Færslur

Ásláksstaðir

Gengið var frá Strandarvegi á Vatnsleysuströnd áleiðis að Gerðistangavita á Atlagerðistanga. Lagt var af stað frá gamla samkomuhúsinu Kirkjuhvoli.

Gerðistangaviti

Gerðistangaviti.

Við veginn að norðanverðu er gróinn hóll. Við hann er hlaðið umhverfis ferkantaðan lítinn túnvöll eins og svo víða þarna norðan af. Sjá má hvernig grjótið hefur verið borið til í litlar hrúgur og þúfurnar sléttaðar. Síðan hefur frostið verið að hjálpa grjótinu að ganga upp úr sverðinum. Handan við hólinn er annar völlur og aðrir utan við hlaðin heimatúngarð við gamla tvískipta tóft. Sunnan hennar er heillega hlaðinn veggur. Norðvestan við hana er einnig hlaðinn veggur, nær kominnn í kaf í jarðveginn. Sjórinn gengur inn á hann í háflæði. Svo er að sjá að landið hafi lækkað þarna nokkuð frá því sem var því víða eru túnbleðlar undir sjó.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Halldórsstaðir og Narfakot eru vestar, en austar eru Ytri-Ásláksstaðir. Aðrir bæir á Ásláksstaðatorfunni eru (voru) Sjónarhóll, Innri-Ásláksstaðir, Hallandinn, Miðbæjarbúð, Móakot og Knarrarnes.
Úti á Altagerðistanga er vitinn. Við hann er tóft sem sjórinn er smám saman að brjóta niður, ágætt dæmi um ágang sjávar þarna við ströndina og breytingarnar sem hafa orðið á tiltölulega skömmum tíma. Vitinn stendur á tanga, en sunnan og vestan við hann eru smáar víkur og vogar. Austar er samfelld strönd utan við Brunnastaðahverfið.
Mikið fuglalíf er við ströndina.
Þetta svæði er kjörið til kvöldgöngu eða styttri gönguferða.
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 43 mín.

Atlagerðistangaviti

Atlagerðistangaviti og Atlagerði.