Ofan við Sogn og Gljúfur í Ölfusi er nafnið Seldalur. Ofar eru Selá, Selás og Selfjall.
Í örnefnalýsingu fyrir Gljúfur er getið um að “sá hluti á Seldalnum, sem er austan Gljúfurárinnar” nefnist Gljúfurseldalur. Í örnefnalýsingu fyrir Sogn segir að “Sognsselsdalur [er] vestan Gljúfurár, Gljúfursselsdalur austan, þar var sel frá Sogni, sér enn tóftarbrot”. Þá segir að í Seldanum hafi verið “selstaða frá Bakkárholti í skiptum fyrir engjaland, sbr. JÁM 1703. Sér enn fyrir tóftum”. Sú selstaða er hins vegar í Kvíadal, austan Reykjafjalls og norðan Sogna, eins og síðar átti eftir að koma í ljós. Í Seldalnum eiga skv. framangreindu að vera tvær selstöður í tvískiptum Seldal, annarsvegar í Gljúfurseldal og hins vegar í Sognsseldal, ofan Sogns.
Í örnefnalýsingu fyrir Öxnalæk segir að “rétt fyrir innan Skyggni hefur verið sel frá Öxnalæk, í Öxnalækjarlandi. Selið er í Öxnalækjar-Seldal.” Einnig er getið um Selhöfða milli Efra-Sniðs og Neðra-Sniðs ofan við Hamarinn, sbr.: “Selhöfðar eru í Öxnalækjarlandi innan til við Svarthamar, í hærra landi, sem liggur til hánorðurs.”
Í örnefnalýsingu fyrir Saurbæ segir að “Saurbæjarskyggnir (Skyggnir) [er] grjóthóll bið vesturenda Hamarsins, í mörkum. Selstígur [er] grasbrekka með götu suður af Skyggni. Hraunið (Saurbæjarhraun) [er] hraunbreiðan norður og austur af Kömbum og Seldalur [er] gróin laut í hrauninu. Þar sér fyrir tóftum. Selið var frá Saurbæ.”
Í örnefnalýsingu fyrir Reykjatorfuna er getið um Selgil fyrir norðan Gufudal og Selmýri fyrir norðan Selgil. Og í örnefnalýsingu fyrir Núpa er getið um Selás og Selásbrekkur uppi á Núpafjalli svo og Seldal, gróna dæld, upp frá Núpastíg. Ætlunin er að skoða síðastnefndu staðina síðar.
Áður en lagt var af stað var haft samband við Björn Pálsson, skjalavörð í Héraðsskjalasafni Árnesinga, en hann er manna fróðastur um Hveragerði og nágrenni. Björn brást vel við og rakti þegar í stað staðsetningar þeirra selja er ætlunin var að skoða í ferðinni. M.a. kom fram hjá honum eftirfarandi:
“Bakkárholtssel er utan í Reykjafjalli ofan við Ölfusborgir. Gengið er upp með girðingu uns komið er að þvergirðingu er myndar horn. Norður og upp af horninu er hæðardrag, lækjarsitra og vatnsból. Þar við sel selið. Það á að vera greinilegt.
Sognasel er í gróinni tungu norðan áa er koma úr Sognabotnalæk og gili norðanvert í dalnum. Vel sést móta fyrir tóftum.
Gljúfursel er austan við ána í Seldal, þar í gróinni kvos. Vatnsstæði er í kvosinni og í henni rétt sést móta fyrir tóftum. Um er að ræða mjög gamalt sel frá Gljúfrum.
Undir Sognum er forn þjóðleið. Skammt vestar er Hellisfjall og í því gamalt fjárskjól er rýma átti tiltekinn fjölda sauða. Það er svolítið upp í hlíðinni en sést vel.
Rétt áður en komið er að Ölfusborgum er stekkjarbrot við þjóðleiðina.”
Auk þess bætti Björn við: “Öxnalækjarsel er í Sauðabrekkunni, sem nú eru jafnan nefnd Kambar. Nýi þjóðvegurinn liggur um brekkuna. Í henni miðri, rétt ofan vegarins, er Öxnalækjarsel í hraunkrika, svo til beint upp af Hömrum. Ein tóftin í selinu virðist hafa verið brunnhús.” Þá benti hann á að Vallasel væri að finna í Seldal undir Ástaðafjalli, rétt ofan við Reykjadalsána. Líklega er þar um að ræða örnefni, sem getið er um í örnefnalýsingunni fyrir Reykjatorfuna. Ætlunin var að skoða það síðar, ásamt Núpaseli.
Byrjað var á því að skoða Öxnalækjarselið (Saurbæjarselið) ofan Hamra í Sauðabrekku. Þjóðvegurinn um “Kambana” liggur nú um brekkuna, en Kambarnir er þarna skammt ofar, sem gamla vegstæðið lá um. Skammt ofan við þjóðveginn í miðjum “Kömbunum” er gróinn læna upp hraunið, Seldalurinn. Þar, undir lágri norðurbrún hraunsins, kúrir selið; tvær tóftir og er önnur tvískipt. Tóftirnar eru grónar, en þó má sjá móta fyrir hleðslum að innanverðu í stærri tóftinni.
Þegar aðstæður voru kannaðar fékkst svar við því hvers vegna getið er um selstöður frá tveimur bæjum í þessum Seldal, bæði frá Saurbæ og Öxnalæk. Minjar um aðra selstöðu er í sunnanverðum “dalnum”, undir suðurbrún hraunsins. Þar eru tvær tóftir, önnur hús og hitt sennilega kví. Þótt þessar tvær selstöður hafi verið svo nálægt hvor annarri er ekki þar með sagt að þær hafi verið báðar í notkun á sama tíma, sem reyndar verður að telja vafasamt. Nyrðri tóftin, sennilega frá Saurbæ, virðist yngri.
Þá var gengið áleiðis upp með austanverðu Reykjafjalli ofan Sogna. Um Sogn sem bæjarnafn segir m.a.í örnefnalýsingunni: “Bæjarnafninu Sogn hafa ýmsir velt fyrir sér og sett það í samband við norsku merkinguna Sogn (fjörður). Afi minn Ögmundur Ögmundsson bar það æfinlega fram Sodn eða Sotn. Í tilvitnun í handrit í Þjóðsögum Jóns Árnasonar III, bls. 48 er sagt að í handriti standi Soðn. Kannske er þarna á ferðinni eldri mynd af nafninu.”
Í lýsingunni er m.a. getið um Stóra-Helli: “Hellisgjögur í bergið ofan Hellisbrekku, sunnarlega í fjallinu, var notaður sem fjárhús áður. Notaður sem rétt þegar ég þekki til. Tók 100 kindur í innrekstri.” Áður en haldið var á hálsinn milli Sogna og Reykjafjalls var kíkt á hellinn. Hann er upp í miðju berginu, en gróið er undir. Stígur liggur upp í opið.
Vestan Sogna eru heillegar tóftir fjárhúsa.
Sunnan undan fjallsrananum er Stóri-Einbúi. Í örnefnalýsingunni segir um hann: (Einbúinn, afbæjamenn kölluðu Sogseinbúa). Klettahóll í EInbúamýri, klofinn í kollinn. Í honum var gott skjól fyrir búfé. Þar bjó huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Jafnvel álfakirkja. Einhverju sinni gekk maður frá Hjalla í Ölvessveit upp að Gljúfri. Gekk hann hjá steini þeim enum háa er stendur fyrir vestan Sogn. Heyrir hann þá söng í steininum og er þar sunginn sálmur úr Grallaranum “Á guð alleina”. Heyrir hann sálminn sunginn til enda og eigi meira og fer hann þá leiðar sinna”.
Stefnan var tekin í Bakkárholtsselið í Kvíadal. Í örnefnalýsingu segir m.a. um Bakkárholt: “Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggjahreppaþing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H.J. 1703)… Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og “brýr” yfir mýrasund í nágrenni. Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá.”
Í örnefnalýsingu fyrir Sogn má sjá eftirfarandi um selstöðu frá Bakkárholti: “Sel: Þýft móbarð og melar norðvestan Sogna. Vatn frá því fellur í lítlu gili í Selá í Seldalnum. Þarna var selstaða frá Bakkárholti í skiptum fyrir engjaland. Notkunarréttur fallinn niður vegna vannota Bakkárholts, 1703 (Jarðab.A.M.). Sér enn fyrir tóftum.”
Leiðin er tiltölulega greið. Þegar komið var inn á greinilegan stíg inn með vestanverðum Sognum var honum fylgt til norðurs – beint í selið. Það stendur á gróðurtorfu. Lítill lækur rennur sunnan við það. Selið hefur verið nokkuð stórt. Þrjú rými eru í því, eitt stórt að austanverðu og tvö minni að vestanverðu. Op hefur verið mót suðri, að Sognum. Tóftin er vel gróin og stendur hátt í þýfinu. Skammt suðaustan við tóftirnar mótar fyrir eldri tóftum, en erfitt er að greina rýmisskipan.
Fyrst komið var upp fyrir Sognin var ákveðið að skoða Sognabotnana. Um þá liggur mikið gljúfur til norðurs. Um það rennur lítil á, Selá. Henni var fylgt til austurs, niður með sunnanverðum Selás, niður í Seldal. Þar átti að hafa verið selstaða frá Sogni, sbr.: “Seldalur. Gróið dalverpi suðaustur af Selásnum, suður að ármótum Gljúfurár og Selár. Sognseldalur vestan Gljúfurár, Gljúfursseldalur austan. Þar var sel frá Sogni, sér enn tóftarbrot. Stundum var heyjað þar, aldrei í mínu minni.”
Seltóftirnar eru á gróinni tungu ofan (norðan) við Selá skammt vestan við þar sem hún og Gljúfurá koma saman. Tóftirnar, sem eru mjög grónar, mynda háan hól með nokkrum rýmum. Líklegt má telja að selið hafi verið alllengi í notkun, enda eru aðstæður þarna einstaklega hagstæðar selbúskap. Dalurinn er vel gróinn og veðursæld er án efna mikil á sumrum. Skammt norðan við tóftarhólinn mótar fyrir eldri minjum.
Í örnefnalýsingu fyrir Gljúfur er ekki minnst á selrústir, einungis: “Suður frá [Stórkonugilsbotnum] er Sognseldalur og Gljúfurseldalur.” Skv. lýsingu Björns átti selstaðan að hafa verið austanvert í dalnum. Einungis tók skamman tíma að finna tóftina. Hún hefur verið felld inn í gróinn bakka og sjá má móta fyrir rýmum vestan við hana. Kaldavermsl eru sunnan við tóftina, sem án efa hefur verið hin ágætasta uppspretta.
Á bakaleiðinni, niður með Lynghól austan hinna hrikalegu gljúfra austan Sogna voru rifjuð upp örnefni á leiðinni
“Gljúfurshellir: (Hellirinn) Sandsteinshellir ofanvert (norðaustur) í Neðragilinu vestanverðu. Notaður lengi sem fjárhús.” “Hellirinn á Gljúfri er í lækjargili austan bæjar um 100 m neðan þjóðvegarins. Nýleg fjárhús standa við lækinn nokkru ogan við hellinn. Hellirinn er grafinn í sandsteinsvöluberg, lárétt lagskipt með víxillaga linsum í. Hellirinn er allur á breiddina sem er 10-11 m en dýpt hans inn í bergið er 6 m fyrir miðju en 5 m til endanna. Lofthæðin er 2,0-2,5 m. hellismuninn er jafnvíður hellinum sjálfum 10 x 2,5 m en honum hefur verið lokað með hlöðnum vegg með dyrum á fyrir miðju. Lítið uppsprettuauga er í hellisgólfinu innan við dyrnar og smálækur rennur út um þær í aðallækinn. Leifar af jötum sjást með veggjum.” “Örfáar áletranir eru á veggjum, virðast unglegar. Þar er m.a. hakakross.” Hellirinn var hafður undir fé, en aflagður fyrir 20 árum. 70 ær voru við hellin segjir Gljúfursbóndi.”
“Litli-Hellir: Lítið gjögur undir stóru bjargi, sem fallið hefur úr fjallinu. Þar voru í mínu minni, hlaðnir kampar og einhvern tímann notað sem fjárhús.”
Loks var skoðuð hlaðinn rétt austur undir klettum vestan Gljúfurár.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar.
-Björn Pálsson.