Tag Archive for: Garðaflatir

Búrfellsgjá

Gengið var um Búrfellsgjá, litið á Gjáarrétt og síðan gengið upp á Garðaflatir austan gjárinnar, norðan Búrfells.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Búrfell er eldstöð frá nútíma og þaðan hefur runnið mikið hraun sem þekur um 18 km2 lands. Búrfellsgjáin sjálf er mikil hrauntröð úr gígnum að vestanverðu, um 3,5 km löng. Hún er meðal bestu dæma um hrauntraðir frá nútíma.
Afurðir Búrfells, Búrfellshraun, tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík. Búrfell er hringlaga nálægt gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraunið. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er bæði innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli hleðsla í gerði Gjáarréttarer Smyrlabúðahraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára.
Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur. Sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Hún er grynnri, en breiðari. Segir það nokkuð um hraunmagnið, sem um hana rann. Hæðarmismunurinn á gjánum stafar af misgenginu, sem fyrr er lýst. Á köflum eru gjárveggirnir hrauntraðarinnar í heild þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni. Niðri í Búrfellsgjánni stendur fjárrétt sem nú er friðlýst. Í Selgjánni eru minjar 11 selja frá Görðum. Norðvestan endimörk hennar eru allnokkrir hellar, m.a. fallega hlaðin fjárskjól.
Búrfell og Búrfellsgjá eru með stórkostlegustu náttúruminjum höfuðborgarsvæðisins er gígurinn Búrfell og hrauntröð hans, farvegur hraunsins úr gígnum, Búrfellsgjá. Gjáin er mögnuð gönguleið um land sem vart á sér líka. Steindepillishjónin, sem áttu sér hreiður í gjánni, voru áreiðanlega sama sinni. Söngur þeirra gaf annan tón í annars magnaða fuglahljómhviðuna.
Gjárétt er ævagömul. Hún er hlaðin úr hraungrjóti og er mjög stílhrein. Hún var lögð af sem skilarétt Hafnarfjarðar, Garðahrepps og Bessastaðahrepps um 1920 og er nú friðlýst af þjóðminjaverði.
SteindepillSkammt vestan við réttina er sex metra djúp misgengissprunga sem nefnist Vatnsgjá, og niðri í henni er uppspretta. Vatn er eðlilega mjög torfundið á þessum slóðum, allt hripar það niður í hraunið og hverfur augum vegfarenda. Skýrist þar valið á réttarstæðinu og líklega hefur fé verið haldið þar um tíma áður fyrr, sbr. söguna af Krýsuvíkur-Gvendi.
Veggir Búrfellsgjár eru fimm til tíu metra háir og víða eru hellisskútar í þeim. Greinilega má sjá hvernig hraunið hefur runnið. Taumar gjárveggjanna vitna um það.
Mjög fróðlegt er að skoða gjánna þar sem hún er þrengst, nær því efst uppi við sjálfan gíginn. Þar eru stórkostlegar hraunmyndanir, hraunið er víða lagskipt, sjá má hvernig litlir hrauntaumar hafa lekið niður vegginn og oft má finna lítil op inn í veggina og þar inni eru fallegir litir.
Tóft við GarðaflatirGjáarétt er fjallskilarétt í vesturenda Búrfellsgjár og var lögrétt fram til 1920. Smalað var til hennar fram yfir 1940. Réttin er hlaðin úr hrauni og þrátt fyrir að hún hafi verið endurgerð bera veggirnir ummerki eftir afleiðingar jarðskálfta, sem jafnan eru tíðir á svæðinu, enda stendur réttin á þéttri hraunhellu. Gjáarétt er á fornminjaskrá. Skammt norðan réttarinnar er Vatnsgjá, sem fyrr er lýst. Var hún meginvatnsból réttarinnar og selja í grenndinni. Gjáin er alldjúp gjá eða sprunga í hraunbotni gjárinnar. Hún er þröng og um 5-6 m á dýpt. Löguð hafa verið steinþrep niður í hana þar sem vatnsbólið var.
Gjárétt (eða Gjáarétt) mun hafa verið fjallskilarétt (lögrétt) til 1920 en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 kveður Árni Helgason gjárétt hafa verið hlaðna steinrétt er þjónaði sem fjallskilarétt Álftaneshrepps frá 1840.
Tóft við GarðaflatirÞað hefur verið sagt um Krýsuvíkur-Gvend að úr Krýsuvíkurhverfi hafi hann hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldist við í Gjáarrétt með fé sitt og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi í Bakhlíðum og sér þar votta fyrir byrgi sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauði sína í Bessastaðaskóla. Guðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu: einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan. Í norðaustanverðri Búrfellsgjá má sjá myndarlega fyrirhleðslu við aflangan skúta. Lítið er eftir af hleðslunni, enda hafa kvikmyndagerðarmenn og aðrir farið höndum um grjótið síðan mannsmynd var á fyrirhleðslunni. Syðst í henni má þó enn sjá hlaðinn innganginn.
Tóft við GarðaflatirSagt er, að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.
Auk gamalla sagna um bústað og minjar á Garðaflötum er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”. Svo virðist sem minjarnar á Garðavöllum hafi fallið í gleymskunnar dá – a.m.k. þar til fyrir nokkrum árum.
Í umsögnum um svæðið hefur gjarnan verið sagt að „engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi hafi haft orð á að þar kynnu nokkrar slíkar að leynast.“
Lóuhreiðir við GarðaflatirSvonefndar Garðaflatir liggja við austurbrún Löngubrekka, norðvestan við Búrfell og Búrfellsháls. Hermt er að þar hafi Garðakirkja staðið fyrr á tímum. Í ritinu Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar (bls. 90) er vitnað til sagnaþátta Ólafs Þorvaldssonar, þar sem segi: „Þetta var á svonefndum Garðaflötum, sem liggja norðvestur frá Búrfelli. Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi, og tel ég líklegt, að umgetnar flatir hafi fengið nafn af jörðinni Görðum. Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. (Ólafur Þorvaldsson 1951:50-51). Kemur einnig fram í frásögn Ólafs, að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
Undir norðaustanverðum brekkubrúnum Garðaflata má sjá tóftir, m.a. húss, gerðis og garðs. Enn ofar má sjá þar tóftir tveggja minni bygginga, líklega fornra topphlaðinna fjárborga. Lóuhreiður var utan í garðinum – með fjórum eggjum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.ust.is/media/skyrslur2003/Burfell.pdf
-http://2www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun
-http://www.gardabaer.is/upload/files/Gardab_kortab_bak.pdf

Burfell

Friðrik Bjarnason

Í blaðinu „Akranesi“ árið 1956, skrifar Friðrik Bjarnason um „Minningar“ sínar um allt og nánast ekki neitt. Hvað Garðahrepp og Hafnarfjörð varðar eru þær flestar því miður fánýtar í ljósi staðreynda sögunnar, en þær eru þó ekki alveg allar alvitlausar. Það er ávallt fróðlegt að sjá hvað öðrum finnst um hitt og þetta. Skoðum nokkrar þeirra Friðriks er varða Reykjanesskagann:

XXI.
Hraunin

Friðrik Bjarnason

Friðrik Bjarnason.

„Sunnan Hafnarfjarðar, sem og víðar kringum Fjörðinn eru víðlend hraun, úfin og ill yfirferðar. Þar gefur að líta háa og margvíslega lagaða hraunsnaga. Þar eru líka djúpar dældir, sumar mosavaxnar og með ýmsum gróðri, og einnig eru þar djúpar gjár og sprungur, er oft reynast illar yfirferðar og hættulegar. Hellar eru þar víða, margvíslegir að lögun og stærð Hraunkleprar, dropasteinar eru sums staðar. Þar eru einnig mannvirki, svo sem fjárhellar og aðrir, er líkastir eru því, sem þar hafi mannabústaðir verið.
Eitt sinn var bóndi af Hraunabæjum að huga að fé sínu suður í hrauni. Þetta var að vetri til, er snjór var á jörðu. Rakki fylgdi bónda, og rann hann á undan, sem hundum er títt. Er komið var langt út í hraunið, veitir bóndi því athygli, að hundurinn hverfur skyndilega, niður í hraunsprungu. Bóndi hraðaði sér sem mest hann má að sprungunni, heyrir hljóð hundsins niður í gjánni, en smám saman veikara, þar til það hverfur með öllu. Bóndi heldur áfram för sinni og svo heim til bæjar aftur. Á sextánda degi frá atburði þessum, kom hundurinn heim, allur blóðrisa og kviðdreginn mjög.

Piltur og stúlka fóru eitt sinn yfir sama hraun, en á öðrum stað og höfðu hest með í förinni, sem stúlkan reið. Þegar þau voru því nær komin upp úr hrauninu, festist hægri framfótur hestsins í hraunsprungu og varð eigi losaður. Fer þá piltur heim til næsta bæjar, en það var löng leið, og fær mann með sér og sleggju, til þess að brjóta bergið frá fæti hestsins, og tókst það svo vel, að hesturinn kom alheill upp úr sprungunni. En á meðan pilturinn var fjarverandi lá stúlkan ofan á hestinum, svo að hann brytist ekki um, og mun það hafa verið nálægt þremur tímum.

XXII.
Eyðibýli

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir.

Þorlákstún nefndist eyðibýli sunnan í Hvaleyrarholti. Býli þetta var lengi í eyði, en er nú aftur byggt og nefnist Þorgeirsstaðir eftir þeim, er reisti. Í fornum skrifum er getið um stórbýli eitt, að nafni Þorláksstaðir. Munnmæli herma að það hafi þarna verið. Sögusagnir segja, að þar hafi eitt sinn verið bænahús frá Hvaleyri og á því 18 hurðir á hjörum, með koparhúnum.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Straumsel er eyðibýli upp af Hraunbæjum sunnan Hafnarfjarðar. Sagnir herma, að það hafi í byggð verið lengi vel. Fyrir rúmum mannsaldri bjó þar maður að nafni Jón Þorsteinsson.
Bærinn brann, og fórst Jón bóndi þar, og hefur þar eigi byggð verið síðan.

Bali

Vigdísarvellir – tóftir undir Bæjarfelli. Bali er vestar, undir hlíð Vesturfells.

Vigdísarvellir heitir eyðibýli norðvestur af Krýsuvík. Jörð þessi hefur í byggð verið nokkurn tíma, eða frá því um 1830 að sumra sögn. Oft var þar tvíbýli. Slægjur voru þar engar, nema túnið, en sauðbeit allgóð niður í Núpshlíð, og er þangað löng leið frá bænum. Sumarhagar em þar ágætir heima við.
Mór var notaður til eldsneytis og mosi. Vatnsból er gott. Ástæður fyrir því að jörðin lagðist í eyði, eru sagðar margar. Fyrir aldamótin síðustu hrundi bærinn þrisvar sinnum af jarðskjálftum á rúmum 30 árum. Ágangur var mikill af sauðfé og hrossum úr Grindavík og af Ströndinni. Örðugt er þar til aðdrátta og langt til vetrarbeitar, sem fyrr segir og býlið nokkuð afskekkt. Sá, er síðast bjó þar, hét Ívar.

Garðaflatir

Garðaflatir – óskilgreindar minjar.

Sagnir eru til um það, að í fyrndinni hafi byggð verið á Garðaflötum og síðar selstöð, einnig i Helgadal, Skúlatúni og víðar. Sumir draga þó í efa, að svo hafi verið, einkum vegna skorts á neyzluvatni. Gamlir menn, er bezt máttu um þetta vita, svo og rannsóknir, er fram hafa farið á þessu, benda ótvírætt í gagnstæða átt. Vatnsskortur hefur ekki valdið heldur aðrar orsakir.

Akranes, 7.-9. tbl. 01.07.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 99.

XXIV.
Vígslur

Hafnarfjarðarkirkja

Hafnarfjarðarkirkja.

Þjóðkirkjan í Hafnarfirði var byggð árið 1914 og vígð það ár, 20. desember. Vígsluna framkvæmdi Þórhallur Bjarnason biskup. Safnast var saman vígsludaginn við barnaskólahúsið og þaðan gengið til kirkju klukkan 12 á hádegi.
Í broddi fylkingar fór biskup og sóknarpresur, síra Árni Björnsson, en næstir þeim voru prófastur, síra Kristinn Daníelsson og síra Bjarni Jónsson og þá þeir síra Árni Þorsteinsson og síra Janus Jónsson, allir hempuklæddir. Þar næst kom sóknanefnd og þar á eftir aðrir kirkjugestir einnig í skrúðgöngu. Þegar að kirkju kom var klukkum hringt og leikið preludium á orgelið og því næst hófst sálmasöngur. Þar á eftir flutti biskup vígsluræðu, frá háaltari, og svo hin venjulega messugerð. Stólræðuna flutti sóknarpresturinn, en prófastur tónaði.
Um tólf hundruð manns voru viðstaddir athöfn þessa, eftir því sem nánast var talið. Sagt er að kirkjan taki 450 manns í sæti. — Athöfnin fór virðulega fram, enda til hennar vandað eftir föngum.
Um kvöldið bauð Ágúst kaupmaður Flygenring og kona hans biskupi, prestunum, kirkjusmiðnum, svo og öllum starfsmönnum kirkjunnar til kvöldverðar að heimili sínu, og var þar veitt af mikilli rausn. — Kirkjuvígslunnar er hér getið, því ekki var hennar minnzt í blöðunum, sakir annríkis í prentsmiðjunum fyrir jólin.
Fyrstur manna var jarðsunginn frá kirkjunni Guðni Þorláksson, yfirsmiður hennar. Naumast var lokið smíði kirkjunnar, er hann tók sótt þá, er dró hanri til dauða.
Fyrstu hjónin, sem gefin voru saman í kirkjunni, voru Björn Árnason og Guðfinna Sigurðardóttir frá Ási.

Kirkjugarðsvígsla

Hafnarfjarðarkirkjugarður

Kirkjugarðurinn á Öldum.

Hinn nýi kirkjugarður Hafnarfjarðarkaupstaðar, uppi á svonefndum Öldum, var tekinn til notkunar og vígður 3. marz 1921 að viðstöddu miklu fjölmenni. Athöfnin fór fram kl. 3 í hinum nýja grafreit. Sunginn var viðeigandi sálmur, og að því loknu hóf prófasturinn, síra Árni Björnsson, vígsluræðu og þar á eftir var sunginn sálmur. Að því loknu var jarðsett lík Einars Jóhannessonar Hansen, hið fyrsta í grafreit þessum. Hann var moldu ausinn af presti sínum, síra Ólafi Ólafssyni, fríkirkjupresti, og loks var sálmur sunginn. Söngflokkar beggja kirknanna sungu við athöfn þessa. Bylslitringur var á, dimmviðri og vestangarri.

Hafnarfjarðarkirkjugarður

Kirkjugarður Hafnarfjarðar hefur þjónustað Hafnfirðinga og nærsveitunga frá víglsudegi, 3. mars 1921. Garðurinn var vígður að viðstöddu fjölmenni séra Árni Björnsson prófastur flutti vígsluræðuna og var Einar Jóhannesson Hansen jarðsettur. Einar er því vökumaður garðsins. Þjóðtrúin segir að sá sem er fyrst grafinn í kirkjugarði eigi að vaka yfir garðinum og taka á móti þeim sem eru greftraðir þar á eftir honum.

Hinn nýi grafreitur á svo nefndum öldum, stendur á þurru moldarbarði. Þegar nokkuð kemur niður í grafirnar tekur við deiglumór, svo að grafirnar eru þarna þurrar og þokkalegar. Steyptur garður er í kringum reitinn. Inni í honum er dálítið skýli, til afnota fyrir gæzlumann garðsins.“

Heimildir:
-Akranes, 4.-6. tbl. 01.04.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 59.
-Akranes, 7.-9. tbl. 01.07.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 99.
Friðrik Bjarnason