Tag Archive for: Grafarsel

Grafarsel

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1703) er m.a. fjallað um jörðina Gröf, sem þá tilheyrði Mosfellssveit.

Grafarsel

Grafarsel.

Talsverðar kvaðir hafa verið á jörðinni sbr.: „Kvaðir eru mannslán, hestlán bæði til alþingis og annarstaðar, jafnvel stundum norður í land og ýmsar áttir, og þetta stundum til samans á einu ári. Dagslættir tveir. Hríshestar tveir. Móhestar einn eður tveir. Torfskurður. Hest til að flytja lax úr Elliðaám. Skipaferðir. Timbur í Þingvallaskóg að sækja. Húsastörf á Bessastöðum. Fóður mikið eður lítið; allar þessar kvaðir so undir komnar og með slíkum skilorðum sem áður er sagt. Mesta fóður það menn muna var hestur útgjörður um allan veturinn, sem ekki þreifst og drapst frá heyjum um sumarmálaskeið, hann mátti bóndinn betala Jóhann Klein, og í tíð Heidemanns gamalt naut.
Engjar mjög litlar. Kvikfjenaður vi kýr, i kvíka tvævetur, viii ær með lömbum, ii hestar, i hros.“ Þá segir að „selstöðu á jörðin í hemalandi, sem nauðsynlegt er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“
Þann 30. maí 1987 var Grafarselið friðlýst (þinglýst 26.06.’87). Það stendur á fallegum stað undir Selbrekkum norðaustan austurenda Rauðavatns. Selbrekkur eru sunnan Grafarheiði. Umhverfið er dæmigert fyrir sel er lögðust hvað síðast af á Reykjanesskaganum; grónar en greinilegar tóftir og grasvænar brekkur umhverfis. Tóftirnar, sem eru þrjú rými, þ.a. tvö samtengd, standa í skjóli vestan undir brekkunum, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt neðan þeirra er hóll, sem líklega geymir kvína. Gamall uppþornaður lækjarfarvegur er norðan við selið og hefur hann sennilega verið ástæða staðsetningar þess þarna í brekkunum.

Letursteinn

Letursteinn.

Selstæðið er mjög fallegt og á góðum stað. Það má eiginlega segja að það sé komið inn í borgina því byggðin hefur nánast teygt sig upp að því. Einmitt þess vegna eru staðsetningin og tóftirnar sérstakar. Þá eru þær og ágætur fulltrúi seljanna (af þeim 173 sem skoðuð hafa verið) á Reykjanesskaganum. Það er miðlungsstórt af seli að vera. Stekk er hins vegar ekki að sjá í nágrenni við selstöðuna.
Bæði hefur trjám verið plantað nálægt selinu og birkið hefur náð að vaxa upp í brekkunum. Ofar er holt.
Í Rauðavatnsskógi eru bæði góðir göngustígar og nægt rými. Umhverfið er hið fallegasta. Umfeðmingur, blágresi og smjörgras ásamt fleir blómategunum vaxa þar utan barr- og birkitrjáa.
Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað var 1946, en undanfari þess var Skógræktarfélag Íslands, stofnað 1930, sem þá breyttist í landssamtök skógræktarfélaga. Fyrsta skógræktarfélagið var raunar stofnað upp úr aldamótum en starfsemi þess lognaðist út af nokkrum árum síðar, þótt brautryðjendastarf frumherjanna gleðji nú gest og gangandi við Rauðavatn.

Grafarsel

Grafarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Rauðberjalyng (Vaccinium vitis-idaea) er mjög sjaldgæft á Íslandi, þótt það sé með algengasta berjalynginu í Noregi og Svíþjóð (Sæ: tyttebær). Það líkist nokkuð sortulyngi, en blöðin eru ofurlítið tennt, þynnri en á sortulyngi og með niðurorpnum röndum. Berin eru rauð og safarík. Heimkynni rauðberjalyngsins á Íslandi eru á Austfjörðum, en einnig vex það á þrem stöðum í Öxarfirði.
Á síðari árum hefur það einnig fundizt í Þrastarskógi og í furulundinum við Rauðavatn, og gæti það á báðum þeim stöðum verið aðflutt með skógrækt.
Sauðahús er allnokkuð sunnan Grafarsels, í landi Hólms. Hún er u.þ.b. 20 metra löng, tvískipt. Innri og minni hlutinn hefur hýst hlöðu. Vel sést móta fyrir henni í hlíðinni fast ofan skógarmarkanna. Neðan hennar, inni í skóginum eru greinilegir garðar er mynda ferkantað gerði.
Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er fjárborg. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.
Þá er hlaðin rétt um 170 metrum sunnan fjárhússtóftarinnar, ca. 5×5 m. Hún er ferköntuð og án dilka. Í veggnum að norðanverðu er letursteinn með ártali frá 19. öld og áletrun.

Heimild m.a.:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þriðja bindi, Kaupmannahöfn 1923-1924 (endurprentað í Odda 1982), bls. 205.

Grafarsel

Grafarsel.

Grafarkot

Í Örnefnalýsingu fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967, er getið um sel frá Árbæ á Nónhæð, „austanverðum ásnum“ ofan Grafar, suðaustan Grafarvogs. Í þá daga hafði jörðin Gröf ekki verið byggð eftir að hafa verið í eyði um tíma. Sömu sögu var að segja um Grafarholt og Grafarkot (Holtastaði).

Grafarkot

Grafarkot, Grafarholt og Gröf – kort 1908.

„Um Grafarkot segir í A.M. 1703; „byggð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina, að forn eyðijörð verið hafi og hún fyrir svo löngum tíma í auðn komin, að fæstir vita, hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa, að þessi jörð hafi heitið að fornu Holtastaðir“. Fornu rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefur verið mikið stærra fyrrum og girt, en utan við það afar fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.

Grafarkot

Grafarkot 2022.

Á sauðaútflutningsárunum vóru hér geymdir 2200 sauðir um tíma, gerði næturbyrgingar búið til á þann hátt, að í túninu var rist ofan af löngum flögum og þökunum hlaðið í garða á ytri brúninni.
Sel hefur verið suðaustan undir ásnum [Nónhæð]. Það er í Árbæjarlandi.“

Gröf var við Grafará. Ofar var Grafarholt, eða Suður-Gröf. Enn ofar í hallanum var Grafarkot. Tóftir þeirra fyrstnefndu og síðastnefndu sjást að hluta til enn.

Árbæjarsel

Árbæjarsel í Nónhæð.

Í annars óaðgengilegri fornleifaskráningu Bjarna Einarssonar fyrir Reykjavík 1995 segir m.a. um fornleif í Nónæð, skammt vestan mýrarlækjar, sem rennur í Grafarlæk:

„Sel; 7x5m (A-V). Veggir úr torfi og grjóti, br. 0,6-1,3m og h. 0,2-0,5m. Fornleifarnar samanstanda af 2 hólfum (A og B). Dyr á báðum hólfum í N. Við NA- horn, er rúst 4x 3m (N – S).
Veggir úr torfi, dyr trúlega í N. Í A-vegg er stór steinn, 0,3×0,8 m. Nýlegur troðningur liggur yfir NA-horn hólfsins. 5m S af selinu er vegur (A-V), br. 2,5 m (gróinn) og l. 4 m.“

Árbæjarsel

Árbæjarsel – stekkur í Nónhæð.

Hér þrennu við að bæta; í fyrsta lagi er þriðja tóftin ekki við NA-horn selsins. Hún er við SV-horn þess. Í öðu lagi vantar í skráninguna forna fjárborg eða aðhald SV við selið. Og í þriðja lagi vantar stekkinn, sem tillheyra öllum öðrum selstöðum á Reykjanesskaganum. Hann er að finna á grónu svæði skammt vestan við selið.

Grafarsel

Grafarsel.

Í Örnefnalýsingunni segir auk þess: „Gröf/Grafarholt er býli sunnanvert við botn Grafarvogs. Það hét áður Gröf en þegar bæjarstæðið var flutt á núverandi stað árið 1907 var nafninu breytt. Gröf er eign Viðeyjarklausturs árið 1395 og varð konungseign við siðaskipti. Um 1840 var jörðin sel en árið 1943 var hún lögð undir Reykjavík og meginhluti hennar tekinn eignarnámi 1944. Í landi Grafar voru meðal annars Baldurshagi, Engi, Rauðavatn, Selás og Smálönd.144 Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Grafar; „Selstöðu á jörðin í heimalandi, sem nauðsynleg er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“ Í örnefnalýsingu fyrir Gröf segir; „Djúpidalur er suðvestur af Grenisás, djúpur dalur. Hann er lokaður inni, en opnast suður að Hvömmum, skáhalt að svonefndum Selbrekkum. … .Þá eru Selbrekkur, er ná alveg frá Rauðavatni upp að Tvísteinum. Þar sér fyrir seltóftum efst í aðalbrekkunni.“ Grafarsel er enn vel sýnilegt ofarlega í grasigróinni brekku norðaustur af Rauðavatni.“

Árbæjar er ekki getið í Jarðabókinni 1703.

Árbær

Árbær – fornleifauppgröftur.

Í „Byggðakönnun – Árbær – 2017“ segir: „Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd.

Saga Árbæjar er hins vegar mun eldri en þekktar heimildir gefa til kynna því árið 2016 leiddu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu í ljós að þar var búið á 11. öld og jafnvel þeirri tíundu. Leiða má að því líkur að það sama eigi við um búsetu á öðrum þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar.“

Heimildir:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. III: 296
-Bjarni F. Einarsson 1995, Fornleifaskrá Reykjavíkur.
– Örnefnalýsingu fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967.
-Byggðakönnun – Árbær – 2017.

Árbæjarsel

Árbæjarsel á Nónhæð – uppdráttur ÓSÁ.

Grafarsel

Í Örnefnalýsingu Björns Bjarnasonar fyrir Grafarholt nefnir hann m.a. fjárbyrgi í Byrgisholti er hafi verið frá Grafarkoti (bærinn Gröf var við Grafará ofan Grafarvogs, Grafarholt var þar sem er núverandi Vesturlandsvegur (bærinn var færður þar sem nú eru leifar Grafar 1907) og Grafarkot (Holtastaðir) var rétt norðan við golfskálann , en tóftir kotsins sjást þar enn):

Byrgisholt

Byrgisholt – fjárborg.

„Um Grafarkot segir í A.M.: „byggð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina, að forn eyðijörð verið hafi og hún fyrir svo löngum tíma í auðn komin, að fæstir vita, hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa, að þessi jörð hafi heitið að fornu Holtastaðir“. Fornu rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefur verið mikið stærra fyrrum og girt, en utan við það afar fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.
Milli Selhóls og Úlfhildarholts gengur dalur, Moldardalur og Moldardalsgeirar upp af honum. Þá erum við komin að Byrgisholti en fyrir sunnan holtið er Trippadalur.“ (Ö. Graf 2, s.27). Sunnan í Byrgisholti um 300 m frá spennivirki sem er efst í Almannadal, 100 m fyrri vestan við veginn sem gengur upp Tryppadal er fjárbyrgi – í grjótholti.“

Byrgisholt

Byrgisholt – fjárborg.

Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Grafar; „Selstöðu á jörðin í heimalandi, sem nauðsynleg er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“ 145 Í örnefnalýsingu fyrir Gröf segir; „Djúpidalur er suðvestur af Grenisás, djúpur dalur. Hann er lokaður inni, en opnast suður að Hvömmum, skáhalt að svonefndum Selbrekkum. … .Þá eru Selbrekkur, er ná alveg frá Rauðavatni upp að Tvísteinum. Þar sér fyrir seltóftum efst í aðalbrekkunni.“

Grafarsel er enn vel sýnilegt ofarlega í grasigróinni brekku norðaustur af Rauðavatni. Fjárborgin er á ás allnokkuð suðaustan við selið. Hún er í jaðri skógræktar og hefur furutrjám bæði verið plantað við hana og í.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967.
-Jarðabók ÁM og PV 1703; Gröf.

Byrgisholt

Byrgisholt og Grafarsel – loftmynd.