Færslur

Landakot

Landakot er jörð í Vatnsleysustrandarhreppi. Á jörðinni leynast í dag tóftir tveggja annarra býla; Landa og Götu.

LandakotÍ “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I” frá árinu 2011 segir m.a. um Landakot:
“1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur [Björgvin] Jónsson segir þetta býli hafa verið
höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930.
Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi.
Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1793: Hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. “Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

LandakotÍ bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.” “Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,” segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki. Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar.

Landakot

Landakot 2022.

Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

Landakot

Gata.

“Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. “Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.” Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni. Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu.

Landakot

Gata.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Lönd, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár. … Grasnautnina brúkar nú heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.” “Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. ” Óvíst er hvar býli þetta hefur verið en það kann að hafa verið í horni því sem keypt var úr landi Auðna, í norðvesturhorni jarðarinnar, um 115 m norðvestan við bæ. Ekki er ljóst hvenær sú landspilda var keypt úr landi Auðna en það hefur verið áður en landamerkjalýsing var gerð fyrir jarðirnar 1886. Líklegast hefur býlið Lönd verið í túni í norðvesturhorni jarðarinnar niður við sjó. Ekki sjást önnur ummerki um býlið Lönd á þessum stað. Mögulega eru minjarnar sem skráðar eru þar reistar á rústum býlisins en ekki er hægt að slá neinu föstu um það nema með ítarlegri rannsókn.

Landakot

Gata.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti. Árið 1928 kvæntist hann Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot með yfirlögðu túnakorti frá 1919.

Brunnurinn, sem notaður var, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt. Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru. Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Landakot

Landakot – túngarður.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Landakoti: “Landakot stóð í Landakotstúni, og var það umgirt görðum þeim, sem nefndir verða í sambandi við landamerki milli Landakots og jarðanna Auðna að sunnan og Þórukots að innan. Ekki mun hafa verið tvíbýli í Landakoti, en vitað er um tvö býli eða þurrabúðir í túninu. Neðan við Landakotsbæinn eru tætur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd”.

Í “Mannlífi og mannvirki á Vatnsleysuströnd” eftir Guðmund Björgvin Jónsson árið 1987 segir um landakot:
“Landakot var eitt af höfuðbólum Vatnsleysustrandarhrepps í heila öld, allt frá 1830 til 1930. Þar bjó Guðmundur Brandsson, f. í Kirkjuvogi í Höfnum 21. okt 1814, sonur Brands Guðmundssonar hreppsstjóra þar. Kona Guðmundar Brandssonar var Margrét Egilsdóttir frá Móakoti.
Guðmudur GuðmundssonGuðmundur, sonur Guðmundar í Landakoti, var sómi sinnar sveitar og hjá honum sat ráðdeild og hagsýni í fyrirrúmi. Hann rak útgerð, þótt lírið færi hann sjálfur á sjó. Landakotsbóndi var söngmaður mikill og fyrsti organisti í Kálfatjarnarkirkju eftir að þar kom orgel árið 1876, og hafði Guðmundur það starf í um 40 ár. Hann sá um smíði þeirrar kirkju er nú stendur að Kálfatjörn. Einnig byggði hann nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.

Guðmundur lést árið 1920 og var Landakot selt árið 1921 Sveini Pálssyni og konu hans, Önnu Guðmundsdóttur. Hann byrjaði á því að rífa Landakotshúsið og byggja nýtt steinhús, það sem stendur í dag. Smiður var Geir, bróðir Sveins, byggingameistari í Reykjavík. Sveinn hafði aðeins kúabúskap. Hvað sem því réði, þá seldi Sveinn hús og jörð og flutti aftur til Reykjavíkur árið 1927. Þá voru “kreppuárin” farin að gera vart við sig og þrengja að bændum og hefur Sveinn ekki þótt fýsilegt að halda áfram búskap.

LandakotKaupandi af Sveini var Guðni Einarsson og kona hans, Guðfinna Loftsdóttir. Þegar Guðni kom að Landakoti hafði Guðfinna látist. Hann tók fljótlega viðs tjórn kirkjukórs Kálfatjarnarkirkju og var oranisti þar uns sonur hans, Jón, tók við. Guðni lést 1970.
Við Landakoti tók Jón, sonur Guðna, og kona hans Jóhanna Bára Jóhannesdóttir.

Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í landakotslandi. Um 1882 bjuggu í Götu hjónin Jón Teitsson og kona hans, Vilborg. Eftir veru Jóns og Vilborgar í Götu, komu þangað Sigurður Þorláksson, f. 1849, og kona hans, Þuríður Þorbergsdóttir, f. 1855. Ekki er mér kunnugt um fleira fólk í Götu og mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamótin.”

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Margrét Guðnadóttir Eyjólfur Guðnason, Rofabæ 29, Reykjavík.

Landakot

Landakot – tóftir Götu.

Landakot

Í “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrslu I”, er m.a. fjallað um bæina Auðna, Höfða, Bergskot (Auðnakot), Landakot, Hellukot, Þórustaði, Norðurkot og Tíðagerði. Þessum bæjum fylgdu og nokkur önnur kotbýli sem og mannvirki, sem enn sér móta fyrir.

Auðnar

Auðnar

Auðnar, Höfði, bergskot, Landakot, Hellukot, Þórustaðir, Norðurkot og Tíðagerði – túnakort 1919.

Jarðadýrleiki óviss, konungseign 1703. JÁM III, 137-139.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs, 1 hdr í fríðu og 1 vætt fiska.
Hjáleigur 1703: Auðnahjáleiga í byggð, í eyði voru Lönd og Hólmsteinshús og ein nafnlaus hjáleiga. Auðnakot hjáleiga 1847. Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971. Tómthúsið Hóll var einnig í landi Auðna.

Auðnar

Auðnar – loftmynd.

“Guðmundur [Guðmundsson] var með mestu útgerðarmönnum á Suðurnesjum með 60 manns á vertíð og þar með um 20 fast heimilisfólk. […] Guðmundur hafði góðar landnytjar og allnokkurn búpening, þó hann sinnti búskapnum minna en sjósókninni. Hann byggði stórt tveggja hæða timburhús um 1883-84 og var efnið úr James-Town skipinu, sem strandaði í Höfnum árið 1881. […] Stefán Sigurgeirsson [keypti jörðina 1915] byggði upp flest hús á staðnum og byrjaði á íbúðarhúsinu árið 1918, sem þá var með glæsilegri húsum í hreppnum. Reif hann gamla húsið og notaði viði þess í það nýja. […] Árið 1960 byggði Kolbeinn [Guðmundsson] núverandi íbúðarhús og reif það gamla árið 1963 […].” GJ: Mannlíf og mannvirki, 296-300.
1703: “Túnin spillast af sandi og grjóti sem sjór og vindur ber á, líka er þar mein að grjóti því, sem jarðfast er í túninu. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 138. 1919: Tún Auðna og Höfða 6,5 teigar, garðar 4300m2.

Auðnar

Auðnar og nágrenni – loftmynd.

Bæjarhóllinn er greinilegur en refabú var byggt fyrir nokkrum áratugum norðan við hann og nær það norður að sjávarbakka.
Núverandi íbúðarhús er fast vestan við bæjarhólinn en á honum sjálfum er nú malbikað bílaplan. Bæjarhóll Auðna er í miðju túni.
Bæjarhóllinn er um 20×20 m að stærð og um 1,2 m á hæð þar sem hæst er fram af honum til norðurs. Engar fornar mannvirkjaleifar sjást á honum. Líkur eru til þess að hann hafi lítið verið skemmdur vegna byggingaframkvæmda úr því nýjasta íbúðarhúsið var ekki byggt á honum.

Auðnakot (Bergskot)

Bergskot

Bergskot – loftmynd.

Hjáleiga Auðna 1703, dýrleiki óviss. JÁM III, 138. Upphaflega tómthús. GJ: Mannlíf og mannvirki, 302.
1919: Tún 1,3 teigar, garðar 670m2.

Bergskot

Bergskot (Auðnakot) – uppdráttur.

“Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,” segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu. Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn. Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu. Stór og greinileg bæjartóft sést enn, auk þriggja kálgarða. Tóftin er um 14×14 m að stærð og skiptist í 3 hólf. Hún er grjóthlaðin og gróin.

Höfði

Höfði

Höfði.

“Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971,” segir í örnefnaskrá Auðnahverfis. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Höfði um 90 m suðaustan við bæ (Auðnum). Bæjarstæðið er í hólóttu túni. Á því stendur stórt hús sem er allgamalt í grunninn og líklega sama hús og merkt er inn á túnakortið. Ekki sjást leifar kálgarðs sem sýndur er á túnakorti fast sunnan við bæinn. Hann er skráður hér með bænum.
Bæjarstæðið er í gömlu túni suðaustan við Höfðatjörn, stóra lægð sem nú er þurr og gróin. Nú (2010) er fallegur skrúðgarður í kringum húsið en aðallega sunnan við það. Austan við syðsta hluta hússins er upphækkun og hleðsla þar sunnan við en þetta virðast ekki vera gamlar minjar.
Byggingarnar á bæjarstæðinu eru um 20×13 m að stærð og snúa ANA-VSV. Byggingarnar samanstanda af fjórum samtengdum húsum eða herbergjum. Þær hafa verið gerðar upp og eru bárujárnsklæddar. Ekki er að sjá að kjallari sé undir byggingunum og ekki er nein uppsöfnun mannvistarleifa sýnileg.

Ólafsbúð
Í bókinni Litla skinnið eftir Jón Thorarensen segir: “Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll og […]. Ólafsbúð, þurrabúð sunnanmegin við Auðna […].” Þrjár tóftir eru um 180 m suðvestan við bæ og hafa þær líklega tilheyrt Ólafsbúð þó ekki sé hægt að fullyrða um það.

Bæjarstæði
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Hjáleiga forn heima við bæinn, hefur bygð verið fyrir tuttugu árum, síðan um stund í eyði legið, nú ljær bóndin húsin móður sinni … Kann ekki að byggjast án bóndans skaða.” Ekki er vitað hvar hjáleiga þessi hefur verið og því ekki hægt að staðsetja hana með innan við 50 m skekkju. Hjáleigan hefur væntanlega verið í túni, nærri bæ.
Ekki sjást neinar minjar við bæinn sem gefa til kynna staðsetningu hjáleigunnar en ekki er ólíklegt að hún hafi verið þar sem eitthvert af þeim útihúsum sem skráð eru af túnakorti stóðu.

Hólmsteinshús
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Hólmsteinshus hafa yfir tuttugu ár í eyði legið … grasnautnina brúkar heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.” Ekki er vitað hvar Hólmsteinshús voru og því ekki hægt að staðsetja þau með innan við 50 m skekkju.

Hóll
“Og svo er eitt tómthús, Hóll. … Skammt frá Þúfuhól er þurrabýlið Hóll í Hólslóð,” segir í örnefnaskrá. Tóft Hóls er um 265 m frá bæ og um 10 m sunnan við Sundvörðu Neðri. Tóftin er uppi á klapparhól í hraunmóa, innan sumarhúsalóðar.

Mylla

Auðnar

Auðnar – mylluhús. Grunnur vindmylluhúss í Auðnalandi. Athafnamaðurinn Stefán Sigurfinnson á Auðnum stofnaði samtök meðal hreppsbúa um byggingu vindmyllunnar 1918-19. Átti hún að mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Rekstur beinamyllunnar gekk ekki eins og vonast var eftir, bilanir voru all tíðar og viðhald dýrt auk þess sem hún malaði of gróft. Var hún því aflögð aðeins tveimur eða þremur árum eftir að hún var reist. En hús hennar stendur enn sem vitnisburður um stórhuga athafnafólk Strandarinnar. Keðjurnar sem héldu mylluspöðunum hanga þar ennþá.

Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Þá stofnaði Stefán, ásamt fleirum, samtök meðal hreppsbúa sem byggðu rammgerða vindmyllu 1918-19. Skyldi hún mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Stendur þetta sérkennilega hús enn, þ.e. steyptir veggir […] Beinmyllan stóð stutt og var aflögð 1920-21.” Myllan er um 150 m suðvestan við bæ.
Myllan stendur á klapparhól í móa rétt utan túns, um 10 m vestan við veg heim að Auðnum. Myllan er steinsteypt og er um 3 m á kant að grunnfleti. Dyr eru á norðvesturhlið og gluggar á suðvestur- og suðausturhliðum. Myllan mjókkar lítið eitt upp, er um 4 m á hæð. Timburbrak er utan við og innan í myllunni.

Landakot
Landakot
Nefnd hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur Jónsson segir þetta býli hafa verið höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930. Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi. GJ: Mannlíf og mannvirki, 304, 309. Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1703: “Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

Landakot

Landakot – loftmynd.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.” “Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,” segir í örnefnaskrá Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki.

Landakot

Landakot.

Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar. Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði 028 sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

Gata

Landakot

Gata – tóftir.

“Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. “Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,” segir í örnefnaskrá.

Landakot

Gata – uppdráttur.

Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.” Gata er um 115 m norðaustan við bæ.
Býlið er í hæðóttu túni.

Garðlag – túngarður

Landakot

Landakot – garðlag (Heiðargarður).

“Ofan sjávargarðsins liggur landamerkjalínan að sunnan milli Landakots og Auðnahverfis og stakkstæðið upp í krókinn eða hlykkinn, sem var milli sjávargarða Landakots og Auðna. Þaðan um grjótgarðinn í Brunnhóla og svo eftir gamla torfgarðslaginu um Landakotshól og þaðan út í túngarðinn og heiðargarðinn,” segir í örnefnaskrá. Frá Bakka til og með Auðnum er nokkuð óslitinn garður sem skilur tún jarðanna frá beitarlandi í Strandarheiði. Hann er sumsstaðar kallaður Heiðargarður (ýmist með stórum eða litlum staf) og er skráður á hverri jörð fyrir sig enda óvíst að hann sé allur frá sama tíma. Heiðargarður í Landakoti tengist görðum nágrannajarðanna. Heiðargarðurinn liggur á mörkum túns og móa.

Þórustaðir
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 141.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 115)
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs eitt hdr fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26). Hjáleigur 1703 Norðurkot og Suðurhjáleiga í eyði. (JÁM III, 141). Norðurkot hjáleiga 1847. Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar (GJ: Mannlíf og mannvirki, 309).

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd.

1703: “Túnin spillast af sjáfarágángi og föstu grjóti, sem árlega blæs upp. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta um sumar, nær öngvir um vetur.” JÁM III, 141. 1919: Tún 4,8 teigar alls, garðar 2480m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, kemur fram að tvíbýli var á Þórustöðum fyrir aldamótin 1900. Bæirnir voru nefndir norður- og suðurbær og var nyrðra bæjarstæðið að líkindum yngra, sjá 003. Timburhús reis á jörðinni á syðra bæjarstæðinu 1884 og brann húsið 1984. Húsið var byggt úr viði úr James-Town strandinu í Höfnum. Í sömu bók segir: “Byggðu þau [Páll Jónsson og Hrefna Guðnadóttir] við Þórustaði, en svo brann allt eins og áður segir árið 1984. Þá þegar var hafist handa og byggt nýtt íbúðarhús, nokkuð suðaustur af því gamla. Þegar farið var að grafa fyrir nýjum grunni í og við brunarústirnar, komu í ljós leifar af fornminjum. Var þá uppgröftur stöðvaður og farið fram á að nýja húsið yrði byggt nokkuð fjær, því kanna þyrfti betur staðinn, ef þarna kynnu að vera gamlar menjar.” Núverandi íbúðarhús er um 60 m sunnan við bæjarhólinn. Ekki er hefðbundinn búskapur á jörðinni en búið er í íbúðarhúsinu. Tún eru ekki nytjuð.

Þórustaðir

Þórustaðir.

Bærinn á Þórustöðum var á hæð í landslaginu og allt í kringum hana eru tún sem komin eru í órækt. Mikið rask hefur orðið á bæjarhól Þórustaða og er af þeim sökum erfitt að gera sér grein fyrir stærð hans. Hæðin sem bærinn var á er um 40×40 m stór og mest um 3 m á hæð. Búið er að byggja stór, steinsteypt, útihús í norðvesturhluta hólsins og eru þau niðurgrafin að hluta. Á norður- og norðausturhluta hólsins er búið að ryðja til grjóti og jarðvegi. Sunnan og suðaustan á hólnum er slétt plan og eru háir jarðvegsruðningar til suðausturs og vesturs. Leifar kálgarðs sjást í suðausturjaðri bæjarhólsins.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, kemur fram að tvíbýli var á Þórustöðum fyrir aldamótin 1900. Bæirnir voru nefndir norður- og suðurbær og var nyrðra bæjarstæðið að líkindum yngra. Ekki er víst hvar norðurbærinn stóð nákvæmlega en í einni örnefnaskrá Norðurkots er tekið fram að hann hafi átt lendingu í Krókum eins og Norðurkot og Tíðagerði. Gera má því ráð fyrir að norðurbærinn hafi verið norðan við hinn bæinn. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru nokkur hús saman í hnapp um 10 m norðan við bæ og kálgarður sambyggður hluta þeirra.

Hellukot

Hellukot

Hellukot.

“Upp í túninu sunnan götunnar var hjáleiga í eina tíð, nefndist Hellukot, þar í kring var Hellukotstún. Í þessu túni var Hellukotsbrunnur, og brunnstígur frá honum til bæjar,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar.” Ekki er ljóst hvenær Hellukot fór í eyði en það hefur þó verið eitthvað fyrir síðari heimsstyrjöld því í bók Guðmundar kemur fram að býlið hafi verið notað til sumardvalar í nokkur ár, ýmist sem barnaheimili (á stríðsárunum) og fyrir aðra sumargesti. Hellukot er um 155 m suðvestan við bæ.
Hellukot er í suðurhorni túnsins, þar eru klapparhólar í grónu túni. Stór hluti minja sem tilheyrt hafa Hellukoti eru innan girðingar vestan heimreiðar þar sem nú er sumarhúsið Grund.

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt.

“Norðan Þórustaðagötu og ofan við bæinn er Stekkhóll og þar er Stekkhólsrétt,” segir í örnefnaskrá.
“Stekkhólsrétt, veit ég ekki, hvort er sama réttin, sem enn stendur að hluta uppi og var alltaf notuð í mínu ungdæmi og var alltaf kölluð bara Þórustaðaréttin,” segir í svörum við spurningum. Líklega er Þórustaðarétt og Stekkhólsrétt sama réttin. Margrét Guðnadóttir man vel eftir að réttin hafi verið notuð og að féð hafi verið rekið í réttina þegar því var smalað úr heiðinni. Réttin er 250 m sunnan við bæ.

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt.

Réttin er á flatri hæð og sést í bera klöppina, í móa utan túns. Réttartóftin er grjóthlaðin og tvískipt, snýr norðaustur-suðvestur. Tóftin er um 16×5 m að stærð og er hólf I í norðausturenda um 4×4,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Hólf II er um 4,5×10,5 m að innanmáli og snýr eins og hólf I. Veggir eru einfaldir, um 0,5 m á breidd og hæstir um 1 m, sjást 5 umför. Þar sem veggur skiptir tóftinni í tvennt liggur veggur til suðurs frá tóftinni, um 2 m langur. Suðvesturveggur er horfinn að mestu á kafla.

Norðurkot

Norðurkot

Norðurkot.

Hjáleiga Þórustaða 1703, jarðadýrleiki óviss. JÁM III, 141. Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, og aflagðist árið 1920. Harðangur var tómthús frá Norðurkoti, í byggð frá um 1885 til um 1900 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 315-316) 1919: Tún 1,7 teigar, garðar 340m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: “Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir “Innstrendinga”. Húsið var úr timbri, ein hæð og port-ris. […] Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti 1910 […].

Norðurkot

Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

Norðurkot var í upphafi grasbýli frá Þórustöðum og átti ekki ítök í heiðarlandi.” Í sömu heimild kemur fram að í kringum 1940 hafi verið hætt að búa í Norðurkoti og eftir það hafi húsið verið notað sem heyhlaða og geymsla. Á heimasíðu Sveitarfélagsins Voga kemur fram að árið 2004 hafi Minjafélag sveitarfélagsins fengið Norðurkotshúsið að gjöf og var húsið flutt á fyrirhugað minjasvæði sveitarfélagsins að Kálfatjörn og gert upp. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru bæjarhús Norðurkots á svæði sem er um 20×10 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Bæjarhóll Norðurkots er um 110 m norðaustan við Þórustaði. Umhverfis bæjarhólinn er sléttað tún í órækt. Hann er í hæðóttu landslagi þar sem sést í hraunnibbur á stöku stað. Bæjarhóllinn er um 15×20 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur.

Tíðagerði

Tíðagerði

Tíðagerði og Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

“Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. Því tilheyrði kálgarður neðan við bæinn, allstór. Skiptist hann að nokkru um klapparbala. Neðan hans var kálgarðurinn kallaður Leynir.
Tíðargerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar,” segir í örnefnaskrá KE. Í annarri örnefnaskrá segir: “Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi matjurtagarður og svo var Heiðarlandið óskipt, en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins. En Tíðargerði átti 2400 fermetra land.” Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: “Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, þó það yrði grasbýli síðar … Tíðagerði aflagðist árið 1920.” Samkvæmt túnakorti frá 1919 tilheyrðu Tíðagerði bæjarstæði A), þró B), útihús C) kálgarður D), túngarður E) og kálgarður F).
Á túnakorti frá 1919 kemur fram túnastærð Tíðagerðis: Tún 0,5 teigar, garðar 700m2. Minjarnar sem tilheyra Tíðagerði eru á svæði sem er um 110×85 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í umfjöllun. Ekki er mikið um uppsafnaðar mannvistarleifar á bæjarstæði Tíðagerðis.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla I – Fornleifastofnun 2011.

Höfði

Yfirlitsmynd.