Færslur

Búri

Gengið var í fylgd fulltrúa HERFÍs um Leitarhraun ofan við Hlíðarendahjalla. Markmiðið var að leita að opinu á Búra, en í leiðinni var ætlunin að skoða opið á Árnahelli, Gjögrinu og Fjallsendahelli.

Búri

Í Búra.

Leitarhraunið kom úr Leitinu utan undir Bláfjöllum fyrir um 4300 árum síðan. Þar er stór gígur. Hraun úr honum rann bæði til suðurs og norðurs. M.a. er hluti hraunsins í Elliðaárhólma úr honum sem og hraunið sem Þorlákshöfn stendur á
Gjögrið er stór niðurfall, sem Gjögurhraun er nefnt eftir. Arnarhreiðrið er m.a. í því hrauni. En þótt niðurfallið virðist stórt er hellirinn það ekki að sama skapi. Hins vegar er geysilega falleg hraunmyndun í honum. Fallegur rauður flór kemur út undan berginu inni í hellinum og steypist fram af lágri brún. Myndar hraunið þar myndarlegan hraunfoss. Farvegurinn hefur leitað niður undir hraunið og sést bláleitt gapið vel. Hægt er að komast inn í niðurfallið undir steinbrú úr grónu jarðfalli við hlið Fjallsendahellis.

Fjallsendahellir

Fjallsendahellir.

Fjallsendahellir liggur hægra megin inn úr jarðfallinu. Rásin liggur um 100 metra í boga upp í gegnum hraunið. Efra gatið er í í 89 metra beinni sjónlínu norðan við neðra opið. Þegar skammt er komið er inn í Fjallsendahelli er hlaðinn veggur þvert fyrir hellinn. Hefur hann líklega verið hlaðinn til að koma í veg fyrir að fé leitaði lengra upp í hann, en skv. örnefnalýsingum fyrir Hlíðarenda var hellirinn notaður sem fjárskjól. Neðsti hluti hans er nokkuð sléttur.

Efra opið er nokkuð djúpt, en hægt er að komast inn í það í gegnum jarðfall skammt ofar.

Gjögur

Í Gjögra.

Haldið var upp að opi Árnahellis. Hellirinn sjálfur er lokaður með járnhlera. Reynt var að grennslast fyrir um hugsanlegt aðgengi annars staðar um jarðfallið, en hún reyndist árangurslaus, að þessu sinni a.m.k.
Þá var haldið á ný upp Leitarhraun og reynt að hafa uppi á opi Búra. Björn Hróarsson hafði séð jarðfallið á loftmynd, en Guðmundur Brynjar Þorsteinsson, formaður suðurdeildar HERFÍs, hafði kíkt á aðstæður og forfært grjót úr syðri hluta hans. Við það hafi komið í ljós illkleift og óráðið op niður á við.

Búri

Björn Hróarsson í Búra fyrsta sinni.

Efri hluti Búra er um 50 metra langur. Hann er um 7 metra hár, um 9 metra breiður. Hrun er í þessum hluta, en víða má sjá fallega rauðleit hraunlögin, sem svo lítið haldreipi reyndist vera í. Við athugun virðist vera kjallari undir rásinni, en það mun verða fjandanum erfiðara að komast þangað niður.
Í nerði hlutanum er gatið, sem Guðmundur Brynjar fann. Eftir að hafa forfært svolítið grjót frá opinu skellti Björn sér niður í hellagallanum. Ekki leið nema sekúndubrot frá því að hann hvarf sjónum efrimanna að fagnaðarhljóð heyrðust undir niðri. Björn var greinilega kominn í feitt.

FERLIRsfélagar fylgdu í kjölfarið. Þegar niður var komið blasti við mikil hvelfing, fimmtíu metra löng, fimmtán metra há og um tuttugu metra breið.

Búri

Búri.

Klakamyndanirnar í hvelfingunni voru engum líkar. Mannhæðahá klakastykki þöktu gólf og um fimm metra löng grýlukerti héngu niður úr loftum. Ef álfabyggð væri til þá hlyti hún að líta svona út. Allar tiltækar myndavélar voru rifnar á á loft og flassblossar lýstu upp hellinn, líkt og um dagsbirtu væri að ræða þarna niðri í hyldjúpunum.

Björn hvarf lengra niður rásina – og var lengi í burtu. Þegar hann kom aftur eftir drjúga stund svaraði hann spurningum einungis á þann veg að hellirinn væri ókannaður.

Búri

Í Búra.

Björn hefur hingað til þótt orðvar maður í lýsingum sínum á nýfundum hellum svo treysta má því að af svörunum megi ráða fullvissu þess að þarna kynni eitthvað áhugavert að leynast. Ekki er óvarlegt að álykta að í Búra kunni að leynast svör við spurningum, sem menn hafa hingað til ekki kunnað að spyrja.
Þessi ferð lýsir vel fjölbreytni FERLIRsferða, óvæntum mætingum og sannfæringunni um fjölbreytnina, sem landið hefur upp á að bjóða.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Gjögur

Í Gjögra.