Færslur

Garðsstígur

Gengið var eftir Garðsstíg (Garðvegi) til suðurs að Grófinni í Keflavík. Leiðin lá um svonefndan Garðstíg efri, þ.e. um Langholtin, Ytra- og Innra-Langholt.
Önnur leið var mun neðan Langholtanna milli Garðs og Berghóla, skammt ofan heimagarða Leiru, Hólma og Gufuskála, en á Berghólum komu leiðirnar saman síðasta spölinn í Grófina í Keflavík.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Neðri leiðin sést spottkorn enn rétt ofan garðs við Hólm og Gufuskála. Viðhald og virðing hennar hefur verið vanrækt, líkt og um aðrar gamlar þjóðleiðir á Suðurnesjum.
Gengið var sem sagt um ofanverðan Inn-Garð. Ætlunin var m.a. að skoða Elínarstekk (Ellustekk), tóftir Heiðarhúss, Hríshólavörðu, Þrívörður, Árnaborgina og/eða Smalaskálaflatir/-borg. Einnig að ganga um Langholtin, skoða Langholtsvörður, Ranglát og Pretsvörðuna og halda síðan til suðurs utan Bergvatna að Grófinni ofan við Keflavík.

Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk (Elínarstekk). Hún stendur á Hríshólum. Gamlar götur út úr Garði lágu við Langholt og Hríshólavörðu. Þær nefndust Efrivegur. Neðrivegur lá ofan við Leirubæina. Enn sést móta fyrir götum þessum, einkum norðvestan og ofan við Langholtin. Einnig á Berghólum og áleiðis að Grófinni.

Ellustekkur

Svæðið innan við Garð hefur verið raskað að nokkru, bæði með vegaslóðum og malar- og grjótnámi, auk þess sem allnokkur gróðureyðing hefur orðið á Miðnesheiðinni. Þess vegna er sá hluti gömlu þjóðleiðarinnar sem hefur varðveist því merkilegri og mikilvægt að gæta þess vel að honum verði ekki raskað frekar (en nauðsynlegt er).

Það verður að teljast til fyrirmyndar að búið er að merkja margar minjar í og við Garð. Veg og vanda af því hefur Guðmundur Garðarsson (Bóbi) haft, en hann á m.a. ættir að rekja til Rafnkelsstaða.

Garður

Garður og nágrenni – herforingjaráðskort 1903.

Keflavíkurjörðin var ekki stór og eru merki glögg og um óumdeilt eignarland að ræða. Sömu sögu er að segja frá jörðum í Gerðahreppi. Þegar jarðabókin var tekin saman árið 1703 voru alls sextán jarðir í byggð í Garði og Leiru auk Útskála. Jarðirnar voru þessar: Hrúðurnes, Stórihólmur, Litlihólmur, Gufuskálar, Meiðsataðir, Ívarshús, Kothús, Varir, Brekka, Skeggjastaðir, Gauksstaðir, Gerðar, Miðhús, Lambastaðir, Rafnkelsstaðir og Krókur og að auki er getið Heiðarhúsa, sem stóð á heiðinni upp af Meiðastöðum og Rafnkelsstöðum.

Ranglát

Ranglát.

Heiðarhús varð klausturseign og síðar konungs. Síðar fór hún í eyði, en var nýtt frá nærliggjandi jörðum. Töluverðar breytingar hafa síðustu áratugi átt sér stað í Garðinum. Leiran er komin í eyði og á landi landnámsjarðarinnar Stóra-Hólms er nú golfvöllur. Í Gerðalandi hefur byggðin á hinn bóginn vaxið ört og þar er myndarlegt þéttbýli. Saga og þróun þessarar byggðar var m.a. rakin í “innanbæjargöngu” um Garð daginn áður þar sem t.a.m. var skoðað fornmannaleiði í miðri byggðinni, rakin saga útgerðar niður við Gerðahöfnina, sagt frá vörum, sjósókn og sjósköðum með ströndinni, lýst sögu Útskálakirkju og nágrenni og skýrt einkennismerki Garðs, Skagagarðurinn mikli, sem og rakin saga þess mannvirkis er enn er bæði ásjálegt og áþreifanlegt milli Garðs og Kirkjubóls.
Þegar komið var út fyrir þéttbýlið á innleið, en eins og heimamenn vita voru einungis tvær áttir í Garði, þ.e. austur og vestur (hinar voru inn (suður) og út (norður)), var staðnæmst við gróna þúst ofan við þjóðveginn; Ellustekk.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Skúli Magnússon segir í Faxa, október 1999, frá Elínarstekk (Ellustekk) utan við Garð.
“Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimsstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.
Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
HolurtElín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.
Láti Elínar og aðdraganda þess, svo og hulun líks hennar og frágangi þess, er lýst í Dóma- og þingbókum Gullbringusýslu. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögðu líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr.
Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fór neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Heimildarmaður minn, Ólafur Sigurjónsson, kallaði stekkinn aldrei annað en Elínarstekk, en í heimildum Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 9. febr. 1969, bls. 108-112, virðist hann nefndur Gufuskálastekkur og hefur það að öllum líkindum verið upprunalegt nafn hans. Eftir greftrun Elínar hefur nafn stekksins breyst en hið eldra heiti líklega fallið úr daglegu máli og gleymst.”

Garðsstígur

Þrívörður.

Ellustekks er getið í örnefnalýsingu fyrir Rafnkelsstaði. Þar segir: “Hér voru býli, sem eru farin í eyði: Þórðarbær, Bjarnabær, Pálsbær og Finnsbær. Rétt ofan við nýja veginn er Ellustekkur, sem ber við himin frá bæ séð.” Grænagróf er í berginu innan Rafnkelsstaða, beint niður af Ellustekk. Stekkurinn mun því vera í Rafnkelsstaðalandi, en ekki Gufuskála.

Efri vegur liggur að norðanverðum Langholtum neðan Hríshólavörðu. Varðan sést vel ofan við Ellustekk. Síðan liggur hún niður fyrir holtin. Fyrst hefur henni verið raskað með trönum, síðan stríðsathöfnum og loks námuvinnslu. Handan þessa svæðis sést gatan vel neðan við holtin.
Til norðurs lá leiðin neðan við Heiðarbæ og kom niður þar sem nú er elliheimilið í Garði. Sunnan við Langholtin er gatan vel greinileg þar sem hún liðast um móann áleiðis að Berghólum.

Gengið var neðan tófta Heiðarhúss ofar í heiðinni. Þar mótar fyrir húsum og görðum. Í Þjóðsögum Jón Árnasonar segir: “Það er í munnmælum haft að Heiðarhús sem eru spölkorn fyrir ofan Inngarðinn hafi í fornöld verið mesti stórbær svo að þar væru þrjátíu hurðir á hjörum, en hafi aflagt fyrir reimleika sakir. Var sá draugur nefndur Heiðarhúsadraugur. Skyldi einn þar búandi maurapúki peningaauðugur hafa gengið aftur til skildinganna. Þókti þar ekki viðvært lengi fram eftir jafnvel þó þar séu tún hin beztu.

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Sigurður og Svanhildur kona hans bjuggu í Heiðarhúsum um 1805. Svanhildur var talin forneskjukerling. Sigurður reri þar í Garðinum sem fleiri og kom oft seint heim á kvöldin frá sjónum. Einu sinni seint um kvöld er Svanhildur sat inni, en Sigurður var ekki kominn frá sjónum, var kallað á gluggann hjá henni: “Ég vil mitt.” Þá svaraði hún: “Taktu þitt og farð’ í burtu.” Svo fóru leikar að þeim þókti þar svo óskemmtilegt að þau fóru þaðan.”
Í athugsasemdum við örnefnalýsingu Rafnkelsstaða segir að “Heiðarhús eru nú löngu komin í eyði. Þó man Halldór [Þorsteinsson í Vörum] eftir karli, sem búið hafði tómthúsbúi í Heiðarhúsum og var við þau kenndur. Þarna var talsvert ræktað land, sem Rafnkelsstaðamenn og Meiðastaðamenn deildu um áður fyrr, en hvorugir gátu helgað sér það, því að það var í óskiptu landi.”

Hér fyrir neðan voru býli, sem eru farin í eyði: Þórðarbær, Bjarnabær, Pálsbær og Finnsbær. Rétt ofan við nýja veginn er Ellustekkur, sem ber við himin frá bæ séð. Grænagróf er dokk niður í bergið. Þar er mikil huldufólks byggð.
Þá er hið óskipta land uppi í heiðinni. Beint hér upp af er eyðibýlið Heiðarhús. Virðist það hafa verið allmiklar byggingar og mikil jörð. Þar innar eru Smalaskálaflatir og Hríshólavarða, og framhald af henni er svo Langholt, sem nær áfram fyrir ofan Leiruna.

Garðsstígur

Garðsstígur – fisktrönur.

Grænugróf er fyrir neðan veginn, niður af Ellustekk. Heiðarhús eru nú löngu komin í eyði. Þó man Halldór eftir karli, sem búið hafði tómthúsbúi í Heiðarhúsum og var við þau kenndur. Þarna var talsvert ræktað land, sem Rafnkelsstaðamenn og Meiðastaðamenn deildu um áður fyrr, en hvorugir gátu helgað sér það, því að það var í óskiptu landi.

Það er í munnmælum haft að Heiðarhús sem eru spölkorn fyrir ofan Inngarðinn hafi í fornöld verið mesti stórbær svo að þar væru þrjátíu hurðir á hjörum, en hafi aflagt fyrir reimleika sakir. Var sá draugur nefndur Heiðarhúsadraugur. Skyldi einn þar búandi maurapúki peningaauðugur hafa gengið aftur til skildinganna. Þókti þar ekki viðvært lengi fram eftir jafnvel þó þar séu tún hin beztu. Sigurður og Svanhildur kona hans bjuggu í Heiðarhúsum um 1805. Svanhildur var talin forneskjukerling. Sigurður reri þar í Garðinum sem fleiri og kom oft seint heim á kvöldin frá sjónum. Einu sinni seint um kvöld er Svanhildur sat inni, en Sigurður var ekki kominn frá sjónum, var kallað á gluggann hjá henni: “Ég vil mitt.” Þá svaraði hún: “Taktu þitt og farð’ í burtu.” Svo fóru leikar að þeim þókti þar svo óskemmtilegt að þau fóru þaðan.

Hríshólavarða

Hríshólavarða.

Innsti bærinn í Garði er Rafnkelsstaðir, þá koma Meiðastaðir, síðan Kothús niðri við sjóinn og Varir þar skammt fyrir utan. Í landi þessara jarða standa nú íbúðarhús, sem reist hafa verið á seinni árum eftir að fólki fór mikið að fjölga í Garðinum. Í vörunum var mikið útræði, enda lending þar góð um sund sem Varaós var. Ósvarða er ofarlega í heiðinni. Frá Rafnkelsstöðum að Garðskaga teljast 14 nafngreindar varir er segja nokkuð til um fjölda uppsátra þarna við ströndina fyrrum.
Neðan við fiskhúsin er ós, sem nefnist Kópa. Inn úr henni eru Meiðastaðavör og Rafnkelsstaðavör, erfiðar varir. Fyrir ofan veg, uppi í heiði, er Árnarétt, skilarétt. Hana byggði Árni Þorvaldsson, sem hér var stórbóndi. Réttin er skemmtilega hringhlaðin, víðast hvar mannhæðar há.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. frá Bergþóri er bjó á Rafnkelsstöðum. “Hann var maður fjáður einkum að sjávarútvegi og átti mörg skip. Það var þá siður að gjalda sjómönnum skiplag sitt í mjöli, hverjum tvo fjórðunga eða þá annan í mjöli en hinn í hörðum fiski og færið skyldu þeir fá að vertíðarlokum; flestir létu þá fá stykki úr gömlu færi.
Þar var með sjómönnum Bergþórs unglingspiltur úr Norðurlandi ósjóvanur. En er hann vó skiplagið í þetta skipti vildi hann ekki gjalda drengnum nema helminginn og lét hann gjalda þess er hann var ekki sjóvanur.” Sagan er lengi en óþörf ílengdar hér.

Langholt

Ratsjárstöð á Langholti.

Ofan þjóðvegarins eru löng holt; Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Yst á Langholtinu eru steyptir stöplar. Við þá er grónar hringlaga hleðslur, líklega skjól, sem hlaðið hefur verið upp úr ytri-Langholtsvörðunni. Undir holtinu að austanverðu eru grunnar hús. Þarna mun hafa verið loftskeytastöð frá hernum. Tvö möstur voru þarrna, annað hærra en hitt. Norðan svæðisins eru einar af síðustu heillegu fiskitrönum á Suðurnesjum. Að þessu sinni setti blómstrandi silfurskúfur litskrúðugan blæ á umhverfi þeirra.
Innan við mitt Langholtið er stór varða; Innri Langholtsvarðan. Hún var mið af sjó ofan við Leiru.

Í örnefnalýsingu eftir Símon Guðmundsson með ábendingum Guðbjörns Þórarinssonar kemur m.a. eftirfarandi fram um Langholtin og svæðið þar fyrir ofan: “Þau kallast Langholt (ft.). Sandmelur skilur þau í sundur í Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Merki munu liggja yfir melinn á milli þeirra. Vörður eru á báðum Langholtum, lítil á Ytra-Langholti, en stór og mikil á því innra. Þær eru kallaðar Langholtsvörður. Það var gömul trú, að einhverjar vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti.

Garðsstígur

Garðsstígur – fjárborg við Langholt.

Þrívörður eru þrjár og sjást þær vel í suðvestur frá Ytra-Langholti. [Um þær liggja mörk Gufuskála og Rafnkelsstaða í miðjar Sjálfkvíar niður við berg.]
Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk og eru merki í hana eins og áður segir. Klapparhólar eru í kringum hana og stendur hún á einum slíkum. Þeir kallast Hríshólar. – Gamlar götur út í Garð lágu neðan við Langholt og Hríshólavörðu. Götur þessar voru nefndar Efrivegur.” Athugasemdir: “Í landamerkjabréfinu er talað um Hríshalavörðu. Það er líklega misritun fyrir Hríshólavörðu, en svo hafa Símon og Guðbjörn alltaf heyrt vörðu þessa nefnda og Hríshólar heita þar í kring.
Í lýsingu Ara er getið um Grímshól. Hvorki kannast Símon né Guðbjörn við hann í landi Gufuskála og mun hann þar hvergi til.”

VarðaOfan við Langholtin sést móta fyrir smárétt, stekk eða jafnvel fjárborg. Réttin er vestan í stærsta og grónasta hólnum á svæðinu. Sést hleðsla að innanverðu, en vel er gróið að utanverðu. Umhverfis eru góðar grasflatir í annars gróðussnauðu svæðinu. Af móanum og einstaka torfusneplum að dæma hefur þessa svæði verið vel gróið fyrrum. Ekki er að sjá að mannvirkis þessa sé getið í örnefnalýsingum, en hóllinn gæti verið nefndur Grímshóll – eða um gæti verið að ræða Smalaskálann tengdum Smalaskálaflötum þar norðan við. Þorvaldur Halldórsson í Vörum sagðist aðspurður vita hvar Grímshóll hefði verið. Hann væri í Rafnkelsstaðalandi. Hóllinn hefði verið jafnaður út, en hann hefði haft forgöngu um að ýta þar upp hólsmynd að nýju. Guðmundur Garðarsson sagðist aðspurður ekki hafa heyrt um þetta mannvirki. Njáll Benediktsson í Garðinum hefði eflaust vitað eitthvað um þetta, en hann væri því miður látinn. Miðað við örnefnalýsingar er ekki ósennilegt að þarna gæti verið um Smalaskála að ræða er Smalaskálafalatir þar norðan við draga nafn sitt af.

Heiðarhús

Heiðarhús.

Syðst á Langholti er mikil varða; Ranglát. Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði sagði vörðuna hafa verið reista af opinberum aðilum, en ekki er vitað hvenær það var. Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana, Keflavík og Vogum, máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna. Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát.

Garðsstígur

Garðsstígur ofan Garðs.

Tugir manna urðu úti á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld.
Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af “eðlilegum” ástæðum.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. Og enn rölta menn um heiðina, meira og minna “dauðir” fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.
Miðnesheiðin mun hafa, skv. framangreindu, mörgum orðið torveld á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Heimildir eru um að um 60 manns hafi orðið úti á leiðum Miðnesheiðarinnar á u.þ.b. 40 ára tímabili 19. aldar.”

Garðsstígur

Varða við Garðsstíg.

Magnús Þórarinsson segir frá ferðum manna millum byggðalaga á Suðurnesju fyrr á tímum sem og ástæðum þeirra í “Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960.”
“Frá því að föst verslun hófst í Keflavík hafa Suðurnesjamenn, allir vestan Vogastapa, þar með talin Grindavík og nokkuð úr Vogum og Strönd, átt margar göngur til kaupstaðar síns. Mestar voru voru þessar ferðir um vetrartímann, því þá voru allir karlmenn heima við heimili sín. Að vísu fengu flestir bændur, fyrir aldamót, aðalbirgðir til heimila sinna á kauptíðinni á sumrin fluttar á næstu höfn með kaupskipunum, en sífellt þurfti þó að senda menn í Keflavík eftir einhverju, sem vantaði, veiðarfærum og öðru, eftir hendinni. Tómthúsmenn flestir voru fátækir, sem engar höfðu matarbirgðir, og því oftar urðu þeir að “skreppa í Keflavík”, eins og það var oftast nefnt, og bera heim á bakinu forða sinn, ef forða skyldi kalla. Keflavíkurferðirnar urðu mörgum örlagaríkar.

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Þótt margir fleiri “yrðu úti” en þeir, sem í Keflavík skruppu, urðu þeir þó flestir í þessum ferðum, og eru oft til þess eðilegar orsakir, eins og í pottinn er búið. Þeir fóru stundum svangir að heiman og illa klæddir með poka undir hendinni, vafinn utan um tóma flösku. Veit ég ekki til þess að nokkrum hafi hlekkst á leið til Keflavíkur. Oft var ös í búðunum og afgreiðsla í stirðara lagi, því enn var ekki aflagt að gera mannamun. Flestir fengu þó fljótlega mettaða flöskuna, sem var nauðsynlegt, sögðu þeir, til þes að hressa samviskuna og taka úr sér hrollinn. Flýtti það síst fyrir afgreiðslunni. Voru þeir svo að vasast í búðunum fram á kvöld, en lögðu af stað í ófærð og náttmyrkri, stundum í misjöfnu verði, yfir veglausa heiði, meira og minna drukknir, með einhverja byrði á bakinu. Að öllu leyti illa undir tveggja tíma göngu búnir og vanlíðan haldnir eftir daginn. Varð þá athvarfið hjá sumum að fá meira úr flöskunni, þar til afl og dómgreind var horfið. Mátti svo skeika að sköpuðu um framhald ferðarinnar.

Garðsstígur

Garðsstígur.

Þeir, sem betur voru staddir, hjálpuðu hinum meðan máttu, tóku á sig byrði þeira og gengu undir þeim, uns þeir örmögnuðust líka og þá varð að skilja hina eftir. Ég heyrði margar sögur af slíkum ferðalögum á unglingsárum mínum og kynntist þeim af eigin reynd, er ég varð nokkru eldri.

Gunnar Markússon, 56 ára, giftur húsmaður frá Lambastöðum, varð úti nóttina fyrir skírdag 1834. Mun hafa verið drukkinn, sem hann var hneigður til. Fannst á laugardag fyrir páska, óskaddaður framan við melbarð.”

Það er gömul trú, að einhverjir vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti. Þrívörðurnar sjást vel í suðvestur frá Ytra-Langholti. Austasta varðan stendur, en miðvarðan er fallin, nokkru ofar, skammt austan við Garðstíginn. Þrívörður eru mörk Leiru og Garðs.

Garðsstígur

Garðsstígur – fjárborg.

Enn ofar í heiðinni er Árnarétt, heilleg og fallega hlaðin. Hún var skilarétt. Réttina byggði Árni Þorvaldsson, sem hér var stórbóndi áður fyrr. Réttin er skemmtileg í annars kennilausalitlu landslaginu og víðast hvar mannhæðar há. Líklega er hér um sömu rétt að ræða og þegar getið er um “litla rétt” í Smalaholti.
Neðar eru löng holt; Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Syðst á því er mikil varða; Ranglát. Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði sagði vörðuna hafa verið reista af opinberum aðilum, en ekki er vitað hvenær það var. Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna. Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát.
Tengdafaðir Ásgeirs, Guðni Ingimundarsson, sagði honum þetta, en það var Halldór Þorsteinsson útgerðamaður frá Vörum sem sagði honum þetta fyrir mörgum árum. Halldór er nú látinn.

Neðan við sunnanverð Langholtin má sjá stóra vörðufætur við götuna. Grjótið hefur verið fjarlægt, væntanlega til nota í önnur og yngri mannvirki. Skammt sunnar eru gatnamót að götu upp frá Hólmi. Hún er mjó og hlaðin til kantana. Efst við sýnileika þeirrar götu er vörðubrot í grónum hól.

Garðsstígur

Garðsstígur – upphaf göngu.

Í Rauðskinnu segir frá Prestsvörðunni: “Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen (1808-1887), sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.”
Sálmaversið á hellunni er 4. Davíðs Sálmur 8. vers. (“Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum”).

Bergvík. Þegar Símon var að alast upp bjó Pétur Pétursson í Bergvík. Hann hafði grætt nokkuð stóran túnblett frá bænum og niður á sjávarbakka. Guðrúnarkot og Brandsbær stóðu nyrzt í jaðri hans.
Suðaustast á þessum bletti er svolítill hóll, sem kallaður er Gónhóll. Nafn sitt dregur hann af því að þegar flekaveiði var á Bergvík var farið upp á hann og gáð, hvort nokkuð væri komið á flekana. (Ath.: Á undan Pétri bjó í Bergvík Ásgrímur nokkur og er líklegt, að flekaveiði hafi verið stunduð á Bergvík í hans tíð).

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Hólmsberg endar til norðurs í Berghólum, en svo heita fjórir hólar í suðsuðvestur frá Bergvíkurbæ. Hóllinn næstur Bergvíkurtúni, beint upp af Gónhól, var nefndur Gapastokkur. Hann var hár og klettóttur sjávarmegin og illfær. Vel var gengt upp á hann annars staðar. Símon telur, að nafn sitt dragi hann af því, að strákar hafi farið nokkuð djarflega framan í honum og sýnt gapaskap þegar þeir voru að klifra. Huldufólkstrú lá á þessum hól. Áðurnefnd Stóravör er beint niður undan Gónhól og þóttust menn þar oft heyra mannamál og áraglamur að og frá landi, einkum að kvöld- og næturlagi. Trúðu menn, að þar væri huldufólk úr Gapastokk á ferð.
Austsuðaustur af Gapastokk er stór ílangur klettur, sem er eins og hús í laginu. Svolítill hnúður var á norðvesturenda hans. Steinn þessi var nefndur Álfakirkja. Hinir Berghólarnir eru svolitlu vestar en Gapastokkur. Syðsti hóllinn af þeim var nefndur Borgin og var hann hafður fyrir mið norður í Leirnum. Var kallað að vera á Borgarslóð, þegar Borgin var aðeins norðvestur undan hinum Berghólunum – en djúpmið voru miðuð Grindavíkurfjöll.

Langholt

Leifar herstöðvar í Langholti.

Þjóðvegurinn út í Leiru og út í Garð lá sunnanhalt á Hólmsbergi og rétt fyrir ofan bæina í Leirunni. Suðvestan við veginn, heldur nær Keflavík en Leiru, var stórt barð og hlaðin varða á því. Var þar oftast hvílt sig. Barð þetta hét Meyjarsæti. Heiðarlandið tók svo við suðvestan þjóðvegarins. Voru það einkum blásnir melar og börð á stöku stað. Engin örnefni voru á því, nema þau sem fram koma í landamerkjalýsingunni hér á eftir. Svæði þetta var einu nafni nefnt Heiði, og svo var einnig nefnt ofan Gufuskála.
Þrívörður eru áður nefndar á hornmerkjum. Línan frá Þrívörðum í Sjálfkvíar liggur á milli Langholtanna, og er Innra-Langholt því í Innleiru. Það liggur nálægt því frá suðaustri í norðvestur.
Áðurnefndur Línlækur kemur ofan úr Línlækjarholtum í Heiðinni. Suðaustur af þeim holtum eru Bjarnastapar og Kalka var suðaustanvert á þeim.
Yst á Berghólum, þar sem gatan kemur upp á bergið, er grón fjárborg. Vel má sjá móta fyrir hleðslum að innanverðu. Í miðju borgarinnar hefur verið hleðsla. Þá eru hlaðnir útveggir frá borginni að sunnanverðu. Borg þessi hefur stundum verið nefnd Hólmsborg, en hennar er ekki getið í örnefnalýsingum. Gatan liggur ofan borgarinnar. Skammt norðar er hlaðið veggbrot við götuna. Það er greinilega úr vörðu, sem þar hefur staðið því útlínur og tvö umför í henni sjást enn. Norðan þess lá gatan um slakka í holtinu, en námur og rask hafa afmáð verksummerki eftir hana.
Skammt sunnar má sjá vörðu vinstra megin götunnar. Hægra megin hennar eru svo hleðsluleifar af gamalli rétt.

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Stekkjarnefin skiptist í tvennt, Vestra- Stekkjarnef og Eystra-Stekkjarnef. Stekkjarnefin eru grjóthólar, brattir sjávarmegin. Þau fara í kaf um flóð. Þau eru hæst fremst. Sagt var, að fyrr á öldum hefði Stekkjar-nef verið gróið land og stekkur verið á því. Suðaustan við Stekkjarnef er Bergvík. Bergvíkurvör (41) er með Stekkjarnefi að suðaustan. Aðeins suðaustar í víkinni er Stóravör. Þar hafði verið miklu betri lending hér áður en í Bergvík, en þar hafði sjór gengið svo á landið, að ekki var lengur hægt að hafa þar skip. Við Stóruvör byrjar lágt berg, sem síðan fer hækkandi alla leið að Ritunípu, en við hana takmarkast Bergvík að suðaustan. Hægt er að ganga fjöruna undir þessu bergi – inn undir Ritunípu – með stórstraumsfjöru. Berg þetta tilheyrir Hólmsbergi, sem nær úr Bergvík og alla leið inn í miðja Keflavíkurgróf. Þar sem bergið er hæst í Bergvík, er það nálægt 25 föðmum og er þar töluvert varp. Verpa þar einkum svartfugl, rita, fýll og lundi.
Á vorin og sumrin var mikið af bjargfugli á víkinni og þar var fyrir eina tíð stunduð flekaveiði. Pétur Pétursson, sem bjó í Bergvík, þegar Símon var ungur maður, mundi eftir þeim veiðum. Áðurnefnd Ritunípa er þverhnípt berg með dálítilli urð fyrir neðan.
SvartfuglTöluvert suðaustan við Ritunípu skerst Helguvík Inn í Bergið. Suðaustan hennar er Hellisnípa. Hún dregur nafn af hellisskúta inn undir bergið, austanhallt niður af nípunni. Með lágsjávuðu var hægt að róa inn í skútann. Þverhníptir klettar í sjó eru frá Hellisnípu og inn að Stakksnípu. Svolítil vík er norðvestan við Stakksnípuna. Hún var venjulega nefnd Stakksvík. Stórgrýtisurð gekk í sjó fram að norðan við Stakksnípu. Svolítill urðarfótur er undir Stakksnípu. Beint fram af henni er hár klettur, sem heitir Stakkur. Hann er dálitlu lægri en nípan. Dálítið gras var ofan á Stakk og hafa að líkindum verpt þar endur og kría. Hægt er að klífa Stakk, en heldur mun það slæmt.
Af Stakk dregur Stakksfjörður nafn sitt, en svo nefnist allur fjörðurinn frá Stakk og að Brunnastaðatöngum. Svartfugl verpti hvergi í Hólmsbergi nema í Bergvík.
Selvík er suðaustan Stakksnípu, nokkuð breið vík og eru líðandi klappir við hana. Suðaustan hennar er Hellunef, lágt berg fram í sjóinn. Frá Hellunefi liggur fremur lágt ávalaberg og endar í Brenninípu (5=3). Hugsanlegt er að gróður hafi verið fram á Brenninípu til forna og þá verið hægt að afla sér þar brennis til eldiviðar.
Sunnan við Brenninípu er Keflavík. Með henni að norðan, er berg (einir 15-20 m) alveg inn að Keflavíkurgróf. Það er syðsti hluti Hólmsbergs.

Garðsstígur

Garðsstígur.

Áður en komið var að kirkjugarðinum og þar með mörkum Keflavíkur beygir gatan til vesturs. Þessi kafli sem og kaflinn frá Berghólum hefur verið endurgerður fyrir bílamferð. Hins vegar liggur gamla gatan svo til beint áfram með stefnu ofan við Kirkjugarðinn. Við hann eru endurhlaðnar vörður.
Garðstígur liggur áleiðis að Keflavíkurborg ofan við Grófina. Enn má sjá leifar og lögun borgarinnar á klapparhrygg. Gatan liggur síðan niður með henni að austanverðu, áleiðis niður að Grófinni.
Gangan var 7.8 km. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jón Árnason III 348.
-Óbyggðanefnd.
-Sigríður Jóhannsdóttir – örnefnalýsing Rafnkelsstaða 8. júní 1978.
-Guðmundur Jónsson bóndi á Rafnkelsstöðum og Guðjón Björnsson.
-Njáll Benediktsson skráði 1979 – örnefnalýsing Gerðum.
-Ari Gíslason – Gerðar – örnefnalýsing.
-Sigríður Jóhannsdóttir bar lýsingu Ara Gíslasonar undir Halldór Þorsteinsson í Vörum, og gerði hann þá fáeinar athugasemdir – 3. júní 1978.
-Saga Gerðarhrepps.
-Magnús Þórarinsson – Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960.
-Ásgeir Ágústsson – Gerðahreppi.
-Rauðskinna I – XII.
-Örnefnalýsing fyrir Leiru og Gufuskála – Örnefnastofnun.

Garðsstígur

Garðsstígur

Prestsvarða

Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða.

Prestsvarða

Prestsvarðan.

Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.

Prestsvarða

Leturhellan við Prestsvörðuna.

Á hellunni virðist standa:
1876 21.JAN Í FRIDI LEGST ÉG
FYRIR Í FRIDI ER ÉG ÞVÍ ÞÚ
EINN DROTTINN ERT ÞAÐ SEM
LÆTUR MIG BÚA ÓHULTAN Í NÁÐUM.
Þetta vers er greinilega úr Davíðsálmi 4. kafla 9. vers: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.”

Rauðskinna II 295

Fengið af:
http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=219

Prestsvarða

Við Prestsvörðu.

Garðsstígur
Ferðamálasamtök Suðurnesja hefur gefið út gönguleiðabækling fyrir gömlu leiðina, Garðsstíg, milli Garðs og Grófarinnar í Keflavík.
GarðsstígurNágrenni Garðs hefur upp á fjölmargt að bjóða eins og kemur fram hér á vefsíðunni, hvort sem um er að ræða sögu, náttúru og umhverfi. Í bæklingnum er fróðleikur um framangreint er nýtist útivistarfólki, sem hefur áhuga á að ganga þessa gömlu leið, sem enn sést víða í móanum. Við hana eru enn heilar og fallnar vörður er gefa hana til kynna. Sögulegir staðir eru tilgreindir við númeraðar stikur er marka leiðina með jöfnu millibili svo auðvelt er fyrir hvern og einn að átta sig á aðstæðum og umhverfi.
Í bígerð er að gefa út fleiri sambærilega bæklinga um aðrar þekktar leiðir á Reykjanesskaga.

Portfolio Items