Þegar gengið er um Selvogsheiði ofan gömlu Fornugötu má sjá a.m.k. 15 selstöður í 25 seljum. Selstöðurnar eru greinilega mismunandi gamlar. Í þremur seljum eru nokkrar kynslóðir selja, allt frá fyrstu til loka seljabúskaparins í lok 19. aldar. Nokkrar eru óþekktar.
Í örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir m.a.: “Fyrir ofan þjóðveg: Austur af Strandarhæð, sem er norður af vegamótunum, eru miklar lægðir, sem heita Djúpudalir og tilheyra Útvogi. Þeir eru við mörk Götu og Útvogs. Austur og upp af þeim eru þrír lágir hólar, sem heita Karlshólar og eru fyrir ofan Fornugötu. Fremsti-Karlshóll er næstur þjóðvegi, þá Mið-Karlshóll og loks Efsti-Karlshóll.
Norður eða norðvestur af klöppinni Fótalaus í Neslandi er Bjarnastaðaból eða -sel. Það er austur af Stebbasteini (sjá Þorkelsgerði). Uppi í heiðinni voru sel eða ból frá flestum bæjum. Mörkin móti Nesi eru alveg við bólið. Hásteinar eru þrír hraunhólar við þjóðveginn. Fyrir ofan veg er Stóri-Hásteinn, og liggja mörk Ness og Bjarnastaða um hann, alveg vestan við Kárabrekkuhól í Neslandi.”
Hér að framan er ekki getið um litla selstöðu undir Hásteini. Hún gæti hafa verið frá Götu, en í Jarðarbókinni 1703 er þess getið að Gata hafi átt selstöðu í Bjarnastaðamannalandi án skatta og skyldna. Hins vegar liggja mörk götu vestar en Bjarnastaðaland með sameiginleg mörk alla leið í Kálfahvamm í Geitafelli.
Í örnefnalýsingu fyrir Götu segir m.a.: “Mörkin milli Útvogs og Götu eru úr Markhól austan Stóraklifs í Þorkelsgerðislandi í miðjan Gjáardal, sem er kringlótt ker ofan við ferðamannaveginn [Fornugötu] út að Vogsósum, austur af Bjargarhelli. Milli Gjáardals og Torfdals er mjótt haft, líklega tíu metrar. Þar er Miðvogsstekkur í Götulandi. Línan liggur úr Gjáardal um þúfu á Götugjá. Götugjá er ein af mörgum gjám, sem eru milli Hnúka og Geitafells. Hún kemur upp aftur niðri í heiði, og er sagt, að hún liggi niður í Götutún. Þaðan er línan í Svarthól, sem er einstakur hóll úti í svonefndum Móa (eða Móum) suðaustur frá Vörðufelli. Mörk Götulands að austan eru 40 faðma fyrir austan Svarthól, en ekkert merki er þar. Í landamerkjaskrá segir, að þau séu í vörðu 40 faðma fyrir austan Svarthól.”
Hér er getið um Svarthól. Þegar FERLIR skoðaði hólinn eftir vísan Kristófers Bjarnasonar heitins, en hann hafði í fyrri ferðum um svæðið bent á þar væru mannvistarleifar, komu í ljós selsminjar; þrjú rými og stekkur, auk vörðu. Tóftirnar eru heillegar, veggir fallnir og grónir. Þó má lesa rýmin; stakt eldhús og sameiginlegur inngangur í baðstofu og búr.
Tóftin er ekki stór, en þó engu minni en nánast helmingur af 310 selstöðum, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanes-skaganum. Líklegt má telja að selstaða þessi hafi verið frá Götu, sennilega á 15. öld. Hugsanlega hefur þá kastast í kekki með Bjarnastaðamönnum og Götufólkinu á einhverju tímaskeiði, líkt og þekkist, og selstaðan þá orðið til.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði, sem á land vestan við Götu segir m.a.: “Austan við Strandarhæð eru miklar lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. Norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða -sel. Við það er Skyrhóll, hellisskúti, þar sem skyrið átti að hafa verið geymt. Neðar er Þorkelsgerðisvatnsstæði. Vatn er í því lengi vel fram eftir vori. Bólið er inn af því, vestar en Hásteinar, en austur af Vörðufelli.”
Skyrhellir er reyndar ekki við selið, en þó ekki langt frá. Hellirinn er í raun skúti, sem hægt er að fara niður í. Á “hellisgólfinu” eru beinaleifar. Framan við opið á hólnum er stök tóft. Hún gæti þó reynst stærri ef staðurinn yrði rannsakaður betur. Ferhyrnt gróið gerði er einnig í hólnum svo ekki er ólíklegt að þarna hafi fyrrum verið lítil selstaða.
Þá segir ennfremur til nánari upplýsinga í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði: “Hrakningshæð er hæðardrag í Vörðufellshrauni í suðaustur frá Vörðufelli. Ef fé hrakti undan veðrum, hafði það afdrep undir hæðinni. Hæðin er líklega í Eimulandi eða við mörkin. Brekkuhalli er upp undir Hnúkana. Þær brekkur heita Hallandar. Í Eimulandi er Eimuhallandi og þar í Eimuhallandasteinn. Það er töluvert stór steinn, vænt Grettistak. Austan til við hann er Stebbasteinn, ekki stór steinn, stakur. Hann er fyrir ofan Móana. Brekkur eru í hallandanum fyrir neðan. Stebbasteinn dregur nafn af Stefáni í Götu, sem tyllti sér við steininn í smalamennskum og hætti til að sitja of lengi og dragast aftur úr. Hér er heiðin farin að hækka. Leynir er lægð austan Hellholta og liggur niður með Hallanda, alla leið niður að Eimuhallandasteini. Leynir er gott beitiland, ekki uppblásið. Hann er austan við Eimuból. Fram af Eimuhallandasteini er Leturhóll. Um hann liggur merkjalínan milli Þorkelsgerðis og Eimu. Þaðan er bein lína í Kálfahvamm.
Austan við Leyni, vestur og fram (þ.e. suður) af Vesturhnúkum (í Neslandi) eru Hrómundartindar (112), einstakir klettar. Ekki er kunn nein sögn um nafnið. Þar eru góðar brekkur, sem slegnar voru frá bæjum í Útvogi.”
Landamerkjavörður má sjá víða í Selvogsheiðinni.
Frábært veður.
Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Bjarnastaði – ÖÍ.
-Örnefnalýsing fyrir Götu – ÖÍ.
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði – ÖÍ.
-Jarðabókin 1703.
-Kristófer Bjarnason.