Tag Archive for: Garðskagi

Garðaskagaviti

Gengið var frá Útskálum um Garðskaga og með Skagagarðinum að Hafurbjarnastöðum, Kirkjubóli og um Flankastaði að Sandgerði.

Garðsskagaviti

Gamli Garðsskagaviti.

Strönd suðvesturhornsins og Reykjanesskagans er mjög fjölbreytt; sandstrendur, sjávarbjörg, grýttar fjörur eða ýmis konar bergmyndanir í flæðarmálinu. Svæðið hentar því vel til gönguferða og er mátulega langt frá höfuðborginni. Við ströndina er fjölskrúðugt fuglalíf, ekki síst á vorin. Þar fer saman stórkostleg náttúra og lífríki, hreint umhverfi og að mestu óbyggt svæði. Að þessu sinni var gengið ofan strandar, en víða má finna skoðunarverða staði á svæðinu.

Garður

Útskálar.

Útskálar var og er kirkjustaður og prestsetur í Garði, eða Sveitarfélaginu Garði eins og það heitir nú. Útskálar voru eitt mesta höfuðból á Suðurnesjum ásamt Stóra Hólmi í Leiru og Kirkjubóli á Miðnesi. Útskálakirkja var helguð Pétri postula og Þorláki biskupi fyrr á tíð. Kirkja sú er nú stendur á Útskálum var reist á árunum 1861-1863, timburhús á hlöðnum grunni, með sönglofti, forkirkju og turni. Kirkjugarðurinn er athygluverður enda tengjast mörg leiðin fólki og atburðum í Garði og nágrenni, ekki síst miklum sjósköðum fyrrum.

Garður

Garður – byggðasafnið.

Vitinn á Garðskaga trjónir til lofts hvaðan sem litið er í Garði. Hann var byggður árið 1944, en eldri vitinn á Garðskagatá var reistur 1897, en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884.
Garðskagi er nyrzti hluti skagans, sem gengur til norðurs, yzt á Reykjanesi. Þar var viti fyrst reistur árið 1897, þar sem hafði verið leiðarmerki, varða frá 1847 með með ljóskeri frá 1884. Árið 1944 var byggður nýr viti. Gamli vitinn var notaður sem fuglaathugunarstaður á vegum Náttúrufræðistofnunar á árunum 1962-1978.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – kort.

Garðskagi er einn af beztu fuglaskoðunarstöðum Reykjaness og er mikið um farfugla þar vor og haust. Fuglaskoðarar flykkjast þangað til að heilsa upp á vini sína og vonast til að eignast nýja. Gamli Vitinn, sem fremst stendur er vinsælt efni ljósmyndara og í honum má sjá kort af Garðskaga þar sem skipströnd fyrri ára eru merkt og ýmsar upplýsingar eru þar um strandlengjuna.
Greinileg merki um akuryrkju hafa fundizt á Garðskaga, enda dregur hann nafn af Skagagarðinum, sem liggur á milli túnsins á Útskála og Túnsins á Kirkjubóli. Þessi garður var byggður til varnar akurlendinu. Fyrir aldamótin 1900 sást móta fyrir 18 akurreinum, sem voru aðskildar með görðum.
Frá Útskálum var gömlu kirkjugötunni fylgt áleiðis að og ofan við íþróttahúsið ofan við Síkið. Við hana eru tóftir gamalla kota sem og fornmannagröf, að talið er. Við hana er letursteinn, sem ekki hefur tekist að ráða í.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Gengið var til baka eftir götunni og beygt upp að enda Skagagarðsins, sem enn er sýnilegur, ofan við aðalgötuna í gegnum þorpið. Þar liggur hann beint upp í hæðina, áleiðis að Kirkjubóli.
Skagagarðurinn, sem mun vera forn, girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn var aðlíðandi norðanmeginn, en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.
Fáum mun kunnugt um Skagagarðinn sem forðum lá frá túngarðinum á Kirkjubóli norður í túngarðinn á Útskálum. Engu að síður er hér um að ræða einhverjar merkustu fornminjar landsins og gefa okkur vísbendingar um löngu horfna starfshætti.

Garðsskagi

Skagagarðurinn – loftmynd 1954.

Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.

Garðskagi

Garðsskagaviti.

Garðinum var fylgt til vesturs. Ofarlega í hæðinni eru tóftir Skálareykja. Þar við var læst hlið á Skagagarðinum. Vörslumaður hliðsins bjó að Skálareykjum.
Garðinum var fylgt áfram yfir þjóðveginn milli Garðs og Sandgerðis og þá var stutt eftir að Hafurbjarnarstöðum.
Hafurbjarnastaðir hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar. Bein og gripir voru flutt í Forngripasafnið, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við. Alls voru í teignum 9 kuml og í þeim bein 7 eða ef til vill 8 manna og hafa þau verið rannsökuð. Einnig var mikið af beinaleifum hunda og hesta. Allmargt gripa fannst þar, vopn, skartgripir og fleira og sennilega hefur verið þar bátskuml.
Haldið var yfir að Kirkjubóli, sem nú er á golfvelli Sandgerðinga. Kirkjuból var mikil jörð og oft setin áður af höfðingjum. Það var áður þar sem nú heitir Gamlaból. Sá atburður gerðist vorið 1433 að hópur manna, sveinar Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forustu Magnúsar nokkurs kæmeistara hafði beðið Margrétar, dóttur Vigfúsar hirðstjóra Hólms, en fengið hryggbrot. Reiddist Magnús og ákvað að brenna Margréti inni á Kirkjubóli. Hún var þó eina manneskjan sem komst úr eldinum komst á þreveturt trippi og gat flúið. Hét hún að giftast þeim manni sem hefndi hennar. Það gerði Þorvaldur Loftsson á Möðruvöllum og fékk hann Margrétar.

Kirkjuból

Kirkjuból – loftmynd 1954.

Árið 1550 var síðasti kaþólski biskupuinn á Íslandi tekinn af lífi. Sá sem kvað upp úrskurðinn um að biskup skyldi líflátinn hét Kristján og var umboðsmaður danska hirðstjórans á Íslandi. Í ársbyrjum 1551 fór Kristján með fjölmennu liði á Suðurnes í erindum konungs og tók sér gistingu að Kirkjubóli. Um nóttina réðust Norðlendingar að bænum fengu leyfi bóndans þar til að rjúfa þekjuna, réðust að Kristján og mönnum hans og drápu þá fleiri eða færri. Voru Kristján og fylgdarmenn hans dysjaðir fyrir norðan túngarð á Kirkjubóli, á Draughól. Þótti þar reimt, svo að Norðlendingar fóru aftur, grófu líkin upp og hjuggu höfuðin en settu nefin milli þjóana. Þetta þótti mönnum hin mesta smán og svívirðing og er fréttin barst til Danmerkur og töldu að níðst hefði verið á líkunum.

Garður

Letursteinn á fornmannaleiði í Garði.

Leiddi þessi atburður til þess að árið eftir komu danskir hermenn að Kirkjubóli, tóku bóndann og fluttu í Straum og hálshjuggu þar. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.
Gengið var um Flankastaði, en að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.
Þá var komið í Sandgerði. Það er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi. Elsta húsið í Sandgerði, Sáðgerði eða Efra-Sandgerði, sem er nyrst í plássinu við Sandgerðistjörn. Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_gardskagi.htm
-http://www.islandsvefurinn.is/landshlutar.asp?lysing=sws&hluti=sws&menu=sw
-http://www.sandgerdi.is/igen.asp?ID=361&pID=348&rvID=6358

Hafurbjarnastaðir

Gripir sem fundust í kumli við Hafurbjarnastaði.

Garðskagi

Fyrstu heimildir um ljósvita á Garðskaga er frá því 1847, en þá var hlaðin varða til leiðarvísis sjófarendum. Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. Í blöðunum frá þeim tíma segir, að í ágústmánuði 1847 hafi komið með póstskipinu smíðuð járnvarða, sem setja eigi upp á Garðskaga, til leiðarvísis skipum sem sigldi inn Faxaflóa. Gert er ráð fyrir, að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verði hlaðinn, verði 15 álna há (3,7m). Þetta var leiðarmerki um daga en ekki viti.

Garðskagi

Garðskagi – Gamli Garðskagavitinn.

Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. Það var ferstrengd bygging úr steinsteypu, 12.5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús, þar sem vitavörðurinn hélt til um nætur. Umhverfis vitan var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 metrar á hæð. Í vitanum voru sett mjög vönduð ljósatæki, sem var olíulampi. Ljósbrjótur magnaði ljósið og sneri lóðaklukka ljósbrjótnum. Hana þurfti að vinda upp á fjögra klukkustunda fresti og því talið nauðsynlegt, að vitavörðurinn dveldist í varðhúsinu um nætur. Á síðari árum þótti ekki hættulaust að dveljast í vitanum þegar mikið brimaði og var þá vitans gætt frá vitavarðahúsinu.

Garðskagi

Garðskagi – Nýi Garðskagaviti.

Nýr viti var svo byggður á Garðskaga árið 1944 og var ein höfuðástæða þess, að sjór hafði gengið mikið á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Nýji vitinn er sívalur turn úr steinsteypu, 28 m. á hæð með ljóshúsi. Garðskagavitin mun vera hæsti viti á landinu, það er að segja, byggingin sjálf. Ljóstæki gamla vitans voru flutt yfir í nýja vitann, en fljótlega kom þó rafljós í stað olíuljóssins, í fyrstu frá vindrafstöð, en síðar frá Sogsvirkjuninni og var ljósmagn vitans aukið um leið. Árið 1961 var vitinn búinn sænskum ljóstækjum og var hann með sömu ljósmerkjum og sá gamli (upplýsingar um ljósmerki). Radiomiðstöð var tekin í notkun á Garðskaga árið 1952 fyrir atbeina Slysavarnafélags Íslands og fjórum árum síðar var sú stöð leyst af hólmi með ljósradiomiðunarstöð, sem er miklu langdrægari og fullkomnari.

Garðskagi

Garðskagi – nýi vitinn.

Í BS-ritgerð Sigurlaugar Herdísar Friðriksdóttur í Lanbúnaðarháskóla Íslands, „Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu“ frá árinu 2022 má lesa eftirfarandi um minjar á Garðskaga:

Fyrsti viti
Árið 1847 var elsti vitinn á Garðskaga hlaðinn en það var hlaðin grjótvarða. Grjótvarðan var 7 m á hæð og upp úr henni stóð 3,7 m hár járnkarl. Árið 1884 var síðan sett lítið timburskýli á vörðuna og inn í það var sett ljósker. Talið er að grjótvarðan hafi verið um 100 m norðvestan við gamla Garðskagavita.

Gamli viti

Garðskagi

Garðskagi – Gamli vitinn.

Árið 1897 var síðan byggður viti á Garðskagatá. Vitinn var byggður eftir teikningu frá danskri vitamálastjórn. Gamli vitinn er ferstrendur og byggður úr steinsteypu. Vitinn er um 11,4 m á hæð en með ljóshúsi var hæð hans um 15 m. Byggð var varðstofa við vitann og árið 1933 var gert anddyri við varðstofuna.
Þegar vitinn var fyrst byggður var gras fyrir framan hann og náði það líklega fram á Garðskagarif. Í dag er land alveg gróðurlaust í kringum vitann. Skömmu eftir að vitinn var byggður sáust merki um að tanginn sem vitinn er á væri að verða fyrir rofi vegna sjávargangs. Erfitt var orðið að komast að vitanum í slæmu veðri skömmu eftir að hann var byggður og var því byggð göngubrú yfir í vitann árið 1912. Vegna sjávarrofs við vitann var steyptur pallur við hann árið 1925.

Garðskagaviti

Garðskagaviti vígður – Svanhildur Ólafía Guðjónsdóttir (Lóa) frá Réttarholti í Garði.

Gamla vitanum var lokað þegar nýr viti var byggður en vitinn hefur þó gegnt ýmiss konar tilgangi síðan þá. Á árunum 1962-1978 notaði Náttúrufræðistofnun Íslands vitann sem fuglaathugunarstöð. Í dag er hægt að leigja vitann við ýmis tilefni, til að mynda fundi eða í skemmtanir. Árið 2003 var vitinn friðaður.

Nýi viti

Nýi vitinn á Garðskaga var byggður árið 1944 og var hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi. Vitinn er sívalur og er um 28,6 m hár frá undirstöðu að ljóshúsi. Neðst er þvermál vitans 7,5 m en 5 m efst. Garðskagaviti er hæsti sérbyggði vitinn á Íslandi. Vitinn er steinsteyptur og var húðaður með ljósu kvarsi en árið 1986 var hann kústaður með hvítu þéttiefni.
Vitavörður hafði fasta búsetu á svæðinu og starfaði við vitavörslu til ársins 1979. Haldnar hafa verið ýmsar listasýningar í nýja vitanum. Til að mynda hefur meðal annars verið haldin hvalasýning með teikningum, Norðurljósasýning RAX og vitasýning af vitum á Suðurnesjum.

Vitavarðarhús

Garðskagi

Garðskagi – Vitavarðahúsið.

Byggt var vitavarðahús árið 1933, húsið er steinsteypt og var notað sem íbúðarhús fyrir vitavörð. Árið 1951 var byggð viðbygging við vitavarðarhúsið en það var ferkantaður turn sem notaður var fyrir miðunarstöð og nokkur útihús tilheyrðu einnig búi vitavarðar. Húsið hefur nú verið notað undir ýmsar listasýningar ásamt því sem húsið hefur verið nýtt sem aðstaða fyrir sölu á handverkum.

Mikið er um minjar í Garðskaga. Svæðið hefur langa sögu af akuryrkju og hefur breski herinn einnig verið með viðveru á svæðinu á sínum tíma.

Garðskagi

Breskir dátar í viðbragðsstöðu við Garðskagavöll.

Gamli Garðskagaviti er einnig talinn til minja á svæðinu.
Steypt gangstétt lá frá gamla vita að bæjarstæði og var hún 170m á lengd og 1m á breidd. Í dag er enn steypt göngubrú sem liggur frá gamla vita að bílastæðinu. Göngubrúin er um 40 m á lengd og hefur henni verið haldið við með hlöðnu stórgrýti meðfram henni til þess að forðast rof.

Bær

Á árum áður var bær suðaustan við gamla vitann, fyrir framan vitavarðarhúsið, en ekki er hægt að sjá greinilegt byggingarlag fyrir bænum í dag.

Útihús
Nokkur útihús voru við bæinn en talið er að þau hafi verið þrjú í heildina.

Garðskagi

Garðskagi – túnakort 1919.

Fyrsta útihúsið var norðvestan á Garðskaga, nálægt nýjum vita, og tengdist bænum sem var þar áður. Í dag má sjá steyptan sökkul þar sem útihúsið stóð en sökkullinn er 3,2×3,2 m að stærð og er um 0,2 m á hæð. Annað útihús var norðan við vitavarðarhúsið en ekki sjást nein ummerki um útihúsið. Þriðja útihúsið var við vitavarðahúsið en engin ummerki eru um útihúsið.

Kálgarður

Garðskagi

Garðskagi – túnakortið frá 1919 sett ofan á loftmynd 2020.

Kálgarður var við bæjarstað og útihús 1. Ummerki um kálgarðinn sjást ekki en hins vegar var gerði við kálgarðinn sem er enn varðveitt í dag. Kálgarðurinn var 35x23m að stærð og myndaði 90 gráðu horn. Á norðurhluta kálgarðsins var kantur sem afmarkaði garðinn. Veggirnir á kantinum sjást enn og er hann frá 0,4m – 0,8m á hæð.

Akurreinar
Á Garðskaga voru akurreinar girtar af en þeim var skipt í fernt. Sumar akurreinarnar voru aflangar. Garðarnir voru hlaðnir upp úr klömbrum eða sverði. Lítið var um að hlaða þessa garða upp úr grjóti. Leifar eru af þessum görðum en um 18 akurreinar er um að ræða.

Túngarðar

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Á svæðinu voru þrír túngarðar en má finna ummerki um tvo af þeim. Fyrsti túngarðurinn var í kringum tún bæjarins á Garðskaga en ekki eru ummerki um túngarðinn í dag. Annar túngarðurinn var við tún á suðvesturhorni Garðskaga, við núverandi veg. Garðurinn var um 100m langur og sjást leifar af honum í dag. Garðurinn er um 0,5m breiður og hæsti puntur er um 0,6m hár. Þriðji túngarðurinn og einn elsti garður á svæðinu er túngarður sem er staðsettur rúmum 160m frá strönd. Garðurinn er talin vera partur af rúmum 230m kafla af garði en tengsl á milli hafa rofnað á nokkrum stöðum. Túngarðurinn er um 4-6 m á breidd og er á milli 0,2m – 0,3m á hæð.

Skagavöllur

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Þann 10. maí 1940 hernam Breski herinn Ísland. Á þessum tíma voru ekki til flugvellir á Íslandi en flugvélar voru mikilvæg hernaðartól og þurfti herinn því flugvelli. Mikilvægt var að finna staði sem voru nálægt siglingarleiðum. Herinn hafði ekki tæki og stórar vinnuvélar og því var einnig þörf fyrir að finna svæði þar sem hægt væri að gera flugbrautir á skömmum tíma með litlum kostnaði. Fundu þeir slíkt svæði á Garðskaga þar sem landið þar er óvenju slétt og jarðvegur þéttur og sendinn þannig að vatn settist hvergi að í langan tíma í senn. Samið var við landeigendur á svæðinu og hófust framkvæmdir á flugvellinum haustið 1940. Menn úr Garðinum, Sandgerði og annars staðar af Suðurnesjunum unnu við verkið.

Garðskagi

Garðskagaflatir – loftmynd 1954.

Stærsta verkið var að jafna völlinn þar sem torfið var fært til og síðan tyrft aftur yfir. Bifreiðar, hjólbörur og hestvagnar voru notaðir við að færa sand og túnþökur. Flugvöllurinn var síðan tilbúinn vorið 1941 og fyrsta flugvél lenti á vellinum einn sumardaginn síðar það árið. Flugbrautin var um 90 m breið og 1050 m löng en hún náði frá Garðskagavegi að Hafurbjarnastöðum. Flugvöllurinn var hins vegar ekki notaður mikið þar sem Bandaríkamenn byggðu stærri flugvöll á Miðnesheiði. Skagavöllurinn var því helst notaður sem neyðar- eða æfingavöllur.“

Heimild:
-Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu, Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir, 2022.
-https://www.visitreykjanes.is/is/stadur/vitarnir-a-gardskaga

Garðskagi

Garðskagi – minjastaðir.