Tag Archive for: Geldingadalur

Geldingadalur

Í tveimur örnefnalýsingum fyrir Hraun í Grindavík má m.a. sjá örnefnið „Geldingadalir„. Fyrri lýsingin er höfð eftir heimildarmönnunum Gísla Hafliðasyni, bónda á Hrauni, og Guðmundi Guðmundssyni, bóndi á Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði:

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli. Merardalir nær.

„Norður frá Langahrygg og Borgarfjalli er hækkandi allmikið fjall, hið stærsta að flatarmáli á þessum slóðum. Á því og í sambandi við það er þegar komið nokkuð af nöfnum, og verður nú tekið meira af því. Sunnan undir Meradölum, sem fyrr var getið og norðan Langahryggs, er Stórihrútur. Sunnan hans er Langihryggur hæstur, og þar austur af, á norðurenda Einihlíða, er Litlihrútur.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Lægð þar norðar heitir Einihlíðarsandur. Langihryggur nær að Stóra-Leirdal, en Einihlíðar ná að Litla-Leirdal Litlihrútur er grjótmóaþúfa. Einihlíðarnar eru talsvert grónar. Eins og fyrr segir, er vinkillinn vestur af Borgarfjalli nefndur Nátthagakriki. Þar upp af í fjallinu er grasflöt, sem heitir Selskál. Sunnan undir henni á sléttunni er nokkuð stór melhóll, sem heitir Einbúi og fyrr er getið. Þar upp af er Mátthagaskarð. Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn. Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það bezt. Norður af þeim er hnúkur, hæsta hæðin á fjallinu, og heitir þar Langhóll. Vestasti hluti fjallsins er nefndur Kast. Þar norður með hlíðinni, allhátt, eru grasgeirar nefndir Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur. Þetta eru ekki raunverulegir dalir, heldur brekkur og kvosir.“
Framangreind dys Ísólfs var hraunhóll í miðjum vestasta dalnum, en hún er nú horfin undir hraun.

Síðari lýsingin er skráð af Lofti Jónssyni í Grindavík:

Fagradalsfjall

Merardalafjall og Merardalir. Stóri-Hrútur t.h.

„Austan undir Borgarfjalli og á milli þess og Langahryggs er Nátthagi. Þetta er nokkuð breitt skarð á milli fjallanna og við suðurenda þess er Drykkjarsteinsdalur. Austan undir Fagradalsfjalli og norðan við Nátthagaskarð og í austur frá Stórhól er smáás og heitir Nátthagaskarð. Þar norður af eru Geldingadalir. Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.

Geldingadalur

Geldingadalur fyrir gosið 2021.

Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir. Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.
Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.“

Rétt er að geta þess, að gefnu tilefni, þótt örnefnið „Geldingadalir“ hafi verið skráð er þar um að ræða þrjár samliggjandi dalkvosir í Fagradalsfjalli, milli Langhóls og Langahryggs. Eldgos það, sem flestir virðast hafa áhuga á um þessar mundir, er einungis ofan við eina kvosina og því er ekki úr hæfi að nefna hana Geldingadal. Réttnefni á nýja hrauninu, til heiðurs dys Ísólfs af Skála, sem nú er endanlega horfin undir það, væri því „Geldingadalshraun“ eða „Geldingahraun“.

Sjá ýmsar MYNDIR af eldgosinu í Geldingadal.

HÉR má sjá eitt streymið af mörgum af eldgosinu….

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall. Nauthólar nær.

Geldingadalur

Grindavík hefur að geyma ýmsa þjóðsagnakennda staði og álagabletti. Hér getur að líta upplýsingar um nokkra þeirra. Bæjarfélagið hefur, því miður, sýnt stöðunum lítinn sóma í seinni tíð. Þeir, sem vita um og/eða þekkja fleiri slíka staði í umdæmi, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við ferlir@ferlir.is.

Álagahóll

Grindavík

Álfhóll við Þorbjörn h/f í Grindavík.

Við Þorbjörn – inni í portinu – er gróinn hraunhóll, varðveittur í horni malbikaðs athafnaplans inni á milli verkunnarhúsanna (elsta hús Þorbjörns h/f var jafnan nefnt Resikó því það þótti stór áhætta að hefja síldarsöltun á árunum í kringum 1950 og byggja verkunarhús yfir starfsemina).
Segir sagan að útgerðarmaður, löngur áður en hús voru reist þarna, hafi skirrast við ábendingum um að hólnum mætti ekki raska. Gerði hann það, en þó varlega. Þrátt fyrir það féll skömmu síðar á manninn bátur og hann lést. Var það talið til sannindamerkis um álfabyggð í hólnum.

Goðatóft

Goðatóft

Goðatóft við Hóp.

Þar voru kvíar, þegar fært var frá. Fram af henni er Vatnstangi. Þangað var vatnið sótt í kaffið og þótti bezta vatn hér í kring. Austar er hóll, sem heitir Öskuhóll. Hann er fullur af gamalli ösku. Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft, gamalt goðahús friðlýst, sem má ekki róta.

Miðaftanshóll (frá Hópi)

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll.

Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.

Þislar / Þyrnar

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Í austurjaðri Járngerðarstaðahverfis (gamla hlutans) uxu lengi þyrnar og þistlar. Sagan segir þennan gróður ávöxtinn, er óx upp af blóði kristinna manna og heiðinna, er rann þar saman, er Grindvíkingar börðust af mikilli hörku við Tyrki.

Sölvhóll

Sölvhóll

Sölvhóll.

Jórunn í Njarðvík, uppalin á Járngerðarstöðum, sagði Guðmundi Finnbogasyni þá sögu að hún hefði, á meðan hún var á Járngerðarstöðum, jafnan séð til huldufólks við Sölvhól. Ekki hafi mátt hrófla við hólnum. Eitt sinn hafi bóndinn í Vallarhúsum tekið sig til og slegið hólinn, en daginn eftir drapst hjá honum kvíga. Sölvhóll sunnan við Járngerðarstaði tengist í hugum fólks, sem fyrrum bjó á Járngerðarstöðum, huldufólki og álfum. Vestan hólsins er Tíðarhlið, austan Hólsgarður og hádegishóll að sunnanverðu (sem sjórinn er reyndar nú búinn að taka til sín að mestu).

Járngerðarleiði

Járngerðardys

Járngerðardys.

Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

Silfra

Silfra

Silfra.

Skammt fyrir ofan þorpið er gjáin Silfra. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum.

Bjarnagjá

Bjarnagjá við Grindavík.

Gjá þessi er upp af Vatnsstæðinu. Fast við það er varða við veginn til Keflavíkur og heitir hún Títublaðavarða.

Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur. Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.

Títublaðavarða

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

Önnur saga um að þessari vörðu mætti ekki raska. Meðan hún stæði myndi Grindavík vera óhætt (TÞ). Gömlu mennirnir á Járngerðarstöðum bættu jafnan í vörðuna eða hlóðu hana upp eftir þörfum. Nú stendur hún þarna, gróinn og hálffallin. Þetta var fyrsta varðan við Skipsstíginn er haldið var af stað frá bænum. Nú er hún fast utan við girðingu varnarliðsins. Innan hennar sést í Eldvörpin. Í þeim er (eða var) klettur er nefndur var Álfakirkjan.

Helghóll

Helghóll

Helghóll.

Upp af Silfru voru Eldvörpin en þau eru nú horfin því herinn sléttaði þau út. Vestur af þeim er Eldborg. Þar upp af er graslendi sem nefnt er Lágafellsheiði. Um hana lá vegurinn til Keflavíkur. Þar vestur af er Bjarnafangi (S.T.) eða Bjarnafles. Þetta er klöpp rétt vestur eða norðvestur af Eldborg. Hjá henni er Litliblettur. Þá er Stóriblettur og Langhóll vestur af Eldvörpum.
Norður af Eldvörpum er grashóll sem heitir Helghóll og kringum hann eru grasivaxnar lágar, Helghólslág (S.T.) eða Helghólslautir. Hóllinn sjálfur er toppmyndaður, þar var sagt að hefði verið huldufólkskirkja. Upp af Helghól er Lágafell.

Gíslavarða eða „Tyrkjavarða“

Gíslavarða

Gíslavarða.

Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.

Hjálmagjá (Húsatóptum)

Hjálmagjá

Hjálmagjá.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.

Harðhaus

Hjálmagjá

Hjálmagjá t.v. og Harðhaus framar.

Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum. Harðhaus fékk nafn sitt er bóndi á Tóptum reyndi að slétta hann líkt og aðrar skákir, en fékk þá þrálátt mein í annan fótinn. Lét bóndi þá af túnsléttunni í hólnum og varð hann aldrei sleginn. Talið var að huldufólk hefðist við í hólnum.

Álfakirkja (Hóp)

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Austan við bæinn að Hópi við Hópið er Hópsvör. Austanvert við túnið er svonefnt Vatnsstæði. Fast vestan við Vatnsstæðið er stakur klettur, sem heitir Einbúi. En milli Vatnsstæðis og Skiparéttar, er síðar getur, er hraunhryggur og strýta, sem heitir Álfakirkja. Suður af Vatnsstæðinu er Skiparétt. Þetta er grjótrétt, sem skipin voru sett upp í.

Gjáhóll

Gjáhóll og Gjáhólsgjá.

Beint vestur af bænum Hópi austan við veginn er hraunhóll, sem heitir Stamphóll, og gjá inn með hrauninu frá Járngerðarstöðum, austur með veginum, heitir Stamphólsgjá. Austar er Gjáhólsgjá og Gjáhólsvatnsstæði. Milli tjarnanna er smáhraunrimi, breiður slakki með hamrabeltum beggja vegna. Slakkinn heitir Gjáhólsgjá. Austan við gjána er Gjáhóll. Þarna hafði herinn fylgsni í síðasta stríði. Þar austur af er stór hóll, sem heitir Langhóll. Álfarnir, sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna, sem fyrr var getið.

Þórkötluleiði

Þórkötludys

Sigurður Gíslason við dys Þórkötlu.

Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

Heródes

Heródes

Heródes.

Sunnan og fast við Miðbæ er steinn er stendur upp úr jarðveginum. á austurhlið hans, efst er áletrun. Segir sagan að steininn megi ekki færa úr stað því þá hljótist af verra. Ekki er vitað með vissu fyrir hvað áletrunin stendur eða hvaðan nafnið Heródes er til komið, en áreiðanlegt er talið að hvorutveggja er mjög gamalt.

Þjófagjá

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna. Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni. Við norðurenda Þjófagjár er dalmynduð kvos, Hádegisgil og Miðmundagil. Það eru eyktamörk frá seli er var á Baðsvöllum og síðar getur.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Ef farið er yfir Selháls sem er milli Þorbjarnar og Hagafells taka við sléttir vellir, Baðsvellir. Sagt er að þeir dragi nafn af því að þar hafi ræningjar baðað sig. Norðan í Þorbirni eru tvö gil grasivaxin. Eystra gilið er Hádegisgil en hitt er Miðmundagil.

Þorbjarnarfell

Þjófagjá.

Þjóðsagan; „Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá.
Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.
Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.“

Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar [í Hagafelli]. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.

Festarfjall

Festarfjall

Festarfjall.

Hraun er næsta jörð við Ísólfsskála og Krýsuvík. Bærinn stendur við sjó vestanvert við Hraunsvík, rétt utast við hana vestanverða. Merkjalína sú, sem Gísli gaf mér upp, var þannig: úr austanverðu Festarfjalli úr berggang, sem þar er, og nefndur er Festi. Er það alláberandi stuðlabergsgangur, hálsfesti tröllkonu nokkurrar.
Þjóðsaga segir þetta vera gullhálsfesti tröllkonu sem bjó í fjallinu. Hún lét svo um mælt að þegar ábúendum á Hrauni tækist að láta dóttur heita í höfuð sér og stúlkan gengi á sandinum þarna fyrir neðan mundi festin falla um háls henni. Þetta virðist ekki hafa tekist enn.

Festarfjall

Festarfjall.

Þjóðsagan; „Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.“

Kapellulág

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

Rétt vestan við Hvalhól er smávík, sem heitir Hrólfsvík. Upp af henni er lægðardrag, sem nefnt er Kapellulág. Þar er smágrjótrúst. Er til þjóðsaga um rúst þessa.
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar ræntu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun. Kristján Elján hafði meiri áhuga á þessum manngerða hól, en entist ekki aldur til.

Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir.
Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest. Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Kapellulág

Kapellulág.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.

Hraun

Dysin við Hraun.

Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollað hvarfi þeirra.
Engin dys sjást þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.

Guðbjargarhellir

Guðbjargarhellir

Guðbjargarhellir.

Austur af hrauninu framan við Húsafell er hellisskúti sem nefndur er Guðbjargarhellir. Hann er kenndur við Guðbjörgu ömmu Magnúsar Hafliðasonar en hún hafði þarna afdrep í leiðindum sínum fyrst eftir að hún kom að Hrauni.

Geldingadalur

Geldingardalur

Geldingadalur – dys Ísólfs.

Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn. Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það bezt.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum haust og vor fyrr á tímum lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna.

Méltunnuklif

Gamli-Krýsuvíkurveguinn um Méltunnuklif.

Milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Lá annar vegurinn áfram til Grindavíkur en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa.
Þar sem vegirnir skiptast er steinn sá er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því að í honum eru holur nokkurar þar sem vatn safnast fyrir. Svo var sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn er þarna áttu leið um, þar sem hvergi var vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta er að Drykkjarsteini kom og svaladrykknum sárlega fegnir. Varð steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum og var ekki laust við að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestu langviðrum.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Þó gat það við borið að vatnið þryti í steininum eins og þessi saga sýnir. Einhverju sinni bar svo við sem oftar að ferðamenn voru á suðurleið um veg þennan. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir því mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk er þeir kæmu að Drykkjarsteini.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn við gömlu þjóðleiðina.

En er þangað kom bar nýrra við því að allar holurnar voru tómar og engan dropa þar að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög eins og vænta mátti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækibragðs að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hann hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við að holan var jafnan þurr og það engu að síður þótt rigningum gengi.
Liðu svo nokkur ár að ekki bar til tíðinda. Átti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans er hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar er farið var um veginn fannst hann dauður undir Drykkjarsteini og kunni það enginn að segja hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur
-Örnefnaskrár
-http://bokasafn.rnb.is/default

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Hraun

Skoðaður var forn „skírnarfontur“ úr grágrýti við Hraun austan Þórkötlustaðahverfis. Hann fannst þegar verið var að grafa við fjárhús, sem þarna eru, en í fyrri tíð átti bænahús að hafa staðið þar norðan húsanna. Steininum var hent til hliðar í fyrstu, en Siggi (Sigurður Gíslason) á Hrauni lét grafa hann upp fyrir skömmu og er hann hinn fallegasti og merkilegasti gripur.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Að vandlega skoðuðu máli virðist steinninn einnig geta verið svonefndur stoðsteinn. Þeir voru hafðir undir burðarstoðum bæja, höggvið í þá fyrir stoðinni og hún látin standa í holunni. Dæmi þessa má t.d. sjá í gömlu Herdísarvíkurbæjartóftinni, en þar er stoðsteinn þar sem önnur burðarstoðin við útidyrnar var.

Siggi sýndi FERLIRsfélögum dys ofan vegar sem Kristján heitinn Eldjárn hafði mikinn áhuga á, en gafst ekki tími til að kanna, auk þess sem skoðaðir voru brunnar við bæinn og Gamlibrunnur úti á sandinum ofan við Hrólfsvík.

Hraun

Refagildra við Hraun. Sigurður Gíslason ásamt Sesselju Guðmundsdóttur.

Um er að ræða fallega hlaðinn brunn, en er nú að mestu fylltur fosksandi. Loks var haldið upp Sandskarðið og upp í Hraunsleyni þar sem leynist ein fallegasta refagildra sem um getur. Um er að ræða krossgildru með fjórum inngöngum (en engum útgöngum).

Sigurður fór að rifja upp staðsetninguna eftir að FERLIR fór að grennslast um refagildrur á þessum slóðum. Niðurstaðan varð þessi ofan við Hraunsleyni. Hún er hlaðin úr hraungrýti. Tveir inngangar hennar er að mestu heilir og sá þriðji heillegur. Staðsetning hennar er nálægt refaslóð, með hraunkantinum.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinninn að vetrarlagi.

Eldri refagildrur eru einnig sunnan við Hraunsleyni, en mun minni. Nokkur hætta er á að gildrunni verði raskað þegar kemur að framkvæmdum við Suðurstrandarveginn því hún fellur vel inn í hraunmyndina.

Þá var haldið að Drykkjarsteini í Drykkjarsteinsdal og hann skoðaður. Steinninn er við gömlu þjóðleiðina áleiðis yfir að Méltunnuklifi á bak við Slögu. Vísa hefur verið ort um steininn og til er þjóðsaga um hann. Sú sögn hvílir og á steininum að í honum þrjóti sjaldan vatn.
Haldið var inn eftir dalnum og áfram inn Nátthaga og gengið á skarðið. Var þá komið inn í slétta sendna dalbreiðu vestan Stóra-Hrúts.

Gengið var að brúnum Merardala og þaðan til vesturs ofan í Geldingadal. Dalurinn var skoðaður fram og aftur sem og meint dys Ísólfs gamla frá Skála.

Geldingardalur

Geldingadalur – dys Ísólfs.

Gengið var upp úr dalnum að sunnanverðu og komið niður í Selskálina norðan Borgarfells. Á leiðinni yfir fellið blasti við stórkostlegt útsýni yfir allt vestanvert Reykjanesið.

Gengið var að Einbúa og skoðuð hlaðin forn hestarétt sunnan hans sem og lítið hlaðið skjól. Gömul leið liggur þarna þvert á og hefur verið talsvert kastað upp úr götunni. Líklega er þarna um að ræða hluta af Sandakravegi þeim, er jafnan er merktur inn á gömul landakort. Stefnir gatan á norðurhlíð Borgarfjalls. Skammt sunnar fannst haglega hlaðið refabyrgi og skammt sunnar þess fallegur stekkur.

Borgarhraun

Borgarhraun – stekkur.

Hraunkanturinn þarna er vel gróinn. Ekki er ólíklegt, ef vel væri leitað, að finna mætti seltóft í eða við einhvern hraunbollan, en afstaðan þarna er svipuð og í öðrum selsstöðum á svæðinu, enda líklegt að þessa svæði hafi verið nýtt til þeirra hluta.

Viðeyjarborg

Viðeyjarborg – fjárborg við Ísólfsskála.

Selskálin bendir til selstöðu, en í dag er ekki vitað hvar Ísólfsskáli hafði í seli fyrrum. Engin ummerki eru eftir selstöðu í sjálfri skálinni og ekki við Einbúa. Hins vegar bendir stekkurinn til selstöðu þarna á skjólsælum stað. Mikið af brönugrasi vex á börmum bollanna og talsvert gras er með köntunum, en óvíða annars staðar.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Gengið var með hraunkantinum niður að Ísólfsskálaréttinni gömlu (Borgarhraunsréttinni) og áfram fram hjá hjá fjárborg (Borgarhraunsborg) áður en göngunni lauk. Sagnir eru um að Viðeyjarklaustur hafi haldið fé í borginni, en það hafði ítök í fjölmörgum jörðum, einkum á norðanverðum Reykjanesskaganum. Um það er fjallað annars staðar á vefsíðunni. Eitthvert samhengi gæti verið með borginni og stekknum norðan við hraunkantinn. Ef svo hefur verið aukast enn líkur á að finna megi tóft eða tóftir á svæðinu. Líklegra er þó að í stekknum hafi verið heimasel frá Skála, enda stutt vegalengd þar á millum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hraun

Hraun – uppdráttur ÓSÁ.

Eldgos

Eldgos hófst á Reykjanesskaga klukkan rúmlega sex þann 8. febrúar. Um er að ræða þriðju goshrinu á sömu sprungurein ofan Grindavíkur. Sú fyrsta var 18. desember 2023 og önnur 14. janúar 2024. Bæði fyrrnefndu goshrinurnar voru skammvinnar, vöruðu í rúman sólarhring.

Grindavík

Eldgos og örnefni ofan Grindavíkur.

Sprungan að þessu sinni er innan við 3 km löng, liggur frá Sundhnúk í suðri til austurenda Stóra-Skógfells. Hraun rennur mestmegnis til vesturs á þessu stigi, undan halla. Bjarminn sést víða í mogunsárinu á Suðvesturhorninu.
Vel hafði bætt í skjálftavirkni á svæðinu um hálftíma áður og sendi Veðurstofan þá viðvörun um auknar líkur á eldgosi. Ekki leið á löngu þar til glóandi kvika fór að sjást á yfirborði.
Um er að ræða stórkostlegt sjónarspil náttúruaflanna þar sem þau sýna ofurmátt sinn gagnvart okkur – gestum þeirra.

Sundhnúkar

Hraunrennslið fyrstu klukkundirnar.

Gosið er á sömu slóðum og gosið sem varð 18. desember. Það ætti að þykja heppileg staðsetning og að megininnviðum standi lítil ógn af gosinu. Fyrstu klukkustundirnar munu þó skera úr um það.
Goshrinurnar eru taldar gefa góðar upplýsingar um myndun sprungureinahraunanna á Skaganum fyrrum.
Skv. áreiðanlegustu sérfæðingum er talið að þetta gos verði álíka skammvinnt og forverar þess, en þó ekki alveg án afleiðinga.

Sjá myndir úr eldgosunum þremur við Sundhnúk.

Grindavík

Eldgos 8. febrúar 2024.

Geldingadalur

Fjallað er um örnefnið „Meradali“ á Vísindavefnum:

Hraun

Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.).

„Í landi Hrauns austan við Grindavík, í fjalllendinu austan við hina heimsfrægu Geldingadali, er djúp dalkvos sem ber heitið Meradalir. Þegar þetta er ritað er hraun tekið að renna þangað eftir að nýjar gossprungur mynduðust norðaustan við Geldingadali. Hvorugir dalanna eru raunar miklir dalir eins og heitið gæti bent til en tekið fram í örnefnalýsingu Hrauns að hugtakið sé hér einnig notað um brekkur og kvosir.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“ og sennilegt að þar hafi jarðvegsrof verið umtalsvert. Svæðið var notað til beitar, einkum að sumarlagi en sel frá mörgum jörðum í Grindavík voru austan við dalina, á svonefndum Selsvöllum auk þess sem örnefnið Selskál skammt vestan við gosstöðvarnar bendir til selstöðu. Þótt ótrúlegt megi virðast var einnig eldiviðartekja í nágrenninu sem er í upphafi 18. aldar sögð reitingur af lyngi, hrísi og slíku lítilvægu.

Geldingadalur

Geldingadalur fyrir gosið 2021.

Meradalir er djúp dalkvos í landi Hrauns. Bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafa gengið á þessu svæði frá örófi alda.  Örnefnið Meradalir eitt og sér er auðskilið og kemur kannski engum á óvart að bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafi gengið á þessu svæði frá örófi alda. Fleiri búsmalanöfn af þessu tagi fyrirfinnast raunar í landi Hrauns, til dæmis Tryppalágar, Hrútadalur, Nauthóll og Kúalágar. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að hér hafa sennilega ekki verið mjög stórir fjárhópar á fyrri öldum (þótt fjölgað hafi á 19.-20. öld) og tæplega nein stóð í Meradölum.

Hraunssel

Hraunssel Sandfell og Höfði fjær.

Almennt séð eru landgæði rýr á þessum slóðum, enda hefur sjávarútvegur lengst af verið aðalatvinnuvegur í Gullbringusýslu en ekki landbúnaður og byggðin grundvallast á honum – ekki síst í Grindavík. Búfjárfjöldi er lítill svo langt sem tölur ná og til að mynda taldi bústofn Hrauns ekki nema tvo hesta og eina meri þegar jarðabók var rituð í upphafi 18. aldar – en auk þess þrjá sauði, fjórar kýr, ellefu ær, nokkrar gimbrar og lömb. Allt sauðfé gekk úti um 1840 og þá voru hvorki til fjárhús, beitarhús né fjárborgir í sókninni. Hesthús hafa áreiðanlega verið sjaldgæf líka og líklega hafa merar sem og önnur hross gengið úti árið um kring.

Nauthóll

Nauthóll í Fagradal.

Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“. Þeir sjást hér vel á loftmynd sem tekin var 5. apríl 2021 þegar hraun tók að renna niður í dalina. Meradalirnir breiða úr sér þar sem hrauntungan endar vinstra megin fyrir miðri mynd. Hægra megin á myndinni sést hraunið í Geldingdölum.

Selsvellir

Selstóftir á Selsvöllum.

Til marks um beitargæði eða öllu heldur skort á þeim er tekið fram í sóknarlýsingu að á Suðurlandi finnist eigi jafngraslítil og gróðurlaus sveit. Sömuleiðis er fullyrt að á Hrauni sé ekki höfð nokkur skepna heima á sumrum vegna beitarskorts heldur allir hestar daglega fluttir langt í burtu, „…á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni“, en fellið er heldur vestar en dalirnir sem hér eru til umræðu. Kannski geyma Meradalir vísbendingu um slíkar nytjar, og eru þá kannski helst vitnisburður um skort á landgæðum og að augu manna hafi beinst að hverjum einasta bletti sem gat fóðrað skepnu eða tvær.“

Rétt er að geta þess að örnefnið „Merardalir“ eru jafnan notað í fleirtölu vegna þess að dalirnir eru tveir; Meradalur og Syðri-Meradalur (Fremri-Meradalur). Slíkt og hið sama gilti og um Geldingadalina.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81496

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforngjaráðskorti 1906.

Tag Archive for: Geldingadalur