Magnús Gíslason skrifaði um ferðalag sitt um “Um Grafning”, í Vísi árið 1912:
“Það mun hvorki þykja langt nje markvert ferðalag, að fara austur í Grafning úr Reykjavík, sjer til skemtunar. En það er jafnan sjerstakt fyrir þá, sem fara að sjá gamlar æskustöðvar og eiga þar frændur og vini, að heimsækja. Þannig var það fyrir mjer, er jeg fór að sjá Grafninginn á ný. Þar eru gömlu fjöllin fríð, fjöldi skógardala; er um grundir, holt og hlíð hljóp jeg fyrr, að smala.
I.
Jeg hjelt af stað og fór eins og leið liggur, eftir veginum frá Reykjavík og um Þingvöll, til efri sveita í Árnessýslu, en gat, því miður, ekki notið hans lengur en austur á Mosfellsheiði, þar sem hún fer að halla til Þingvallasveitar, niður frá Borgarhólum; þar hjelt jeg á götuslóða þá, er liggja þar af veginum til Dyrafjalla og niður Grafning. Á Mosfellsheiði liggja saman afrjettarlönd Grafningsmanna og Mosfellinga. Hefur stundum komið fyrir, að leitarmönnnm hefur lent þar saman og lítilla heilla beðið hvorir öðrum, þar Mosfellssveitarmenn hafa viljað smala þann hluta heiðarinnar, er Grafningsmenn eiga, því þeir eiga þar jafnan talsvert fje, eða áttu, meðan þeir voru fjárríkir. En mjer virtist nú vera minna fje á heiðinni, en þá jeg var með leitarmönnum að smala hana fyrir 14 —17 árum.
Nyrðsti halinn á Dyrafjöllum heitir Sköflungur. Yfir hann er farið undir háum móbergskambi, sem, þá eftir honum sjer, sýnist eins og mjór drangur eða uggi upp í loftið.
Dyrafjöllin eru mest móbergshálsar og dalir í millum. Þau eru kend við skarð, er liggur í gegnum einn móbergshálsinn, sem kallað er »Dyrnar«. Um þær lá hinn svo nefndi Dyravegur. Hann er nú nær aflagður, en þó eigi meira en um 20 ár síðan hann var alment farinn. En síðan að upphleyptur vegur var lagður yfir Mosfellsheiði, til Þingvalla, hafa menn meir notað þann veg, er jeg fór; með því geta þeir lengur notið góðs vegar; svo mun flestum þykja þar betri leið yfir Dyrafjöllin, en sú, er áður var farin.
Þegar komið er yfir Sköflunginn, er eins og annað land sje fyrir framan mann, en það, sem að baki er.
Í stað hinnar tilbreytingarlitlu og sljettu Mosfellsheiðar, koma nú fjöll og dalir, sem segja má að taki myndbreytingar með hverju fótmáli, landslagið er vítt og tilkomu mikið.
Það er líkast því, sem hver klettur og hamarsskúti geymi sögur um einhverja forna viðburði, þótt þeir nú sjeu gleymdir mönnum að miklu leyti; þó gnæfir hjer hátt snarbrattur móbergsklettur, er heitir Jórutindur. Það örnefni er eftir þjóðsögu, sem gengið hefur mann fram af manni í Árnessýslu og víðar um land.
II.
»Jóra í Jórukleyf« heitir ein tröllasagan í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, I., bls. 182. Eru þar nefnd nokkur örnefni, er við Jóru eru kend, þótt eigi beri sögum að öllu saman Um þau.
Þegar kemur fram á Dyrafjallabrúnina að austanverðu, er þaðan fagurt útsýni yfir, Þingvallavatn og sveitirnar í kring. Þaðan sjest og langt austur til Heklu og jöklanna, er ganga þar fram af hálendinu og enda á Eyjafjallajökli við sjó fram. Hjer, þar sem er svo fagurt útsýni og gott að vera, á Jóra að hafa haft aðsetur sitt. Hjer eru mörg örnefni við hana kend: Jórutindur, þar á hún að hafa setið uppi, til að sjá til mannaferða og njóta yndis af útsýninu; Jórukleyf,þar á hún að hafa dvalið löngum, er hún gekk út árla dags, og tekið þar fje bænda, er gekk í skóginum; Jóruhóll, undir honum á að hafa verið bústaður hennar, Jóruhellir; Jórugil, eftir því á hún að hafa velt sjer ofan í Þinghallavatn, þá hún var drepin.
Er jeg var 7 – 9 ára gamall, var hjá foreldrum mínum niðursetnings karl, er hjet Þorleifur. Hann hafði lengi verið í Nesjum á yngri árum og sagði hann mjer fyrstur söguna af Jóru, og bar því að flestu saman og sagt er frá í þjóðsögum J.Á. Þó var saga hans dálítið fjölskrúðugri; t. d. sagði hann, að áður en Jóra lagðist út, hafi verið mikil bygð í kring um Nesju, sem er næsti bær og á land það, sem hún á að hafa haldið sjer. En fyrir manndráp hennar lagðist bygð sú niður, að frátekinni heimajörðinni, því þá hafi verið kirkja í Nesjum, og hafi Jóra verið fæld þaðan með því að kirkjuklukkum var hringt, er sást til ferða hennar, og hvarf hún þá jafnan frá. Einnig sagði hann að Jóra hafi greitt hár sitt með gullkambi, þá er hún sat á Jórutindi og sungið svo mikið og fagurt, að hún töfraði eða tryllti menn til sín. Hann hafði komið í Jóruhellir, þá hann var smali í Nesjum, en þá var skriða fallin mjög fyrir munna hans. Að bygð hefur verið undir Jórukleyf og víðar í Nesjalandi, má en sjá, sbr. Árbók hins íslenska fornleifafjelags, 1899. Eru þar getur leiddar að því, að Steinrauður landnámsmaður hafi búið þar sem nefnist Vatnsbrekka. Þar er mjög fagurt bæarstæði. Áður fyrri var afarmikill skógur um þetta svæði og það álit fram á vora daga, og er talsverður ennþá. Í manna minnum hefur ekkert eyðilagt hann meir en maðkur, er kom í skóginn 2 sumur hvort eftir annað, 1888—89? Þá eyðilögðust svo stórar brekkur, er áður voru alþaktar skógi, að ekki sást annað eftir en kolstönglar af viðnum.
Á meðan jeg hefi verið að hugsa um söguna um Jóru og það, sem að nú var skráð, hefi jeg látið hestinn ganga hægt ofan sniðskorna götuslóðann, er liggur ofan með Jórutindi að austan, nú taka við skógi vaxnir smá hólar og fagrar brekkur; þar ætla jeg að taka mjer dálitla hvíld. — Jeg er búinn að velja góðan grasblett fyrir hestinn minn, og legg mig svo undir einn skógarrunnann.
Þessi áning hjer, þar sem jörðin er klædd í sitt fegursta skart, blærinn andar ilmi blómanna, og kliður fuglanna fyllir loftið unaðsómi, leiðir hugann til sælli drauma, en veruleikinn skapar; fögur æfintýri rísa uppi úr djúpi endurminninganna og mynda dýrðlegar hallir í blómfögrum dölum, þar sem unaður og ánægja ríkir. Það er hjer sem einn af vegfræðingunum vill láta járnbrautina liggja, sem einhverntíma á að koma frá Reykjayík og austur í sýslur. Ef það yrði, væri hjer gott fyrir sumarbústað, og holt að vera um tíma fyrir þá, er inni verða að kúra mest alt árið í kaupstöðunum og sjá svo sára lítið af fegurð náttúrunnar nje geta notið hins heilnæma lofts, sem við fjöllin er. Það mundi styrkja menn, lífga og kæta, bæta heilsuna og auðga andann að heilbrigðum skoðunum um veruleika og tilgang lífsins.”
Heimild:
Vísir, Magnús Gíslason, 27. september 1912, bls. 1-2.