Í Fréttabréfi Ættfræðingafélagsins 2021 tók Guðfinna Ragnasdóttir m.a. saman eftirfarandi fróðleik um “Kolviðarhól“:
“Þegar farið var forðum úr Árnessýslu vestur yfir heiðar, var lengst af um þrjár leiðir að velja. Syðsta leiðin var yfir Grindaskörð, milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Miðleiðin var yfir Ólafsskarð, sem lá austan Geitafells í Þrengslum, en lang algengast var að fara yfir Hellisheiðina. Sú leið er um 35 km og var talin tæp þingmannaleið. Þar má enn sjá götur sem járnslegnir hesthófarnir hafa markað í hraunið, sumar svo djúpar að þær ná manni í ökla, eða allt að 20 sm. Enginn veit hvenær fyrst voru hlaðnar vörður yfir Hellisheiðina, en þeirra er fyrr getið 1703. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg og það er gaman að hugsa til þess að stór hluti af þessari gömlu leið er enn varðaður. Oftast voru 60-80 faðmar á milli varðanna, eða 115-150 m.
Margir kunna vísuna um vörðurnar og hlutverk þeirra:
Kerling ein á kletti sat
kletta byggði stræti.
Veginn öllum vísað gat
var þó kyrr í sæti.
Á Hellisheiðinni mun ekki hafa verið neitt húsaskjól að finna fyrr en 1830, þegar Þórður bóndi á Tannastöðum í Ölfusi hlóð byrgi eða kofa uppi á heiðinni, sem enn stendur, og við þekkjum sem Hellkofann. Hann er mikil listasmíð og enn í besta ástandi. Hann er eins og nafnið gefur til kynna alfarið byggður úr hraunhellum og er þakið einnig stór hraunhella. hann er tæpir tveir m á hvorn veg og tveir m til lofts. Þar geta 4-5 menn sofið. Hann mun hafa verið byggður á svipuðum stað og gamla “Biskupsvarðan”. Hún var ævafornt mannvirki, um sex fet á hæð, krosshlaðin, þannig að menn og hestar gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Biskupsvarðan stóð fram á 19. öld, en ehnni var ekki haldið við, og var svo notuð til þess að byggja Hellukofann. hann var friðaður 1. jan. 1990.
Elsta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann, í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo:
“Á norðanverðum Hvannavöllum, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þessa tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynlegt á vetrartímum til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli.”
Þetta hús stóð í nánd við Húsmúla og gæti það örnefni bent til þess að þar hafi hús staðið allt frá fyrtu öldum byggðar og verið ævafornt ferðamannaskýli. Þetta sæluhús var um einn og hálfan km norðvestan við Kolviðarhól.
Sveinn Pálsson náttúrufræðingur minnist á þetta sæluhús, átt í öld síðar, árið 1873, og segir að margir hafi dáið í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.
Grjótbálkur og gluggabora
Jón Vídalín lýsir smæð manna í skammdegismyrkri og hríðarkófi vel í vísu sinni:
Fyrir þreyttum ferðasegg
fölskvast ljósin brúna,
ráði guð fyrir odd og egg,
ekki rata ég núna.
Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Frægar eru lýsingar Nesjavalla-Gríms Þorleifssonar sem hitti þar mann sem tók ofan hausinn fyrir honum og hvarf svo!
Þótt Draugatjarnarkofinn væri ísköld og ömurleg vistarvera, var hann þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2.5 m og breiddin 1.5 m. Við annað gaflhlaðið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin er enn sýnileg austan Draugatjarnar, á hrauntungu sem þrengir að Bolavöllum og nær norður undir Húsmúla. þarna fundust merkar minjar við fornleifagröft 1958, m.a. járn af reku, til að moka snjó, járnfleygur, til að gera vök á tjarnarísinn. flatsteinn til að kveikja á eldspýtu og blátt bóluglas undir brjóstbirtu. Allir þessir munir eru varðveittir á Byggðasafni Árnesinga.
Húsið á Hólnum
Þar kom að mönnum þótti litli kofinn undir Húshólmanum ófullnægjandi og hafist var handa um söfnun fyrir nýju húsi. Það var svo árið 1844 að reist var sæluhús á hólnum undir Hellisskarði, en svo nefnist skarðið ofan af heiðinni vestanverðri við Kolviðarhól. Þar var þá engin búseta eða eftirlitsmaður. Kolviðarhóll þótti ákjósanlegur staður, en þó var vatnsskortur þar viðloðandi lengi. Hóllinn er heitinn eftir Kolviði sem bjó á Elliðavatni, en var drepinn við Kolviðarhól af Búa Andríðarsyni, eins og segir í Kjalnesingasögu. Til gamans má geta þess að Ólafur Árnason, einn gestgjafanna á Hólnum löngu síðar, skírði son sinn Búa Kolvið.
Nýja sæluhúsið var timburhús sem stóð á álnardúpri grjóttótt með hellugrjóti á gólfi. Í húsinu gátu gist 24 menn á loftinu og 16 hestar lausar niðri. Þetta þótti gríðarleg framkvæmd og húsið var svo griðastaður ferðalanga yfir Svínahraun og Hellisheiði á fjórða áratug, en um 1855 var það rifið.
Um 1878 var vegur lagður yfir Svínahraun og um Hellisheiðina og kambana um 1880. Þar var mikil samgöngubót, þótt vegurinn yfir hraunið þætti lengi grýttur og hrjúfur.
Söfnun og draumar
Um 1870 var sæluhúsið orðið mjög lélegt og hafist var handa um að safna fé til byggingar nýs húss. Þá var það enginn annar en Sigurður Guðmundsson málari sem var hvatamaður að söfnun fyrir nýju húsi. Hann sá fyrir sér veitingahús sem gæti fullnægt flestum þörfum ferðamanna. Hreyfði hann því á fundi í Kveldfélaginu 1871 og lagði þar fram teikningar af húsi. Á miðju þakinu átti að vera turn með gluggum og í gluggunum átti að loga ljós. Blása átti í lúðra þriðja hvern tíma til þess að vísa mönnum veginn og hundar áttu að vera til taks við leit að mönnum. Aldrei sá hann þann draum sinn rætast, því hann lést 1874, þrem árum áður en nýtt hús reis á Kolviðarhóli.
Bændur austanfjalls, sem mest mæddi á, gáfu flestir eina krónu og stórbændur tíu krónur. Söfnunin gekk þó hægt. Að lokum fengust þó eitt þúsund krónur úr Landsjóði og árið 1877 reis nýtt sæluhús á Hólnum og sértakur sæluhúsvörður var ráðinn.
Klukkan góða
Þótt draumur Sigurðar málara um lúðrana rættust ekki þá var í þessu sæluhúsi klukka sem hringt var í vondum veðrum til þess að vísa mönnum á húsið. varð hún mörgum til bjargar. Hún hringdi allt fram til ársins 1907, var þá geymd á Hólnum, týndist svo í 30 ár, 1927-1957, og fannst þá af tilviljun og er nú geymd á Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka.
Lengst af voru flestir sem komu yfir heiðina gangandi eða ríðandi, margir með lausa hesta eða taglhnýtta í lest, oftast með bagga. Þannig gekk það uns hestvagnatómabilið hófst. Þá var ekki lengur hægt að fara brattan stíginn upp og niður Hellisskarðið, ofan Kolviðarhóls, heldur var þá rudd braut suður með Reykjafelli og upp á Hellisheiðina um Hveradalabrekkur.
Koparklukkan; barmavídd 24.0 cm og hæð 24.0 cm, þyngd 7.8 kg. Hún var notuð í gamla sæluhúsinu á Kolviðarhóli og hringt í dimmviðrum, vegfarendum til leiðbeiningar heim á Hólinn. Hún var sett þar upp 1885 og tekin niður mörgum áratugum seinna, en þó lengi geymd á Hólnum, uns hún hvarf þaðan og enginn vissi um hana. Skúli Helgason hélt uppi spurnum um hana um skeið og til ellefu manna var leitað upplýsinga, uns hún kom loksins fram hjá Jóni Sigurðssyni smið á Laugavegi 54 í Reykjavík. Hún hafði þá legið lengi í járnhrúgu í smiðju hans. Einhvern tíma hafði verið komið með klukkuna til Jóns og hún boðin sem brotakopar til bræðslu.
Jón keypti hana en tímdi ekki að bræða hana. Þá falaði bóndi ofan úr Borgarfirði klukkuna og vildi fá hana við heimagrafreit hjá sér. “En ég hummaði það fram af mér”, sagði Jón. Og á síðustu árum var hún geymd, uns Jón var spurður um gripinn. Þá rifjaðist allt upp. Kólfinn vantaði í klukkuna og smíðaði Jón hann sjálfur, þá orðinn áttatíu og sex ára. Renndi hann í rennibekk sínum og gaf klukkuna síðan til Byggðasafns Árnesinga þar sem Skúli var lengi safnvörður. Mælti þá “Það er mikið að hún skyldi ekki vera glötuð fyrir fullt og allt. það er eins og það hafi verið yfir henni einhver hulinn verndarkraftur”.
Gestgjafarnir
Á Kolviðarhóli var búið í 75 ár. Ebeneser Guðmundsson, gullsmiður, var fyrsti gestgjafinn sem var búsettur á Hólnum, stundum kallaður sæluhúsvörður. Hann var aðeins í hálft annað ár. Með honum var kona hans Sesselja Ólafsdóttir. Eftir henni er haft að hvergi hafi henni liðið verr en á Kolviðarhóli, þar hefði hún þolað bæði hungur og kulda. Þau hjónin þóttu bæði gestrisin og greiðvikin og það oftast um efni fram. Af hjónunum tóku við, árið 1880, Ólafur Árnason og Málfríður Jónsdóttir til 1883.
Þriðji gestgjafinn var Sigurbjörn Guðleifsson og kona hans Soffía Sveinsdóttir, en hún var dóttir Hallberu gestgjafa í Lækjarbotnum, svo hún var svæðinu kunnug.
Þau héldu aðeins út í þrettán mánuði. 1883-1895 eru gestgjafar Jón Jónsson og Kristín Daníelsdóttir, síðan dóttir þeirra Margrét og Guðni Þorbergsson maður hennar, 1895 til 1906. Þá tóku við Sigurður Daníelsson og Valgerður Þórðardóttir, fólk sem allir Sunnlendingar þekktu eða könnuðust við. Þau urðu síðustu gestgjafarnir á Hólnum.
Þegar Margrét og Guðni tóku við gestgjafahlutverkinu 1895 var nýtt tímabil í samgöngum og hestvagnaöld gengin í garð.
Gamla húsið á Hólnum var nú orðið allt og lítið og um aldamótin 1900 byggði Guðni nýtt íbúðar- og gistihús við hlið hins eldra. Það var allt úr timbri, en kjallari var út steinsteypu.
Guðni ræktaði tún og fékk að gera Kolviðarhól að bújörð í Ölfushreppi, og var svo til 1936.
Endalokin
En allt tekur enda, tímarnir breytast, þörfin fyrir athvarf og skjól gegn veðri og vindum er ekki lengur fyrir hendi, vegurinn austur yfir fjall liggur ekki lengur fram hjá, Sigurður dáinn og Valgerður eldist.
Árið 1970, eftir margra ára niðurlægingu staðarins, moluðu stórvirkar vinnuvélar niður sköpunarverk Guðjóns Samúelssonar, með burstunum þrem, á Kolviðarhóli. Allt sem minnir á fortíðina er horfið, gamla koparklukkan löngu hætt að hringja og ísa mönnum veginn, en milli gufustrókanna glittir í lítið leiði, leiði þar sem síðustu gestgjafarnir á Hólnum fengu sína hinstu hvílu, að loknu ómetanlegu dagsverki. Aðeins sagan er eftir, saga merkrar starfsemi á nokkrum gulnuðum blöðum.”
Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðingafélagsins, 3. tbl. 39. árg., sept. 2021, Kolviðarhóll – Guðfinna Ragnarsdóttir tók saman, bls. 3-10.