru sérstaklega áberandi nærri Vogaafleggjara, þar sem ein umferðarbrúin mun rísa.”
Skýrslan fjallar m.a. um fuglalíf á svæðinu, fugla í útrýmingarhættu og fjölda fugla á ákveðnum stöðum. Þá er ljóst að ástæða hefur verið til að tiltaka fuglaþúfur sérstaklega, sem aftur bendir til sérstöðu, eða öllu heldur ásýnd þeirra á heildarmynd umhverfisins á þessu svæði.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Til fróðleiks er þess getið að hæruskrúfur vex oft í skjóli fuglnaþúfna. Hann er útbreiddur um allt land, þó algengari á Norðurlandi en á Suðurlandi. Hæruskrúfurinn vex gjarnan á jarðvegsþöktum klettum eða steinum, oft við vörður eða fuglaþúfur. Héluvorblóm vex þar einnig. Það er smávaxin jurt með hélugrá stofnblöð, vegna stjörnuhára sem þekja yfirborð blaðanna. Það vex mjög strjált um landið og gjarnan uppi á hæðum, hólkollum eða fjöllum, oft við vörður eða fuglaþúfur.
Fuglaþúfur, eða hundaþúfur, virðast vera eðlilegur hluti af hinu náttúrulega umhverfi – en er það svo þegar betur er að gáð?
Málið er sá fugl, sem mestum fræjum hefur dreift, allt frá því að síðustu ísöld lauk fyrir u.þ.b. 12000 árum, er sennilega snótittlingurin. Í nýlegum rannsóknum í Surtsey kom í ljós við skoðun á framangreindum fugli að í iðrum hans voru fjölmörg fræ frá Skotlandi (steinar í fóarni sýndu það). Snjótittlingurinn virtist vera sá fugl, sem flest fræ bar með sér frá öðrum löndum. Rjúpan hefur þann sið að ferðast með ísröndinni og setjast að á nálægu fastlandi. Ísbirnir og refir létu ekki sitt eftir liggja þar sem frævunin og flóran var annars vegar. Þeirra er því getið í þróunarsögunni.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa við Prestastíg.