Færslur

Sandgerðishöfn

Í FAXA árið 1964 ritaði Gils Guðmundsson eftirfarandi lýsingu undir fyrirsögninni “Suður með sjó”:
Gils“Skemmtilegur og athyglisverður greinarflokkur um byggðir Suðurnesja, eftir Gils Guðmundsson rithöfund, birtist í vikublaðinu „Frjáls þjóð” nú á síðast liðnu sumri. — Þar sem greinarflokkur þessi var hinn fróðlegasti, fór ég þess á leit við höfundinn, að hann leyfði birtingu greinarinnar hér í blaðinu. Varð hann góðfúslega við þeim tilmælum og kann ég honum beztu þakkir fyrir.
Að þessu sinni er förinni heitið um Reykjanesskaga. — Reykvíkingur, sem skreppur í bíl suður með sjó, til Keflavíkur eða Sandgerðis, sér að jafnaði eitthvert brot af því mannlífi, sem þar er lifað í dag, en minnist þess sjaldan, að Reykjanesskaginn á sér sína sögu. Og þó að minjar fornrar mannvistar á Reykjanesi blasi ekki hvarvetna við augum ferðamannsins, sem þýtur í bíl um þjóðveginn, má víða finna þær á þessum slóðum, ef rólega er farið yfir og eftir leitað. Í dag er ætlunin að ferðast um Reykjanes án asa og í stuttum áföngum, og gefa einkum gaum landslagi og sögu.
(Hér er sleppt úr nokkrum þáttum, sem fjalla um Kópavog, Álftanes og Hafnarfjörð).
Á Hvaleyrarholti sunnan Hafnarfjarðar er ástæða til að staldra við, þar eð nú opnast nýtt útsýni upp til fjalla og út eftir Reykjanesskaga. Fjöllin, sem mest ber á, eru Lönguhlíð og Sveifluháls með tindunum: Hellutindum, Stapatindum og Miðdegishnúk. Lengra til vesturs sjást Dyngjur og enn vestar Keilir. Láglendið allt, frá fjöllunum niður að flóanum, svo langt út eftir sem augað eygir, er ein samfelld hraunbreiða. Flestum mun þykja það við fyrstu sýn næsta fábreytilegt landslag og nöturlegt. En við nánari kynni af þessum hraunum kemur í ljós, að þau hafa sína tilbreytni, sín sérkenni, sína fegurð. Litbrigði eru þar mikil eftir birtu, gerð hraunanna og gróðri. Mosagrónu hraunin eru ljósgrá í þurrki, en gulgræn í vætu. Í gömlu hraununum er víða töluverður gróður, gras, lyng og birkikjarr, enda eru þar góðir sauðfjárhagar og skjól.

Hraunin
Kapella-222Við höldum nú niður af Hvaleyrarholti á leið okkar „suður með sjó”. Fyrr en varir erum við komin inn í hraunin, fáa metra yfir sjó. Fyrsti hraunflákinn heitir Hvaleyrarhraun. Það hraun er gamalt, flatt og hellótt, með kötlum víða og allmiklum burknagróðri. Þá tekur við Kapelluhraun, miklu yngra en hitt, úfið mjög og illt yfirferðar, ef farið er út af þjóðvegi. Nafnið dregur það af gamalli grjótdys í miðju hrauni, svonefndri „kapellu”. — Segja munnmæli, að þar hafi verið dysjaður einn af mönnum Kristjáns skrifara. Eftir nokkra stund er komið út úr Kapelluhrauni og farið framhjá Straumi, einum hinna svonefndu Hraunabæja. Þá tekur við víðáttumikið, gamalt og gróið hraun, er Almenningur heitir. Ber það nafn af því, að það er beitiland Hraunamanna, og mun vera gott sauðland. Þessu næst tekur við ungt apalhraun, Afstapahraunið. Í vesturjaðri þess er graslaut með smátjörn í, fast við veginn. Heitir þar Kúagerð, og var áningarstaður hestamanna, því að þarna var eini staðurinn milli Hafnarfjarðar og Voga þar sem hestar náðu til vatns.

Dyngjurnar

Trölladyngja

Trölladyngja og Spákonuvatn.

Nú komum við í Vatnsleysuhverfi. Síðan má heita samfelld byggð suður Vatnsleysuströndina. — Bæirnir standa í hverfum, Kálfatjarnarhverfi, kennt við kirkjustaðinn Kálfatjörn, Ásláksstaðahverfi og Brunnastaðahverfi. Frá Vatnsleysu ber mikið á Trölladyngjum og Keili, enda eru aðeins 8 km upp að honum og 10—12 km að dyngjunum. Þar sem við erum ekki á hraðferð í þetta sinn, er vel þess virði að gera dálitla lykkju á leið sína og halda upp að Trölladyngj um. Þangað er nú kominn akfær vegur. Þar eru gosstöðvar miklar og merkilegar, enda geta fornir annálar þess oft, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum. Um miðjan Reykjanesskaga liggja samhliða tveir langir og brattir hálsar, sem heita einu nafni Móhálsar. Austurhálsinn er nú jafnan kallaður Sveifluháls. Sunnanvert við hann er Kleifarvatn. Vesturhálsinn er eins og ey í ólgandi hraunhafi. Hann er víða grösugur, og þar eru margar tjarnir og lækir, en slíkt er næsta fátítt á Reykjanesskaga. Upprunalega mun þessi háls hafa heitið einu nafni Trölladyngjur, en nú heitir hann ýmsum nöfnum. Nyrzt á honum eru tvö fjöll, Trölladyngja og Grænadyngja (tæpir 400 m). 

Nupshlidarhals-222

Trölladyngja er hvass tindur, blasir hún við í suðri frá Reykjavík. Grænadyngja er hins vegar kollótt, þótt öllu hærri sé. Þarna er jarðhiti mikill, hverir margir og gufur leggur víða upp úr hrauninu. Auðvelt er að ganga á Grænudyngju. Þaðan er hið bezta útsýni. Reykjanesskaginn blasir að heita má allur við og má glögglega sjá hér upptök hinna mörgu og misgömlu hraunflóða, hvernig þau hafa ruðzt fram, hvert á annað ofan. Þaðan sér vestur á Eldey og austur til Kálfstinda. Norður úr Trölladyngiu gengur rani allmikill. Þaðan hafa mestu gosin komið. Vestan í rana þessum er röð af miklum eldgígum, og eru tveir þeir syðstu stórkostlegir. Hér er stórbrotið landslag og einkennilegt. Óvíða munu jafnmargir gígar á tiltölulega litlu svæði sem hér, og þó mikill gróður víða í grennd. Er það vissulega þess virði að gefa sér góðan tíma til að skoða sig hér um. En varlega ættu menn að fara í nánd við gígana, því að limlesting eða bani er hverjum þeim búinn, sem í þá fellur. Í hraununum á Reykjanesskaga eru fylgsni mörg, en óvíða þó fleiri og betri en hér. Ýmsar sagnir eru um, að menn hafi freistað þess að leggjast út á þessum slóðum, en fáir eða engir munu hafa átt hér langa dvöl. Einna greinilegastar eru heimildir um þrjá náunga austan úr sveitum, sem leituðu hælis í Reykjanesfjöllum í byrjun 18. aldar. Hétu tveir þeirra Jónar, en hinn þriðji var unglingspiltur, Gísli að nafni. Höfðu þeir áður verið á flækingi og stolið víða á bæjum, síðast í Flekkuvík á Vatnsleysuströnd. Meðan þeir höfðust við þarna á fjallgarðinum stálu þeir sauðum og rændu einn ferðamann. Söfnuðu þá bændur á Vatnsieysuströnd liði, handtóku útilegumennina og færðu til Bessastaða. Þaðan voru þeir fluttir til Alþingis á Þingvöllum og dæmdir. Jónarnir voru báðir hengdir, en Gísla hlíft við bana fyrir æsku sakir. En dæmdur var hann til húðstrýkingar, er svo skyldi fastlega á lögð, að næst gengi lífi hans.

Kvíguvogar
Storu-vogar-222Eftir að við höfum svipazt um á þessum mikilúðlegu slóðum trölla og útilegumanna, höldum við sömu leið til baka, niður á þjóðveginn hjá Vatnsleysu. Er nú farið í suðvesturátt. Næsti áfangastaður er Vogar, sem að fornu nefndust Kvíguvogar. Þar er dálítið þorp og útgerð nokkur, enda allgóð höfn. Héðan var mikil útgerð á tímum áraskipanna. Hér bjó á 17. öld Einar Oddsson lögréttumaður, stórbokki mikill og ríkisbubbi. Um hann orti Hallgrímur Pétursson:

Fiskurinn hefur þig feitan gert,
sem færður er upp með trogum,
en þóttú digur um svírann sért,
samt ertu Einar í Vogum.

„Bezta og skemmtilegasta útræðið á öllu landinu var undir Vogastapa”, segir sjósóknarinn Ágúst Guðmundsson í Halakoti í endurminningum sínum. Hér er að vísu fast að orði kveðið, því að víða var gott til útræðis og stutt á mið, meðan fiskur gekk upp í landsteina. En fiskimiðin undir Vogastapa voru landsfræg, hlutu snemma nafnið „Gullkistan”, því að löngum þóttu þau bera af flestum öðrum miðum. Menn brutu að vonum um það heilann, hvers vegna þorskurinn gekk svo mjög á þetta litla svæði og hélt þar oft kyrru fyrir langtímum saman uppi við landsteina. Og skýringuna töldu þeir sig finna. Svo segir í ferðabók Eggerts og Bjarna: „Það er algeng sögn, að undir skagann liggi göng, og sérstaklega séu víð göngin milli Grinndavíkur og Vogastapa, og á fiskurinn að ganga í gegnum þau. Það er víst, að þegar þorskurinn gengur austan með suðurströndinni og sjómennirnir fylgjast með, hversu hratt göngunni miðar milli verstöðvanna, þá er hann ekki fyrr kominn til Grindavíkur en hans verður vart undir Vogastapa, og þó er leiðin þar á milli 13 mílur, er farið er fyrir Reykjanes, og einskis fisks verður vart í verstöðvunum milli Grindavíkur og Vogastapa.” Það er enn gömul sögn, sem á að sanna þessa sögu um undirgöngin, að einhverju sinni misstu Grindvíkingar stóra lúðu með merktum öngli, en morguninn eftir veiddist hún undir Vogastapa. Það var og haft fyrir satt, að tveir þorskar, rígastórir, héldu vörð um göngin, sinn við hvorn enda. Ekki eru nútímamenn trúaðir á þessi fiskagöng. En oft veiðist enn vel undir Vogastapa.

Vogastapi
Stapinn-222Vogastapi er um 80 metra hár. Hann skagar í sjó fram sunnan við Vogana. Framan í honum eru þverhnípt björg, og hétu þau Kvíguvogabjörg að fornu. Þar verpir nokkuð af sjófugli. Leiðin lá áður yfir Stapann, þar sem heitir Reiðskarð, en akvegurinn er á öðrum stað. Efst á Stapanum er hóll lítill, sem Grímshóll nefnist. Kemur hann allmikið við þjóðsögur. Segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, að þar hafi ungur vermaður, Grímur að nafni, komið að bæ huldumanns, sem bauð honum að róa með sér á vetrarvertíð. Lét Grímur til leiðast. Réru þeir jafnan tveir á báti og öfluðu vel, höfðu um lokin fengið 10 hundruð til hlutar. Réri Grímur þarna margar vertíðir og líkaði vel vistin. Tókust ástir með Grími og dóttur bónda, svo að hann sótti að lokum reitur sínar, hélt með þær sem leið liggur suður á Vogastapa og sást ekki í mannabyggð upp frá því. Er talið, að bær huldumannsins sé hóllinn efst á Stapanum, sem upp frá þessu nefndist Grímshóll.
Mjög hefur þótt villugjarnt og slysahætt á Vogastapa í myrkri og vondum veðrum. Villugjarnast var þó talið hjá Grímshól, og höfðu menn fyrir satt að hólbúar villtu um fyrir mönnum. Er þess oft getið í annálum og öðrum frásögnum, einkum frá 19. öld, að menn yrðu úti á Vogastapa eða hröpuðu þar fram af björgunum. Þótti þar löngum mjög reimt. Hafa sögur um reimleika á þessum stað verið að myndast allt fram á þennan dag, eftir að bifreiðar urðu algengust farartæki. Hafa nokkrar þeirra sagna þegar verið skráðar, en einhverjar munu óskráðar enn.

Njarðvíkur og Keflavík
Njardvik-222Frá Stapa er skammt út í Njarðvíkur. Í Innri-Njarðvík bjuggu löngum gildir bændur. Urðu sumir þeirra auðugir, enda var gott við útgerð að fást þarna úr víkinni. Þar fæddist í lok 17. aldar Jón Þorkelsson Skálholtsrektor, sá er gaf allar eigur sínar, er voru miklar, í sjóð til uppfræðingar fátækum og munaðarlausum börnum í Kjalarnesþingi. Tæpri öld síðar fæddist þar skáldið og málfræðingurinn Sveinbjörn Egilsson. Í seinni tíð hefur Ytri-Njarðvík tekið miklum vexti. Má heita, að þaðan sé orðin samfelld byggð út í Keflavík, hinn forna og nýja aðalkaupstað Suðurnesja. — Með byggingu hinnar fyrirhuguðu landshafnar í Njarðvík má gera ráð fyrir að byggð á þessu svæði fari mjög vaxandi. Keflavík stendur á melum við samnefnda vík milli Vatnsness og Hólabergs. Umhverfið er hrjóstugt og ekki svipmikið, en útsýni þaðan inn yfir Faxaflóa er einkar fagurt í góðu veðri. Í Keflavík er ein þeirra stílhreinu og fallegu kirkna, sem fyrsti arkítekt okkar Íslending, Rögnvaldur Ólafsson, teiknaði.
Keflavík kemur allmikið við sögu á 16. öld, er Hamborgarar verzluðu hér. Stóð verzlunarhús þeirra í Keflavík á hólma nokkrum skammt undan landi, en seinna var það flutt á land upp. — Á síðari árum hefur Keflavík tekið miklum vexti og er nú stærsti útgerðarbær á Suðurnesjum. Í blaðinu Faxa hefur frú Marta Valgerður Jónsdóttir birt marga fróðlega þætti úr sögu Keflavíkur, einkum frá 19. og öndverðri 20. öld.

Garðurinn
Gardur-222Úr Keflavík liggur leiðin út í Garð. Í Garðinum hafa löngum búið sjósóknarar miklir og dugandi athafnamenn. Garðsjór var annálaður fyrir veiðisæld, einkum fram að þeim tíma, er togvciðar hóftist fyrir alvöru. Auk heimabáta gengu fjölmargir aðkomubátar úr Garðinum, einkum á haustvertíðum. Er frá því skýrt í Suðurnesjaannál, að dag nokkurn haustið 1879 hefðu verið talin 400 áraskip að veiðum í Garðs- og Leirusjó. Yzt á Garðskaga, utan við býlið Hof, stendur Garðskagaviti á lágti og mjóu nesi sandorpnu. Er þar sérkennilegt um að litast og því líkast, sem maður sé kominn á haf út. Í fjarska blasir við Snæfellsnesfjallgarður. Svipmikill og tignarlegur jökullinn nýtur sín einkar vel héðan í heiðskíru veðri.

Kirkjuból í Miðnesi
Þessu næst liggur leiðin frá prestssetrinu Útskálum suður á Miðnes. Brátt erum við komin í Kirkj ubólshverfi. Þar er hið forna höfuðból, Kirkjuból á Miðnesi. Árið 1433 var Ívar Hólmur, sonur Vigfúsar Hólms hirðstjóra, brenndur þar inni af sveinum Jóns biskpus Gerrekssonar. — Herma sagnir, að Magnús nokkur, fyrirliði biskupssveina, cr talinn var launsonur Jóns biskups, hafi beðið sér til handa Kirkjubol-222Margrétar Vigfúsdóttur Hólm, systur ívars, en fengið synjun.
Til hefnda hélt hann með liðsafla suður að Kirkjubóli, skaut Ívar Hólm til bana, lagði síðan eld í bæinn og brenndi hann til ösku. Margrét komst úr eldinum, reið norður í Eyjafjörð og gekk að eiga Þorvald Loftsson frá Möðruvöllum, er skömmu síðar stóð ásamt Teiti Gunnlaugssyni í Bjarnarnesi fyrir aðförinni að Jóni biskupi Gerrekssyni og mönnum hans. Rúmri öld síðar, árið 1551, kom Kirkjuból aftur allmjög við sögu, er Kristján skrifari, banamaður Jóns Arasonar, var þar staddur á yfirreið. Þangað komu Norðlendingar, er leituðu hefnda eftir Jón Arason, drápu Kristján skrifara, 7 eða 8 fylgdarmenn hans danska og Jón Ólafsson böðul, þann er hjó Jón biskup og syni hans. „Voru þeir dysjaðir fyrir norðan garð.”
Næsti bær við Kirkjuból eru Hafurbjarnarstaðir. Árið 1868 fundust þar, skammt norður af bænum, dysjar allmargar, beinagrindur, vopn og ýmsir fleiri gripir. — Hugðu sumir, að hér væru fundin bein Kristjáns skrifara og manna hans, en Sigurður Guðmundsson málari sá þegar, að þetta voru kuml úr heiðnum sið. Kom hann fram með þá tilgátu, að í stærsta kumlinu, þar sem m. a. fannst sverð fagurbúið, er verið hafði hin mesta gersemi, hefði verið grafinn Hafurbjörn Molda-Gnúpsson landnámsmaður, þess er nam Grindavík. Löngu síðar, 1947, rannsökuðu þeir Kristján Eldjárn og Jón Steffensen kuml þessi vísindalega og komust að þeirri niðurstöðu, að þau væru úr heiðni, naumast yngri en frá miðri 10. öld. Þykir þetta einn merkasti fornleifafundur á Íslandi. Geta menn fræðst um hann nánar í Þjóðminjasafni og Árbók fornleifafélagsins 1943-8, bls. 108—128.

Sandgerði
Sandgerdi-222Næsti viðkomustaður okkar er Sandgerði, en þar hefur á síðari árum risið allstórt og myndarlegt kauptún, enda bækistöð mikils vélbátaflota og einn af stærstu útgerðarstöðum við Faxaflóa. Búa þar nú um 1000 manns.
Jörðin Sandgerði er snemma nefnd í skjölum. Gömul munnmæli herma, að hún hafi upphaflega heitið Sáðgerði, af því að þar hafi legið kornakrar Gullbringu, sem sýslan er við kennd. Á hún að hafa gefið þræl sínum, Upsa, jörð þá er hann nefndi Uppsali. Uppsalir voru skammt ofan við Sandgerði, 20 hundruð að fornu mati, en Sandgerði 60 hundruð. Líklegt má þó telja, að sagan um þrælinn Upsa sé alþýðleg skýringartilraun á bæjarnafninu Uppsalir. — Jarðarheitið Sáðgerði kemur hvergi fyrir í skjölum, og er það að líkindum tilbúningur síðari tíma. Hitt er efalaust, að Sandgerði hefur fyrr á öldum verið landbetra og frjósamara en síðar varð. Votta heimildir, að áður á tímum hafi verið svo hátt stargresi milli Sandgerðis og Bæjarskerja, að fénaður sást ekki, er hann var þar á beit. Síðar blés þetta svæði upp og á það gekk sjór, svo að þar urðu mest berar klappir eftir eða gróðurlítill foksandur. Séra Magnús Grímsson, sem kannaði um miðja 19. öld fornminjar á Reykjanesskaga og ritaði um þær, kemst svo að orði um Sandgerði: „Suður af Flankastöðum við sjóinn eigi langt er bær, sem nú er kallaður Sandgerði, en hét áður Sáðgerði. Þar eru tún fögur og allslétt. Mikið af túni þessu hefur í fyrndinni verið akrar, og sést þar glöggt fyrir skurðum, sem hafa skipt ökrunum í breiðar og langar reinar. Tjörn ein er fyrir norðan bæinn, og sér til skurðar úr henni niður á akurinn. Hefur þar mátt hleypa vatni úr í allar rásirnar og af eða á akurinn eftir geðþekkni.”
BaejarskerÍ Sandgerði er lending tiltölulega góð. Var þar á áraskipatímum talið eitt hið bezta og tryggasta sund fyrir sunnan Skaga. Það heitir Hamarsund. Sundið er fremur mjótt og blindsker á báða vegu, en sé rétt farið er það hættulaust í öllu skaplegu. Sandgerðishöfn myndast af Bæjarskerseyri, sem Hggur bogadregin fyrir sunnan og vestan Sandgerðisvík, um eina sjómílu út. Á eyri þessari brotnar brimáldan, og er fyrir innan hana tiltölulega örugg höfn fyrir tugi vélbáta. Frá Sandgerði er tiltölulega stutt á fiskimið, enda er hér einhver aflasælasta verstöð landsins. Með auknum hafnarbótum og bættri aðstöðu fiskibáta til að athafna sig við bryggjur, má telja víst að útgerðarstaður þessi eigi enn eftir að taka miklum vexti.
Frá Sandgerði liggur leiðin út í Bæjaskerjahverfi um sléttar flatir, er nefnast Lönd. Neðri hluti Landanna hefur eyðzt mjög af sjávargangi og uppblæstri. Fyrir allmörgum árum var girt fyrir Löndin skammt ofan við sjávarmál. Er þar nú að gróa upp hið fallegasta landsvæði. Þar hafa á síðari árum risið margar og myndarlegar byggingar þeirra Sandgerðinga.
Frá Bæjarskerjum er haldið út í Fuglavíkurhverfi. Á þeirri leið er bærinn Melaberg, sem mjög kemur við hina mögnuðu þjóðsögu um illhvelið Rauðhöfða, svo sem lesa má í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Það er og í munnmælum, að í fyrndinni hafi Melaberg verið stórbýli með 50 hurðum á járnum, sumir segja 80 eða 100. Ekki eru sagnir þessar sennilegar. Segir og í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, að Melaberg sé eyðijörð, hafi legið í auðn yfir hundrað ár, enda jörðin „aldeilis yfirfallin af sandi og grjóti”. Það er auðsætt, að landbrot hefur orðið ákaflegt þarna, svo að vafalaust hefur áður fyrr verið þar land miklu meira. Á síðari árum hefur Melaberg aftur komizt í byggð. Er það nú snoturt býli og vel ræktað. Er það einkum verk Hjartar B. Helgasonar, kaupfélagsstjóra í Sandgerði, sem þar bjó um alllangt skeið myndarbúi.

Hvalsnes
Hvalsnes-222Nú er skammt suður á Hvalsnes, en þar hefur löngum verið allmikil byggð og útræði mikið. Blasir þar við snotur kirkja úr hlöðnum steini, reist 1887. Kirkjudyr horfa beint móti innsiglingu um Hvalsnessund, en þar er brimasamt mjög og lending oft torveld ef eitthvað er að veðri. Liggur sundið fyrir opnu hafi og brimar því oft með skjótri svipan. Er það forn venja að opna dyr Hvalsneskirkju þegar sundið brimar. Var því trúað, að þar færist aldrei bátur fyrir opnum kirkjudyrum. Þegar maður stendur hér við kirkjudyr á Hvalsnesi, reikar hugurinn til Hallgríms Péturssonar og Guðríðar konu hans. Um sjö ára skeið, hin fyrstu eftir heimkomuna frá Kaupmannahöfn, var Hallgrímur embættislaus, og hafði ofan af fyrir sér og sínum við ýmis störf á um. Höfðust þau hjón við í koti einu í Ytri-Njarðvík, en löngum varð Hallgrímur að stunda vinnu utan heimilis. Um skeið var hann púlsmaður hjá dönskum kaupmanni í Keflavík, en hafði þó einkum athvarf á Hvalsnesi, í skjóli bóndans þar. Þaðan stundaði hann sjó, enda kallaði Torfi Erlendsson, sýslumaður á Stafnesi, hann „líðilegan slordóna.” Fyrir þau ummæli og ýmsar fleiri kaldar kveðjur frá valdsmanninum á Stafnesi kvittaði Hallgrímur með þessari óþvegnu skammarvísu:

Áður en dauður drepst úr hor,
drengur á rauðum kjóli,
feginn verður að sleikja slor,
slepjaður húsgangs drjóli.

Mun ýmsum hafa dottið í hug vísan, og þótt áhrínsorð, þegar Torfi var síðar dæmdur frá embætti, æru og eignum. Erfið hafa verið mörg spor Hallgríms á þessum árum. Um það vitnar sú tiltekt Hvalsnes-223góðkunningja hans og helztu hjálparhellu, Gríms Bergssonar í Njarðvík, er hann beitti sér fyrir samskotum, svo að þau Hallgrímur og Guðríður gætu greitt sektargjald fyrir „frillulífisbrot” sitt. Bað Grímur „góða menn á Suðurnesjum að gefa honum einn, tvo eða þrjá fiska eftir því sem Guð blési sérhverjum í brjóst.” Eftir að biskupar höfðu „straffað” Hallgrím í sjö ár fyrir fyrstu barneignina með Guðríði, og sennilega einnig þá þverúð hans, að vilja síðan ólmur stofna til hjúskapar með þessari barnsmóður sinni, sem almenningur taldi heiðna, enda komna úr kvennabúri Hundtyrkjans, veitti Brynjólfur Sveinsson honum loks prestsembættið á Hvalsnesi og vígði hann þangað. Hér var Hallgrímur prestur í sjö ár. Engar sýnilegar menjar munu nú vera lengur um dvöl hans á þessum stað. En þarna í kirkjugarðinum liggja börnin hans grafin, er hann missti flest kornung. Eitt þeirra var þó komið ögn á legg, telpa, er Steinunn hét. Litli steinninn, sem hann reisti yfir moldum hennar, er nú ekki sjáanlegur lengur. En minning litlu telpunnar geymist í tveimur innilegum og ómþýðum erfiljóðum. Eru upphafsstafir hvers erindis í öðru ljóðinu valdir þannig, að úr verða þessi látlausu orð: “Steinunn mín litla hvílist hér”.

Stafnes
Stafnes-224Frá Hvalsnesi er stutt á Stafnes, sem í fornum máldögum er jafnan kallað Starnes. Ekkert vil ég um það fullyrða, hvort nafnið er upprunalegra. En sé Starnes hið forna heiti bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi fyrr á öldum verið starengi. Hafi svo verið, er það nú fyrir löngu horfið í sand og sjó. Getur það staðist, því að jörðin „hefur stórlega af sér gengið og gengur enn í stórflóðum af sand- og sjávarágangi”, segir sr. Sigurður B. Sívertsen í sóknarlýsingu 1839. Á hitt má þó benda, að Stafnes er’ fornt staðarheiti á Fjölum í Noregi.
Stafnes var eitt sinn stórbýli, 143 hundruð að dýrleika, enda talið að þar hafi verið yfir 20 hjáleigur. Getur jarðbókin frá 1703 um 10 hjáleigur byggðar og 12 eyðihjáleigur, sem Stafnesi fylgi, og telur allar upp með nöfnum. Hér var því í rauninni heilt sjávarþorp. Var og á Stafnesi einhver hin stærsta og veiðisælasta verstöð á öllum Suðurnesjum. Þar hafði konungsútgerðin um skeið aðalbækistöð sína. Hólastaður gerði út skip þaðan. Glöggt dæmi þess, hve mikil verstöð Stafnes var á 17. öld, er eftirfarandi frásögn annála um skipstapa þar 1685: Mannskaðaveður. Skipstapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi — Drukknuðu 58 menn… Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útgerðarmenn að norðan og margir valdir menn, þar á meðal Ólafur yfirlestarmaður á Hólum, Þorsteinsson.”
Á 19. öld var enn mikil útgerð frá Stafnesi. Gengu þaðan að jafnaði allmörg stórskip, enda óvíða eða hvergi jafngóð aflabrögð á vetrarvertíð sem þar. Nú er útgerðarsaga Stafness fyrir álllöngu á enda. Fátt er þar legnur, sem minnir á forna athafnasemi og reisn. — Rústir og tóttir eru þar eðlilega margar, en húsin, sem enn standa orðin næsta hrörleg flest.

Básendar
Basendar-222Nú skal haldið að Básendum. Þangað er ekki bílvegur, en leiðin er stult. Básendar liggja skammt sunnan við Stafnes í landi þess. Þar var kaupstaður á einokunartímabilinu og nokkru lengur, svo sem kunnugt er. Básendahöfn þótti jafnan viðsjál, enda er leiðin inn á höfnina löng milli ófrýnilegra skerja. Varð þarna oft skipatjón, einkum þar til járnhlekkir voru greyptir í sker og kletta í fjörunni og skipin „svínbundin” sitt á hvað. Má enn sjá leifar af þeim umbúnaði þegar lágsjávað er. Á malartanga einum þarna rétt hjá eru enn dálitlar rústir, þar sem staðið hafa verzlunar- og bæjarhús á Básendum. Húsum þessum var hætt í stórflóðum, og gekk sjór stundum inn í þau fyrr á öldum, án þess að verulegt tjón hlytist af. En snemma í janúarmánuði 1799 gcrði ofsaveður af í útsuðri og tók þá af hús á Básendum, svo að þar stóð ekkert eftir. Kaupmaðurinn, kona hans, fjögur börn og vinnukona, björguðust með naumindum. Gömul kona, Rannveig Þorgilsdóttir, sem verið hafði þar niðursetningur í nokkur ár, drukknaði í flóðinu.
Basendar-223Síðasti kaupmaður á Básendum hét Hinrik Hansen. Hann ritaði greinargóða lýsingu á atburði þessum, er hann sendi sýslumanni, um leið og hann bað um skoðunargerð á rústunum og fjártjóni sínu. Fer hún hér á eftir, allmikið stytt (þýðinguna gerði Vigfús fræðimaður Guðmundsson, sem ritað hefur ýtarlega um Básendaflóð í Blöndu III. bindi, bls. 46—68).
„Eftir að við öll vorum háttuð, varð ég þess var um nóttina, á að giska kl. 2, hversu veðrið af suðri til vesturs magnaðist, svo iðulega fór að braka í húsunum. Þar að auki fóru að heyrast skellir, hver eftir annan, eins og veggbrjótur væri að vinna á hiið hússins og undirstöðu. Af þessu fór ég á fætur, til þess að líta eftir veðrinu og vita, hvað gengi á úti. Þrátt fyrir svart myrkrið lauk ég upp húsdyrunum eldhúsmegin, og þá þegar brauzt sjórinn inn á mig, með svo miklu afli og straum, að fyllti herbergið á lítilli stundu. Flúðum við því í skyndi upp á húsloftið, hálfnakin upp úr rúmunum, því við ótttiðumst, að við mundum farast í sjónum niðri, þar sem íbúðin var. Og í myrkrinu þorðum við ekki út úr húsinu, bæði vegna æðandi brimaldanna og rjúkandi ofviðris. Svo vissum við hka að allt umhverfis húsin var hulið sjó. Og megum við víst þakka guði, að við gripum þá ekki það óyndisúrræði, því þá hefðum við öll farizt. Þarna stóðum við nú langan tíma á loftinu í sífelldum dauðans ótta, að veður og sjór mundu þá og þegar mola húsið niður að grundvelli. Hér um bil kl. 7, að við héldum, treystumst við ekki lengur að geta bjargað lífinu þarna á loftinu. Braut ég því gluggann á norðurhliðinni. Þar smugum við öll út, eins og við stóðum. Ég óð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, varningi og búshlutum. Náðum við fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalist þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu.

Basendar-224

Við urðum því að flýja þaðan aftur, og til hlöðunnar. Annar gaflinn var brotinn af henni, en hlaði af trjáviðardóti, er við urðum að skríða yfir, með mikilli hættu, til að komast inn. Þarna stóðum við skjálfandi nokkum tíma, unz veðrið fór með nokkuð af þakinu, en hinn hlutinn blakaði fram og aftur, eins og blaðsnepill. Til þess enn að reyna að bjarga lífinu, gerðum við síðustu tilraun, yfirgáfum eyðilagðan kaupstaðinn, leiddumst öll saman áleiðis til byggða. Óðum við svo og skriðum í rokinu, unz við eftir miklar þrautir náðum til næstu hjáleigu, er nefndist Lodda, rétt hjá Stafnesi. Fátæki bóndinn þar, Jón Björnsson og kona hans, tóku á móti okkur, sem vorum örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki, með mestu alúð og hjartagæzku. Létu og það allt gott í té, er þau gátu. Í baðstofu þessa ráðvanda manns höfðum við aðsetur í 14 daga. Voru þar alls 19 manns, þar af 10 börn, en þó var baðstofan ekki nema þrjú stafgólf á lengd, 2 1/2 alin á vídd og 3 álnir á hæð, af gólfi upp á mæniás. Þrátt fyrir alúð mannsins og góðvilja vildum við ekki lengur níðast á gestrisni hans. Fórum við nú á eyðijörðina Stafnes, og bjuggum um okkur í baðstofunni íslenzku, sem þar var. Síðan höfum við haft þar okkar fátæklega aðsetur. Eins og hr. sýslumaðurinn mun sjá, eru húsin mín öll á verzlunarstaðnum samanhrunin að grundvelli, og bærinn, sem þar var líka. Fólkið úr honum (vinnufólk kaupmanns) bjargaði sér upp um þekjuna, og tókst því þann veg um nóttina að bjarga lífi sínu, með guðs hjálp, nema aldraðri konu, sem veðrið lamdi niður, svo hún drukknaði í flóðinu.”

Hafnir
Hafnir-222Skammt sunnan við Básenda gengur vogur einn eða lítill fjörður inn í landið. Nefnist hann Osar. Sunnan Ósanna taka við Hafnirnar, en þar eð enginn vegur liggur fyrir Ósabotna verður ekki komizt þá leið í farartæki nútímans, bílnum. — Höldum við því aftur að Stafnesi og þaðan sama veg til baka allt til Keflavíkur. Þar liggur bílvegsálma út af aðalvegi rétt hjá flugvallarhliðinu. Sá vegur liggur um Hafnaheiði sunnan við Ósana. Í Höfnum hefur löngum verið allmikil byggð. Þar bjuggu oft sjósóknarmenn miklir og komust sumir vel í álnir. Hefur séra Jón Thorarensen lýst hinum gömlu Hafnamönnum í skáldsögum sínum, og stuðzt þar mjög við sagnir og munnmæli. Helstu jarðir þar á síðari tímum voru Kirkjuvogur, Kotvogur, Merkines og Kalmanstjörn. Nokkru fyrir sunnan Kalmanstjörn eru við sjóinn rústir allmiklar og garðar. Eru það sandorpnar leifar af fornri byggð. Þar hét Kirkjuhöfn. A þessum stað hafa fundizt leifar af kirkjugarði og gömul mannabein. Fleiri bæir hafa verið þarna, svo sem Sandhöfn og Eyri. A Eyri bjó um miðja 17. öld maður sá, er Grímur hét. Það var einhverju sinni meðan Hallgrímur Pétursson var prestur á Hvalsnesi, að Grímur bóndi á Eyri kom þar á sunnudegi og hlýddi messu í Hvalsneskirkju. Gekk hann út um messuna að gæta reiðskjóta síns, sem var hryssa. Hafði hún losnað, en Grími varð skapbrátt, lamdi merina harkalega og batt síðan rammlega aftur með reipi. Munu þær aðfarir hafa verið ófagrar. Gerðist þetta í sömu andrá og Hallgrímur blessaði yfir söfnuðinn. Sá hann gjörla allt atferli Gríms, því að viðureign hans við merina fór fram gegnt opnum kyrkjudyrum. Um það kvað prestur eftir messuna:

Hann Grímur á Eyri
gerir sem fleiri,
að gengur hann út,
merina keyrir,
með reipum svo reyrir
og rekur á hnút.

Sunnan við Eyri taka við þverhnípt Djörg í sjó fram, er heita Hafnaberg. Er pað a alllöngu svæði um og yfir 30 metra hátt. Verpir þar allmikið af sjófugli, einkum svartfugli. Þar var áður allmikil eggja og fuglatekja, og þurfti að síga í bjargið, sem er ókleift með öllu. Nyrzt gengur inn í bergið gjá nokkur, sem heitir Klauf. — Þótt Hafnaberg sé ekki ýkjahátt, er sjálfsagt fyrir ferðamenn á þessum slóðum að leiða það augum og gefa um stund gætur að hinum fleygu og skemmtilegu íbúum þess.

Reykjanes
Reykjanesviti-222Frá Hafnabergi er ekki ýkjalangt út á hið eiginlega Reykjanes, en svo nefna menn suður þar „hæl” Reykjanesskagans, nesið milli Staðar í Grindavík og Stóru-Sandvíkur í Hafnalandi. Svæði þetta er ákaflega eldbrunnið. Þar eru ótal gígir, gufuhverir, brennisteinshverir og leirpyttir.
Nesið er allhálent og sæbratt víðast hvar. Upp úr hraununum standa nokkrir móbergshryggir, svo sem Valahnúkur, Vatnsfell og Sýrfell. Þar eru og tvær breiðar hraunbungur, Skálafell og Háleyjarbunga, gömul eldfjöll. Gígurinn í Háleyjabungu er stór og tilkomumikill, sagður 440 fet að þvermáli og 100 feta djúpur. Á þessum slóðum mun hafa gosið á 13. öld, þegar „hálft Reykjanes brann”. Enn er þarna mikill jarðhiti og fjöldi smáhvera. Einna stærstur þeirra og þekktastur er Gunnuhver, þar sem Eiríkur karlinn í Vogsósum kom draugnum fyrir. Ekki ýkjalangt frá Gunnuhver er hóll einn sérkennilegur, myndaður úr mjallhvítu hverahrúðri (kísil). Má kljúfa kísilinn í þunnar flögur. Hugðu menn um skeið að þetta væri „postulínsjörð” og vænlegt að vinna úr postulín. En Þorvaldur Thoroddsen sá hvers kyns var og gerði ljósa grein fyrir.
Fram hjá Reykjanesi hefur jafnan legið fjölfarin skipaleið. Var því snemma þörf á vita þar, enda reis á þessum stað fyrsti viti landsins, byggður 1878.
Upphaflega stóð vitinn á Valahnúk, úti við sjóinn, en vegna þess hve mikið hrundi úr Reykjanesviti-222hnúknum í jarðskjálfta 1886 þótti ekki öruggt að láta hann standa þar áfram. Þó liðu enn allmörg ár unz byggður var nýr viti. En árið 1908 var hár og stæðilegur viti reistur uppi á Bæjarfelli, sem svo er nefnt, þar eð vitavarðarbærinn hefur frá upphafi staðið við rætur þess. Aukaviti var einnig reistur á Skarfasetri, skammt frá grunni gamla vitans, þar eð Skálafell skyggir á aðalvitann á mjóu belti á siglingaleið skipa, er að austan koma.
Ofan úr Reykjanesvita er útsýni gott yfir nesið og á haf út. Í suðvestri blasir við Eldey úti við hafsbrún, 77 metra há, hvít af fugli og fugladrit eins og mélsekkur. Fyrir utan hana sézt skerið Eldeyjardrangur, en til hinna ytri Fuglaskerja sést ekki.
Norður af Valahnúk, skammt undan landi, rís upp úr Reykjanesröst 50 metra hár móbergsdrangur, sem heitir Karl. Þegar brimar kvað hann verða alhvítur, og mun það tilkomumikil sjón. Björgin hér við sjóinn eru mjög etin út í skvompur og skúta. Brim er oft svo mikið á þessum slóðum, að bergin eru öll í löðri. Heyrast þá að sögn skellir miklir og brak eins og fallbyssuskot, þegar brimskaflarnir lemja bergið og berja saman stórum hnullungum í fjörunni. Eru þar víða tröllauknir garðar af brimsorfnu grjóti. Ekki eru það neinir smásteinar, heldur heil björg, og er hverju tildrað ofan á annað. Fjörugrjót þetta er egglaga, steinarnir margir á að gizka 1—2 metrar að þvermáli.”

Heimild:
-Faxi, 24. árgangur 1964, Gils Guðmundsson, Suður með sjó, bls. 86-89, 133-135, 149 og 169-171.

Suðurnes

Suðurnes – skilgreiningar.