Tag Archive for: Grafningssel

Þjófahellir

 Í heimildum er getið um þrjú sel frá Nesjum; Kleifasel, Klængssel og Vallasel, öll í nánd við Selkletta, Selklif og Selskarð. Hvort um hafi verið að ræða sömu selstöðuna er ekki getið. Klængssel mun hafa verið vestan undir Selklettum, Kleifarsel í Jórukleif og Vallasel þar sem Nesjavallabærinn var síðar reistur suðvestanvert nið Nesjahraun. Selbrúnir eru ofan Torfadalslækjar við Jórugil. Ölvisvatn hafði selstöður í Gamlaseli við Selhól. Krókur hafði og selstöðu í heimalandi við Kaldá, á Seltöngum, líklega í Nýjaseli, sem þar er. Þá var sel á Selflötum frá Úlfljótsvatni. Austar og ofan við Selflatir er Úlfljótsvatns-Selfjall. Norðan þess er Svartagilsflöt. Þar við tjörn er Ingveldarsel, sel frá Úlfljótsvatni.

Klængssel

Selfellin eru fleiri á þessum slóðum. Villingavatns-Selfjall er inn á Hálsinum og Seldalur norðaustan þess, norðvestan Dagmálafells. Í Seldal eiga að vera tóftir tveggja selja, annars vegar Botnasel, sel frá Úlfljótsvatni, og hins vegar frá Villingavatni. Ætlunin var m.a. að leita uppi og skoða þessar mannvistarleifar, fyrrum búsetusögu svæðisins.
Nesja mun fyrst getið í gjafabréfi frá 1539. Gaf Erlendur Þorvarðarson lögmaður Margréti dóttur sinni jörðina ásamt mörgum öðrum til giftumála. Þá er jarðarinnar getið í Gíslamáldögum vegna þess að þaðan var kirkjusókn að Ölfusvatni.
Afrétt áttu Nesjar að sögn Jarðabókar Árna og Páls árið 1706 undir Hengli en um afrétti er fjallað síðar. Þá áttu Nesjar samkvæmt sömu heimild fleiri en eina selstöðu: „Selstöður á jörðin í sínu eigin landi, kallaðar Kleifasel, Klængsel og Vallasel.“

Þjófahellir

Í ritinu Sunnlenskar byggðir, III. bindi, er sérstakur kafli um selstöður í Grafningi. Þar segir meðal annars: „Hálendið upp af bæjunum telst til heimalands jarðanna. Er þar mikið beitiland og var fyrrum mjög notað til selstöðu. Sér þar víða til selrústa. Skulu hér nefnd þau sel sem þekkt eru: Sel frá Nesjum: Frá Nesjum er sel við Selklif, sem nú er í Nesjavallalandi. Liggur vegur þar rétt hjá niður að Þingvallavatni til sumarbústaða sem þar eru og einnig að Nesjum. …“
Nesjavellir eru úr upphaflegu Nesjalandi og urðu til sem býli árið 1820 eftir því sem segir í Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003 (Sunnlenskar byggðir segja árið 1819). Var það sjálfseignarbóndi í Nesjum sem flutti þangað eftir að kona hans drukknaði í Þingvallavatni.
Gamli Nesjavallabærinn - VallaselÍ sóknalýsingu Björns Pálssonar frá 1840 segir: „Nesjavellir eru byggðir fyrir rúmum 20 árum.“ Nesjavalla er getið sem hjáleigu Nesja í Jarðatali Johnsens frá 1847. Neðanmáls kemur fram að jarðarinnar sé ekki getið í jarðabókum. Samkvæmt kaupsamningi í apríl 1964 og afsali frá 22. apríl 1965 eignaðist Reykjavíkurborg Nesjavelli.Nú er Orkuveita Reykjavíkur eigandi Nesjavalla samkvæmt eignaryfirlýsingu 1. október 2003, líkt og Úlfljótsvatns og fleiri jarða í Grafningi og Ölfusi.
Ölfusvatn eða Vatn er fyrst nefnt í máldaga kirkjunnar þar, sem talinn er frá 1180. Samkvæmt Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 var hálft heimaland Ölfusvatns kirkjueign. Ekki er minnst á Hagavík. Nú er búið að koma upp litlum skiltum til upplýsinga og fróðleiks þar sem gamli bærinn á Ölfusvatni stóð.
Krókur er nefndur í Gíslamáldögum frá því um 1570. En þangað var kirkjusókn að Ölfusvatni. Þá átti Ölfusvatnskirkja hálft heimalandið. Eftir því mætti ætla að Krókur hafi verið sérstök jörð og lögbýli eins og kemur fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en bæði Krókur og Ölfusvatn (Hagavík hjáleiga Ölfusvatns) voru þá eign Skálholtsstóls. Ölfusvatn og Krókur áttu selstöður í heimalöndum samkvæmt Jarðabók Árna og Páls.
Sel á SelflötumByrjað var að skoða Nesjaselin. Í Selskarði eru leifar húsa eða annarra mannvirkja. Á skilti við tóftirnar stendur m.a.: “Tóftir þessar hafa oft verið kallaðar Gamlistekkur og eru að minnsta kosti tvær þeirra enn sjáanlegar. Líklegt er að sú sem sunnar stendur hafi verið rétt eða aðhald en sú nyrðri virðist vera hústóft, líklega af litlu fjárhúsi. Vitað er með vissu að hér stóðu beitarhús frá bænum Nesjavöllum fram á 20. öld og réttin hefur verið stekkur meðan enn var fært frá. Nesjavellir byggðust úr landi Nesja snemma á 19. öld og hefur þessi staður þá verið stekkstæði og síðar beitarhús frá nýbýlinu.”
Tóft er þarna skammt norðar, greinilega hluti sels. Á skiltinu er fjallað um selsbúskapinn tóftarinnar sé ekki getið. “Ýmislegt bendir þó til að saga staðarins sé mun lengri. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1708 segir að Nesjar hafi átt þrjár selstöður í eigin alndi, Vallasel, Kleifarsel og Klængssel. Vallasel var á Nesjavöllum og Kleifarsel undir Jórukleif en líklegt má telja að Klængssel hafi verið hér á þessum stað og má í því sambandi benda á örnefnin Selskarð og Selkletta, en það er nafn á klettunum ofan og vestan við tóftirnar.
GrafningsréttSelbúskapur tíðkaðist á Íslandi uma ldir og var tilgangur hans einkum að nýta beit í úthögum og minnka ágang búfjár á heimatúnum. Auk þess var gróður upp til heiða talinn kjarnmeiri og ærnar mjólkuðu betur af honum. Í seljum voru hafðar ær en stundum líka kýr og annar búfénaður. Að minnsta kosti ein selstúlka sá um mjaltir og afurðavinnslu og hafði smala sér til aðstoðar. Selbúskapur lagðist að mestu af á 18. öld og hefur svo einnig verið hér. Sögu staðarins lauk þó ekki þar með. Nafnið Gamlistekkur gefur ótvírætt til kynna að hér hafi verið stekkur síðar. Stekkir voru nokkurs konar réttir eða aðhöld, notuð til að stía sundur ám og lömbum á vorin. Í þeim voru oftast tvö hólf, sitt fyrir hvorn hópinn. Algengt var að stía á kvöldin og voru ærnar hafðar á beit um nóttina. Þá náðu þær að safna nægilegri mjólk til að hægt væri að mjólka þær að morgni.
Sunnarlega í Selklettum, sem eru hér vestan við, er hellir sem heitir Þjófahellir. Þangað eru um 500 metrar til suðurs. Í hellinum voru geymdir allt að 40 sauðir og má enn sjá þar allmiklar hleðslur fyrir hellisopinu. Hugsanlegt er að hellirinn hafi áður verið notaður við fráfærur á svipaðan hátt og stekkur því í honum er lítið hliðarhólf sem gæti hafa verið lambakró.”
Seldalur framundanÞjófahellir var skoðaður. Hann er í stuttri hrauntröð austan í syðsta gígnum. Gengið er niður í jarðfallið um gróið jarðfall og eru hleðslur móti veggnum að opinu. Fyrirhleðsla er hægra megin í hellinum sem og innst í honum, þar sem hann opnast áfram upp í hrauntröðina.
Þá var ákveðið að skoða Vallasel í tóftum gamla Nesjavallabæjarins. Tóftirnar eru enn greinilega nroðan við þjóðveginn. Skilti við þær segja m.a.: “Þó saga byggðar á Nesjavöllum sé ekki ýkja löng sjást um hana allmiklar minjar. Ein ástæða þess er sú að Nesjavallanbærinn hefur ekki alltaf staðið á sama stað. Fyrsta bæinn reisti Þorleifur Guðmundsson úr landi Nesja. Hann var bóndi þar en fæddur 1770 í Norðurkoti í Grímsnesi. Líklegt er að hinn fyrsti Nesjavallabær hafi verið byggður rétt fyrir 1820 á gamalli selstöðu, Vallaseli.”
Þegar tóftirnar við bæinn eru skoðaðar má sjá selleifarnar suðaustan við hlaðinn garð. Þar má sjá tvö hús, auk annars óljósari.
Botnasel“Sagt var að Þorleifur hafi flutt bæ sinn eftir að fyrri kona hans, Guðrún Magnúsdóttir frá Sýrlæk, drukknaði í Þingvallavatni. Gat hann þá ekki hugsað sér að sjá út á vatnið þar sem slysið vildi til. Þorleifur giftist aftur eftir að hann flutti að Nesjavöllum. Seinni kona hans hét Guðný Bjarnadóttir og komust 9 börn þeirra á legg en fyrir átti Þorleifur 5 börn. Hann andaðist á Nesjavöllum 8. janúar 1836. Þá tók við búi Grímur, sonur hans, afi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Hann var annálaður fyrir refaveiðar og var atorkumaður mikill. Hann byggði bæinn upp á nýjum stað, syðst á Völlunum, skammt þar frá sem hann er nú. Ástæða flutningsins er talin sú að erfitt var með vatnsból á þessum stað. Sunnan við syðstu tóftina er þó svolítill mýrarpyttur og er hugsanlegt að það hafi verið vatnsból elsta bæjarins. Nesjavellir voru erfið jörð hvað heyskap varðaði og dugði ekki hey það sem náðist af túni og engjum. Bærinn var forðum í þjóðbraut, þá er farinn var hinn forni Dyravegur.
Sé tekið mið af lýsingum [í Jarðabók ÁM] er líklegast að bærinn hafi verið byggður á selstæðinu. Slíkt var algengt, enda selstæði valin með tilliti til beitar í nágrenninu, vatnsból og gjarnan einhver slægja, líkt og venjulegt bæjarstæði.”
KleifarselKleifarsel er í Jórukleif. Þar er tvískipt tóft, sem bendir til þess að þar hafi verið skógarsel, a.m k. undir það síðasta. Líklega hefur ekki verið fé í Kleifarseli, enda erfitt um vik. Selið stendur hátt og auk þess sem ummerki í tóftunum benda til framangreinds. Tóftirnar eru heillegar, einar heillegustu selsleifarnar í Grafningi, en það bendir til þess að selið hafi verið notað lengi fram eftir 20. öldinni.
Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1899 kemur eftirfarandi fram um rústir í Kleyfardölum: 
„Kleyfardalur heitir suðvestur með hlíðinni, lítill dalur og þó fagur, en hrikalegt í kring. Þar eru tvær rústir allglöggvar. Önnur bæjartóft (eða seltóft), 9 fðm. löng, tvískipt og eru engar dyr á milliveggjum, en útidyr úr báðum tóftum á suður hliðvegg. Hin, fjóstóft (eða kvíatóft?), 8 fðm. löng og 2 1/2 fðm. breið hefir dyr út úr suðvesturhorni. Við efri enda hennar var sem sæi á tóftarbrún, sem gæti verið hlöðutóft. En þar um get eg þó ekkert sagt, því fönn lá þar yfir, svo eigi sást hvort hér er tóft eða ekki. Hafi hér verið býli, þá hefi það verið hjáleiga frá Steinröðarstöðum(?) [týndar tóftir og þó] og síðar orðið, ásamt þeim hjáleiga frá Nesjum.“
Brynjúlfur er hér að lýsa framangreindum tóftum í Jórukleif – fyrir rúmri öld síðan. Allt, sem sagt hefur verið um skógarsel, stendur sem fyrr, enda bera rústirnar þess merki enn þann dag í dag.
Jórukleif heitir eins og kunnugt er eftir Jórunni bóndadóttur úr Sandvíkurhreppi í Flóa, sem ærðist þegar hestur föður hennar beið lægri hlut í hestaati. Hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið. Svo hljóp hún með lærið yfir Ölfusá og upp Grafning og nam ekki staðar fyrr en uppi í Hengli. Þar settist hún að í Jóruhelli.
Af Jórusöðli, hnjúk í Henglafjöllum, fylgdist hún með ferðamönnum bæði sem fóru um Grafning og Dyraveg. Í Jórukleif sat hún svo fyrir ferðamönnum, rændi þá og drap. Þessu linnti ekki fyrr en Noregskonungur fann upp ráð til að koma henni fyrir kattarnef.
VillingavatnsselHaldið var upp að Grafningsrétt á Selflötum. Þaðan var ætlunin að ganga upp með Úlfljótsvatns-Selfjalli og inn í Seldal, yfir Klóarstíg og Selhás inn í Laxárdal og norðan við Kattatjarnarhryggi með Djáknapolli um Tindgil og niður með Stapafelli sunnanverðu að Þverá. Við hana var ætlunin að skoða Seltanga sunnan Mælifells og halda síðan niður með ánni, hinum hrikalegu Ölfusvatnsárgljúfrum að Selhól.
Á austanverðum Selflötum er að því er virðist grónn hóll. Stiku á merktri gönguleið hefur verið stungið í „hólinn“. Um er að ræða gamalt sel. Sjá má móta fyrir rýmum með sambyggðum stekk að austanverðu. Tóftin er mjög gróin og nánast hringlaga. Vellirnir hafa verið hið ágætasta beitar- og slægjuland. Lækur er norðan við selið.
Grafningsbændur hlífðu slægjum heima fyrir og höfðu í seli líkt og aðrir bændur á Reykjanesskaganum. Hér kom það einnig til að bjarga þurfti búsamla á sumrin undan mýbitinu á bokkum Sogs og Þingvallavatns. Voru kýr hafðar í seli, auk sauðfjárins.
Útsýni frá vestanverðu SúlufelliÞegar gengið var upp með Úlfljótsvatns-Selfjalli sást vel yfir Grafningsréttina, nánast hringlaga. Hún hefur verið hlaðinn úr grjóti að innanverðu, en torfi og grjóti að utanverðu. Síðan hefur timburverki verið bætt við og hún stækkuð. Þá var haldið yfir að Grafningsrétt. Grafningsréttir voru settar 1910, en fram að þeim tíma þurftu Grefningar að stunda Ölfusréttir, sem þóttu fjarlægar.
Þegar komið var inn í Seldal var stíg fylgt til suðurs, upp með læk. Þar á vestanverðum bakkanum, syðst í dalnum, voru greinilegar seltóftir. Lækurinn hefur einhverju sinni verið stærri og náð grafa bakkan undan austustu tóftinni. Tvær aðrar stærri eru á öruggari stað. Þær eru grónar og sjá má hleðslur í þeirri vestustu. Lítið rými er norðan hennar, sennilega eldhúsið. Tóftin, sem lækurinn hefur fjarlægt að hluta, hefur sennilega verið kví. Lind kemur upp úr gróningunum vestan við selið. Þarna er um að ræða svonefnt Botnasel, sel frá Úlfljótsvatni. Selstígurinn þangað hefur verið langur, enda á ystu mörkum að vestanverðu. Selstaðan hefur verið góð og þess vegna nýtt til hins ýtrasta, líklega mun lengur en selstaðan á Selflötum og í Ingveldarseli.
Um dalinn liggur Klóarstígur, gömul þjóðleið milli Grafnings og Ölfuss. Hann sést vel á löngum kafla eða allt þar til línuvegur hefur verið lagður í far hans á Selhálsi vestan dalsins. Norðvestast í dalnum, undir Selhálsi, eru seltóftir. Þær eru reglulegar, en orðnar mjög jarðlægar. Þrjú rými eru þó greinileg í tóftinni, auk þess sem stór tóft er skammt ofar, sennilega stekkur. Allt er þarna mjög gróið. Þetta mun hafa verið sel frá Villingavatni.
DjáknapollurHaldið var upp Selháls og yfir í Laxárdal, gróinn og formfagran. Súlufelli er nyrst í dalnum. Haldið var yfir öxl þess að vestanverðu, um Smjördal og niður með Djáknapolli, stóru djúpgrænu vatni, nyrst svonefndra Kattatjarna. Haldið var niður Tindgil með útsýni upp að Lakahnúk í suðir og Hrómundartind norðan hans. Í grónu gilinu var gengið fram á löngu dauða kind sem refurinn hafði nýtt til fullnustu. Annars myndu uppdalir Grafningsins rúma allt fé banka og sparisjóða landsins, auk Seðlabankans, svo rýmilegir og grónir sem þeir eru.
Stapafellið, gróið upp í topp, er norðan gilsins og Mælifellið framundan í norðnorðvestri. Þveráin rennur þarna með hlíðum og austan Mælifells. Vestan við ána er Nýjasel. Ef farið hefði verið norður fyrir Súlufell hefði verið komið að Króksseli yfir Hempuhól, sem þar er ofan gils austan Kaldár, fast í fjallsrótunum. Tóftir þar eru mjög jarðlægar, enda taldar mjög fornar, skv. örnefnalýsingu. Hóllinn dregur nafn sitt af því að þar átti djákninn (skv. sögunni) að hafa verið klæddur úr hempunni áður en honum var drekkt í pollinum.
Björn Pálsson færði selstöður inn á kort sem fylgdi sóknalýsingu hans. Allar voru þær aflagðar nema frá Ölfusvatni: „Ein var samt tekin upp í fyrra frá Ölvesvatni og aftur brúkuð í sumar; mun það því ekki hafa skaði þókt. „Eftir korti Björns að dæma virðist þetta sel hafa verið skammt frá mörkum Grafnings og Ölfuss. Er það væntanlega selið, sem kallast Nýjasel í ritinu Sunnlenskar byggðir, Klettur í Tindgilien þar segir og um sel frá Ölfusvatni og Króki: „Sel frá Ölfusvatni: Gamlasel var í kvos sunnan undir Selhól í Ölfusvatnshólum. Rennur Ölfusvatnsá þar rétt hjá og er Kaldá þar komin í ána. Þetta sel er ævagamalt. Þarna handhjuggu fylgdarmenn Þórðar kakala Þorstein Guðnason, fylgdarmann Gissurar Þorvaldssonar, …“
Sunnan frá Mælifelli gengur rani að ánni. Vestan í þessum rana, við Seltanga, eru tættur Nýjasels. Hér er talið hafa verið síðast haft í seli í Grafningi, árið 1849. Síðasta selstúlkan var Anna Þórðardóttir, síðar húsfreyja að Villingavatni (1850-1888). Nýjas
el er móti norðvestri við smátjörn á mýrarbletti sem er alveg við selið. Selið var meira en klukkutíma gangur að því frá Ölfusvatni. Var fénu beitt í Laka. „Er þetta eina selið sem er vitað með vissu, hvenær var síðast notað, en það var 1849. …“ Tóftirnar eru greinilegar og verða greinilegri með hverri ferð.
Mikið beitarland eru vestan við Stapafell. Auk þess er vel gróið handan við það, þar sem Kaldá á upptök sín. Segja má að áin komi þar upp úr jörðinni. Lindir eru utan í fjallsrótunum og eru þar fæðingablettir árinnar.
Fæðingarblettur KaldárSelið frá Króki var út við Kaldá rétt ofan við efstu flúðirnar. Þór Vigfússon víkur að þessum seljum í Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003. Einnig getur hann um þörf bænda fyrir að forða búpeningi á sumrum undan mýbiti á bökkum Sogs og Þingvallavatns. Samkvæmt Nýrri jarðabók frá 1861 eru Krókur og Hagavík talin hjáleigur frá Ölfusvatni.
Þá var Kaldá fylgt til norðausturs austan við Ölfusvatnsgljúfra að Selhól. Selhóll er rúman kílómetra ofan við Grafningsþjóðveginn. Þar sunnan í eru tóftir Gamlasels sem ekki er vitað hvenær lagt var af.
Á skilti við Gamlasel má m.a. að sjá eftirfarandi: “Í Gamlaseli var selstaða frá Ölfusvatni um aldaraðir. Sels frá Ölfusvatni er getið í Þórðar sögu kakala í Sturlungu og hafa verið leiddar að því líkur að um sé að ræða þetta sel. Þar segir frá því er Björn Dufgusson og menn hans leita uppi Þorstein Guðnason og handhöggva hann utan við selið. Mun það hafa verið árið 1243. Þorsteinn þessi var heimamaður Símonar knúts bónda á Ölfusvatni og hafði átt hlutdeild að vígi Snorra Sturlusonar 1241.”
Tóftir Gamlasels eru reglulegar og dæmigerðar fyrir yngri gerð selja; meginrými (baðstofa) og tvö minni til endans að austanverðu (búr og eldhús). Dyr baðstofunnar eru mót suðri. Hún hefur verið rýmileg á þeirra tíma mælikvarða. Nú er tóftin gróin og ekki sést móta fyrir hleðslum. Þarna gegnt selinu sunnan undir Selhól koma saman Þverá og Kaldá og heita þá Ölfusvatnsá. Þetta sel getur varla hafa verið það er segir frá í umræddri sögu. Tvennt kemur þó til. Annað hvort hefur verið byggt yngra sel upp úr því gamla eða selið verið annars staðar. Eldri seltóftir eru nánast undantekningalaust þrískiptar, en mjög óreglulegar. Tvö rýmanna voru nánast jafnstór og eitt minna (eldhúsið). Þá bendir sýnileiki tóftanna í Gamlaseli ekki til þess að þær geti verið af elstu gerð selja. Selið í Seldal er t.a. mynda mun ógreinilegra, en þó með nýrra laginu.
GamlaselÁ skiltinu stendur jafnframt: “Þeir spurðu, að Þorsteinn var í seli. Þangað reið Björn Dufgusson og þeir fimm saman. Þeir tóku Þorstein höndum, og spurði Björn, hver höggva vildi af honum höndina. Sigurður hét maður, er kallaður var vegglágur. Hann var norrænn og hafði verið kertisveinn Skúla hertoga. Hann fór út hingað með Snorra og var þá í Reykholti, er Snorri var drepinn. Hann bað fá sér öxina, – sagði sér það þá í hug, er þeir drápu húsbónda hans, að hann skyldi gera einhverjum þeirra illt, er þar stóðu yfir, ef hann kæmist í betra færi um. Þorsteinn rétti fram höndina vinstri. Björn bað hann hina hægri fram rétta – kvað hann með þeirri mundu á Snorra hafa unnið, frænda hans, – “enda skal sú af fara.” Eftir það hjó Sigurður hönd af Þorsteini. Gerðu þeir eigi fyrir þat meira að, að Þorstein mæddi blóðrás. Eftir þat rændu þeir hrossum og lausafé. Og síðan riðu þeir vestur yfir heiði og svo til Dala. Fóru þaðan heim í Flatey.”
FrostvorverkunSeltóftin í Gamlaseli er lítil og einföld og dæmi um sunnlenskt sel eins og þau voru á 18. öld. Á 19. öld var selstaða Ölfusvetninga færð upp í Nýjasel.”
Þegar tóftin er skoðuð er hún dæmigerð fyrir sel á Reykjanesskaganum, en hversu sunnlensk hún er skal ósagt látið. Sem fyrr segir lögun selsins dæmigerð fyrir nýrri gerð selja og er stærð þess einnig dæmigerð, utan meginrýmisins, sem er óvenjustórt í hlutfalli við önnur rými. Selið er í skjóli, líkt og fjölmörg önnur sel á skaganum og er staðsetning þess greinilega valin með hliðsjón af beit, vatnsöflun, aðhaldi og hrístöku. Ef tala á um sérstöðu selja í Grafningu þá ber helst að nefna að þau eru flest svipuð að stærð og lögun; tvírýma þar sem annað rýmið er stærra. „Sunnlensk“ sel voru jafnan þrírýma.
Gangan tók 5 klst og 5 mínútur. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Þór Vigfússon, s. 166. Sunnlenskar byggðir III. b., s. 159 – 262.
-Árnessýsla – Sýslu- og sóknalýsingar, s. 182-186.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 2. b., s. 378–380.
-Árbók Ferðafélags Íslands 2003.
-Sunnlenskar byggðir.
-Orkuveita Reykjavíkur og Fornleifastofnun Íslands.
-Örn H. Bjarnason.

Við Þjófahelli