Tag Archive for: Gljúfrasteinn

Gljúfrasteinn er nafnið á húsi skáldsins, Halldórs Laxness, ofarlega í Mosfellsdal. Húsið dregur nafn sitt af stórum grágrýtissteini skammt frá því.
Gljufrasteinn-1Þegar Halldór var að alast upp á Laxnesi þarna skammt frá tók hann tryggð við steininn eins og sjá má í frásögn hans, steininn minn helgi, sem hann ritaði 18 ára gamall: „Hvergi hef ég fundið bergmál við helgimáli hjarta míns nema í einum steini í heimahögum mínum. Aðeins í einum grásteini sem stendur uppá dálitlum hól og ber við himin í holtinu fyrir ofan bæinn heima.“
Í útvarpsviðtali löngu síðar var Halldór spurður að því hvort sú saga væri sönn að hann hefði skrifað söguna undir steininum. Skáldinu varð orðvant, en sagði síðan: „Nei, ekki var það nú, en sagan er góð og óþarfi að skemma góða sögu. Mér fannst alltaf eitthvað við stein þennan, hvort sem eitthvað hafi búið í honum eða ekki.“

Gljúfrasteinn

Gljúfrasteinn. Steinnin v.m. á myndinni.

 

Gljúfrasteinn

Í „Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ„, unna af Þjóðminjasafni Íslands árið 2006, var reynt að setja saman á einn stað flest það sem þegar var vitað um fornleifar á svæðinu, en minna reynt að setja þær í samhengi við búskaparhætti og tíma. T.d. er getið um Stóru- og Litlu-Grænuborg ofan Gljúfrasteins. Í heimildum kemur fram að Litla-Grænuborg hafi verið stekkur, en ekki reynt að tengja hann við fyrrum selstöðu frá Mosfelli, sem átti landið, þrátt fyrir að getið sé heimilda um að bærinn hafi átt sel þarna í ásnum, sem reyndar heitir Selás. Selstaðan hefur verið heimasel, enda stutt til bæjar. Í heimaseljum eru jafnan ekki aðrar minjar en stekkurinn. Þá er ekki reynt að greina einstakar minjar frá misvísandi heimildum, s.s. Selás og Hólshús, sem var ekki á ásnum heldur skammt austan Laxness.

Laxnes

Laxnes – fjárhús ofan bæjar.

Laxnes hefur sennilega verið í eigu Viðeyjarklausturs áður en þess er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-1552, þá komið undir Danakonung (Dipl. Isl. XII). Árið 1704 var þetta konungsjörð með tvo ábúendur (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 321-2) en 1847 var Laxnes komið í bændaeign og með tvo leiguliða (J. Johnsen). Það skiptist nú í Laxnes 1 og 2, og var Mosfellshreppur ásamt fleirum orðinn eigandi að Laxnesi 1 árið 1979. Jörðin er enn í ábúð (Jarðaskrár).

Litla-Grænaborg

Litla-Grænaborg.

Í Örnefnalýsingu segir: „Nokkuð upp frá bænum, þegar landið hækkar, var Rétt, og er sýnd svo á korti; þar er nú Gljúfrasteinn, þar sem Halldór Kiljan býr. Þar upp af til norðurs heitir Selás…“ (Ari Gíslason).

Upp af Gljúfrasteini „…heitir Selás; þar voru eitt sinn byggð fjárhús, sem nefnd voru Hóll“ (Ari Gíslason).

Hólshús

Hólshús

Hólshús.

Í Örnefnalýsingu segir að upp af Gljúfrasteini, þar sem áður var Rétt heiti Selás og „…þar voru eitt sinn byggð fjárhús, sem nefnd voru Hóll“ (Ari Gíslason). Virðist líklegt að það séu fjárhúsin sem Halldór Laxness kallaði Hólshús og könnuð voru við fornleifaskráningu árið 1980. Skv. skrásetjara er þetta í gömlu túni eða grasi vöxnu stykki á melöldunum norðaustan við Laxnes. Landið er lítt gróið nema rétt umhverfis rúsirnar og hallar svolítið til vesturs frá þeim. Nánar tiltekið er þetta 25 m norðan við sumarbústað. Í raun er um að ræða stóra byggingu sem samanstendur af fjárhúsum, hlöðu, heytóft, tveimur fjárréttum og hrossarétt (Ágúst Ó. Georgsson).

Hólshús

Hólshús.

Fjárhúsin eru tvö (I) , um 9 x 10 m að stærð, og snúa í suður með innganga þeim megin. Eystra húsið hólfast í tvennt að endilöngu með grjóthlöðnum garða sem endar um 2 m frá norðurgafli og beygir hornrétt inn að eystri vegg. Í vestara húsinu eru leifar kofa (VII) sem byggður hefur verið utan í millivegginn sunnan megin eftir að hætt var að nota fjárhúsin. Þvert á afturgafl fjárhúsanna liggur hlaða (II) og virðist hafa verið inngangur í hana úr eystra húsinu. Hún er um 5×10 m að stærð. Við hlið hennar er svo heytóft eða heykuml (III), 2-3×7-8 m að stærð, með inngang að austanverðu. Veggjahæð er um 1,4 m í fjárhúsum og hlöðu en nokkru lægri í heykumlinu.

Hólshús

Hólshús – uppdráttur.

Vestan við húsin eru tvær réttir. Myndast austurhlið þeirra af afturstöfnum hlöðu, heytóftar og langvegg vestara fjárhússins. Nyrðri réttin (IV) er heldur stærri, um 10×12 m, en sú syðri (V) minni, um 4×13 m að stærð. Inngangar eru vestan megin, inngangur stærri réttarinnar þrengri og alveg upp við millivegg réttanna. Veggjahæð er um 48-50 sm. Auðsætt er að réttirnar hafa verið í notkun á sama tíma og fjárhúsin en nokkuð eldri er þriðja réttin (VI) sem nær utan um þær og betur til, um 20×28 m að stærð. Hún er ekki eins vel varðveitt, veggirnir lágir, um 20 cm, sums staðar útflattir eða, eins og í suðvesturhorninu, alveg horfnir. Glöggt sér þó móta fyrir öllum útlínum (Ágúst Ó. Georgsson).

Halldór Laxness sagði Guðjón föður sinn hafa byggt Hólshús og gat bent á einstaka hluta þeirra. Voru innri réttirnar fyrir fráfærur, sú stærri (IV) rétt Laxnesmanna en sú minni (V) sundurdráttarrétt Mosfellinga (Ágúst Ó. Georgsson). Þessu ber saman við upplýsingar úr Þjóðháttarannsókn stúdenta 1976: „Það var smalað sameiginlega til fráfæra á vorin, þegar Heiðin var smöluð. Það var farið eftir gamalli venju. Allur dalurinn rak í rétt í Laxnesi og í Helgadal“ Skv. Halldóri var stóra réttin (VI) utan um fjárréttirnar hins vegar hrossarétt (Ágúst Ó. Georgsson).

Stóra-Grænaborg

Stóra-Grænaborg

Stóra-Grænaborg.

Í Örnefnalýsingu segir að „Rétt sé þar sem nú er Gljúfrasteinn“ og „…þar upp af til norðurs heitir Selás“ og Hóll. „Þarna nokkuð ofan við Gljúfrastein, fast við veginn, er Grænaborg, allmikill rústarhaugur; þar skammt ofar… …er Bárðartóft“. Enn fremur: „Borgarholt er holt upp af Laxnessbæ og nær að Grænuborg“ (Ari Gíslason).
Skv. Fornleifaskráningu 1980 er Stóra-Grænaborg í lágum hól sem er hæstur að norðanverðu og hallar til suðurs, í uppnöguðu og lítt grónu holti. Um 30-40 m sunnan hennar rennur lækur og handan vegarins, í NV, er mýri. Nánar tiltekið eru rústirnar rétt sunnan megin við þjóðveginn til Þingvalla, um 400 m ANA frá Gljúfrasteini og um 850 m ASA frá Laxnesi (Ágúst Ó. Georgsson).

Stóra-Grænaborg

Stóra-Grænaborg.

Hóllinn er um 25×30 m að stærð og nálgast það að vera hringlaga. Vegurinn hefur tekið af honum nyrsta hlutann en sennilega einungis bláhornið. Á norðurhluta hólsins mótar fyrir hringlaga rúst. Ekki er hægt að giska nema nokkurn veginn á stærð hennar, um 8-9 m í þvermál. Taldi Halldór Laxness rústina vera af fjárborg og sem slík er hún skráð í friðlýsingarskjali. Rústin er mjög gróin og talin gömul, í yngsta lagi frá 19. öld (Ágúst Ó. Georgson). Við skoðun 2001 kom í ljós að girðing liggur þvert yfir rústina.

Stóra-Grænaborg

Stóra-Grænaborg – uppdráttur.

Í Örnefnalýsingu virðist gert ráð fyrir að Grænaborg sé nafn á rústarhaugnum eða hólnum þar sem auk fjárborgarinnar er rúst af yngra fjárhúsi (Ari Gíslason).
Í Friðlýsingaskrá segir við Laxnes: „Leifar af tveimur fjárborgum, Grænuborg og annarri ónefndri, hvorri sínum megin þjóðvegar skammt ofan við Gljúfrastein. Skjal undirritað af Þ[ór] M[agnússyni] 16.09.1976. Þinglýst 04.10.1976“ (Fornleifaskrá, bls. 16). Skv. Halldóri Laxness heitir fjárborgin í rústarhólnum Stóra-Grænaborg og sú sem er hinum megin vegarins Litla-Grænaborg (Ágúst Ó. Georgsson).

Upp við Stóru-Grænuborg, sunnar á rústahólnum mótar óljóst fyrir aflangri tóft. Sennilega hafa þetta verið fjárhús með heytóft við gaflinn norðan megin. Fjárhúsin, um 4×8 m að stærð, virðast hafa skipst í tvennt með garða sem legið hefur eftir þeim miðjum. Inngangar eru á suðurgöflum en þvert á norðurgaflana kemur heytóftin, um 4×5 m að stærð. Rústin er óljós og erfitt að segja með vissu til um lögun húsanna. Svo virðist sem nyrsti hluti byggingarinnar hafi snert eða tekið hluta af fjárborginni (Ágúst Ó. Georgsson).

Minni-Græna­borg

Litla-Grænaborg

Litla-Grænaborg.

Skv. Fornleifaskráningu 1980 er Minni-Grænaborg í lágum hól. Í nöguðu og gróðursnauðu holti, rétt vestan við, er dálítil mýri. Nánar tiltekið er þetta á móti Stóru-Grænuborg, rétt norðan megin við þjóðveginn til Þingvalla, um 450 m NA frá Gljúfrasteini og um 850 m SAS frá Laxnesi (Ágúst Ó. Georgsson).
Þessi rúst virðist hringlaga, 10-11 m í þvermál. Hún er mun ógleggri og útflattari en Stóra-Grænaborg og engar grjóthleðslur sýnilegar. Taldi skrásetjari byggingarefnið hafa verið sniddu. Rústin er friðlýst sem fjárborg. E.t.v. hefur annað mannvirki verið byggt í henni miðri því þar virðist óljóst móta fyrir ferningslaga hústóft með inngangi, um 4×4 m að stærð. Þar eð rústin er öll mjög óljós gæti þetta þó einfaldlega verið innanmál fjárborgarinnar. Að mati skrásetjara er þessi fjárborg eldri en Stóra-Grænaborg (Ágúst Ó. Georgsson).

Mælingahóll

Mælingahóll

Mælingahóll.


Í gróðurlitlum mel í miðjum dal er svokallaður Mælingahóll. Melurinn lækkar frá honum í N og V. Nánar tiltekið er þetta um 200 m N við veginn sem liggur að sumarbústöðum í Laxneslandi, í krikanum á beygjunni á honum, um 600 m NA Gljúfrasteins og um 900 m A við Laxnes (Ágúst Ó. Georgsson).

Þetta er rúst sem er til að sjá sem gróin þúst eða stór þúfa. Ekki sjást miklar hleðslur en greina má grjót eða vörðubrot í sverðinum (Ágúst Ó. Georgsson).

Að sögn Halldórs Laxness var þetta landmælingavarða sem danskir mælingamenn frá herforingjaráðinu höfðu sem viðmiðunarpunkt við þríhyrningsmælingar í byrjun 19. aldar (Ágúst Ó. Georgsson).

Bárðartóft

Bárðartóft

Bárðartóft – uppdráttur.

Í Örnefnalýsingu segir: „Þarna nokkuð ofan við Gljúfrastein, fast við veginn, er Grænaborg… …þar skammt ofar, rétt við Jónsselslæk, er Bárðartóft. Þar sést bálkurinn, sem Bárður lá á. Þetta er beint vestur af Skákunum” í tungunni„sem eru milli Köldukvíslar og Jónsselslækjar… …yfir dyrunum lá hella” (Ari Gíslason). Skv. Fornleifaskráningu 1980-1982 er tóftin „…á smáþýfðu graslendi, sem hallar…” í suður „…niður að læknum.” Lækurinn „…rennur milli tveggja holta…” og ofan og norðan „…við tóftina er grýtt og gróðurlítið holt…”, líklega Bárðarholt „…sem Bárðar­tóft er syðst á…” skv. Örnefnalýsingu. Um 2 m vestan tóftarinnar er „grunnur vatnsskorningur”. Nánar tiltekið er þetta beint sunnan við þjóðveginn, um 1 km austan við Gljúfrastein og um 1,5 km suð­austan við Laxnes (Ari Gíslason; Ágúst Ó. Georgsson).
Rústin er um 5×8 m að stærð en innri brúnir veggja og þar með innanmál eru óörugg. Breidd veggja er þó um 1,5 m. Við norðausturgaflinn er talsvert þýfi og grjót og hefur hann því líklega verið í þykkara lagi fremur en að þarna hafi verið bakhús. Ytri veggjabrúnir eru óljósastar á þessum gafli. Hæstur er langveggurinn NV megin, um 0,7-0,8 m en veggurinn á móti er illa farinn og hefur á kafla næstum jafnast við gólfið. Inngangur er á suðvesturgafli og stefnan SV-NA. Um bálkinn og helluna í Örnefnalýsingu er einnig getið í Menningarminjaskrá en skrásetjari sá ekki móta fyrir þessu (Ágúst Ó. Georgsson).

Um Bárðartóft sagði Halldór Laxness: „Einhver einsetukall bjó þarna í kofa”. Þetta virðist ekki mjög gömul rúst eða frá því í kringum aldamótin 1900.

Heimild:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands 2006/2.

Selás Mos

Garður utan í Selási.

Mosfellsdalur

Í vestanverðum Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

„Velkomin í Mosfellsdal.

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – skilti.

Mosfellsdalur er umkringdur fjöllum, í norðri rís Mosfell (276 m.ys.) en að austanverðu eru Grímannsfell eða Grímarsfell (484 m.y.s.), Æsustaðafjall (220 m.y.s.) og Helgafell (217 m.y.s.). Talið er að jökullón hafi fyllt dalinn á ísöld og skýrir það mikið jarðvegsdýpi á dalbotninum. Hann var fyrrum mýrlendur en ræktaður upp smám saman ogvar lagður akvegur eftir miðjum dalnum um 1930 en áður lá leiðin meðfram fjöllunum.

Tvær ár renna um Mosfellsdal, Kaldakvísl að norðanverðu og Suðurá um sunnanverðan dalinn. Þær fallast í faðma hér skammt frá í svonefndum Víðiodda og renna til sjávar í Leiruvogi undir nafninu Kaldakvísl.

Mikill jarðhiti er í suðurhluta Mosfellsdals. Jarðhitinn var á sínum tíma virkjaður og vatninu dælt um Skammadal og áfram til Reykjavíkur.

Í Mosfellsdal eru starfrækt vistheimili. Í Reykjadal er starfrækt heimili fyrir fötluð börn. Í Hlaðgerðarkoti er meðferðarheimili og í norðanverðum dalnum gnæfir Mosfellskirkja á háum hól. [Tjaldanes var heimili þroskaheftra drengja í Mosfellsdal þar til í maí 2004.]

Mosfellsdalur

Í Mosfellsdal.

Landbúnaður var fyrrum blómlegur í dalnum en nú er hefðbundinn búskapur að mestu aflagður, sauðfé er á örfáum bæjum og á Hrísbrú er rekið eina kúabúið í sveitarfélaginu. Í dalnum er einnig að finna gróðrastöðvar, tjaldstæði, hestaleigu, golfvöll og húsdýragarð.

Laxnes

Bærinn Laxnes í Mosfellsdal.

Austast í dalnum er bújörðin Laxnes þar sem Halldór Laxness ólst upp, hann hleypti undir heimdraganum úr Mosfellsdal en orti árið 1930 þegar hann kom til bernskustöðvanna:

Í dalnum frammi undi eg áður fyr,
við ána greri fífillinn minn bestur.
En brott eg fór, og fjöllin urðu kyr.
Eg fer hér nú sem þúsundáragestur.“

[Auk margra annarra áhugaverðra staða, s.s. Hraðastaði, Æsustaði og Helgadal, geymir dalurinn fjölmarga aðra minjastaði, m.a. Hrísbrú og Mosfell þar sem t.d. Egill Skallagrímsson bjó um tíma, auk aðliggjandi staða.]

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – horft frá Laxnesi.

Gljúfrasteinn

Við „Gljúfrastein“ í austanverðum Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

Gljúfrasteinn

Halldór Kiljan Laxnes á vinnustofu sinni að Gljúfrasteini.

„Gljúfrasteinn var byggður í Laxneslandi og arkitekt hússins var Ágúst Pálsson. Húsið reis á hálfu ári. Auður Laxnes segir þannig frá í ævisögu sinni, „Á Gljúfratseini“: „Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1945, kom ég mér vel fyrir í sólkskininu á svölum Landspítalans, og vélritaði samning um byggingu Gljúfrasteins, og dagana á eftir var hafist handa. Fyrstu merki þess að framkvæmdir væru hafnar, var sími festur uppá steini hér úti á hól, og breiddur yfir hann segldúkur á kvöldin. Þá var fátt um byggingarefni, og þurfti að hringja í ýmsar áttir og tína það saman héðam og þaðan af landinu.“
Um jólin 1945 fluttu Halldór og Auður að Gljúfrasteini og varð heimili þeirra strax einstaklega hlýlegt og prýtt mörgum fallegum listaverkum. Hér var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness um hálfrar aldar skeið og húsið skipar sérstakan virðingarsess í augum íslensku þjóðarinnar.“

Gljúfrasteinn opnaði sem safn 2004 og er húsinu haldið óbreyttu frá því sem var. Boðið er upp á hljóðleiðsögn um húsið á ýmsum tungumálum.

Gljúfrasteinn

Halldór Kiljan Laxnes og Auður með Nóbelsverðlaunaskjalið 1955.