Færslur

Garðskagaviti

Í Víkurfréttum í septembermánuði 2014 var stutt frásögn um “Garðskagavita” í tilefni af 70 ára afmæli hans:

Garðskagaviti

Garðskagaviti.

“Vitinn var formlega vígður þann 10. september lýðveldisárið 1944 en hann var byggður á þremur mánuðum af 10-15 manna vinnuflokki, undir stjórn Sigurðar Péturssonar frá Sauðárkróki.
Hinn reisulegi Garðskagaviti, sem hannaður er af Axel Sveinssyni verkfræðingi, kom í stað eldri Garðskagavita sem þótti of lágur og einnig í hættu vegna landbrots.
Hinn sívali kóníski steinsteyputurn er 28,6 m að hæð með ljóshúsi sem er ensk smíð. Vitinn var húðaður með ljósu kvarsi í upphafi en var kústaður með hvítu viðgerðar- og þéttiefni árið 1986.
Í fyrstu voru notuð ljóstækin úr eldri Garðskagavitanum en árið 1946 var vitinn rafvæddur. Árið 1960 var skipt um linsu og í stað linsunnar frá 1897 var sett fjórföld snúiningslinsa.
Garðskagi var einn þeirra vitastaða þar sem vitavörður hafði fasta búsetu og stóð svo fram til 1979. Vitavarðarhús stendur enn en það var byggt árið 1933 eftir teikningum Einars Erlendssonar arkitekts.

Garðskagaviti

Garðskagaviti vígður – Svanhildur Ólafía Guðjónsdóttir (Lóa) frá Réttarholti í Garði.

Garðskagaviti var vígður sunnudaginn 10. september 1944, með mikilli viðhöfn. Fór vígslan fram með útiguðsþjónustu. Séra Eiríkur Brynjólfsson, sóknarprestur predikaði, kirkjukórar Útskála- og Keflavíkursókna sungu, en Emil Jónsson, vitamálastjóri flutti vígsluræðuna. þakkaði hann sóknarprestinum, séra Eiríki Brynjólfssyni á Útskálum, sem hafði undirbúið hátíðarhaldið, en það væri í fyrsta sinn sem tekið væri á móti nýjum vita í héraði af slíkum myndarskap, segir í samantekt á vef Sveitarfélagsins Garðs.”

Í blaðinu “Reykjanes” 2013 var fjallað um “Gamla vitann og Garðskagavita”:

Gamli vitinn

Garðskagaviti

Gamli Garðskagaviti um 1940.

“Gamli vitinn var byggður árið 1897. Danska flotamálastjórnin sá um byggingu hans. Bygging vitans var merkisviðburður en í byggðarlaginu þá voru aðallega torfbæir og nokkur timburhús.
Ljós Garðskagavitans sló bjarma á nágrennið, þar sem menn notuðust við ófullkomin olíuljós og lýsislampa, utanhússlýsing var engin. Ég minnist hve gamlir menn lýstu þessu skæra ljósi af miklum fjálgleik.”

Garðskagaviti
Garðskagaviti
“Sigurður Pétursson annaðist byggingu 60 vita hér á landi. Voru þá vitar landsins orðnir 140, þó aðeins væru liðin 66 ár frá því að fyrsti vitinn var reistur (Reykjanesviti). Emil Jónsson, vitamálastjóri, flutti vígsluræðuna.
Þakkaði hann sóknarprestinum, séra Eiríki Brynjólfssyni á Útskálum, sem hafði undirbúið hátíðarhaldið, en það væri í fyrsta sinn sem tekið væri á móti nýjum vita í héraði af slíkum myndarskap. „Minnir það mig á”, sagði Emil í ræðu sinni, „að fyrstu sagnir um leiðarljós fyrir sjómenn á Íslandi, eru tengdar við kirkjuna. Mér hefir verið á það bent, að verið hafi hér til forna, um 1200 og jafnvel fyrr ákvæði um að ljós skyldi loga í ákveðnum kirkjum, allar nætur tiltekin tímabil.”

Garðskagaviti

Gamli Garðskagaviti.

Þegar þessi ákvæði voru rannsökuð nánar kom í ljós, að flestar þær kirkjur, sem hér var um að ræða, voru nálægt sjó, og á þeim stöðum þar sem ætla má að sjófarendur hafi getað notið þeirra.”
Er ræða Emils Jónssonar mjög fróðleg og um margt merkileg. – (Ræða Emils er prentuð í Suðurnesjablaðinu FAXA, nóv.-blaði 1944).”

Heimildir:
-Víkurfréttir, 35. tbl. 11.09.2014, Garðskagaviti, bls. 19.
-Reykjanes, 14. tbl. 08.08.2013, Gamli vitinn og Garðskagaviti, bls. 12.

Reykjanesviti

Garðskagaviti – ræða Emils Jónssonar við vígslu vitans 10. september 1944.