Færslur

Grensdalur

FERLIR berast á hverjum degi jákvæð viðbrögð frá áhugasömu fólki um skrif á vefsíðunni um einstaka staði eða einstakar minjar á Reykjanesskaganum.
Dæmi um slíka umfjöllun er t.a.m. um Grensdal (Grændal). -Dagbjartur Grensdalur-113Sigursteinsson, sem leiddi FERLIR m.a að flugvélaflaki norðan undir Skálafelli  sendi FERLIR t.a.m. eftirfarandi: “Það er alltaf gaman að lesa og skoða það sem þið eruð að fást við. Ég var að lesa um Grensdalinn eða eins og hann er nú kallaður Grændalur. Þegar ég var strákur að alast upp í Hveragerði var hann aldrei kallaður annað en Grensdalur og þá heyrpi ég að nafngiftin væri tilkomin af tófugreni sem þar hefði löngum verið og er sú tilgáta ekki verri en hver önnur því margur er nú dalurinn grænni en þessi. Til eru einhversstaðar gamlar sagnir um samnefndan bæ í dalnum eða dalsmynninu fljótlega eftir landnám og heyrt hef ég að Grens nafnið mundi komið úr fornírsku og þýddi eitthvað sem liggur vel við sól. Finnst rétt að halda í gamlar nafngiftir ef hægt er. Bið forláts á framhleypninni.”

Grensdalur-114

FERLIR svaraði og viðbrögð Dagbjarts voru: “Blessaður og þökk fyrir síðast (labbið áleiðis að Ansonvélinni í Hverahlíðinni – aftur. Ég var einhvern tímann að grúska í gamalli byggð í Ölvusi og hafði þá skrifað “Grensdalsvellir” fornbýli í Grensdal athugist síðar,  það var víst aldrei gert, þetta var í einhverri bók eða gömlum skræðum sen ég man ekki lengur hverjar voru. Þessa nafns er getið víðar, til dæmis í Riti Fornleifanefndar ríkisins 2008-9 (Stekkatún eða Grensdalsvellir). Ég hitti fyrir nokkru gamlan kunningja úr Ölfusinu, Þorstein Jónsson á Þóroddsstöðum sem fæddur er þar 1930 og hefur alltaf átt þar heima. Ég fór að spyrja hann um C64 vélina sem þið voruð að leita að 3 km. suðvestur af Núpafjallinu og átti að hafa farist 1944. Hann sagði þetta hljóta að vera einhverja vitlausa staðsetningu hjá þeim amerísku. 

Grensdalur-115

Þessi staðsetning væri svo stutt frá bænum sínum og áhugi 14 ára stráks á svona málum svo mikill að þetta gæti ekki hafa farið fram hjá sér þá. Hann sagðist svo mikið vera búinn að þvælast um þessar slóðir á sínum rúmlega 80 árum að það væri óhugsandi að hann hefði ekki gengið fram á þetta.”
Í Náttúruminjaskrá má lesa eftirfarandi um Grændal: “Grændalur og Reykjadalur liggja upp af Hveragerði. Grændalur sem er næst ósnortinn lokast til norðurs og er Ölkelduháls norðvestan hans. Dalirnir eru hluti af eldstöð sem kennd er við Hengil og nær eldstöðin frá Hveragerði til Nesjavalla, vestur fyrir Hengil og suður í Hverahlíð. Landslag svæðisins einkennist af jarðhita og er þar fjöldi hvera og lauga, berggangar, brot og framhlaup. Á svæðinu eru góðar opnur sem eru mikilvægar til rannsókna og fræðslu. Einkennandi eru lækjarsitrur sem seitla niður hlíðar dalsins. Þær eru sérstæðar á landsvísu enda hafa þær mikið að segja til um lífríki hveranna.”

Grensdalur-101

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Stekkatún grónar brekkur austan í litlu gili. Þar voru sauðahús frá Reykjakoti sem enn megi sjá leifar af. Til eru frásagnir um að á þessu svæði hafi verið býlið Grændalsvellir en það hafi verið komið í eyði árið 1703. Leifar Grændalsvalla hafa aldrei fundist en sú tilgáta hefur verið uppi að Stekkatún og Grændalsvellir séu sami staðurinn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að Grændalsvellir hafi verið hjáleiga frá Reykjum. Þar hófst búskapur í lok 17. aldar en stóð aðeins í fjögur ár. Eftir að jörðin fór í eyði var hún notuð fyrir Stekkatún frá Reykjakoti. Landskuld af hjáleigunni var 40 álnir en leigukúgildi ekkert. Í Jarðabókinni segir að ekki sé hægt að taka upp búskap á jörðinni að nýju nema jörðinni til skaða. Í fornleifaskráningu af svæðinu segir m.a.: “Sunnan úr Dalfelli gengur rani sem liggur með fram Grændalsá í um 50 – 100 m fjarlægð frá ánni. Raninn mjókkar mikið í endann. Ofan á rananum er grasi vaxinn bali en bæði norðan og sunnan megin eru brattar brekkur út af rananum, um 5 – 10 m háar. Fremst á rananum þar sem hann er því sem næst láréttur eru þrjár tóftir. Engin þessara tófta né aðrar á svæðinu líkist bæjarhúsatóftum svo hafi bær einhvern tíma staðið á Stekkatúni þá eru rústir hans horfnar. Löng og mjó tóft liggur fremst á rananum. Vesturendi hennar og hluti suðurhliðar er horfinn en við tekur snarbrött brekka. Tóftin er algerlega vaxin grasi. Brekkan er grasi vaxin svo ekki sér í rof og virðist því langt síðan brotnaði af tóftinni. Hún er 9,6m x 6,4m að stærð, liggur NA-SV, op í SV. Vegghæð er mest 40 cm. Um 1,7 m norðaustar er önnur tóft (nr. 743), ferhyrnt, 6,8m x 5,1m að stærð og liggur NA-SV.

Grensdalur-116

Engin inngangur er greinanlegur en greina má hvilt í miðju tóftarinnar. Hún er mjög grasi gróin. Um 2m NV er þriðja tóftin (nr. 744). Hún er 6,8m x 6,8m að stærð, nánast hringlaga. Enginn inngangur er greinanlegur. Tóftin virðist yngri en hinar tvær, t.d. er vegghæð hennar nokkuð meiri eða 1m og greina má steinahleðslu að innanverðu. Um 28,6m í NA er fjórða tóftin (nr. 745), 13,6m x 7,6m að stærð og liggur NNA-SSV. Eitt hólf og með inngangur á SSV-hlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinhleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð um 0,8-1m. Um 10,6m SAA er fimmta tóftin (nr. 746). Hún er 11,4m x 7,5m að stærð, liggur sem næst N-S. Inngangur hefur verið vestan megin á langhlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinahleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð 0,8-1m. Tóftirnar tvær í brekkunni eru tengdar saman með garðlagi (nr. 747). Garðlagið er 12m á lengd og um 3m á breidd. Vegghæð um 10-30cm. Er vaxin grasi en þó sér í grjót. Á garðlaginu er viknilbeygja.”
 Umhverfið sem tóftirnar standa í er mjög fallegt. Grasi gróin rani meðfram Grændalsá þaðan sem útsýni er yfir árnar, Grændalsá og Hengladalaá, vellina sunnan ánna og upp á Hellisheiðina til suðvesturs.

Grensdalur-117

Tóftirnar mynda skemmtilega rústaþyrpingu. Ekki er ljóst til hvers þær voru nýttar en eflaust er hér um útihúsatóftir að ræða. Rannsóknir á staðnum myndu geta gefið betri vísbendingar um notkunina. Rústirnar eru vel grónar og ekki í neinni hættu. Stuttur gangur er að þeim og því möguleikar á að kynna þær fyrir almenningi.
Grensdalur-118“Undir Vesturmúla sem er vestan í Tindum eru tvær tóftir sem byggðar hafa verið inn í grasbrekkuna. Nyrðri tóftin er um 80 m suðaustur af Grændalsá en sú syðri um 300 m NNA af hesthúsahverfi Hvergerðinga. Um 340 m eru á milli tóftanna. Tóft sem er norðar liggur í graslendi neðst í brekkufætinum undir múlanum. Hún er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurlanghliðina. Þar ofan á liggur reiðvegur. Tóftin er 11 x 7 m að utanmáli. Veggir hennar eru útflattir, um 3 – 4 m á breidd. Um 4 m breitt op snýr í vestsuðvestur. Tóftin undir Vesturmúla. Um 340 m SSA er önnur tóft. Hún liggur líkt og hin í brekkufætinum og er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurhlið hennar. Tóftin er beint undir kletti sem er sá neðsti í þessari hlíð múlans. Rafmagnsgirðing liggur vestan við rústina, meðfram hlíðinni og alveg við tóftina. Tóftin er á kafi í grasi. Tóftinni er skipt í tvö hólf. Eitt aðalhólf en út frá því liggur langt og mjótt hólf til suðurs. Hún er um 12m x 7,4m að stærð og inngangur í suðurenda.”

Heimildir:
-Dagbjartur Sigursteinsson – póstur 23. 04. 2012 kl.00:11.
-Dagbjartur Sigursteinsson – póstur 23. 04. 2012 kl.12:17.
-http://eldri.ust.is/media/skyrslur2003/Graendalur.pdf
-Örnefnalýsing fyrir Reykjakot.
-Fornleifaskráning í Grensdal (Grændal).

Grensdalur

Í Grensdal.

Portfolio Items