Færslur

Geitungur

Oft tekur fólk ekki eftir hinu smáa, en fæstir horfa framhjá geitungum, þótt litlir séu, ef þeir eru einhvers staðar nærri.
Geitungarnir sem numu hér land á áttunda áratug nýliðinnar aldar virðast vera að Geitungarfinna sinn vitjunartíma eða upprisutíma að vetri gengnum í kringum 25. maí, en undanfarin vor hefur einmitt mátt vænta þeirra um það leyti. Fyrrum var um meiri óreglu að ræða. Þannig hafa geitungarnir aðlagast íslenskum staðháttum. Þéttbýli Reykjanesskagans er kjörlendi þeirra.
Oftast taka þeir þó nokkra daga í að nærast og hressa upp á orkubúskapinn eftir vetrarsvefninn, áður en hafist er handa við að koma þaki yfir höfuðið. Geitungar byggja bú úr pappír. Þeir naga timbur og búa til pappírskvoðu sem þeir nota í búið.
Það sem fyrst og fremst kemur upp í huga fólks þegar geitunga ber á góma er sú árátta þeirra að verjast af hörku og beita til þess heldur ógeðþekkum ráðum.
Alls hafa fjórar tegundir geitunga numið hér land. Þær eru trjágeitungur, holugeitungur, húsageitungur og roðageitungur.
Húsageitungur varð e.t.v. fyrstur geitunganna til að nema hér land. Ekki lék vafi á því að sumarið 1973 var bú í miðbæ Reykjavíkur þó ekki hafi það fundist. Í kjölfarið fór tegundin að finnast nokkuð reglulega á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefur þó átt nokkuð erfitt uppdráttar og aldrei náð sér verulega á strik enda er húsageitungur hér nálægt nyrstu mörkum þess sem hann getur lifað við. Útbreiðsla húsageitungs er enn takmörkuð við höfuðborgarsvæðið en afar litlar líkur eru til þess að hann nái fótfestu utan þess landshluta. Tegundin staðsetur bú sín mjög gjarnan inni á húsþökum, á háaloftum eða í holrými milli þilja. Holur í jörðu duga einnig ágætlega.
Geitungar Holugeitungur fannst fyrst með bú árið 1977 og hefur fundist hér reglulega síðan, þó aðeins á höfuðborgarsvæðinu. Honum gengur mun betur hér en húsageitungi þó veruleg áraskipti séu af honum. Sum ár er hann algengur en hann getur dottið niður á milli. Holugeitungur staðsetur búin á sömu stöðum og húsageitungur, þ.e. inni í húsum og í holum í jörðu. Hraunhellur í blómabeðum eru afar vinsælar hjá holugeitungum.
Trjágeitungur fannst fyrst sumarið 1980. Því má gera ráð fyrir að hann hafi borist eitthvað fyrr til landsins þó ekki hafi það verið upplýst. Trjágeitungur dreifðist í kjölfarið hratt um landið, fyrst um láglendið og á seinni árum upp í hálendisbrúnir. Staða hans er mjög traust. Vorhret á Norðurlandi hafa stundum valdið honum búsifjum en hann hefur ávallt náð sér á strik á ný. Bú trjágeitungs eru yfirleitt vel sýnileg og oft berskjölduð. Þau hanga gjarnan í trjám og runnum, undir þakskeggjum húsa og á gluggakörmum, á klettum og steinum, í börðum og þúfnakollum svo dæmi séu tekin.
Roðageitungur mætti til leiks síðastur geitunganna. Grunur lék á búi í Hafnarfirði 1986 en fyrsta búið fannst þó ekki fyrr en 1998. Aðeins tvö bú hafa fundist síðan. Tegundin er því afar sjaldgæf og óvíst er um frekari afdrif hennar hér. Öll búin hafa fundist í holum í jörðu.

Heimild:
-http://www.ni.is/efst/geitungar

Geitungur

Geitungur.