Tag Archive for: Gamlivegur

Hestaslóðin

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ segir m.a. um fjárskýli á Vatnsleysuströnd:

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.

„Alls voru skráð sjö fjárskýli á svæðinu, auk þess sem Gvendarstekkur var einnig notaður sem fjárskýli. Á öllum stöðunum nema einum voru sýnilegar minjar. Ekki tókst að staðsetja Byrgishól en mögulega dregur hann nafn sitt af smalabyrgi eða skotbyrgi. Þekktasta og stæðilegasta fjárborgin sem skráð var er án efa Staðarborg í landi Kálfatjarnar. Hún er hringlaga og hleðslur hennar standa enn. Pétursborg í landi Stóru-Voga er önnur heilleg borg. Hún er sporöskjulaga og eru hleðslur hennar hrundar að hluta. Skammt frá Pétursborg eru tvær tóftir sem eru skráðar með borginni.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Þórustaðaborg er nokkuð hringlaga tóft en eins og áður segir hefur stekkur verið hlaðinn inn í hana. Með Þórustaðaborg var skráð fornleg, tvískipt tóft, garðlag, vatnsstæði og vörðubrot. Auðnaborg er ekki dæmigerð fjárborg en þar voru skráðar fjórar tóftir, þar af mögulega einn stekkur, renna og rétt. Gíslaborg er ekki heldur dæmigerð fjárborg. Innan hennar má greina 6 aðskilin hólf en vera má að þau hafi verið hlaðin eftir að hætt var að nýta hana sem fjárskýli. Enn er ónefnt fjárskýli í Kálffelli þar sem fjárskýli eru í tveimur hellisskútum og vörslugarður er í gíg fellsins. Þetta fjárskýli er heila 7 km frá bæ. Það var notað um aldamótin 1900 og er sennilega til marks um þverrandi beitarland þar sem sífellt þurfti að fara lengra frá bæ til að finna haglendi. Önnur fjárskýli sem hægt var að staðsetja eru 1-2,9 km frá bæjum.“

Skógarnef

Skógarnefsskúti.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III“ segir um fjárskýlin:
„Engin beitarhús voru skráð á skráningarsvæðinu en þar voru skráð 12 fjárskýli. Flest þeirra, eða níu fjárskýli, voru skráð í landi Hvassahrauns. Í landi Hvassahrauns er mikið um hellisskúta sem nýttir hafa verið sem fjárskýli. Hefur Hvassahraun ákveðna sérstöðu í sveitarfélaginu hvað þetta varðar. Öll fjárskýlin í landi Hvassahrauns eru í skútum eða jarðföllum og sjást hleðslur við sex þeirra. Áður hefur komið fram að hringlaga tóft sem skráð er með Stekk í landi Hvassahrauns er að líkindum fjárskýli. Ekki tókst að staðsetja fjárskýli í Skógarnefsskúta og óvíst er að Sauðhólsskúti sé rétt staðsettur. Þar sáust engar hleðslur. Þrjú fjárskýli voru skráð í landi Brunnastaða. Þar eru fjárskýlin hlaðnar fjárborgir. Lúsaborg er nánast horfin en grjót úr henni hefur verið notað í vegagerð.

Hringurinn

Hringurinn – fjárborg.

Hringurinn er grjóthlaðin tóft sem er reyndar ekki hringmynduð eins og nafnið gefur til kynna. Henni kann að hafa verið breytt í ferkantað mannvirki á síðari tímum. Á Grænhóli er gróin þúst sem líkur eru til að sé leifar af fjárborg. Það er hinsvegar óstaðfest. Þrjú fjárskýli í landi Hvassahrauns skera sig úr í þessari töflu. Það er annars vegar Skógarnefsskúti sem er líklega nærri 5 km frá bæ. Hins vegar eru tvö fjárskýli, Hjallhólaskýli og nafnlaust fjárskýli í jarðfalli sem eru um 200 m frá bæ. Önnur fjárskýli sem skráð voru á svæðinu eru 1-2 km frá bæ. Það er athyglisvert að engin beitarhús hafi verið skráð á svæðinu. Greinilega hafa fjárskýli frekar verið notuð en beitarhús fyrir fé að skýla sér í á úthagabeit um vetur. Eins hefur fjörubeit verið mikil á þessu svæði á veturna og því minni þörf á beitarhúsum í úthögum en í sveitum inn til landsins.“

 Í fornleifaskráningunni er getið um horfið fjárskýli (fjárborg), Lúsaborg. Þar segir: „Syðst við Slysabeygju að ofanverðu er hóll sem heitir Lúsaborg. Heimild er til um Lúsaborgarvörðu en engar hleðslur eru sjáanlegar þarna og engar sagnir til um borg á þessum stað,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Ógreinileg tóft af fjárskýli er á sunnanverðum hól um 20 m SSA við beygju á malbikaða Strandarveginum þar sem Strandavegur/Gamlivegur liggur á hann. Tóftin er um 1,4 km sunnan við Efri-Brunnastaði.
Hóllinn sem tóftin er á er í hraunmóa og er hann gróinn en ekki hár eða mikill um sig. Netagirðing liggur yfir suðaustanverða tóftina.
Tóftin sést mjög illa vegna þess að búið er að taka megnið af grjótinu úr henni. Það hefur sennilega verið notað í vegagerð. Hún er um 10×12 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Rof er komið í veggina þar sem grjótið var tekið en þar sem hún er gróin sést enn stöku steinn upp úr sverði. Innanmál tóftarinnar er um 6×3 m en hún hefur aflagast mikið og má ætla að hún hafi verið því sem næst hringlaga eins og algengt er með fjárborgir. Mesta hæð veggja er um 0,5 m en víðast eru þeir 0,2-0,3 m á hæð. Ekki sést hvar op hefur verið á tóftinni.“

Lúsaborg

Lúsaborg.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ segir um Lúsaborg: „Næst flytjum við okkur um set og höldum suður að vegamótum Gamlavegar og Strandarvegar, þar er kröpp beygja á Strandarveginum sem kölluð var Slysabeygja og er hún u.þ.b. miðja vegu milli Brunnastaðahverfis og Voga. Þegar Gamli-Keflavíkurvegurinn var aðalsamgönguæð Suðurnesjabúa ultu bílar oft í þessari hættulegu beygju og af því dregur hún nafnið.

Lúsaborg

Lúsaborg.

Syðst við Slysabeygju að ofanverðu er hóll sem heitir Lúsaborg. Heimild er til um Lúsaborgarvörðu en engar hleðslur eru sjáanlegar þarna og engar sagnir til um borg á þessum stað. Það má ekki gleyma því að vegagerðarmenn rifu hiklaust vörður og ónýtt mannvirki og endurnotuðu grjótið í vegina. Örnefnið er sérkennilegt og óvíst af hverju það er dregið. Nafnorðið lúsa (kv.), lúsur (ft.) er til og merkir smátt, þétt þýfi. Lúsalyng er orð yfir krækilyng og lúsamulningur er nafn á óþroskuðum berjum, bæði sortu- og krækilyngsberjum.
Upp og norðaustur af Lúsaborg er Þúfuhóll en af sumum kallaður Lambskinnshóll. Annar Lambskinnshóll er einnig sagður fast neðan Gamlavegar.“

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.

Þegar nefndur hóll, grasi gróinn, er skoðaður má sjá augljós ummerki eftir fjárborgina. Í slíkum hlöðnum mannvirkjum voru stærstu steinarnir jafnan neðst. Vegagerðarmennirnir við Gamlaveg, sem er bæði púkkaður og kanthlaðinn langleiðina, hafa greinilega hirt allt meðfærilegt grjót úr nálægri borginni, en látið það neðsta eiga sig. Annað dæmi þar sem grjót var fjarlægt úr nálægum fjárborgum má nefna þrjár slíkar skammt suðvestan við Staðarborg. Grjótið úr þeim hefur væntanlega verið forfært yfir í þá tilteknu fjárborg, enda hefur hleðsla hennar krafist gnæðs grjóts á sínum tíma. Í stæðum hinna þriggja fyrrum borga má glögglega enn sjá neðstu steinaröðina.

Gamlivegur

Gamlivegur.

Eftir að hafa skoðað Lúsaborgina var haldið eftir Gamlavegi að „Hestaslóðinni“ ofan Breiðagerðis skammt ofan Vatnsleysustrandarvegar. Um er að ræða u.þ.b. eitt hundrað metra langan vegbút, púkkaðan á kafla. Greinilega hefur þarna verið unnið í atvinnubótavinnu eitthvert sumarið um og eftir aldamótin nítján hundruð. Ekki er ólíklegt að búturinn hafi átt að vera hluti „Eiríksvegar“, púkkaðan vagnveg, sem en má sjá ofan Vatnsleysu og Flekkuvíkur. Vagnvegurinn sá var liður í úrbótum á Almenningsveginum frá Kúagerði áleiðis að Arnarvörðu. Slíkan „bútasaum“ má víða sjá á og við hinu fornu götur á Reykjanesskaganum. Svo er að sjá að lagt hafi verið í upphafi með stórtæk markmið í úrbótum í vegagerðarmálum fyrir gangandi og ríðandi, en bæði vegna breytts breytanda í atvinnumálum og samgöngum, virðast þau einfaldlega hafa gufað upp og önnur markmið verið sett í forgang. Vegakaflarnir í heiðinni ofan Vatnsleysubæjanna eru ágætt dæmi um framangreint. Þeir teljast til fornleifa, en einhverra hluta vegna er þeirra ekki gerð skil í fornleifaskráningu af svæðinu.

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.

Í „Örnefni og gönguleiðir“ segir: „Austur af Auðnaborg og beint upp af Skálholti (séð frá bænum Höfða) eru hólar sem heita Vatnshólar, við þá safnast vatn í rigningartíð. Á þessu svæði eru örnefni sem ekki var hægt að staðsetja vegna óljósra heimilda, s.s. Hrúthóll og Breiðagerðislatur eða Latur og eins geta þau verið fyrir ofan Reykjanesbraut sem neðan.
Rétt fyrir ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.“
Ljóst er að vegstubburinn hefur átt að verða samgöngubót um sveitina ofanverða, að öllum líkindum væntanlegt framhald Eiríksvegar (Almenningsvegar) til Voga. Vestan Voga, áleiðis upp á Vogastapa og áfram á kafla til Njarðvíkur má sjá slíkar vegabætur. Við nútímaframkvæmdir, því miður, eru þetta fyrstu fornleifarnar sem eru látnar lönd og leið.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.

Auðnaborg

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„, segir m.a. um Auðnaborg og nágrenni í heiðinni milli Vatnsleystrandarvegar og Reykjanesbrautar: „Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Austur af Auðnaborg og beint upp af Skálholti (séð frá bænum Höfða) eru hólar sem heita Vatnshólar, við þá safnast vatn í rigningartíð. Á þessu svæði eru örnefni sem ekki var hægt að staðsetja vegna óljósra heimilda, s.s. Hrúthóll og Breiðagerðislatur eða Latur og eins geta þau verið fyrir ofan Reykjanesbraut sem neðan.

Hestaslóðin

Hestaslóðin flóraða ofan Breiðagerðis.

Rétt fyrir ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.
Hér í krappri beygju Strandarvegar erum við komin að Gamlavegi en hann liggur frá Breiðagerði svo til beint yfir heiðina og mætir bílveginum aftur nokkuð fyrir sunnan Brunnastaðahverfi.

Gamlivegur

Gamlivegur.

Víða er um kílómeters leið frá bæjum að Gamlavegi sem þótti langt enda um klappir og holt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur höfðu þar hver sitt hlið og brúsapall og á einstaka stað má enn sjá merki um hlið og götu frá veginum í átt til bæja. Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var, eins og fyrr segir, nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá búenda í Ásláksstaða-, Hlöðunes- og Brunnastaðahverfi. Nú er Gamlivegur notaður sem reiðvegur.“

Auðnaborg

Auðnaborg.

Hestaslóðin flóraða sést á u.þ.b. 100 metra löngum kafla ofan Breiðagerðis. Svo virðist sem kaflinn hafi átt að verða hluti af Eiríksveginum svonefnda ofan Vatnsleysu og Flekkuvíkur, mjög líklega unninn í atvinnubótavinnu á sínum tíma.

Á framangreindu svæði eru u.þ.b. 10 fjárborgir, s.s. Staðarborg, þrjár borgir sunnan og suðaustan hennar, Þórustaðaborg, Borgin ofan Breiðagerðis, Lynghólsborg, Hringurinn og Gíslaborg.

Sauðholt

Sauðholt – beitarhús.

Í heiðinni, milli Auðnaborgar og Lynghólsborgar, ofan Knarrarness, eru þrjár samliggjandi beitarhúsatóftir á grónum klapparhrygg, svonefndum Sauðholt. Getið er um Sauðholt í örnefnalýsingu Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes, sbr. „Upp af Vorkvíum er Krummhóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummhóls. Hann heitir Borg – Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls. Lynghóll er vestur af Krummhól. Flatir eru ofan við Borgina og ofan þeirra Sauðholt (ft)“. Fjallað verður um tóftirnar í Sauðholtum síðar.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum„, Áfangaskýrslu I, er Auðnaborginni lýst: „“Hrúthóll heitir klapparhóll og Vatnshólar og svo er Auðnaborg fjárborg,“ segir í örnefnaskrá. Minjarnar eru um 1 km suðaustan við bæ. Þær eru á og við grösugan hól í hraunmóa með moldarflögum.
Minjarnar eru á svæði sem er um 36×28 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Vestast á svæðinu er tóft A. Hún er einföld og er um 6×4 m að stærð. Hún snýr norðaustur suðvestur. Inngangur er inn í hana úr suðvestri. Mögulegt er að tóftin hafi verið tvískipt en hún er ógreinileg í suðvesturenda. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Tóftin er gróin og ekki sést grjót í veggjum.

Auðnaborg

Auðnaborg – teikning.

Tóft B er fast norðvestan við tóft A og er hún uppi á hæsta hólnum. Hún er um 3×3 m að stærð og er einföld. Inngangur er í suðvesturenda. Mesta hleðsluhæð er um 0,4 m en tóftin er gróin og ekki sést í grjót í veggjum. Fast norðan tóft B er afar ógreinileg tóft C. Hún er einföld, er um 3×2 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð um 0,3 m. Ekki sést í grjót í veggjum. Tóftin er opin til suðvesturs. Um 2 m norðan við C er tóft D, líklega stekkurinn sem talað er um í Örnefni og gönguleiðir. Hann er einfaldur og er um 3×4 m að stærð, snýr suðvestur-norðaustur. Inngangur er í norðurhorni. Mesta hleðsluhæð tóftar D er um 0,5 m. Hún er algróin og nokkuð hlaupin í þúfur. Gróður er hvað dekkstur á henni sem bendir líklega til þess að styst sé síðan hún var í notkun og að hún sé líkega yngri en aðrar tóftir á svæðinu. Neðan við hólinn sem tóftir B og C eru á, til norðausturs, er lítil renna E sem kann að vera manngerð. Hún er um 3×1 m að innanmáli og snýr suðaustur-norðvestur. Suðvestan við tóftirnar er stór og grjóthlaðin rétt F sem skiptist í 4 hólf. Réttin er um 36×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð réttar er um 1,2 m og sjást 6 umför. Víðast eru þó hleðslur lægri.“

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Um Alfaraleiðina segir: „Um jörðina [Hvassahraun] hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina, Reykjanesbrautin,“ segir í örnefnaskrá. „Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggð, þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn [heitir líka Strandarvegur] og innarlega í Hvassahraunslandi einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. […]

Almenningsvegur (Eiríksvegur) um Vatnsleysuströnd.

Almenningsvegur ofan Vatnsleysu.

Nafnið Almenningsvegur, yfir gömlu þjóðleiðina, virðist helst hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum og trúlega líka búendum utar á skaganum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann frekar kallaður Alfaraleiðin,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur,“ segir í örnefnalýsingu Straums. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir,“ segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns. Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun.

Alemmningsvegur

Almenningsvegur – Arnarhóll.

Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfaraleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina.
Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt. Við aðalskráningu Kálfatjarnarhverfis og Flekkuvíkur árið 2008 var leiðin skoðuð í landi Flekkuvíkur þar sem leiðin liggur um hraunið og krækir fyrir hól sem Arnarvarða stendur á. Þar er gatan mjög mjó en breikkar þar sem hún heldur áfram til norðausturs.“

Hvorki er minnst á kafla „Hestaslóðarinnar“ fyrrnefndu né beitarhús á Sauðholtum í fornleifaskráningunni.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2. útgáfa 2007.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes.

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.

Fornigarður

Gamall slóði. Gamli vegur eða Selsgata, var genginn frá Fjárskjólshrauni niður í Herdísarvíkursel suður undan Herdísarvíkurhrauni ofan við Seljabót.

Herdísavíkursel

Í Herdísarvíkurseli.

Leiðin er mjög falleg í gegnum hraunið og vel greinileg. Selið, sem kúrir undir hraunkantinum mót suðri, hefur verið stórt og eru margar tóttir því tengdu, sem og vatnsstæði vestan við þær. Skoðaðar voru gamlar hlaðnar refagildrur á klöppunum austan Seljabótar og einnig rúningsréttin í sjálfri bótinni.
Þá var hraunsleiðin gengin til baka og haldið að Fornagarði austan Vogsósa, en garðurinn, sem getið er um í heimildum frá árinu 1275, náði frá Hlíðarvatni að Nesi í Selvogi. Um hefur verið að ræða mikið mannvirki í þá daga. Hann var því 7 km langur. Að sjálfsögðu hét hann ekki Fornigarður í upphafi, heldur Strandargarður, en eftir því sem aldirnar færðust yfir hann gerði nafnið það líka.
Lognið var á smáhreyfingu, en hlýtt.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Gamlivegur

Ákveðið var að leita og fylgja svonefndum Gamlavegi frá Ártúni og Árbæ að Reynisvatni og áfram áleiðis að Búrfellskoti, en gata þessi lá á Þingvelli forðum daga. Af sögnum mátti greina að úrbætur hafi verið gerðar á reiðgötunni með það fyrir augum að gera hana vagnfæra millum höfuðstaðarins og hins helgasta staðar þjóðarinnar frá upphafi þjóðveldisins.
Gamlivegur-2Ljóst var þó að með stefnu í nútíma vegargerð hafi bæði tekið lítið sem ekkert tillit til hinna fornu gatna og áhugi á varðveislu þeirra hefur að sama marki verið engin í gegnum tíðina. Svo rammt hefur að þessu kveðið að í fornleifaskráningum síðustu ára er þessara tegunda fornleifa sjaldnast getið.
„Jarðarinnar Grafar mun fyrst getið í máldaga Maríukirkju á Bessastöðum sem tímasettur er til ársins 1352 en ekki er þar getið um eiganda jarðarinnar. Gröf var komin í eigu Viðeyjarklausturs 1395. Þá var gerð skrá um kvikfé og leigumála á jörðum klaustursins.
Gröf virðist hafa verið í einkaeign þar til í byrjun 16. aldar, því þann 5. september 1503 seldu Guðmundur Þórarinsson og Ingibjörg Jónsdóttir Árna ábóta jörðina fyrir fjórtán hundruð í lausafé og kvittuðu fyrir andvirðinu. Þann 10. desember sama ár (1503) var í Viðey gert skiptabréf Árna ábóta annars vegar og Halldórs Brynjólfssonar hins vegar, á jörðunum Strönd í Hvolhreppi og Gröf í Mosfellssveit.
Gamlivegur-3Þar með var Gröf aftur komin í einkaeign. Ekki eru heimildir fyrir því hvenær Halldór seldi jörðina, en hann var nefndur hinn auðgi og hafði mikið umleikis. Svo mikið er víst að jörðin hefur aftur orðið klausturjörð á tímabilinu 1503–um 1545 og hélst svo þar til klausturjarðir runnu til konungs um siðaskipti. Á árunum 1547–1552 er jarðarinnar svo getið í fógetareikningum Bessastaðamanna.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 er konungur talinn eigandi, en ábúandi er Einar Þórðarson. Leiga var greidd konungi í smjöri til Bessastaða.
Gamlivegur-4Kvaðir voru um mannslán og hestlán til Þingvalla og annarra staða, jafnvel stundum norður í land og í ýmsar áttir. Skila átti tveimur dagsláttum, tveimur hríshestum og einum eða tveimur móhestum. Skera átti torf, flytja lax úr Elliðaánum, sjá um skipaferðir, sækja timbur til Þingvalla, sinna hússtörfum á Bessastöðum og fleira. Engjar jarðarinnar voru mjög litlar. Kvikfénaður er skráður 6 kýr, 1 kvíga tvævetur, 8 ær með lömbum og 4 hestar. Heimilismenn eru skráðir 10. Kostir jarðarinnar eru taldir litlir. Hjáleigur eru taldar tvær, það eru Grafarkot sem byggst hafði upp fyrir 50 árum og hét hugsanlega Holtsstaðir áður og hjáleigan Oddgeirsnes sem var hafði verið eyðijörð í allra manna minni.
Gamlivegur-5Litlum sögum fer af jörðinni en skömmu fyrir 1840 er hún seld eins og flestar konungsjarðir á þessum slóðum. Gröf var mjög landstór jörð. Hún fékk nafnið Grafarholt þegar bærinn var fluttur á núverandi stað við Vesturlandsveg árið 1907. Þá bjó í Grafarholti bændahöfðinginn Björn Bjarnason hreppstjóri og um skeið alþingismaður, fróðleiksmaður mikill, en sérkennilegur í mörgu. Árið 1943 var jörðin Grafarholt lögð undir Reykjavík samkvæmt lögum og meginhluti hennar síðan tekinn eignarnámi 1944.
„Gamlivegur“ er til á nokkrum stöðum, s.s. á Vatnsleysuströnd og í Selvogi. Á uppdrætti Steinbjörns Björnssonar eru merktir nokkrir gamlir slóðar. „Gamli vegurinn“ er trúlega elsti slóðinn á milli Árbæjar og Hólms yfir Klapparholtsmóa og líklega elsti forveri Suðurlandsvegar.
Enginn örugg merki eru sjáanleg eftir hann nema hugsanlega nyrst við núverandi Gamlivegur-6Norðlingabraut. Leiðin er merkt rauð. Annar slóði lá svo suðvestur frá Rauðavatni inn Margrófina inn að Oddagerðisnesi. Þessi vegur var forveri Breiðholtsbrautar og er nú notaður sem reiðvegur að hluta nyrst. Slóðinn er merktur grænn. Að lokum slóði yfir Klapparholt og Klapparholtsvað yfir að Elliðavatni.
Fyrsti Suðurlandsvegurinn var gerður vagnafær 1886–1892. Hann lá frá Árbæ eftir Rofabæ og austur yfir Hellisheiði. Núverandi Suðurlandsvegur liggur að mestu í gamla vegstæðinu við Rauðavatn. Fyrir austan vatnið hefur gamli vagnavegurinn hugsanlega verið, þar sem nú er reiðvegur við Rauðavatnsskóg og austar núverandi bílvegur, norðan Suðurlandsvegar. Norðan við Suðurlandveg, fyrir austan Rauðavatn, er síðan um 13 hektara svæði sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hið eldra hóf plöntun í um 1900.
Þetta er eitt af Gamlivegur-7elstu skógræktarsvæðum landsins og er í dag notað sem útivistarsvæði. Nýbýlið Baldurshagi var þar sem nú er OLÍS bensínstöðin. Þar var rekin greiðasala á árunum 1920–1945. Austan við það var braggahverfið Camp Columbus Dump, sem var birgðageymsla.
Í örnefnaskrá er ritað um Gamla veg: ,,Þá erum við komin að Gamla vegi, sem lá um Leirdal, Kotsklofning, Flagið, Vörðulágar [svo] og eftir Eggjum”. Vegurinn var merktur inn á Herforingjaráðskort 1909. Miðað við núverandi skipulag liggur syðsti hluti golfvallarins í Grafarholti yfir veginn, og hann liggur um 300 m fyrir norðan prentsmiðju Morgunblaðsins við Hádegismóa.
Gamlivegur-8

Lýsing: Þar sem vegurinn er enn sjáanlegur, má sjá rás þar sem grjót hefur verið hreinsað upp úr melnum og hlaðið í kanta. Suðvestast eru um 70 m sem liggja í brekku og beygir vegurinn þar. Síðan kemur um 50 m kafli á milli tveggja flata á golfvellinum, og svo 30 m kafli.
Gamlavegi var fylgt í gegnum móan norðan við Hádegismóa áleiðis austur fyrir Grafarholt. Grafarkot var þar sem nú er golfskáli golfvallarins undir Grafarholti. Syðstu flatirnar liggja ofan á Gamlavegi. Hann sést þó vel koma niður á flatirnar ofan af móunum austan núverandi Suðurlandsvegar. Eftir að hafa gengið yfir flötina kemur gatan aftur í ljós í móakafla. Þar er gatan tvískipt; annars  vegar gamli reiðvegurinn og hins vegar fyrstu merki um vagnnveg, sem lagður hefur verið ofan í eða samhliða reiðveginum. Þessi ummerki má glögglega sjá á nokkrum stöðum á leiðinni upp á Reynisvatnsáss og áfram á leiðinni áleiðis til Þingvalla.
Nú hverfur gatan undir golfvallaflatir. Í rauninni er sorglegt til þess að vita að golfvallaleggjendur skuli ekki hafa skilið eftir ummerki eftir götuna á þessu svæði því það hefði alls ekki komið niður iðkuninni. Líklegt má telja að menn þeirra tíma hafi lítið sem ekkert spáð í gildi hinna fornu leiða m.t.t. framtíðar varðveislu. Lýsir það allnokkurri skammsýni hlutaðeigandi. Og skrítið má telja að ekki hafi verðar gerðar áætlanir strax á fyrstu tíð nútíma vegagerðar að gera ráð fyrir áframhaldandi sýnileika hinna fornu gatna, t.d. sem göngu- eða reiðleiðir, ekki einungis meða það fyrir augum að varðveitar slíkar heldur og til að sýna afkomendum hver þróun þeirrar tegundar mannvirkja hafi verið frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.

Grafarsel

Gamlivegur sést ekki aftur fyrr en norðan Reynisvatns. Bæði hefur golfvöllurinn eytt honum og auk þess suðaustasta byggðin í Grafarholti. Ef tekið er mið af herforingjakorti frá árinu 1909 er gata sýnd sem reiðleið en ekki vagnvegur þrátt fyrir augljós ummerki séu eftir vagnveg samhliða reiðleiðinni. Vagnvegur er á sama korti sýnd sunnan Rauðavatns og er hann nefndur „Gamlivegurinn“, þ.e. með greini. Að henni verður vikið síðar.
Þegar komið var upp að Reynisvatni mátti sjá leifar að hlöðnum túngarði. Á kortinu fyrrnefnda er Gamlivegur sýndur liggja ofan garðsins og síðan áfram upp á Reynisvatnsás með stefnu til norðausturs vestan Miðdals. Þar endar gatan á kortinu, en í raun lá hún áfram að Búrfelli, til austurs sunnan fjallsins framjá Búrfellskoti og áfram upp í gegnum Seljadal og á Þingvelli.

Gamlivegurinn

FERLIR hafði áður rakið þennan hluta líkt og sjá má annars staðar á vefsíðunni.
Af ummerkjum að dæma virðist reiðleiðin (eldri gatan) hafa legið framhjá bænum Reynisvatni og síðan norður með vestanverðu vatninu og til austurs með því norðanverðu. Þar liggur gatan hlikkjótt, á hálsinn. Á sama kafla kemur vagnvegurinn upp frá vatninu með stefnu upp á hálsinn, í og til hliðar við reiðleiðina. Þegar upp er komið hefur götunum verið raskað með nýrri malarvegi, en handan hans sjást þær vel. Göturnar koma saman skammt handan malarvegarins, en síðan liggur reiðvegurinn samhliða vagnveginum skammt sunnar. Þær sameinast síðan og eftir það liggur nýrri malarvegur ofan á þeim til austurs norðan Langavatns uns þær venda til norðausturs vestan Miðdals, sem fyrr sagði.
Ekki er að sjá að minnst sé á Gamlaveg í öGamlivegur-9rnefnalýsingum fyrir Ártún, Árbæ og Reynisvatn. Eftir er þó að skoða umfjöllun um vegagerð í Ísafold og fleiri eldri tímaritum. Þar gætu mögulega komið fram upplýsingar um fyrrnefndan vagnveg á endurbættum Gamlavegi. Örnefnið gæti og hafa tengst úrbótunum og vagnvegurinn þá verið nefndur Gamlivegur, þótt þess sjáist ekki merki á kortinu frá 1909.
Þá var haldið þvert til suðurs yfir Reynisvatnsheiðina með stefnu á Grafarsel og Gamlaveginn. Eftir áningu í Grafarseli var komið inn á Gamlaveginn (með greini). Hann sést enn norðan núverandi Suðurlandsvegar. Þar sem nú er komið hringtorg austan Rauðvatns hefur vegurinn verið fjarlægður, en sjá má hvar hann kemur aftur í ljós í hæð skammt austar. Veginum var fylgt til norðvesturs. Á fyrrnefndu korti er vegurinn dreginn upp og skv. hnitsetningu er hann svo til nákvæmlega á sama stað. Er hann ágætt dæmi um nákvæmni kortagerðamanna er unnu sína vinnu fyrir 100 árum, án nokkurra nútíma GPS-tækja.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar (Gröf, Hólmur og Geitháls), Anna Lísa Guðmundsdóttir – 2010.

Gamlivegur

Gamlivegur – gangan.