Tag Archive for: Grímannsfellsfoss

Mosfellsheiði

Í skýrslu Óbyggðanefndar fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið má m.a lesa eftirfarandi um Mosfellsheiði:

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort.

„Í Landnámu er minnst á Mosfell. Jarðarinnar er einnig getið í Egils sögu. Þar stendur að Grímur Svertingsson, lögsögumaður 1002-03, hafi búið á Mosfelli fyrir neðan heiði. Kirkja hefur staðið að Mosfelli þegar um 1200 er Páll biskup Jónsson tók saman kirknaskrá sína.
Bæði Stærra- og Minna-Mosfell er að finna í fógetareikningunum 1547-1552 og hefur jörðin því verið í eigu Viðeyjarklausturs áður en konungur sló eign sinni á jarðir klaustursins. Einungis kúgilda og innanstokksmuna er getið í máldaga Mosfellskirkju í Gíslamáldögum frá um 1575.
Mosfell var meðal þeirra jarða sem samkvæmt konungsboði 3. október 1580 voru lagðar til fátækra presta.
MosfellskirkjaBrynjólfur Sveinsson, biskup í Skálholti, stóð fyrir vísitasíu á Mosfelli árið 1642. Í visitasíubókinni stendur eftirfarandi: Kyrckian ad Mosfelli i Mosfellssveit, ä suo mikid i landi sem bref og mäldagar fullnast, er heima jordin lógd til prests upphelldis med óllum gógnum og giædum, öskar Biskup landamerkia af sera Einari Olafssyni, epter eignar halldi edur hefdar vitnum. Sómuleidis er prestinum veitt jórdin Mögilsä, leygd fiörum ä gilldum hid sama öskar Biskup um hennar landamerki ad skiallega tekin sieu og hvorutveggiu send Innan Jafnleingdar til Skalhollts. Undir þetta rita Einar Ólafsson prestur, Hallur Árnason prestur, Gunnar Magnússon, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson prestur.
Í visitasíu Mosfells sem fram fór 23. ágúst 1646 var lagður fram vitnisburður Guðrúnar Þorsteinsdóttur, eiginkonu séra Þorsteins heitins Einarssonar sem var prestur á Mosfelli 1582–1625, um að enginn hefði sér vitanlega notað Mosfellsskóg nema með leyfi eiginmanns síns. Í sama vitnisburði sagði ennfremur að: … Mosfells landamerki væri Bláskrida sem rennur med hrijsbrunar túne, Somuleydes þess land Móar fyrir sunnan Ána sem kalladur er kyrkiu Móe og þar heffdi Asgrijmur heijtinn Gijsla Son Sinn stekk sem þá Bió i Hittukoti hvortt ad stendur i mosfellstune. Datum þess vittnisburdar Anno 1643 7. februarij á Vollum undir Svijnskardi. Undir skrifadir menn Nikulas Eyolfsson Hallgrijmur Þolleijfsson Jon Jorundsson Nikulas Hendriksson.

Helgusel

Helgusel (Mosfellssel) í Bringum.

Í sömu visitasíu var birtur vitnisburður Árna Magnússonar í Ytri–Njarðvík frá 23. október 1626. Þar kom m.a. fram að í þau þrjú ár sem hann var á Mosfelli hafi bóndinn haft selstöðu í skóginum heima á bringunum. Í sama vitnisburði kemur eftirfarandi fram: … i þeim skóge sem greijndu Mosfelle var þá i þann tijma Eignadur leijfdist ongvum sier ad nijta nema med þeirra leijffe sem á mosfelle voru. Undir visitasíuna skrifa Einar Ólafsson prestur á Mosfelli, Stefán Hallkelssson prestur í Seltjarnarnesþingum, Sigurður Árnason, Halldór Eiríksson, Jón Árnason og Bjarni Eiríksson.

Bringur

Bringur.

Í visitasíu Þórðar Þorlákssonar biskups þann 30. ágúst 1678 kemur eftirfarandi fram: Þann 30 Augusti visiterud kÿrkiann ad Mosfelle i Mosfellssveit heima stadurinn og jordinn Mögilsä er lógd prestinum ad Mosfelli til uppheldis nota, eirnenn eru stadnum eignadar tuær selstodur su ejna under Grymanzfellzfossi, en ønnur hejmar i Brÿngunum, veidj i kietilhiloz ofann efter leirvox a, ad sunnan bædj i Skrautä og Backafliotj, enn umm landa merki stadarins finnst vïsitatiubok sal. M Brinjolfs sub dato 1646. Undir þetta rita Þórður Þorláksson, Einar Ólafsson prestur, Einar Einarsson, Árni Álfsson, séra Hannes Björnsson, Bjarni Jónsson, Pétur Ámundason og Bjarni Sigurðsson.
Jón Vídalín visiteraði Mosfell 2. ágúst 1703. Þar kemur fram að presturinn hafi jörðina Mógilsá til uppihalds, að staðurinn hafi tvær selstöður og að kirkjan eigi ákveðin veiðiréttindi. Textinn er í samræmi við það sem stendur í vísitasíunni frá 1678. Síðan segir: Item ä Hun Möan fÿrer sunnann äna sem kalladur er Kÿrkiu möi. Undir þetta rita Þórður Konráðsson prestur, Pétur Ámundason, Pétur Daðason Gamm, Benedikt Einarsson, Einar Ísleifsson og Árni Gíslason.

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel (Mosfellssel).

Þann 23. júní 1751, í tíð Ólafs Gíslasonar biskups í Skálholti, var Mosfell visiterað. Sú vísitasía er keimlík þeirri frá 1703 en þar segir: Enn Jórdenn Mögilsä er lögd prestinum til upphelldis. Stadnum eru eignadar 2 Selstodur. Su eina under Grimansfelles Fosse, enn ónnur heimar í bringunum. Kyrkiann ä Veide i Ketilshil og ofann efter Leirvogsä ad sunnann bæde i Skrautä og Backar Flióte. It: a hun möann fÿrer sunnan Äna, sem kalladur er Kÿrkiumöe. Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Guðmundur Jónsson, Sigurður Ólafsson, S. Sigurðsson, Gísli Einarsson og Oddur Jónsson. Finnur Jónsson Skálholtsbiskup visiteraði Mosfell þann 12. júní 1758. Vísitasían sem samin var í kjölfarið er nánast samhljóða vísitasíunni árið 1751 og því vísast til hennar.

Minna-Mosfellssel

Minna-Mosfellssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þann 26. júní 1800 var Mosfellskirkja visiteruð af Geir Vídalín. Í greinargerðinni sem samin var í kjölfar eftirlitsferðarinnar segir: Anno 1800 þann 26ta Junii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Mosfelli i Mosfellssveit; – hun á heimaland allt og eru þessi Landamerki ad utannverdu, eftir Visitatiu Magr. Brynjólfs Sveinssonar 1646; ad Bláskrida, sem rennur med Hrísbrúar túni ad austanverdu, skylie Löndinn.
Í vísitasíubókinni er líka texti sem er keimlíkur upplýsingum sem er að finna í eldri vísitasíum Mosfells: Hún á 2 Selstödur, adra undir Grímansfells fossi, (nu kölludum Helgusels fossi) hina nordur í Bríngunum, þar sem nú eru kalladar Blásteinns Bríngur; Veidi í Kétilshil, og ofann eftir Leyrvogsá ad sunnannverdu, bædi í Skrauta og Barkarflióti; item á hun Móann fyrir sunnann Ána, þar sem kalladur er Kirkiu mói. – Jördinn Mógillsá er lögd Prestinum til upphelldis. Undir skrifa; Geir Vídalín, A. Jónsson, Þórarinn Kolbeinsson og Auðunn Bjarnason.

Hvannavellir

Hvannavellir.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1704 virðast bændur í allstórum hluta Kjalarneshrepps hafa rekið geldneyti og hross á Mosfellsheiði. Er þar einkum talað um Hvannavelli, og virðist ekki hafa verið greitt fyrir. Slíkur geldneytarekstur er nefndur við Álfsnes og Varmadal. Norðurgröf, Vellir, Kollafjörður, Mógilsá, Esjuberg, Vallá vestri og Hof (þar með talin afbýlin Jörvi, Krókur og Lykkja) höfðu geldneyta- og hrossarekstur á Mosfellsheiði. Um Vallá vestri segir: Hesta og nautagánga um sumur hefur frá þessari jörðu so vel sem öðrum í þessari sveit brúkuð verið frí og átölulaust um lánga æfi á Mosfellsheiði, þar sem heita Hvannavellir.
Og í lýsingu Hofs stendur: Geldnauta og hesta upprekstur hefur frá þessari jörðu um lánga tíma brúkaður verið til sumarbeitar upp á Mosfellsheiði þángað sem heita Hvannavellir, og það frí og átölulaust. Nú um stundir síðan menn urðu hjer so fátækir, að þeir áttu ekki slíkan peníng, hafa þeir þetta ekki megnað að brúka.

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Móar og Saltvík höfðu geldneyta- og geldfjárupprekstur á Mosfellsheiði. Vallá eystri hafði hrossagöngu: Hestagánga um sumur þykist eigandinn af eldri mönnum heyrt hafa frá þessari jörð hafi brúkuð verið frí og átölulaust á Mosfellsheiði, þar sem heitir Hvannavellir.
Jarðabók Árna og Páls minnist ekki á „afrétt“ varðandi Sjávarhóla, Öfugskeldu og Skrauthóla en ætla má að sama hafi gilt um þær og aðrar jarðir innan til í Kjalarneshreppi. Raunar voru þessar jarðir í einkaeign eða eign Kjalarnesþinga en Hof, sem hafði þennan rétt samkvæmt Jarðabókinni, var líka í einkaeign. Stóðhrossa- og geldneytaganga á Mosfellsheiði er ekki nefnd við jarðir yst á Kjalarnesi.
Í greinargerð Þjóðskjalasafns Íslands er vakin athygli á því að samkvæmt Jarðabók Árna og Páls átti konungur eða hafði átt allar jarðir í Kjalarneshreppi innanverðum, þ.e. Þerney, Álfsnes, Fitjakot, Varmadal, Stardal, Hrafnhóla, Þverárkot, Gröf (Norðurgröf), Velli, Kollafjörð, Mógilsá, Esjuberg, Móa, Saltvík og Skrauthóla. Veki þetta upp vangaveltur um rétt bænda á framantöldum jörðum á Kjalarnesi til gjaldfrjáls upprekstrar, hvort hann hafi byggst á réttindum, sem Viðeyjarklaustur hafi náð. Í því sambandi væri rétt að líta til rekstrarréttinda Eystri- og Vestri-Vallár, en Vallárnar voru meðal þeirra jarða sem konungur seldi Henrik Bjelke 30. apríl 1675.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort 1909.

Hvannavellir munu nú kallast Bolavellir samkvæmt frásögn Kolbeins Guðmundssonar: Ég sé á landabréfum, að búið er að færa örnefni og sýslumörkin talsvert austur á bóginn fyrir vestan Hengilinn, t.d. heita nú Vatnaöldur, þar sem til skamms tíma hét Bolöldur. En Bolalda er komin austur undir Húsmúla. Ekki veit ég, hvort þetta á rætur sínar að rekja til ósamkomulagsins í fjallleitunum eða það er af því, að fáir virðast vita, hvar Bolavellir voru kallaðir til forna, en þeir eru fyrir austan Lyklafell norður af Bolöldum, sem nú eru nefndar Vatnaöldur. En þar, sem nú eru kallaðir Bolavellir, hétu til forna Hvannavellir. (Sjá lýsingu Ölfushrepps eftir Hálfdan á Reykjum 1702).

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort 1964.

Í lýsingu Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslum frá 1782-1785 segir: „Mosfellsheiði og Kjósarheiði nefnist öll víðáttan frá byggð í Kjós og Mosfellssveit upp að Henglinum, sem áður er nefndur. Þar er mjög gott og grösugt afréttarland á sumrum og er notað úr öllum sýslunum, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu og Árnesssýslu. Þar hefir og verið haldinn nautamarkaður 1. október árlega á svæði, sem til þess er afgirt við gjá eina“.
Áður hafði Skúli Magnússon sagt í sama riti: Skilyrði eru og góð til að hafa í seli á heiðinni [Mosfellsheiði] uppi undir afréttarlandinu.
Af Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og lýsingu Skúla Magnússonar virðist því mega ráða að Kjalnesingar hafi stundað stóð- og geldneytarekstur á Mosfellsheiði. Er það stutt af öðrum gögnum sem hér verða nefnd á eftir. Einnig má ráða af Jarðabókinni og lýsingu Skúla að Mosfellsheiði og heiðalöndin milli Kjósar-, Gullbringu- og Árnessýslna hafi verið notuð sem „afréttur“ fyrir sauðfé líka.
Árið 1740 lögfesti Markús Snæbjörnsson, prestur á Þingvöllum, Þingvallastað. Í þeirri lögfestu eru teknar með jarðir Þingvallakirkju í Þingvallasveit þannig að segja má að sveitarmörkum sé lýst að mestu leyti. Hluta marka Mosfellsheiðarlands er að finna í lögfestunni: … úr Riúpnagili i Steininn á litla Saudafelli, frá Steini þeim i Sysluvördur á eystri Moldbreckum, og so þvert yfir i Klofnínga, enn úr þeim i Þingvallavatn …

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort; fornar leiðir – Jón Svanþórsson.

Þann 9. júní 1801 á manntalsþingi á Esjubergi lagði séra Auðunn Jónsson fram lögfestu fyrir landi Mosfellskirkju frá 22. maí 1770 sem að hans sögn var grundvölluð á máldagabók Brynjólfs biskups Sveinssonar, undirskrifuð af sálugum séra Böðvari Högnasyni og upplesin af sálugum sýslumanninum Guðmundi Runólfssyni á þremur þingstöðum í Kjósarsýslu árið 1770. Lögfestan var lesin upp á ný en ekkert kemur hins vegar fram um innihald hennar.
Í jarðamatinu 1804 er að finna eftirfarandi upplýsingar um Mosfell: Med denne Jord bruges tillige et Kirken paa Mosfell tilhörende Stykke Land oppe paa Fiældet; men da dette er forbunden med saa megen besværlighed, formedest at det er saa langt bortliggende, formodes samme Stk. Land at blive i Tiden solgt særskildt og taxeres derfor a parte saaledes.

Helgusel

Helgusel (Helgasel) – uppdráttur ÓSÁ.

Auk þess segir í lýsingu gæða heiðarlandsins: Medens dette bruges med nærverende No 6 [Mosfell], kan det ikke taxeres saa höyt som her er skeet, men kunde da kun udgiöre en 6 a 7 hndr.Lagt var mat á Mosfellsbrauð árið 1839. Hluti skýrslunnar sem samin var af því tilefni fer hér á eftir: Ecki heldur gjet eg eiginlega til nefnt Hlunnindi, edur Itok, utann Kyrkju Landsins Stærd til Fialls, og þvj fylgiandi Slægna Utrymi, Hagabeit og Selstodu, sem gétur verid med stórum Erfidismunum til Nota á Sumrum; – Ecki heldur eru Máldagar infærdir, eins og ecki afskriftir af Documentum, sem bevísa adkomst til hlunnenda, eda Itaka, utann jeg finn i Visitatiu Hra. Biskups G. Vidalins sáluga, af 26ta Junii 1800, Ad Kyrkjann eigi … og 2r Selstödur, adra hiá Helgaselsfossi, þar sem jeg hefi látid byggia Sel – og Fiárhús, og adra í Blasteinsbringum.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er Hitta sögð hjáleiga Mosfells (Stóra-Mosfell). Um Hittu segir síðan neðanmáls: 1802 segir, að yrkt sé land uppá fjalli frá Stóra Mosfelli, sem mjög er örðugt tilsóknar, en fyrir því það þykir bezt, að selt væri og yrkt sér, er það metið sér í lagi til 12 h. 36 al.

Fellsendi

Fellsendi.

Í jarðamatinu 1849 segir m.a. um Mosfell: Eingjar litlar heimavið, en talsverðt beitiland. Heiðarland gott og mikið til slægna og selstöðu, en lángt fráliggjandi og mjög örðugt til allrar notkunar. Þvínær ónytt á flestum vetrum.
Útmæling á nýbýlinu Fjallsenda/Fellsenda fór fram 8. júlí 1850. Við hana mættu auk úttektarmanna: Þingvallaprestur, fulltrúi Mosfellsprests, ábúendur Fremraháls og Stíflisdals og útmælingarbeiðandinn. Mosfellsprestur lagði fram skýrslu um merki milli Mosfells- og Þingvallakirknalanda en hún er ekki innfærð, en hana má finna í uppskrift í skjölum, sem lögð voru fram í Landsyfirrétti árið 1860.

Mosfellssel

Mosfellssel við Leirvogsvatn.

Fylgir einnig vitnisburður mannsins, sem var umboðsmaður Mosfellsprests við áreiðina. Hljóða skýrsla og vitnisburðurinn svo: Með því bóndinn Arni Björnsson á nýbýlinu Fjallsenda hefur gefið mjer í skyn, að næstkomandi mánudag eða þann 8. þ.m. væri áformuð skoðun á landamerkjum og úthlutun lands til tjeðrar nýlendu hans af Sýslumanni með þartil kvaddri nefnd manna, og þareð jeg, sem Beneficiarius á Mosfelli, sem á land að hjer að vestan verðu, hlýt samkvæmt skyldu minni, að eiga þar að nokkruleyti hlut að máli, leyfi jeg mjer hjermeð, til nauðsynlegrar aðgæslu fyrir tjeða nefnd, að geta um og taka fram þau landamerki, sem mjer með samhljóða vitnisburðum gamalla og áreiðanlegra manna hafa verið sögð, og eru þau þessi: Sjónhenda úr Rjúpnagilsdrögum eða upptökum í aflangan stóran stein einstakan austantil á litla Sauðafelli, og aftur sjónhenda úr tjeðum steini, sem sumir kalla markastein (Sýslustein) í austari Moldbrekkur svonefndar, og en<n> sjónhenda úr Moldbrekkum suðaustanvert við Borgarhóla.

Mosfellssel

Mosfellssel við Leirvogsvatn – uppdráttur ÓSÁ.

Á þessum landamerkjum hefi jeg aldrei heyrt neinn vafa leika, hversvegna jeg vona bæði að nefndin taki þessi merki til greina með sannsýni samkvæmt skyldu sinni, sem og hitt, að enginn leyfi sjer að hagga þeim eða raska, eins og ég líka vil reyna til að láta þá kirkju eða prestakall, sem mjer er trúað fyrir halda rjetti sínum óskertum. Býst jeg því við að halda áfram bæði að tileinka Mosfellskirkju fjalllendi alt, að vestanverðu við tjeð merki, sem og að nota það eptir mætti, þörfum og kríngumstæðum. Mosfelli þann 5. dag júlím. 1850. Stefán Þorvaldsson prestur til Mosfells. Framan og ofan skrifuð landamerki milli Þíngvalla og Mosfells kirkna landa á Mosfellsheiði eru einmitt gjörsamlega samkvæmt því, sem jeg heyrði optlega föður minn sáluga. Jón bónda Eyólfsson á Laxnesi og föðurbróður minn Þorstein sál. þar og fleiri greinda og kunnuga menn glögglega tala um. Hraðastöðum þann 6ta Júlí 1850. vitnar Ólafur Jónsson bóndi á Hraðastöðum.

Mosfellsheiði

Nautapollur.

Útmæling nýbýlisins Fjallsenda fór fram 8. júlí 1850: Þarnæst var nýbýlinu Fjallsenda útvísad til yrkíngar hagbeitar og sérhverrar annarar notkunar land þad er liggur innan fylgjandi takmarka: Frá mörkum jardarinnar Fremraháls í Kjós á hæstu nordurbrún stóra Saudafells, í landsudur eptir brúninni beina stefnu í Grjóta, og eptir þessari á til sudurs uppad efri Gljúfrunum, þadan sömu stefnu yfir midja Startjörn í midja Grjótártjörn vestanhallt vid Þrítjarnir í hatt hollt fyrir austan Stórasund og hedan í Sæluhúsid á Eystri moldbrekkum. Hedan til utnordurs í stein austanhallt hæst á Litla Saudafelli, þadan í Rjupnagil á Eyrunum og eptir því uppad austasta klofníngi þess og hedan loksins til landnordurs yfir vestasta Tjarnhól í ádur téda brún nordan og hæst á Stóra-Saudafelli.

Mosfellsheiði

Sæluhúsið í Moldarbrekkum.

Þann 22. maí 1852 var gefið út byggingarbréf fyrir nýbýlinu Fjallsenda. Því var þinglýst 3. júní 1852.
Mosfellsbrauð var metið á nýjan leik árið 1855 en í lýsingu segir m.a.: Skírsla um tekjur og útgjöld Mosfells prestakalls í Gullbríngu og Kjósarsýslu profastsdæmi eptir 5 ára meðaltali 1849-1853. Jörðin er að vísu mikil jörð að öllu samanlögðu og á mikið víðlendi til fjalls og það allgott land til sumarbeitar og slægna, en bæði er erfitt að nota sér það vegna fjarlægðar og líka þvínær ómögulegt að verja það fÿrir ágángi afréttar fénaðar og stóðhrossa, – en heimaland jarðarinnar er mjög lítid og ligg<u>r ónotalega vegna þéttbýlis. Tun jarðarinnar eru stór mjög og harðlend og vóru komin í ena mestu órækt, en eru nú held<u>r að lagast, og munu þau nú í meðalari fóðra 7-8 kýr, og jörðin þessutan hérumbil 80 ær og máské viðlíka af sauðum, en vetrarbeit er lítil og fÿrir hross svo að kalla engin, verður því að koma þeim burtu til hagagaungu. …

Mosfellsheiði

Sæluhúsið í Moldarbrekkum 1896 – Daniel Bruun.

Í lýsingu sinni á Mosfells- og Gufunessóknum frá 1855 minnist Stefán Þorvaldsson stuttlega á Mosfellsheiði með eftirfarandi orðum: Suðaustur með Litla-Sauðafelli liggur allmikill stararflói, grasgefinn, en mjög votlendur, er liggur að landamærum millum Mosfells- og Þingvallakirkna landa á Mosfellsheiði.
Árið 1856 hugðist presturinn á Mosfelli leyfa býli í Mosfellskirkjulandi, svokölluðum Gullbringum. Um þetta atvik er fjallað í kafla 5.21. um jörðina Bringur.

Í bréfi sem presturinn á Mosfelli sendi biskupi þann 12. júní 1858 kemur fram að hann hafi ekkert á móti því að Jón Bjarnason bóndi á Varmá sæki um að fá að reisa nýbýli í landnorðurhorni heiðarlands Mosfellskirkju við Sauðafell. Hann hugðist þó áskilja sér rétt til þess að vera við áreið og útmælingu landsins til að gæta hagsmuna kirkjunnar.
Mosfellsheiði

Stiftsyfirvöld sendu Mosfellspresti bréf þann 22. júní 1858. Þar kemur fram að stiftsyfirvöld töldu sig ekki geta fyrirskipað útvísun lands handa Jóni Bjarnasyni. Síðan segir: … skulu Stiptsyfirvöldin þó hér með láta yðar velæruverðugheitum í ljósi, að frá þeirra hálfu er ekkert á móti því, að þér semjið við Jón Bjarnason öldungis prívat um bæarbyggingu í Mosfellskirkjulandi, á líkan hátt og skeð er um bæarbygginguna í Gullbringum, þó svo að merki kringum land það, er þér leyfið honum til byggingar, sé nákvæmlegra og greinilegra tiltekin … Um 1860 hófust deilur um hvort jörðin Fellsendi í Þingvallasveit teldist nýbýlisland eða Þingvallaeign. Málið fór fyrir dóm og var dæmt í því fyrir Landsyfirrétti árið 1860. Ýmis vitni voru kölluð fyrir í þessu máli.

Mosfellsheiði

Vörður við sæluhúsið í Moldarbrekkum.

Í júlí 1858 lagði t.d. verjandi Árna Björnssonar, sem byggt hafði Fjallsenda/Fellsenda og gerði kröfu til landsins (Árni var þá orðinn bóndi í Brautarholti á Kjalarnesi), fram eftirfarandi vitnisburði nokkurra Kjalnesinga og Kjósverja: ad No 3 -a.
„Jeg undirskrifaður – sem allan minn aldur hefi dvalið í Kjalarneshreppi – gef þann vitnisburð: að frá því jeg fyrst man til mín, hjer um bil á árunum 1802-1803 til þess á árunum 1835-1836 var afrjettar landið á Mosfellsheiði, kríngum litla Sauðafell og í svo kölluðum Hálsum brúkað árlega öldungis átölulaust og óhindrað af öllum bæði frá uppeldis föður mínum, Brinjólfi sál. Einarssyni lögrjettumanni á Bakka og öðrum bændum í Kjalarneshreppi, samt sjálfum mjer, eptir að jeg varð búsráðandi – til uppreksturs fyrir stóð, hross fjallagrasatekju og fl. … Stad<d>ur að Brautarholti þann 18da Júní 1858 M. Sigurðsson (fyrv. hreppst. í Kjalarnes hreppi).“
„Jeg undirskrifaður sem einnig hef dvalið allan minn aldur í Kjalarneshreppi (nú á 61ta aldurs ári) ber vitni um brúkun afrjettarins eða almenningsins á Mosfellsheiði og í Hálsum öldungis samkvæmt þeim, er Magnús Sigurðsson, fyrrverandi hreppstjóri Kjalnesinga hefur þegar útgefið af dató í dag, og hjer að framan er ritaður … Hofi þann 18. Júní 1858 Jón Runólfsson.
Framlagt fyrir aukarjetti að Þíngvöllum 27. Júlí 1858. Th. Gudmundsen.“ ad No 3 – b.

Mosfellsheiði
Vjer undirskrifaðir gjörum svolátandi grein fyrir og vitnisburð um hvað vjer þekkjum til og heyrt höfum um landrjettindi, einkum hvað afrjett snertir, á hinni svokölluðu Mosfellsheiði. Frá því vjer fyrst munum til höfðu Kjósarmenn og Kjalnesingar nauta upp rekstur á Mosfellsheiði. …Þá var þetta land af áðurgreindum sveitum einnig brúkað bæði til trippa uppreksturs og svo fóru menn þangað til grasatekju. Álitu þá Kjósarmenn og Kjalnesingar, að land þetta væri almenningur og afrjettur, sem þessum sveitum væri heimilt að brúka til áður greindra notkana, án þess nokkurs manns leyfi þyrfti til … Þetta vottum vjer eptir áskorun og erum fúsir til að staðfesta þetta vottorð vort með eiði, ef þess verður krafist. Árni Stefánsson á Meðalfelli 68 ára Þorsteinn Torfason á Þorláksstöðum aldur 68.

Mosfellsheiði
Guðmundur Eyolfsson á Sandi 78 ára Jón Jónsson á Grjóteyri 63 ára Framlagt fyrir aukarjetti að Þíngvöllum 27. Júlí 1858. Th. Gudmundsen.Nokkru síðar eða þann 10. september 1858 voru fjögur vitni leidd fyrir aukarétt Kjósar- og Gullbringusýslu þar sem þau voru spurð um landamerki Þingvalla- og Mosfellskirkna.
8. Hvað vitið þjer um brúkun Kjalnesinga á Mosfellsheiði; hvaða skepnur hafa þeir rekið þangað; hvert hafa þeir rekið; í hvers leyfi hafa þeir rekið? Einnig lagði umboðsmaður stefnda (Árna Björnssonar) fram gagnspurningar:
1 Hefir vitnið ekki heyrt þess getið, eða veit það ekkert um að Kjósarmenn og Kjalnesingar hafi talið sér nauta og stóðhrossa afrétt í því landi, sem Fellsendi nú er, eða jafnvel brúkað það sem þvílíkt?
2 Spurning: Veit vitnið til að þeirri brúkun hafi verið mótmælt? Vitnin annað hvort töldu Mosfellskirkjuland og Þingvallaland liggja saman á umræddum mörkum eða voru því ókunnugir.
Á manntalsþingi sem haldið var að Lágafelli þann 30. maí 1864 var þinglesið forboð frá sr. J. K. Benediktssyni, er samið var 27. maí sama ár, gegn óleyfilegri hrossagöngu á Mosfellsland. Sama forboð var þinglesið á manntalsþingi á Hofi þann 1. júní 1864.

Mosfellsheiði
Árið 1867 var Mosfellsbrauð metið og í lýsingu kom m.a. þetta fram: Skýrsla um tekjur og útgjöld Mosfellsprestakalls í Gullbringu og Kjósarprófastsdæmi eptir 5 ára medaltali, frá fardögum 1862 til fardaga 1867. Jördin er til fjalls vídlend og kostagód til sumarbeitar og slægna, en mjög ördug af-nota sökum vegalengdar.
Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar prests á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki á Mosfellsheiðinni. Orsök deilunnar var sú að sumarið 1868 hafði Ófeigur yrkt svæði á Mosfellsheiði sem nefndist Sauðafellsflói. Þetta var Þorkell ósáttur við því að hann taldi þetta landsvæði tilheyra Mosfellskirkjulandi og eftir að deiluaðilar höfðu árangurslaust reynt að ná sáttum í málinu kærði séra Þorkell Ófeig vegna Mosfellskirkju.

Mosfellsheiði
Krafa Þorkels var sú að Mosfellskirkjulandi væri dæmdur Sauðafellsflóinn og landið þar um kring, austur að beinni línu sem dregin væri úr Rjúpnagili í Sýslustein austast á Litla-Sauðafelli og þaðan í Eystri-Moldbrekkur við sæluhúsið á Mosfellsheiði. Þorkell studdi þessa kröfu með lýsingum vitna, lögfestu Þingvallakirkjulands frá 1740, sýslulýsingu Skúla Magnússonar, sóknarlýsingu frá 1855, dómi Landsyfirréttar í máli Þingvallakirkju og Árna Björnssonar árið 1859, þeirri staðreynd að Mosfellsmenn höfðu lengi yrkt Sauðafellsflóann án nokkurra mótmæla og staðsetningu sæluhússins á Mosfellsheiði en það var byggt fyrir gjafafé Mosfellssveitunga.
Ófeigur Vigfússon hélt því hins vegar fram að Mosfellskirkju ætti aðeins að dæmast land austur að þeirri línu á uppdrætti [Halldórs Guðmundssonar og Sigurðar málara], er að öðru leyti var samþykktur af báðum málsaðilum, sem dregin væri beint úr Borgarhólum (yfir Syðri- eða Vestari-Moldbrekkur) og í Rjúpnagil. Hann rökstuddi kröfuna með því að vísa í uppdrátt Íslands frá 1848 eftir Björn Gunnlaugsson, skjöl þar sem fjallað var um línuna frá Borgarhóli í Rjúpnagil, sýslulýsingu Árnessýslu frá 1848, vitnisburð vitna, og að enginn hefði kært Nesjabændur þó að þeir hefðu af og til í tuttugu og átta ár slegið í Sauðafellsflóa.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – Eiturhóll.

Kveðinn var upp dómur í málinu 22. nóvember 1873 sem féll Þorkatli og Mosfellskirkju í vil. Í honum kemur eftirfarandi fram: … vill hinn stefndi [Ófeigur í Nesjum] eiga land úr Rjúpnagili og beint í Borgarhóla, en sækjandi [Mosfellsprestur] aptur úr Rjúpnagili í Sýslustein („Merkjastein“) á Sauðafelli, beint í Moldbrekkur eystri og þaðan sjónhendíng í Borgarhóla.
Sem sönnun fyrir að þetta sé rétt hefur sækjandi komið fram með ýms skjöl og skilríki, svo sem þíngsvitni úr Gullbríngusýslu, eptir hverju 4 vitni hafa vitnað þessu samkvæmt … þar næst 3 skýrslur prófasts séra Stefáns Þorvaldssonar á Stafholti, sem áður var prestur að Mosfelli, frá 1850, 1855 og 1869; lögfestu fyrir Mosfellslandi frá 1740; útskript af lýsingu Skúla landfógeta yfir Gullbríngu sýslur. – Hinar þarnefndu „Þrívörður“ eru nú ei lengur til, því þær segir sækjandi að brúkaðar hafi verið í veggi sæluhússins á Moldbrekkum, þegar það var byggt 1841; (óeiðfesta) vitnisburði, sem nefndir eru undir No 10, 11, og 12 í sóknarskjalinu frá 28. Ágúst 1873.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – Sýsluþúfa.

Öll hin nefndu skjöl og skilríki eru í öllu verulegu samhljóða framburði hinna getnu vitna. Þess er enn vert að geta, að hið umgetna sæluhús á Moldbrekkum var 1841 reist og byggt bæði af Mosfellssveitarmönnum og Árnesíngum eins og hins að sækjandi og og fyrirrennarar hans – Mosfellsprestar – hafa stöðugt yrkt eða léð slægjur í Sauðafellsflóa, einnig átölulaust af öllum. …Eptir öllu því sem nú hefur verið tilfært fær rétturinn eigi betur séð, en að prestinum að Mosfelli eða Mosfellskirkju beri að tildæma hið umþrætta landstykki þannig, að landamerki Mosfells að austan sé úr Rjúpnagili í Sýslustein, þaðan í Moldbrekkur við sæluhús og svo beint í Borgarhóla. …
Mosfellsheiði
Því dæmist rétt að vera. Landamerki Mosfellskirkjulands á Mosfellsheiði skulu vera: úr Rjúpnagili í Sýslustein, þaðan beint í Moldbrekkur við sæluhús og þaðan eptir beinni línu í Borgarhóla. Að öðru leyti á hinn stefndi að vera frí af ákæru sækjandans.
Rekstur þessa máls hófst árið 1870. Í aukarétti Árnessýslu 12. júní 1870 var lagt fram skjal frá Stefáni Þorvaldssyni, fyrrum presti á Mosfelli, dagsett 18. maí 1869, sem vitnað er til í dómnum að framan, svohljóðandi: No 7. „Í þau 12 ár, sem jeg hélt Mosfell í Mosfellssveit og bjó þar , -ə: frá 1843-1855. – notaði jeg atölulaust fjalllendi Mosfells, eptir þessum ummerkjum: Leirvogsá ræður merkjum að norðanverðu, neðan frá Skegg<j>astaða hólum og allt uppí Leirvogsvatn, þá ræður lítill lækur, sem rennur vestan til við „Sauðafellstúngu“ og fellur í sama Leirvogsvatn. Þá er tekin sjónhenda úr svonefndu „Rjúpnagili“ í stóran stein, á austan- eða norðanverðu litla Sauðafelli, – úr þeim steini sjónhenda í „Moldbrekkur“, – verður þá allur Sauðafellsflóinn innan Mosfellslands takmarka, enda notaði jeg hann, ásamt Sauðafellstúngunni átölulaust að meira og minna leyti um áðursagt tímabil, bæði til selveru, beitar og slægna.

Markúsarsel

Markúsarsel.

Austurbóginn var sjónhenda tekin úr Fellshala, nefl. Grímansfellshala og austur heiði, beint austur að fyrr nefndum „Moldbrekkum“. Í mæli var það eptir sögnum gamalla manna, að Mosfell ætti selstöðu í Grímansfelli, og ætti „Fellshalann“ allan suður undir „Seljadal“. – En þessar selstöður notaði jeg allar á víxl, 1, Í Helguseli norðan undir Grímansfelli, – þar sem seinna var sett nýbýlið „Gullbrínga“. – 2, Leirtjarnarsel, fyrir norðan Leirtjörn, – sem líka var af sumum kallað „Markúsarsel“ – 3ju selstöðu hafði jeg og seinast nokkur ár vestan undir illa klifi ofanvert við Leirvogsvatn.
Mosfellsheiði

Áreið á landið fór fram samhliða réttarhaldinu 12. júlí 1870: Því næst mæta fyrir rjettinum þeir hinir áðurnefndu menn úr Árnesssýslu og segja það sitt álit um landamerki milli Árness- og Kjósarsýslu: Úr Rjúpnagili eða gljúfrum þess í landsuður beina stefnu á Borgarhólinn hinn hæsta, sunnarlega á Mosfellsheiði. – Hinir tilkjörnu menn úr Gullbringu- og Kjósarsýslu segja aptur á móti takmörkin þannig: Úr áðurnefndu Rjúpnagili beina stefnu í stóran stein á Litla-Sauðafelli austanverðu, sem hvílir á steinum við báða enda en loptar undir allan í miðju, þaðan beint í Moldbrekkur við Sæluhús á Mosfellsheiði og loksins þaðan í áðurnefndan hæsta Borgarhól. Þessar álits- og skoðunargjörðir segjast allir skoðunarmenn vera reiðubúnir að staðfesta með eiði ef krafist verður, að þær sje gjörðar eptir bestu samvizku og vitund.

Mosfellsheiði

Borgarhólar – kort.

Eptir að leitast hafði verið við að koma á sáttum milli málsparta án þess það lukkaðist, komu þeir sjer saman um, að skjóta málinu á frest uns upplýsingar fengjust viðvíkjandi ummerkjum Árness- og Kjósarsýslu, það er að segja afskriptir af sýslulýsingum og sóknalýsingum sem allar eru hjá deild hins íslenzka bókmenntafjelags í Kaupmannahöfn.
Var þannig málinu frestað. Upplesið staðfest. Rjetturinn hafinn. Þ. Jónasson. Th. Gudmundsen. Páll Melsted. Þ. Guðmundsson. Haldór Jonsson. G. Gíslason. O. Ólafsson. Clausen. Preben Hoskiær. Halldór Melsted.
Aukaréttur Gullbringu- og Kjósarsýslu var haldinn 10. október 1871 í Reykjavík. Var þangað stefnt ýmsum vitnum, sem búsett voru í Mosfellssveit, Seltjarnarneshreppi og Reykjavík. Af þeim mættu Jón Jónsson í Lambhaga, Erlendur Þorsteinsson frá Hlaðgerðarkoti, Ólafur Ólafsson frá Hrólfsskála og Ásta Guðmundsdóttir í Reykjavík, fyrrum húsfreyja í Stardal.

Mosfellsheiði

Litla-Sauðafell – kort.

Vitnisburður eins [Kláusar] var svohljóðandi: Jeg undirskrifadur sem nú er Nálægt 67 ára gamall og hefi Búið hier i Mosfellssveit á 34da ár enn Borinn og barnfæddur í [í, tvítekið] Biskupstungumm í Árnessíslu hefi aldrei heirt annars gietið enn að Sísslumörk milli Árnes- og Kjosarsísslu væru á svokölldum Moldbrekkum Sem Sæluhúsid stendur á á Mosfellsheidi og vil ieg ennfremur gieta þess ad þegar firnemt sæluhús var bigt var jeg feingi enn til ad Flitja vid til uppgierdar þess af Jóni Sál. Stephensen á Korpúlfsstödum sem þá var Hreppstjóri hjer í Mosfellssveit og Sem í Sameiníngu med Kristjáni sál. á Skógarkoti í Þingvallasveit sá umm Biggíngu Hússins og eptir samkomulægie millumm Beggia firnemdra Hreppstjóra eptir ad þejr höfdu leitad þar um álíts Sveita og síslslubúa sinna lietu biggia þettad firnemda Sæluhús á Sísslu mörkumm þar sem Svokalladar Síssluvördur stódu á Svonemdumm Moldbrekkumm og vóru þessar Síssluvördur hafdar til ad biggia úr Sæluhúsið enfremur hef ieg heirt bædi fir og Sjdar ad svokalladar Þrívördur stædu á Næstu hæd firir utann svo nemda VilborgarKjeldu austast á Mosfellsheidi og [hef, yfirstrikað] hef jeg aldrei þekt og þekkje ekkie adrar Þrívördur enn þessar á Mosfellsheidi. Þennann vittnisburd minn gief ieg eptir bestu Þekkíngu og Samvisku hvurn jeg stadfesti med minni Eiginhandar undirskrift Blikastödum 20 November 1871. Kláus Bjarnason. Vidstaddir vottar Olafur Olafsson (á Ejdi) Jón Arnason.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – landamerkjavarða.

Lagðir voru fram ýmsir vitnisburðir um sýslumörk af hálfu verjanda: Ýmsir þeirra vörðuðu fyrst og fremst sýslumörk og eru færðir í þann kafla, þ.e. vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, Narfa Þorsteinssonar, Árna Björnssonar og Guðmundar Jakobssonar.
Björn Bjarnarson gaf eftirfarandi vitnisburð: Eg sem þetta ber: er á sextugs aldri og var á Þyngvöllum í 17 Ár og Heiðarbæ í 14 gef – að: skoðaðri Teiknun og lesnum Vitnisburðum – það sem eg veit nærst sanni. Götuna frá vegamótum, og að syðri þrívörðum lagði Ófeigur Jónsson á Heiðarbæ hana fór eg hana með honum fyrir 42 Árum, sýndi hann mér þá syðri þrívörður, sem hafa síðan staðið – framaní Kláfusi – norðan við götuna á avölum klapparhol sem hann kallaði Helluhól, sem nærst mitt á milli Sæluhúss og syðri Moldbrekkna sem hann sagði sýslumerki- sömuleiðis Þórsteinn Einarsson í Stíflisdal – á þessum moldbrekkum hefir allan þennan 42 Ára tíma staðið Varða og mun ekki langt frá línu þeirri sem dregin er milli Borgarhóla og Rjúpnagils.
Mosfellsheiði
Sýsluvörður á Moldbrekkum eistri, hefi eg aldrey séð, og egi fyrr heirt að Sæluhusið hafi verið biggt úr þeim, heldur á þessum stað: vegna einkennilegrar brúnar góðs grundvallar og vatnslindar sem opt rennur þar undan. Að sunnan vissi eg aldrey slegið austar, en um línu þá sem stefnir á Vífilfell. í Mosfells sókn var eg í 11 ár í fjögra Presta tíð sr. Magnusar Grímssonar sr. Jóhann Knúts – uppalins á Mosfelli sr. Þórðar Árnasonar þessir allir töluðu, um yrkingu Sauðafells flóa – að austan [hér er merkt við með x og neðan máls stendur: það er að skilja héðan]- en eingann klögunar anda fann eg í þeim, en séra Þorkeli fanst ser óþolanlega misboðið með slíkri yrkingu bar hann sem hinir þetta undir mig – sem einhvern þann grann kunnugasta sem kostur væri á en er eg ekk<i> gat rétt dansað eptir hans kröftugu pipu gat hann ekki brúkað mig. séra Þórður sál. sagðist „aungvan staf géta fundið fyrir: að Mosfell ætti land ofar en Bringurnar“ Rjúpnagil þikir mér ógreinilega teiknað og vantar neðri hluta þess ofan í Bugðu, svo efast eg um að stefnan úr Rjúpnagili þaðan sem hún er tekin úr því géti feingist bein um steininn í Húsið. Línan úr því í Borgarhóla er of laung móti þeirri í Steininum sem bendir á Vífilfell því holarnir eru of hallir við. Nesjum 3. September 1873 – Björn Bjarnarson.

Mosfellsheiði

Borgarhólar.

Við skoðun á Fellsendalandi, fól sr Steffan Ólafi heitnum Jónssyni að frammfylgja Skjali því sem frammburður hans og föður hans eru skráðir á, um um stefnuna úr Sæluhusi suðaustan við Borgarhóla, en standandi á: sauðafelli sagði hann – að mér og fleirri mönnum áheirandi: að sú stefna „hefði eingann stað“ og hann „gæfi sig með öllu frá henni“ Sami B.B.
Sækjandi málsins, Þórður Guðmundsson, sýslumaður, sem verið hafði sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sagði í sóknarskjali, 28. ágúst 1873: að í dómi hins konunglega Landsyfirréttar í málinu milli Þingvalla kirkju og Árna bónda Björnssonar á Fellsenda um eignarréttinn að Fellsenda landi, sem dæmt var þar 1859, stendur um þá framlögðu skýrslu Séra Stefans Þorvaldssonar af 5. Júli 1850 „að skýrsla þessi sé af engum reyngd, að hún sýni það að Landamerki Mosfells og Þingvalla kirkna liggi saman á hinu umrædda svæði“ nefnilega: um línu þá, sem dregin er úr Rjúpnagili yfir steininn austast á Sauðafelli í Moldbrekkur, hvar sæluhúsið stendur.
Í framhaldssókn, 3. október 1873, sagði sækjandinn, að bræðurnir Jón Jónsson í Lambhaga og Ólafur Jónsson á Hraðastöðum, fæddir í Laxnesi, hefðu sagt sér við skoðunargerð á sæluhúsinu á Mosfellsheiði árið 1841 að þar við við sæluhúsið næðu Mosfells og Þingvalla kirkna lönd saman, og það sama sagði Hreppstjóri J. B. Stephensen, og að sæluhúsið væri byggt í sýslumorkunum milli Kjósar- og Gullbringusýslu annars vegar, en Árness sýslu hins vegar.

Mosfellsheiði

Steyptur stöpull í Borgarhólum.

Á aðalfundi sýslunefndarinnar í Kjósarsýslu sem haldinn var í Hafnarfirði 28. mars 1912 var lögð fram beiðni prestsins í Mosfellsprestakalli um kaup á ábýlisjörð hans Mosfelli í Mosfellssveit. Hreppsnefndin falaðist einnig eftir kaupum á jörðinni sem hún taldi heppilega til almenningsafnota fyrir hreppinn t.d. sem upprekstrarland. Sýslunefndin taldi óheimilt að selja jörðina án sérstakra laga því hún væri eins og hreppsnefndin hafði tekið fram heppileg til almenningsafnota.
Samkvæmt gerðabók Mosfellshrepps 1908-1925 kom Mosfellsheiðarmál iðulega til umræðu á hrepps- og hreppsnefndarfundum líkt og rakið verður hér á eftir: Á hreppsfundi 10. júní 1911 var samþykkt að ganga að tilboði Mosfellsprests um að hreppsnefndin mætti óátalið láta smala heiðarland Mosfellskirkju þetta ár, en prestur tók jafnframt fram að hann leyfði ekki þar með upprekstur í landið. Á sama fundi var samþykkt áskorun á hreppsnefnd um að leitast við af ítrasta megni að hreppurinn nyti réttar síns viðvíkjandi „afréttarlöndum“ sem hreppurinn kynni að eiga en aðrir nú vildu eigna sér.
Á hreppsnefndarfundi 8. desember s.á. var samþykkt að reyna að fá Bringnaland keypt handa hreppnum sem upprekstrarland og helst allt heiðarlandið sem tilheyrði Mosfelli.
Fimmtánda júní 1912 kom fram á almennum hreppsfundi að spurst hefði verið fyrir um leigu á heiðarlandi Mosfells til upprekstrar. Var það fáanlegt til eins árs með skilyrðum og 75 kr. leigu. Felldi fundurinn tillöguna. Hins vegar leyfði prestur almennar smalamennskur á heiðarlandinu (væntanlega rúningssmalamennskur).

Mosfellsheiði

Landamerkjavarða í Moldarbrekkum.

Kaup á heiðarlandi Mosfells kom til umræðu á hreppsnefndarfundi 4. ágúst 1918 og á fundi 27. desember s.á. var ákveðið að leggja fyrir lögfræðing öll gögn, sem fyrir hendi væru um eignarheimild hreppsins á upprekstrarlandi og landamerki þess lands, og fá álit hans um hvað hægt væri að gera í því efni. Kaup á heiðarlandi Mosfells voru síðan til umræðu á hreppsnefndarfundi 22. júní 1919 og hreppsfundi 20. október 1922.
Í fasteignamatinu 1916-1918 er Mosfelli lýst ásamt Hittu. Þar kemur m.a. fram: Land ekki mikið heima, nægt gripum að sumri, nokkur vetrarbeit. … Kostir: Selland, afrétt og allmiklar slægjur í kirkjulandi á Mosfellsheiði. Í sama fasteignamati er talað um Mosfellskirkjuheiðarland (að frátöldum Bringum) sem sé norðurhluti Mosfellsheiðar. Landið er sagt vera sem „afrétt“ þó ekki sé goldið fyrir og að Mosfellshreppur láti smala það til rétta.
Þann 11. maí 1922 sendi hreppstjórinn í Mosfellshreppi fyrirspurn til Stjórnarráðsins varðandi land sem hin aflagða kirkja á Mosfelli ætti á norðanverðri Mosfellsheiði. Í bréfinu kom fram að tvær jarðir væru á þessu landi; býlið Mosfellsbringur og Mosfellsheiðarland sem stundum væri nýtt til slægna. Samkvæmt jarðabókinni frá 1861 væru þær innifaldar í mati Mosfells en í fasteignabókinni 1921 voru þær metnar hvor í sínu lagi og nú vildi hreppstjórinn vita hver ætti að hafa umsjón með þessum kirkjujörðum þannig að hann gæti áttað sig á því hver ætti að annast merkjagerð þar.

Bringur

(Mosfells-) Bringur 1968.

Fyrirspurnin var send biskupi og sendi hann dóms- og kirkjumálaráðuneytinu svarbréf 30. maí 1922. Þar lýsti biskup þeirri skoðun sinni að þar sem jarðirnar hefðu verið í mati Mosfellsprestseturs, eins og það var metið presti til tekna tveimur árum áður, þá væru þær í umsjón hans og þar með einnig merkjagerðin. Í bréfinu kom líka fram að biskupinn hefði aldrei heyrt [Mosfells]-bringur nefndar kirkjujörð fyrr en nú í bréfi hreppstjórans og ráðuneytisins. Í þeim matsgerðum sem hann hefði undir höndum væru Mosfellsbringur nefndar afbýli frá heimajörðinni. Því hefði það verið metið sem hluti prestsetursins. Að sögn biskupsins var það fasteignabókin nýja sem varð fyrst til þess að gera þetta kot að sjálfstæðri jörð. Hreppstjórinn hafi síðan gert úr því kirkjujörð.
Eftir að ráðuneytinu hafði borist þetta bréf sendi það, þann 10. júlí 1922, hreppstjóranum úrskurð sinn. Hann var á þá leið að kirkjuheiðarlandið á Mosfellsheiði og [Mosfells]-bringur skyldu vera í umsjá sóknarprestsins að Mosfelli sem bæri þar með að annast gerð jarðarmerkja.
Mosfell
Á seinni hluta 3. áratugarins fór hreppsnefnd Mosfellshrepps þess á leit við 2. þingmann Gullbringu- og Kjósarsýslu að hann flytti frumvarp um sölu Mosfellsheiðarlands á Alþingi. Að baki lá brýn nauðsyn hreppsins að fá meira „afréttarland“ til eignar og umráða. Þingmaðurinn samdi frumvarp og leitaði umsagnar Hálfdanar Helgasonar prests og ábúanda Mosfells á því. Hann taldi sig verða fyrir talsverðum tekjumissi yrði það að lögum því að hann hefði, eins og fyrri ábúendur Mosfells, leigt bæði innnan- og utansveitarmönnum nokkuð af heiðarlandinu til slægna og átti hann von á því að þær tekjur myndu aukast í framtíðinni. En þar sem að 2. grein frumvarpsins mælti fyrir um að andvirði sölunnar yrði varið til að rækta upp heimajörðina þá taldi hann sér tekjumissinn bættan og lagði blessun sína yfir frumvarpið.

Mosfellsheiði

Varða á Mosfellsheiði.

Frumvarpið fór næst fyrir allsherjarnefnd sem var mótfallin sölunni því að jörðin væri bæði landlítil til beitar og útheysslægnalaus heima fyrir og því hætt við að salan myndi rýra ábúðarhæfi jarðarinnar. Þrátt fyrir aukna ræktun heimajarðarinnar sem myndi með tíð og tíma auka heyaflann þá myndi jörðina skorta beitiland vegna landleysis. Um afarlangt skeið hefði heyja verið aflað í umræddu landi og að auki væri það aðalbeitiland jarðarinnar. Í heiðarlandinu væri sauðfé Mosfellsbóndans haldið árið um kring og þaðan hefði aðalútheyskap jarðarinnar verið aflað. Er stórbú var á Mosfelli var mikilla heyja aflað þaðan og séu slægnanot enn mikil þó aðrir en ábúandinn færi þau sér til nytja.

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Einnig benti nefndin á að Víðirinn, sem væri aðalgraslendið heima fyrir, hefði verið plægður og væri nú flag eitt. Búið væri að selja hluta af honum og frekari sala fyrirhuguð og því væri graslendi jarðarinnar heima orðið afar lítið. Í heiðarlandinu fengi sauðfénaður sveitarmanna að ganga óáreittur og því lítil ástæða fyrir hreppsnefndina að eignast landið enda hefði henni til skamms tíma ekki þótt það nauðsynlegt og talið sveitina vel komast af án þess. Svo fór þó að lokum að frumvarpið var samþykkt og var það afgreitt frá efri deild Alþingis þann 19. maí 1927.
Þann 31. maí 1927 samþykkti Kristján konungur X. lög um sölu á nokkrum hluta úr kirkjueigninni Mosfellsheiðarlandi. Undanskilið sölunni var svonefnt Jónssel en kaupverðinu skyldi varið til ræktunar heimajarðar prestsetursins Mosfells.

Mosfellsheiði

Á Mosfellsheiði 1836.

Í kjölfar þess að yfirvöld fengu heimild til að selja Mosfellshreppi hluta Mosfellsheiðarlands, nánar tiltekið 30. júlí 1927, skrifaði oddviti hreppsins Stjórnarráðinu bréf þar sem hann hvatti það til þess að nýta sér söluheimildina. Stuttu síðar létu yfirvöld meta landsvæðið og töldu matsmenn það að allmiklu leyti gróðurlítið heiðarland en að nokkru leyti mýrar og valllendisbrekkur. Einnig leituðu þau umsagnar prestsins á Mosfelli um söluna. Í bréfi dagsettu 18. janúar 1928 samþykkti Mosfellsprestur hana með því skilyrði að andvirðið yrði nýtt til að bæta heimajörðina.447 Einnig kom fram í bréfinu að prestur teldi að hjáleigan Mosfellsbringur væri undanþegin sölunni.
Ekkert varð af sölunni að þessu sinni en þann 29. desember 1932 báðu yfirvöld Mosfellsprest á ný um að veita ýmsar upplýsingar vegna hugsanlegrar sölu landsvæðisins. Presturinn sendi svarbréf þann 7. febrúar 1933 þar sem fram kom að hann væri sem fyrr samþykkur sölu landsins, með skilyrðum þó. Í fyrsta lagi vildi hann fá ákveðin hitaveitu- og leiguréttindi. Hann vildi líka fá staðfestingu þess að landið yrði notað sem upprekstrarland. Einnig krafðist hann þess að undanskilið sölunni yrðu Jónssel, Mosfellsbringur og veiðirétturinn í Leirvogsvatni og hluta Leirvogsár.

Mosfellsheiði

Gluggvarða.

Í bréfinu kom einnig fram að presturinn hefði reynt að afla sér gagna um landamerki heiðarlandsins. Þau fara hér á eftir: Landamerkin að norðaustan, austan og sunnan eru þessi, að því er Björn Bjarnarson, hreppsstjóri Mosfellshrepps hefir skýrt mér frá: Stefna úr gljúfrinu í Rjúpnagili í sýslustein austanhalt á há – Sauðafelli. Þaðan úr sýslusteini í sæluhústóftina á Vestri – Moldbrekkum og þaðan úr sæluhústóftinni beina stefnu í vörðu á Stóra – Hnúk á Grímmannsfelli. Ræður sú stefna alt að ánni niður að Hraðastaðamörkum. Að norðan ræður svo Leirvogsá mörkum en að vestan Skeggjastaðir, Jónssel og grasbýlið Mosfellsbringur.
Samkvæmt Mosfellspresti var ágreiningur um landamerki milli Skeggjastaða og heiðarlandsins í svonefndum Neðri-Sogum. Bóndinn í Laxnesi, Einar Björnsson, sem eitt sinn bjó á Skeggjastöðum, hafði sagt prestinum að hann teldi landamerkin að sunnan þessi: Úr skógarvörðu á Skógarbringum í Klofningsstein á Langahrygg í Ríp norðan Leirvogár.

Jónssel

Jónssel.

Í bréfi sem oddviti hreppsnefndar Mosfellshrepps sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þann 1. mars 1954 grennslaðist hann fyrir um afstöðu ráðuneytisins til stofnunar nýbýlis í Mosfellsheiðarlandi. Ráðuneytið sendi hreppsnefnd Mosfellshrepps svarbréf 6. júlí 1954. Þar kom fram að það vilji leyfa, þrátt fyrir ákvæði samnings frá 24. maí 1933 um að heiðarlandið yrði aðeins notað sem beitiland, að þar yrði reist nýbýli í svokölluðum Neðri Sogum. Sú krafa var gerð af hálfu ráðuneytisins að land nýbýlisins yrði aðeins nýtt til ræktunar og því eigi látið fylgja annað land en slíkt nema ef nauðsyn kræfi. Í bréfinu kemur einnig fram að ráðuneytið fallist á lítilsháttar landskipti við jörðina Seljabrekku til hagræðis við setningu landamerkja milli nýbýlisins og Seljabrekku. Þar stendur einnig að ókeypis upprekstur frá Mosfelli og Svanastöðum, sem fjallað sé um í samningnum frá 24. maí 1933, nái, þegar nýbýlið hefur verið stofnað, ekki lengur til lands þess sem býlinu verði úthlutað.

Stardalur

Stardalur.

Hitaveita Reykjavíkur keypti öll jarðhitaréttindi í Mosfellsheiðarlandi Mosfellshrepps með kaupsamningi 12. nóvember 1955. Vísað er þannig til landsins í samningnum: Allt land heiðarinnar, sem hreppurinn hefir öðlast eignarrétt og umráðarétt á.
E.J. Stardal kemur inn á heiti Mosfellsheiðar í grein frá árinu 1985 og segir: Heiti þessa mikla heiðarfláka, Mosfellsheiði, virðist dálítið langsótt, því þetta svæði skiptist milli tveggja sýslna og fjögurra hreppa, en Mosfellið, sem það er kennt við sem heild, er lítið fell á mörkum Kjalarnesshrepps og Mosfellssveitar, alllangt vestan við ystu heiðarsporðana. En sú er orsök þessarar nafngiftar að kirkjujörðin Mosfellsstaður átti á sínum tíma miklar lendur upp af Mosfellsdal sem náðu yfir mikinn hluta heiðarinnar austur að sýslumörkum Kjósarsýslu og Árnessýslu og að hreppamörkum Kjalarness-, Þingvalla- og Grafningshrepps um leið. Um þennan hluta heiðarinnar lágu hinar fornu ferðamannaleiðir milli Faxaflóabyggða að vestanverðu og uppsveita Árnessýslu að austanverðu og þannig hefur nafngiftin orðið til.
Um heyskap á Mosfellsheiði nálægt Sauðafellslæk ræðir E.J. Stardal stuttlega í sömu grein: Heiðin er grösug á þessu svæði, einkum við jaðarinn og víða stórir mýrarflákar með holtum á milli. Sóttu menn heyskap þangað úr Mosfellssveit fyrr meir, jafnvel alla leið úr Reykjavík, þótt langur engjavegur væri.

Mosfellsheiði

Litla-Sauðafell og nágrenni – loftmynd.

Árið 1991 var birt auglýsing um staðfestingu félagsmálaráðuneytisins á samkomulagi um mörk á Mosfellsheiði milli Ölfushrepps og Grafningshrepps annars vegar og Mosfellsbæjar og Miðdals I í Mosfellsbæ hins vegar á grundvelli landamerkjabréfs frá 23. janúar 1991. Mörkum er lýst þannig:
1. gr. Mörk milli Grafningshrepps og Ölfushrepps annars vegar og Mosfellsbæjar og jarðarinnar Miðdals I hins vegar eru bein lína frá Sæluhústótt á Moldbrekkum í steyptan stöpul á Borgarhólum, þaðan bein lína í Sýsluþúfu, þaðan bein lína í Sýslustein austan Lyklafells, og þaðan bein lína í steyptan stöpul hæst á Vífilsfelli.
Undirritaðir aðilar eru sammála um það að ofangreind merki séu rétt túlkun merkja í eldri landamerkjabréfum um þessi mörk.
2. gr. Sveitarfélagamörk Grafningshrepps og Ölfushrepps annar vegar og Mosfellsbæjar hins vegar eru þau sömu og greind eru í 1. gr.

Mosfellsheiði

Borgarhólar – loftmynd.

Fylgdi uppdráttur af mörkunum sem fylgiskjal I, en í fylgiskjali II, sem var yfirlýsing samningsaðila, 23. janúar 1991, segir að mörkin teldust ekki endanlega staðfest fyrr en Kópavogskaupstaður, Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstaður hefðu samþykkt þau eða eins og þar segir: Undirritaðir aðilar … sem undirritað hafa í dag landsmerkjabréf um mörk á Mosfellsheiði frá Sæluhússtótt á Moldbrekkum í norðri í Vífilsfell í suðri lýsa því hér með yfir að mörk í téðu landamerkjabréfi frá Sýslusteini austan Lyklafells í Vífilsfell teljast ekki endanlega staðfest fyrr en þeir aðilar aðrir en Mosfellsbær sem telja sig eiga lögsögu og/eða eiganarrétt að þeim mörkum þ.e. Kópavogskaupstaður, Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstaður hafa fallist á mörk þessi fyrir sitt leyti.
Mosfellsbær telur þau mörk sem um getur í landamerkjabréfinu í heild vera mörk lögsagnarumdæmis bæjarfélagsins, en er kunnugt um að ofangreind sveitarfélög eru ekki sammála þeirri afstöðu, hvað varðar mörk frá Sýslusteini au<s>tan Lyklafells í Vífilsfell.

Mosfellssveit

Mosfellssveit og Mosfellsheiði – mörk (rauð heil lína) 2022.

Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi og borgarstjórinn í Reykjavík féllust á merkin með yfirlýsingu 30. janúar s.á. en mótmæltu lögsögu og/eða eignarrétti Mosfellsbæjar á landi vestan við mörkin. Bæjarstjórinn í Kópavogi féllst einnig á merkin með yfirlýsingu 6. mars s.á. en mótmælti kröfum um lögsögu og/eða eignarrétt Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar svo og lögsögu Seltjarnarneskaupstaðar á landinu vestan við mörkin.“

Heimild:
-https://obyggdanefnd.is/wp-content/uploads/04_2004-2_urskurdur.pdf
-Kort úr Árbók FÍ 2019 um Mosfellsheiði.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði.