Tag Archive for: Grænadyngja

Arnarvatn

Reykjanesið hefur margar fallegar gönguleiðir upp á að bjóða. Reykjanes Geopark í samstarfi við Þráinn Kolbeinsson hefur tekið saman 13 gönguleiðir af Reykjanesinu og nefnist verkefnið „Tindar Reykjaness„. Verkefnið var styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja.

Þorbjörn

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell.

Norðan við Grindavík og rétt hjá Bláa lóninu liggur fellið Þorbjörn (Þorbjarnarfell). Fellið myndaðist á síðasta kuldaskeiði ísaldar, við gos undir jökli, og er að mestu úr bólstrabergi. Þrátt fyrir að vera aðeins 243 metra hátt býður það upp á skemmtilegar og nokkuð fjölbreyttar göngur sem ættu að henta flestum. Hægt að byrja gönguna á nokkrum stöðum, en einfaldast er að byrja við bílastæði við Grindavíkurveg. Þar liggur gamall vegur upp eftir mesta brattanum og tvístrast svo þegar upp er komið. Fjallið stendur á misgengissprungum sem hafa myndað grunnan sigdal.

Þorbjörn

Camp Vail á Þorbirni – uppdráttur ÓSÁ.

Þar má sjá ummerki og leifar frá seinni heimsstyrjöld en setulið Bandaríkjamanna setti upp bækistöð í skjóli dalsins. Við sprunguhreyfingar hefur orðið til mikil hamragjá á toppi fjallsins sem kölluð er Þjófagjá. Sagan segir að þar hafi falið sig 15 þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Það var ekki fyrr en bóndasyni frá Hópi tókst að svíkja þá er þeir böðuðu sig á Baðsvöllum, norðan við Þorbjörn, sem þeir náðust loksins. Meira má lesa um þjófana og afdrif þeirra hér. Þegar upp er komið er möguleiki á nokkrum mismunandi leiðum. Upp á topp, í gegnum Þjófagjá og umhverfis toppinn. Hvert sem farið er má búast við frábæru útsýni í allar áttir. Það tekur ekki langan tíma að skoða hina ýmsu kima Þorbjarnar og fyrir þá sem vilja síður ganga upp á fjallið.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur).

Vestan við Kleifarvatn liggur hinn fallegi Sveifluháls en á honum eru margir tindar sem bjóða upp á skemmtilegar göngur. Einn þeirra er Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur). Til að byrja gönguna er keyrt um Krýsuvíkurveg með fram Kleifarvatni og svo er þægilegt að leggja bílnum á litlum malar afleggjara. Þaðan er svo hægt að ganga beint upp. Þegar upp brattann er komið tekur við flatlendi umkringt stórbrotnum klettum. Haldið er áfram til norðausturs og eftir um 500 metra blasir tindurinn við. Þarna getur verið auðvelt að ruglast á tindum, en taka skal fram að til að komast upp á topp Miðdegishnúks þarf ekkert tæknilegt klifur.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Á leiðinni upp síðasta kaflann tekur á móti manni skemmtilegur hellir þar sem tilvalið er að borða nesti og njóta útsýnisins yfir Vigdísarvelli í vestri. Þegar toppnum er náð blasir við frábært útsýni í allar áttir, eftir hryggnum til suðurs og norðurs og einnig yfir Kleifarvatn og Vigdísarvelli. Til vesturs má svo sjá Trölladyngju, Grænudyngju, Keili og fleiri fallega tinda. Hægt að fara sömu leið til baka, en fyrir þá sem vilja aðeins meira brölt er hægt að beygja í átt að Kleifarvatni þegar komið er niður fyrir hellinn. Þar þarf að klöngrast aðeins meira.

Stapatindar

Stapatindar

Stapatindar.

Sveifluháls liggur vestan við Kleifarvatn og þar tróna Stapatindar hæst. Nokkrar leiðir liggja að toppnum og er hægt að leggja á ýmsum stöðum við Krýsuvíkurveg og fara þaðan upp á Sveifluháls og í átt að Stapatindum. Einfaldast er að leggja bílnum á bílastæði við Kleifarvatn og ganga beinustu leið upp á hálsinn. Á leiðinni eru flottir klettar og bergmyndanir sem gaman er skoða áður en mesti brattinn tekur við. Þegar upp á hrygginn er komið tekur við frábært útsýni eftir hryggnum til suðurs og norðurs og einnig er gaman að sjá Kleifarvatn úr þessari hæð. Í vestri blasa svo við Trölladyngja, Grænadyngja, Keilir og fleiri fallegir tindar umhverfis Sogin. Til að komast niður er eðlilega hægt að fara sömu leið og komið var upp, en einnig getur verið gaman að halda áfram eftir Sveifluhálsinum í suðvestur og vinna sig þaðan niður.

Grænadyngja

Grænadyngja

Grænadyngja.

Eitt ævintýralegasta göngusvæði Reykjaness felur sig við Grænudyngju og Trölladyngju. Grænadyngja er eldfjall sem myndaðist við gos undir jökli fyrir lok ísaldar og rétt við hana er Trölladyngja, en oft er talað um fjöllin sem tvíbura og saman eru þau kölluð Dyngjurnar. Til að komast að Grænudyngju er ekið eftir Reykjanesbraut og þegar komið er að gatnamótum Vatnsleysustrandar er sveigt út af brautinni og inn á malarveg sem merktur er Keili. Malarvegurinn er nokkuð grófur, en þó fær flestum bílum á sumrin en minni bíla þarf að keyra hægt. Þegar komið er að bílastæði fyrir Keili er haldið áfram til vinstri.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Eftir um 1 km er aftur beygt til vinstri þar til komið er að gígnum Eldborg þar sem hægt er að leggja bílnum. Beint suður frá Eldborg er lítið gil sem markar upphaf göngunnar. Gilið krefst ekki tæknilegs klifurs en ef einhver treystir sér ekki þar upp er einnig hægt að ganga upp hlíðarnar austan við það. Haldið er áfram niður í grunnan dal og loks upp eftir suðurhlíðum fjallsins. Þar uppi tekur á móti manni einstakt svæði, grasi gróið og yfirleitt skjólsælt. Gengið er aðeins lengra, þar til nokkuð brött skriða blasir við. Gengið er upp eftir henni þangað til toppi Grænudyngju er náð.

Sog

Sogin og Grænadyngja.

Aðeins sunnar er að finna eitt besta mögulega útsýni yfir háhitasvæðið Sogin og vötnin þar í kring. Ef tími og aðstæður leyfa er tilvalið að bæta við gönguna ferð niður í Sogin og Trölladyngju svo úr verði skemmtileg hringferð. Ef ætlunin er að fara niður í Sogin er haldið áfram eins og leið liggur niður suðurhlíðar Grænudyngju þar til Sogunum er náð. Ef ætlunin er að fara einnig upp á Trölladyngju aftur að bílastæðinu, er best að halda í vestur og ganga niður eftir grasi grónum hlíðum Grænudyngju og niður í dalinn sem liggur á milli fjallanna. Ef ætlunin er einfaldlega að komast ofan af Grænudyngju aftur á bílastæðið, er tilvalið að halda niður vesturhlíðar fjallsins, ofan í dalinn þangað til komið er aftur að gilinu sem farið var upp í upphafi göngu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Trölladyngja er tilkomumikið fjall sem gaman er að ganga upp og frábært útsýni sem bíður manns á toppnum. Gangan hentar flestum og engan sérstakan búnað þarf nema ef um ræðir vetrarferð í hálku og/eða snjó. Rétt hjá Eldborg er lítil malarbílastæði og við upphaf göngu er lítið gil sem er skemmtilegt að fara upp en einnig er hægt að ganga upp auðvelda brekku norð-austan megin við það. Það eru nokkrar útfærslur af heildargöngunni en þær taka flestar um 1-2 klst. og eru um 2-4 km með 260m hækkun. Það er tilvalið að tengja göngu upp Trölladyngju við Grænudyngju og Sogin. Á toppnum er einstakt útsýni yfir Reykjanesskagann (Keili, Grænudyngju, Sogin o.fl.) og alla leið til Reykjavíkur og Snæfellsness.

Selsvallafjall

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Selsvallafjall er staðsett á skemmtilegu svæði sem ekki margir fara um, en tindurinn liggur vestan hinna fögru Vigdísarvalla. Í vesturhlíðum fjallsins fá finna leifar af breskri stríðsflugvél sem fórst þar árið 1943 eftir að hafa verið í eftirlitsflugi vegna kafbáta suðvestan Íslands. Á leiðinni gerði svartaþoku sem varð til þess að flugmaðurinn brotlenti vélinni í hlíðum fallsins en hægt er að lesa meira um slysið hér. Enn má finna leifar af flugvélinni en við biðjum alla þá sem heimsækja staðinn að taka enga muni með sér heim.

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Gönguna upp Selsvallafjall er bæði hægt að hefja við Suðurstrandarveg (nr. 247), þar sem Vigdísarvallarvegur byrjar eða með því að keyra inn Vigdísarvelli. Ef byrjað er við Suðurstrandarveg er gengið norður í átt að Núpshlíðarhálsi og honum fylgt, þangað til Selsvallafjalli er náð. Stuttu eftir að lagt er af stað frá Suðurstrandarvegi má sjá nokkra gíga sem skemmtilegt getur verið að staldra við og skoða. Síðan er haldið áfram þar til við tekur gamall malarvegur sem liggur ofan á hluta hryggjarins. Um 700 metra frá toppnum eru svo leifarnar af flugvélarbrakinu fyrir þá sem hafa áhuga á því. Af toppi Selsvallafjalls er frábært útsýni í allar áttir og í góðu skyggni má m.a. sjá alla leið til Vestmannaeyja, Snæfellsjökuls og Eldeyjar.

Stóri-Hrútur

Stóri-Hrútur

Stóri-Hrútur.

Austan við gosstöðvarnar í Geldingadal stendur Stóri-Hrútur, 352 metra hátt keilulaga fjall. Ígegnum tíðina hafa örnefni svæða sem þykja sérlega torfarin stundum verið kennd við hrúta. Með núverandi slóða sem liggur upp eftir suðurhlíð hans er Stóri-Hrútur ekki sérlega torfarin en hann er þó brattur og grýttur svo áður fyrr hefur uppferðin verið mun erfiðari. Samkvæmt sögubókum ber Stóri-Hrútur víst fleiri en eitt nafn en Grindvíkingar hafa oft kallað hann Litla-Hrút og aðrir Syðri-Keilisbróður. Bæði nöfnin verða að teljast nokkuð viðeigandi þar sem hann er hvorki mjög hár í loftinu og er alveg í laginu eins og Keilir.

Stóri-hrútur

Stóri-Hrútur; útsýni yfir að gíg ofan Meradala.

Til að komast að Stóra-Hrút eru þrjár leiðir í boði og tilvalið að gera einhvers konar hringferð úr leiðinni. Þægilegaster að leggja bílnum hér og ganga þaðan. Ýmist er hægt að halda upp Langahrygg og ganga eftir honum eða öðru hvoru megin við hann, eftir Merardölum eða norður Nátthaga. Leiðirnar eru mislangar en heildar vegalengd getur verið um 7-10 km báðar leiðir. Nátthagi liggur vestan við Langahrygg en hann er meira og minna fullur af hrauni sem gaman getur verið að skoða. Þar hafa myndast magnaðir litir og getur gufa legið uppúr hrauninu í langan tíma eftir að gosi lýkur og því tilvalið að sjá svæðið á meðan enn er hiti í því. Langihryggur býður svo uppá skemmtilega útsýnisferð en gosstöðvarnar sjást vel þegar gengið er eftir hryggnum. Rúsínaní pylsuendanum er síðan uppi á Stóra-Hrúti sjálfum en þaðan sést einn stærsti gíganna hvað best.

Langihryggur

Langihryggur

Langihryggur og nágrenni.

Áður en gosið í Geldingadölum vatt upp á sig gat fólk nokkurn veginn farið hvaða leið sem er að gosstöðvunum og staðið hvar sem er til að upplifa eldgosið. Nokkrum mánuðum síðar var það ekki alveg jafn aðgengilegt og í kjölfarið varð Langihryggur óvart ein vinsælasta gönguleið landsins. Langihryggur er tæplega 300 metra hár hryggur sem liggur með fram Nátthaga, en það er einmitt dalurinn þar sem gosið náði sem næst sjónum. Leiðin er mjög aðgengileg og hægt að velja nokkra mismunandi upphafspunkta en við mælum með því að bílnum sé lagt á bílastæði 2 fyrir gosið eða bílastæði B.

Langihryggur

Langihryggur.

Frá báðum bílastæðum er auðvelt að fylgja stígum og stikum þar til Langihryggur blasir við, en hann ber nafn með rentu og er einmitt langur hryggur. Gangan er um 5-7 km báðar leiðir með nokkuð þægilegri hækkun. Áður en haldið er upp á hrygginn sjálfan getur verið gaman að ganga niður að hrauninu og skoða það. Þegar gengið er eftir hryggnum er stórbrotið útsýni yfir gosstöðvarnar þar sem einn af síðustu virku gígunum trónir vígalegur á toppnum í fjarska. Reykur og gufur geta sést löngu eftir að gosi lýkur og því er tilvalið að sjá svæðið á meðan enn er hiti í hrauninu. Ef tími og orka leyfa þá getur verið gaman að lengja gönguna aðeins og bæta við hana ferð upp á Stóra-Hrút, en hann tekur við í beinu framhaldi af hryggnum. Þar er einnig frábært útsýni yfir gosstöðvarnar og víðar.

Geitahlíð

Geitahlíð

Geitahlíð.

Geitahlíð er falleg grágrýtisdyngja rétt austan við Krýsuvík sem býður upp á skemmtilega og nokkuð greiðfarna göngu. Auðvelt er að komast að henni, annaðhvort um Krýsuvíkurveg (nr. 42) eða Suðurstrandarveg (nr. 247) og bílastæði er við upphaf göngu. Á láglendinu sunnan við Geitahlíð er gígurinn Stóra-Eldborg sem er tilvalið að kíkja á áður en haldið er upp Geitahlíð. Hægt er að ganga alveg upp á gígbrúnina og sjá ofan í gíginn sjálfan. Við hlið hans er Litla-Eldborg, en slóðinn upp Geitahlíð hverfur fljótlega eftir hana og ekki endilega augljóst hvert skal fara.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Tiltölulega einfalt er þó að vinna sig upp grýtta hlíðina. Þegar upp mesta hallann er komið liggur beint við að halda í átt að hæsta punkti Geitahlíðar, svokölluðum Æsubúðum. Æsubúðir eru nokkuð stór gígur á toppi fjallsins, en sagan segir að þar hafi eitt sinn verið verslunarstaður jötna. Á tímum þegar sjórinn náði upp að Geitahlíð hafi svo verið hægt var að leggja skipum við Hvítskeggshvamm (norðaustan við Eldborgirnar). Þegar upp er komið er skemmtilegt að ganga eftir brúnum Æsubúða og bæta þannig stuttri lykkju við ferðina. Af toppi Geitahlíðar er frábært útsýni til allra átta, sérstaklega yfir Kleifarvatn, Sveifluháls og Stapatinda.

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar. Grænavatn fremst, Djúpavatn t.h. og Spákonuvatn t.v.

Grænavatnseggjar bjóða upp á skemmtilega og þægilega göngu með frábæru útsýni yfir Djúpavatn, Sogin, Grænavatn o.fl. Eitt fallegasta göngusvæði Reykjaness er án efa í kringum Sogin, austan Vigdísarvalla, en þar má sjá einstakt háhitasvæði með tilheyrandi litbrigðum innan um fjölbreytta tinda og vötn. Grænavatnseggjar bjóða upp á skemmtilega og þægilega göngu um þetta svæði með skemmtilegu útsýni. Til að byrja gönguna er hægt að leggja bílum á þremur mismunandi stöðum: Við gamla borholu við Sogin og svo við sitthvorn enda Djúpavatns.

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar.

Leiðin er ekki stikuð, en fólki ráðlagt að finna sér sem þægilegustu leið upp á hrygginn og ganga svo eftir honum. Auðveldast er að komast upp á hann norðan við Djúpavatn. Á toppi Grænavatnseggja blasir við frábært útsýni til allra átta; yfir Djúpavatn og Vigdísarvelli, í átt að Grænavatni og svo í átt að Trölla- og Grænudyngju. Óháð því hvar byrjað er, þá er auðvelt að lengja gönguna með því að tengja við aðrar leiðir (Sogin, Grænudyngju o.fl.) og tilvalið að halda leiðinni áfram í kringum Grænavatn og aftur til baka í átt að Spákonuvatni með Keili í vestri.

Hverafjall

Hverafjall

Hverafjall.

Einn vinsælasti ferðamannastaður Reykjaness er Seltún við Kleifarvatn. Fjöldinn allur af hverum á litríku háhitasvæði gera staðinn að fullkomnum áfangastað fyrir þá sem hafa áhuga á einstakri og lifandi náttúru. Til að komast þangað er keyrt með fram Kleifarvatni um Krýsuvíkurveg (nr. 42) þar til skilti bendir manni á gott bílastæði. Rétt fyrir ofan Seltún er þó falin perla sem á það til að fara fram hjá þeim sem heimsækja svæðið, Hverafjall. Hverafjall er aðeins um 300 metra hátt og er gangan upp stutt og laggóð.

Hverafjall

Hverafjall.

Umhverfis fjallið er töluverður jarðhiti sem leiðir af sér mikla litadýrð og tilheyrandi gufustróka. Útsýnið á leiðinni og ofan af toppnum er mjög tilkomumikið en þaðan sjást m.a. Grænavatn og Kleifarvatn ásamt fleiri fallegum stöðum. Gangan þarf ekki að taka meira en klukkutíma, en skemmtilegt getur verið að halda áfram á næsta topp sem stendur beint fyrir ofan Seltún (norðan við Hverafjall). Þaðan er svo annaðhvort hægt að fara sömu leið til baka eða halda ferðinni áfram og koma niður að bílastæðinu hinum megin frá.

Keilir

Keilir

Keilir.

Keilir er frábær ganga fyrir fólk á öllum aldri en krefst þess þó að geta gengið upp þokkalega brattan kafla þar sem eitthvað um laust grjót er og laus sandur. Það tekur um 2-3 klst. að ganga frá bílastæði, upp á topp og aftur til baka en vegalengdin er 7-8 km með 280m hækkun. Á toppi Keilis er útsýnisskífa og frábært útsýni í allar áttir – ganga sem allir ættu að prófa.
Flestir hafa séð Keili þegar keyrt er eftir Reykjanesbrautinni, en ekki jafn margir hafa klifið hann. Gönguleiðin er skemmtileg og nokkuð greiðfarin og af toppnum er frábært útsýni í allar áttir. Keilir er móbergsfjall sem myndaðist á ísöld við gos undir jökli, án þess að gosið næði að brjótast upp úr jöklinum.

Keilir

Keilir – gestabókastandur á toppnum.

Leiðin að Keili er nokkuð einföld en keyrt er eftir Reykjanesbraut (nr. 41) og loks beygt af veginum á sama stað og ef ætlunin væriað fara Vatnsleysustrandarveg (nr. 420), en vegurinn að Keili er við sömu gatnamót en fer í gagnstæða átt. Áberandi skilti við veginn vísar á Keili. Þar tekur við malarvegur sem er í grófari kantinum, en þó fær flestum bílum á sumrin en á minni bílum er best að fara sér hægt. Eftir um 8 km blasir við bílastæði og upplýsingaskilti um gönguna á Keili. Gangan sjálf er skemmtileg og á flestra færi, en tvær leiðir að fjallinu eru í boði. Annars vegar eftir stikaðri leið í gegnum hraunið og hins vegar eftir hrygg Oddafells. Skemmtilegt getur verið að gera úr leiðinni hringferð. Upp eftir Keili liggur svo slóði sem á endanum leiðir mann að dýrindis útsýni yfir stóran hluta Reykjaness.

Fagradalsfjall – Langhóll

Langhóll

Á Langhól.

Það þarf eflaust ekki að minna marga á eldgosið sem hófst 19. mars 2021, kennt við Fagradalsfjall. Hæsti tindur þess svæðis heitir Langhóll og er um 390 metra hár. Þótt gangan hafi boðið upp á fallegt útsýni áður en gosið átti sér stað, þá varð útsýnið alls ekki síðra eftir það. Á leiðinni er gott útsýni yfir gosstöðvarnar og magnað að sjá hvernig hraunið hefur fyllt upp í botn Geldingadals. Til að komast að Langhóli er ýmist hægt að keyra Suðurstrandarveginn (nr. 427) um Krýsuvík eða Þorlákshöfn eða með því að fara í gegnum Grindavík. Gott er að byrja gönguna við bílastæði 1 fyrir gosstöðvarnar. Þaðan er gengið eftir merktum stíg í gegnum hraunið og í átt að gossvæðinu.

Langhóll

Langhóll – merkjastöpull.

Eftir rúman kílómeter skiptist stígurinn í tvennt, önnur leiðin liggur í átt að gosinu, en til að komast að Langhóli skal beygja til vinstri. Leiðin er stikuð og leiðir mann í átt að smá brekku brölti, en þar er þessi fíni kaðall sem gerir ferðina upp auðveldari. Þegar upp er komið halda stikurnar áfram og leiða mann stystu leið að útsýni yfir gosstöðvarnar. Þar sem engar stikur beina manni í átt að Langhóli getur verið þægilegt elta stikurnar þar til gígurinn og hinn nýlega hraunfyllti Geldingadalur blasir við og halda svo áfram með fram brúninni. Frá kaðlinum eru um 2,5-3 km að toppi Langhóls og þar sem hann er hæsti punktur svæðisins liggur beinast við að fara brattann og vinna sig hægt og rólega upp í móti. Þegar nær dregur toppnum ætti að glitta í útsýnisskífu. Á toppnum er svo frábært útsýni yfir Þráinsskjaldarhraun, Keili og til Grindavíkur. Skemmtileg ganga sem hentar flestum.

Heimild:
-https://reykjanesgeopark.is/is/tindar-reykjaness/

Arnarnýpa

Arnarnýpa. Hæsti tindur Sveifluhálsins.

Lambafellsklofi

Gengið var frá Eldborg austan við Höskuldarvelli að Lambafelli. Ætlunin var að fara um Lambafellsklofa, misgengi og gjá svo til í gegnum fellið.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Eldborgin er ein hinna fallegu gíga á Reykjanesi, sem hafa orðið efnisflutningum að bráð. Aðrir slíkir eru t.d. Moshóll, sem Ísólfsskálavegur liggur nú þvert í gegnum sunnan Núpshlíðarhorns, Litla-Eldborg undir Geitahlíð og Rauðhóll norðn við Stampana á Reykjanesi. Einnig mætti nefna Rauðhól undir Sandfellshæðum norðan Vatnsskarðs, Óbrinnishólagíginn og Rauðhóla norðan Elliðavatns.
Ef þessi merkilegu og tignarleg jarðfræðifyrirbæri hefðu verið látin óhreyfð væri Reykjanesskaginn enn verðmætari fyrir bragðið. En því miður er nú of seint að snúa ofan af því, en hins vegar ættu þessar skemmdir að geta orðið áminning til framtíðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Um 15 mín. gangur er að Lambafellsklofa (sem sumir kalla Lambagjá). Þegar komið er að honum neðan frá opnast gjáin skyndilega og inn eftir henni sést í mjóan gang með háa hamraveggi á báðar hendur. Tófugras vex á brotabergsbörmum og þegar stillt er í veðri í ágústmánuði er gjáin venjulega full af fiðrildum.
Gengið var eftir gjánni og upp úr henni að sunnanverðu. Nokkuð bratt er upp en tiltölulega auðvelt ef rólega er farið. Uppi er fallegt útsýni yfir Dyngnahraunið og yfir að Trölladyngju (380 m.ys.). Sennilega er eitt fallegasta sjónarhornið að henni frá þessum stað.
Gengið var yfir Lambafellið, yfir úfið hraun sunnan þess og inn á jarðhitasvæði norðan Eldborgar. Þar eru hleðslur á einum stað. Munu þær eiga að vera skjól við gufubað í einu gufuuppstreyminu.

Sogin

Sogin. Trölladyngja og Grænadyngja fjær.

Haldið var eftir slóða austur fyrir Trölladyngju og síðan beygt til hægri inn kvos á milli hennar og Grænudyngju. Kvosinni var fylgt upp aflíðandi hlíðina milli dyngnanna. Þegar upp var komið tók við grasi gróin skjólsæl laut, sennilega hluti af hinum forna gíg, en dyngjunar eru að mestu móbergsfjöll. Jökullinn hefur síðan sorfið sig niður milli kollana.

Sunnan Grænudyngju er einstaklega fallegt klettabelti, sem auðvelt er að ganga upp með þegar komið er upp frá Lækjarvöllum norðan Djúpavatns. Frá því er fallegt útsýni yfir Sogin, Fíflavallafjall, Hörðuvallaklof og Hörðuvelli, Hrútafell og Sveifluháls. Tiltölulega auðvelt er að ganga niður með norðanverðri Grænudyngju og í kvosina, sem fyrr var nefnd.

Sog

Í Sogum.

Gengið var áfram niður hlíðina til vesturs, að Sogaselsgíg. Fallegt útsýni er á Söðul, upp Sogin þar sem litadýrðin ræður ríkjum, yfir að fagurlituðu Oddafellinu, sem myndar þarna sérstæðan forgrunn fyrir Keili, sem og yfir að Selsvöllum vestan við Núpshlíðarháls. Í Sogunum er jarðhiti og eftir Sogadal rennur lækur. Höskuldavellir og Sóleyjarkriki eru meira og minna mynduð úr jarðvegi þaðan úr hlíðunum. Í læknum má finna litskrúðuga smásteina, hvíta, rauða og græna, ef vel er að gáð.
Í Sogaseli eru tóftir þriggja seljahúsa og a.m.k. tveir stekkir. Auk þess er ein tóft utan gígsins.
Slóða var fylgt niður með Trölladyngju og að Eldborg.
Veður var frábært – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 2 mín.

Grænadyngja

Grænadyngja. Sogin framar.

Trölladyngja

Trölladyngja er eitt af formfegurri fjöllum Reykjanesskagans. Í rauninni er hún „síamstvíburi“ Grænudyngju, en þær hafa gjarnan saman verið nefndar einu nafni Dyngjur. Á landakortum er Trölladyngja sögð vera hæst 275 m y.s. og Grænadyngja 393 m.y.s. Einnig mætti vel halda því fram að Dyngjurnar væru „símastvíburar“ Núpshlíðarhálss, en þær eru nyrsti hluti hans. Á millum eru Sogin, sundurgrafið háhitasvæði. Háhitinn hefur sett mikinn svip á suðurhlíðar Dyngnanna þar sem litadýrðin er mikil. Í Trölldyngju hefur fundist silfurberg.

Hraunkarl

Út úr Grænudyngju til norðausturs gengur Dyngjuháls eða Dyngjurani. Utan í honum er fjöldi gíga sem sent hafa hraunstrauma langt niður í Almenning.
Dyngurnar eru órofahluti af fjallamyndun Skagans, urðu til við gos á sprungurein. Gróft séð er Skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af þessum fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraununum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Þótt Skaginn sé frekar gróðursnauður má þó finna á honum ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð, ekki síst í kringum Dyngjurnar Jarðfræðilega er svæðið umhverfis þær mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.
Trölladyngja og Grænudyngja eru tilvaldar til uppgöngu. Óvíða er útsýni fegurra en þaðan. Sogunum má jafna við „miniture“ Brennisteinsöldu og Landmanalauga. Auðvelt er að ganga á þær um dal á millum þeirra að norðanverðu, áleiðis upp Sogin og áfram upp með Sogagíg þar sem sjá má minjar fornra seltófta eða bara fara upp frá Lækjarvöllum við norðanvert Djúpavatn og þar af brúninni inn á fjöllin til hægri.

Trölladyngja

Í rauninni eru þetta með fallegustu gönguleiðum í Reykjanesfólkvangi sökum litadýrðar og fjölbreytni. Þegar komið er að Dyngjunum að Höskuldarvöllum hverfur Grænadyngja að mestu á bak við systur sína.
Trölladyngja er klettótt og hvöss, einkum eftir því sem ofar dregur, en hin er stærri um sig og nær flöt að ofan. Aðeins um 40 mínútna rólegur gangur er upp á Trölladyngju og síðan má gera ráð fyrir svona svipuðum tíma af henni og á þá Grænu. Hún líkist ekki dyngjum, reyndar hvorugar, að einu eða neinu leiti, enda eru þær það ekki. Hins vegar er gróin gígskál á milli þeirra er gæti verið gígopið, en jökullinn síðan sorfið niður barmana að norðan og sunnan. Þegar haldið er á Grænudyngju að suðaustan er hægt að ganga áfram upp á suðvesturhlíðina, sem er nokkuð brött. Innan skamms er þó komið langleiðina upp og þá er skammt að hæsta tindi. Einnig er hægt að halda upp með austurhlíðinni, en þar er líkt og gata liggi áleiðis upp hana. Henni er ágætt að fylgja ef ætlunin er einungis að fara með og niður norðurhlíðina.
Trölladyngja Útsýnið er stjórbrotið, sem fyrr sagði. Vel má sjá hraunstraumana sem runnið hafa um nágrennið, Afstapahraun, Eldborgarhraun, Dyngnahraun og fleiri og fleiri hrauntauma sem líklega bera ekki neitt nafn. Útsýnið yfir Móhálsadal er sérstaklega gott. Víða má sjá gíga í dalnum, litla og stóra og formfagrar litlar eldborgir. Undarlegt er að sjá stöku stað sem hraunið hefur hlíft, s.s. Lambafell og Snókafell, en það eru smáfell, mynduð á jökulskeiði, er hraunið hefur runnið umhverfis.
Vestan við Grænudyngju er Trölladyngja, sérkennilegur mjór hryggur sem úr norðri hefur keilulögun, Oddafellið. Undir honum eru Höskuldarvellir, víðir og fagrir í skjóli fjalla og hrauns.
Af Dyngjunum virðist Keilir (379 m.y.s.), handan Oddafells, smávaxinn, en einstaklega lögulegur þar sem hann sendur sem „einbirni“ þar í hraunsléttunni.
Trölladyngjusvæðið er eitt af háhitasvæðunum. Árið 1975 vottaði ekki fyrir jarðhita neðan við Soginn, nema í kringum Hverinn eina allnokkru suðvestar. Árið 1979 byrjaði að örla á jarðhita á svæðinu, en nú u.þ.b. 25 árum seinna er svæðið jarðgufuvaki. Búið er að gera tilraunaborholu á svæðinu, leggja veg að henni og annan upp í Sogadal þar sem nú er verið að bora slíkar holur. Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur o.fl. hafa m.a. rannsakað Trölladyngjusvæðið. Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Fjögur þau fyrst töldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum, en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2.

Trölladyngja

Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300–400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum beggja megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans, en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður af lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af. Hveravirknin á ofannefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.
Í Trölladyngju sjálfri eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er nú fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni.
Trölladyngja Í Trölladyngju voru fyrir tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260°C hita ofarlega. Þegar borholan var gerð suðvestan við Trölladyngju lofaði hún góðu. Borholan í Sogadal virðist þó hafa haft gagnvirk áhrif á hana. Um tíma hitnaði í henni til mikilla muna svo hún reyndist vera ein heitasta hola landsins. Nú hefur það breyst að nýju. Borholan í Sogadal hefur þann eiginleika að „gjósa“ á ca. 12 klst fresti, líkt og geysishverir. Um er að ræða skáborun og gæti það hafa haft þessi áhrif. Sumir hafa gælt við þá hugmynd að gera þessa holu að tilbúnu „túristagosi“ líkt og er við Perluna, en slíkt tal ber nú bara keim af slæmum brandara því það virðist eiga að vera sárabót fyrir eyðileggingu svæðisins með vegagerðinni og borstæðinu.
Framkvæmdir Hitaveitu Suðurnesja (matið á umhverfisáhrifum) voru kærðar til umhverfisráðuneytis á sínum tíma. Niðurstaðan var enn einn brandarinn. „Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar á síðu 5 segir að fyrirhuguð framkvæmd hafi ekki „..umtalsverð umhverfisáhrif. Staðsetning framkvæmdarinnar hefur áhrif á svæði sem nýtur verndar skv. lögum um náttúruvernd en umhverfisáhrif eru ljós og að mati Skipulagsstofnunar ekki veruleg og leiða því ekki til matskyldu…“ Síðan segir í beinu framhaldi: „Að mati Skipulagsstofnunar er hægt að tryggja að framkvæmdin, eins og hún er kynnt, hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins…“
Keilir Að sjálfsögðu hafa tilraunaboranir haft áhrif á svæðið, jafnvel varanleg. Vegagerðin í gegnum hraunið er ekki afturkræf. Borstæðið er skorið inn í gróna hlíð. Hæðarmismunur er um 3 metrar. Verði svæðið virkjað, sem er jú tilgangurinn með þeim tilraunaborunum, sem ekki hafa þurft að sæta umhverfismati, mun röskunin verða varanleg; hús, röralagnir, vegagerð, háspennumöstur o.fl. munu fylgja í kjölfarið.
Trölladyngja er í raunininni bæði minnisvarði um hið liðna og áskorun um að virkjunaraðilar staldri nú við og ígrundi hvernig hægt er að standa að undirbúningi virkjana með lágmarks röskun eða eyðileggingu að markmiði. Hingað til hafa þeir fengið að fara sínu mótþróalaust fram þar sem jarðýtustjórinn hefur síðan ráðið ferðinni. Stjórn Hitaveitu Suðurnesja hefur skipuð fulltrúum sveitarstjórnanna á svæðinu, sem stundum virðist hafa farið fram úr sér við einstaka framkvæmdir. Nú gera verndunarsinnar þá sjálfsögðu kröfu að jarðýstustjóranum verði leiðbeint miðað við þær ákvarðanir, sem aðrir hafa tekið fyrir stjórnina og hlotið hafa sáttarviðurkenningu, með framangreint (verndun og nýtingu) að leiðarljósi.
Eyðilegging við borsvæðið í Sogadal
Á Trölladyngusvæðinu, þ.e. í Sogadal, hefur umhverfinu verið raskað verulega í þágu væntanlegra virkjunarframkvæmda. Nýjustu fréttir í þeim efnum eru boranir á Krýsuvíkurheiði. Þær framkvæmdir hafa farið hljótt, svo hljótt að þær hafa hvergi verið kynntar opinberlega – ekki einu sinni á vefsíðu umhverfisráðuneytisins (sjá m.a. Umhverfisráðuneytið).

Trölladyngja

Fíflvallafjall, Mávahlíðar, Grænadyngja og Trölladyngja.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir (1995), bls. 106-107.
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanesskagi.
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://web.mac.com/sigurdursig
-http://www.os.is

Dyngjurnar

Grænadyngja

Gengið var á Grænudyngju.
Keilir (379 m.y.s.) er áberandi fjall á Reykjanesskaganum. Trölladyngja (375 m.y.s.) er hins vegar áhugaverðari margra hluta vegna. Áhugaverðust er þó Grænadyngja (393 m.y.s. (reyndist vera 402 metrar er upp var komið)), nágranni Hraunbomba í Grænudyngjuhennar. Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Útsýni af Grænudyngju er bæði mikið og stórbrotið; yfir Sog til suðurs og hraunárnar um Einihlíðar til norðurs.
Trölladyngja og Grænadyngja eru yst á Vesturhálsi. Að ganga á Grænudyngju er ein fallegasta gönguleiðin í Reykjanesfólkvangi sökum litadýrðar og fjölbreytni. Frá höfuðborgarsvæðinu er ekki gott að greina Grænudyngju því í fjarlægð verða skil á milli fjalla og staða ógreinileg og auk þess hefur hún ekki þá lögun sem búast má við að dyngjur hafi. En þetta er einn fallegasti staðurinn á öllu höfuðborgarsvæðinu að mati þeirra er komið hafa á fjallið.
Um tvær leiðir er að velja á Trölladyngju  og Grænudyngju. Hægt er að aka á Höskuldarvelli, sem eru austan við Keili og ganga þaðan á fjallið norðanmegin. Nú er góður vegur af Reykjanesbrautinni inn á vellina og allt að borholusvæðinu neðan við Sogaselsgíg. Þaðan er skammur vegur upp á dyngjurnar. Trölladyngja er vestan við Grænudyngju og skilur á milli lítið dalverpi. Sú fyrrnefnda er klettótt og hvöss en hin er stærri um sig og nær flöt að ofan. Aðeins um 40 mínútna rólegur gangur er upp á Trölladyngju og síðan má gera ráð fyrir svona svipuðum tíma af henni og á þá Grænu.
Að þessu sinni var gengið um dal norðan í dyngjunum, austan við Dyngjurana. Athyglin beinist að fjölbreytilegum litum á landslaginu á þessum slóðum. Hver hefur áður séð grágræna hóla?
Útsýnið stórbrotið þar sem horft var niður á Tröladyngju og Keili. Athyglisvert er að sjá hraunstraumana sem runnið hafa um nágrennið, Afstapahraun, Dyngnahraun og fleiri og fleiri hrauntauma sem ekki bera nafn. Útsýnið yfir Móhálsadal er sérstaklega gott. Víða má sjá gíga í dalnum, litla og stóra og formfagrar litlar eldborgir. Tóur eru á stöku stað sem hraunið hefur hlíft.
Milli Trölladyngju og Oddafells eru Höskuldarvellir, víðir og fagrir í skjóli fjalla og hrauns. Af Grænudyngju var farið á Á leið á Grænudyngju - Keilir neðarsvipuðum slóðum og upp var komið, en nú var vikið aðeins til vesturs. Þarna heita Sog og þar er Sogaselsgígur, einstaklega fallegur og vel gróinn gígur. Eftir að hafa staldrað við og horft yfir Sog var gengið til norðurs með austanverðri Grænudyngju. Þar í litlum skúta hafi tvo sauði frá Lónakoti fennt inni s.s. vetur. Komið var niður af dyngjunum um miðjan Dynjurana.
Hér á eftir er rifjaður upp svolítill fróðleikur úr góðum ritgerðum um dyngjur og tengd jarðfræðifyrirbæri á Reykjanesskaganum. Í nokkrum tilvikum er um endurtekningar að ræða, en í heild felur efnið í sér mikinn fróðleik um efnið.
„Á Reykjanes gosbeltinu eru gos þekkt frá nútíma. Segja má að Reykjanes skaginn sé þakinn gosmenjum því að nánast milli allra stapa og hryggja eru hraun frá nútíma. Það einkennir Reykjanesskagann hversu gróf þessi hraun eru og landslagið virðist því oft snautt af gróðri. Engar ár renna á yfirborði og því er lítið sem getur haldið lífi í gróðri.
Hraunár yfir Einihlíðar - Höfuðborgarsvæðið fjærÁ Reykjanesskaganum kemur Atlantshafshryggurinn á land og má ímynda sér að Reykjanestáin yst á skaganum sé þar sem hann er að teygja sig upp á landið.
Þrjú goskerfi eru á Reykjanesskaganum; Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið og Brennisteinsfjöll. Þrjár gerðir gosmyndana einkenna Reykjanesskagann en það eru litlar dyngjur sem hafa framleitt að mestu leyti framleitt Pikrít, önnur tegund er sprungugos sem hafa myndað hraun eins og Ögmundarhraun og Kapelluhraun. Sprungugos hafa einnig skilið eftir sig gjall- og klepragíga og gjósku- og sprengigíga. Berggerð þeirra er oftast þóleiít. Þriðja gerð gosmyndana eru stórar dyngjur en líklega eru um 26 dyngjur á skaganum frá nútíma. Þær eru því áberandi á Reykjanesskaganum stundum tekur maður þó ekki eftir þeim þar sem hallinn á þeim er svo lítill og stærð þeirra er slík að maður missir eiginlega af þeim þær framleiða að mestu ólivín þóleiít (78% gosefna). Talið er að stóru dyngjurnar séu allar eldri en 4500 ára (Ari Trausti 2001).

Nútíma dyngjur á Íslandi eru um 40 talsins. Þær finnast á Reykjanes gosbeltinu, Vestur gosbeltinu og Norður gosbeltinu en engin er á austur gosbeltinu. Þær eru mjög misjafnar að stærð allt frá litlum dyngjum á Reykjanesi og til Skjaldbreiðs og Trölladyngju.
Dyngjur á Íslandi hafa sennilega myndast á löngum tíma og líklega í röð goshrina, Íslensku dyngjurnar voru einkum virkar framan af nútímanum. Líklega hefur engin dyngja verið virk á Íslandi síðustu 2000 árin. Á upphafi nútíma voru dyngjurnar mikilvirkustu gerðir eldstöðva á Íslandi. Hraun runnu langar leiðir úr þeim og má nefna hraun sem rann norður Bárðardal og er talið vera úr Trölladyngju. Ef það er rétt hefur það hraun runnið yfir 100km og er aldur þess yfir 7000 ár. Dyngjurnar eru aðeins á rekbeltinu og eru langan tíma að myndast. Er því líklegt að þær myndist þar sem kvika kemur beint upp frá möttlinum.“
Berg utan í gígskálinniÞegar gengið var um Dyngjurnar mátti í raun sjá ýmsar berg- og gostegundir þegar vel var að gáð, frá ýmsum tímabilum jarðmyndunarinnar.
„Eldborgir eru eitt flæðigos og gos sem þróast í eina gosrás þegar líður á gosið. Þunnfljótandi kvikan safnast í tjörn sem svo flæðir úr með nokkru millibili. Gígveggir verða brattir ofan til. Eldborg undir Geitahlíð er gott dæmi.
Blandgígar eru úr kleprum eða gjalli. Líklega hafa þeir hlaðist upp í byrjun goss en þegar leið á það byrjaði hraun að flæða og þá myndast oft skarð í þá.“ Moshóll við Selsvelli er gott dæmi.
„Sprengigígar gefa af sér aðeins eitt gos upp í sprengigígum og gosefnið er að mestu leiti gjóska. Upphleðsla í kringum gíginn fer eftir krafti gossins, því minni sem gosið er kraftmeira. Hverfell við Mývatn er gríðarlega fallegur sprengigígur.
Ef hægt væri að kalla einhver gos einkennisgos Íslands (ekki síst Reykjanessvæðisins) væru það sprungugos. Þau geta verið nokkur hundruð metra upp í tugi kílómetra. Oft myndast gígar þegar líður á svona gos og þeir geta verið eins eða blandaðir. Blandgígar eru t.d. Lakagígar og Eldgjá. Gjallgígaraðir eins og Vatnaöldur myndast við mikla sprengivirkni sem getur verið tengd hárri grunnvatnsstöðu. Heimaeyjargosið og Kröflueldar eru einnig dæmi um sprungugos.

Feigðarfé í skúta austan í Grænudyngju

Þó að gervigígar séu ekki gosgígar er vert að minnast á þá sem afurð eldgosa. Þeim hefur ekki verið lýst frá öðrum stöðum í heiminum. Þeir verða til þegar hraun rennur yfir votlendi. Vatnið svo snöggsýður og gufusprengingar verða upp í gegnum hraunið og gígarnir myndast. Oft er hægt að þekkja þá á því að þeir eru reglulegir í lögun og uppröðun þeirra er oftast frekar tilviljanakennd.“
„Reykjanesskagi, ásamt Íslandi, liggur á Atlantshafshryggnum en hann er mörk plötuskila Evrasíuflekans og Norður Ameríkuflekans sem mjakast í sitthvora áttina. Þessi hreyfing veldur tíðum umbrotahrinum á hryggnum sem einkennast af jarðskjálftum og eldgosum. Hryggurinn brotnar upp í rekbelti sem tengjast um þverbrotabelti. Slíkt rekbelti er að finna við suðvesturhorn Íslands og nefnist Reykjanesrekbeltið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Reykjanesrekbeltið tengist Atlantshafsrekbeltinu beint og er um 30 km að breidd (Jón Jónsson, 1967). Framhald rekbeltisins er á landi og liggur eftir Reykjanesskaganum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) en hann er einn af tveimur stöðum í heimum þar sem hafshryggur rís úr sjó en það gerir hann að kjöraðstæðum til að rannsaka myndun og mótun hafshryggja á landi (Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007).

Skessuketill á Grænudyngju

Sem fyrr sagði liggur Reykjaneseldstöðvarkerfið í suðvestur-norðaustur stefnu frá Reykjanesi og inn að Vatnsleysuströnd. Neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi er það um 9 km langt en í heildina er það um 45 km langt og um 5-15 metra breitt (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Það tilheyrir vestara rek- og gosbeltinu eins og öll kerfin á Reykjanesskaga. Það hafa komið um 50 rek- og goshrinur úr því ásamt 14 dyngjum. Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldunum frá 1211-1240 en þar síðast sennilega fyrir um 1500-1800 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvirkni er takmörkuð við syðstu 15 km kerfisins. Þótt Reykjanesið sé að mestu leyti þakið úfnum hraunum og fokösku þá ber það þess skýr merki að eldgos hafa verið tíð. Yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness og því erfitt að áætla fjölda gosa sem orðið hafa frá myndun þess. Eldvirkni er mikil á þessu svæði vegna plötuskilanna sem eru mörkuð af gjám og misgengjum. Talið er að gliðnunin sé um 2 cm á ári (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004).
Trölladyngjueldstöðvarkerfið er um 40-50 km langt og 4-7 km breitt. Úr kerfinu hafa komið um 40-50 rek- og goshringur og 3 dyngjur. Síðast gaus í því 1151-1180 sem í gosi sem kallaðist Krýsuvíkureldarnir en þar á undan fyrir um 2000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Reykjaneshryggurinn hækkar almennt til norðausturs vegna þess að gosefnaframleiðsla á Íslandi eykst eftir því sem nær dregur heita reitnum á miðju landsins. Um miðbik eldstöðvakerfanna eru háhitasvæðin að finna og hitagjafar þeirra eru grunnstæð innskot (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Það má skipta bergtegundum, bæði nútíma og eldri bergmyndanna, á Reykjanesskaga í þrjá meginflokka eftir Horft niður á Lambafellsamsetningu þeirra. Landslag á Reykjanesskaga hefur að nokkru leyti mótast af þessum flokkum. Sýni, úr eldri bergmyndunum frá jökultíma og síðjökultíma, benda til þess að engin breyting hafi orðið á eldvirkninni á Reykjanesskaga frá myndun hans og til dagsins í dag. Erfitt er þó að segja til um hvort skipst hafi á tímabil með dyngjugosum og önnur með sprungugosum eins og komið hefur í ljós um eldvirknina á nútíma. Sprungugosin, sem áttu sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust. Þess í stað mynduðust stapar (Jón Jónsson, 1978).
Nútímahraunum og gosstöðvum má skipta í þrjá flokka þ.e. gossprungur og dyngjur en dyngjunum má svo skipta aftur skipta í tvo flokka eftir samsetningu hraunanna. Þessa flokka má svo nánar aðgreina út frá aldri og stærð. Jón Jónsson (1978) telur að hraun runnin á nútíma á Reykjanesskaga nái yfir 1064 km2 og rúmmal þeirra sé um 42 km 3. Af því nái hraun runnin eftir landnám yfir 94 km 2 og hafa um 1,8 km 3 rúmmál.
SoginEldstöðvar eru ýmist dyngjur eða gjall og klepragígaraðir ásamt nokkrum gjósku- og sprengigígum. Telja má 26 dyngjur frá nútíma en ekki er vitað um heildarfjölda þeirra þar sem ummerki sjást ekki lengur. Aldur allra dyngjanna er yfir 4500 ár. Myndunartíminn gæti tengst hröðu landrisi eftir hvarf  ísaldarjökulsins (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Gígaraðir á Reykjanesskaga liggja á tveimur gosreinum og hafa sprungugos orðið á sitt hvorri þeirra, um þrisvar sinnum á síðustu 10.000 árum. Síðustu 2000 árin hefur gosvirknin þó takmarkast við vestari gosreinina sem liggur til sjávar við Kerlingarbás en það hefur ekki gosið á eystri gosreininni, sem liggur inn að hraundyngjunni Skálafelli, í 3000 ár. Skjálftavirkni er einnig einskorðuð við vestari gosreinina (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Gossprungur eru hátt á annað hundrað talsins ef hver sprunguhluti er talinn sér (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Neðansjávargos hafa verið allnokkur við Reykjanesið og má þar finna 11 gjóskulög úr slíkum gosum. Út frá þessum gjóskulögum má fá mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin. Við langvarandi neðansjávargos þá myndast gjóskugígar en einnig getur gjóska myndast þegar goshrinur á landi verða og hraunið rennur til sjós. Þá verða miklar gufusprengingar (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Við Reykjanes hafa oft orðið til gígeyjar en þær eru einkar viðkvæmar fyrir rofafli sjávar og eyðast því fljótt en eftir standa sker og boð til vitnis um fyrrum tilveru þeirra. Sem dæmi um gígey má nefna Eldey sem er rétt suðvestur af Reykjanesskaganum.
Jarðfræðilega séð er Reykjanesskaginn enn að byggjast upp til suðvesturs og þó nokkur neðansjávargos hafa orðið suðvestur af honum á sögulegum tíma (Jón Jónsson, 1967). Á yngstu hraunflóðunum eru hvergi sprungur né misgengi sýnileg sem virðist benda til þess að tektónískar hreyfingar á þessu svæði gerast með ákveðnu millibili. Þetta gæti einnig átt við eldvirknina. Ekki er almennt vitað hvaða kraftar eru að baki sprungunum og misgengjunum og er vafasamt að áætla að það sé einungis spenna í jarðskorpunni sem orsaki það (Jón Jónsson, 1967).

Sogin

Það eru tvær gerðir af eldfjöllum á Reykjanesskaga, þ.e. dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri og hafa ekki gosið á sögulegum tíma, þ.e. síðan um 800 AD. Stærstu dyngjurnar eru Sandfellshæð og Langhóll. Þær hafa gosið gráu dólerít, ólivín basalti svipuðu og finnst á Miðnesi og á Vogastapa en þau mynduðust á hlýskeiði. Það er einnig mögulegt að dyngjurnar hafi byrjað sem gos á gossprungu því þær eru staðsettar á rekbelti. Það virðist jafnframt sem það hafi orðið breyting á eldvirkni á einhverju tímabili því dyngjur hættu að myndast og gos á sprungum tóku við. Nokkrar af gossprungunum hafa líklega verið virkar á sögulegum tíma eins og Eldvörp og Stampar. Gos á sprungum tengjast með beinum hætti plötuskilunum og sum staðar hefur hraunið einfaldlega runnið út án þess að mynda gíga. Þar sem kvikan storknar og hleðst upp í kringum gosopið þá kallast það eldvörp og við endurtekin gos kallast það eldfjöll. Til eru margs konar eldvörp en flokkun þeirra fer eftir lögun gosops, gerð gosefna, tala gosa og magn og hættir gossins.
Dyngjur myndast við flæðigos þegar þunnfljótandi kvika rennur stanslaust upp um kringlótt gosop mánuðum eða jafnvel árum saman en einnig er líklegt að þær myndist við síendurtekin gos. Hlíðarhalli er oftast minni en 8°. Efst í dyngjunni er gígketill með lágum gígrimum. Eins og áður segir þá er einnig mögulegt að dyngjugos hafi fyrst myndast á sprungu en svo hafi eldvirknin færst á einn stað er leið á gosið. .
Bergmyndanir austan í GrænudyngjuStærsta dyngja innan Reykjaneseldstöðvarkerfisins er Sandfellshæð og er um 12500-3500 ára gömul. Skálafell og Háleyjar eru yngri en þó forsögulegar. Ofan á Skálafelli er lítil eldborg. Þráinsskjaldardyngja er flöt og breið dyngja og er um 12500-13500 ára eins og Sandfellshæð (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborgir myndast í þunnfljótandi gosum á kringlóttu gosopi í stuttum gosum án kvikustrókavirkni. Umhverfis gosopið hleðst svo upp gígveggur úr örþunnum hraunskánum eftir að það skvettist úr kvikutjörn upp á vegginn. Hraun rennur hinsvegar um göng neðarlega í gígveggnum og streymir langar leiðir undir hraunhellu eða í tröðum á yfirborðinu. Umkringis eldvarpið verður til flöt hraunbunga úr apal- eða helluhrauni. Eldborg undir Geitahlíð fyrir austan Krýsuvík er dæmigerð eldborg (Þorleifur Einarsson, 1968).
Þegar kvikustrókavirkni verður á sprungugosum þá hlaðast gjallrimar eða eldvörp upp á stangli yfir sprungurásinni og mynda gígaraðir. Ef það kemur upp þunnfljótandi kvika stöku sinnum með millibili án kvikustrókavirkni þá verða til eldborgarraðir eins og Eldvörp og Stampar á Reykjanestánni. Algengast er að kvikustrókavirkni eða þeytigos samfara hraunrennsli úr sprungum myndi gjall- og klepragígaraðir. Eldvörpin eru þá samvaxin eftir sprungunni eða með mislöngum millibilum.
Einstakir gjall- og klepragígar verða til við blönduð gos á kringlóttum gosopum. Upp þeytast svo Keilir frá Grænudyngjuhraunklessur sem annað hvort hálfstorkna í loftinu og fletjast svo út þegar þeir lenda og mynda sambrædda klepragígveggi eða þeir fullstorkna og mynda gjallhrúgöld. Eldkeilur myndast hins vegar við síendurtekin gos á kringlóttu gosopi en með mislöngum hléum á milli. Þau eru hlaðin upp úr hraun- og gosmalarlögum til skiptis.
Erlendis eru eldkeilur algengastar allra eldfjalla en þær eru afar sjaldgæfar á Íslandi eða aðeins um þrjár talsins þ.e. Öræfajökull, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull. Efst á eldkeilu er stór gígur. Eldhryggir myndast þegar gos verður á sömu sprungunni oftar en einu sinni sem er frekar óvenjulegt. Þá myndast þeir eftir sprungustefnunni og strýtulaga þvert á hana. Þekktasti eldhryggurinn á Íslandi er Hekla (Þorleifur Einarsson, 1968).
Ösku- og sprengigígar myndast í sprengi- og þeytigosum. Upp hlaðast nær eingöngu laus gosefni eins og vikur og aska eða eingöngu bergmolar. Á kringlóttu gosopið hlaðast upp fagurlagaðir öskugígar en við þeytigos á sprungum myndast öskugígaraðir. Í sprengigosum eru megingosefnin vatnsgufa og gosgufur. Gígkatlarnir verða oft mjög djúpir þannig að þeir ná niður fyrir grunnvatnið og myndast því vatn innan í gígnum. Gott dæmi um sprengigíg er Grænavatn í Krýsuvík.

Trölladyngja frá Grænudyngju

Eldstöðvar sem gjósa líparítösku eru sjaldgæfari en þær sem nefndar voru hér að framan. Líparítkvika er seigari og því hrúgast hún oft upp yfir gosrásinni og rennur lítið til þaðan. Þannig gos eru nefnd troðgos og í þeim myndast hraungúlar sem geta verið mjög stórir.
Troðgos verða á stuttum sprungum eða kringlóttum gosopum og verða hraungúlarnir því oftast nær hringlaga. Eldvörp mynduð við gos í sjó eru svipuð móbergsfjöllum og verða þau ýmist hrygg- eða keilulaga í samræmi við lögun gosopanna og hlíðarbrattinn um 20-35%. Þegar hraunbunga hefur svo myndast ofan á gosmalarbinginn þá verður eldvarpið mjög álíkt móbergsstapa (Þorleifur Einarsson, 1968).
Flest helluhraun á Reykjanesskaga eru frá fyrri hluta nútíma og eru flest komin frá dyngjum eins og Skálafell og Háleyjarbunga. Frá síðari hluta nútíma en fyrir landnám eru til dæmis Eldborg og Búrfell. Nokkur stór og viðamikil hraun hafa runnið á Reykjanesskaga eftir landnám. Á meðan kristnitakan fór fram árið 1000 þá rann mikið hraun úr gossprungu á vestanverðri Hellisheiði og hefur það verið nefnt Kristnitökuhraun. Yst á Reykjanesi eru tvö hraun sem koma frá gígaröðunum Eldvörpum og Stömpum. Þau þekja stórt svæði milli Reykjanestár og Grindavíkur (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Spákonuvatn frá GrænudyngjuÖgmundarhraun vestan Krýsuvíkur er frá 1151 og rann í svokölluðum Krýsuvíkureldum (Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, 1991). Hraunið rann úr gígaröðum rétt austan undir Núpshlíðarhálsi og er samanlögð lengd þessara gíga um 5 km (Jón Jónsson, 1983). Í Krýsuvíkureldum rann einnig Kapelluhraun, sunnan Hafnarfjarðar, sama ár og Ögmundarhraun. Þessi eldgosahrina er talin hafa komið úr Trölladyngjum og hefur henni lokið líklega árið 1188 með myndun Mávahlíðarhrauns (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Oftast hefur þó gosið í sjó undan Reykjanesskaganum á sögulegum tíma. Síðast gaus þar 1879.
Aðalgoshrinan í Reykjaneseldstöðvarkerfinu hófst sennilega í sjó árið 1211 og stóð til 1240 og nefnist hún Reykjaneseldar. Yngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldunum og mynduðust þar tvær eldborgir sem nefnast Stampar Yngri (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Yngra Stampagosið hefur sennilega orðið á 12-13. öld. Sérstætt við þetta gos er að gossprunga þess lá bæði í sjó og á landi og eru þeir yngsta myndunin á Reykjanesi og gígaraðirnar standa á um 4,5 km langri gossprungunni (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).
Stampar Eldri mynduðust í Eldra-Stampahrauni fyrir 1500-1800 árum. Það gos byrjaði sennilega í sjó (Ari Á efstu brún Grænudyngju (402 m.y.s.)Trausti Guðmundsson, 2001). Eldri Stampagígaröðin liggur til norðausturs og er mjög slitrótt vegna þess að hún kaffærist á stöku stað af Yngra Stampahrauninu. Skammt austan við Eldra Stampahraun er víðáttumesta hraun á
Reykjanesi sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun. Það er úr 1 km langri sprungu sem liggur í norðaustur í framhaldi af Stampagígaröðinni og er það aðeins yngra en Stampahraunið (Jón Jónsson, 1983). Um 1227 aðeins austar við Stampa Yngri gaus í gígaröðinni Eldvörp. Þaðan rann Eldvarparhraun (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvarparhraunið er talið vera um 2100 ára gamalt (Jón Jónsson, 1983).
Trölladyngjueldstöðvarkerfið hefur tvö háhitasvæði þ.e. Krýsuvík og Trölladyngja. Dyngjur eru aðeins þrjár en tvær þeirra, sem eru jafnframt nafnlausar, hverfa í skuggann af Hrútagjárdyngjunni sem er stærst þeirra. Hún myndaðist fyrir um 5000 árum. Gjall- og klepragígar eru algengastu gígarnir innan kerfisins. Hjá suðvesturenda Sveifluhálsar eru sprengigígarnir Grænavatn og Gestsstaðarvatn ásamt Augum. Þar hefur verið snörp eldvirkni með mikilli gufu og gastegundum. Í mörgum hraunkúlum við Grænavatn eru hnyðlingar úr gabbrói sem bendir til slíks innskots í berggrunninum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) og gerir það svæðið afar merkilegt því gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn fékk nafnið sitt af græna litnum sem er tilkominn vegna brennisteinssambanda. Þetta vatn er meðal merkustu náttúrufyrirbrigða í sinni röð (Sigurður Þórarinsson, 1950). Frægasta eldstöðin úr Trölladyngju er sennilega Eldborg sem reyndar er nú sundurgrafin. Í Brennisteinseldstöðvarkerfinu er Eldborg undir Geitahlíð en hún er stærsti gígurinn á þessari stuttu gossprungu sem gaus rétt fyrir landnám. Hún er djúpur og reisulegur gígur ásamt nokkrum minni. Nokkru sunnan við miðju kerfisins er að finna Brennisteinsfjöll sem draga nafn sitt af brennisteinsnámum sem þar voru á háhitasvæði sem hefur varma sinn frá innskotum í jarðskorpunni. Það eru þrjár dyngjur í kerfinu þ.e. Heiðin há við suðurenda Bláfjalla og er langstærst með 3,6 km í þvermál og 516 metrar að hæð. Hún er sennilega um 7000-9000 ára. Hvirfill er dyngja frá síðasta frá síðasta jökulskeiði og Leitin er yngsta dyngjan og er um 4700 ára. Í Leitarhrauninu mynduðust Rauðhólar einnig. Fyrir um 2000 árum reið goshrina yfir Reykjanesskagann og myndaðist þá gígaröðin með Stórabolla og Eldborg við Drottningu sem er einkar glæsileg eldborg og stendur hún við Bláfjallaveginn (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).“

Keilir frá Grænudyngju

Verndargildi jarðminja hefur ekki verið metið á háhitasvæðum landsins. Jarðminjar sem teljast verðmætar eru algengar á slíkum svæðum, s.s. jarðhitaummerki, gígar, hraun, og brýn ástæða er til að meta þær áður en lengra er farið í virkjun svæðanna. Mat á jarðminjum er grunnur að mati á verndargildi háhitasvæða, enda eru þau jarðfræðilega einstök á heimsmælikvarða.
Eyðilögð Eldborgin undir TrölldyngjuHér á landi hafa verndunarsjónarmið átt á brattann að sækja vegna þeirrar stefnu stjórnvalda að nýta orkulindir landsins til framleiðslu á ódýrri og vistvænni orku. Rammaáætlun er ætlað að vera vegvísir til þess að samþætta mismunandi nýtingarsjónarmið, raða svæðum upp þannig að orkugeta þeirra og verndargildi verði ljós og á þann hátt taka ákvarðanir um nýtingu þeirra í framtíðinni. Mat á verndargildi jarð- og lífminja er því mjög mikilvægt til að unnt sé að raða orkuríkum svæðum upp á þann hátt að þau verðmætustu komi í ljós og þá hvort vegi meira verðmæti þeirra til orkuvinnslu, til nýtingar sem útivistarsvæði eða verndun til framtíðar.
Sem fyrr sagði þá er Keilir eitt lögulegasta fjallið, séð frá höfuðborgarsvæðinu, en því að ganga upp á slíkt fjall þegar hægt er að ganga upp á nálægt fjall, litskrúðugra, og virða hitt fyrir sér þaðan. Enda er útsýnið miklu mun betra frá Grænudyngju yfir nálægðina til allra átta. Lagt er til að útsýnisskífu verði komið fyrir uppi á Grænudyngju fyrr en seinna.
Svona í lokin, til að forðast misskilning, þá er hvorki Trölladyngja né Grænadyngja eiginlegar dyngjur heldur mynduðust þær í gosi undir jökli – á sprungurein eins, og Núpshlíðarhálsinn (vesturhálsinn) ber með sér.

Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild:
-Jónas Guðnason – Eldvirkni á Íslandi, HÍ í apríl 2007.
-Helgi Torfason og Kristján Jónasson – Mat á verndargildi jarðminja á háhitasvæðum, 2006.
-Málfríður Ómarsdóttir – Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp, HÍ apríl 2007.

Sog

Trölladyngja

Ólafur Jónsson skrifaði um „Trölladyngjur“ í Náttúrufræðinginn árið 1941. Trölladyngjur eru tvær á landinu, önnur norðan Vatnajökuls og hin ofan Vatnsleysustrandar. Hér er grein Ólafs lítillega stytt:

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

„Íslenzkir annálar og árbækur geta 6 sinnum eldgosa í Trölladyngjum, en þar sem fjöll með þessu nafni eru tvö á landi hér, annað í Ódáðahrauni, hitt á Reykjanesskaga, hafa fræðimenn ekki orðið á eitt sáttir um það, hvoru beri að telja þessi gos. Trölladyngja í Ódáðahrauni er hraunbunga mikil í suðurhluta hraunsins, formfögur og regluleg. Trölladyngja á Reykjanesi er röð af óreglulegum móbergshnjúkum, skammt vestur af Sveifluhálsi.
Þorvaldur Thoroddsen telur líklegt, að Trölladyngjugosin hafi orðið í Trölladyngju á Reykjanesi og nágrenni hennar, því Trölladyngja í Ódáðahrauni hafi ekki gosið síðan land byggðist. Þó viðurkennir hann, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi tæplega gosið nema einu sinni síðan á landnámstíð, en hyggur að önnur gos þar í nágrenninu hafi verið við hana kennd. Rök þessi eru ákaflega veik, því með sama rétti má segja, að gos í nágrenni Trölladyngju í Ódáðahrauni hafi verið við hana kennd, en þess mun þó ekki við þurfa, því hægt er að færa sterk rök að því, að gos þessi, flest eða öll, hafi orðið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Það, sem fyrst vekur athygli við rannsókn þessa máls, er sú staðreynd, að tvö fjöll, gerólík að uppruna og útliti, bera sama nafnið. Þetta er vafalaust mjög sjaldgæft, þegar um forn nöfn er að ræða og getur aðeins byggst á því, að þeir, sem nöfnin gáfu, hafi lagt ólíkan skilning í nafnið. Nú er aðeins notuð eintölumynd nafnsins; hvort fjallið sem í, hlut á, en í eldri ritum er fleirtölumyndin langalgengust og er það réttmætt, þegar Trölladyngja á Reykjanesi á í hlut, því hún er ekkert einstakt fjall, heldur safn af óreglulegum hnjúkum, en jafn fráleitt væri að tala um reglulegt og einstakt fjall í fleirtölu, eins og Trölladyngju í Ódáðahrauni. Þetta hvorutveggja stangast svo óþægilega, að varla getur dulizt, að eitthvað sé nú orðið bogið við notkun þessara örnefna.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Á uppdrætti Knopfs af Íslandi frá 1734, og kortum þeim, sem gerð eru eftir honum í ferðabókum ýmsum, sjáum við, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni eru ýmist sýndar, sem mikið óreglulegt fjall, eða þyrping af fjöllum, skammt suðvestur af Herðubreið. Á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, frá 1844, er hraunbungan Trölladyngja nefnd Skjaldbreiður eða Trölladyngja, en milli Herðubreiðar og Bláfjalls eru Dyngjufjöll hin nyrðri, eða Trölladyngjur. Þessi fjöll munu nú heita Herðubreiðarfjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson.

Í bók Kaalunds (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island) er kort af Þingeyjarsýslu, gert eftir uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, með leiðréttingum Prof. Jonstrups frá 1876. Þar eru Dyngjufjöll syðri og Dyngjufjöll nyrðri nefnd einu nafni Trölladyngjur. Sé þetta rétt, er fullt samræmi fengið. Þessar stóru fjallþyrpingar eru einmitt safn af óreglulegum hæðum og hnjúkum, eins og Trölladyngja á Reykjanesi, og þess vegna er vel til fundið að nota fleirtölumynd nafnsins og nefna þær Trölladyngjur. Það er auðgert að finna þessari skoðun stuðning í ýmsum heimildum.
Í bók Eggerts Ólafssonar frá 1751, (Disquisitio antiquario etc.) stendur þessi klausa, eftir að rætt hefir verið um Herðubreið: „Ekki langt þaðan liggur vatn (Lacus), sömuleiðis eldspúandi, Trölladyngjur, nefndar svo af þeim öskuhæðum, sem í því og kringum það rísa.“ Lýsing þessi er að vísu öfgakennd, en getur þó á vissan hátt átt við Dyngjufjöll. Austan við fjöllin hefir til skamms tíma verið stórt vatn, Dyngjuvatn, sem nú er horfið. Líklega hafa menn haft veður af þessu vatni og sett gosin í samband við það. Það er að minnsta kosti ljóst, af þessari lýsingu, að á tíð Eggerts, eru þyrpingar af hólum og hæðum nefndar dyngjur.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af svæðinu norðan Vatnajökuls 1831.

Þyngri á metunum verður þó lýsingin á Trölladyngjum í Ódáðahrauni í ferðabók þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 (Reise igennem Island, bls. 752). Þar segir, er lokið hefir verið að lýsa Herðubreið: „Trolddynger er derimod et lavt Bjerg med nogle og især 3de Afdelinger og forbrændte Spidser, men rundagtige Knolde der imellem.“ (Trölladyngjur eru hins vegar lágt fjall, er skiptist í nokkra en aðallega 3 hluta, með brunatindum og ávölum hæðum á milli.) Þetta er lýsing sjónarvotta á Trölladyngjum og getur hún prýðilega átt við Dyngjufjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Trölladyngju á Reykjanesskaga 1831.

Níutíu árum síðar lýsa þeir Preyer og Zirkel Trölladyngju mjög á sama veg og þeir Eggert og Bjarni gerðu. Í bók þeirra (Reise nach Island) segir svo: „Trölladyngja zwischen dem Ódáðahraun und dem Vatnajökull gelegen, ein nicht besonders hoher Berg mit drei Hauptgipfeln“. (Trölladyngja milli Ódáðahrauns og Vatnajökuls, ekki mjög hátt fjall með þrem aðaltindum). Bezta heimildin um það, að Dyngjufjöll og Trölladyngjur séu eitt og sama, er ritgerð Jónasar Hallgrímssonar frá 1839, „De islandske Vulkaner“ (Rit J.H., IV., bls. 163). Þar segir svo: „Inde i Landet, syd for Myvatnsfjældene findes en stor Bjærgklynge, som af Myvatnsbeboerne kaldes Dyngjufjöll, men den hedder ogsaa Trölladyngjur og har en Række af Vulkaner, som har avgivet Materialet til en stor Del af Ódáðahraun o.s.v.“ (Inn til landsins, sunnan við Mývatnsfjöllin, er mikil fjallþyrping, sem Mývetningar nefna Dyngjufjöll, en hún heitir líka Trölladyngjur. Þar eru margar gosstöðvar, sem hafa lagt til efnið í mikinn hluta Ódáðahrauns.) Þessi frásögn sýnir, að um 1840 er Trölladyngjunafnið ennþá loðandi við Dyngjufjöll, en það síðara þó orðið algengara, að minnsta kosti sums staðar.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – Íslandskort þeirra um 1770.

Að lokum skal þess getið, sem séra Sigurður Gunnarsson segir um þetta í grein sinni: „Miðlandsöræfi Íslands“ (Norðanfari, 16. ár, bls. 28). Hann telur örnefni í Ódáðahrauni þannig, að fyrst sé Trölladyngja skammt frá jöklinum, þá Dyngjufjöll með Dyngjufjalladal eða Öskjunni. Síðan segir orðrétt: „Norðanmegin ganga út frá þessu hraunfjallahálendi hæðir miklar- og fjalldyngjuklasar, vestur og norðvestur af Herðubreið. Þar eru Trölladyngjur eða Dyngjufjöll hin ytri og engin mjög há eða þá nokkuru lægri en hraunfjöllin innfrá“. Þessi frásögn sýnir prýðilega þann rugling, sem kominn er á örnefnin. Trölladyngjur heita nú bara Dyngjufjöll. Trölladyngjunafnið hefir klofnað í tvennt, eintölumynd, sem hefir færzt suður á hraunbungu, sem áður hét Skjaldbreiður, og fleirtölumynd, sem flutzt hefir norður í Herðubreiðarfjöll.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort þeirra af norðanverðum Vatnajökli.

Það er því líkast, sem þessi örnefnaflutningar haldist í hendur með mælingum og rannsókn á landinu og er slíkt skiljanlegt. Alþýða manna lét sig öræfin, sem lágu utan við takmörk afréttanna, litlu skipta, og auðvitað hafa þessi örnefni verið orðin á talsverðu reiki, þegar fræðimennirnir komu til skjalanna. Rannsóknir og mælingar landsins þarfnast fastra örnefna og hefir því gömlu örnefnunum, sem orðin voru á reiki, verið slengt niður eftir ágizkun, eða að minnsta kosti án ýtarlegrar rannsóknar. Þetta er í raun og veru ekki verra en viðgengizt hefir fram á þennan dag. Erlendir og innlendir fræðimenn og ferðalangar fara fram og aftur um óbyggðir landsins og ausa örnefnum, af miklu örlæti, á báðar hendur. Sum þessi örnefni eru jafnvel útlend eða þá mjög vanhugsuð og ósmekkleg. Önnur lenda á stóðum, sem áður höfðu prýðileg nöfn, og getur það kostað töluverða fyrirhöfn að losna aftur við þessi uppnefni.

Eggert og Bjarni

Eggerts og Bjarni – kort þeirra af Reykjanesskaga um 1770.

Af framanrituðu má draga þá ályktun og telja fullvíst, að Dyngjufjöll hafi heitið Trölladyngjur og mun enginn, sem þar er kunnugur, vilja neita því, að þau hafi gosið oft síðan land byggðist. Það var Thoroddsen líka fullkomlega ljóst og má því furðulegt kalla, að hann, sem var kunnari gömlum heimildum en flestir aðrir, skyldi ekki koma auga á örnafnaflutning þann, sem þarna hefir átt sér stað. Líklega hafa Herðubreiðarfjöll líka verið kölluð dyngjur, því svo virðist, sem það hafi verið málvenja að nefna þyrpingar af óreglulegum móbergsfjöllum dyngjur eða fjalldyngjur. Nú hefir þetta heiti algerlega skipt um merkingu, svo það er notað um regluleg einstök bungumynduð eldfjöll, sem sameiginlegt, fræðilegt nafn, ekki aðeins í íslenzkum fræðum, heldur líka í sumum erlendum jarðfræðiritum.

Trölladyngja

Trölladyngja og Dyngjufjöll.

Trölladyngja hefir líklega ekki gosið eftir að sögur hófust, en Trölladyngjur, þ.e. Dyngjufjöll, hafa vafalaust gosið oft eftir að landið byggðist. Þótt það sé merkilegt, að Thoroddsen skyldi ekki sjá þetta, þá er það ennþá furðulegra, að Jónas Hallgrímsson, sem vissi að Dyngjufjöll voru sama og Trölladyngjur, skuli fullyrða, að öll Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi. Þessa niðurstöðu reynir hann að byggja á frásögnum annálanna af gosunum, en tekst ákaflega óhönduglega og virðast mér rök hans stundum sanna alveg hið gagnstæða. Vil ég nú rekja ummæli annálanna um þessi gos og draga af þeim þær ályktanir, sem auðið er.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

1. Árið 1151 er í fyrsta sinn getið um gos í Trölladyngjum (Isl. ann.). Frásögnin er mjög stuttorð og hljóðar svo: „Eldur í Trölladyngjum. Húsrið og mannskaði.“ Hannes Finnsson segir í ritgerðinni Mannfækkun á Íslandi af hallærum, (Lærdómslistafélagsrit 1793) að Trölladyngjur hafi gosið 1152 og nefnir eftirfarandi vetur sóttarvetur. Jónas Hallgrímsson telur (Rit J. H. IV. bls. 164) að klausan: „Húsrið og manndauði“, sé óræk sönnun þess, að gosið hafi verið í suðvesturhluta landsins, því þeim gosum fylgi mestir landskjálftar og óhollnusta. Þessi rök eru ákaflega hæpin. Í hinni fáorðu frásögn þarf ekkert beint samband að vera milli setninganna: „Eldur í Trölladyngjum“ og „Húsrið og manndauði.“ Landskjálfti og manndauði hafa oft gert usla hér á landi, þótt ekki hafi valdið eldgos, og óhollusta og tjón af gosum mun venjulega hafa farið meira eftir því, hvort um öskugos eða hraungos var að ræða, heldur en hinu, hvar á landinu gosin voru. Frásögnin er ákaflega fáorð, sem bendir til þess, að gosið hafi verið fjarri mannabyggðum og því lítið um það vitað. Það er ósennilegt, að ekki hefði verið sagt fleira frá gosi á Reykjanesi, eða einhver örnefni nefnd í sambandi við það. Mér virðist því sennilegast, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls ofar, Urðarháls og gígur neðar.

2. Árið 1188 segir svo (Isl. ann.): „Eldsuppkoma í Trölladyngjum“. Lengri er frásögn þessi ekki og því ósennilegt, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi.
3. Árið 1340 hefjast hér mikil eldgos. Um það segir Annáll Gísla Oddssonar (Analium in islandia farago. Islandica vol. X), það, sem hér fer á eftir í íslenzkri þýðingu: „Á árunum 1340 og tveimur eftirfylgjandi tók fjallið Hekla að brenna í sjötta sinn með hræðilegum dunum og dynkjum. Sömuleiðis fjallið Lómagnúpur. Jafnframt kastaði úr sér byrðinni annað fjall nokkurt, Trölladyngjur, allt til hafsins hjá héraði því við sjóinn, sem nefnt er Selvogur. Sömuleiðis var skaginn Reykjanes meira en hálfur eyddur eldi og sjást merki hans í opnu hafi, háir drangar þar úti, kallast Eldeyjar (eða eins og hinir gömlu segja Drifarsteinn. Sömuleiðis Geirfuglasker þar sem flestir steinar til þessa sjást vera útbrunnir. Á sama tíma brann einnig fjall á suðurhluta Íslands, Síðujökull og mörg önnur fjöll eyðandi heil héruð, einhverju sinni einnig í hafinu eldur brennandi auðsénn, og hin logandi fjöll steyptust frá meginlandinu fram í sjó. Slíkar breytingar á þeim tíma, sénar á Íslandi, höfðu í för með sér ósambærilegt tjón fyrir landið, og hefir það aldrei beðið þess bætur.“ Ég tek hér alla þessa klausu til samanburðar við annað gosár, sem sagt verður frá hér á eftir og ranglega hefir verið talið eitt hið mesta gosár hér á landi.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Thoroddsen sá aldrei Annál Gísla Oddssonar, sem var geymdur í Englandi, en hafði fréttir af honum. Í Lýsing Íslands (II., bls. 125) heldur hann, að hér sé átt við gos í Brennisteinsfjöllum, því auðvitað hafi hraun frá Trölladyngju ekki getað runnið yfir tvo fjallgarða, niður í Selvog. Á öðrum stað (De Gesch. d. isl. Vulk., bls. 185) gizkar hann á, að Ögmundarhraun, vestan við Krýsuvík, hafi runnið þetta ár, en það hraun er hvorki runnið úr Trölladyngju né niður í Selvog.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Jónas Hallgrímsson fer aðra leið; hann heldur því fram, að frásögn annálsins sanni, að Trölladyngjur hafi verið samnefni fyrir mörg fjöll, líka fjöllin upp úr Selvogi, en færir engin rök fyrir þessu, og vitanlega nær þetta engri átt.
Frásögn Gísla Oddssonar er þannig, að mjög örðugt er að sanna við hvorar Trölladyngjurnar er átt, en þó virðist mér allt eins mikið styðja þá skoðun, að átt sé við Trölladyngjur í Ódáðahrauni. Orðalagið: „Kastaði úr sér byrðinni“ gæti átt við ösku- eða vikurgos, og má þá skilja frásögnina þannig, að aska hafi borizt allt suður í Selvog. Ég veit ekki hvort nokkuð bendir til þess, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi gosið vikri, en ef svo hefði verið, gat það varla verið í frásögur færandi, þótt vikurinn bærist í Selvog. Frásögnin er öll ruglingsleg og hlaupið úr einu í annað; gæti vel verið, að frásögnin hefði eitthvað brjálazt í meðferð, ef við t.d. setjum orðin: „Hraun rann“ á undan setningunni: „allt til hafsins“ þá hefir Selvogur sitt gos, óháð Trölladyngju og er það sízt meiri skáldskapur, heldur en tilgátur þeirra Jónasar og Thoroddsens.

Trölladynggja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – hraun.

Það vekur líka grunsemd um, að gos þetta hafi ekki verið á Reykjanesi, hve ókunnuglega er frá því sagt. Frá gosunum á Reykjanesskaganum er sagt af miklu meiri kunnugleik, og mætti því halda, að annálshöfundurinn hafi ekki verið eins ókunnugur á Reykjanesi og ætla mætti af frásögninni af Trölladyngjugosinu. Öll væru þessi rök þó veigalítil á báðar hliðar, ef ekki væri fleira við að styðjast, en nú vill svo vel til, að frá þessum gosum er skýrt á öðrum stað (Isl. ann.). Þar segir svo um árið 1341: „Eldur í Heklufjalli með svo miklu sandfoki um vorið, að dó fénaður, naut og sauðir, um Rangárvelli eyddust nálægt 5 hreppar, annar eldur í Hnappavallajökli, þriðji í Herðubreið yfir Fljótsdalshéraði og vóru allir jafnsnemma uppi. Eldsuppkoma með þeim fádæmum, að eyddust margar nálægar sveitir. Öskufall um Borgarfjörð og Skaga svo fénaður féll og hvarvetna þar á milli.“

Trölladyngja

Trölladyngja á Núpshlíðarhálsi.

Hér er sagt frá gosi í Herðubreið. Auðvitað hefir Herðubreið ekki gosið svona seint, en vel gat gosið borið svo við, eða verið í nágrenni Herðubreiðar og var þá eðlilegt að kenna það við þetta nafnkunna fjall. Heklugos hafa ekki öll verið í Heklu sjálfri og Kröflugosin 1725—30 voru ekki í Kröflu, heldur í nágrenni hennar. Sennilegt er, að þetta Herðubreiðargos hafi verið í Herðubreiðarfjöllum, en þau hafa vafalaust verið nefnd dyngjur og ef til vill Trölladyngjur ytri og getur þá vel staðizt, að gosið sé ýmist talið í Herðubreið eða Trölladyngjum. Svo er ekki heldur ósennilegt, að samtímis gosi í Herðubreiðarfjöllum, hafi gosið í Trölladyngjum, þ.e. Dyngjufjöllum. Árið 1875 gýs til dæmis bæði í Dyngjufjöllum og í Sveinagjá, sem er miklu norðar á öræfunum. Öll þrjú gosin, sem Isl. ann. segja frá 1341, hafa líklega verið ösku- eða vikurgos. Heklugosið gerði mestan usla um Rangárvelli, en langsennilegast er, að askan, sem féll um Borgarfjörð og Skaga og allt þar á milli, hafi komið frá Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Að öllu þessu athuguðu, er það ákaflega sennilegt, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni hafi gosið 1340 eða 1341, að minnsta kosti má fullyrða, að þessi ár hafi gosið einhversstaðar í nágrenni þeirra.

Trölladyngja

Trölladyngja og Grænadyngja á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Sesseljupollur fyrir miðri mynd.

4. íslenzkir annálar skýra frá mikilli eldsuppkomu í Trölladyngjum á tímabilinu 1354—1360, en frásagnirnar um gos þetta eru mjög á reiki og ónákvæmar og hafa gefið tilefni til ýmiskonar ágizkana. Tel ég því rétt að rekja hér umsagnir heimildanna hverja fyrir sig. Skálholtsannáll 1354 segir svo: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufallinu, en vikurinn rak vestur á Mýrar og sá eldinn af Snæfellsnesi.“
Gottskálksannáll 1357: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum, leiddi þar af ógnir miklar og dunur stórar, öskufall svo mikið að nær alla bæi eyddi í Mýdalnum og víða þar nálægt gerði mikinn skaða. Vikurreki svo mikill austan til, að út frá Stað á Snæfellsnesi rak vikurinn og enn utar.“ Flateyjarannáll 1360: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi. Mannfall við Mývatn, hálfur 9 tugur manns í þremur kirkjusóknum.“

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga 1831.

Í Árbókum Espólíns 1354 stendur þetta: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum, eyðilögðust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snjófellsnesi“, og ennfremur 1360: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum.“
Hannes Finnsson segir um árið 1357 í grein sinni: Mannfækkun af hallærum o.s.frv.: „Var eldsuppkoma í Trölladyngjum, eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snæfellsnesi,“ og um árið 1360: „Mannfall mikið við Mývatn í harðrétti dóu þar um 170 manneskjur.“
Hér eru þá taldar þær heimildir, sem við höfum um þetta gos, og mun mörgum virðast, að örðugt sé að finna þann samnefnara, sem öll þessi brot gangi upp í. Jónas Hallgrímsson segir, að þar sem vikur hafi rekið á Mýrum og eldarnir sézt af Snæfellsnesi, sé það augljóst, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi. Með Mýdalinn er hann í nokkurum vanda, en hyggur þó, að það sé misritun fyrir Mýrdal, en þar sem sá dalur hafi oft orðið fyrir þungum búsifjum af völdum eldgosa, hafi annálsritarinn, vegna landfræðilegrar fákænsku, sett þetta gos í samband við hann (Rit J. H., IV., bls. 165—166). Thoroddsen segir, að hér sé að líkindum átt við Trölladyngju á Reykjanesi, en ef til vill hafi samtímis verið eldur uppi í Austurjöklum. Báðir telja þeir, Jónas og Thoroddsen, að eldgosið hafi orðið árið 1360.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

Ég vil strax taka það fram, að mér virðast öll rök hníga í þá átt, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Þegar skýrt er frá eins miklu gosi, eins og ætla má, að þetta hafi verið, gat það ekki verið neitt tiltökumál, þótt eldar sæjust á Snæfellsnesi og vikur ræki á Mýrum, ef gosið var á Reykjanesi. Hins vegar var það í frásögur færandi, ef gosið var inn í Ódáðahrauni. Þetta er einmitt tekið fram til þess að gefa frásögninni kraft og sýna, hve stórfenglegt gosið var. Það eru nokkur dæmi til þess, að vikurhrannir hafa rekið óraleiðir með ströndum landsins og leiftur frá sumum eldgosum sést um land allt.
Auðsjáanlega styðjast flestar þessar frásagnir við sameiginlega heimild, en þess vegna er einkennilegt, hve tímasetningin er ósamhljóða. Þó gæti þetta verið gostímabil og eldarnir verið uppi öðru hvoru allt tímabilið, en einhverntíma á þessu tímabili hefir komið mikið vikurgos, sem svo er mismunandi árfært af höfundum annálanna. Nafnið Mýdalur er vafalaust sótt í sameiginlega heimild. Hugsanlegt er, að það sé misritun fyrir Mýrdal og vel gat gosmökk frá Dyngjufjöllum lagt þannig, að mest tjón yrði í Mýrdal, en sennilegasta skýringin er, að með Mýdal sé átt við byggðina kringum Mývatn, en vegna ókunnugleika hefir annálsritarinn haldið, að vatnið lægi í dal og gefið dalnum nafn. Þá er líka fengin góð skýring á mannfalli því við Mývatn, sem Flateyjarannáll skýrir frá, en Hannes Finnsson telur þar hálfu meira. Aðeins með þessari skýringu er hægt að láta frásagnirnar allar falla í ljúfa löð.
5. Þá er komið að árinu 1390, sem talið hefir verið mjög mikið gosár, en um öll þau gos, að Heklugosinu undanskildu, er Espólín einn til frásagnar (Árb. Esp.). Frásögn Espólíns hljóðar svo: „Logaði Hekla með miklum undrum og Lómagnúpur og Trölladyngja, allt suður í sjó og vestur að Selvogi og allt Reykjanes, brann þar hálft og stendur þar eftir í sjó fram Dýptarsker og Fuglasker og er það allt eldbrunnið grjót síðan, einnig logaði Síðujökull og mörg önnur fjöll og sveitir heilar eyddust af eldgangi.“ Espólín segir ennfremur, að eldurinn hafi haldizt í Heklu og fleiri jöklum hinn sami árið eftir.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – gígurinn.

Engum getur dulizt, að hér er á ferðinni frásögn Gísla Oddssonar af eldgosunum 1340. Isl. ann. nefna aðeins Heklugos þetta ár (1390), en engin önnur. Það er því augljóst, að frásögn þessi er komin á rangan stað hjá Espólín og er vafalaust mislestri á ártölum um að kenna. Við getum því með góðri samvizku strikað út eitt mesta gosárið í sögu landsins. Mér hefir verið þetta ljóst alllengi og sé, að Matthías Þórðarson þjóðskjalavörður hefir komizt að sömu niðurstöðu. (Athugas. við Rit J. H. IV., bls. 314—315). Nauðsynlegt er að benda sem rækilegast á þessa villu, sem gengur í gegnum flest eða öll meginrit okkar um jarðelda, og er meðal annars tekin athugasemdalaust upp í Sögu Íslendinga í Vesturheimi, sem er nýútkomin.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

6. Árið 1510 segir Biskupsannáll, að eldur hafi verið uppi bæði í Trölladyngjum og Herðubreið (Safn. t, s. Isl. I., bls, 44), Engin ástæða er til að rengja þetta, þótt aðrar heimildir geti þess eigi. Af því má ráða, að gos þessi hafi verið fjarri mannabyggðum og ekki valdið tjóni. Samtímis er mikið Heklugos, sem vitanlega dró að sér mesta athygli. Þá eru Trölladyngjugosin talin og er hér litlu við að bæta.
Þó má geta þess, að þeir Eggert og Bjarni telja, í ferðabók sinni, Trölladyngjur og Herðubreið í Ódáðahrauni, mikil eldfjöll: „Der har sprudet en forfærdelig Ild i gamle Dage.“ Þetta hefðu þeir tæplega gert, ef ekki hefðu farið sögur af gosum þessara fjalla.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort um 1770.

Við megum ekki gleyma því, að þeir Eggert og Bjarni eru um 200 árum nær hinum sögulegu frásögnum um þessi gos heldur en við og gátu því betur dæmt um þetta. Það væri líka dálítið kynlegt, ef Trölladyngjur á Reykjanesi hefðu gosið hvað eftir annað, á tímabilinu 1150—1510, en svo hætt með öllu, en Dyngjufjöll, sem nú gjósa með litlu millibili og öll bera augljós merki eldsumbrota frá fyrri tímum, hefðu aldrei bært á sér allan þennan tíma svo í frásögur þætti færandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þótt Þorv. Thoroddsen hallist á þá sveif, að Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi, þá gerir hann það auðsjáanlega hikandi og ég hygg, hann hefði litið öðruvísi á það mál, ef honum hefði verið ljóst, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni voru sama og Dyngjufjöll. Ég tel þetta mikilsvert atriði og hefi álitið rétt að benda rækilega á það, þótt ég telji ekki æskilegt, að nöfnum verði breytt á ný í hið upprunalega horf á þessum slóðum.
Sumum kann að virðast, að ekki skipti miklu máli í hvorri Trölladyngjunni gos þessi hafi verið, en þetta skiptir einmitt miklu máli. Það hefir nokkura almenna sögulega þýðingu og getur haft verulega þýðingu fyrir jarðfræði landsins, og auk þess er ætíð skylt að leita hins rétta og hafa það er réttara reynist.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1941, Trölladyngjur – Ólafur Jónsson, bls. 76-88.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju í dag.

Sellesjupollur

Í Fréttablaðinu árið 2020 fjalla þeir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson um „Litadýrð“ Soganna og nágrennis:

Spákonuvatn

Spákonuvatn- Trölladyngja og Grænadyngja fjær.

„Stundum er leitað langt yfir skammt þegar kemur að náttúruperlum. Á Reykjanesi, við dyragætt höfuðborgarinnar, er fjöldi spennandi útivistarsvæða sem eru mörgum lítt kunn og ennþá færri hafa heimsótt. Eitt þeirra er sérkennilegt háhitasvæði upp af Höskuldarvöllum, ekki langt frá Keili og sunnan Trölladyngju og Grænudyngju.

Sogasel

Sogaselslækur.

Þessi litríku leirgil kallast því skrítna nafni Sogin og hafa mótast af jarðhita og eldvirkni í iðrum jarðar. Í gegnum gilin rennur Sogalækur en á Reykjanessskaga eru ekki margir lækir eða ár, þar sem yfirborðið er víðast þakið gljúpum en fallega mosavöxnum hraunum.
Sogin eru einkar litrík og minna um margt á Jökulgil á Torfajökulssvæðinu, enda þótt þau séu miklu minni. Þau er því stundum kölluð Litlu Landmannalaugar en ólíkt Torfajökulssvæðinu og hverasvæðinu í Krýsuvík, sem er skammt frá, státa þau ekki lengur [af] spúandi hverum. Engu að síður er svæðið allt sannkölluð útivistarparadís og litadýrð Soganna minnir óneitanlega á olíumálverk.

Sogin

Ofan Soga.

Þarna býðst fjöldi spennandi gönguleiða sem henta flestum og eru tilvaldar fyrir hálfsdags- eða kvöldgöngu. Aðeins tekur hálftíma að komast að svæðinu akandi frá höfuðborginni og er einfaldast að aka veginn upp að Keili og áfram að bílastæði við ónýtta tilraunaborholu upp af Höskuldarvöllum.

Sogin

Sogin.

Annar valkostur er að hefja gönguna austar, frá Krýsuvíkurvegi. Frá bílastæðinu upp af Höskuldarvöllum er gengið í suðaustur í átt að Spákonuvatni, en á leiðinni ber fyrir augu fallegan eldgíg með einkar fallegu útsýni vestur að píramídalaga Keili.
Stuttu síðar blasa tvö önnur falleg gígvötn við, Grænavatn og Djúpavatn, og þegar komið er upp á nálægan hrygg sést vel yfir Sveifluháls og stóran hluta Reykjaness. Sveigt er til norðurs og koma þá litrík Sogin skyndilega í ljós, líkt og úr leynum og með stórkarlalegar Grænudyngju og Trölladyngju í baksýn. Litadýrðin er ólýsanleg, ekki síst í björtu og annað hvort hægt að halda ofan í gilin eða halda sig ofar í gróðurvöxnum hlíðum. Áður en snúið er heim er tilvalið að ná tindi annað hvort Grænudyngju (400) eða Trölladyngju (375 m) en af þeirri síðarnefndu er frábært útsýni yfir höfuðborgina og fjöllin norðan hennar.
Þessi móbergsfjöll urðu til við gos undir ísaldarjöklinum, en í hlíðum þeirra eru síðan yngri eldgígar sem sumir hverjir hafa gosið á nútíma og skilið eftir sig falleg mosavaxin hraun.“

Heimild:
-Fréttablaðið, 216. tbl. 08.10.2020, Litadýrð í leynu, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 12.

Sogin

Sogin.