Færslur

Mosfellsheiði

Merkileg varða, “Gluggavarðan“, stendur á jökulsorfnu hvalbaki á norðanverði Mosfellsheiði.

Gluggavarða

Gluggavarða.

Sunnan vörðunnar eru ummerki eftir vatnsstæði og gróðursælar torfur í heiðinni. Mýrardrög eru þar nálægt, auk þess sem hin forna “Seljadalsleið”, þ.e. eldri gata um Mosfellsheiðina til Þingvalla, lá í gegnum svæðið með stefnu á sæluhúsatóft í Moldbrekkum. Ljóst er, af hinum mörgu aðlíðandi kindagötum að dæma, að svæðið hefur þótt eftirsótt fyrrum, bæði af mönnum og skepnum. Líklegt má telja að Gluggavarðan hafi frá upphafi verið, bæði og hvorutveggja, leiðartákn að áningarstað á miðri heiðinni sem og tímabundnum dvalarstað Grafningsfólks, sem heyjaði mýrardrögin sem og afliggjandi flóann áleiðis niður að Litla-Sauðafelli.

Gluggavarða

Gluggavarða – hleðslur sunnan við vörðuna.

Sunnan við hvalbakið, sem varðan stendur á, eru jarðlægar hleðslur. Líklegt má telja að þær séu leifar eftir tjaldbúð. Vestan við hólinn er gróið aflíðandi jarðfall; kjörið tjaldstæði.

Hleðslulag “Gluggavörðunnar” er engin tilviljun. Slíkar vörður voru fyrrum nefndar “strákar”, “stelpur eða “stúlkur””. Ástæðan fyrir nefnunni er óþekkt, en hún virðist ekki hafa haft neinn sérstakan tilgang annan en að búa til áauðvísandi mannvirki í víðfeðmni.
Í lok 19. aldar gerðu vegavinnumenn í þegnskaparvinnu það stundum að gamni sínu að hlaða “öðruvísi” vörður á stöku stað, líkt og “Prestsvörðuna” við Prestastíginn á vestanverðum Reykjanesskaganum og Berserkjavörðuna við Þingvallaveginn gamla.

Gluggavarða

Gluggavarða.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 2019 segir einungis um “Gluggavörðuna”: “Þessi myndarlega gluggavarða stendur við Seljadalsleið norðarlega á Mosfellsheiði. Varðan hvílir á fjórum grjótfótum á klöpp og hefur þess vegna ekki haggast í aldanna rás. Hægt er að miða út höfuðáttir á milli fóta hennar.”

Moldbrekkur

Moldbrekkur – tóft sæluhússins.

Í Árbókinni segir jafnframt um “Sæluhúsið” í Moldbrekkum: “Árið 1841 var byggt sæluhús í Moldbrekkum á norðanverðri Mosfellsheiði og þar vory hlaðnar svonefndar Sýsluvörður á mörkum Kjósarsýslu (nú Mosfellsbæjar) og Árnessýslu. Grjót úr vörðunum var notað í húsið og hreppsstjóri Mosfellinga, Jón Stephensen (1794-1853) á Korpúlfsstöðum, og Þingvellinga, Kristján Magnússon 1777-1843) í Skógarkoti, völdu staðinn.

Moldbrekkur

Moldbrekkur – sæluhúsið.

Sæluhúsið stóð allhátt í landslaginu og örskammt þaðan var vatnslind. Greint er frá húsinu í sýslulýsingu Árnessýslu frá árinu 1842: “Í sumar er var, var byggt nýtt sæluhús á miðri Mosfellsheiði af Þingvalla- og Mosfellssveitar innbúum. En eftir er þá að ryðja og varða vel heiðina, sérílagi að austanverðu, og mun á því verða byrjað á sumri komanda.”
Sæluhúsið í Moldbrekkum skapaði öryggi fyrir vegfarendur og í illviðrum gat þetta litla torfhýsi skilið á milli feigs og ófeigs. Snemma marsmánaðar árið 1857 héldu 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal frá Þingvöllum vestur yfir Mosfellsheiði þar sem þeir hrepptu norðanstórviðri. Þeir huguðst leita skjósl í sæluhúsinu en fundu það ekki og héldu áfram í áttina að Mosfellsdal með tilfallandi afleiðingum.”

Heimild m.a.:
-Árbók Ferðafélags Íslands 2019.

Gluggavarða

Mýrarfláki við Gluggavörðuna.