Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði segir m.a.: “Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.”
Allt gekk þetta eftir, nema nafnið. Fornaselið er nokkru ofar (suðaustar) í hrauninu. Um það liggur Hrauntungustígurinn.
Kvín norðan undir klapparhólnum, sem seltóftirnar standa á, er grasi gróin, en í henni sést vel móta fyrir hlöðnum veggjum. Kvín er í góðu skjóli og sérstaklega góður nátthagi skammt norðar (norðvestar). Selið sjálft er dæmigert fyrir seltóftir á Reykjanesskaganum; þrjú rými. Gengið er inn í miðrýmið (sennilega eldhúsið) frá vestri, utan við innganginn eru op til beggja handa (búr og baðstofa). Framan við innganginn er niðurgrafinn brunnur.
Haldið var til suðurs með vestanverðu selstæðinu. Ætla mætti að auðvelt væri að finna nefndan Gránuskúta (Gránuhelli), en því fer fjarri. Allt um kring eru hraunhólar og lægðir. Hafurbjarnaholt er sunnar.
Fyrst var leitað næst selstæðinu, en þegar leitarsvæðið var smám saman útfært til suðurs og vesturs mátti allt í einu og öllum að óvörum, með glöggum augum, greina mikla vegghleðslu í kjarri vöxnum bolla vestan undir hæðunum. Í dag myndi stefnan teljast til vesturs. Við nánari athugun kom í ljós hellisop með miklum fyrirhleðslum. Inni var rúmgott skjól. Mosi við opið benti til þess að þarna hefði ekki nokkur lifandi vera stigið niður fæti um langa tíð. Spurningin er hvort þarna kunni Gránuskúti að hafa verið opinberaður, en um hann hefur jafnan verið fjallað í þátíð hingað til, líkt og hann hafi týnst. Þarna er a.m.k. veglegt fjárskjól og það við sel. Ekki er að sjá að því hafi verið lýst annars staðar – hingað til.
Annað kemur og til álita. Í örnefnalýsingunni segir m.a.: “Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöf’ða austast í Straumsselhöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson.”
Kápuhellir hefur jafnan verið staðsettur uppi í Laufhöfðahrauninu. Hér er hann staðsettur “í brúninni á hrauni þessu”. Í raun kemur staðsetningin heim og saman við staðsetninguna á fyrrnefndum Gránuskúta. Hann er hins vegar sagður í örnefnalýsingu vera sunnan við selið. Þar er reyndar skúti, góður, en engin mannanna verk umleikis. Ef þetta er Kápuhellir gæti þar verið Gránuskúti.
“Gjáselsvarðan” svonefnda er, ef betur er að gáð, fjárskjólsvarðan. Sjálfur selsstígurinn liggur svolítið sunnar og framhjá fjárskjólsmunnanum, sem reyndar er að sumarlegi þakinn birkihríslum og því illgreinanlegur.
Svæði þetta er einungis örskammt og í námunda við selið. Að vísu hverfur það óvönum sjáendum á landslagið, en með góðum merkingum væri hægt að gera það alveg sérstaklega aðgengilegt áhugasömu fólki um fyrri tíma lifnaðar- og búskaparháttu. Í selstæðinu, er sem fyrr sagði dæmigerðar húsatóftir, vatnsstæði, kví og fjárskjól. Ef vel væri leitað væri eflaust hægt að finna þar einnig nátthaga (sem reyndar er beint suður af selstöðunni).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnastaði (GS).