Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1703) er m.a. fjallað um jörðina Gröf, sem þá tilheyrði Mosfellssveit.
Talsverðar kvaðir hafa verið á jörðinni sbr.: „Kvaðir eru mannslán, hestlán bæði til alþingis og annarstaðar, jafnvel stundum norður í land og ýmsar áttir, og þetta stundum til samans á einu ári. Dagslættir tveir. Hríshestar tveir. Móhestar einn eður tveir. Torfskurður. Hest til að flytja lax úr Elliðaám. Skipaferðir. Timbur í Þingvallaskóg að sækja. Húsastörf á Bessastöðum. Fóður mikið eður lítið; allar þessar kvaðir so undir komnar og með slíkum skilorðum sem áður er sagt. Mesta fóður það menn muna var hestur útgjörður um allan veturinn, sem ekki þreifst og drapst frá heyjum um sumarmálaskeið, hann mátti bóndinn betala Jóhann Klein, og í tíð Heidemanns gamalt naut.
Engjar mjög litlar. Kvikfjenaður vi kýr, i kvíka tvævetur, viii ær með lömbum, ii hestar, i hros.“ Þá segir að „selstöðu á jörðin í hemalandi, sem nauðsynlegt er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“
Þann 30. maí 1987 var Grafarselið friðlýst (þinglýst 26.06.’87). Það stendur á fallegum stað undir Selbrekkum norðaustan austurenda Rauðavatns. Selbrekkur eru sunnan Grafarheiði. Umhverfið er dæmigert fyrir sel er lögðust hvað síðast af á Reykjanesskaganum; grónar en greinilegar tóftir og grasvænar brekkur umhverfis. Tóftirnar, sem eru þrjú rými, þ.a. tvö samtengd, standa í skjóli vestan undir brekkunum, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt neðan þeirra er hóll, sem líklega geymir kvína. Gamall uppþornaður lækjarfarvegur er norðan við selið og hefur hann sennilega verið ástæða staðsetningar þess þarna í brekkunum.
Selstæðið er mjög fallegt og á góðum stað. Það má eiginlega segja að það sé komið inn í borgina því byggðin hefur nánast teygt sig upp að því. Einmitt þess vegna eru staðsetningin og tóftirnar sérstakar. Þá eru þær og ágætur fulltrúi seljanna (af þeim 173 sem skoðuð hafa verið) á Reykjanesskaganum. Það er miðlungsstórt af seli að vera. Stekk er hins vegar ekki að sjá í nágrenni við selstöðuna.
Bæði hefur trjám verið plantað nálægt selinu og birkið hefur náð að vaxa upp í brekkunum. Ofar er holt.
Í Rauðavatnsskógi eru bæði góðir göngustígar og nægt rými. Umhverfið er hið fallegasta. Umfeðmingur, blágresi og smjörgras ásamt fleir blómategunum vaxa þar utan barr- og birkitrjáa.
Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað var 1946, en undanfari þess var Skógræktarfélag Íslands, stofnað 1930, sem þá breyttist í landssamtök skógræktarfélaga. Fyrsta skógræktarfélagið var raunar stofnað upp úr aldamótum en starfsemi þess lognaðist út af nokkrum árum síðar, þótt brautryðjendastarf frumherjanna gleðji nú gest og gangandi við Rauðavatn.
Rauðberjalyng (Vaccinium vitis-idaea) er mjög sjaldgæft á Íslandi, þótt það sé með algengasta berjalynginu í Noregi og Svíþjóð (Sæ: tyttebær). Það líkist nokkuð sortulyngi, en blöðin eru ofurlítið tennt, þynnri en á sortulyngi og með niðurorpnum röndum. Berin eru rauð og safarík. Heimkynni rauðberjalyngsins á Íslandi eru á Austfjörðum, en einnig vex það á þrem stöðum í Öxarfirði.
Á síðari árum hefur það einnig fundizt í Þrastarskógi og í furulundinum við Rauðavatn, og gæti það á báðum þeim stöðum verið aðflutt með skógrækt.
Sauðahús er allnokkuð sunnan Grafarsels, í landi Hólms. Hún er u.þ.b. 20 metra löng, tvískipt. Innri og minni hlutinn hefur hýst hlöðu. Vel sést móta fyrir henni í hlíðinni fast ofan skógarmarkanna. Neðan hennar, inni í skóginum eru greinilegir garðar er mynda ferkantað gerði.
Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er fjárborg. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.
Þá er hlaðin rétt um 170 metrum sunnan fjárhússtóftarinnar, ca. 5×5 m. Hún er ferköntuð og án dilka. Í veggnum að norðanverðu er letursteinn með ártali frá 19. öld og áletrun.
Heimild m.a.:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þriðja bindi, Kaupmannahöfn 1923-1924 (endurprentað í Odda 1982), bls. 205.