Tag Archive for: Geldingatjarnarsel

Geldingatjarnarsel
Samkvæmt afsölum var Geldingatjörn á Mosfellsheiði fyrrum í landi Mosfells.
Seljabrekka hét áður Jónssel og var Jónssel ein af jörðum þeim er tilheyrðu kirkjuléninu Mosfelli sem varð konungseign eftir siðskiptin og síðar eign íslenska ríkisins. Mosfell var stórjörð og átti Mosfellsdal og alla Mosfellsheiði austur að landi Árnesinga. Seljabrekka var gert að býli 1933 með sameiningu Jónssels og Mosfellsbringna og síðan hefur verið bætt við býlið landi frá aðliggjandi jörðum og jafnframt hafa farið fram makaskipti á landi.Seljabrekka er sunnan við veginn til GeldingatjörnÞingvalla og liggur milli Laxness og Leirvogsvatns og er því við jaðar Mosfellsheiðar. Landinu hallar frá þjóðvegi og niður til Geldingatjarnar sem er í lægsta hluta landsins. Þegar kirkjumálaráðherra f.h. íslenska ríkisins seldi Mosfellshreppi Mosfellsheiðina frá kirkjujörðinni Mosfelli þann 24. maí 1933 þá var Jónssel undanskilið í sölunni eins og segir í afsali: „…þá sel ég hér með nefndri hreppsnefnd fyrir hönd nefnds hrepps frá næstu fardögum að telja Mosfellsheiðarland, eins og það hefir tilheyrt nefndu prestsetri, að undanskildu svonefndu Jónsseli, grasbýlinu Mosfellsbringum, nýbýlinu Svanastöðum, sbr. leigusamning um land handa þessu nýbýli 5. júní 1930, og veiðiréttinum í Leirvogsvatni svo og þeim hluta Leirvogsár, er að heiðarlandinu liggur“. Kirkjumálaráðuneytið leigði ábúendum jörðina allt til ársins 1999 er ábúandinn Guðjón Bjarnason keypti hana en seldi síðar umbj. mínum. Í afsali er ekki lýst merkjum en vísað til þess að kaupandi hafi kynnt sér merkin. Í ábúðarsamningi var ætíð getið merkja en í byggingarbréfum 1968 og 1984 stendur: „Landamerki Seljabrekku (hét Jónssel) sem áður var hluti Mosfells, eru þessi: Að sunnan fær Seljabrekka land, sem áður tilheyrði Bringum þannig að suðurmörk landsins verða ca. 50 metrum norðan við núverandi Sogslínu frá Laxnessmörkum allt að Geldingatjarnarlæk. Geldingatjörn verður öll í landi Seljabrekku.
Að vestan landamerki Laxnesslands, að norðan þjóðvegur og að austan landamerki heiðarlands eins og þau eru ákveðin í kaupsamningi milli Mosfellshrepps og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 24. maí 1933.“ Landamerki gagnvart Laxnesi eru glögg og hafa eigendur Laxness látið gera uppdrátt (des. 92) með hnitsettum Geldingatjörnmerkjum jarðarinnar, sem eigendur nágrannajarða hafa áritað. Eigandi Seljabrekku vinnur að því að afla gagna frá ráðuneytum um réttindi sín og afmörkun landsins. Seljabrekka fékk í skiptum við íslenska ríkið Selholtsland austan síns lands samkvæmt bréfi Landnámsstjóra. Þótt ekki sé nefnd stærð landsins í bréfinu var um 150 ha að ræða en það var landstærð Selholts neðan þjóðvegar. Enginn uppdráttur fylgdi eða skýr markalýsing. Merkjalínan er lítið eitt sunnar en girðing sú er sveitarstjórn lét setja upp til að halda fé á Mosfellsheiðinni og liggur milli Geldingatjarnar og Leirvogsvatns. Ábúendur jarðarinnar settu urriða í Geldingartjörnina en hún var án veiði á fyrri tímum. Þá hafa þeir stíflað tjörnina til að koma í veg fyrir að hún botnfrjósi en það mun oft hafa komið fyrir að hún þornaði upp á sumrum. Eigendur Seljabrekku hafa smalað land sitt sjálfir en við haustsmölun á Mosfellsheiði hefur verið smalað sameiginlega heiðarlandið af Mosfellingum og þá hefur verið talið að heiðin byrjaði þar sem hallinn upp á við byrjar, þ.e. hallanum öndvert við Seljabrekku, upp frá mýrinni sem er milli Leirvogsvatns og Geldingatjarnar.
Gengið var til suðurs frá Þingvallavegi þar sem hann rís hæst, á Hádegisholti, milli Seljabrekku og Stardals. Ætlunin var m.a. að skoða hugsanlega fjárborg á heiðinni er sést hafði á loftmynd sem og kanna staðfestingar á óljósum sögnum af selsminjum norðan Geldingatjarnar (sem reyndar höfðu einnig sést á loftmyndinni). Ekki er vitað til að þær minjar hafi áður verið skráðar á léréft, hvað þá í skjátexta.
Að sögn Magnúsar Jónassonar, bónda í Stardal, voru Svanastaðir við útfallið úr Leirvogsvatni. Þeir voru byggðir um 1930, en íbúðarhúsið rifið um 1970. Aðstæður breyttust þarna þegar afrennsli vatnsins var stíflað.
Geldingatjarnarsel Landið á þessu svæði, sem og víða á heiðum Suðvestanlands, hefur að hluta orðið jarðvegseyðingunni að bráð; mosaþembur tekið við af runnagróðri sem og berir melar, en einstakar gróðurtorfur náð að þrauka, enn sem komið er.
Stefnan var tekin á hámelinn með væntanlegri fjárborginni. Áður hafði fótgöngulið verið sent í kring um Geldingatjörnina. Það þóttist finna þar eldgamla tóft, breiða. Tekið var hnit þar og myndir teknar. Ekki lá þá ljóst fyrir hvort um væri að ræða tóft eða náttúruleg ummerki, því þarna er ekkert gras, bara mosaþúfur. Þarna á melnum fyrir ofan meintar seltóftir er nyrðri Bringnaleiðin (óvörðuð, enda ekkert stæði eða efni á melnum), en leiðirnar voru tvær og komu saman við Illaklif.
Sem fyrr segir var stefnan tekin á hina meintu fjárborg á Hádegisholti, annað hvort nýhlaðinni eða endurhlaðinni (þrjú umför með langböndum á millum). Um 12 vindstig voru af norðri svo gott var að setjast niður í borginni og láta reyna á skjólið. Þótt „borgin“ væri ekki hærri en raun bar vitni (samt nógu há fyrir rollur), var þar feykigott skjól. Fróðlegt var að fá að vita að hvaða tilefni „fjárborg“ þessi var hlaðin og það þarna, á hæsta melhól heiðarinnar. Hafði eldri fjárborg verið þar fyrir? Þegar svara var leitað hjá Magnúsi bónda í Stardal, kom í ljós að Tryggvi Hansen, hleðslumeistari, hafði hlaðið þetta mannvirki fyrir ca. 20 árum vegna einhvers sérvitringsháttar. Staðurinn átti að vera merki í beinni línu milli Reykjavíkur og Þingvalla og afmarka eitthvað óljóst.
Tekin var stefna á tóftina á loftmyndinni. Gengið var beint á hana þar sem hún kúrði í skjóli undir lágum og reisulitlum mel, varin fyrir austanáttinni. Ofan melarins og neðan er hins vegar hið ákjósanlegasta beitarland, mýrar með safagrænum störum. Um er að ræða eitt hús, stekk aftan við það og kví norðaustar, fast undir melbrúninni. Kannað var og næsta umhverfi, en engar aðrar minjar voru sýnilegar. Selsvörðu var ekki til að dreifa, enda lítið um efni til uppbyggingar hennar. Hins vegar mátti sjá móta fyrir einum af hinum þremur Bringnavegum ofan selsins. Þetta sel virðist vera eins og Jónssel (eitt hús), en í Jónsseli er auk þess tóft er virðist vera hús, en gæti eins hafa verið kví. Fjárborg Erfitt er að áætla aldur þessarar tóftar, en eitt er víst; hún hefur að mestu verið gerð úr torfi og virðist forn.
Í leiðinni var litið á fjárborgir tvær skammt ofan við Gljúfrastein í landi Laxness. Þær voru friðlýstar árið 1976. Í lýsingum segir frá þeim, „það sem önnur er neðan þjóðvegarins og hin ofan hans. Heitir önnur Grænaborg, en hin er ónefnd“. Málið er að Þingvallavegurinn liggur milli fárborganna. Sú efri er sýnum minni en sú neðri, sem nefnd hefur verið Grænaborg. Fæstir vegfarendur, sem um Þingvallaveginn aka, virðast sjá þessar fornu minjar, en stefna þó óðfluga á hinn forna þingstað þar sem fátæklegra er um að litast – ef grannt er skoðað. Þingstaðurinn segir jú ákveðna sögu um sjórnskipan og menningu þjóðar í mótun, en fornar fjárborgir eru áþreifanlegur vottur um raunverulegt brauðstrit fólksins, sem flest okkar eru fædd af og fóstruð. Sama gildir um selin í heiðunum, götur, garða og önnur mannvirki hins árstíðarbundna amsturs. Þá voru greinileg skil milli verka, þ.e. hvað var gert í á vetrum og sumrum. Ártíðarhringurinn réði því til hverra verka var gengið hverju sinni. Sauðburðurinn á vorin, endurgerð mannvirkja, eggjatínsla, áburður, túnslétta, sláttur, slátrun, úrvinnsla afurða, kvöldvökur og þreying þorra. Allt voru þetta fastir liðir í lífi fólks og hver ártíð gerði sínar kröfur. Í dag er þessu öðruvísi farið; fólkir gerir kröfurnar og reynir jafnframt að uppfylla þær – með misjöfnum árangri þó.
Þá er það næsta: „Úlfarsfell hafði sel á heimalandi“. Spurning er hvar það kann að leynast?
Frábært veður. Sól og nægt súrefni að norðan. Gangan tók 33 mín.

Geldingatjörn

Geldingatjörn.